Lof söngnum!

DSC_0246 

Söngurinn er allra meina bót. Sennilega má rekja flest okkar vandamál til þess að við syngjum of lítið.

Söngurinn léttir hin daglegu störf mannsins og gerir lífið bærilegra. Erfiðismennirnir syngja meðan þeir höggva grjótið í svækjuhita. Amma söng alltaf þegar hún vökvaði blómin og hrærði í lummur.

Söngurinn hefur heilsubætandi áhrif. Hann reynir á lungu, hjarta og ýmsa vöðva. Söngurinn er íþrótt.

Söngurinn sameinar okkur umhverfinu og náttúrunni. Söngurinn er ylríkur sunnanblær eða napur norðanvindur. Hann er vellandi lind og straumþungt jökufljót. Hann er mjálmið í kisu, geltið í Snata, dynur hófanna, tíst tittlingsins og ragn nautsins.

Söngurinn er tilfinningasturta. Hann opnar okkur veruleika þess ástfangna, barnsins sem dáist að móður sinni, mannsins sem er hugfanginn af fegurð landsins og smælingjans sem verið er að níðast á. Söngurinn byggir brýr til annars fólks og hjálpar okkur að setja okkur í spor þess.

Þegar við syngjum með öðrum sameinumst við röddum þeirra. Söngurinn er samfélagsmyndandi.

Samt skilur maður eiginlega ekki þetta uppátæki mannskepnunnar þegar hún brast í söng í fyrsta skipti á þróunarbrautinni. Kalt mat segir manni að hún hljóti að hafa haft margt þarfara við tímann gera.

En Guði sé lof fyrir að fleiri möt eru til en þau köldu.

Myndin: Grjótið hefur stundum engu öðru að sinna en að syngja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við Mali erum nú að syngja Glúntana. Hann vil vera magisterinn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.10.2009 kl. 21:50

2 identicon

"Söngur býr í sögu þjóðar

söng á feðratungan skær

söngur hljómar hafið þegar

hamra sker og kletta slær"

Góður pistill Svavar!

Hrefna H jálmarsdóttir (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 23:17

3 Smámynd:

Já svo sannarlega er söngurinn gleðivaki og læknar mörg mein. Var í kirkjukór í dálítinn tíma og leið alltaf undurvel þegar ég kom frá æfingum og athöfnum.

, 28.10.2009 kl. 10:25

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Þetta er frekar músíkalskur pistill verð ég að segja. Það má segja að söngurinn sé líka nokkurs konar jóga. Ég var eins og Dagný í kór og það bjargaði mér í gegnum afar stressandi tímabil. Held bara að ég hefði krassað annars. Fyrsti söngurinn ? Mansöngur, gæti það verið ? kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 28.10.2009 kl. 21:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband