16.10.2009 | 23:28
Fljótlegar leynigúrmeuppskriftir
Vegna þess að fólk er í tímaþröng og hefur ekki tíma til að elda réttina sem sýndir eru í matreiðsluþáttunum og uppskriftabókunum koma hér nokkrar tillögur að frumlegu, fljótlegu og meinhollu hnossgæti.
Kaldur lifrarpylsuborgari
Niðursneiddum banana raðað á neðri helming hamborgarabrauðs. Væn sneið af rammíslenskri lifrarpylsu lögð ofaná. Toppað með slummu af SS-sinnepi áður en hamborgaranum er lokað með efri helmingnum af brauðinu.
Sæmundur í kjólfötunum
Mjólkurkexkaka smurð með sméri eða Léttu og laggóðu. Sneið af rúllupylsu smellt ofan á. Þetta smakkast guðdómlega. Hægt að endurtaka eftir þörfum.
Hrognasteikur með perum
Þorskhrogn (mega gjarnan vera niðursoðin) sneidd í þumlungsþykkar steikur og brúnaðar á pönnu. Hálfdós af niðursoðnum perum hellt út á. Hollt og gott. Exótískur réttur. Sumir vilja kalla réttinn Hrognasteikur með perrum.
Danski kúrinn
Slatti af beikoni steiktur á pönnu. Söxuðum eplum bætt saman við. Látið mallast. Síðan er þessu mokað ofan á rúgbrauðssneið á diski. Herlegheitunum skolað niður með túleöli.
Sláturfélagspasta
Tveir hleifar af skyndipasta soðnir. Kryddið ekki notað. Á meðan pastað sýður er einum 1944 skyndirétti, Hangikjöt með uppstúfi, skellt í örrann. Þegar pastað er til er það sett í stóra skál og hangikjötinu blandað saman við ásamt öllu gumsinu.
Verði ykkur að góðu!
Myndin: Fnjóskdælskur lækur fer í vetrarfötin.
Athugasemdir
Plokkfiskur fríðubjarna. Brytjið gulrætur og sellerý, setjið sjá matarolíu í pott. Hitið vel og lækka svo á neðstu stillingu og láti krauma um stund. Setjið þá fisk í kryddraspi ofan á grænmetið og látið malla enn um stund. Blandið fiskinum saman við grænmetið og kominn er ný tegund af plokkfiski. Borða þetta með matskeið af djúpum diski. Uummm. Ef notaður er ókryddaður fiskur. er smá maldonsalti stráð yfir grænmetið.
Ofnbakaður þorskur.
Flaka (nýveiddan) þorsk, skera fiskholdið í bita en láta roðið halda sér. Lagt á roðið á fat og Mexíkóostur sneiddur og raðað ofan á. Sett í heitan ofn og látið bakast þar til osturinn er farinn að bráðna og safinn að leka smá úr fiskinum. Borðað með heitum kartöflun og fersku salati. Mjööög gott
Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.10.2009 kl. 18:02
Ja ekki get ég sagt að þessar uppskriftir freisti bragðlaukanna minna
, 18.10.2009 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.