2.6.2013 | 12:27
Sjómenn
Fyrstu níu prestskaparár mín bjó ég á þeim indæla stað Ólafsfirði. Í dag hugsa ég þangað því þar er alltaf heilmikið um að vera þessa helgi. Hinn ólafsfirski sjómannadagur var mikil hátíð.
Ég gleymi því aldrei einu sinni þegar hringt var í mig að kvöldi sjómannadagsins. Sjómaður átti erindi við mig, var að skemmta sér með félögum sínum og þeir ætluðu að bregða sér á ball inn á Akureyri. Bílstjóra vantaði og einhverra hluta vegna fannst þeim enginn líklegri til að geta sinnt því starfi þetta tiltekna kvöld en sóknarpresturinn. Ég hefði ekki hikað við að skutla þeim hingað inn eftir hefði ég átt heimangengt því þetta var þeirra dagur.
Á sjómannadegi auðsýnum við þeirri stétt virðingu sem vinnur hættuleg störf fjarri fjölskyldum og heimilum í okkar þágu, oft við erfiðar aðstæður. Sjómannadagurinn á að tjá þakklæti okkar til þessarar starfsstéttar fyrir hennar mikilvæga framlag. Sjómannadagurinn er bæn fyrir þeim sem bjóða óblíðum náttúruöflum birginn og eru umluktir hinum ótal hættum hafsins.
Þegar við tölum um sjávarútveg dettur okkur ýmislegt í hug, svo sem kvótakerfið, helsti atvinnuvegur þjóðarinnar og stór skip. Sjómennirnir voru ekki dags daglega mjög sýnilegir í útgerðarbænum Ólafsfirði - enda voru þeir yfirleitt úti á sjó. Túrarnir voru langir, ekki síst eftir að frystitogararnir komu til sögunnar. Þegar þeir komu í land kom fyrir að gleymdist að leggja á borð fyrir þá á þeirra eigin heimilum.
En á sjómannadeginum sá maður sjómennina. Þeir urði sífellt sýnilegri í bænum eftir því sem nær dró hátíðinni. Suma sá maður eiginlega ekki nema þá. Og þá varð landkrabbanum ljóst að sjávarútvegurinn er meira en kvótakerfi, skip og veiðiheimildir, hann er meira en hugtök og hagfræðistærðir. Sjávarútvegurinn er fyrst og fremst fólk. Hann stendur og fellur með sjómönnum og á sjómannadegi höldum við hátíð fyrir og með því fólki.
Sjómannadagurinn gerði meira en að birta manni sjómennina. Hann dró fram í dagsljósið menningu sjómannanna. Það gleymist nefnilega oft að menningin er ekki bundið við listasöfn, leikhús og slíkar menningarstofnanir. Sjómannalögin eru áberandi hluti af menningu sjómanna en hún er líka fólgin í sögum - oft harla ótrúlegum - og málfari - gjarnan hispurslausu, svo dæmi séu tekin.
Sjómannadagurinn var líka haldinn til að auka samstöðu sjómanna og efla stéttarvitund þeirra. Ólafsfirskur sjómaður á sjómannadagi var stoltur maður. Hann naut virðingar og aðdáunar. Strákunum fannst eftirsóknarvert að feta í fótspor þeirra. Einn þekkti ég sem var með mynd af öllum heimatogurunum yfir rúminu sínu. Sá gat ekki beðið eftir því að komast á sjóinn eins og pabbi og afi. Þetta voru sjómennn sem voru sjómenn af lífi og sál. Þeir hugsuðu sjómannsstarfið ekki sem fyrirkomulag til bráðabirgða. Þeir höfðu ekki í hyggju að skreppa í nokkra túra til að ná sér í pening. Nei. Þeir ætluðu að verða sjómenn. Það var þeirra köllun.
Og nú á dögum er stétt sjómanna ekki lengur einvörðungu skipuð körlum. Þar eru líka frábærir sjókvenmenn sem eru körlunum engir eftirbátar.
Til hamingju með daginn, sjómenn. Og til hamingju með sjómennina, Ísland.
Myndin: Mígindisfoss í Ólafsfjarðarmúla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2013 | 21:54
Úr íslenskum fjölmiðlum
Laugardaginn 25. maí síðastliðinn mátti meðal annars lesa þetta í leiðara Morgunblaðsins.
Það verður seint talin sérstaklega eftirsóknarverð staða að vera endalaust í aðlögunarferli að ESB, hvort sem farið er hratt eða hægt eða hlé tekin árum eða áratugum saman.
Sama dag birtir Egill Helgason, þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu og sérstakur samfélagsrýnir þess, færslu á netsíðu sinni, Silfur Egils .
Fyrirsögnin er afdrátttarlaus:
Engin aðlögun
Færslan er stutt og hefst á þessum orðum :
Það hefur verið talað um að við séum í aðlögunarviðræðum við ESB. Þetta er hugtak sem var fundið upp í áróðursskyni.
Í dag, 29. 5., birtir Ríkisútvarpið, vinnustaður hins kunna samfélagsrýnis, frétt á vef sínum. Hún byrjar svona:
Ekki er ljóst hvað verður um IPA-styrkina sem Ísland hefur fengið frá Evrópusambandinu vegna aðlögunar að sambandinu nú þegar ótímabundið hlé hefur verið gert á aðildarviðræðunum.
Fjögur ár eru síðan Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu. Fá mál hafa fengið meiri umfjöllun fjölmiðla en aðildarumsóknin. Í viku hverri birtast margar blaðagreinar um kosti og galla þess að vera í Evrópusambandinu.
Samt virðist þjóðin ekki vera upplýstari um málið en svo, að það er ekki einu sinni á hreinu í hverju aðildarumsóknin er fólgin. Meira að segja þeir sem eiga að sjá um að upplýsa þjóðina virðast ekki sammála um hvað gerist þegar þjóðir sækja um aðild að ESB.
Er það ekki frekar slappt eftir margra ára linnulausar umræður?
Er nú ekki kominn tími til að upplýsa þjóðina um málið?
Og kannski er fyrsta skrefið að samfélagsrýnar landsins komist til botns í því?
Myndina tók ég í Hvalvatnsfirði. Vonandi kemst ég þangað í sumar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.5.2013 | 10:21
Lýsi í brotsjó
Lengi hafa Íslendingar stundað allskonar orðaskylmingar. Þykir sá hafa náð mestri leikni í íþróttinni sem mest hamast með sverðinu og kemur höggi á sem flesta. Þarf kannski engan að undra að landsmenn fagni nýrri tækni í samskiptum sem nýjum vopnum til mannorðsvíga og svívirðinga og beiti henni á þann veg.
Málið má samt nota til annars en að meiða og niðurlægja. Maðurinn getur hæglega talað beitt og lipurt til að upphefja og hrósa. Sagan geymir mörg dæmi um uppbyggilega og jákvæða gagnrýni orðsnillinga.
Atli hét einn þræla Geirmundar heljarskinns, eins ættgöfugasta landnámsmanns Íslands. Sá hann um búrekstur fyrir húsbónda sinn norður á Hornströndum. Eitt sinn skaut þrællinn skjólshúsi yfir fjölskyldu á hrakhólum. Vildi hann ekki taka við neinni greiðslu fyrir viðvikið því Geirmundur ætti nógan mat.
Þórleifur Bjarnason rifjar upp þessa sögu í Hornstrendingabók sinni og segir:
Þegar þeir Geirmundur og Atli fundust, spurði Geirmundur, hví hann var svo djarfur, að taka slíka menn upp á kost hans." Því," svaraði Atli, að það mundi uppi meðan Ísland væri byggt, hversu mikils háttar sá maður muni verið hafa, að einn hans þræll þorði að gera slíkt honum óaðspurðum." Geirmundur svaraði honum, að fyrir tiltæki þetta skyldi hann þiggja frelsi og bú það, er hann varðveitti.
Þúsund árum eftir að Geirmundur heljarskinn var horfinn af sjónarsviðinu gerðist svipuð saga á sömu slóðum. Þórleifur segir hana líka í bók sinni.
Unglingspilturinn Guðni Kjartansson tók sér hest til reiðar á leið sinni til sjóróðra án þess að vita hver eigandi fararskjótans væri.
Kom í ljós að hesturinn var eign stórlynds bónda í Aðalvík, Sigurðar á Læk, sem var meiri höfðingi í lund en efnum" eins og Þórleifur orðar það. Hafði Sigurður orð á sér fyrir að vera ofsafenginn við vín.
Vinir Guðna höfðu miklar áhyggjur af viðbrögðum bóndans ef hann frétti af hestráninu. Einkum var gamall maður, Einar að nafni, kvíðinn fyrir hönd hins unga manns.
Gefum Þórleifi orðið:
Nokkru seinna var það landlegudag einn, að sú fregn barst í verbúðina, að Sigurður á Læk væri kominn í Skáladal; væri hann hreifur af víni og hefði við orð að finna sveinstaula þann, sem sýnt hefði honum vanvirðu og minnka hann nokkuð. Einar gamli hvítmataði augunum á Guðna og sagði:
Mikil er ógæfa þín, drengur minn."
Svo stundi hann eins og ætti að flytja Guðna á höggstokkinn að honum ásjáandi.
Nokkru seinna var hurðarskrifli búðarinnar hrundið upp og kallað í dyrum úti:
Er Guðni Kjartansson svo nærri, að hann megi heyra mál mitt?"
Vissu þá allir, að þar mundi Sigurður.
Guðni kvað svo vera.
Er það satt, sem mér er tjáð, að þú hafir án aðspurnar tekið hest minn og riðið honum inn á heiði? Og með hverju hyggst þú að bæta óvirðu þessa, ef sönn er?"
Satt er það, að hest þinn tók ég án aðspurnar við þig, en því aðeins gerði ég það, að þig vissi ég mestan höfðingja til þess að skilja þörf uppgefins ferðamanns, og mundi sæmd þín meiri, er það spyrðist, að umkomulaus unglingur hefði slíkt þorað að gera og þú umborið."
Svör hins unga manns snertu Lækjarbóndann á sama hátt og svör Atla þræls Geirmund heljarskinn á sínum tíma. Guðni fékk fyrirgefningu og leyfi til að nota hesta Sigurðar hvenær sem hann þurfti þeirra.
Einari gamla létti mjög við þessar málalyktir. Þegar bóndi var farinn sagði hann við Guðna:
Mikið mátt þú lofa guð fyrir kjaftinn á þér, Guðni. Eitt orð eins og lýsi í brotsjó.
Í gamla daga brugðu menn stundum á það ráð að hella lýsi í sjó þegar vont var í hann. Dró brákin úr ölduganginum. Sérstök áhöld, bárufleygur og ýlir, voru notuð í þessum tilgangi.
Orð geta virkað eins og lýsi í brotsjó. Stundum þarf ekki nema eitt orð til að lægja miklar öldur.
Það er líka orðsnilld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2013 | 19:44
Öfgafull og villandi ESB-umræða
Opinberri umræðu hættir til að pólaríserast", færast til beggja öfga, verða svarthvít og annaðhvort eða, þar sem ekkert pláss er fyrir litbrigði eða stig á milli hinna tveggja póla.
Það hefur til dæmis gerst með hina svonefndu upplýstu" umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þar höfum við annars vegar froðufellandi landráðamenn sem sjá engan löst hjá Sambandinu og vilja fórna fullveldi og auðlindum til að geta komist til fyrirheitna landsins - og eygja jafnvel von um þægilega innivinnu í Brussel.
Á hinum pólnum er þröngsýn hagsmunagæsluklíka á sauðskinnsskóm sem hatar Evrópu og er haldin útlendingafóbíu. Fólk sem vill einangra landið og jafnvel banna söngvakeppnina - sé mark takandi á prófessor í Háskóla Íslands.
En nú þykir mér ráð að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorir tveggja hafi nakkvað síns máls," sagði Þorgeir Ljósvetningagoða í frægri þingræðu fyrir margt löngu þegar hér var deilt um hvort Ísland ætti að gerast kristið eður ei.
Nú þegar tekist er á um hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB hafa þeir að mestu ráðið er mest vilja í gegn gangast. Sjónarmiðin yst til beggja öfga stjórna að miklu leyti umræðunni. Þó er sennilega ekki nema örlítill hluti þjóðarinnar sem getur gert þau sjónarmið að sínum. Flestir eru einhvers staðar nær miðjunni á skoðanarófinu, kannski örlítið nær því að vera hlynntir aðild en mótfallnir eða öfugt.
Ég þekki til dæmis nokkra aðildarsinna sem eru ekkert ofboðslega hrifnir af Evrópusambandinu og telja að þar þurfi ótalmargt að breytast. Engu að síður vilja þeir að Ísland gangi í sambandið, m. a. til að taka þátt í þróun þess.
Vinur minn sem er þýskur eðalkrati og eindreginn stuðningsmaður Evrópusambandsins varar okkur Íslendinga á hinn bóginn við því að ganga í ESB. Til þess þyrftum við að hans mati að fórna miklu en fengjum lítið í staðinn.
Það stenst ekki að þeir sem efast um að Ísland eigi erindi í ESB séu þar með andevrópusinnar. Ég er mikill aðdáandi og unnandi Evrópu, bjó um tíma á meginlandi álfunnar, sótti mér þangað menntun, á þar góða vini og ferðast oft um Evrópulönd. Ég vil endilega að Ísland hafi góð tengsl við Evrópu. Maður má alveg vera Evrópusinnaður þótt maður sé ekki í ESB.
Síðan fyrirfinnast þeir sem meta Evrópusambandið mikils og framlag þess í þágu friðar og stöðugleika í álfunni. Þó er ekki þar með sagt að þeir þurfi endilega að vera meðmæltir því að Ísland verði hluti þess ágæta sambands.
Ég veit líka um fólk sem er frekar hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu en telur ástandið innan þess mjög óstöðugt og vill bíða átekta og sjá hver framvindan verður áður en frekari skref til aðildar verða stigin.
Flestir eru held ég sammála um að Evrópusambandið hafi sennilega aldrei staðið á jafn miklum tímamótum og nú. Evrópusambandið er að liðast í sundur í kjarnanum," segir Joschka Fischer, utanríkisráðherra og varakanslari Þýskalands á árunum 1998 - 2005, í grein í Morgunblaðinu þann 4. maí síðastliðinn og heldur áfram:
Það er orðin almenn vitneskja í Evrópu að áframhaldandi fjármálakreppa muni annaðhvort tortíma Evrópusambandinu eða leiða af sér stjórnmálalegt bandalag og að án samstöðu um lausn á núverandi skuldavanda og án skrefa í átt til sameiginlegrar útgáfu nýrra skuldabréfa, verður evrunni ekki bjargað. Slík skref munu hafa í för með sér að víðtæk tilfærsla á fullveldi verður óhjákvæmileg.
Ekki bara andstæðingar aðildar telja skynsamlegt að hinkra og sjá hvaða stefnu Evrópusambandið tekur til að það sé skýrt í hvaða samband eigi að ganga - eða ekki.
Nú eru fjögur ár síðan Ísland hóf aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það segir sína sögu um stöðuna í þessu máli að þrátt fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild stendur aðildarferlið enn yfir.
Þjóðin er illa að sér um í hverju þessar viðræður eru fólgnar, þvert á þá kröfu Evrópusambandsins að þegnum umsóknarríkja sé haldið vel upplýstum um þær efnhagslegu og pólitísku breytingar sem ríkin þurfa að ráðast í og eru hluti aðildarferlisins.
Ef leita á álits þjóðarinnar um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram verður að byrja á því að upplýsa fólk um hvernig þær gangi fyrir sig og hvers eðlis þær séu.
Myndin: Snjóþungt er í Fljótum en óvíða er sumarfegurra en þar. Þessa mynd tók ég í fyrra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.5.2013 | 13:04
1. maí ávarp mitt
Fyrir nokkrum árum andaðist hér í bæ öldruð sómakona sem var einlægur sósíaldemókrati. Hún og maðurinn hennar studdu Alþýðuflokkinn gamla og síðar Samfylkinguna. Hjónin höfðu bæði unnið mikið starf í þágu þeirra flokka.
Ein bestu vinahjón þessara eðalkrata voru gegnheilt sjálfstæðisfólk. Rósirnar og fálkarnir gátu tekist á um stjórnmál og sýndist þá sitt hverjum. Aldrei komu ólík viðhorf til þjóðmála þó niður á vináttu þessara hjóna. Gagnkvæm virðing einkenndi öll þeirra samskipti.
Svo mikla virðingu báru þau fyrir hugsjónum hvert annars að þegar eitthvað stóð til hjá Sjálfstæðisflokknum hjálpaði kratakonan vinkonu sinni með því að baka fyrir hana.
Ef bera átti hnallþórur á borð á mannfögnuðum þeirra krata stóð íhaldskonan sveitt við bakaraofninn til að geta veitt vinkonu sinni sama liðsinnið.
Á hlaðborðum íhaldsins mátti því sjá kratakleinur og annað sósíaldemókratískt sætabrauð og af sömu ástæðum gæddu soltnir kratar sér á íhaldsbláberjamöffins og öðru konservatívu kökujukki.
Þannig studdu þessar vinkonur hvor aðra í því sem þær tóku sér fyrir hendur. Hvor átti sér sínar hugsjónir og vinátta þeirra var meðal annars í því fólgin að hjálpa hinni að vinna að því sem hún taldi mikilvægt.
Í dag sendi ég öllum sem eiga sér hugsjónir um betri heim mínar bestu kveðjur og ósk um blessun Guðs.
Verum dugleg að baka hvert fyrir annað.
Myndin er af Stærri-Árskógskirkju
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2013 | 10:24
Kjötskrokkur nuddar saman hrosshári og kattargörnum
Í Kirkjublaði frá árinu 1934, 11. tbl. bls. 146 - 149, las ég þessa snilldargrein eftir séra Jakob Jónsson:
Eg kem inn á málverkasýningu, þar sem stórir veggir eru þaktir með ótal myndum. Gestirnir streyma út og inn um dyrnar, hugfangnir og glaðir. Eg nem staðar frammi fyrir mynd einni og virði hana fyrir mér. Einhver kemur upp að hliðinni á mér og horfir eins og eg.
Eftir hvern er þessi mynd?" spyr eg.
Eftir hvern?" étur maðurinn eftir mér.
Já, hvað heitir málarinn, sem hefir gert hana", held eg áfram.
Þá hlær maðurinn, dátt og innilega. Hann leggur hendina á öxlina á mér og segir með mesta lítillæti, eins og þegar menn tala við einfeldninga:
Þú heldur þó víst ekki, lagsmaður, að það séu til málarar?"
En þetta er nú einmitt það, sem eg hefi haldið, og þegar maðurinn gengur burtu, hnakkakertur eins og sigurvegari, er eg enn að brjóta heilann um, hvernig hægt sé að samríma það heilbrigðri skynsemi, að málverk geti orðið til án málara.
----
Eg geng um göturnar að kvöldlagi. Það sindrar á lygnan fjörðinn. Fjöllin gnæfa yfir höfði mér eins og risar í hvítavoðum. Úti í geimnum blikar á stjörnur. Það eru hnettir, sólir, sem lúta hárfínum, nákvæmum lögmálum eins og jörðin, sem eg geng utan á. Menn ganga fram og aftur, hugfangnir og glaðir. Eg nem staðar og virði fyrir mér hinn mikilfenglega yndisleik náttúrunnar. Einhver kemur upp að hliðinni á mér og horfir eins og eg. -
Hver hefir skapað þetta allt?"
Ha - skapað?" étur maðurinn eftir mér.
Já, hvílíkur er sá guð, sem hefir gert heiminn?" held eg áfram.
Þá hlær maðurinn dátt og innilega. Hann leggur hendina á öxlina á mér með mesta lítillæti, eins og þegar menn tala við einf eldninga: Þú heldur þó víst ekki, lagsmaður, að það sé til guð?"
En þetta er nú einmitt það, sem eg hefi haldið, og þegar maðurinn gengur burtu, hnakkakertur eins og sigurvegari, er eg enn að brjóta heilann um það, hvernig hægt sé að samríma það heilbrigðri skynsemi, að heimurinn hafi orðið til án anda, sem hugsi, viti og vilji - án guðs.
----
Eg kem aftur á málverkasýningu, þar sem stórir veggir eru þaktir með ótal myndum. Þarna eru margir menn staddir í þeim tilgangi að njóta listaverkanna og öðlast þekkingu á þeim. Einn þeirra nemur staðar rétt hjá mér, framundan stórri og mikilfenglegri mynd.
Þessa mynd verð eg að athuga", segir hann og gengur fast að henni. Upp úr tösku sinni dregur hann nákvæmt stækkunargler, mælikvarða, vasahníf og einhver efnarannsóknaráhöld, sem eg veit engin deili á. Svo hefst rannsóknin. Hann mælir með stakri umhyggju, hve mikið fer af rauðum og bláum eða grænum lit að flatarmáli. Hann skrifar hjá sér, hvar myndin er hrufótt og hvar hún er slétt; Hann skefur upp eilítið af málningunni og rannsakar efnasamsetning hennar, og um leið reynir hann að sjá, hvaða tegund af striga hefir verið notuð til að mála á. Í mesta sakleysi fer eg til mannsins og spyr, hvort hann sé genginn af vitinu. Eg reyni að leiða honum fyrir sjónir, að þó að þetta sé allt saman til að auka þekkingu hans á málverkinu, þá sé aðalatriðið eftir enn. Eg vil fá hann til að nema staðar með ró og stillingu andspænis myndinni og láta hana verka á huga sinn, svo að hann finni anda snillingsins, sem skóp hana, finna þær hræringar í lifandi sál höfundarins, sem urðu undirrót hins dásamlega verks.
Maðurinn horfir á mig, og mér finnst eg hafa séð hann áður. Þá hlær hann dátt og innilega. Hann leggur hendina á öxl mér og segir með mesta lítillæti, eins og þegar menn tala við einfeldninga:
,Eg skal segja þér, góðurinn minn, við hérna viðurkennum ekki aðra þekkingu en þá, sem náttúruvísindin veita, hvort sem um er að ræða eitt málverk eða alla tilveruna".
Naumast er það. -
Rétt á eftir fer eg út. Hver veit nema eg átti mig betur á þessum sannleika undir beru lofti. Margt fólk er á götunni. Ungur maður og ung stúlka leiðast. Hvílík hrifning í augum þeirra. Þau hljóta að sjá og finna eitthvað stórkostlegt, þegar þau líta hvort á annað. En hvað segir sá heilagi Sírak hér um?" Hvað segja náttúruvísindin unga manninum um unnustu sína? Þau segja frá líkama, sem er samansettur af ýmsum tegundum fruma, er skipa sér í vefi. Þau segja frá öndun og meltingu, hringrás blóðsins, hreyfingum hjartans, starfsemi tauganna o. s. frv. Er ekki von, að maðurinn verði ástfanginn? En er nú víst, að hann finni ekki líka eitthvað, sem ekki verður mælt eða vegið? Finnur hann ekki leggja á móti sér yl heitra, ástúðlegra tilfinninga. Sér hann ekki inn í djúp sálar, sem er hafin upp yfir öll stækkunargler, mælikvarða og efnarannsóknaráhöld?
Eg nem staðar við stóra götuauglýsingu. Frægur fiðluleikari ætlar að halda fiðluhljómleika kl. 8 í kvöld. Það er útlagt á mál náttúruvísindanna: Kjötskrokkur með dálitlu af beinum og innýflum ætlar að nudda saman hrosshári og kattargörnum kl. 8 í kvöld.
Sancta simplicitas!
Loks er eg einn míns liðs. Eg stend á götutroðningi, sem liggur eftir gráum mel. Þá kemur þetta dásamlega, sem ekki er hægt að lýsa á mannlegu tungumáli. Fjöllin sjást álengdar og hafið fellur út að sjóndeildarhringnum eins og sléttur, sindrandi dúkur. Hvernig á eg að segja frá þessu? Ef eg horfi á hendina á mér, sé eg hana, eins og hvern annan hlut. En auk þess finn eg, að hún er partur af sjálfum mér, líf hennar er þáttur úr mínu eigin lífi. í þetta sinn nær tilfinning mín lengra. Eg finn, að sami andinn, sem er að verki innst og dýpst í sjálfum mér, hann er líka í fjöllunum, steinunum, sjónum, jörðinni, loftinu. Annaðhvort víkkar meðvitund mín út yfir allt, eða hún hverfur inn í hina dularfullu og dásamlegu sál alls heimsins, andann, sem allt lifir og hrærist í. Eg finn, hvernig allífið ólgar og svellur, svo að hræringar þess ná út í smæstu agnir efnisins. Á þessu augnabliki skil eg og veit, að eg er tengdur órofa böndum sérhverri lifandi veru og jafnvel dauðri náttúrunni. Óumræðileg sæla gagntekur mig; það er ekki venjuleg gleði. En allt er þetta þó raunverulegt og blátt áfram - það er innsti kjarni veruleikans.
Eg veit, að sá, sem ekki viðurkennir aðra þekkingu en þá, sem náttúruvísindin veita, við notkun allskonar mælitækja, hvort sem um er að ræða eitt málverk, mann eða alla tilveruna, hann lítur á orð mín sem einskisvert hjal. En allir þeir, sem einhverntíma hafa fundið anda guðs snerta sig, munu kannast við dásemd þeirrar reynslu. Og þeir munu kannast við það, að í tilverunni sem heild, ekki síður en í einu málverki eða manni, er starfandi andi, sem ekki verður mældur eða veginn, heldur fundinn.
Myndin: Sr. Matthías Lystigarðsins á Akureyri í vorsól gærdagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2013 | 10:02
Leitin að fylgistapi Sjálfstæðisflokksins
Þessa dagana leita menn logandi ljósi að þeim kjósendum sem ekki ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í komandi kosningum:
Hverjir eru þeir, hvað vilja þeir, hvert fóru þeir?
Ekki skortir svörin.
Sumir vilja meina að skýringin á að svona fáir ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sé sú, að hann hafi svipaða afstöðu til Evrópusambandsins og mikill meirihluti þjóðarinnar.
Aðrir segja að flokkurinn bjóði ekki nógu vel í aðstoð við skuldsett heimili.
Enn aðrir halda því fram að landsfundarsamþykktin sem ekki var samþykkt á landsfundinum, um að lög skyldu byggð á kristnum gildum, sé að þvælast fyrir flokknum.
Og síðan eru þeir sem benda á að sennilega hafi flokkurinn rangan formann.
Að ég tali nú ekki um það vinsæla viðkvæði í íslenskum stjórnmálum og allsherjarsmjörklípu, að þetta sé allt saman Davíð Oddssyni að kenna.
Skýringarnar á brotthvarfi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru ábyggilega margar en að mínu mati nefndi formaður flokksins þá mikilvægustu í hinu fræga sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Þar sagði Bjarni Benediktsson:
Ég held að okkur hafi, okkur Íslendingum, ekki tekist alveg nægilega vel að gera upp við Hrunið. Og ég skal alveg segja það fullum fetum að Sjálfstæðisflokknum hefur ekki heldur tekist að gera nægilega upp við Hrunið og það er á endanum nefnilega bara einn mælikvarði um þetta. Hann er ekki sá hvort að mér finnist að það hafi tekist nægilega vel. Hann er miklu frekar sá hvort að það er almenn tilfinning fólks að það hafi tekist nægilega vel.
Leiðtogar sem þannig tala gætu breytt leit að fylgistapi í leit að fylgisaukningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2013 | 22:14
Margt býr í orði
Nýlega heyrði ég gamla konu rifja upp barnaskólagöngu sína. Hún kvaðst hafa verið lögð í einelti og bætti síðan við:
En þá var ekki búið að finna upp orðið."
Meira en sjötíu ár eru síðan þessi gamla kona var barn og minningarnar eru enn sárar. Einelti var til þá eins og nú. Munurinn er sá, að þá var ekki til orð yfir einelti. Það var ekki skilgreint. Það hafði ekki öðlast form.
Og þess vegna var ekki hægt að grípa til viðeigandi aðgerða gegn því.
Nú vitum við hvað einelti er. Við höfum gefið þessari hegðun heiti, skilgreint hana og rannsakað. Hún hefur form. Hún er orðin hugtak. Hún heitir eitthvað.
Þessa dagana er ég að lesa skýringarrit um Fyrstu Mósebók eftir Gerhard von Rad. Bókin var hluti af námsefni mínu þegar ég lærði guðfræði í Háskóla Íslands fyrir um það bil þrjátíu árum. Síðan þá hef ég haft dálæti á þessu vandaða riti.
Í öðrum kafla Fyrstu Mósebókar stendur:
Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera.
Í riti sínu beinir von Rad athyglinni að því samhengi á milli orðs og veruleika sem birtist í þessari sögu. Hann segir hana segja sitt um uppruna og eðli tungumálsins. Áherslan sé ekki á uppgötvun orðanna heldur þann hæfileika að finna samræmi á milli fyrirbæris og heitis þess.
Von Rad heldur því fram að með því að gefa fyrirbærunum nöfn sé manneskjan að ráðast gegn óreiðu tilverunnar, koma á hana böndum og búa til úr henni reglu. Hann bendir á að í Austurlöndum var sá sem gaf einhverju nafn að taka sér vald. Það að vita nafn einhvers fól í sér ákveðin völd yfir honum. Nafngjafi var valdhafi.
Einu sinni hafði einelti ekkert nafn. Þegar maðurinn fór að nota ákveðið orð um þá hegðun var hann búinn að stíga fyrsta skrefið til að ná tökum á henni. Stundum erum við að gera grín að orðum sem einu sinni voru ekki til; áráttuþráhyggjuröskun, ofvirkni, einelti, lesblinda, athyglisbrestur, áfallahjálp, skuldavandi, greiðsluvilji, aflandsgengi og hrægammasjóðir. Allt eru þetta nöfn sem maðurinn hefur gefið hinum ýmsu fyrirbærum í þeim tilgangi að skilja þau betur og ná á þeim tökum.
Og af því að nú eru kosningar framundan sýnir sá slagur oft að það að kalla hlutina nöfnum eða ónefnum getur gefið vald og slegið valdavopn úr höndum andstæðinga; náhirð, þjóðrembingur, útrásarvíkingur, helferðarstjórn, ísklafi og Kúba norðursins, svo nokkur séu nefnd.
Margt býr í orði og fleira en landslagið væri einskis virði ef það héti ekki neitt.
Bloggar | Breytt 11.4.2013 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2013 | 14:30
Fermingardagurinn
Nú standa yfir fermingar og þessa helgi fermdust 22 börn í Akureyrarkirkju, þau fyrstu af um það bil 130 fermingarbörnum ársins 2013. Hér eru nokkrar myndir frá síðustu spennuþrungnu mínútunum fyrir fermingarathöfnina.
Börnin voru mætt laust fyrir klukkan 10 í morgun en messan hófst kl. 10:30. Konur úr Kvenfélagi Akureyrarkirkju tóku á móti börnunum og hjálpuðu þeim í kyrtlana.
Margar telpnanna fóru eldsnemma á fætur til að komast í hárgreiðslu. Drengirnir gátu flestir sofið lengur þó að nú séu jafnréttistímar.
Fermingardagurinn er hamingjudagur. Þá eiga börnin að finna hvað þau eru okkur dýrmæt og hvað við erum þakklát fyrir þau.
Margir eru búnir að leggja mikið á sig til að fermingardagurinn verði sem ánægjulegastur. Veislur hafa verið útbúnar, föt keypt, gjafir valdar og ástvinir ferðast landshluta á milli og koma jafnvel frá útlöndum til að samfagna fermingarbarninu. Krakkarnir eru líka búnir að hafa mikið fyrir deginum og hafa til dæmis sótt fermingarfræðslu allan veturinn og lært sálma, vers, boðorðin tíu og ýmislegt fleira. Nú er komið að lokaáfanganum. Dagskrá fermingarmessunnar er brotin saman og henni stungið inn í splunkunýja sálmabókina.
Síðustu andartökin í hinni ófermdu tilveru þessara herramanna.
Organistinn Sigrún Magna Þórsteinsdóttir æfir Stúlknakór Akureyrarkirkju sem sá um sönginn í fermingarmessunni.
Fermingarbörnin búin að stilla sér upp í röðina nokkrum sekúndum áður en kirkjuklukkurnar hringdu og messan byrjaði. Þetta var yndislegur hópur.
Guð blessi þau!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.4.2013 | 22:35
Þér var nær að kaupa þér íbúð
Ég skil ekki fullkomlega hvernig Framsóknarmenn ætla að fara að því að lækka húsnæðislánin um 20%. Ég útiloka samt alls ekki að það sé hægt. Ábyggilega eru mörg góð rök til fyrir því að slík lækkun sé hagkvæm fyrir þjóðarbúið og heimilin.
Ég er heldur ekki alveg að fatta hvernig Sjálfstæðismenn ætla að ná fram svipaðri lækkun lána með skattaafslætti. Það skilningsleysi mitt þýðir þó alls ekki að hugmyndin þurfi að vera slæm.
Um það bil helmingur landsmanna virðist þó skilja rökin fyrir þessum leiðum nógu vel til að hyggjast kjósa ofangreinda tvo flokka í komandi kosninum, töluvert fleiri þann fyrrnefnda, enda gefur hann afdráttarlausari og skýrari fyrirheit í þessum efnum en hinn.
Enda þótt ég sé ekki nógu klár til að skilja lækkunarútreikninga þessara flokka til fulls get ég vel skilið þann stóra hóp íslenskra lánþega sem er orðinn hundþreyttur og sársvekktur á hlutskipti sínu og vill sjá róttækar breytingar.
Og jafnvel og ég skil örvæntingu þeirra fjölmörgu sem hamast við að greiða skilvíslega af útbólgnum húsnæðislánum sínum án þess að þau lækki, skil ég illa þá afstöðu sumra stjórnmálamanna sem segja að annað hvort sé ekkert hægt að gera fyrir skuldsett heimili í þessu landi eða ekkert þurfi að gera fyrir þau.
Ekki er langt síðan breskir ellilífeyrisþegar stóðu frammi fyrir því að hafa tapað peningunum sínum vegna þess að þeir lögðu þá inn í íslenskan banka. Ég skil vel þau sem fundu til mikillar samúðar með þessu gamla fólki. Mörgum fannst ekki koma annað til greina en að íslenskir skattgreiðendur bættu því eignatapið.
Illskiljanlegra er að heyra sama fólk lýsa því yfir, að ekkert megi gera fyrir ungt fólk á Íslandi sem tapaði öllu því sem það átti í fasteignum sínum í Hruninu.
Einu sinni krafðist hópur Íslendinga þess, að íslenskir skattgreiðendur bættu tap þeirra sem ávöxtuðu peninga sína á Icesave-hávaxtareikningum hins einkarekna Landsbanka.
Nú má það sama fólk ekki til þess hugsa að þeir Íslendingar sem notuðu sparifé sitt til að kaupa sér þak yfir höfuðið fái það tap sitt á Hruninu að einhverju leyti bætt, því einhver kostnaður gæti lent á íslenskum skattgreiðendum.
Ég hef mikinn skilning á gildi samhjálpar. Þegar fólk tapar húsum sínum í náttúruhamförum finnst mér auðskiljanlegt samfélagið reyni að bæta missinn eins og það er hægt.
Ég hef síður skilning á þeirri framkomu, að þegar fólk missir húsin sín í efnahagslegum hamförum, þá eigi samfélagið helst að þvo hendur sínar og segja:
Því miður. En þér var nær að kaupa þér íbúð."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)