26.10.2009 | 22:43
Til varnar reiðinni
Það þarf að taka til varna fyrir reiðina. Hún er að renna. Hún er að komast úr tísku enda búið að telja þjóðinni trú um að hún þurfi ekkert að vera reið lengur.
Réttir rassar eru sestir í ráðherrastólana og Eva Joly sér um að meðhöndla krimmana.
Reiðin er að vísu varhugaverð. "Hún er eitt andskotans reiðarslag," segir meistari Jón í sínum fræga Reiðilestri. Ég hef minnt á hann áður og veitir ekki af að gera það aftur en um reiðina segir Jón:
Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru.
Betur verður þetta ekki orðað.
En að þessum varnöglum slegnum fullyrði ég að reiðin geti verið holl og stundum sé hún beinlínis nauðsynleg.
Jón Vídalín minnist á þessa gagnsemi reiðinnar í lestrinum sínum:
Það er og ekki réttvíst aldrei að reiðast. Reiðast eigum vér syndum og glæpum, reiðast eigum vér sjálfum oss nær vér fremjum eitthvað af slíku.
Nú þurfum við að reiðast syndum og glæpum, okkar og annarra.
Við megum ekki trúa því sem stöðugt er haldið að okkur að efnahagslegar ráðstafanir séu forsendur endurreisnarinnar. Lán frá útlöndum eru ekki skilyrði fyrir því að við getum risið upp á ný. Ekki aðild að Evrópusambandinu. Ekki Iceasave.
Forsenda endurreisnarinnar er uppgjör. Hreinsun.
Reiðin þarf að brjótast fram sem umskapandi máttur.
Mér finnst fátt vera að breytast á Íslandi. Við hjökkum í sama farinu. Þeir ríku virðast ætla að halda sínu. Þeir fátæku verða fátækari.
Nokkrir nýir leikarar eru á sviðinu en persónurnar eru þær sömu. Sama gamla leikritið er sýnt í örlítið breyttri sviðsmynd.
McDonalds verður Metro.
Myndin: Þessi gamla brú á sunnanverðri Holtavörðuheiði hefur borið marga byrðina en fær nú að hvíla sig og fylgist með næstu kynslóð vinna verkið.
Athugasemdir
Gamla brúin er á Búrfellsá en hún á upptök í Búrfellsdal, SA í Snjófjöllum. Annars var erindið að þakka fyrir þessar flottu myndir sem fylgja færslunum þínum. Margar sérlega fallegar.
Kveðja,
Haukur Brynjólfsson
Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.