Jesús óboðinn

DSC_0599 

Í meira en hálfrar aldar gamalli prédikun veltir sr. Sigurbjörn heitinn Einarsson fyrir sér hvernig færi ef Jesús birtist á Íslandi.

Við höfum gott af því að hugleiða það með sr. Sigurbirni:

Hvað myndi gerast, ef Jesús kæmi fram hér á Íslandi nú? Nútímamaður, Íslendingur, sprottinn úr vorum eigin jarðvegi, sem væri Jesús frá Nasaret að gerð og framkomu?

Fæddur af fátækri móður, heitinn venjulegu, íslenzku nafni, alinn upp við almúgastörf. Þrítugur að aldri eða þar um bil færi hann að tala og starfa á þann veg, sem engum manni er mögulegt. Fyrst í einhverjum smáþorpum úti á landi. Sögur færu að berast út, sagðar með undrun, hneykslun, aðdáun, spotti, gleði, gremju. Orð hans bærust frá manni til manns, auðskilin og einföld og þó svo fjarstæð, tímabær, eins og hann vissi allt, hvert minnsta málefni dagsins, hverja persónulega spurningu, og þó svo annarleg, eins og af öðru landi, já, öðrum heimi.

Hann kæmi hingað til höfuðstaðarins, nokkrir fiskimenn í fylgd hans, auk þeirra fjöldi alls kyns fólks, margt hvað með vafasama fortíð, fáir eða engir málsmetandi menn.

Hann gengur hér um götur og torg og enginn kæmist undan honum. Allt í einu á Hótel Borg og jazzinn þagnar, glasið stöðvast á miðri leið að vörunum - hann horfir svo djúpt, allt opið fyrir augum hans, bert og nakið inn úr. Allt í einu í miðri þrönginni í bankanum. Hann spyr einskis, en veit allt og vafasami seðillinn eða blaðið fer að svíða greipina, verður bruni, verður logandi brennimark inn úr, sem getur aldrei horfið, nema augu hans slokkni eða höndin afmái það. Einn daginn inni á Landsspítalam annan í Alþingishúsinu, daglega í Dómkirkjunni. Allt í einu óboðinn inni hjá mér, inni hjá þér. Læknaðir sjúklingar, sýknaðir syndarar, afhjúpaðir embættismenn og höfðingjar.

Hvað myndi kirkjan gera, heilbrigðisstjórnin, þingið, lögreglan? Hvað myndum vér yfirleitt gera við hann, góðir borgarar þessa bæjar, þessa lands? Myndum vér kannast við hann, myndi hann kannast við oss?

(Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð, Reykjavík 1956, bls. 11 - 13)

Myndin: Köngull kúrir í hreiðri sígrænna nála.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hann yrði tekinn fastur og sendur með fyrstu flugvél til fangabúða í Grikklandi. Það eru engin not fyrir útlenska smiði núna í miðri kreppunni, gyðingahatur er landlægt og almennt trúleysi á allt. Jesús ætti ekki sjans á Íslandi, ekki einu sinni sem söngvari í Fílí eða sem Landverndunargúrú. Kannski gæti hann unnið á veitingastað í vanda. Fiskar og brauð-trikkið er alltaf öflugt.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 3.12.2009 kl. 09:58

2 Smámynd:

Hann yrði stimplaður sem sérlundaður trúarofstækismaður og aðeins örfáir leitandi og samfélagslega afvegaleiddir og einmana einstaklingar myndu fylgja honum. Skammast mín nú soldið en það er ekki líklegt að ég yrði upprifin og fylgispök við mann sem kæmi fram á þennan veg í dag. Ég er alltaf tortryggin gagnvart spámönnum, enda mikið af þeim frá hinum ýmsu trúar - og félagssamtökum á ferðinni. Myndi ekki treysta því að þetta væri sá eini rétti.

, 3.12.2009 kl. 10:45

3 identicon

1.Hverskonar kraftaverk þyrfti hann að geta gert svo að æðstu menn kirkjunnar tryðu því að hann væri sá sem hann væri?

2.Myndi almenningur vilja hitta þannig mann; sem gæti gert ktaftaverk?

3.Hvar væri mest þörf fyrir annan KRIST?

*Inni á þingi, inni í Hallgrímskirkju eða hvar?

*Fengi hann að taka til máls þó hann væri ekki opinber embættismaður?

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 17:59

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Maður sem kæmi og boðaði það sem dyggð að lúta yfirvaldi, foratta sjálfan sig og aðra hið sama, taka yfirgangi með auðmýkt, elska óvini sína og bjóða mönnum að brjóta frekar á sér ef þeir verða fyrir óréttlæti og telja fátækt og fáfræð til dyggða, yrði tæpast vel þokkaður. Tala nú ekki um mann sem segðist ekki koma með friði heldur sverði og heimtaði að fólk hataði sína nánustu ef það ætti að vera honum þóknanlegt. Ekki skal svo gleyma hótunum hans um helvítiselda handan grafar og dauða ef menn tækju ekki mark á honum og honum einum.

Líklega yrði hann settur inn og á yfirskammt af lithyum. 

Hann væri jafn kolbrjálaður í eigin persónu eins og vitnisburðurinn er um hann í bókinni. Einhver mesti brjálæðingur sögunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2009 kl. 18:51

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki má svo gleyma að ef hann birtist aftur, þá myndi vera kominn heimsendir ef marka má brokkgengan spádóm hans, auk þess sem öllum Gyðingum, sem ekki gerðu hann að herra sínum yrði útrýmt.

Félegur fjandi það.

Annars má sjá að hér lítur hver sínum augum silfrið.  Að mæra hann er hin mesta fyrra og öfugumæli að mínu mati. Fólk myndi sjá það ef það drattaðist til að rýna svolítið í skrudduna.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2009 kl. 18:55

6 Smámynd: Birgirsm

Þetta er þörf hugsun.

Væri ég tilbúinn til þess að taka hann inn á heimilið mitt ? Væri ekki ýmislegt sem ég þyrfti að fjarlægja ?   og margur slæmur óvaninn hjá mér sem ég myndi reyna að breiða yfir og dylja ? 

Gæti ég kinnroðalaust labbað með honum um eignir mínar, sem kostuðu sitt, eignir sem þjóna engum tilgangi nema þeim eina, að sefa mína eigin ágirnd ?  Ég efast ekki um að ég færi að naga á mér handabökin fyrir hugsanaleysið og þjófstartið í lífsgæða-kapphlaupinu sem snýst um það eitt að.... FÁ SEM MEST......og EIGNAST SEM MEST.

Takk kærlega fyrir góðan pistil

Birgirsm, 3.12.2009 kl. 22:31

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég er því miður ekkert viss um að það yrði tekið vel á móti Jesú allstaðar en hvernig svo sem því er varið, verð ég að segja þó heiðinn sé, að það er mjög geðug nálgun við kristindóminn að spyrja hvernig Jesú brygðist við.

Þetta er eitthvað sem fólk mætti hugleiða hvort sem það kallar sig kristið eða ekki. 

Sigurður Þórðarson, 3.12.2009 kl. 23:57

8 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Það hafa margir Jesús komið fram síðustu tvö hundruð aldir.  Einn þeirra starfsar t.d. í Indlandi í dag og framkvæmir mörg "kraftaverk" á dag.  Annar er í formi konu á Íslandi sem rekur majoneverksmiðju.

Þó margir falli fyrir slíku virðast flestir einfaldlega ekki ginkeyptir fyrir ódýrum kraftaverkum á 21. öldinni :-)

Matthías Ásgeirsson, 4.12.2009 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband