23.12.2009 | 00:38
Jólaguðspjall gulu pressunnar
Jólaguðspjallið notar ekki mörg orð um hirðana.
Jú, þeir voru úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar, eins og við er að búast þegar hirðar eru annars vegar.
Guðspjallamaðurinn Lúkas setur heldur ekki á langar ræður þegar hann segir frá þeim undrum og stórmerkjum sem hirðarnir sáu. Hann notar ekki lýsingarorð í botni og slær ekki upp fyrirsögnum með stríðsfréttaletri.
Hann segir einfaldlega og blátt áfram að engill Drottins hafi staðið hjá þeim.
Það er eins og þeir hafi allt í einu séð hest.
Lúkas hefði ekki þótt góður blaðamaður. Hann hefði ekki skrifað fréttir sem seldu.
Hvernig væri jólaguðspjallið í DV-stíl?
Þar á bæ hefðu menn gert mikið úr englinum og söngur hinna himnesku hersveita er gott hráefni í myndarlega fréttamáltíð.
Þar er svo sannarlega sjónarspil sem á erindi á útsíður.
Ég sé fyrir mér viðtöl við forviða hirða og ljósmyndir af þeim þar sem þeir óðamála lýsa ævintýrum næturinnar.
Í jólaguðspjalli DV yrði að finna stórbrotnar lýsingar af englinum og dýrð Drottins sem ljómaði í myrkrinu, hvernig allt varð skyndilega gjörsamlega kolvitlaust.
Jólaguðspjallinu hinu nýja myndu fylgja viðtöl við sjónarvotta undir fyrirsögnum eins og:
Hjálparsveitarmenn heyrðu englakór á Kjalvegi
Rjúpnaskytta hélt að hann sæi geimverur
Hitt er alvanalegt að börn fæðist, enginn hefur tölu á þeim foreldrum sem ekki hafa fengið inni í almennilegum gistihúsum og engum þykir fréttnæmt þótt krakki komi í heiminn í hrörlegum húsakynnum.
Í jólaguðspjalli gulu pressunnar yrði sennilega ekki minnst á Jesú.
Myndina tók ég í síðustu viku úti í Ólafsfirði.
Athugasemdir
Skemmtileg pæling. Fær mann til að hugsa um þetta meira myndrænt.
Gleðileg Jól!
Bryndís Böðvarsdóttir, 23.12.2009 kl. 17:30
Bestu jólaóskir og takk fyrir tilskrifin á árinu
Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.12.2009 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.