4.11.2009 | 14:08
Ólesnu bækurnar
Ég er að lesa bók um það hvernig eigi að ræða um bækur sem maður hefur ekki lesið (Wie man ueber Buecher spricht, die man nicht gelesen hat - ISBN 978-3-7632-5903-8) eftir franska bókmenntafræðinginn Pierre Bayard.
Þar er sú iðja að láta ólesið varin með kjafti og klóm auk þess sem lestrarslúbertum er kennt hvernig þeir eigi að verða viðræðuhæfir í samkvæmum með bókmenntaelítunni.
Höfundurinn veltir fyrir sér hvenær maður hafi í raun lesið bók og hvenær ekki.
Þeir sem á annað borð lesa gera meira en að lesa. Hver lestur er ekki bara neysla á lestáknum. Lestur er alltaf skrif um leið. Lesendur eru jafnframt semjendur. Þeir túlka það sem þeir lesa og vinna lesefnið í hinum miklu hakkavélum heilanna og huganna.
Þessar bloggfærslur mínar eru auðvitað aldrei nema mín hlið á málunum. Þær birta fyrirbærin eins og ég er að upplifa þau.
Og lesendur mínir upplifa þessar upplifanir mínar með sínum hætti. Jafnvel þótt þeir lesi gaumgæfilega sjá þeir hlutina aldrei nákvæmlega eins og ég sé þá.
Mjög sennilega hef ég aldrei sagt nema brot af því sem fólk les á þessari síðu.
Fólk semur sjálft drjúgan hluta þess sem hér stendur.
Kannski eru mestu skáldin lesendurnir?
Samt stend ég við það sem ég skrifa hér nema mér snúist hugur.
Myndin: Látraströndin lesin úr Hrísatjörninni.
Athugasemdir
Godann daginn Svavar.
Fyrirgefdu, en eg skil ekki, lesin úr Hrísatjörninni.
Hvadan er myndin tekin, hvar stodstu ?
Bestu kvedjur
Islendingur (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 15:20
...og einmitt þess vegna er bókinn betri en myndinn
Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 15:51
Íslendingur, ég stóð við norðurenda tjarnarinnar og beindi vélinni í norðaustur. Fjöllin á Látraströndinni speglast í tjörninni og ég les þau þar eins og stafi á pappír.
Einmitt, Steini! Bækur sem maður hefur ekki lesið eru nánast undantekningarlaust betri en myndir sem maður hefur ekki séð.
Svavar Alfreð Jónsson, 4.11.2009 kl. 18:04
Fyrirgefðu, Íslendingur, ég stóð við suðurenda tjarnarinnar
Svavar Alfreð Jónsson, 4.11.2009 kl. 18:05
Það er ekki hægt að segja annað Svavar um færslurnar þínar síðustu. Þær eru virkilega góðar, alveg skínandi andskoti góðar.
Guðmundur Pálsson, 4.11.2009 kl. 21:02
Skemmtilegur siður hjá þér að setja inn mynd með hverri færslu. Þessi mynd mundi ég telja að teldist í sérflokki. Gífurlega falleg.
Anna, 5.11.2009 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.