Bankar sinni líknarmálum

DSC_0479 

Vítt og breitt um heiminn starfrækja kirkjur spítala einar og sér eða í góðri samvinnu við ríki, um árabil var aðalspítali Íslands rekinn af kaþólsku kirkjunni og þar að auki reistur fyrir söfnunarfé frá Evrópu, Landspítalinn í Reykjavík var ennfremur að hluta byggður fyrir fjármuni sem íslenskar konur söfnuðu, stór hluti tækjakosts á íslenskum sjúkrastofnunum er keyptur fyrir gjafafé og íslenska heilbrigðiskerfið væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki notið gjafmildi, örlætis og fórnfýsi hinna ýmsu líknarfélaga sem á landinu starfa.

Hér á landi starfrækir Þjóðkirkjan eina öflugustu hjálparstofnun þjóðarinnar, Hjálparstarf kirkjunnar, sem einnig sinnir líknarstarfi í útlöndum.

Í nýársprédikun sinni ræddi biskup Íslands hið bágborna ástand sem er á tækjakosti stærstu og mikilvægustu sjúkrastofnunar okkar. Hún sagði kirkjuna vilja „taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans".

Það er ekki nema gott og blessað að menn hafi skoðanir á þessum hugmyndum biskupsins og skiptist á þeim. Við skulum endilega ræða hvort það sé hlutverk kirkjunnar að standa í svona löguðu.

Tvö undanfarin ár hefur verið efnt til landssöfnunarinnar „Á allra vörum". Í fyrra var það sem safnaðist nýtt til að koma á stuðningsmiðstöð fyrir langveik börn með sjaldgæfa og ólæknandi sjúkdóma. Söfnunin gekk mjög vel og söfnuðust um 100 milljónir króna.

Bakhjarl söfnunarinnar var Landsbanki Íslands.

Nú er Landsbanki Íslands ekki líknarfélag en samt minnist ég ekki umræðna um hvort það væri í verkahring bankans að standa í svona söfnun.

Ég minnist þess heldur ekki að forráðamenn bankans hafi verið sakaðir um það af ráðamönnum þjóðarinnar að þeir væru að básúna eigin góðmennsku  með því að leggja söfnuninni lið eða að þingmenn hafi talað um að með því væri bankinn að taka pólitíska afstöðu.

Þaðan af síður minnist ég þess að Ríkisútvarpið hafi séð ástæðu til að fjalla um það í fréttaskýringarþætti  hvort bankinn væri ef til vill að nýta sér málstaðinn til að bæta ímynd sína.

Ef mig misminnir ekki fór engin umræða fram um það í fyrra hvort það ætti ekki einfaldlega að vera hlutverk ríkisins að sinna þörfum langveikra barna með ólæknandi sjúkdóma og því ætti ekki að „útvista verkefninu" til Landsbankans eða hvort bankinn gæti ekki alveg eins efnt „til söfnunar til að endurnýja ljósritunarvélar í stjórnarráðinu"  - eða hvort ekki mætti bara setja upp bauka í Hörpunni „undir frjáls framlög fyrir gleðipillur handa Mannanafnanefnd".

Það er líka ágætt að menn ræði um það hvort líta beri á Þjóðkirkjuna sem ríkisstofnun þótt hún sé sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og hvort það sé þá við hæfi að ríkisstofnun standi í svona söfnunum.

Ég er samt nokkuð viss um að ekki var rekið upp bofs um slíkt í fyrra - þó að Landsbankinn sé ríkisbanki.

Ekki hef ég á móti því að bankar styðji góð málefni og gleðst þegar þeim gengur vel á því sviði.

Það er samt umhugsunarvert ef það er þannig á Íslandi að þar sé sjálfsagðara að bankar sinni líknarmálum en líknarfélög.


Jólakveðja 2012

Copy of DSC_0529 

 

Kraftaverk þess smáa

 

Nóttin skrýðist bláum mánans bjarma,

barnið sækir skjól í móðurarma,

jatan, stjarnan, hirðarnir í haga,

hefst nú þessi gamalkunna saga.

 

Eins og ljós sem bjartur dagur dylur

deyr sú rödd ef skark og glaumur hylur.

Þeir sem allar gnóttir heimsins hafa

hætta oft að njóta lífsins gjafa.

 

Fuglinn á sér björg í reyniberi,

bergir af því mikla nægtakeri.

Láttu jólabjarmann milda, bláa

benda þér á kraftaverk þess smáa.

 SAJ

 

Gleðileg jól, kæru vinir!


Landráðamenn og þjóðrembur

 DSC_0130

Á Íslandi eins og í öðrum löndum eru skiptar skoðanir um ágæti aðildar að ESB. Menn eru ýmist hlynntir henni eða andvígir. Færi hér fram upplýst og siðuð umræða skiptust menn á skynsamlegum og öfgalausum rökum um málið. Það gerist þó ekki. Fyrir því eru að mínu mati einkum þrjár ástæður.

Fyrsta ástæðan er sú að á Íslandi er varla til siðs að ræða mál. Menn henda sér ofan í skotgrafir og öskra upp úr þeim. Í Bandaríkjunum er almenn skotvopnaeign mikið þjóðfélagsböl. Hér er almenn skotgrafaeign ægilegur bölvaldur. Landið er sundurgrafið og ofan í skotgröfunum eru menn ekki annaðhvort með eða á móti aðild Íslands að ESB; þeir verða annaðhvort svikulir landráðamenn sem hata allt íslenskt eða ofstækisfullar þjóðrembur sem er meinilla við allt útlenskt.

Í öðru lagi hefur pólitíkinni tekist að flækja þetta mál. Fyrst ekki var meirihluti fyrir því að ganga í ESB á sínum tíma var brugðið á það ráð að sækja um aðild ESB undir því yfirskini, að umsóknin væri ekki aðildarumsókn heldur könnun - eða hin margfræga „pakkaskoðun". Þannig gat stjórnmálaflokkur sem fyrir kosningar var á móti aðild að ESB réttlætt það að sækja um aðild að ESB eftir kosningar.

Þrátt fyrir að margoft hafi komið fram, að ESB líti þannig á að ríki sem sækja um aðild ætli sér þangað inn, er þessu enn haldið að þjóðinni: Ísland er ekki að sækja um aðild að ESB vegna þess að þjóðin vilji þangað inn heldur til að sjá hvernig samningi hægt sé að ná.

Þetta er margtuggið ofan í þjóðina og gefið í skyn að samningaviðræðurnar felist einkum í að sækja sér allskonar undanþágur frá lögum ESB. Breytir engu þótt það sé ítrekuð stefna Evrópusambandsins að ekki sé hægt að semja um grundvallarreglur þess, eða eins og ESB sjálft útskýrir aðildarferlið:

Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.

Þetta hafa talsmenn ESB oftar en einu sinni áréttað, með því að minna á að Ísland hafi sótt um aðild að ESB en ekki öfugt og með nýlegri ályktun ráðherraráðs ESB, en þar segir:

Ráðið minnir á að aðildarviðræður miða að því að Ísland innleiði lagabálk ESB og hrindi honum í framkvæmd þegar til aðildar kemur.

Flækjustig umsóknarinnar er svo hátt að drjúgur hluti þeirrar ríkisstjórnar sem sótti um aðild að ESB áskilur sér rétt til að berjast gegn aðildinni.

Því er ennfremur haldið fram að umsóknin feli í sér samninga um það sem ESB segir óumsemjanlegt.

Þar að auki mótmælir ríkisstjórnin því eindregið, að í umsóknarferlinu felist aðlögun að reglum ESB. Engu að síður ætlar hún að þiggja milljarðastyrki frá ESB vegna aðlögunarinnar sem hún segir þjóð sinni að ekki eigi sér stað.

Svo hefur stjórnmálamönnum tekist að flækja þetta mál, með dyggri aðstoð fjölmiðla, að þeir sem berjast fyrir því að þjóðin fái að segja sitt um aðildarferlið, eru kallaðir andlýðræðislegir. Hinir sem neyta allra bragða til að afstýra því að þjóðin sé spurð um vilja sinn til að ganga í ESB, titla sjálfa sig á hinn bóginn lýðræðissinna.

Rökin fyrir þessum endaskiptum eru þau, að þjóðin geti ekki tekið upplýsta afstöðu til ESB, henni sé ómögulegt að mynda sér skoðun á málinu, nema fyrir liggi samningur. Þó að ljóst sé - alla vega af hálfu ESB - að sá samningur snúist um það hvenær og hvernig Ísland taki upp 100.000 síðna lagabálk sambandsins og að um hann verði ekki samið, er því blákalt haldið fram að ekki sé nóg að kynna sér það helsta í þessum lagabálki til að geta myndað sér upplýsta skoðun á því hvort maður hafi áhuga á að þjóðin geri hann að sínum.

Og ekki nóg með það. Í nýlegri fréttatilkynningu utanríkisráðuneytis Íslands segir:

Utanríkisráðherra sagðist sannfærðari en nokkru sinni fyrr um að aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi þjóna hagsmunum Íslands.

Utanríkisráðherra Íslands er einmitt einn þeirra sem heldur því fram að íslenskur almenningur sé ófær um að taka upplýsta afstöðu til aðildar Íslands að ESB fyrr en fyrir liggi samningur um hvernig og hvenær Ísland tekur upp hinn óumsemjanlegan lagabálk ESB.

Það sem gildir um íslenskan almenning gildir þó ekki um alla, þar á meðal utanríkisráðherra. Hann hefur myndað sér skýra afstöðu til aðildar, er m. a. s.  sannfærðari en nokkru sinni fyrr um málið.

Þriðju ástæðuna fyrir hinni villandi umræðu um þetta mál er svo að finna í íslenskum fjölmiðlum:

Þeir hafa enn ekki séð ástæðu til að fjalla um hvað felist í umsókn um aðild að ESB, hvernig aðildarferlið gangi fyrir sig eða hver hinn 100.000 síðna lagabálkur ESB sé, sem Ísland er að taka upp í því ferli.

Og þeir hafa ekki spurt utanríkisráðherrann að því hvernig hann geti haft upplýsta og eindregna afstöðu til málsins án þess að hafa séð samninginn sem hann segir nauðsynlegan fyrir upplýsta afstöðu okkar hinna.


Jólaþjófar

DSC_0017 

„Hátíðir þær, er vér höldum hér í heimi, eru geislar nekkverir himinríkis dýrðar, og á sá maður von, að hann muni komast til eilífs hátíðarhalds í samneyti allra heilagra annars heims, er hann heldur hér í heimi vel og grandvarlega hátíðir Krists Drottins og heilagra manna hans." (Íslensk hómilíubók)  

 

Jólin eru ekki einkaeign kirkjunnar. Þeir sem kynna sér sögu kristins jólahalds þurfa hvorki að lesa lengi né mikið til að komast að raun um að kristnir menn fundu ekki upp jólin. Upplýsingar um fæðingardag Jesú Krists eru mjög af skornum skammti og allnokkuð var liðið á kirkjusöguna þegar kirkjan fór að halda hann hátíðlegan. Þegar það gerðist urðu jólin fyrir valinu og síðan hafa flestir kristnir menn haldið jól sem fæðingarhátíð frelsarans.

Það hefur stundum orðið mönnum tilefni til að saka kristna menn um þjófnað. Hér á landi hefur því til dæmis verið haldið fram að kirkjan hafi stolið jólunum af heiðnum Íslendingum sem aðhylltust norrænan átrúnað.

En er  víst, að norrænir menn hafi verið fyrstir til að halda jól og fagna því að daginn tók að lengja á ný? Og ef svo er ekki, hvaðan stálu þeir þá jólunum? Norrænir menn voru alla vega ekki einir um að halda hátíð um þetta leyti ársins. Vítt og breitt um álfuna voru haldnar hátíðir tengdar vetrarsólhvörfum, gjarnan með trúarlegu ívafi.

Gangur himintunglanna ákvarðar tímasetninar á mörgum af helstu trúarlegum hátíðum heimsins. Jólin miðast við sólina og páskarnir við tunglið svo dæmi séu tekin. Það er hvorki kristin né heiðin uppfinning heldur eitt af því sem einkennir átrúnað mannkynsins og trúarhefðir þess: Þar er manneskjan sett í hið stóra samhengi alheimsins og þeirra lögmála sem þar ríkja.

Þessi notkun á árstíðum, sól og tungli er eitt af því fjölmarga sem er samnefnari trúarbragðanna. Hitt er svo mismunandi hvernig trúarbrögðin spila á þetta hljóðfæri himintunglanna. Þegar skammdegið hefur náð hámarki og styttist aftur fagna kristnir menn fæðingu Jesúbarnsins. Aðrir gera eitthvað annað í tilefni þeirra tímamóta. Og allir eru í sínum fulla rétti til hátíða því þótt menn séu duglegir að slá eign sinni á hin ýmsu fyrirbæri heimsins hefur engum enn sem komið er tekist að fá viðurkennt eignarhald á sólinni, tunglinu eða á mönduhalla jarðar. Þetta eiga allir menn jafnmikið. Eða réttara sagt jafnlítið.

Kristnir menn nota tónlist óspart við helgihald. Þó er óumdeilt, að tónlistin er ekki kristin uppfinning. Engum dytti samt í hug að saka kristna menn um að hafa stolið tónlistinni. Hún er sameign mannkyns og öllum frjálst að nota hana og njóta hennar.

Gangi ykkur svo vel að undirbúa jólin ykkar!


Mjaltakerfi neysluhyggjunnar

DSC_0351 

Einu sinni var aðventan hugsuð sem undirbúningur fyrir jólahátíðina. Hún var andlegur aðdragandi jóla sem meðal annars fólst í því að fólk dró úr neyslu enda heitir aðventan líka jólafasta.

Undanfarin ár hefur aðventan tekið miklum stakkaskiptum. Erill aðventunnar hefur ekki lengur þann megintilgang að undirbúa jólin, andlega og efnislega. Nú hefur aðventan gildi í sér sjálfri. Hún er ekki lengur undirbúningur, felst ekki lengur í þrálátri bið eða tómri tilhlökkun.

Nú er ekki ætlast til þess að fólk spari við sig í mat á aðventunni. Þvert á móti er mikill þrýstingur á að það noti jólaföstuna í  að belgja sig út af allskonar kræsingum. Enginn er maður með mönnum nema hann fari á að minnsta kosti á eitt jólahlaðborð.

Nú er líka mikil gróska í aðventu- og jólatónleikum og óhætt að segja að slík menningarstarfsemi sé orðinn töluverður atvinnuvegur.  Strax í byrjun nóvember fara jólalögin að hljóma á útvarpsstöðvunum. Um leið og aðventan gengur í garð hefst síðan mikil tónleikatörn í kirkjum og menningarhúsum landsins.  Ég hef grun um að stór hluti landsmanna sé kominn með hálfgert ofnæmi fyrir helstu jólalögunum loksins þegar organisti Dómkirkjunnar í Reykjavík slær fyrstu tónana í fyrsta jólasálmi útvarpsmessunnar kl. 18 á aðfangadagskvöld.

Mér finnst aðventan skemmtilegur tími og sé ekkert athugavert við það þótt fólk dúlli við sig í aðdraganda jóla. Það er samt fróðlegt að velta fyrir sér orsökinni á ofangreindum breytingum.

Í markaðssamfélaginu sýna menn mikla hugkvæmni þegar búa þarf til nýjar neysluvenjur. Egill Helgason bendir á að nú sé rekinn stífur áróður fyrir bjórdrykkju á aðventu og jólum. Jólabjórinn er ein af þessum tiltölulega nýju neysluvenjum. Eins og Egill bendir á í pistli sínum á þótti einu sinni við hæfi að gæta hófs í neyslu áfengra drykkja á jólunum. Hátíðin átti að vera barnanna. Nú er öldin önnur og þeir sakaðir um afturhald og forræðishyggju sem leyfa sér að setja spurningamerki við þennan nýja jólasið.

Sumum finnst mikil óhæfa að gagnrýna hið mikla mjaltakerfi neysluhyggjunnar þegar þar er leitað nýrra leiða til að ná nytinni úr mjólkurkúm þess. Það kerfi er samt ábyrgt fyrir stórum hluta þeirra breytinga sem eru að verða á jólamenningu landsmanna.  

Og ef verið er að breyta jólunum og aðdraganda þeirra til þess fyrst og fremst að auka neyslu, efnishyggju og misskiptingu í þjóðfélaginu, ættum við kannski að ræða þær breytingar.


Elítulýðræði

DSC_0105

Beint lýðræði felst í beinni og milliliðalausri þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku um mál þeirra.  Efla má beint lýðræði með því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er þó ekki eina leiðin til þess.

Það er í anda beins lýðræðis að færa völdin nær borgurunum og fela þeim þannig meiri ábyrgð á samfélagi þeirra. Sú tilfærsla getur gerst með því að koma á fót svonefndu þriðja stjórnsýslustigi sem yrði þá á milli sveitarstjórna og ríkis. Einnig mætti færa völd nær þegnunum með því að fjölga verkefnum og stækka valdsvið sveitarstjórna.

Við gerum lýðræðið á hinn bóginn óbeinna með því að færa það fjær borgurunum og fjölga milliliðunum.  Með því að ganga í Evrópusambandið værum við t. d.  að færa völd héðan, frá borgurunum,  til Brüssel.

Ég held að þjóðfélagsleg meðvitund fólks slævist við það að færa ákvarðanatöku um líf þess fjær því. Það er ekki mitt draumasamfélag þar sem fólk lætur sér ekki annt um eigin hag en fær einhverja valdaelítu til að vasast í lýðræðinu. Græðir á daginn og grillar um helgar.

Oft gleymist að það er ekki einungis ábyrgðarhluti að taka að sér þjónustuhlutverk stjórnmálamannsins. Það er líka ábyrgð að vera borgari. Það aðhald, sem borgararnir eiga að veita stjórnmálamönnum sínum, er hluti af ábyrgð borgaranna.

Marga dreymir um elítulýðræði þar sem hópur útvalinna tekur þátt í lýðræðinu og tekur að sér að ákveða málin fyrir hina. Slíku fyrirkomulagi má koma á með mörgum hætti.

Það er hægt að setja þátttöku í lýðræðinu svo strangar skorður að stór hluti borgaranna verði útilokaður. Einnig má hafa fyrirkomulagið svo flókið að einungis fáir sjái sér fært að kjósa. Lítil og óvönduð umræða um málin er enn ein leið til að minnka  samfélagslegan áhuga og lýðræðisþátttöku fólks.

Margt í umræðunni um nýja stjórnarskrá virðist mér vera í anda elítulýðræðis. Tiltölulega fámennur hópur manna með mjög takmarkað umboð tekur að sér að semja stjórnarskrá fyrir okkur hin. Hópurinn bregst illa við gagnrýni á tillögur hans að þessu grundvallarskjali þjóðarinnar. Þess í stað fær þjóðin að svara örfáum sérvöldum og óljósum spurningum um tillögurnar. Eftir atkvæðagreiðsluna fær hópur sérfræðinga að fara yfir þær en hefur ekki leyfi til að gera nema lagatæknilegar athugasemdir við þær. Ekki er hlustað á gagnrýni annarra sérfræðinga þótt á meðal þeirra séu þeir fremstu á þessu sviði.

Þann 27. október síðastliðinn skrifaði einn fastra penna Fréttablaðsins pistil í blaðið. Umræðuefnið var kjörsóknin í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Pistlahöfundur tók dæmi af nýafstöðnum knattspyrnuleik íslenska kvennalandsliðsins á Laugardagsvelli. Hún skrifaði:

Aðeins þeir sem mæta eru taldir með, það eru bara þeirra raddir sem heyrast. Það er bara svo einfalt. Að nýta kosningaréttinn, ekki síður en að mæta á völlinn og styðja liðið sitt, er með betri aðferðum til að byrja að breyta heiminum.

Þegar nánar er skoðað er dæmið í ofangreindum pistli óheppilegt. Lýðræði er ekki í því fólgið að mæta á leikinn til að vera áhorfandi. Lýðræði er að taka þátt í leiknum. Hliðstæðurnar í líkingunni eru því ekki kjósendur annarsvegar og áhorfendur hinsvegar. Í virku lýðræði eru kjósendur leikmenn. Léleg kjörsókn er ekki sambærileg við þunnskipaðar stúkur.

Þegar fáir taka þátt í kosningu er það sambærilegt við að ekki nema hluti liðsins mæti til leiks.

En þannig virkar elítulýðræðið. Þar tekur fámennur hópur að sér að ákveða hlutina fyrir okkur hin sem fáum náðarsamlegast að kaupa okkur miða og fylgjast með úr áhorfendastúku á meðan elítan hefur vit fyrir okkur.


Lágkúra og smámennska

DSC_0379 

Þessi gamla greining á því íslenska ættarmóti, sem setti svip sinn á samskipti þeirra Bjarna Thorarensen og Magnúsar Stephensen, varpar ljósi á  umræðuhefðina á Íslandi nútímans:

Saga Íslendinga hefur frá öndverðu verið gædd ríkum einstaklingsblæ, átökin verið svo persónuleg, vopnunum lagt inn í kviku. Fámennið, frændsemin og kunningsskapurinn hefur valdið því, að oft er erfitt að greina hina djúpu ála þjóðarsögunnar. Það er engin tilviljun, að saga Íslands hefur um aldir og allt fram á þennan dag verið saga um einstaka menn, í vitund íslenzkra sagnfræðinga hefur skógurinn horfið fyrir stökum trjám. Þegar dýpra er skyggnzt, má þó greina strauminn og kvíslarnar frá dropunum, hið almenna frá hinu einstaka. En hitt fær ekki dulizt, að söguleg þróun okkar hefur verið mörkuð mikilli persónulegri heift og ástríðum, sem oftar en ekki eru sprottnar af lágkúru og smámennsku.

(Sverrir Kristjánsson, Fannhvítur svanur. Þáttur um Bjarna Thorarensen, í : Sverrir Kristjánsson & Tómas Guðmundsson, Gullnir Strengir. Íslenzkir örlagaþættir, Reykjavík 1973, bls. 192)


Rænd þjóð

DSC_0612 

Ein af afleiðingum bankahrunsins var stökkbreyting á lánum almennings. Sú breyting ásamt verðfalli á húsnæði varð til þess að fólk tapaði því sem það átti í fasteignum sínum. Líka þeir sem ætíð höfðu staðið í skilum og borgað skilvíslega af lánum gátu tapað margra ára sparnaði. Eignarstaða sumra varð neikvæð.

Þrátt fyrir að hafa gefið fyrirheit um að skjaldborg yrði slegin um heimilin í landinu voru stjórnvöld ekki til viðtals um að leiðrétta þetta ranglæti. Lánin fengust ekki leiðrétt. Hluti þeirrar leiðréttingar sem fékkst með því að leita til dómstóla var m. a. s. tekin af fólki með lögum.

Á þessum lýðskrumstímum getur verið varasamt að tala fyrir munn þjóðar og ekki síður hættulegt að hlusta á þá sem þannig tala. Ég er samt viss um að almenningur á þessu landi gerir sér grein fyrir að við lifum erfiða tíma. Við þurfum að færa fórnir og herða sultarólina.

En fólk þarf líka að upplifa réttlæti og það gerist ekki þegar einar algengustu fréttir í íslenskum fjölmiðlum eru af afskriftum, stundum himinháum, til hinna útvöldu, á meðan þorri fólks fær litla sem enga úrlausn.

Úrræðin handa íslenskri þjóð virðast vera í því fólgin að gera henni kleift að borga hin stökkbreyttu lán upp í topp.

Þegar búið var að taka það af fólki sem það hafði eignast í húsnæðinu sínu varð séreignarsparnaðurinn næstur í röðinni. Fólki var leyft að taka hann út í þeirri von að það gæti staðið í skilum.

Nú er þjóðin búin með þann sparnað sinn og þá er athyglinni beint að lífeyri landsmanna. Fram er komin þingsályktunartillaga um að fólk greiði niður hin stökkbreyttu lán til bankanna með lífeyrisgreiðslum sínum „gegn því að missa hluta lífeyrisréttar síðar á ævinni" eins og höfundur tillögunnar orðar það sjálfur.

Þegar maður les svo um það, ofan í allt framansagt, að þessa dagana standi eldri borgarar frammi fyrir því að missa ævisparnaðinn, getur maður ekki varist þeirri hugsun, að hægt og örugglega sé verið að ræna þjóðina öllu sem hún á:

Eignarhlutinn brann upp í hruninu og þar með sparnaður fólks úr fortíðinni; afborganir af stökkbreyttum lánum sjá um launin sem fólk er að vinna fyrir í nútíðinni; lífeyririnn sem við ætlum að lifa af í framtíðinni er næsti fengurinn.

Ég er ekki hissa á að reiðin í samfélaginu fari vaxandi á ný.


Hrossakjötsveður

DSC_0567 

Þótt það kunni að hljóma þversagnarkennt eru margar af mínum bestu bernskuminningum frá þeim dögum þegar veðrið var hvað verst.

Vont veður var ævintýri. Það lýsti upp gráma hversdagsins og rauf rútínuna. Þá fengum við krakkarnir frí í skólanum. Fullorðna fólkið komst ekki í vinnu. Allir voru heima. Maður fékk að vera í náttfötunum eins lengi og maður vildi. Það var spilað og drukkið kakó. Ég man hvað það var notalegt að horfa á vonda veðrið út um gluggann, leggja lófann á kalt glerið, finna kuldann og vindhöggin og vera réttu megin í þessari vetrartilvist.

Stundum fór rafmagnið. Þá var eldað á prímus. Prímuseldaðar pylsur smakkast allt öðruvísi en þær sem hafa verið soðnar á rafmagnshellum. Nú þykir flott að elda á gasi.

Ef fannbörðum starfsmönnum rafmagnsveitnanna tókst ekki að laga straumrofið í naumt skammtaðri dagsbirtunni var ekki um annað að ræða en að sækja kerti og vasaljós inn í skápa. Þeir birtugjafar sköpuðu allt aðra stemmingu í húsið en flúorljósin ofan við eldhúsbekkinn eða lúxorlampinn á skrifborðinu. Allt varð svo mjúkt og rólegt.

Gamlir draugar, hart leiknir af atvinnuleysi og ídentítetskrísu, sáu kærkomin sóknarfæri í skuggsælum hýbýlunum. Þegar myrkrið ágerðist og gnauð vindsins varð háværara, fóru þeir á stjá. Gólffjalir tóku að marra þótt enginn væri á ferli, hurðir hreyfðust á hjörum fyrir eigin vélarafli og krumlum var drepið á glugga. Þá var gott að vera ekki einn. Rafmagnsleysið þjappaði fólkinu saman og virkaði eins og margir tíma í fjölskylduráðgjöf.

Ég ber á eigin holdi merki ósigurs eins viðgerðarflokks RARIK í baráttu hans við ísingu á línum. Ég var að ganga niður brattan stigann í gamla húsinu okkar í Brekkugötunni og fetaði mig sífellt lengra niður í biksvart rafmagnsleysismyrkrið. Allt í einu missti ég fótanna og steyptist niður í svartholið með höfuðið á undan. Ég hef þann kæk að bíta í neðri vörina á mér þegar ég vanda mig. Lendingin er talin einn vandasamasti hluti hverrar flugferðar - ekki síst þegar um er að ræða blindflug án siglingartækja. Þess vegna voru tennur mína læstar í neðri vörina þegar ég lauk fluginu. Á því augnabliki var líkamsstaða mín þannig að neðri vörin var orðin sú efri. Við lendinguna þrýstist efri hluti kjálkans upp á við áður en framtennurnar sukku á  bólakaf í holdið rétt neðan við neðri vörina. Þegar ég loksins staðnæmdist lá ég hljóðandi í blóði mínu á gólfinu. Aðrir fjölskyldumeðlimir þustu að og hjálpuðu mér á fætur. Ég var studdur inn í eldhús, settur í stól og vasaljósum beint að hökunni. Sárið var þrifið  og kom í ljós að framtennurnar höfðu gengið í gegnum holdið, enda hertar og flugbeittar eftir margra ára viðureign við ólseigar Akrakaramellur. Var kominn á mig annar munnur og fór um karl föður minn sem taldi sig hafa nógu marga munna að metta í allri verðbólgunni.

Veðrið var svo slæmt að ekki var viðlit að fara með mig á slysadeild og meiðslin varla nógu mikil til að ræsa út Flugbjörgunarsveitina.  Þó hefði mátt færa fyrir því rök, að hér hefði verið um flugslys að ræða. Var því brugðið á það ráð að plástra saman á mér nýja munninn. Það tókst. Sárið greri en eftir situr dálítið ör og ég er ekki frá því að mig verki örlítið í það ævinlega áður en þeir fara að spá stórhríð og norðanáhlaupi.

Vond veður geta verið til margra hluta nytsamleg. Þegar ég bjó úti í Ólafsfirði notuðu margir illviðrisdaga til að elda mat sem þurfti langan suðutíma. Þess vegna var þannig veður gjarnan kallað hrossakjötsveður. Ef eitthvað er „slow food" er það saltað hrossakjöt. Óveður má líka nýta til að lesa bókina sem þú hefur lengið ætlað að lesa. Sé rafmagn enn í leiðslunum er hægt að hlusta á diskinn sem þú hefur ekki haft tíma til að hlusta á eða horfa á myndina sem þú varst búinn að lofa sjálfum þér að sjá. Illviðri eru góð til að spila við krakkana. Óveður eru líka upplögð fyrir það sem Ítalir kalla „dolce far niente", hið unaðslega iðjuleysi eða hina lostsælu leti.

Vond veður geta verið hættuleg. Þau á auðvitað ekki að hafa í flimtingum og ekki er nema eðlilegt að fólk sé smeykt við þau. Þó finnst manni stundum að ótti fólks við ófærð og illviðri  geti verið í ætt við einhverskonar sjálfshræðslu; fólk kvíðir því að komast ekki að heiman, sú tilhugsun skelfir, að allt sé lokað og maður þurfi kannski að sitja uppi með sína nánustu - eða það sem er jafnvel enn uggvænlegra, maður gæti neyðst til að vera í félagsskap við sig sjálfan.

Förum vel með vonda veðrið, pössum okkur á því en reynum að nota það til að búa til góðar minningar.


Blessað lýðræðið

DSC_0529

  • Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kjósendur voru beðnir um að samþykkja eða hafna stjórnarskrá sem enn er verið að semja.
  • Atkvæðagreiðslan var ráðgefandi en þó var því haldið fram að ekki mætti breyta niðurstöðum hennar efnislega.
  • Í tillögunni að stjórnarskránni var ekki gert ráð fyrir ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá en lagt til að kirkjuskipan yrði ákveðin í almennum lögum.
  • Meirihluti þeirra sem kusu vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og taldi þar með ekki nægilegt að ákveða kirkjuskipan í almennum lögum.
  • Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom ekki fram hvernig ákvæðið um þjóðkirkju í stjórnarskrá eigi að hljóða. Kjósendur voru því beðnir um að samþykkja eða hafna ákvæði sem þeir höfðu ekki séð enda var það ósamið.
  • Þegar ljóst var að kjósendur vildu hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá var sóttur maður upp í háskóla til að semja ákvæðið sem kjósendur vildu hafa í stjórnarskránni.
  • Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að ákvæðið, sem samið var fyrir þann meirihluta kjósenda sem vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá og taldi ekki nóg að kveða á um kirkjuskipan ríkisins í almennum lögum, verður á þá leið, að hafa eigi ákvæði um þjóðkirkju og önnur trú- og lífsskoðunarfélög í almennum lögum.
  • Lögin um stöðu þjóðkirkjunnar eru enn ósamin en þó er lagt til að ekki verði ekki hægt að breyta þeim nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Myndin: Skál fyrir lýðræðinu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband