12.12.2009 | 11:48
Skemmdarverk á lýðræðinu
Aðstandendur undirskriftasöfnunar á netinu, þar sem forseti Íslands er hvattur til að vísa Icesave-frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu, telja að verið sé að vinna skemmdarverk á söfnuninni.
Skemmdarverkin eru þannig unnin að menn falsa einstakar undirskriftir í söfnuninni. Þannig tekst að gera hana ótrúverðuga.
Aðstandendur fullyrða að þessi sum skemmdarverkanna megi rekja til Fréttablaðsins, Ríkisútvarpsins og Stjórnarráðsins eins og sjá má hér.
Þetta sýnir að bæta þarf framkvæmd netsafnana til að gera þær trúverðugri.
Og ef það er satt að í opinberum stofnunum og fjölmiðlum sé verið að skemma vísvitandi þessa leið lýðræðisins hér á landi er það mjög alvarlegt.
Ekki er nema um það bil hálfur áratugur síðan efnt var til undirskriftasöfnunar á netinu gegn fjölmiðlafrumvarpinu.
Nú veit ég ekki hvort öðruvísi var staðið að henni en ég minnist þess að þá hafi líka heyrst raddir um að auðvelt væri að falsa undirskriftir þar.
Það breytti því á hinn bóginn ekki að forseti Íslands tók mark á söfnuninni.
Fróðlegt er að rifja upp neðangreind ummæli frá tímum fjölmiðlafrumvarpsins, bæði með hliðsjón af undirskriftasöfnuninni - og afstöðu til málþófs.
Eigandi þeirra er Róbert nokkur Marshall, þáverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og núverandi þingmaður Samfylkingarinnar:
Nú reynir á okkur að rísa til varnar. Að óbreyttu verður fantafrumvarpið að lögum eftir helgi. Afleiðingarnar fyrir störf okkar og afkomu eru óljósar. Við höfum eitt hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin. Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is. Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Sendið tölvupóst á ALLA sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár. Nú er tíminn til endurnýja kynnin. Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur. Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látið öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum, fáum þessum ólögum hrundið, kaupum tíma til að fá þau í það minnsta milduð í haust. Nú reynir á. Gjör rétt - þol ei órétt.
Myndin: Það er orðið jólalegt hjá okkur hérna fyrir norðan.
Athugasemdir
Góð hvatnig hjá þér Svavar og vonandi að sem flestir taki áskoruninni.
Þú ættir að skoða pistil frá Ómari Valdimarssyni
Sigurður Þórðarson, 12.12.2009 kl. 14:24
Ef forseti Íslands finnur tilefni til að vera fjarverandi og láta einhverjum staðgengli eftir skítverkið að skrifa undir landsölu samninginn, þá ætti hann að sjá sóma sinn í að snúa aldrei aftur til Íslands.
Jónatan Karlsson, 12.12.2009 kl. 16:03
Það er ekki hægt að skemma eitthvað sem er ekki til...
Óskar Arnórsson, 12.12.2009 kl. 19:24
Mjög þörf umræða. Ekki síst sé hún skoðuð "klappstýran" Sem er að því ég held íhaldið. Sem er þrátt fyrir allt ekki málið.
Heldur hitt, múgæsingin. Við, fólkið í landinu sem höfum ekki haft tækifæri til að meta aðstæður. Og skal okkur vera nokkur vorkunn . Hafandi ekki haft það að atvinnu að kryfja málið.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 00:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.