27.11.2009 | 09:31
Þeir klína smjörinu sem kunna
Höfundur þessa bloggs er einn þeirra sérvitringa sem telur að upplýsingagjöf til almennings eigi ekki að vera á höndum fárra auðmanna.
Ísland þarf að eiga öfluga almenningsfjölmiðla. Opinberir aðilar mega gjarnan styðja við einkarekna miðla því upplýsingagjöf og þjóðfélagsleg umræða er í almannaþágu en ekki eingöngu markaðsmál.
Og ég er eindregið þeirrar skoðunar að best sé að sem flestir eigi fjölmiðlana og að það geti verið stórhættulegt ef meirihluti fjölmiðla í einu landi sé í eigu sömu mannanna.
Þar er ég sama sinnis og flestir vinstri og frjálslyndir menn í veröldinni - nema á Íslandi.
Þess vegna er það mín skoðun að betra hefði verið að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið svonefnda (sem reyndar fólst í breytingu á þágildandi útvarpslögum) en hafa engar takmarkanir á eignarhaldi.
En fjölmiðlafrumvarpið var víst til komið vegna óvildar eins manns á öðrum eins og fjölmiðlarnir hafa sagt okkur allar götur síðan það kom fram.
Fjölmiðlarnir sögðu okkur líka að Baugsmálið svonefnda hefði átt sömu orsakir. Tilteknum manni var illa við menn.
Þegar Baugur fór svo á hausinn nýlega var það líka þessum tiltekna manni að kenna, kom fram í fjölmiðlum.
Að undanförnu hafa fjölmiðlar flutt okkur fréttir af stórfelldum afskriftum á skuldum tiltekinna fyrirtækja.
Almenningi er misboðið því honum stendur ekkert slíkt til boða.
En auðvitað er ekki nema einn tiltekinn maður á bak við andstöðu almennings eins og fram kemur í greinarkorni í Fréttablaðinu í dag.
Paranojan er víða og smjörklístrið hefur fram að þessu dugað vel á þjóðina.
Ég á til dæmis von á því að þessi skrif verði afgreidd með því að höfundurinn sé blindur aðdáandi tiltekins manns, hvers nafn er betur ónefnt.
Myndin er af Hrísatjörn, tekin í átt til Dalvíkur.
Athugasemdir
Thakka godan pistil og einnig thakka eg thessa agaetu og fallegu mynd.
Bestu kvedjur
Islendingur (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.