Flaðrandi varðhundar

DSC_0323 

Í gær heyrði ég orðaskipti Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á Alþingi.

Þeir töluðu um fjölmiðla og höfðu báðir áhyggjur af þeim.

Athyglisvert þótti mér að heyra það álit fjármálaráðherra að fjölmiðlar ættu sinn hlut í því ástandi sem hér hefur skapast. Að sögn Steingríms mærðu þeir útrásina. Ég tek undir það. Fjölmiðlar hömpuðu auðmönnum, að vísu mismikið. Þögn ríkti að mestu um þá sem gagnrýndu herlegheitin og vöruðu okkur við að illa gæti farið.

Ég tek líka undir það með Steingrími að fjölmiðlar þurfi að vera uppbyggilegir. Ekki veitir af að glæða trú fólksins í landinu á framtíðina. Tala þarf kjark í þjóðina. Ótal góðir hlutir eru að gerast í þessu landi.

Ég þekki það sjálfur hversu erfitt getur verið að koma góðum fréttum á framfæri. Þær slæmu seljast betur. Hneysklisfréttirnar best og þá gildir einu hvort þær eru sannar eða lognar.

Um leið minni ég samt á það sem Egill Helgason og aðrir reynsluboltar hafa sagt: Fjölmiðlar eru alltaf í stjórnarandstöðu. Þeir eru gagnrýnir á valdið. Þeir eru málsvarar fólksins gagnvart valdinu.

Þótt Egill Helgason virðist reyndar ekki lengur vera þeirrar skoðunar að hann eigi að veita stjórnvöldum aðhald held ég að það sé engu að síður mjög mikilvægt hlutverk fjölmiðla.

Það má reyndar vel vera að fjölmiðlar hafi á undanförnum árum verið þokkalega gagnrýnir á valdsmennina. Þeir sáu það bara ekki nógu vel að hina raunverulegu valdsmenn var hvorki að finna í ráðuneytunum né á Alþingi.

Þeir sem raunverulega réðu hér ríkjum sátu í bönkunum eða í einkaþotunum sínum.

Og áttu fjölmiðlana.

Hin mikla sök þeirra sem áttu að gæta hagsmuna fólksins í landinu var sú að láta það valdarán viðgangast.

Fjölmiðlar eiga að vera uppbyggilegir. En þeir eiga líka að ástunda miskunnarlausa gagnrýni. Þeir eiga að vera geltandi og glefsandi hundar.

Það er sorglegt þegar varðhundarnir taka upp á því að flaðra upp um þjófana.

Myndina tók ég í haust í Kjarnaskógi. Kjörlendi drauga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Svavar Alfreð.

Ég er þér innilega sammála að fjölmiðlar eiga að vera uppbyggilegir og með sanna gagnrýni. Við lifum erfiða tíma núna, sem þó geta verið reynsluheimur eða gott veganesti til framtíðar.

vestarr Lúðvíksson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 14:18

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Undir þessa gagnrýni get ég tekið með þér Svarvar Alfreð. Það er skelfilegt að fjölmiðlarnir skuli vera veikasti hlekkur þjóðmálaumræðunnar, en við hverju er að búast? Hvers konar fyrirtæki töldu auðmenn sig þurfa að eiga? Banka, tryggingafélag og fjölmiðla. Vill einhver giska hvers vegna?

Gústaf Níelsson, 4.12.2009 kl. 18:03

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Falleg er myndin, Svavar!

Og auðvelt að taka undir með Gústaf og Vestari.

Jón Valur Jensson, 5.12.2009 kl. 04:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband