2.11.2009 | 16:32
Réttlætið kemur þeim ekki við
Hér eru skattar hækkaðir, laun lækkuð, hér hækka lán, verð á nauðsynjum og þjónustu fer upp úr öllu valdi og fólk er hneppt í skuldafangelsi út lífið. Skuldum óreiðumanna er skellt á bök alþýðunnar. Eignir fólks brenna upp.
En ekki kemur til greina að lækka lán almennings. Síðast í dag heyrði ég einn ráðherranna segja þetta á Alþingi.
Samt er í raun verið að tala um að leiðrétta skuldir. Laga þær að veruleikanum eftir að kerfið hrundi. En sanngirni hefur aldrei verið hátt skrifuð af íslenskum ráðamönnum.
Það er ekkert svigrúm fyrir réttlætið þegar almúginn á í hlut.
Á sama tíma berast fregnir af tugmilljarða afskriftum á skuldum auðmanna.
Og þegar hinir háu herrar voru spurðir að því á Alþingi í dag ypptu þeir bara öxlum og sögðu að þeim kæmi þetta ekki við.
Því miður er þetta sennilega rétt hjá hinum háu herrum. Íslenskir ráðamenn hættu fyrir löngu að skipta sér af réttlætinu.
En þjóðin er þreytt á lygum og leynimakki og hana þyrstir í réttlætið.
Hún mun grípa til aðgerða.
Eigi sögurnar um afskriftir við rök að styðjast mun ég ekki una því að minn viðskiptabanki gangi fram með þeim hætti.
Myndin: Mánaskin á Eyjafirði.
Athugasemdir
Þetta er nákvæmlega sannleikurinn. Ranglætið blívur meðan engin hugarfarsbreyting á sér stað hjá stjórnmálamönnum. Enn ríkir réttur hinna fáu sterku til að troða á hinum mörgu smáu.
Sigurður Sveinsson, 3.11.2009 kl. 06:08
Hvort á að skerða hlut Baugsfeðga eða rétta hlut almennings? Eigum við að halla okkur að gamla sáttmálanum um auga fyrir auga? Ekki munu allir ríða feitum hesti frá þessu hruni, þó margir, sem enn eru í álnum, geri sér vonir um smjörklípu.
Mestu skiptir að finna þá, sem eru þurfandi og niðurlægðir og rétta þeim hjálparhönd. Það eru ekki allir þeir, sem hæst láta um þessar mundir.
Sennilega heyrist minnst í þeim, sem búa við kröppustu kjörin. Er það gömul saga og ný.
Sigurbjörn Sveinsson, 3.11.2009 kl. 09:44
Þetta er óskiljanlegt fyrir heiðarlegt fólk. Hvað vita auðmennirnir og bankastjórarnir um íslenska stjórnmálamenn sem er svo "viðkvæmt" að þeir geta haldið sínu þrátt fyrir hunduð milljarða gjaldþrot, undanskot eigna, barnalán osfr. Hægri stjórn Geirs Haarde var slæm en við vissum hvar við hefðum hana. Vinstri stjórn Jóhönnu siglir í skjóli réttlætis og jöfnuðar en eins og þú segir ypptir öxlum þegar milljarðarnir eru afskrifaðir af auðmönnunum.
Sigurgeir Sigmundsson (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 10:18
"You asked for it" verður sagt við íslenska ráðamenn þegar upp úr síður. Það styttist óðum í það.
Arinbjörn Kúld, 3.11.2009 kl. 12:30
Eins og ávalt tekur "Heilbrigð skynsemi" undir allt það sem Sigurður Sveinsson segir hér að ofan...!
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 3.11.2009 kl. 12:48
falleg mynd.snaran er hert að hálsi almennings,meðan ófjárráða börn elítunnar fær afskriftir af lánum sem þau fengu fyrir "mistök"
zappa (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 12:52
Þó "fréttir" berist er ekki þar með sagt að þær séu sannar.
Matthías Ásgeirsson, 3.11.2009 kl. 14:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.