Fyrirmyndarríkið

 

DSC_0216 - Copy
 
 
„Ísland ætti að vera fyrirmynd annarra ríkja við úrvinnslu mála eftir hrunið 2008, segir Eva Joly, fyrrverandi ráðgjafi sérstaks saksóknara, sem stödd er hér á landi."

Ríkisútvarpið, 19. 10. 2012

 

„Bretar og ríki evrusvæðisins ættu að taka Ísland sér til fyrirmyndar á baráttunni við kreppuna, segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í Financial Times."

Eyjan, 21. 8. 2012

 

„Oddný G. Harðardóttir: Skattkerfið á Íslandi til fyrirmyndar"

Viðskiptablaðið, 10. 1. 2012

 

„Efling græns hagkerfis á Íslandi. Sjálfbær hagsæld - Samfélag til fyrirmyndar."

Skýrsla nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins, september 2011

 

„Að Ísland verði fyrirmyndarríki í umhverfis-, mannréttinda- og friðarmálum, þar sem allir hafa jafnan aðgang að menntun og heilsugæslu."

Þjóðfundur, 2009

 

„Það er ljóst að gríðarmikið starf er framundan við að byggja upp og koma samfélagi okkar aftur á réttan kjöl, bæta stöðu þeirra verst settu og gera landið okkar að því fyrirmyndarríki sem það hefur alla burði til að vera."

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartar framtíðar, 1. 7. 2013

 

„Þar eru allir fæddir jafnréttháir og grundvallarsjónarmið mannréttinda eru í hávegum höfð. Öllum er tryggð besta mögulega heilbrigðisþjónusta og allir eiga kost á að mennta sig á því sviði sem þeir finna kröftum sínum bestan farveg."

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, um fyrirmyndarríkið í stefnuræðu 2. 10. 2013

 

„Ég er ekki viss um að við jafnaðarmenn eigum samleið með fyrirmyndarríki hans"

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í umræðu um stefnuræðuna

 

„Sjálfstæðisstefnan er hvorki langorð né flókin heldur veitir hún leiðbeiningar um nokkur mikilvæg atriði sem er nauðsynlegt að taka mið af, vilji menn tryggja frelsi og framþróun í þjóðfélaginu. Hún gefur sig ekki út fyrir að vera nákvæm forskrift að fullkomnu ríki enda lifa slík fyrirmyndarríki sjaldnast sjálfstæðu lífi utan kennisetninga og fræðikerfa."

Af heimasíðu Sjálfstæðisflokksins

 

„We have referred to Marxism and National Socialism as secular religions. They are not opposites, but are fundamentally akin, in a religious as well as a secular sense. Both are messianic and socialistic. Both reject the Christian knowledge that all are under sin and both see in good and evil principles of class or race. Both are despotic in their methods and their mentality. Both have enthroned the modern Caesar, collective man, the implacable enemy of the individual soul. Both would render unto this Caesar the things which are God´s. Both would make man master of his own destiny, establish the Kingdom of Heaven in this world."

Frederick Augustus Voigt í bók sinni Unto Caesar 1938

 

Myndin er tekin á Upsaströnd 


Óskalög sjúklinga

DSC_0283 

Þegar ég var strákur hlustaði ég á þrjá tónlistarþætti í hinu íslenska ríkisútvarpi. Þar voru spiluð allskonar óskalög með tilheyrandi kveðjum.

Þættirnir hétu Lög unga fólksins, Óskalög sjómanna og Óskalög sjúklinga.

Þrír þjóðfélagshópar nutu þeirra forréttinda að fá fastan tíma í einu útvarpsstöð landsmanna þar sem spiluð var tónlist að þeirra óskum.

Á milli laganna bárust ástar- og saknaðarkveðjur frá sjúkrabeðum og úr káetum inn á heimilin.

Þessir þrír þjóðfélagshópar nutu sérstakrar velvildar landsmanna: Unga fólkið vegna þess að þar er framtíðin. Sjómennirnir vegna þess að þeir drógu björg í bú við hættulegar aðstæður. Sjúklingarnir vegna þess að þeir voru veikir og við höfðum samúð með þeim.

Hóparnir þrír höfðu líka skattalega sérstöðu. Unga fólkið byrjaði ekki að borga skatt fyrr en við 16 ára aldurinn. Sjómenn fengu sérstakan sjómannaafslátt.

Og hingað til hefur ekki þótt við hæfi að þau sem eiga dvöl á sjúkrahúsum landsins séu krafin um sérstakan skatt vegna þeirrar sérstöðu sinnar.

Það er að vísu alls ekki rétt að heilbrigðisþjónusta sé ókeypis á Íslandi. Hún kostar pening og er flóra íslenskra sjúklingaskatta nokkuð fjölskrúðug. Greiða þarf fyrir komur á heilsugæslustöðvar og til heimilislæknis, rukkað er fyrir læknisvitjanir, sérstök gjöld eru lögð á rannsóknir og mælingar og ekki er hægt að fara á slysadeild eða til sérfræðinga án þess að opna veskið.

Árið 2011 var ástandið orðið þannig að tæp 7% lágtekjufólks á Íslandi hafði ekki efni á nauðsynlegri læknisþjónustu.

Þar að auki er lyfjakostnaður íslenskra sjúklinga oft verulegur.

Allir þessir sjúklingaskattar hafa komist á tiltölulegu átakalítið. Íslendingar hafa umborið að sjúklingar séu látnir punga út peningum við afgreiðsluborð lyfjabúða og í móttökum heilsugæslustöðva.

Þjóðin segir á hinn bóginn stopp þegar á að fara rukka þau sem eru rúmliggjandi inni á spítölum.

Bent hefur verið á að sumir hafi alveg efni á að borga fyrir hvern sólarhring inni á spítala, að fólk þurfi að borða heima hjá sér þar og spari sér þann kostnað sé spítalavistin ókeypis. Einnig hefur verið til þess vísað að spítalaskatturinn tíðkist í útlöndum, til dæmis í Svíþjóð.

Þessi rök virðast ekki duga.

Þegar manneskja er það veik að hún þarf á spítalavist að halda er stór hluti þjóðarinnar þeirrar skoðunar að samfélagið eigi að umvefja hana og sýna henni stuðning í verki.

Því sé ekki við hæfi að rukka fólk í rúmum inni á sjúkrastofnunum sérstaklega fyrir mat og aðra þjónustu, jafnvel þótt það hafi efni á því.

Ég tek undir með þessum stóra hluta þjóðarinnar og hvet stjórnvöld til að endurskoða áform sín um þessa sjúklingaskatta.

Auk þess geri ég það að tillögu minni að óskalagaþættir komist aftur á dagskrá Ríkisútvarpsins.


Náttúruperlan Glerá


DSC_0293

Upphaf Glerárgljúfra

 

Nú á að virkja Glerána á ný. Í tengslum við þá framkvæmd á að leggja nýjan göngustíg upp með ánni. Mér líst vel á það því Akureyringar hafa ekki uppgötvað þá náttúruperlu sem Gleráin er. Þeir hafa farið illa með ána.

Þegar ég var að slíta barnsskónum litaði samvinnuhreyfingin ull og gærur á Glerárbökkum. Litarefni bárust út í ána. Mátti stundum sjá á henni helstu tískuliti í ríkjum kommúnista í Austur-Evrópu en þangað fór stór hluti ullarframleiðslunnar.

Nokkru ofar við ána er steypustöð. Um tíma voru stöðvarnar tvær. Öll þau ár sem sementsslubbið hefur runnið uppstyttulítið ofan í bæjará Akureyringa hefur nánast enginn amast við þeirri mengun.

Á sínum tíma var öskuhaugum bæjarins  valinn staður í námunda við ána. Var stutt fyrir úrganginn að fjúka ofan í dásemdargljúfur Glerárinnar þar sem spikfeitar og hvæsandi rottur nöguðu nammi sitt.

Gleráin er yndislega falleg. Í henni eru nokkrir fossar.

Sá neðsti og mesti er rétt neðan við gömlu stífluna.

Efsti fossinn er nánast á æfingasvæði Skotfélags Akureyrar þannig að vissara er fyrir náttúruskoðara að bregða sér í viðeigandi klæðnað hyggist þeir heimsækja fossinn. Ég held að hann heiti Vegghamarsfoss. Þar byrja Glerárgljúfur sem eru þröng og hrikaleg en líka gróðursæl. Í þeim miðjum er Snókahvammsfoss. Snókahvönn er annað heiti á geithvönn en hún mun hafa vaxið í hvamminum.

Rétt hjá steypustöðinni, við göngubrúna, er lítill og snotur foss.

Gaman er að ganga með Glerá sumar sem vetur en hún getur verið hrikaleg í vorleysingum enda jökulá. Það fékk ég að reyna einn vordaginn þegar ég var smástrákur. Þá héldum við félagarnir glaðbeittir til veiða í Glerá vopnaðir prikum. Á þau höfðum við fest snærisspotta með teiknibólum.

Vatnsfallið hafði svipaðan lit og áferð og súrmjólk með miklum púðursykri og var lítt írennilegt ungum stangveiðimönnum enda veiddum við ekkert. Á hinn bóginn mátti litlu muna að áin veiddi annan okkar.

Ég man enn hvernig straumurinn hrifsaði mig og ég fann hvernig ég flaut hægt og bítandi út í beljandi jökulfljótið. Ég grét og öskraði en vinur minn komst ekki til mín.

Allt í einu var ýtt var aftan á mig. Ég komst það nálægt landi að ég gat stungið fingri í sprungu þar í klöppinni. Um leið og ég byrjaði að draga mig í land með fingrinum fann ég að mér var hjálpað aftur.

Það er því ekki mér að þakka að ég er að skrifa þetta hérna um Glerána.

Mér þykir vænt um hana og ber virðingu fyrir henni, straumi hennar, gljúfrum og fossum.

 

DSC_0289

Vegghamarsfoss

 


 DSC_0119

Snókahvammsfoss

 

 DSC_0423

Smáfoss í Glerá

 

 DSC_0097

Vetrarfegurð við Glerá


Allt vonda fólkið

DSC_0803

Ósköp getur verið gott og notalegt að virða fyrir sér allt þetta vonda fólk sem þessi þjóð samanstendur af.

Hér erum við, þau góðu - þarna eru hin, þau vondu.

Þarna eru útrásarvíkingarnir sem komu okkur á kaldan klaka, auðmennirnir sem settu allt á hausinn í gegndarlausri græðgi, vanhæfu embættismennirnir sem sváfu á verðinum og spilltu stjórnmálamennirnir sem brugðust. Þarna eru líka þjófarnir, svikararnir, nauðgararnir, morðingjarnir og níðingarnir. Þarna er þetta ógeðslega samfélag. Þarna eru listamennirnir, afæturnar, lattelepjararnir. Þarna eru forpokuðu landsbyggðarlúðarnir, útgerðarmennirnir, sægreifarnir og landbúnaðaraðallinn, einangrunarsinnarnir og landráðaliðið. Þarna eru múslimarnir, trúleysingjarnir og trúfíflin.

Þarna er allt þetta dæmalausa fólk. En hérna megin tölvunnar erum við.

Vonda fólkið er viðfangsefnið í athugasemdunum. Góða fólkið skrifar þær.

Manneskjan er varasöm og menningarlagið á yfirborði mannlífsins er bæði þunnt og viðkvæmt. Hatursfull umræða getur skemmt þetta lag. Afleiðingar þess geta verið skelfilegar.

Ef til vill er óöryggi okkar sjálfra og brotin sjálfsmynd ein ástæða þess að við freistumst svo gjarnan til að vera dómhörð í garð annarra. Við þekkjum eigin breyskleika en erum það blind á eigin hæfileika að við sjáum ekki aðra leið en að nota bresti annarra til að upphefja okkur.

Í vanmætti okkar leitum við skjóls í vanmætti hinna. Breyskleiki náungans er bæði hækjan í veikleika okkar og bareflið í óöryggi okkar.

Og þannig ætlum við að byggja nýtt Ísland.

Myndin heitir Dauði.

Bara fyrir börn ríkra?

DSC_0702
Sé starf íþróttafélaga faglegt og þannig framkvæmt að það stuðli að heilbrigðri sjálfsmynd ungmenna má halda því fram að það geti verið liður í forvörnum gegn vímuefnaneyslu eins og annað uppbyggilegt æskulýðsstarf.

Árlega fá íþróttafélögin nokkrar fjárhæðir frá skattborgurum til að sinna því mikilvæga starfi sínu. Þeim peningum er svo sannarlega vel varið á meðan þeir verða æsku landsins til blessunar.

Þó eru ekki allir sem geta nýtt sér þessa þjónustu íþróttafélaganna. Nýverið spjallaði ég við einstæða móður. Sonur hennar hefur æft knattspyrnu. Æfingagjöldin nema tugum þúsunda á ári. Þar að auki þarf að kaupa íþróttaföt og annan búnað auk þess sem ferðakostnaður hefur aukist jafnt og þétt þau ár sem drengurinn hefur verið í boltanum.

Nú er svo komið að móðirin hefur ekki lengur efni á að leyfa drengnum að sinna þessu hugðarefni sínu. Það urðu honum mikil og sár vonbrigði að fá þann úrskurð. Þó að hann hafi verið allur að vilja gerður til að skilja þessa þungbæru ákvörðun móðurinnar er erfitt að vera lítill drengur og horfa upp á alla vinina fara á fótboltaæfingar en verða sjálfur að sitja heima.

Þegar svo er komið að stór hluti íslenskra barna getur ekki tekið þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi er kominn tími til að staldra við og hugleiða á hvaða leið við séum.

Viljum við samfélag þar sem aðeins börn úr þokkalega stöndugum fjölskyldum geta iðkað íþróttir?

Íþróttastarf sem aðeins er fyrir ríka stuðlar ekki að heilbrigðri sjálfsmynd ungmenna. Það brýtur þá krakka niður sem ekki fá að taka þátt í íþróttunum og veldur sárum á sálum þeirra sem ef til vill gróa aldrei.

Og þá er starf íþróttafélaganna ekki lengur uppbyggilegt heldur niðurbrjótandi.

Myndin er frá fermingarskóla Akureyrarkirkju á Vestmannsvatni í Aðaldal. Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir ræðir við börnin.




 


Þjóðin spurð um ESB

DSC_0630 

Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegast hefði verið að leita álits þjóðarinnar áður en íslensk stjórnvöld sóttu um aðild að Evrópusambandinu á sínum tíma. Ég tel að verði aðildarferlið sett af stað á ný eigi ekki að gera sömu mistökin.

Það á að spyrja þjóðina fyrst.

Ég er hlynntur beinu lýðræði en geri mér samt grein fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur má hæglega misnota. Þeim má beita til að blekkja fólk. Það sýna nýleg dæmi.

Eigi þjóðin í auknum mæli að taka ákvarðanir milliliðalaust um ágreiningsmál verður hún að vita hvað sé í húfi. Í þjóðaratkvæðagreiðslum þarf fólk að standa frammi fyrir skýrum valkostum. Spurningar þurfa að vera vel orðaðar og gera þarf kjósendum grein fyrir hvaða afleiðingar atkvæði þeirra hafi.

Íslendingar skiptast í tvær meginfylkingar þegar tekist er á um afstöðuna til aðildarumsóknarinnar.

Annarsvegar eru þeir sem segja að ekki sé hægt að taka upplýsta afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu nema fyrir liggi aðildarsamningur. Þeir líta svo á að Íslandi standi til boða ýmsar undanþágur frá lagabálki Evrópusambandsins og sérlausnir. Um það allt þurfi að semja og því sé ekkert hægt að segja um hvað felist í aðild að Evrópusambandinu nema fyrir liggi fullgerður samningur. Þess vegna sé ekki ástæða til að spyrja þjóðina fyrr en búið sé að semja.

Í þessari fylkingu eru til dæmis fyrrverandi stjórnarflokkar - sem hafa reyndar báðir tekið afstöðu til aðildar, annar með en hinn á móti, þótt enginn sé samingurinn.

Ýmsir fjölmiðlar á Íslandi virðast líka tilheyra þessari fylkingu. Sumir vilja meina að Ríkisútvarpið sé þar á meðal.

Hinsvegar eru þeir sem segja að aðildarferlið felist í því að umsóknarríkið sýni fram á hvernig og hvenær það lagi sig að regluverki Evrópusambandsins. Ríki sæki ekki um til að skoða í pakkann eða sjá hvað sé í boði, heldur sé umsóknin eindregin ósk um inngöngu og yfirlýsing um vilja til aðlögunar að lagabálki Evrópusambandsins, öllum 100.000 síðum hans, sem sé óumsemjanlegur.

Besta leiðin til að taka upplýsta afstöðu til aðildar Íslands að sambandinu sé því að kynna sér þennan óumsemjanlega lagabálk sem Ísland þurfi að taka upp og innleiða ef það vill verða hluti af sambandinu.

Í þessari fylkingu er til dæmis Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sem m. a. hefur gefið út bækling til að útskýra hvernig aðildarferlið gengur fyrir sig (en þaðan eru ofangreind skilyrði fengin) og ráðherraráð Evrópusambandsins sem fyrir hálfu ári og ekki að tilefnislausu hefur ítrekað, að Ísland verði að samþykkja og innleiða allan lagbálk Evrópusambandsins við mögulega inngöngu í sambandið.

Síðast en ekki síst hefur Evrópusambandið sjálft þá eindregnu skoðun á aðildarferlinu, að þar sé ekki verið að skoða í pakka og virða fyrir sér úrvalið í tilboðshillunum, heldur feli það í sér vilja til inngöngu, eða eins og Þorsteinn Pálsson orðar það í sinni nýjustu grein:

Í öðru lagi fólst í aðildarumsókninni að Ísland stefndi að aðild. Ella sækja ríki ekki um.

Þegar að því kemur að þjóðin verður spurð um hvort halda eigi áfram aðildarferli Íslands að ESB skulum við hafa spurninguna skýra, hafa ofagreind orð Þorsteins í huga um að ríki sæki ekki um nema þau stefni að aðild og láta spurninguna hljóða:

Vilt þú að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?

Myndin er úr berjamó.


Moskur, hof og kirkjur

DSC_0382 

Ísland á fjölda kirkna af ýmsum stærðum og gerðum. Sumar standa enn á sínum stöðum eins og ekkert hafi í skorist enda þótt þar búi varla nokkur lifandi maður, nýmálaðar og umvafðar vel hirtum kirkjugörðum. Þessi mannvirki geta haft allskonar hlutverk. Mörg eru merkilegir vitnisburðir um byggðasögu og tengja burtflutta syni og dætur héraðsins upprunanum. Kirkjur geta verið af ætt safna og sumar eru vinsælir viðkomustaðir túrista. Stundum eru kirkjurnar eina boðlega húsnæðið á svæðinu fyrir menningarviðburði.

Að sjálfsögðu eru kirkjur fyrst og fremst trúarlegar byggingar, hannaðar og byggðar með það fyrir augum að vera vettvangur tilbeiðslu.  Þeir sem þangað leita eru að vissu leyti komnir út úr hinum venjulega veruleika og inn í annan. Tilbeiðslustaðir hafa aðdráttarafl og þá skiptir ekki höfuðmáli hverrar trúar fólk er eða hversu stórir helgidómarnir eru. Við skynjum eitthvað sérstakt við andrúmsloftið í þannig húsum.

Það getur ekki verið af tómum hégóma eða fordild eða þrjósku að mannkynið reisir sér kirkjur, moskur og hof og kostar miklu til að halda þessum mannvirkjum í sem bestu ásigkomulagi.

Bænahús heimsins segja okkur ákveðna sögu. Þau eru reist til að mæta ákveðnum þörfum mannsins. Þau lýsa eiginleikum hans og eðli. Maðurinn biður. Hann leitar út fyrir sig. Hann leitar þess sem er æðra og meira en hann. Hann á sér staði sem eru tileinkaðir þessari leit og þessari áráttu að biðja. Á hverjum einasta degi streymir fólk til slíkra staða vítt og breitt um veröldina.

Maðurinn er andleg vera. Hann hefur andlegar þarfir. Og þær þarfir eru bæði djúpar og sannar. Kannski er maðurinn er aldrei meiri manneskja en þegar hann sinnir þeim þörfum?

Þess vegna eru helgidómar hans svo mikilvæg hús. Þess vegna eru bænahús um veröld víða, hvert með sínu sniði. Alls staðar er manneskjan að reyna að gangast við sjálfri sér.

Þess vegna höfum við kirkjur. Og þess vegna höfum við moskur og hof.

Í því ljósi eigum við að skoða fyrirætlanir um byggingu mosku á Íslandi. Moska er eins og aðrir helgidómar vitnisburður um að maðurinn sé andleg vera. Moska á Íslandi er vitnisburður um að á því landi sé ekki gert upp á milli fólks. Öllum þegnum er gert kleift að sinna þessum mikilvægum og sönnu þörfum sínum.

Í svonefndri Nantesyfirlýsingu frá árinu 1598 öðluðust mótmælendur mikilvæg trúarleg réttindi í hinu kaþólska Frakklandi. Yfirlýsingin var mikilvægur áfangi í mannréttindabaráttu. Þar var t. d. boðað samviskufrelsi einstaklinga og fólki af mótmælendatrú var tryggður réttur til að lifa samkvæmt trú sinni án þess að þurfa að sæta ofsóknum fyrir.

Þó fengu mótmælendur ekki leyfi til að iðka trú sína hvar sem er. Það átti fyrst og fremst að gerast innan veggja heimilisins. Trú þeirra var liðin ef hún var falin og iðkendurnir áttu að láta lítið fyrir sér fara.

Ég er ekki viss um að trúfrelsi sé í landi þar sem þegnarnir geta valið sér trúarbrögð en aðeins hluti þeirra má byggja sér helgidóma, umgjörð fyrir átrúnað sinn. Hinum er sagt að láta lítið á sér bera og fara helst með veggjum.

Vissulega eru til öfgar í öllum trúarbrögðum. Harðlínumenn eiga oft léttast með höfða til fólks þegar neyðin er mest og ranglætið ríkir. Sennilega er ekki til betri forvörn gegn öfgum en sanngjarnt og frjálst þjóðfélag og gildir þá einu hvort ofstækisliðið kennir sig við Krist eða Múhameð, er trúað eða trúlaust eða til vinstri eða hægri í pólitík.

Myndin: Tvö listaverk. Nær Íslandsklukka myndhöggvarans ólafsfirska Kristins E. Hrafnssonar við Háskólann á Akureyri. Fjær Kaldbakur í fjarðarkjafti.


Aulaeldi

DSC_0063


Fréttablaðið er borið ókeypis inn á heimili stórs hluta landsmanna. Pappírinn í Fréttablaðið kostar peninga. Það kostar líka stórfé að prenta blaðið. Blaðið skrifar sig ekki sjálft. Fjöldi fólks vinnur við að fylla það efni og fær kaup fyrir.

Peningarnir sem fara í allt þetta falla ekki af himnum ofan. Þeir koma meðal annars frá fólki sem finnst mikilvægt að Fréttablaðið sé lesið.

Á annarri útsíðu Fréttablaðsins í dag er því slegið upp að Hildur Selma Sigbertsdóttir, yngri systir rapparans Bents, sé vanfær af völdum Davíðs nokkurs Guðbrandssonar. Samkvæmt blaðinu hafa Hildur og Davíð verið par síðan 2008.


Ég efast ekki um að morgunkyrrðin hafi verið rofin með dynjandi húrrahrópum á ófáum þeirra heimila sem eru svo lánsöm að fá Fréttablaðið inn um bréfalúguna árla dags.

Deginum áður var stemmingin önnur og dapurlegri við morgunverðarborð landsmanna þegar þeir settust niður við þau í fullkomnu grandaleysi og virtu fyrir sér sömu útsíðu nýútborins Fréttablaðs.

Spæleggin hafa ábyggilega staðið föst í hálsum margra þegar blaðamenn Fréttablaðsins fluttu þá fregn, að Saga Sigurðardóttir, ljósmyndari, og Erling Egilsson, oftast kenndur við hljómsveitina Steed Lord, væru ekki lengur saman.

Er ekki að efa að mörgum hefur reynst erfitt að ganga út í daginn til verkefna hans í skugga slíkra ótíðinda.

Þá var huggun harmi gegn að í sama blaði er allítarleg umfjöllun um nautaskammrif sem veitingamaðurinn í Texasborgurum í Reykjavík vill ólmur selja svöngum og þurfandi. Skammrif þessi eru elduð samkvæmt „þrautreyndri forskrift frá Texas", borin fram með frönskum, hrásalati og steikarsósu. Öll þessi dýrð fæst á sérstöku kynningarverði fyrst um sinn, kr. 1.890, segir í frétt Fréttablaðsins. Hefur þá brúnin lyfst á mörgum.

Og ekki skemmir litmyndin af sællegum skammrifjahampandi grillmeistaranum sem fréttinni fylgdi.

Þegar um þjóðþrifamál eins og matseðil Texasborgara er að ræða standa blaðamenn Fréttablaðsins vaktina og sofna ekki á verðinum. Nokkrum dögum áður en fjölmiðillinn uppfræddi þjóðina um skammrifin, nánar tiltekið miðvikudaginn 17. júlí, flutti hann sömu þjóð þau tíðindi, að nú gæti hún keypt sér hamborgara úr íslensku lambakjöti á Texasborgurum.

Þetta er nú rannsóknarblaðamennska sem bragð er að.

Lambaborgararnir ásamt meðlæti kosta aðeins 1.390 kr. Þeir eru 140 grömm, bornir fram með djúpsteiktum laukhringjum, grænmeti og hamborgara- og kryddsósu. Meðlætið er franskar og ekta heimalöguð bernaise-sósa,

segir í frétt Fréttablaðsins. Með henni birtist líka falleg mynd af hróðugum veitingamanninum með þessa ljúffengu afurð íslenska fjallalambsins.

Þrátt fyrir ýmsa galla Ríkisútvarpsins er ég svo innilega þakklátur fyrir að hafa fjölmiðil á Íslandi sem ekki hefur þá meðvituðu stefnu að gera þjóðina hægt og bítandi að hálfvitum.

Miðað við þá peninga sem til þess er varið virðist aulaeldi ekki ólífvænleg atvinnugrein.

Myndin er úr Eyjafirði


Klukkutíminn hans afa

DSC_0419
Svavar afi minn vann í Slippnum. Ég mátti aldrei heimsækja hann á meðan hann var í dráttarbrautinni því hún var hættuleg börnum. Það breyttist þegar afi fór að vinna í málningunni þó að málningardolluhristarinn gæti verið varasamur en hann var fyrsta slíka skaðræðistækið í höfuðstað Norðurlands.

Afi kom alltaf heim til ömmu í hádeginu enda ekki langt að fara úr Slippnum í Norðurgötu 54.

Klukkutíminn sem hann hafði í mat var vel nýttur.

Hann byrjaði á að labba heim. Ég sá hann aldrei flýta sér. Síðan þvoði hann sér um hendurnar og andlitið í eldhúsvaskinum. Ef hann var mjög skítugur þurfti að nota ræstiduft og stífan bursta. Amma Emelía leið engan sóðaskap við eldhúsborðið. Það þurfti líka að hreinsa smurninguna undan nöglunum.

Síðan var borðaður besti matur í heimi, til dæmis steiktur steinbítur í brúnni lauksósu. Alltaf var fram borinn desert. Hræringur ef maður var óheppinn en Royal karamellubúðingur ef gæfan var hliðholl. 

Afastrákurinn gleymdist ekki. Ef hann vildi ekki borða hræringinn fékk hann að þreifa á upphandleggsvöðvum afans með fyrirheitum um að eignast þvílík búnt ef hann kláraði úr skálinni. Fyrir kom að afi staðfesti kraft hræringsins með því að lemja í borðið þannig að diskar, glös, hnífapör og föt skoppuðu og amma jesúsaði sig.

Þá þurfti nú ekki frekari vitnanna við.

Hlustað var á fréttirnar undir borðum. Ákveðinn hluti hins hversdagslega hádegishlés fór í viða að sér upplýsingum um aflabrögð, heyskap, helstu sigra og töp í Víetnamstríðinu, ástandið í pólitíkinni, skipakomur og framgang kalda stríðsins. Þulir Ríkisútvarpsins fengu tiltekinn hluta hádegisins til að halda liðinu meðvituðu.

Þegar afi var búinn að borða tvíréttað stóð hann upp frá borðinu og labbaði inn í svefnherbergi. Þar lagðist hann í dívaninn við hliðina á hjónarúminu. Ekki liðu nema nokkrar sekúndur þangað til hann byrjaði að hrjóta. Gormarnir í dívaninum víbruðu og rúðurnar í gluggunum nötruðu.

Á meðan fylgdist undirmeðvitund afa með veðurfréttum en Norðurgatan var svo tæknivædd að snúra lá úr útvarpinu í eldhúsinu í gegnum holið og í hátalara inni í svefnherbergi.

Þannig var hjónaherbergið í Norðurgötu 54 beintengt við Veðurstofu Íslands enda upplýsingaöldin að byrja.

Eftir að hafa meðtekið fregnir af skyggni og ölduhæð hætti afi að hrjóta jafn skyndilega og eðlilega og hann hafði byrjað. Hann reisti sig upp af beddanum og gekk fram í eldhús. Þar hellti hann kaffi úr hitabrúsa í bolla, tók sykurmola úr kari, braut hann í tvennt í þykkum lófa, stakk honum í munn sér og sötraði rjúkandi kaffið í gegnum óhollustuna.

Síðan stóð hann upp, gekk fram á stigapallinn, klæddi sig í skóna, setti á sig sixpensarann og hélt til móts við Slippinn sinn. Þar byrjuðu þeir að vinna klukkan eitt.

Svona drjúgur var klukkutími afanna í gamla daga.

 


Þjóðremba og sjálfsfyrirlitning

DSC_0137B 

Ljúf er vissan um að vera ekki eins og aðrir syndaselir þessa heims. Fátt er betra fyrir egóið en að staðfestast í þeirri trú að maður sé betri en hinir.

Og þegar ég hef verið með vesen get ég alltaf skákað í því skjóli að hinir séu ekkert skárri.

Oft er sjálfsálitið ekki burðugra en svo að við sjáum okkur ekki fært að hreykja okkur af eigin verðleikum. Veikleikar hinna eru stökkbrettið sem við notum til að lyfta okkur upp úr meðalmennskunni. Lestir annarra verða upphafning okkar.

Þetta er gjarnan vinnureglan í íslenskum stjórnmálum. Íslenskir stjórnmálamenn koma ekki til kjósenda sinna með einhverja framtíðarsýn. Þeir reyna ekki að höfða til okkar með einhverri stefnu.

Við eigum að kjósa þá vegna þess að hinir eru svo hræðilegir. Þeir vilja fá atkvæði til að hinir komist ekki að.

Við erum óörugg og óöryggi okkar lýsir sér í því að við felum bresti okkar með því að benda á yfirsjónir og galla annarra.

Sumir segja að það sé eitt einkenni á íslensku samfélagi að þar axli enginn ábyrgð og ef eitthvað fari úrskeiðis sé það helst aldrei neinum sérstökum að kenna. Við eigum erfitt með að taka gagnrýni bæði sem einstaklingar og samfélag. Ástæðurnar fyrir því gætu verið öryggisleysi, minnimáttarkennd og skert sjálfsmynd.

Íslenskt samfélag hefur ekki skýra sjálfsmynd. Það er ungt og viðkvæmt. Þetta litla samfélag þjáist af minnimáttarkennd.

Íslenska minnimáttarkenndin lýsir sér m. a. í þeirri trú að allt hljóti að vera betra í útlöndum en hér heima á Klakanum. Rök verði sjálfkrafa gild ef þau eru samin af erlendum sérfræðingum. Veðrið sé gott ef það er eins og í útlöndum.

Minnimáttarkennd er ekki ný á landi voru. Í gamla daga þótti t. d. fínt að sletta dönsku. Fyrirmenn kepptust við að gera nöfn sín útlenskuleg. Jafnvel uppnefni voru í góðu lagi ef þau voru ekki á íslensku.

Danahatrið og trúin á eigin yfirburði var af sama meiði minnimáttarkenndarinnar.

Minnimáttarkennd einstaklinga getur lýst sér í mikilmennskubrjálæði en þegar samfélög þjást af minnimáttarkennd getur hún brotist út í þjóðrembu.

Þannig eru bæði þjóðremban og sjálfsfyrirlitningin af sömu rótinni sprottin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband