22.11.2009 | 09:56
Illskan er ekki merkt
Stundum heyrist viðkvæðið að aldrei eigi að taka dæmi af Þýskalandi nasismans. Það sem gerst hafi í Þriðja ríkinu hafi verið nánast einstakt. Hliðstæður séu vandfundnar ef nokkrar.
Hitler hafi verið svo voðalega vondur að aðrir eins menn hafi ekki verið uppi né verði. Illska hans hafi verið augljós.
Þeir sem taka dæmi af nasismanum eru gjarnan sakaðir um rökvilluna reductio ad Hitlerum og sagt að þeir sem slíkt gera dæmi sig úr umræðunni.
Ég er ekki sammála því. Ég tel að það sem gerðist á tímum nasismans hafi gerst áður og geti hæglega gerst aftur.
Vissulega getur verið til marks um rökþrot þegar gripið er til þess ráðs að stimpla alla þá sem eru ósammála manni nasista og hitlera. En það þýðir ekki að aldrei megi benda á það sem gerðist á þessum ógnartímum.
Þvert á móti megum við aldrei gleyma því.
Illskan er ekki svona augljós og auðþekkjanleg eins og margir virðast halda.
Hitler var ekki alltaf það illmenni sem hann er núna í vitund okkar. Á árunum fyrir stríð naut hann mikillar aðdáunar heima fyrir og erlendis. Á fyrstu fjórum árum valdaferils síns gerði hann stórkostlegar endurbætur á þýska velferðarkerfinu. Hann lagði grunninn að hraðbrautakerfi landsins, gerði átak í að losa miðborgir við bílaumferð og mengun og fjölgaði grænum svæðum í borgunum.
Sagt hefur verið að ef Hitler hefði dáið árið 1937 væri hans minnst sem stórmennis í Þýskalandi og jafnvel víðar.
Bandaríska skáldkonan Gertrude Stein taldi að Hitler ætti að fá friðarverðlaun Nóbels. George Bernard Shaw varði Hitler með kjafti og klóm. Áhrifafólk vítt og breitt um heiminn dáðist að þessum leiðtoga Þýskalands áður en illska hans afhjúpaðist.
Illskan er nefnilega sjaldnast augljós. Hún er ekki með áberandi límmiða á sér þar sem stendur: Varúð! Illska!
Og illmennin eru heldur ekki þannig. Þau eru ekki merkt sem slík. Þau eru ekki öll með svart skegg neðan við nefið.
Kraftar illskunnar eru alltaf að verki og jafnvel besta fólk getur ánetjast þeim.
Við þurfum alltaf að varast illskuna. Hún getur læðst að okkur í hinum ótrúlegustu gervum.
Saga mannsins sýnir að ógnarríki mannvonskunnar er aldrei þessi fjarlægi möguleiki sem margir segja það vera.
Myndin er af húnvetnsku gæðafjalli.
Athugasemdir
Það var hugmyndafræðin, ídean um yfirburði aríska kynstofninn og slavneskar þjóðir og sérstaklega gyðinga sem undirmálsfólk, sem skapaði illskuna. Í þriggja binda verki sínu um Þriðja ríkið sýnir Richard Evans fram á það að illskan að þessu leyti gegnsýrði allt þýska samfélagið, há sem lága, kirkjuna, herinn, menntamenn, háa sem lága, en alls ekki bara hugmyndasmíði nasistaflokksins. Þessar hugmyndir voru ekki einu sinni að öllu leyti komnar frá nasistum heldur voru býsna algengar á vesturlöndum. Þessum hugmyndum var hugmyndin um að útrýma bæri veiku fólki og sú hugmynd var hreinlega ríkjandi víða í vestrænum menningarheimi, ekki síst hjá læknastéttinni. þetta getur allt gerst aftur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2009 kl. 17:45
Í baksýnisspeglinum virkar allt svo skýrt en á þeim tíma sem hlutirnir eru að gerast eru þeir ekki alltaf svo augljósir. Við sjáum bara það sem menn segja um Hrunið - allir sáu það fyrir en enginn kom í veg fyrir það. Sama gildir um alla menn og málefni - við skulum því aldrei útiloka að hlutir geti gerst sem engan órar fyrir - mannskepnan er nefnilega söm við sig.
, 22.11.2009 kl. 19:39
Sæll Svavar. Ekki er ég nú lesin í fræðum um Hitler og heimstyrjöldina síðari en eitt hlýtur öllum að vera ljóst að Hitler er einn mesti leiðtogi sem uppi hefur verið. Það að geta stýrt svo stórum hópi af fólki til svo illra verka sem vitað er að viðgengust í hans valdatíð er stórmerkilegt. Undir það síðasta hefur það kannski verið óttinn við illskuna sem stýrði en í upphafinu trúði fólk á hann eins og ,,,, já nýtt net getum við sagt . Það hefur væntanlega verið bjargföst trú síðan að annað eins gæti ekki endurtekið sig og því utan við allt að nota þetta tímabil sem rök og vonandi er það rétt. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 22.11.2009 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.