11.11.2009 | 09:08
Aumingja frjálshyggjan
Fréttablaðið er mest lesna dagblað á Íslandi enda fá flest heimili landsins það án þess að þurfa að taka upp greiðslukortið eða einu sinni að biðja um blaðið.
Vinstri menn á Íslandi hafa gert Fréttablaðið að sérstökum skjólstæðingi sínum.
Það er ekki nema von því Fréttablaðið var einn helsti boðberi útrásarinnar og græðgisvæðingar samfélagsins.
Á sínum tíma beitti það sér fyrir ýmsum þjóðþrifamálum eins og til dæmis vali á auðmanni ársins.
Og nú hefur Fréttablaðið komist að þeirri niðurstöðu að helsta fórnarlamb kreppunnar sé hvorki eigna- og atvinnulaus almenningur né gjaldþrota fyrirtæki.
Frjálshyggjan er fórnarlambið - eins og leiðari Fréttablaðsins í gær var látinn heita.
Þar er því harðneitað að frjálshyggjan hafi verið "meginvandi Íslands undanfarin ár".
Nei. Hún er fórnarlamb.
Aumingja frjálshyggjan.
Ég fæ ekki betur séð en Davíð Odddsson hafi stórskemmt frjálshyggjuna fyrir Fréttablaðinu.
Er manninum ekkert heilagt?
Ekki er ég mikill frjálshyggjumaður en er það ekki ein kenning frjálshyggjumanna að þeir borgi þjónustuna sem nota hana?
Ekki borga ég fyrir þjónustu Fréttablaðsins frekar er aðrir lesendur þess.
Þó kostar hún sitt. Pappírinn í blaðið, prentunin, dreifingin og blaðamennskan.
Aðrir reiða fram stórfé til þess að ég og aðrir landsmenn geti lesið Fréttablaðið.
Í tilfelli Fréttablaðsins njóta þeir þjónustunnar sem greiða fyrir hana:
Eigendurnir.
Myndina tók ég uppi á Vatnsskarði 20. október síðastliðinn.
Athugasemdir
Þú talar einsog kommi. Mega eigendur ekki græða á fjárfestingu sinni?. Hvejirr á Moggan og tapa svo á öllu saman? Lesendur?
Gísli Ingvarsson, 11.11.2009 kl. 10:39
Heill og sæll Svavar,
það eru orðin mörg og löng ár síðan við gengum menntaveginn saman. Hvað um það. Ég hnaut um þetta blogg þitt eða réttara sagt fyrirsögnina. Satt best að segja er ég eilítið ráðvilltur. Er ekki viss hvert þú ert að fara með þessum skrifum þínum - það skal tekið fram að ég hef ekki lesið umræddan leiðara Fréttablaðsins en get þó tekið að einhverju leyti undir þá skoðun að frjálshyggjan hafi fengið óverðskuldað umtal í kjölfar hrunsins - hvort sem það var nú boðskapurinn með leiðaraskrifunum eða eitthvað annað.
Eins og gefur að skilja er ég ekki þess umkominn að skýra fyrir þér inntak frjálshyggjunnar, á stundum í erfiðleikum með það með sjálfum mér, en má ekki ljóst vera að frelsisandi, viljinn til þess að ráðskast með eigið líf en ekki annara; að aðrir hafi ekki vit fyrir manni, búi í öllum mönnum, mismikið þó?
Gamall sósíalisti sagði eitt sinn við mig að frjálshyggjan væri loftið sem við önduðum að okkur. Að vísu gleymdi hann að setja félagshyggjuna í jafn auðskildan búning en í mínum huga eru stjórnmálaviðhorf okkar einhvers konar blanda af hvoru tveggja. Þó svo að ég aðhyllist frjálshyggju í þeim búningi sem hún var sett fram af ýmsum hugsuðum átjándu og nítjándu aldar þá geri ég mér jafnframt grein fyrir að án félagshyggju væri mannskepnunni ýmis hætta búin. Því hafa ýmsir ágætir, hugsandi menn viljað segja sem svo að frelsi þrífst ekki án ábyrgðar - en um það mætti hafa langt mál.
Nú telja "andstæðingar" frjálshyggjunar sig geta endurskrifað innihald og sögu þess frelsisanda sem umlykur samfélög vesturlanda, m.a. með tilvísun í misvitra stjórnmálamenn. Sömu einstaklinga sem urðu fórnarlömb þess valds sem spillir og þeirra áhrifa sem þeir lögðu upp með að uppræta.
Sumir, jafnvel all margir, benda oft á þau voðaverk sem unnin hafi verið í nafni trúarinnar, horfa til valdabrölts kirkjunnar valdamanna á öldum áður og hrópa hátt og snjallt að trúin sé ill. En er trúin ill, þó svo að ýmsir boðberar hennar hafi misnotað hana sér til framdráttar? Vitanlega ekki, svo fremi sem hún eigi sér líf í frjálsu samfélagi manna. Það er og verður forsenda þess að góður boðskapur geti gott af sér leitt, tel ég.
Boðberar stjórnmálaviðhorfa, sem kenna sig við félagshyggju, stunda nú sama leik gagnvart frjálshyggjunni. Þeir allra róttækustu hafa reyndar stundað það lengi að hefta framgang trúarbragða auk þess að standa í vegi fyrir frelsisandanum. Það er vonandi að vel innrættir og hugsandi menn snúi þessari baráttu við og minni á nauðsyn frjálshyggjunnar í lífi okkar allra, jafnframt að minna menn á þá ábyrgð sem í frelsinu felst.
Hver veit, Svavar, nema frjálshyggjan eigi betur við þig en þig grunar ... ?
Gangi þér allt í haginn,
Ólafur Als
Ólafur Als, 11.11.2009 kl. 23:08
Þú misskilur hvaða þjónustu Fréttablaðið veitir. Það er ekki að koma fréttum til almennings heldur að koma auglýsingum til þeirra. Fréttirnar eru bara tól til þess. Það eru auglýsendurnir sem njóta þjónustu Fréttablaðsins.
Óli Gneisti Sóleyjarson (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 00:45
Kirkjan sem stofnun og ríkið.. við. Hverjir njóta... hverjir borga? Það er spurning, sem þú hefurkannski velt fyrir þér? Kv.
Bergur Thorberg, 12.11.2009 kl. 07:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.