1.12.2009 | 21:17
Góða landið mitt
Í dag, á fullveldisdeginum, hitti ég fermingarbörnin, framtíð landsins.
Við sátum í rökkrinu uppi í kirkju og vorum að spá í söguna af því þegar djöfullinn freistaði Jesú með því að sýna honum öll ríki heims og bjóða honum þau ef hann tilbæði sig.
Við töluðum um að ef til vill hefðum við Íslendingar ætlað að eignast heiminn og það hefði verið ein orsök hrunsins.
Og við fórum að tala um hvernig þetta hrun hefði eiginlega verið.
Ég sagði krökkunum frá því að vinur minn hefði skömmu eftir hrun fengið bréf frá bláfátæku vinafólki í Afríku þar sem það bauð að senda honum pakkamat.
Það fannst þeim fyndið.
Stelpa í hópnum sagði að hennar fjölskylda hefði fengið fyrirspurn frá ættingjum í Ameríku um hvort þau ættu ennþá þak yfir höfuðið.
Úti um allan heim er fólk að deyja úr hungri. Sums staðar er fólk ofsótt fyrir trú sína og skoðanir.
Ég sagði þeim að Ísland væri þrátt fyrir allt gott land.
"Er það?" spurði eitt barnanna.
Mér fannst eins og það væri að velta því fyrir sér hvort því væri óhætt að trúa því að það ætti heima í góðu landi.
"Svo sannarlega," svaraði ég.
Við eigum heima í frábæru landi og yndislega fallegu. Við erum heppin að eiga þetta land og við verðum að fara vel með það og öll þess gæði.
Við erum öfundsverð þjóð.
En ef til vill er allt fjölmiðlavælið að draga allan mátt úr æskunni og kæfa trú hennar á framtíðina?
Í kvöld heyrði ég þennan fallega sálm fluttan í Kastljósinu af þeim indælissystkinum Ellenu og KK. Þetta er einn af mínum uppáhaldssálmum. Hann heitir Faðir andanna og er eftir sr. Matthías. Við syngjum þennan sálm alltaf á kirkjudegi Akureyrarkirkju. Í mínum huga er þetta sálmur kirkjunnar.
Lokaversið er bæn fyrir þjóðinni sem á vel við núna:
Faðir ljósanna,
lífsins rósanna,
lýstu landinu kalda.
Vertu oss fáum,
fátækum, smáum
líkn í lífsstríði alda.
Þið getið hlustað á sálminn með því að klikka á tengilinn hérna fyrir neðan.
Myndin er tekin í Krossanesborgum, út blessaðan Eyjafjörðinn, sem maður elskar aldrei nógu heitt.
Faðir andanna í flutningi Ellenar og KK.
Athugasemdir
Sæll Svavar. Þú ert með viðkvæmt efni hérna. Fyrst vil ég segja að bæði lag og texti þessa sálms er afar hugljúft efni og snertir mann í hvert sinn sem maður syngur hann eða heyrir svona flottan flutning sem þú vísar til. Ég er sammála því að við erum rík þjóð af landgæðum og erum öfundsverð á margan hátt en ég hef áhyggjur af því að unglingarnir, sem eru á viðkvæmum aldri, missi trú á landi og þjóð. Það er erfitt að hugsa til þess ef þeim líður illa og þau fyllast kvíða. Nú verður maður að stóla á ykkur prestana og kennara þessa lands til að leggja foreldrum lið í að styrkja börnin. Bestu kveðjur Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 1.12.2009 kl. 21:58
Og ekki gleyma foreldrunum Kolbrún - þeirra ábyrgð er mest. Þegar fréttatímar eru fullir af stríði og hörmungum af hverju slökkvum við þá ekki á útvarpinu og sjónvarpinu? Á Íslandi vill það brenna við að foreldrarnir setji sjálfa sig og sínar þarfir og langanir í forsæti og því upplifa mörg börn í gegn um fjölmiðla hluti sem þau hafa ekkert að gera með að upplifa. Ég held að nær væri að lesa saman bók, spila spil eða föndra með börnunum sínum í stað þess tíma sem fer í að fylgjast með fréttum eða glápa á ofbeldi á skjánum. Það má kíkja á fréttavefina þegar börnin eru farin að sofa ef maður er hræddur um að missa af einhverju.
, 2.12.2009 kl. 14:09
Við eigum að horfast í augu við heiminn eins og hann er. Það er ekki það versta að börnin fái nasasjón var honum. Mörg börn eru jafnvel misnotuð inni á heimilinum - og það kemur ekki endilega fram í fréttum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.12.2009 kl. 16:45
Sæl Dagný, nei nei ég gleymi ekki foreldrunum enda sagði ég " til að leggja foreldrunum lið". Það er alveg rétt hjá þér að það er ólán með fréttaflutning og neikvæðar fréttir í sjónvarpinu, seint og snemma. Reyndar hygg ég að margir séu farnir að venja sig af fréttaglápi og kíki frekar í blöð eða á vefi netmiðlanna. Öll þurfum við að taka höndum saman um þetta verkefni sem er æska landsins og ekki síst við ömmurnar. Besta kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 2.12.2009 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.