Saumaklúbbar

DSC_0137 

Saumaklúbbar eru mikið rannsóknarefni.

Árum saman var konan mín í saumaklúbb. Þar var nokkuð öflugt starf. Farið í ferðir og árshátíðir haldnar.

Einu sinni var árshátíð saumaklúbbsins í elsta húsi Akureyrar, Laxdalshúsi. Var svo mikið fjör í dansinum að ein klúbbsystirin hrasaði og rak hornið á enninu í hornið á borðinu. Blæddi mikið úr og þótti vissara að kaupa leigubíl undir hana upp á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins. Þar þurftu læknar að taka nokkur spor í enni þessarar konu, sem stuttu áður hafði stigið dansspor á trégólfinu í Laxdalshúsi.

Svona er nú gæfan hverful og gleðin.

Árshátíð saumaklúbbsins í Laxdalshúsi verður líka lengi í minnum höfð vegna þess að þá tókst að stífla klósettið í húsinu með slíkum glæsibrag að klóakkerfi Innbæjarins varð óstarfhæft um tíma. Sum heimilin urðu að ganga niður í fjöru til að sinna brýnum erindum. Nutu Innbæingar þá góðs af nálægðinni við hafið enda er Fjaran annað heiti á bæjarhlutanum.

Lengi höfðum við makar kvennanna í saumaklúbbnum með okkur félagsskap sem við kölluðum smíðaklúbb.

Nú er konan í bókaklúbbi. Munurinn á honum og saumaklúbbnum er sá að í bókaklúbbnum er lesið en ég veit ekki til þess að saumað hafi verið í saumaklúbbnum - ef frá eru talin þessi örfáu saumspor sem læknarnir á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins tóku í enni dansglöðu klúbbysturinnar á árshátíðinni forðum.

Ég enda þessar frumspekilegu saumaklúbbspælingar með ljóði sem ég orti og birtist í ljóðabókinni Norðaustan ljóðátt fyrir tuttugu árum. Það heitir Saumaklúbbur.

 

Rauðar varir,

rauðar varir kvenna.

 

Þrungnar og þvældar

af fumkenndri túlkun ómarkvissrar

ástar.

 

Rauðar varir smeygjast

yfir gullnar brúnir kaffibolla,

 

opinbera

hið tignarlega látleysi,

 

sjúga þýðingarmikla reyki

úr vindlum

fullveðja karla.

 

Rauðar varir skrafa

 

en skáldið lemur hold sitt hrísi

blóðrisa fyrir framan beina.

 

Myndin er úr Hvalfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hmmm? Var manneskjan með horn á enninu??  Hún skyldi þó ekki haft klaufir líka?  Mér finnst ansi vafasamur félagskapur í kringum þig síra minn.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2009 kl. 05:53

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sækjast sér um líkir, Jón minn Steinar.

Svavar Alfreð Jónsson, 29.10.2009 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband