30.11.2009 | 18:30
Beint lýðræði
Mér líst vel á hugmyndir um meira af þessu milliliðalausa lýðræði, að borgararnir fái sjálfir að taka ákvarðanir um málin.
Ég er reyndar ekkert viss um að það þýði að réttu eða bestu verði alltaf teknar.
Stundum er þjóðin æstur múgur sem tekur kolvitlausar ákvarðanir.
En það er þá hún sem hefur tekið hina kolvitlausu ákvörðun.
Það er miklu betra að gera vitleysuna sjálfur en að láta einhvern gera hana fyrir mann.
Til að minnka hættuna á að þjóðin taki vitlausar ákvarðanir þarf hún að vera vel upplýst.
Upplýst þjóð er vel menntuð og býr við góða fjölmiðla.
Hún þarf líka að koma sér upp góðri umræðumenningu.
Við Íslendingar þurfum að búa betur að fjölmiðlum okkar og þá þarf að reka af faglegum metnaði.
Við þurfum að vanda okkur betur við menntun þjóðarinnar. Meðal annars að ala upp mynduga fjölmiðlaneytendur.
Og við þurfum að bæta þessa skelfilegu umræðumenningu sem hér tíðkast.
Annars höfum við lítið við þetta beina lýðræði að gera.
Myndin: Það er orðið jólalegt uppi í Naustaborgum.
Athugasemdir
Er ekki kominn tími til að stjórnmálamenn hlusti á kjósendur sína allan ársins hring en ekki bara á kjördegi og svo þegar þeir mynda þrýstihóp um opinber útgjöld í eigin þágu? Vandinn er bara sá að fjölmiðlarnir eru veikasti hlekkurinn í þjóðmálaumræðunni, latir og makráðir og hirða ekki um að setja sig inn í mál og upplýsa almenning svo vel sé.
Gústaf Níelsson, 30.11.2009 kl. 21:09
Við þurfum sannarlega að efla milliliðalaust lýðræði. Stjórnlagaþingi þarf að hraða og aftengja afskipti pólitíkusanna af því algerlega. Og þú talar um aukna menntun. Þar nægir ekki sú menntun sem mæld er í lærdómsmánuðum og prófgráðum. Og Gústaf hefur lög að mæla hvað fjölmiðlana varðar. Kannski ætti að endurskoða lögin um Ríkisútvarpið í því samhengi.
Árni Gunnarsson, 30.11.2009 kl. 22:59
Tek undir með þér Svavar með umræðumenninguna. Hún hefur sett verulega niður nú um stundir og þar vil ég kenna nafnleysi nokkuð um. Það er einhvern vegin hægt að leyfa sér meira án nafns. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að skrifa án nafns og því er hægt að skamma mig sem persónu en sem eitthvað óþekkt fyrirbæri.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.12.2009 kl. 01:46
Munurinn á ÍNN, Omega og þér Gústi þegar þú varst á Sögu annars vegar og hinsvegar á RÚV er að þið voruð ekki alltaf að þykjast vera hlutlausir.
Um daginnn fékk ég tryggingaráðgjafa með skjalatösku í heimsókn og hann byrjaðai á að kynna sig með formálanum að hann væri heiðarlagur og hlutlaus. Sjálfsagt vænsti maður en ég keypti ekkert af honum.
Sigurður Þórðarson, 1.12.2009 kl. 06:09
Akkúrat þessi skortur á lýðræði hefur verið ástæða þess að ég hef verið mótfallinn sameiningu sveitarfélaga nánast frá upphafi þeirrar umræðu, fyrst og fremst vegna þess að verið er að færa völdin lengra og lengra frá fólkinu. Það sama er í gangi innan ESB, fæstir gera sér grein fyrir hversu mikil völd hafa verið færð frá almenningi í Evrópusambandinu inn í einhverja óræða stofnun sem enginn virðist vita hver stjórnar í raun. Kosningar til ESB þingsins fara nánast algjörlega framhjá almenningi og enginn virðist hafa heyrt minnst á Evrópuþingmenn síns lands.
Gulli (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 08:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.