3.10.2009 | 19:08
Bragðlaukarnir á heimavelli
Í dag keppti ég í matreiðslu í fyrsta skipti á ævinni.
Keppnin var liður í sýningunni Matur-Inn 2009 sem fer þessa dagana fram í Íþróttahöllinni á Akureyri.
Við vorum fjögur sem fengum öll sama hráefnið og höfðum einn og hálfan klukkutíma til að matreiða úr því fjóra skammta.
Keppinautar mínur voru María Sigurðardóttir, leikhússtjóri, Sigrún Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og Kristján Þór Júlíusson, alþingismaður.
Ég sneiddi niður rófu og gulrætur, lagði þær í smurt form, setti fjórar saltfisksteikur þar ofan á, nuddaði þær með ólífuolíu, pipraði, dreifði lauk og hvítlauk yfir og dassaði allt með hvítvíni. Síðan lét ég þetta krauma góðan hálftíma í ofni undir álhimni.
Með þessu bar ég fram brokkolístöppu, sauð kartöflur og brokkolí, stappaði það saman, setti smjör og rjóma saman við, pipraði og saltaði.
Þetta var ægilega gott en nægði samt ekki til vinnings. Saltfiskurinn hennar Sigrúnar þótti bestur. Hann hlýtur að hafa verið algjört lostæti.
Annars er þessi sýning stórmerkileg og ótrúlega mikið að gerast í gúrmebransanum hér á svæðinu. Ég smakkaði m. a. bláskel, marineraðan hest, kæstan hákarl, sítrónusmjör og ýsubollur.
Ísland er mikið gósenland.
Myndin: Haustið gerir mig svangan.
Athugasemdir
Ég prufa þetta og reyni að vinna mér inn hrós frá heimilisfólkinu.
Sigurður Þórðarson, 3.10.2009 kl. 22:14
Sæll Svavar gaman að þessu. Þú ert fjölhæfur það verð ég að segja. Keppa í matargerð. Saltfisksteikur? Mamma mía. Skemmtilegt að fá svona fréttir í miðju kreppuvælinu. Áfram Akureyri.
Ég elska haustið það gerir mig hamingjusama. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 3.10.2009 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.