31.12.2009 | 01:41
Sekúndan sem býr til 2010
Fáar sekúndur hafa meira á samviskunni en sú sem ýtir klukkunni á miðnættið í kvöld.
Dag hvern er þessi sama sekúnda þess valdandi að einn sólarhringur deyr og annar fæðist.
Þessi sekúnda sér um að dagatalið hökti áfram en standi ekki í stað.
Og í kvöld bætist miklu meira en venjulega við þjakaða samvisku þessarar sekúndu. Heilt ár hverfur.
Ekki þarf nema eina sekúndu til að miðvikudagur verði fimmtudagur, mars breytist í apríl og árið 2007 hverfi en 2008 birtist.
Eins og við þekkjum er miðvikudagur allt annað mál en fimmtudagur, mars gjörsamlega frábrugðinn apríl og allt annað að lifa á árinu 2007 en 2008.
Það voru engin smáræðis viðbrigði þegar sekúndan margfræga smellti inn ári hrunsins.
Og hún verður ekki til friðs í kvöld, þessi sekúnda. Af hennar sökum tendrast blys, flugeldar æða um loftin og himnarnir upplýsast af marglitum bombum.
Milljónahundruð króna brenna upp í einu vetfangi vegna þessarar einu sekúndu og hún sér til þess að vaskar sveitir björgunarmanna standa gráar fyrir járnum allt árið um kring, reiðubúnar að síga eftir okkur ofan í dauðadjúpar jökulsprungur, bera okkur út úr brennandi húsum og draga bílana okkar upp úr beljandi jökulelfum.
Við gefum henni sjaldan gaum, þessari einu sekúndu. Við teljum lífið í árum, mánuðum eða vikum. Fyrir kemur að við bregðum mælistiku mínútunnar á líf okkar en til þess þarf mikið að liggja við.
Samt er það þessi eina sekúnda sem skilur á milli feigs og ófeigs, altént þegar áramót eru annars vegar.
Gleðilegt nýtt ár!
Myndina tók ég nýlega uppi í Lögmannshlíð. Hlíðarfjall og skíðasvæðið í baksýn.
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár Svavar og takk fyrir þínar fínu færslu á árinu sem er að líða. Já oft veldur lítil þúfa þungu hlassi eins og máltækið segir. Stundum hefur mér fundist hálf asnalegt hvað menn einblína á þessa einu sekúndu og held að það hafi magnast eftir að RUV fór að sýna hana beint þ,e, sekúnduna sem klárar árið og þá sem tekur við af henni en tilheyrir því nýja. Hvað um það, Þá vona ég að árið verði sem flestum ánægjulegt og þér ekki síst. Kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 1.1.2010 kl. 00:44
Hrikalega flott mynd.
hilmar jónsson, 1.1.2010 kl. 23:54
Takk fyrir þetta, Kolbrún og Hilmar.
Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2010 kl. 00:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.