1.1.2010 | 23:25
Skíthælarnir eru fundnir
Óðum styttist í dómsdag - þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kemur út.
Aðalskíthællinn í bankahruninu hefur samt þegar verið fundinn.
Ég vitna í þetta blogg eftir Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóra, sem birtist á gamlársdag:
Íslendingar hafa ætíð verið heimskir, enda innræktaðir á fámennu útskeri. Allar aldir hafa þeir leyst vanda sinn með afneitun hans. Eyddu auðlindum til lands og sjávar og veðsettu restina. Kenna útlendingum um vanda sinn, hvort sem hann heitir Uppkastið eða IceSave. Þjóðrembdir eru Íslendingar með afbrigðum, enda að mestu einangraðir um aldir frá erlendum samskiptum. Í umheiminum er almennt litið á Íslendinga sem sviksöm fífl. Þeir standi ekki við skuldbindingar sínar og þurfi á refsingu að halda. Nú erum við komin á núllpunkt vegna þessa, en höfum enga greind til að læra af biturri reynslu.
Sama dag skrifaði Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri, þriggja síðna grein í Fréttablaðið þar sem hann segir að Íslendingar séu landeyður sem hafi aldrei kunnað með verðmæti að fara. Hann kemst að sömu niðurstöðu og hinn fyrrverandi ritstjórinn.
Íslendingar eru heimskir.
Eða með hans eigin orðum:
Þegar horft er yfir Íslandssögu er erfitt að að verjast þeirri hugsun að Íslendingar kunni að vera vel gert fólk - svona einir sér. En þegar þeir koma saman er eins og hver vitleysan reki aðra. Íslendingar virðast vera heimskur hópur.
Þessi orð eru sögð í samhengi efnahagshruns á Íslandi, tæpum mánuði áður en ofangreind skýrsla birtist.
Þau eru skrifuð af manni sem var í forsvari fyrir blaðaútrás Baugs á sínum tíma sem forstjóri Dagsbrún Media eins og fyrirtækið var kallað.
Til upprifjunar: Baugsmenn hófu útgáfu Nyhedsavisen í Danmörku sem fór á hausinn með margra milljarða tapi.
Þeir Baugsmenn höfðu líka í hyggju að kaupa útgáfu Berlinske Tidende fyrir 80 milljarða króna. Þá vöktu athygli þau ummæli Gunnars Smára í viðtali við dönsku pressuna að peningar væru ekki vandamál eins og lesa má hér.
Nú eru öll þessi fyrirtæki Gunnars Smára farin á hvínandi hausinn. Tapið af skýjaborgum ævintýramannanna nemur stjarnfræðilegum upphæðum.
Stórum hluta þess mun velt yfir á bök íslenskrar alþýðu og hún mun súpa seyðið af því næstu áratugina.
Í þakklætisskyni fær hún ofangreindar áramótakveðjur frá ritstjórunum fyrrverandi.
Við erum heimskingjar og sviksöm fífl.
Myndin: Svona litu áramótin út sem við fögnuðum hjá tengdó í Svarfó.
Athugasemdir
Gott hjá þér eins og svo oft áður. Spurning um flísina og bjálkann. Hver er sá heimski? Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir liðið. Kveðja, Gísli.
Gísli Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 00:22
Hví svarar þú pisltum þessara tveggja ekki efnislega? Hví ræðst þú á mennina í staðinn? Eruð þér rökþrota eins og kallað er? Svona ad hominem árásir eru alveg ofboðslega í stíl við nákvæmlega það sem Jónas og Gunnar Smári eru að gagnrýna.
-Hið sér-íslenska þvarg.
Teitur Atlason (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 00:43
Teitur, ég held að til séu bæði heimskir og vel gefnir Íslendingar. Rasistar halda því fram að heilar þjóðir séu heimskar og ég hef engu að bæta við þau svör sem þegar hafa verið gefin við slíkum fordómum. Í þessari færslu beini ég athyglinni að því samhengi sem þessar rasísku staðhæfingar standa í því mér finnst það upplýsandi og forvitnilegt. Gleðilegt ár!
Svavar Alfreð Jónsson, 2.1.2010 kl. 01:17
Kvitta heilshugar undir þetta hjá þér séra minn. Oflætið er slíkt að þeir gleyma því að þeir eru sjálfi Íslendingar, virðist vera. Þeir eru raunar dæmi um heimskingja og sviksöm fífl, ef ferillinn er skoðaður.
Margur heldur mig sig.
Gleðilegt ár og takk fyrir sviptingar liðinna ára. Líst betur á þig en oft áður. Prestar með bein í nefinu, sem segja skoðun sína um þjóðmálin umbúðalaust, eru mér að skapi. Ég er enda af tómum biskpum og prestum kominn, svo ég má til með að gera slíka tilslökun.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2010 kl. 09:05
Er þetta ekki bara rétt hjá mönnunum Jónasi og Gunnari?
Í öllu falli hafa þeir í áraraðir verið í hópi helstu álitsgjafa fjölmiðla - fólk vitnar í orð þeirra - hneykslast eða er sammála - og við erum að eyða tíma í að fjalla um orð þeirra hér og nú.
Af hverju erum við að eyða tíma í að fjalla um sjálfslýsingu þeirra bara vegna þess að þei snúa e henni upp á þjóðina alla?
Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 10:39
Það er alveg réttlætanlegt að skoða greinaskrif Jónasar og G.Smára útfrá ævisögulegu sjónarmiði.
G.Smári fékk andlega uppvakningu þegar hann bjó um (örstutt) skeið í Danmörku. Þessi tegund andlegrara uppvakningar sem G.Smári varð fyrir var kölluð á árum áður að vera "sigldur".
Einstaklingur frá litlu eyríki verður skyndilega, uppfullur af skömm, að horfast augu við að smæð Íslands, og hans sjálfs, liggur ekki bara í fámenninu heldur líka í heimskunni (fábreytileikanum; skorti á þekkingu, menningu og mannasiðumþ Frægasta dæmið um þessa tegund andlegrar uppvakningar er Alþýðbókin.
Jónas er í eðli sínu utangarðsmaður og virðist utangarðsmennska hans eiga rætur í höfnun sem hann hefur orðið fyrir sem barn og veldur þvi að hann túlkar alla reynslu sem hann verður fyrir sem allsherjarhöfnun á sér. Jónas snýr vörn í sókn og upphefur hlutverk sitt sem Utangarðsmaðurinn sem þorir að segja sannleikann fyrir framan alla hræsnarana.
Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 12:19
góður- jónas hef ég ekki lesið en hraflaði yfir gse í fréttablaðinu og þar er meira samankomið af sagnfræðilegum rangfærslum og bulli en orðið getur í greinum óheimskra manna. gleðilegt ár.-b.
Bjarni Harðarson, 2.1.2010 kl. 13:41
Góð færsla. Takk fyrir.
Björn Birgisson, 2.1.2010 kl. 16:43
Ég var búin að lesa það sem Jónas skrifaði og það fór í taugarnar á mér þessi alhæfing um vitsmuni heillar þjóðar og þá hlýtur það að innifela í sér vitsmuni þess sem skrifar þar sem hann tilheyrir þessari þjóð.
Jóhanna Magnúsdóttir, 2.1.2010 kl. 18:28
Þeir Jónas og Gunnar Smári hafa ekki úr háum söðli að detta.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.1.2010 kl. 19:49
Þeir sem dæma heila þjóð sem útskerjaaumingja og eru fæddir þar sjálfir eru auðvitað ekki svara verðir.
Hinsvegar mundi engin af Heimsveldunum hafa náð árangri ef menn væru að berja hver á öðrum- agalaus þjóð og valdaklikur eru ekki okkur til framdráttar.
Stjórnleysi er að verða okkur að falli,
Erla Magna Alexandersdottir (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 21:13
Þeir kollegar Jónas og Gunnar eiga það sameiginlegt að hafa gott vald á íslensku máli og það er vel. Frekar þykir slíkt fremur tengt við greind en heimsku. Báðir þykjast þeir hafa góða yfirsýn yfir vitsmuni heillar þjóðar og það ætti í besta falli að þýða nokkuð vit.
Þeir eru líka sammála um dæma heila þjóð til einnar alhæfingar og skiptir þá ekki máli hver hún er. Það finnst mér helst lýsa ákveðnum skorti á greind og víðsýni.
Á þeirra tungumáli þýðir slíkt að vera þröngsýnni heimskingi sem þjáist af oflæti.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.1.2010 kl. 03:03
Heimskur er heimaalinn maður!
Auðun Gíslason, 3.1.2010 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.