Mauraþúfa spillingarinnar

 DSC_0410

 Nýlega sá ég haft eftir Evu Joly að hún teldi kunningjasamfélagið á Íslandi eiga stóran þátt í hruninu. "Of margir lykilmenn hafi þekkst vel," var sagt í fréttinni.

En ekki er nóg með að Ísland sé lítið.

Hér er nánast allri stjórnsýslu hrúgað á sama blettinn á landinu. Fjölmiðlar landsins eru á sama skikanum. Sama máli gegnir um helstu stórfyrirtæki landsins. Og flestar æðri menntastofnanir.

Ísland er enn meira örríki en það lítur út fyrir að vera.

Engu er líkara en að mönnum hafi ekki þótt landið nógu fáránlega lítið og ástæða hafi þótt til að minnka það enn frekar.

Þetta sést í öllum tengslunum milli áhrifafólks sem stundum er fjallað um í fjölmiðlum.

Og þá á ég við ættartengsl en ekki krosseignatengslin með allri þeirri bölvun sem þeim fylgir.

Að ég tali nú ekki um önnur tengsl sem myndast í þeirri mauraþúfu iðandi spillingar sem 101 Reykjavík er:

Rannsóknarblaðamennina sem sofa hjá viðfangsefnum sínum, dómarana sem drekka með sakborningum og þingmennina sem spila golf með stórlöxunum.

Á nýju Íslandi þarf að dreifa lykilfólki og lykilstofnunum til að minnka hættur hinnar þrúgandi nándar.

Með slíkri áeggjan er við hæfi að hafa mynd af höfuðstað Norðurlands í blessaðri haustfegurðinni.

Og minna á flotta staði eins og Borgarnes, Stykkishólm, Ísafjörð, Sauðárkrók, Húsavík, Egilsstaði og Selfoss.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Aldrei hef ég skilið að fólk skuli búa á Akureyri. Þar ætti bara að vera veðurathuganastöð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.11.2009 kl. 15:08

2 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Alveg rétt, það er engin spilling úti á landi

Matthías Ásgeirsson, 12.11.2009 kl. 16:26

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sigurður: Af hverjum erum við með veðurathuganir í Reykjavík? Er ekki alltaf sama rokið og rigningin þar?

Matthías: Það eru alla vega minni völd úti á landi. Og spillingin þrífst í valdinu eins og dæmin sanna.

Svavar Alfreð Jónsson, 12.11.2009 kl. 17:47

4 Smámynd: Árni Matthíasson

Góður: "mauraþúfu iðandi spillingar sem 101 Reykjavík er"(!)

Árni Matthíasson , 12.11.2009 kl. 18:26

5 Smámynd: SeeingRed

Verst að þetta er raunar lítið skárri hjá öðrum þjóðum, spillingin grasserar hvert sem litið er í heiminum, misvel falin. Kunningjasamfélagið hér í fámenninu gerir þetta enn erfiðara við að eiga en hjá stórþjóðum. Og allir héldu að á Fróni væri svo heiðarlegt fólki sem sæti við kjötkatlana ( og situr ) og spilling væri hverfandi...varla mælanleg, annað hefur síðan heldur betur komið í ljós og líklega aðeins toppurinn á ísjakanum kominn í ljós...ef hann kemur þá nokkurtíman til með að sjást allur. Þá er áhyggjuefni að margt bendir til þess að rotinn nái víðar en í banka og fjármálakerfi Íslands og heimsins og svo stjórmálamanna í vasa auðmanna, spilling, baktjaldamakk, arðrán, taumlaus græðgi og siðblinda er engan vegin einskorðuð við fjármálaheiminn, sá roti teygir sig um allt, kannski ekki síst inn í lyfðaiðnaðinn og  hergagnaiðnaðinn t.d. , í miðju þessa köngulóarvefjar sitja aljóðlegar bankafjölskyldur sem sópa til sín meiri auð og völdum með hverri kreppu og hverju stríði og að maður tali ekki um styrjaldir, hverri umgangspest og hverjum þeim krankleika sem hægt er að hagnast á, öld eftir öld er mannkynið leiksoppar siðblinds fólks og hver ný kynslóð jafn bláeygð fyrir geggjuninni sem boðið er upp á boði heimselítunnar, auðmenn og auðhringir og stjórnmálamenn í einni kös, þetta er síðan sama fólkið sem þykist síðan ætla að leiða og til nýrra og bjartari tíma, laga rotið kerfið og hætta að arðræna og blekkja....einmitt.

SeeingRed, 13.11.2009 kl. 00:54

6 Smámynd: SeeingRed

Biðst forláts á alltof mörgum ásláttarvillum og orðum sem vantar, þarf greinilega að fara að gera það að reglu að lesa yfir áður en ég stekk á enter takkann. Flýta sér hægt eins og maðurinn sagði.

Georg Pétur

SeeingRed, 13.11.2009 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband