20.11.2009 | 13:57
Alibörn
Þegar dýr eru alin upp til ákveðinna nytja er talað um að þau séu ali. Alifuglar. Alidýr. Alisvín.
Í Morgunblaðinu í dag er mjög merkileg fréttaskýring undir fyrirsögninni Börn gerðir lífstíðarneytendur.
Þar er fjallað um áhrif auglýsinga á börn. Þau áhrif eru mun víðtækari en talið hefur verið.
Markaðsöflin vilja ná til ungra barna með vörumerki sín til að tryggja sér kúnna fyrir lífstíð.
En það nægir þeim ekki.
Börnunum eru innrætt ákveðin viðhorf til lífsins og gildismat til að tryggja að þau verði hagfelldir viðskiptavinir. Markvisst er þeim talin trú um að "hamingjan felist í hlutum" eins og segir í fréttaskýringunni.
Gildismati heillar kynslóðar er breytt.
Börnin eru alin upp til nytja fyrir markaðinn.
Þau eru alibörn.
Á sama tíma og það er af mörgum illa séð að innræta börnunum virðingu fyrir sjálfum sér, náunganum og því heilaga hafa markaðsöflin óáreitt fengið að ala börnin okkar upp í sálarlausri efnishyggju.
Við eigum að taka upp kennslu í fjölmiðlanotkun í skólum landsins. Þar á meðal annars að kenna börnum hvernig auglýsingar vinna til að efla varnir barnanna gegn þeim.
Auk þess á þar að sýna börnunum hvernig þau geti mætt neysluveröldinni á gagnrýnan hátt.
Við þurfum að sameinast um að rækta í börnunum gildi byggð á mannhelgi, virðingu og hófsemi.
Myndin: Vetrarkvöld í Strandgötunni á Akureyri.
Athugasemdir
Bíddu nú hægur.. ég veit ekki betur en að þjóðkirkjan sé duglegust við þessi svokölluðu "alibörn", þau eru vart komin í heiminn þegar þjóðkirkjan byrjar... svo tekur við svona alidæmi.. og svo inn í fermingu sem byggist algerlega á neyslu og neysli og aftur neyslu.
Horfa í spegil.. ok
DoctorE (IP-tala skráð) 20.11.2009 kl. 14:46
Gott orð - alibörn. Ég man þegar við fengum sjónvarp inn á heimilið 1969 (ég var 9 ára) þá horfði fullorðna fólkið á fréttir en við krakkarnir máttum horfa á auglýsingarnar áður en við fórum að sofa. Það var talið saklausara en að horfa á fréttir. Enn þann dag í dag man ég margar af auglýsingunum - sérstaklega ef þær voru skemmtilegar eða mjög hallærislegar. Hvort þær hafa haft áhrif á vöruval mitt í gegn um tíðina veit ég ekki en ég efast ekki eitt augnablik um að auglýsingar stjórna allt of miklu í lífi nútímabarna. Það fann ég þegar ég varð sjálf uppalandi. Leikföng, fatnaður og ýmislegt annað sem auglýst er leiðir af sér sníkjur og/eða leið börn og margir foreldrar, sem og afar, ömmur, frænkur, frændur og vinir láta undan þrýstingi barnanna (auglýsinganna) og kaupa mest auglýsta dótið handa sínum ungum. Besti áróðurspésinn sem kom inn um lúguna okkar var Leikbæjarblaðið þar sem stóð svart á hvítu hvað væri nauðsynlegt fyrir öll börn að eiga til að þau væru hamingjusöm. Nú hefur Toys'rUs blaðið tekið við. Er dugleg að láta það hverfa áður en mínar 5 ára ná því
, 20.11.2009 kl. 18:05
Það er eins og Doctor Hook sé alltaf í fúlu skapi...
Virðing og hófsemi eru gildi sem við þurfum öll að skerpa á tek svo sannarlega undir það.
Brattur, 21.11.2009 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.