Kisi nautnabelgur

DSCN3745

Að afloknum kvöldverði í gær gaf heimiliskötturinn til kynna að hann þyrfti að skjótast út að sinna brýnum erindum.

Var honum umsvifalaust hlýtt af sauðtryggum húsbóndanum.

Allt var þetta samkvæmt venju.

Hann er vanur að skila sér aftur inn um kjallaraglugga um tíu leytið. Þá er honum gefið nýrunnið vatn í skál sem er á sínum vissa stað í baðkarinu.

Heimilisfólk er löngu hætt að baðast um þetta leyti sólarhringsins vegna þessarar áráttu kattarins að vilja endilega drekka í baðkarinu.

Í gærkvöldi þróuðust mál þannig að kötturinn lét ekki sjá sig. Þó stóðu allir kjallaragluggar galopnir og gustaði hressilega inn um þá.

Satt best að segja er kjallarinn varla íbúðarhæfur vegna kulda og rakaskemmdir eru farnar að sjást þar á útveggjum vegna þessarar áráttu kattarins að nota kjallaragluggana sem útidyr.

Í nótt vaknaði ég nokkrum sinnum til að huga að kettinum. Það var ískalt í kjallaranum og þar gnauðuðu íshafsvindar inn um galopna gluggana.

En kötturinn lét ekki sjá sig þótt þvotturinn væri frosinn á snúrunum.

Það var þrúgandi andrúmsloft við morgunverðarborðið. Enginn þorði að segja upphátt það sem allir hugsuðu:

Blessuð sé minning hans.

Samt ók ég um hverfið seinna um morguninn og skyggndist inn í garðana í veikri von ef ske kynni að ég sæi hann.

Hann var ekki kominn um hádegið og þá kulnaði eiginlega hinsti vonarneistinn. Kisi er gamall og gigtveikur. Það er óhugsandi að hann lifi af svona langa útiveru í þessum kulda.

Í huganum byrjaði ég að skipuleggja útförina.

Um þrjúleytið var hringt í mig.

Kisi var að skila sér inn um opinn glugga í kjallaranum.

Hann lét það verða sitt fyrsta verk að bryðja restina af fóðrinu úr dallinum sínum og lagðist síðan til svefns við ofn uppi á efstu hæð.

Grátbólgna fjölskylduna virti hann varla viðlits.

Það var stæk gróðurhúsalykt af kisa.

Og ekki langt frá okkur er gróðurhús með rauðum hitaperum.

Við höfum kisa grunaðan um að hafa brotist þangað inn og lagst þannig að hitalýsingin hafi vermt á honum vömbina.

Að sjálfsögðu var týnda syninum fagnað. Ég slátraði lamsbógi og bauð upp á ís með marssósu. Við kvöldverðarborðið var fátt annað rætt en næturævintýri heimiliskattarins. Niðurstaða þeirra umræðna er þessi:

Fari kisi að leggja þessar sólbaðsferðir í vana verður að gefa honum sólgleraugu í jólagjöf og gott aftersönnkrem.

Myndin: Smári, kisinn okkar, í vambarvermingu undir stofuofninum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mali er umsvifalaust búinn að taka þennan sólarsjarmör sér fil fyrirmyndar og er að heimta sólgelraugu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.11.2009 kl. 20:56

2 Smámynd:

Kettir eru hin mestu ólíkindatól  Ég fóstraði ellefu ára gamlan kött dóttur minnar í fyrravetur og hann harðneitaði að koma inn í húsið þar til hún tók hann aftur í sumar. Þá lét hann aftur eins og hann hefði aldrei verið annað en heimakær inniköttur

, 28.11.2009 kl. 22:47

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hvað er ræktað í þessu gróðurhúsi ef ég má spyrja. Er það kannski grænar plöntur með oddhvössum blöðum sem löggunni þykir sérlega gaman að klippa. Er kisi kominn í "grasið"

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.11.2009 kl. 23:42

4 Smámynd: Kama Sutra

Krúttlegur kisi þarna á myndinni.

Kama Sutra, 29.11.2009 kl. 02:43

5 identicon

Mér sýnist hann vera hálf skakkur þarna undir ofninum.

Var mikið líf í lambsbóginum áður en þú slátraðir honum?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 09:27

6 Smámynd: Finnur Bárðarson

Falleg aðventusaga sem lyftir lund

Finnur Bárðarson, 29.11.2009 kl. 11:44

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvað veist þú um "grænar plöntur með oddhvössum blöðum" Hólmfríður? Meira en lítið grunsamleg þekking.

Árni Gunnarsson, 29.11.2009 kl. 15:22

8 identicon

Hi hi og ég sem fer ekki að hafa áhyggjur fyrr en eftir tvo sólarhringa hvað varðar mín kattaróféti :) Þetta eru dásamleg furðudýr sem oss hlotnast heiður að deila heimili með (eða það er að minnsta kosti tilfinningin sem maður fær af því að umgangast þau).

Hildur Inga Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 00:20

9 identicon

Það er svo makalaust gaman af svona frásögnum. Við skötuhjúin eigum 2 ketti og einn hund sem semur ákaflega vel. Mér finnst að það ætti að hafa nokkra ketti í Akureyrarkirkju, það myndi lífga svo upp á starfið þar. Tildæmis í forspilinu hjá Eyþóri, þá myndi kisi hoppa upp á nóturnar með tilheyrandi hljóðum úr orgelinu, og þegar þú predikar, þá væri flott ef einn kisi sæti á bríkinni á predikunarstólnum og þú klappaðir honum.

Kristinn Ingi Pétursson (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband