24.11.2009 | 10:20
Næsta Icesave undirbúið
Í morgunútvarpinu á Rás 2 talaði Einar Már um retórík, hvernig við tölum og hvaða orð við notum.
Hann birti prýðilega ádrepu í Mogganum í dag. Þar gagnrýnir hann Icesave-samningana. Hann vill ekki að við játum á okkur glæp sem við frömdum ekki.
En hverjir eru þessi við?
Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn, álitsgjafar, fjömiðlar og bloggarar talað um ábyrgð okkar. Við þurfum að axla ábyrgð. Við þurfum að endurheimta traust.
Það er til nokkuð sem heitir samfélagsleg ábyrgð.
Þjóðir bera ábyrgð á gjörðum sínum.
Við berum ábyrgð á þessu samfélagi. Við berum ábyrgð á þeim gildum sem hér ráða. Við berum ábyrgð á þeirri stefnu sem þjóðfélagið tekur.
Ef auðhringar komast hér til valda berum við okkar ábyrgð á því. Ef græðgin fær að ráða nánast öllu í þessu samfélagi getum við ekki firrt okkur ábyrgð á því. Ef bankar og helstu þjónustufyrirtæki landsins komast í eigu götustráka er það líka á okkar ábyrgð. Ef hér ríkir stefna þar sem græðginni er gefinn laus taumurinn er við okkur, kjósendur, að sakast. Ef fjölmiðlar komast í eigu auðmanna er það m. a. okkur að kenna. Ef forseti landsins er eins og útspýtt hundskinn úti um allan heim að verja óverjandi viðskiptahætti hlýtur það m. a. að vera ábyrgð þeirra sem hann kusu, nefnilega okkar.
Samfélagsleg ábyrgð er ekki fyrst og fremst lögfræðilegt hugtak. Það snýst um siðferði þjóðar. Andlega heilsu hennar.
Þjóðin verður að horfast í augu við sekt sína og skömm sína. Annars læknast hún ekki. Annars nær hún ekki heilsu á ný. Annars munum við ganga inn í framtíðina í skugga lyginnar.
En því miður finnst mér margt benda til þess að íslensk þjóð hafi ekki djörfung til að axla ábyrgð sína.
Stjórnvöld, álitsgjafar og síðast en ekki síst fjármálaelítan í veröldinni ætlar að sleppa raunverulegu uppgjöri og raunverulegri hreinsun.
Farið er í smiðju kaþólsku kirkjunnar og rifjuð upp aðferð sem þar var einu sinni notuð.
Aflátsbréf eru boðin til sölu.
"Borgið Icesave og þið eruð laus allra mála!"
Á sama tíma og þjóðinni er þröngvað til að kaupa sér hreina samvisku með ísklafaaflátum sest sama fólkið í gömlu sætin við kjötkatlana.
Auðmennirnir sitja að sínu. Gömlu andlitin birtast á skermunum. Gömlu frasarnir heyrast.
Bankamennirnir sem voru á ofurlaunum hjá bönkunum og settu þá á hausinn krefjast ofurskaðabóta úr rjúkandi þrotabúunum.
Og stjórnvöld kalla þannig menn til liðs við sig í endurreisnarstarfinu.
Svo sannarlega er rétt að kenna það starf við endurreisn, eins og Einar Már bendir á.
Hér er nefnilega ekki verið að búa til nýtt og betra samfélag.
Verið er endurreisa það gamla.
Það sést m. a. á hjálparkokkunum.
Um leið og þjóðinni er gert að borga Icesave-ævintýri fjármálaelítunnar eru lögð drög að því næsta.
Quo vadis? hlýtur að vera viðeigandi titill á þessari mynd af sunnlenskum hesti í þungum þönkum.
Athugasemdir
Já sæll. Kannski erum það bara við, óbreyttir, sem berum ábyrgð á þessu öllu saman. Þá verður bara gaman að svelta barnabörnin í framtíðinni til að borga brúsann. Ég ætla að þráast við og vera áfram í afneitun því ég hef aldrei kosið þá sem þú telur upp. Hvorki núverandi stjórnvöld eða núverandi forseta. Ég gerði mér meira að segja ferð á kjörstað til að mótmæla með atkvæði mínu þegar forsetinn lagðist gegn lögum um dreifða eignaraðild fjölmiðla. Ekki tilheyrði ég yfirstéttum í fjármálageiranum sem voru á stjarnfræðilegum launum og ákvæðum í samningum uppá hundruð milljóna. Ekki ráðlagði ég neinum að kaupa í DeCode eða öðrum fyrirtækjum. Heldurðu að ég þurfi samt að fá aflátsbréf upp á kaþólska mátann ? Svarið má vera án ábyrgðar Svavar minn kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 24.11.2009 kl. 21:46
Aflátsbréf eru aldrei góður kostur, Kolla mín, eins og þú veist.
Svavar Alfreð Jónsson, 24.11.2009 kl. 21:52
Blessaður æfinlega. Mér finnst blasa við að við, þjóðin, erum ábyrg og verðum að borga. Ef við snúum þessu við, við hefðum lagt inn peniga í Breska og Hollenska banka og þeir hefðu ekki getað staðið skil á fénu, hvað þá, værum við bara glöð og kát með það, almenningur í þessum löndum ætti ekki að borga okkur og svo framvegis? Ég er nú aldeilis viss um að gáfumennirnir Íslendingar mundu verða aldeilis hreint vitlausir.
Fyrir svo utan það að ég tel augljóst að þessir Icesave peningar eru hér, í Tónlistarhúsi, Menningarhúsum, óseldum blokkum, tilbúnum götum . Jamm í víðri veröld er varla til vitlausara fólk en við.
Jónas Sigurðarson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.