6.11.2009 | 09:16
Borgaraleg ferming
Ég fagna því að aðstandendur borgaralegrar fermingar ætli að efla starf sitt hérna fyrir norðan.
Undanfarin ár hafa nokkur ungmenni að norðan látið ferma sig borgaralega en nú skilst mér að bæði verði boðið upp á fræðslu og athafnir heima í héraði.
Ástæður þess að ég fagna þessu eru eftirfarandi:
Þau ungmenni sem einhverra hluta vegna hafa ekki viljað kirkjulega fermingu hafa ekki haft um annað að velja nema sitja heima. Nú er valkostur til staðar og enn skýrari en áður. Krakkarnir þurfa ekki að upplifa sig utangarðs.
Ég veit að fræðslan sem ungmennin fá í borgaralegri fermingu er vönduð. Við í kirkjunni gætum margt af henni lært. Ég held að börn á þessum viðkvæma aldri hafi mikla þörf fyrir góða leiðsögn og þvert á það sem margir halda eru krakkar á fermingaraldri oft miklir pælarar.
Nú er ekki lengur hægt að segja með jafn miklum þunga og áður að börnin sem kjósa að fermast kirkjulega geri það bara út af gjöfunum. Þau hafa alla vega þennan borgaralega valkost.
Og síðast en ekki síst:
Við eigum að taka öllum þeim fagnandi sem reyna að hafa uppbyggileg og holl áhrif á æsku þessa lands. Nógu eru niðurrifsöflin sterk og ágeng.
Svo er um að gera að uppörva þau ungmenni sem þessa dagana eru að sækja fermingarfræðsluna, hvort sem hún er borgaraleg eða kirkjuleg.
Ég hvet foreldrana til að sýna fermingarstarfinu áhuga.
Að lokum minni ég á að næsta þriðjudag ætla fermingarbörn úr kirkjum landsins að ganga í hús og safna peningum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.
Takið vel á móti krökkunum!
Myndin er af runna í skjóli nætur.
Athugasemdir
Sæll Svavar. Það er góður og sannkristinn andi sem kemur fram í þessari hugvekju þinni. Barnabarn mitt eitt er fermt og það var borgaraleg ferming. Mér skilst á honum að það hafi verið afar upplýsandi vinna í gangi um helstu trúmál og siðferði sem þau byggja á öll meira og minna í sínum boðskap og bara siðferði almennt. Ég mun sannarlega taka vel á móti þeim sem eru að safna fyrir Hjálparstarf kirkjunnar því mér finnst að kirkjan ein ætti að hafa hjálparstarfið innanlands með höndum. kveðja Kolla.
P.s. Ég er alveg orðin húkt á þessum fallegu myndum þínum.
Kolbrún Stefánsdóttir, 6.11.2009 kl. 17:08
Sæll Svafar minn. Nú mælir þú viturlega, hófstiltur að vanda.
Mikið assgoti eru myndirnar þínar fallegar.
Bestu kveðjur.
Jónas á Lundarbrekku
Jónas Sigurðarson (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 17:57
Er ekki fyrir öllu að brýna góða siði fyrir börnum en sleppa "Guðsóttanum" , Þar skilur á mili kirkjunnar og annarra lífstefnufélaga að mínu viti.
Þar liggur líka þversögnin í boðun krists. Hann boðar fyrirgefninguna , umburðarlyndið og náungakærleikann í aðraröndina en innleiddi helvítisógnina og heimsendaköltin á hina. Pús einn og mínus einn vega hvort annað upp og út kemur núll. Það er paradoxinni í boðun kirkjunnar.
Vissulega gera flestir prestar sér gerin fyrir þessu og eru farnir að dauðhreinsa tilvitnanir sínar í bókina í stólræðum. Sleppa grimmd og forneskju, sem óhjákvæmilega fyldir með í sumum ritningargreinum, eins og Hjalti Rúnar benti réttilega á í grein um daginn. Þið megið raunar vera þakklátir fyrir það aðhald sem efasemdarmennirnir veita ykkur.
Almennt hafa trúaðir ekki lesið Biblíuna, en trú því sem þeir vilja trúa og stundum á skjön við dogmað í heild sinni. Það sem fólk tileinkar sér úr þessu kemst raunar fyrir á A4 blaði. Gullna reglan, seinni tíma viðbótin um bersyndugu konuna og hinnu interpóleraða 1. kor.13.
Það bréfkorn hefði ég annars gaman að ræða við ykkur við tækifæri og þykir það augljóslega koma úr öðrum jarðvegi en restin af NT og reyndar alveg útúr kú frá Páli að vera. Dularfullur grískur frumspekitexti, sem þú gætir kannski tekið fyrir í næstu stólræðu. T.d. þetta með skuggsjánna, að láta af barnaskapnum og um þekkinguna sem er í molum.
Vonandi ná menn sátt um þessi efni og vonandi lætur kirkjan af barnaskapnum og kemur inn í samtímann. Þú réttir allavega út hönd í þeirri viðleitni hér.
Fyrir það áttu virðingu skilda.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2009 kl. 10:59
Hjal mitt um mínus einn og plús einn er svona viðleitni til að segja það undir rós að sétillit tekið til þversagnannaí boðun bókarinnar í heild, þá kansellerar hún sig út og verður ómarktæk. Best að segja það eins og er. Í því liggur tilvistarkreppa kirkjunnar.
Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2009 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.