26.12.2009 | 22:04
Snjóajól
Ég byrjaði daginn inni í Minjasafnskirkju þar sem ég gaf saman hjón.
Forveri minn, sr. Birgir Snæbjörnsson, gifti foreldra brúðgumans á sínum tíma, fárveikur með 40 stiga hita. Hann talaði um að hann hefði brætt þau saman.
Ég var hitalaus en mikið vetrarríki var þegar sonur 40 stiga hjónanna kvæntist. Ef til vill má segja að hann hafi frosið saman við eiginkonuna.
Svo festi ég bílinn minn á eftir og þurfti að fá lánaða skóflu hjá minjaverði til að moka upp farartækið.
Ef það var ekki sögufræg skófla er hún það núna.
Ég bæði gifti og skírði í dag og í fyrramálið ætla ég að ferma dreng sem kom alla leið frá París til þess verks.
Hér eru ægileg snjóalög. Ég hitti Ólafsfirðinga í dag sem áttu ekki til orð yfir fannferginu og þó kalla þeir ekki allt ömmu sína í þeim efnum - né öðrum.
Jólasnjórinn er fallegur og enda þótt ekki séu allir hrifnir af honum hafa mörg aukakílóin runnið af bæjarbúum við að ýta föstum bílum og moka frá fenntum útidyrum - eða eins og nágranni minn orðaði það þegar við hömuðumst við mokstur á aðfangadagskvöld:
"Ekki þarf mánaðarkortið í þetta."
Myndina tók ég áðan út um eldhúsgluggann. Gripurinn liggjandi til hægri í gluggakistunni er laufabrauðsjárnið okkar.
Athugasemdir
Skemmtileg prestverkin og margvísleg. Frost og funi. Minnir mig á sögu sem ég heyrði eða kínverska heimspeki reyndar, sem sagði að á Vesturlöndum væri upphaf hjónabandsins eins og teketill sem bullu sýður í og er tekinn af en svo kólnar smátt og smátt í honum upp frá því. Kínverskt hjónaband aftur á móti væri eins og teketill sem er settur yfir kaldur en hitnar og hitnar þar til yfir líkur. Á Vesturlöndum velur fólk sjálft maka sinn (sína) en í Kína er því ráðstafað af forráðamönnum.
Já auðvitað erum við orðin spikfeit af hægindum og góðæri, vantar bara ófærð og bras í umferðinni til að taka almenni lega á því
. Við berum ekki með okkur skort enn sem komið er. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 27.12.2009 kl. 01:42
Já honum er soldið misskipt, blessuðum. Hér á Selfossi er varla korn að sjá.
, 27.12.2009 kl. 01:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.