22.10.2012 | 22:54
Að túlka kosningaúrslit er góð skemmtun
Skömmu eftir kosningar, þegar mesta spennan er farin úr fólki og fætingurinn hættur, ná gömlu eiginleikarnir yfirhöndinni. Íslendingar verða á ný Söguþjóðin. Skáld situr við hverja tölvu, frjótt ímyndunaraflið er virkjað og fram koma túlkanir á úrslitum sem bera vott um aðdáunarverða hugmyndaauðgi og skapandi hugsun.
Slíkar túlkanir eru þjóðaríþrótt á Íslandi. Nú er gaman að sjá íþróttamennina spreyta sig á kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs. Einn þeirra greinir niðurstöður þeirra þannig að þar hafi Íslendingar hafnað kvótakerfinu. Þetta getur ekki orðið skýrar," segir hann. Annar heldur því fram í kosningunum hafi þjóðin hafi bæði hafnað Sjálfstæðisflokknum og Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þriðja túlkunin sem vakti athygli mína er á þá leið, að enda þótt drjúgur meirihluti þeirra landsmanna sem mætti á kjörstað hafi viljað hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, megi engu að síður draga þveröfuga ályktun af kosningunni og aðdraganda hennar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það fyrirkomulag að hafa þjóðkirkju er klárt brot á öllu jafnræði og jafnrétti," segir í þeirri greiningu. Og ekki má gleyma framsóknar- og alþingiskonunni sem fékk það út að vel athuguðu máli, að í kosningunum megi sjá stuðning þjóðarinnar við stefnu Framsóknarflokksins. Því er óhætt að fullyrða að niðurstaðan er ansi framsóknarleg," segir hún. Sem má vel til sanns vegar færa, ekki síst ef hafður er í huga dómur prófessors Sigurðar Líndals, sem sagði í Fréttablaði dagsins að úrslit kosninganna hefðu í för með sér opið og teygjanlegt lýðræðislegt umboð til stjórnvalda sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er".
Ein frumlegasta túlkunin kemur þó að minni hyggju frá lögmanninum Jón Magnússyni. Hann var einn margra sem hvatti fólk til þess að hafna tillögum stjórnlagaráðs. Þegar ljóst var að u. þ. b. 2/3 hlutar þeirra sem greiddu atkvæði höfðu þvert á vilja Jóns samþykkt tillögurnar skrifar hann:
Meiri hluti kjósenda hafnar tillögunum.
Ekki síður fannst mér fróðlegt að fylgjast með tilraunum stjórnlagaráðsmanna til að dásama kjörsóknina. Þrátt fyrir gríðarlega umfjöllun fjölmiðla vikurnar fyrir kosningar, áeggjan stjórnmálaflokka og kirkju um að nýta sér kosningaréttinn og staðhæfingar forystumanna ríkisstjórnarinnar um að kosningarnar væru að eindreginni kröfu þjóðarinnar, tókst með naumindum að draga helming kosningabærra manna að atkvæðakössunum.
Megn ánægja stjórnlagaráðsfólks með þátttöku þjóðarinnar í kosningunum verður enn undarlegri í ljósi þess, að í tillögunum sem um var kosið, er gert ráð fyrir tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti beðið um að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnlagaráð gefur m. a. þá skýringu á þeirri tillögu að hún sé til þess að auka þátttöku og skilning kjósenda á þeim málum sem fjallað er um". Stjórnlagaráð fagnar með öðrum orðum lélegri þátttöku í kosningum um tillögur sem eiga að stuðla að aukinni þátttöku kjósenda.
Innan við 50% kjörsókn getur ekki talist góð og allra síst í landi þar sem hefð er fyrir góðri þátttöku í kosningum. Og það ber ekki mikinn vott um virðingu fyrir viðfangsefninu þegar menn segjast sætta sig við svo dræma kjörsókn og svo lítinn áhuga borgaranna með þeim rökum, að fáir nenni líka að greiða atkvæði í Sviss. Þess má geta að næsta atkvæðagreiðsla í Sviss verður að mig minnir um varnir gegn pestum í dýrum. Hér á Íslandi var á hinn bóginn verið að kjósa um stjórnarskrá landsins.
Ekki get ég sagt skilið við þessa umfjöllun um túlkanir á kosningaúrslitum öðruvísi en að víkja athyglinni að þeim meirihluta kosningabærra manna á Íslandi sem ekki sá ástæðu til að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Sjálfur tilheyrði ég þeim hópi. Ekki vefst fyrir mönnum að túlka þá ákvörðun okkar. Einn þeirra túlkenda er rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson. Hann veit vel hvað við sem heima sátum vorum að hugsa og segir:
Þau sem heima sátu voru ekki endilega að segja: Það á ekki að kjósa um þetta, heldur: Ég ætla ekki að kjósa um þetta; ég hef ekki vit/áhuga/skoðun á þessu.
Þegar fólk tekur ekki þátt í kosningum geta verið fyrir því margar ástæður og það hefur verið kannað. Þegar þessi hópur er jafn stór og raunin varð í kosningunum um helgina eru ástæðurnar ábyggilega mjög margar.
Ég fyrir mína parta sat ekki heima vegna þess að mér þættu tillögur stjórnlagaráðs ómögulegar. Mér þóttu spurningarnar óljósar og treysti mér ekki til að taka þátt í kosningu þar sem ég vissi ekki hvað já mín og nei þýddu.
Ekki er langt síðan tveir helstu ráðamenn þjóðarinnar gerðu það sama og rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar gerði nú um helgina. Jóhanna Sigurðardóttir nýtti sér ekki kosningaréttinn í þjóðaratkvæðagreiðslu og Steingrímur J. Sigfússon gaf sterklega til kynna að hann ætlaði einnig að sitja heima. Einhverjir áfelldust Jóhönnu fyrir þau áform - reyndar ekki þeir sömu og hnýta í okkur fyrir heimasetu í kosningunum um tillögur stjórnlagaráðs.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur haft sínar ástæður fyrir ákvörðun sinni á sínum tíma en ég leyfi mér að efast um hún hafi ekki haft vit, áhuga eða skoðun á málinu.
Að lokum kveð ég þann stóra hluta þjóðarinnar sem ekki tók þátt í nýafstöðnum kosningum með orðum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hún lét falla í þessu viðtali:
Það er hluti af lýðræðislegu vali líka að taka ekki þátt.
Myndin er af dómkirkjunni í Skálholti.
Bloggar | Breytt 23.10.2012 kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.10.2012 | 00:15
Viðurkenndir klúðrarar
Við vorum ekki gömul þegar við klúðruðum einhverju í fyrsta skiptið. Síðan hafa mörg vötn klúðrast til sjávar. Enginn hefur tölu á öllum sínum klúðrum, mistökum, yfirsjónum, ósigrum og asnaskap. Við helltum niður mjólkinni, féllum á prófinu, duttum í kapphlaupinu, fórum yfir á tékkheftinu, klesstum bílinn, eyðilögðum sumarfríið, fengum ekki stöðuna sem við sóttum um, unnum ekki í lottóinu, vorum of sein á útsöluna og misstum stóra laxinn.
Það eru alltaf einhverjir aðrir en við sem eru pamfílar lukkunnar og ná árangri í megrun. En við erum lúserar.
Síðustu árin hafa Íslendingar verið einhverjir almestu grandlúserar í veröld víðri. Þjóðin er fórnarlamb siðlausra útrásarvíkinga, vanhæfra embættismanna og spilltra pólitíkusa, svo nokkuð sé nefnt. Hér er allt ómögulegt, veðrið, kerfið, stjórnarskráin, sem er dönsk, og krónan, sem er ekki dönsk.
Þjóðfélag sem byggist á síaukinni neyslu elur þegna sína markvisst upp í því að vera fórnarlömb. Sá kaupir sem telur sig skorta. Þess vegna er alltaf verið að minna okkur á að við séum þarfaverur. Á hverjum einasta degi dynur á okkur fjöldi allskonar auglýsinga, sem eiga að segja okkur hvað okkur vanti mikið og hvernig við getum satt allt okkar risastóra og útmálaða hungur.
Hinn frægi svissneski sálgreinir, Carl Gustav Jung, kallaði kapítalismann þarfaörvunarhagkerfi". Ein gagnrýni á það kerfi felst í því, að þar verði manneskjan fórnarlamb neysluþarfa sinna.
Það er því á margan hátt skiljanlegt, að sjálfsmynd okkar sé að stórum hluta búin til úr mynd fórnarlambsins og klúðrarans. Við erum okkur mjög vel meðvituð um hinn margháttaða skort okkar.
Þar við bætist, að fórnarlambshlutverkið getur á margan hátt verið þægilegt og þess vegna eru margir mjög uppteknir af því að vera fórnarlömb, meðvitað eða ómeðvitað. Ef þú ert fórnarlamb er ekki við þig að sakast um þá stöðu sem þú ert í. Fórnarlömbin hafa siðferðið sín megin en sökudólgarnir ekki. Sért þú fórnarlamb berðu eiginlega ekki ábyrgð á neinu vegna þess að þú ert svo mikið fórnarlamb. Fórnarlömb eiga heimtingu á samúð og skilningi. Reiða og hneykslaða fólkið á netinu telur sig í fullum rétti til að hella úr sér fúkyrðaflaumi og svívirðingum með skírskotun til fórnarlambsréttarins.
Sú sjálfsmynd sem byggist á meðvitundinni um skort og ófullkomleika lýsir sér líka á hinu trúarlega sviði. Mörgum finnst trú sín ekki nógu góð. Þeir Íslendingar sem segjast vera trúaðir hafa gjarnan á því rúma fyrirvara, eru ekkert ofboðslega trúaðir" eða eiga bara sína barnatrú".
Það álit virðist algengt, að trúin hljóti að felast í vitsmunalegri tileinkun á kennisetningum kirkjunnar. Ef mér gengur illa að skilja kenningarnar um þrenninguna eða meyfæðinguna, þá er trú mín varla nógu fín.
Er það kannski ein skýringin á því að ekki fleiri koma í messur? Getur verið að fólki finnist það ekki vera nógu trúað til að fara í kirkju?
Og kannski ættum við, sem vinnum fyrir kirkjuna, að skoða hvort það sé eitthvað í starfi kirkjunnar eða í því hvernig við tölum við fólk, sem gefur til kynna að kirkjan sé of fín fyrir það og það ekki nógu trúað fyrir kirkjuna.
Sá Jesús sem kirkjan boðar mætir okkur ekki með fordæmandi vísifingri heldur opnum faðmi. Hann setur ekki skilyrði fyrir viðurkenningu sinni, uppörvun og ást.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2012 | 11:14
Andevrópsk viðhorf
Hans Magnus Enzensberger skrifar ljóð, bækur og blaðagreinar. Ein bóka hans fjallar um Evrópusambandið eða alúðarófreskjuna Brüssel eins og Enzensberger nefnir það. Hún kom út 15. mars 2011 en þýska tímaritið Spiegel birti kafla úr henni í 9. tölublaði sama árs.
Það voru fróðleg skrif. Á sínum tíma tók ég þau saman hér á þessari síðu. Nú endurbirti ég þann pistil í tilefni af því að Evrópusambandið hefur fengið friðarverðlaun Nóbels.
ESB rúið trausti
Enzensberger byrjar á því að hrósa Evrópusambandinu fyrir framlag þess til friðar í álfunni. Hann er þeirrar skoðunar að hin evrópska sameiningarviðleitni hafi haft góð áhrif á daglegt líf þeirra sem búa í aðildarlöndum sambandsins.
Þrátt fyrir það bendir Enzensberger á að aðeins 49% Evrópubúa líti jákvæðum augum á aðild lands síns að sambandinu og aðeins 42% beri traust til stofnana þess.
Enzensberger veltir fyrir sér ástæðunum fyrir þessu vanþakklæti.
Lýðræðishalli og skrifræði
Ein helsta ástæðan fyrir vantrausti á Evrópusambandinu er skortur á lýðræði. Þess í stað hefur sambandið komið sér upp alræði embættismanna. Enzensberger segir það enga tilviljun. ESB hafi markvisst unnið að því að svipta borgarana pólitísku sjálfræði. Kommisararáð sambandsins, sem skipað er 27 fulltrúum aðildarlandanna, hafi í raun einkarétt á frumkvæði að lagasetningu. Evrópuþingið megi sín lítils gagnvart því.
Frá árinu 1979 hefur þingið verið kosið í beinni kosningu með sífellt minni þátttöku kjósenda. Síðast nýttu 43% kosningarétt sinn. Enzensberger segir það ekki nema von. Kosningareglurnar séu illskiljanlegar og sárafáir geri sér grein fyrir flokkunum sem á þinginu sitja. Það er með öðrum orðum hvorki á hreinu hvernig kosningin fari fram né til hvers sé verið að kjósa. Óvirkir kjósendur, sviptir pólitísku sjálfræði, er paradísarástand þeirra sem völdin girnast en heima fyrir yppa stjórnvöld öxlum og segjast bara vera að fylgja stefnu aðildarríkjanna.
Regluverkið
Afleiðing þessa ferlis sést í hinu útblásna regluverki Evrópusambandsins, svonefndu Acquis communautaire. Árið 2005 taldi það 85.000 blaðsíður en í dag eru þær taldar vera ekki færri en 150.000. Talið er að yfir 80% allra laga í sambandinu séu ekki lengur samin af þingum aðildarríkjanna heldur embættismönnum í Brüssel. Þessum reglum, acquis, verða öll ríkin að hlýða.
Aðildarferli Íslands að ESB felst ekki í eiginlegum samningaviðræðum heldur er þar vélað um hvernig Ísland eigi að taka upp þessi tonn af reglum og tilskipunum sem ákveðin hafa verið í Brüssel eins og ég hef áður skrifað um.
Andevrópsk viðhorf
ESB vill stækka og ráðamönnum sambandsins í Brüssel gengur illa að skilja þá sem standa gegn innlimunaráráttu þess. Þeir eru sagðir illa að sér og uppreisnargjarnir. Evrókratíunni er sérstaklega í nöp við hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur, staðhæfir Enzensberger í bókinni. Hún gleymir því ekki að Norðmenn, Danir, Svíar, Hollendingar, Írar og Frakkar höfnuðu því sem Brüssel vildi.
ESB hefur komið sér upp áætlun sem á að gera sambandið ónæmt fyrir gagnrýni. Sá sem mótmælir því er sagður andevrópskur. Sú orðræða minnir Enzensberger á tímabilið í Bandaríkjunum sem kennt er McCarthy eða starfsemi pólítbúrós kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum sálugu. Þá ræddu menn um óameríska starfsemi" eða andsovéska viðleitni". Enzensberger rifjar upp þegar forsætisráðherrann í Lúxemborg sakaði starfsbróður sinn um andevrópsk viðhorf" eða þegar yfirkommisari ESB, José Manuel Barroso komst þannig að orði að þau aðildarríki sem andvíg væru áætlunum hans ynnu ekki í evrópskum anda".
Á hljóðlátum sólum
Að sögn Enzensberger ganga valdamenn í Brüssel um á hljóðlátum sólum. Valdafyrirkomulagið á sér ekki fyrirmyndir. Það er miskunnarlaus mannelska" eins og það er orðað í bókinni. ESB vill okkur aðeins það besta. Við reykjum, við borðum of mikið af fitu og sykri, við hengjum upp róðukrossa í skólastofunum, við hömstrum ólöglegar ljósaperur, við þurrkum þvottinn okkar úti þar sem hann á ekki heima. Hvað yrði um okkur ef við fengjum sjálf að ákveða hverjum við leigðum íbúðina okkar?" spyr Enzensberger. Verður ekki að hafa sama hámarkshraða í Madrid og Helsinki í samræmi við evróstaðla? Verður ekki að byggja evrópsk hús úr sömu efnunum, burtséð frá loftslagi og reynslu? Er hægt að láta viðgangast að einstök ríki ráði starfinu í eigin skólum? Hver nema kommisararnir í Brüssel ætti að ráða því hvernig evrópskar gervitennur eiga að líta út?
Nei, ESB veit allt og er best treystandi. Hlutverk þess er ekki fólgið í kúgun á borgurunum heldur í hljóðlausri samræmingu allra lífshátta þeirra. Borgararnir verða ekki sendir í Gúlagið heldur á betrunarstofnanir.
Hin sjálfviljuga ánauð
Enzensbergar vitnar í franska stjórnleysingjans Étienne de La Boétie sem talinn er meðal frumkvöðla í stjórnmálaheimspeki. Hann veltir því fyrir sér hvernig þjóðirnar afsali sér sjálfstæði sínu og beygi sig sjálfviljugar undir okið. Engu sé líkara en að eymdin sé þeirra keppikefli. Þótt aðstæðurnar sem La Boétie skrifaði um séu aðrar en í Evrópu nútímans sér Enzensberger þar hliðstæður. Hann bendir á að samkvæmt kenningum þessa franska hugsuðar sé vaninn forsenda hinnar sjálfviljugu ánauðar. Evrópa sé að venjast á skrifræðið í Brüssel. Fátt bendi til þess að borgarar álfunnar sjái ástæðu til að verja eigið pólitískt sjálfræði. Lýðræðisskorturinn í Evrópu hefur ekki leitt til uppreisnar heldur þátttökuleysis og samfélagslegs þunglyndis.
Myndin: Svona líta þær út, kýrnar í Biskupstungunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.10.2012 | 00:00
Set þig ekki í hefðarsæti
Ein þeirra spurninga sem kjósendur geta svarað í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október næstkomandi hljóðar þannig:
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Biskup Íslands og helstu valdastofnanir þjóðkirkjunnar hafa hvatt fólk til þess að svara þessari spurningu játandi. Rökin fyrir því eru meðal annars þau, að kirkjan sé samofin sögu og menningu íslensku þjóðarinnar og hún veiti mikilvæga þjónustu um land allt.
Aðrir eru eindregið þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Á tímum fjölhyggju og sívaxandi fjölbreytileika í trúarflóru landsmanna sé ekki réttlætanlegt að gera einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum.
Ég get vel skilið rökin að baki jái og neii við þessari spurningu.
Þó efast ég um að það sé kirkjunni til framdráttar að biðja þjóðina um að kjósa sig inn í stjórnarskrána.
Hefði kannski verið betra að láta nægja að segja, að ef þjóðin vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá, þá sé kirkjan tilbúin að axla þá miklu ábyrgð sem því fylgir?
Þessi hvatning kirkjunnar verður að mínu mati enn óheppilegri í ljósi þess, að hvergi kemur fram hvernig þetta stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju eigi að vera. Það er eins og það skipti ekki máli, aðalatriðið sé að sjá nafnið sitt í skjalinu. Sumir gætu kallað slíka afstöðu brjóstumkennanlega.
Kirkjan getur alveg haldið áfram að vera þjóðkirkja þótt ekkert verði um hana að finna í stjórnarskrá Íslands. Stjórnarskrárákvæði um hana er ekki skilyrði fyrir því að hún sé opin og umburðarlynd kirkja sem þjónar Guði og náunganum - en einhvernveginn þannig held ég að eigi að skilgreina þjóðkirkju.
Ég held að þjóðkirkja Íslands geti haft mikilvægu hlutverki að gegna á þessu landi. Áður en kirkjan pantar sér pláss í stjórnarskránni ætti hún ef til vill að efna til víðtækrar umræðu um það hvernig hún geti orðið þjóð sinni til gagns og blessunar. Hlusta á þjóðina sem hún vill kenna sig við, heyra væntingar hennar og kanna hvað landsmenn telja að helst þurfi að laga í kirkjunni.
Ég endurtek að ég er ekki á móti því að ákvæði sé um þjóðkirkju í stjórnarskránni. Slíkt ákvæði er þó ekkert skilyrði fyrir starfi Þjóðkirkjunnar - ekki frekar en fyrir þjónustu hinna óhemju mikilvægu stofnana Landspítalans og Ríkisútvarpsins, svo dæmi séu tekin.
Sjálfur segi ég hvorki já ég nei því ég mun ekki taka þátt í þessari kosningu. Í henni er kjósendum sýnd sú vanvirðing, að þeir eru beðnir að játa eða hafna ákvæði sem þeir vita ekki hvernig hljóðar. Þeir eru látnir svara spurningum sem eru svo óskýrar að erfitt er að sjá hvað svörin við þeim þýða.
Viðbrögð höfunda tillagnanna við gagnrýni á þessa kosningu hafa því miður stundum einkennst af dónaskap. Það eykur ekki löngun mína til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Myndin: Nýlega kom Malavíbúinn Innocent Kaphinde í heimsókn til fermingarbarna í Akureyrarkirkju. Hann sagði þeim frá lífinu í heimalandi sínu og þróunarhjálp. Auk þess spilaði hann og söng fyrir börnin. Innocent er hér á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2012 | 11:38
Kerfi sem éta menn
Eitt af því sem sameinar flest trúarbrögð heimsins er sá skilningur þeirra á manninum, að hann sé andleg vera og hafi andlegar þarfir. Í öllum trúarbrögðum eru einhverskonar hátíðir. Á hátíðum er brugðið út af vananum og lífið er með öðrum hætti en aðra daga. Stundum geta hátíðir verið líkamlega krefjandi. Þá er til dæmis bæði borðað mikið. Oft er dansað. Hátíðir trúarbragðanna hafa þó langflestar það hlutverk, að minna manninn á andlegt eðli hans og gefa honum kost á að sinna andlegum þörfum sínum.
Sunnudagurinn er til sama brúks. Þá hvílist maðurinn og gerir hlé á brauðstriti sínu. Vikulega er maðurinn minntur á eðli sitt og sínar andlegu þarfir og honum skapaðar aðstæður til að hann fái ræktað sinn innri mann. Sunnudagurinn er vikuviss áminning til mannsins um að hann sé annað og meira en vinnudýr og samfélag hans ekki verbúðir.
Í Biblíunni eru ástæðurnar fyrir helgi hvíldardagsins þó ekki aðeins andlegar. Þar er líka á ferðinni sú hugsun, að vistkerfið allt þoli ekki endalaust að af því sé tekið heldur þurfi það hvíld. Samkvæmt Gamla testamentinu átti til dæmis að hvíla akrana sjöunda hvert ár og gefa þeim færi á að endurnýja sig.
Sex ár skaltu sá í akur þinn og sex ár skaltu klippa víngarð þinn og hirða afrakstur hans. En sjöunda árið skal landið hvílast algjörlega. Það er hvíld Drottni til dýrðar. Þá skaltu hvorki sá akur þinn né klippa víngarð þinn.
(3. Mósebók, 25, 3-4)
Sömu lögmál gilda um manninn. Hann þarf hvíld. Hvíldin er manninum svo nauðsynleg, að utan um hana hefur verið búið til kerfi. Kerfi hvíldardagsins felst í því að hafa einn dag vikunnar öðruvísi en alla hina og banna brauðstrit á þeim degi.
Enginn vandi er að hafa horn í síðu hvíldardagskerfisins. Til dæmis má benda á að manninum sé engin lífsnauðsyn á að hafa slíkt kerfi. Hann sé fullfær um það sjálfur að finna besta tímann til þess að hvíla sig eða sinna andlegum þörfum sínum. Einnig má halda því fram, að maðurinn hafi í raun engar andlegar þarfir og geti þess vegna unnið alla daga vikunnar ef hann vilji án þess að skaðast af því.
Sunnudagurinn og frídagarnir eiga líka undir högg að sækja. Sé heimurinn undirseldur miskunnarlausum markaðslögmálum og öll önnur lögmál látin víkja fyrir þeim, er ekki mikið pláss fyrir frídaga og hátíðir. Þá höfum við einfaldlega allar búðir opnar og allar verksmiður í gangi á meðan það borgar sig. Fólk kaupir sér kótilettur og rabarbarasultu alla daga ársins og engin ástæða til að banna neitt sé unnt að græða á því.
Vel má kalla þá afstöðu öfgafulla, að vilja helst ekki hafa neina lögskipaða frídaga en öfgarnar er líka að finna í hina áttina. Stundum höfum við svo mikla trú á hvíldardagskerfinu, að það sjálft er farið að vera í aðalhlutverki en upphaflegur tilgangur þess er gleymdur og týndur. Sé það tilgangur hátíða og frídaga að fólk endurnæri sig til sálar og líkama, getur fólk farið margar leiðir að því markmiði. Sumir fara til dæmis að heiman til að halda hátíðir eða njóta hvíldar. Ferðafólk þarf að geta keypt sér nauðsynjar og þjónustu þar sem það er. Það hættir ekki að þurfa að borða þótt kominn sé hvítasunna.
Þannig getur raunar farið fyrir öllum kerfum. Upphaflega eru þau eru sett saman til að mæta ákveðnum mannlegum þörfum og þjóna fólki, en fara svo gjarnan smám saman að snúast um sig sjálf og öðlast þá fyrst og fremst þann tilgang, að viðhalda sér sjálfum. Ekki hef ég vit til að dæma um hið nýja bókhaldskerfi ríkisins, sem að undanförnu hefur verið í fréttum, en margir vilja meina að örlög þess hafi verið á þeim nótum sem að ofan er lýst. Kerfið, sem átti að þjóna notendum sínum, er orðið að kerfi sem mjólkar notendurna.
Og sú hætta bíður ótalmargra annarra kerfa sem við höfum búið okkur til í mannsins þágu: Skólarnir þjóna ekki lengur nemendunum en fara að snúast í kringum þarfir kennaranna. Söfnuðurinn verður aukaatriði í því kerfi sem kirkjan er en prestarnir aðalmálið. Stjórnmálin hætta að ganga út á þarfir og hagsmuni borgaranna heldur fara hagsmunir flokka, stjórnmálamanna og valdaklíka samfélagsins að skipta höfuðmáli. Það sést til dæmis stundum í umræðunni um fátækt á Íslandi: Engin ríkisstjórn vill kannast við að hún láti viðgangast að hér sé fátækt vandamál og það er líka sama hvaða stjórnarandstöðu við höfum, hún notar fátæklingana til að berja á ríkisstjórninni. Þannig komast fátæklingarnir sjálfir í raun og veru aldrei í sviðsljósið heldur verða bitbein stjórnmálamanna og vopn í pólkitískri baráttu, sem hefur fremur þann tilgang að tryggja valdhöfum völd en að beita því þegnunum til heilla.
Sú saga er alltaf að endurtaka sig, að kerfin hætta að vera fyrir manninn en þess í stað er manninum ætlað að vera til í þágu kerfanna.
Myndin: Þessi lauf eru hluti af vistkerfi Lystigarðs Akureyrar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2012 | 21:28
Lifi Ríkisútvarpið!
Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta stofnun þessa samfélags og atburðir síðustu ára hafa sannað gildi þess. Í stað þess að gæla við þá hugmynd að leggja það niður eigum við að velta fyrir okkur hvernig við getum eflt það.
Í okkar heimshluta eru mestu völdin annarsvegar hjá stjórnmálamönnum og hinsvegar þeim sem eiga peninga. Fjölmiðlar geta illa sinnt því hlutverki sínu að veita valdinu aðhald ef þeir eru annaðhvort í eigu auðmannanna eða undir stjórn pólitíkusanna.
Þannig er það hér á landi. Stór hluti einkarekinna fjölmiðla er í eigu tiltölulega fárra auðmanna, fyrirtækja og hagsmunasamtaka. Ríkisútvarpið er bitbein stjórnmálaflokkanna sem ýmist líta á það sem hvutta sinn eða saka stofnunina um að gelta fyrir hina.
Hér þarf að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum til að varna því að fáir menn geti eignast það stóran hluta af íslenskum fjölmiðlum að þeir geti stjórnað umræðunni og upplýsingagjöf til almennings.
Það er held ég ekki góð þróun ef þjóðmálaumræðan fer fram í magnpósti sem auðhringir sjá sér hag í að dreifa inn á íslensk heimili.
Þá þarf að frelsa Ríkisútvarpið úr spennitreyju stjórnmálaflokkanna og gera það að þeirri þjóðareign sem það á að vera. Ein leið til þess gæti verið sú að allar íslenskar fjöldahreyfingar eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.
Einnig er aðkallandi að efla fjölmiðla úti á landi, bæði einkarekna og í eigu þess opinbera.
Bæta þarf menntun og starfsaðstöðu blaðamanna. Einnig er löngu tímabært að hefja kennslu í fjölmiðlalæsi í skólum landsins. Íslenska fjölmiðla vantar ekki einungis betri blaðamenn heldur líka myndugri notendur sem kunna að taka þátt í lýðræðislegri umræðu.
Myndin: Í heilbrigðum samfélögum endurspegla fjölmiðlar litskrúðuga skoðanaflóru.
Bloggar | Breytt 25.9.2012 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.9.2012 | 21:44
Þrykkjarinn höggþungi og aðrir íþróttamenn
Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar hef ég verið að lesa Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason, sagnfræðing, vandað verk og skemmtilegt. Gaman er til dæmis að lesa um árdaga akureysks íþróttastarfs.
Þá voru menn ekki feimnir við að gefa íþróttafélögum tilkomumikil nöfn. Upp úr aldamótum störfuðu á Akureyri íþróttafélagið Grettir, glímufélagið Sveinninn, skotfélagið Þór og síðast en ekki síst sundfélagið Kjartan Ólafsson.
Gróskumest var þó Ungmennafélag Akureyrar, UMFA. Þar ríkti sannur ungmennafélagsandi. Félagsfundir hófust með því að sungin voru ættjarðarlög og lauk þeim með sama hætti.
Í ungmennafélögum létu menn ekki nægja að rækta líkamann heldur var líka vel hugsað um andann. Því til áréttingar birtir Jón í bók sinni dagskrá fundar UMFA annan sunnudag í nóvember árið 1913. Fyrsta atriðið var upplestur á Páskahreti Þorsteins Erlingssonar en því næst átti að flytja erindið Hvort er betra að vera giftur eða ógiftur? Þegar sá ræðumaður lét ekki sjá sig var flutt næsta erindi fundarins. Þar var fjallað um hvað væri skáldskapur og hvaða skáld Íslendingar hefðu átt best. Komst fyrirlesari að þeirri niðurstöðu að Sigurður Breiðfjörð væri fremstur íslenskra skálda. Ekki voru allir sammála því og tilnefndu fundarmenn einnig þá Jónas Hallgrímsson, Hallgrím Pétursson og Matthías Jochumsson. Urðu umræður það langar að fresta varð síðasta erindinu sem flytja átti á fundinum. Titill þess var: Hverju eigum við að trúa?
Í Ungmennafélagi Akureyrar iðkuðu menn íþróttir sem Íslendingum nútímans kann að þykja nokkuð framandi. Meðal þeirra greina var grísk-rómversk glíma.
Ennfremur gátu meðlimir UMFA fengið tilsögn í hnefaleikum. Prentarinn Oddur Björnsson annaðist þá þjálfun en íþróttina hafði hann lært úti í Kaupmannahöfn.
Þess má geta að prentverk Odds Björnssonar varð með elstu prentsmiðjum þessa lands og lengi starfaði bókaforlag kennt við þennan akureyska hnefaleikakappa.
Jón Helgason, einn nemenda Odds, náði það langt í boxinu að keppa í greininni á íþróttasýningu í Magdeburg í Þýskalandi. Meðal andstæðinga hans þar var Bobby Dobbs, blámaðurinn frá Vesturheimi, sem talinn er mestur hnefaleikamaður í heimi," eins og það var orðað í Akureyrarblaðinu Norðurlandi þegar það loksins flutti fréttir af þeirri viðureign.
Árið 1907 kom hinn höggþungi þrykkjari Oddur Björnsson fram á fjölmennri árshátíð ungmennafélaga á Akureyri. Þar sýndi hann íþrótt sína íklæddur bleikrauðum, ermalausum jerseysamfestingi með mittisskýlu úr dökku, rauðbláu flaueli, skreyttri að neðan með marglitu kögri", segir Jón Hjaltason í riti sínu (Saga Akureyrar, III. Bindi, bls. 285).
Án efa hefur það verið tilkomumikil sjón þegar Oddur þannig skrýddur steig boxaradans um sviðið og barði frá sér út í loftið. Þó var það ekki hnefaleikamaðurinn sem vakti mesta hrifningu áhorfenda heldur hið bringusíða skegg hans sem hristist og skókst í allar hugsanlegar víddir við atganginn. Prentaraskeggið varð senuþjófur á þessari árshátíð. Eigandi þess þvertók þó fyrir að hlýða uppklappi enda sá hann ekki mikinn tilgang í að kynna fyrir Akureyringum frekari dásemdir boxiðkunarinnar. Þó tók hann fram, að ekki væri útilokað að hann efndi síðar til sérstakrar sýningar á hinu dáða skeggi sínu.
Árið 1915 stofnuðu Akureyringar Íþróttafélagið Þór og þrettán árum síðar bættu þeir um betur og ýttu úr vör Knattspyrnufélagi Akureyrar. Það gladdi mitt gulbláa KA-hjarta að lesa þá umsögn sérlegs sagnaritara höfuðstaðar Norðurlands, að stofnun KA hefði hleypt nýju blóði í íþróttalífið á Akureyri sem orðið var harla dauflegt.
Slíkur var krafturinn í KA-mönnum, að sama ár og þeir stofnuðu félagið, festu þeir kaup á fótknetti. Er óhætt að segja að stofnfélagar hafi ekki látið sitja við orðin tóm. Strax um sumarið gerðu þeir víðreist um nágrannasveitir með nýkeyptan boltann og skoruðu á heimamenn í knattspyrnu. Var þessi fyrsta keppnisferð KA-manna óslitin sigurganga. Eftir þá frægðarför um töldu KA-menn sig nógu forframaða í fótbolta til að bjóða til sín besta knattspyrnuliði Íslands, hinum reykvísku Víkingum. Bæjarstjórn hafði þá trú á sínum mönnum að hún veitti KA styrk til boðsins. Sama sumar komu Víkingar til Akureyrar, kepptu tvisvar við KA og unnu sunnanmennirnir í bæði skiptin.
Þrátt fyrir afhroðið voru KA-menn það brattir að árið eftir tilkynntu þeir þátttöku í Íslandsmótinu í knattspyrnu, fyrstir norðlenskra liða. Enga frægðarför fóru þeir þó á mótið, töpuðu öllum sínum leikjum, tókst aldrei að koma boltanum í mark andskota sinna og uppskáru heimkomnir háð og spott sveitunga sem uppnefndu klúbbinn KA-núll.
Heldur rættist úr fyrir KA á fyrsta sundmeistaramóti ÍSÍ sem haldið var á Akureyri árið 1934. Þar átti félagið mann sem varð í öðru sæti í þeirri göfugu grein stakkasundi.
Stuttu síðar var efnt til Norðurlandsmóts og þar varð hörkuspennandi einvígi í skriðsundi á milli Þórsarans Magnúsar Guðmundssonar og KA-mannsins Jóhannesar Snorrasonar. Var sá síðarnefndi sjónarmun á undan. Sigurinn var þó ekki ótvíræður því Jóhannes hafði klæðst mittisskýlu í sundinu ólíkt samherja sínum sem sigrað hafði stakkasundið. Þórsarinn hafði á hinn bóginn hagað sundklæðnaði sínum í samræmi við lög Íþróttasambandsins og synt í sundbol.
Ef til vill er þar komin skýringin á því að búningur Þórsara hefur alltaf minnt mig á sundboli.
Íþróttakennarinn Hermann Stefánsson á langan og merkilegan kafla í íþróttasögu Akureyrar. Hann kenndi Akureyringum m. a. þá grein skíðaíþróttarinnar sem nefndist slalom" áður en greinin hafði öðlast íslenskt nafn.
Það er mikil íþrótt að finna íslensk heiti á útlenskum fyrirbærum. Kennarar í Menntaskólanum á Akureyri voru snjallir orðsmiðir og lögðu m. a. til, að greinin yrði kölluð krókaskrið".
Hvað sem segja má um þá nafngift hljómar mun erfiðara að renna sér í krókaskriði en svigi. Og ólíkt er það nú tignarlegra að vera ólympíumeistari í risakrókaskriði en í risasvigi.
Aldrei hef ég þótt mikill dansari en verð samt að segja að enda þótt ég sé ekkert æstur í að dansa foxtrot myndi ég hugsa mig tvisvar um áður en ég fúlsaði við boði í skaufhalaskokk, eins og mætur maður nefndi dansinn á íslensku.
Myndin: Þessar íþróttamannslegu konur eru efst í Grófargili og styttan er að mig minnir gjöf frá höfuðborg Íslands til höfuðstaðar Norðurlands.
Bloggar | Breytt 22.9.2012 kl. 01:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2012 | 00:00
Akureyrarborg
Er kominn tími til að líta á hina 150 ára gömlu, góðu Akureyri sem borg?
Dr. Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar, kveikti þá umræðu snemmsumars, með tölvupósti til yfirstjórnar Akureyrarbæjar og síðar með viðtali við vikublaðið Akureyri.
Á henni eru margir fletir og efalítið finnst sumum slíkar hugmyndir lýsa fordild og hégóma. Akureyri sé ekki nema ríflega 18.000 manna samfélag og eigi ekki nokkra heimtingu á borgarnafnbótinni.
Aðrir kynnu að segja að vandséð væri hvort hlutskiptið væri betra, að vera bær með mikilmennskubrjálæði eða borg með minnimáttarkennd.
Engin ein alþjóðleg skilgreining er til á þorpum, bæjum og borgum.
Þjóðverjar hafa bara þorp og borgir í mismunandi myndum og skilgreina Akureyri sem borg.
Á Norðurlöndum virðast menn ekki lengur gera neinn lögformlegan greinarmun á borgum og bæjum.
Bæði Bretar og Bandaríkjamenn láta mannfjöldann ekki ráða úrslitum um hvort byggðir teljast bæir eða borgir. Á Bretlandi eru samfélög með yfir 200.000 íbúa sem ekki teljast borgir, t. d. Luton. Í Bandaríkjunum fyrirfinnast á hinn bóginn borgir sem ekki eru fjölmennari en Tálknafjörður .
Mörg lönd hafa engar lagalega skilgreiningar á borgum meðan önnur setja borgum skýr skilyrði. Þannig segja Portúgalar að til þess að geta kallast borg verði að búa 8.000 kjósendur á staðnum og einnig skuli vera þar til staðar helmingur af eftirfarandi:
Sjúkrahús, lyfjabúð, slökkvistöð, leikhús/menningarhús, safn, bókasafn, skólar og framhaldsskólar, almenningssamgöngur og opinber garður.
Því virðist hæpið að telja að Akureyri geti ekki verið borg með þeim rökum að þar búi of fáir. Reyndar eru íbúar á Akureyri nú mun fleiri en voru í Reykjavík árið 1908, en þá var kosinn fyrsti borgarstjórinn í höfuðborg Íslands.
Munurinn á bæjum og borgum hlýtur líka að markast af aðstæðum í hverju landi. Ekkert þarf að vera óeðlilegt við það að borgir á Íslandi séu fámennari en í stærri löndum; engum dytti í hug að banna íslenskum sumrum að nefna sig þannig því þau séu mun kaldari en í heitari löndum.
En hvers vegna ætti Akureyri að fara að líta á sig sem borg? Rök Þórodds Bjarnasonar eru í fyrsta lagi þau, að Akureyri hafi ýmis einkenni lítillar borgar. Hún hafi gott sjúkrahús, tvo framhaldsskóla, háskóla, alþjóðaflugvöll, atvinnuleikhús, menningarhús, fjölbreyttan iðnað, stórt upptökusvæði" og fleira.
Þóroddur nefnir ennfremur byggðapólitísk rök fyrir borgvæðingu Akureyrar. Borgin Akureyri væri djarfur leikur í hinni ömurlega stöðnuðu umræðu um höfuðborg og landsbyggð.
Sóknarfæri og áskoranir borgarbyggðarinnar á Akureyri eru að mörgu leyti ólík því sem gerist í minni bæjum og dreifbýli annars staðar á landinu. Hún þarf að gera ákveðnar kröfur um margvíslegar nauðsynlegar undirstöður borgar sem aðrir staðir á landinu geta ekki gert tilkall til - og hún þarf að axla margvíslegar skyldur gagnvart öðrum íbúum Norðurlands og jafnvel Austurlands,
segir Þóroddur í áðurnefndu viðtali
Akureyringurinn dr. Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, flutti aðalræðuna á 150 ára afmælishátíð Akureyrar þann 1. september síðastliðinn.
Hann gerði sérstöðu Akureyrar einnig að umtalsefni. Hún felst meðal annars í því að Akureyri er höfuðstaður landsbyggðarinnar á Íslandi. Að mati Páls er sú sérstaða ekki nægilega virt. Allt það sem Akureyri hefur upp á að bjóða sannar að að það er ekki aðeins á Reykjavíkursvæðinu sem hlutirnir gerast" eins og Páll orðaði það.
Einhæfni og fábreytni ógna íslenskri menningu og við þurfum öflugt mótvægi við múgmenninguna á suðvesturhorninu. Þetta mótvægi getur Akureyri veitt vegna þess að hún hefur þá skapandi menningarhefð og þá efnahagslegu burði sem þarf til að helga sig því hlutverki að leiða uppbyggingarstarf á landsbyggðinni allri,
sagði hann ennfremur.
Páll tók ekki afstöðu til þess hvort nefna ætti Akureyri borg. Hann lagði áherslu á að samfélagið Akureyri hefði sínar meginskyldur við íbúa sín og þá ekki síst börn og unglinga.
Í þeim efnum sé ég ekki að það skipti neinu máli hvort Akureyri er bær eða borg.
Sé á hinn bóginn litið til þess hlutverks sem Akureyri gegnir fyrir landið allt má ef til vill segja að henni geti gengið betur að sinna því sem borg en bær og borgartitillinn kunni að efla Akureyri sem raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið.
Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, er einn þeirra sem vill sjá Akureyrarborg rísa.
Hann bendir á að það styrki ímynd Reykjavíkur sem höfuðborgar sé hún ekki lengur eina borgin á Íslandi.
Við það má bæta að verði Akureyri borg verður Jón Gnarr ekki lengur eini borgarstjóri landsins. Sú einsemd hans er þá úr sögunni.
Í hátíðarræðu sinni benti Páll Skúlason á að Akureyri hefði þvílíka möguleika á að axla sína ábyrgð á öllum sviðum og í öllum greinum að það hálfa væri nóg" og bætti við:
Þess vegna er ég ekki hissa að hún skuli vera hugsi og jafnvel áhyggjufull á þessari afmælishátíð. Það ber vott um ábyrgð. Veit hún sjálf hvert hún stefnir? Hefur hún gert upp hug sinn og ákveðið að taka hiklaust á við það að verða sá höfuðstaður sem þjóðin þarfnast til viðbótar og til mótvægis við Reykjavík?
Þetta eru góðar spurningar fyrir Akureyri á afmælisári.
Myndin er tekin í Lystigarði Akureyrar nú í sumar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2012 | 21:51
Skuldaþrælahald á Íslandi
Þeir Íslendingar sem eru að reyna að borga af húsnæðislánum sínum búa við það kerfi að borga og borga en horfa upp á lánin sín hækka og hækka.
Í kjölfar bankahrunsins máttu íslenskir lánþegar þola skyndilega sprengihækkun á lánum sínum. Á sama tíma hrundi verðið á húsnæðinu sem er orsök lánanna.
Engin almenn leiðrétting fékkst á þessu ranglæti. Lántakar þurftu að þola þetta tjón efnahagshrunsins einir og bótalaust.
Ein afleiðing þess ranglætis er sú, að á sama tíma og bankarnir eru að sýna milljarða króna hagnað hafa aldrei fleiri Íslendingar verið á vanskilaskrá og aldrei færri sem geta staðið í skilum við Íbúðalánasjóð.
Stór hluti íslenskra heimila þarf að berjast fyrir því með öllum tiltækum ráðum að lenda ekki í vanskilum. Í sumar hafa margar fjölskyldur til dæmis ekki getað farið neitt í sumarfrí ef standa átti í skilum með húsnæðislánin.
Íslenska réttlætið handa þessu heiðarlega fólki sem vildi greiða skuldir sínar er þannig, að á sama tíma og það hafði ekki efni á að fara í sumarfrí, hækkuðu hin ofvöxnu lán þessa fólks enn, m. a. vegna hækkana á flugfargjöldum.
Talið er að í sumar hafi 20 milljón króna húsnæðislán hækkað um kr. 60.000, aðeins vegna hækkunar á flugmiðum eins og fram kemur hér.
Nú hafa Samtök fjármálafyrirtækja látið útbúa skýrslu um verðtrygginguna. Í kvöld var einn skýrsluhöfunda, Valdimar Ármann, hagfræðilegur ráðgjafi hjá verðbréfafyrirtækina GAM, í fréttaskýringaþættinum Speglinum á RÚV.
Til að gera langa sögu stutta komast sérfræðingar Samtaka fjármálafyrirtækja í þessari skýrslu að þeirri meginniðurstöðu, að til að draga úr vægi verðtryggingar á Íslandi, þurfi að þyngja greiðslubyrði húsnæðislána.
Þegar fréttamaðurinn spyr sérfræðinginn hvort verið sé að segja að greiðslubyrði af íbúðalánum á Íslandi sé of lág, er svarið:
Já, í raun og veru...
Íslenskir skuldarar hafa aldrei átt í meiri erfiðleikum með að standa í skilum við íslensk fjármálafyrirtæki en nú.
Á sama tíma leggja sérfræðingar íslenskra fjármálafyrirtækja það til, að þyngja enn byrðarnar sem lagðar eru á herðar íslenskra skuldara.
Hvaðan ætli milljarðarnir komi sem íslensk fjármálafyrirtæki eru að græða þessa dagana?
Myndin: Haust
Bloggar | Breytt 11.9.2012 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.8.2012 | 01:51
Til hamingju, Akureyri!
Í merkisafmælum er gjarnan bankað með teskeið í staup og síðan stendur sá sem bankaði upp úr sæti sínu og ávarpar afmælisbarnið. Þá er vinsælt að segja sögur af því. Það ætla ég að gera fyrir Akureyri á 150 ára afmæli hennar.
Ég get að vísu ekki sagt sögur af henni ungri. Akureyri var orðin 100 ára þegar ég man eftir henni. Ein fyrsta minningin er þegar ég týndist nokkurra ára gamall. Þá átti ég heima í þeirri fallegu götu Byggðavegi á Brekkunni en amma mín í Norðurgötu niðri á Eyri. Ég var fyrsta barnabarnið hennar og hún gat aldrei fulllaunað mér þann heiður sem ég sýndi henni með því að gera hana að ömmu. Emelía amma dekraði svo við mig að ég bíð þess sennilega aldrei bætur.
Einn góðan veðurdag ákvað ég að ganga til ömmu en var hirtur upp á Glerárgötunni af lögreglu bæjarins enda ekki ætlast til að litlir snáðar væru að spígspora einir um strætin. Varð fátt um svör þegar lögreglumenn hófu yfirheyrslur. Ég vissi ekkert hvert ég var að fara eða hvaðan ég kom og gat varla sagt til nafns. Það eina sem lögreglumennirnir náðu upp úr mér var að ég væri að fara til hennar ömmu minnar. Var mér stungið í lögreglubílinn og farið með mig beint á lögreglustöðina sem þá var látlaust hús í námunda við ráðhús bæjarins. Það lét svo lítið yfir sér að það hefði eiginlega átt að vera leynilögreglustöð.
Ég man að þar var mér sýnt inn í rammgerðan fangaklefa með sverum og grafalvarlegum slagbröndum. Sennilega var það þó ekki gert til að hræða mig eða liðka á mér málbeinið því löggurnar voru hinar elskulegustu við mig. Síðan þá hefur mér alltaf þótt vænt um lögregluna og óhætt að segja að ég hafi frá barnsaldri verið góðkunningi hennar.
Aðra minningu á ég frá því ég bjó í blokkinni úti í Þorpi. Við krakkarnir ákváðum að hlaupa uppi brunabíl sem var ekið á ofsahraða eftir ómalbikaðri Hörgárbrautinni með tilheyrandi væli og blikkandi ljósum. Ég hljóp og hljóp og sífellt dró í sundur með mér og bílnum og sprettharðari krökkunum. Að lokum gafst ég upp og horfði á eftir krakkaskaranum og eldrauðum brunabílnum hverfa í rykmekki miklum. Eftir öll hlaupin óaði mér við því hvað Akureyri væri rosalega stór. Ég efaðist um að það gæti verið rétt sem ég heyrði sagt, að Reykjavík væri enn stærri.
Fyrsti skólinn minn var vorskóli sem var til húsa í næstfallegasta húsi Akureyrar, Húsmæðraskólanum (Akureyrarkirkja er að sjálfsögðu enn fallegri). Þangað gekk ég úr Skarðshlíðinni, yfir Glerárbrúna og upp Þórunnarstrætið. Í Húsmæðraskólanum tók á móti okkur yndisleg gömul kona í peysufötum og kenndi okkur að lesa. Hún hét Sólveig. Það var mikil birta yfir henni og þessum vikum sem ég átti í kjallaranum í Húsmæðraskólanum.
Framundan var margra ára ferill minn innan akureyska skólakerfisins, fyrst í Oddeyrarskólanum, síðan í Barnaskóla Akureyrar (sem nefndur hefur verið Barnaskóli Íslands) og eftir það tveir vetur í unglingadeild Oddeyrarskólans. Landspróf tók ég í Gagganum og var síðan fjögur ár í Menntaskólanum. Kennara hafði ég marga og misjafna. Ég nenni ekki að muna eftir þeim sárafáu sem ekki voru starfi sínu vaxnir en hinna minnist ég með mikilli ánægju. Ég var aldrei kennarasleikja en er mjög þakklátur fyrir alla góðu kennarana sem Akureyri skaffaði mér. Þeir eiga stóran þátt í að ég er þó ekki verri en ég er. Mestan heiður af því eiga þó mamma mín og pabbi.
Lengi var það ein mín helsta skemmtun að fara í þrjúbíó. Oft fjármagnaði amma á Eyrinni þær ferðir og stundum fannst afa nóg um hvað sú gamla var rausnarleg í fjárveitingum til hinna brýnu nammikaupa. Kvikmyndahús bæjarins voru tvö, Borgarbíó og Nýja bíó. Þá var hinn ungverskættaði Johnny Weissmuller enn að leika Tarzan fyrir krakka veraldarinnar og kúrekinn geðþekki Roy Rogers reið syngjandi um grundir á hinum óstressaða hesti sínum, Trigger. Mest fútt fannst mér samt að sjá teiknimyndirnar, Looney Tunes og Merrie Melodies.
Þrátt fyrir nafnið var Nýja bíó eldra en hitt bíóið. Þar var um tíma rottugangur sem gat bætt enn í stemninguna þegar hryllingsmyndir voru á tjaldinu en kom áhorfendum rómantískra mynda nokkuð úr stuði. Aldrei urðum við krakkarnir þó varir við þessi illa séðu nagdýr enda var hávaðinn í okkur óstjórnlegur á meðan við gengum í salinn. Þegar myndin loksins hófst varð svo allt gjörsamlega vitlaust og aumingjans gamla Nýja bíó með öllum sínum rottum nötraði af öskrum, lófaklappi og fótastappi.
Nýja bíó hafði meiri karakter en hitt bíóið. Þar var hægt að festa varirnar í pikkfrosnum rjómaís sem var til sölu í sælgætisdeild hússins. Nýja bíó státaði líka af Stjána í bíó sem sá um að hleypa krakkaskaranum inn í dýrðina þegar sá tími kom. Þá reif hann af miðunum með allnokkrum þjósti og tók stundum nokkra í einu, enda margreyndur atvinnumaður í faginu. Varð stundum töluverður atgangur við inngöngudyr og Stjáni rauður í framan.
Ég átti líka yndislega ömmu og afa í Innbænum, Aðalstræti 22. Stundum fór ég með ömmu minni í Höpfner, útibú kaupfélagsins í þessum elsta og virðulegast bæjarhluta Akureyrar. Þá komum við alltaf við hjá systur ömmu, Huldu, í Hafnarstrætinu. Hún var að eigin sögn göldrótt og sá í gegnum heilt, eins og hún orðaði það. Hulda gat látið í sér heyra en hún gaf manni oft fyrir Brynjuís. Sú búð var nánast á baklóðinni hjá henni.
Alli afi vann hjá Stjörnu Apóteki og hafði aðsetur undir kirkjutröppunum. Þar hafði hann meðal annars það starf að hella lýsi á flöskur. Það var vinsælt að heimsækja afa undir tröppunum. Hann splæsti alltaf apótekaralakkrís eða dró rauðan fimmkall upp úr veskinu sínu og gaf manni. Stundum fékk ég að vera samferða honum úr vinnunni inn í Aðalstræti. Þá leiddi hann mann inn í ríki sitt, Innbæinn. Þegar heim var komið bauð amma upp á kaffi, kleinur, soðibrauð með rúllupylsu, tvíbökur og horn úr kaupfélagsbakaríinu, sem voru algjört hnossgæti. Afi hafði fyrir sið að hella kaffinu sínu á undirskálina og sötra það með miklu og innilegu smjatti svo ekki fór framhjá neinum hverskonar athöfn var um að ræða.
Svavar afi minn á Eyrinni vann í Slippnum. Þangað máttu krakkar helst ekki koma því Slippurinn gat verið varasamur. Ég dáðist að því hvað Svavar afi var hrikalega skítugur um hendurnar þegar hann kom úr vinnunni. Hann þvoði þær í eldhúsinu og notaði ræstiduft til að ná af þeim smurningunni. Mig minnir að það hafi heitið Vim. Þetta þótti mér karlmannlega að verki staðið og aðfarir sem bragð var að.
Einu sinni var ég viðstaddur þegar afi kom snemma heim úr vinnunni því hann hafði dottið í sjóinn. Amma húðskammaði hann. Ég var hissa á ömmu þá en skil núna að afar eru svo dýrmætir að þeir verða að passa sig.
Mikið matlíf var hjá þessum ömmum mínum. Á báðum heimilum var ætíð borið fram kvöldkaffi áður en fólk fór að sofa og maður belgdi sig út af smurðu og sætu til að fara ekki svangur af stað inn í draumalandið. Amma á Eyrinni eldaði það besta hrossagúllas sem ég hef smakkað og munnvatnskirtlarnir í mér freyða þegar ég rifja upp bragðið af steinbítnum hennar í brúnu lauksósunni. Á laugardögum bar hún fram grjónagraut og normalbrauð með gaffalbitum frá niðursuðu K. Jónsson en amma vann einmitt þar. Ég átti mér þann draum að vinna á niðursuðunni eins og amma og til vara ætlaði ég að verða forseti.
Ég sakna margs frá gömlu Akureyri. Ég sakna til dæmis allra búðanna. Þegar amma á Eyrinni sendi mig í kaupfélagsútibúið í Ránargötunni gat ég komið við í útibúi frá Kristjánsbakaríi í sömu götu. Lengi var smábúð nokkrum skrefum ofar, á horninu á Norðurgötu og Eyrarvegi. Ef ekki var hægt að fá neitt í þeim búðum var stutt í Eyrarbúðina á horni Norðurgötu og Eiðsvallagötu. Skammt þar fyrir ofan var önnur kaupfélagsbúð og örlítið sunnar í Norðurgötunni hin magnaða verslun Esja. Enn sunnar, í Strandgötunni, var hægt að útvega sér nýlenduvörur hjá gamla góða Kaupfélagi verkamanna. Fyrir óforbetranlega samvinnumenn var þriðja KEA-útibúið á Eyrinni auðvitað fýsilegri kostur. Mig minnir að það hafi verið kallað Alaska.
Ég sakna Sana, Vallasins eldappelsínugula og hins gáskafulla Jolly Cola. Og hver getur gleymt Cream Soda, með myndinni af köllunum hlæjandi? Nú drekka menn rauðvín með nautakjöti en Cream Soda átti alveg einstaklega vel við köld svið. Ég sakna súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu og ekki síður Akra-karamellanna, bláu og brúnu. Ófá akureysk börn höfðu fórnað fyllingum úr tönnum sínum í viðureign sinni við það bráðholla ljúfmeti. Tannlæknastétt bæjarins stendur í mikilli þakkarskuld við Akra. Og talandi um tennur: Ég sakna Kópral-tannkremsins. Ég sakna Iðunnar-fótboltaskónna og Heklu-gallabuxnanna. Ég sakna Amaró og lyftunnar, herradeildarinnar og rúllustigans, teríunnar og snitselsins, Sigga Gúmm og Corgi Toys, bókabúðarinnar Eddu og Árna Bjarna, bókabúðarinnar Huldar og Huldar, bóka- og blaðasölunnar og Kobba, blaðavagnsins og Pálma, Filmuhússins og Baldurs, Cesars og Kóka og Véla- og raftækjasölunnar og Tona frænda.
Og hét hann ekki Kósímó, grænmetissalinn ítalski, sem seldi vörur sínar á Ráðhústorgi? Ég sakna hans og torgsins.
Guði sé lof að ég þarf hvorki að sakna JMJ né Hafnarbúðarinnar. Þær gamalgrónu Akureyrarbúðir hafa staðið af sér öll efnahagsleg illviðri og starfa enn, sú síðarnefndar reyndar undir nafninu Hólabúðin.
Mest sakna ég þó fólksins sem nú er horfið af götum bæjarins, úr kvikmyndahúsunum eða af hlaði Barnaskólans þegar Lilja og Björgvin höfðu látið okkur jafna bilin, fólksins sem ýmist er flutt suður eða úr landi eða komið yfir móðuna miklu handan allra heiða og fjalla. Þetta fólk var hluti þeirrar Akureyrar sem ég ólst upp við.
Nú er komið nýtt fólk og nýr bær og þótt mér sé gamla Akureyri kær þykir mér líka vænt um þá nýju.
Þegar ég komst til vits og bjó annars staðar en á milli Vaðlaheiðar og Súlna gerði ég mér grein fyrir að Akureyri er ekki fullkomin. Ég varð þess einnig áskynja að Akureyri er minni en Reykjavík. Ég er fyrir löngu búinn að fyrirgefa henni það. Ég elska hana eins og hún var og eins og hún er og vil gjarnan gera mitt til að hún verði enn betri.
Til hamingju, elsku heimabærinn minn og hafðu þökk fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Megir þú lifa vel og lengi og bjóða öllum þínum íbúum og gestum skjól og yndi.
Að lokum er hér örlítið ljóð sem heitir Bærinn minn. Ef menn kæra sig um má raula það við þetta lag.
Þar sem áin svo lygn breiðir silfur á sand
benda Súlurnar himins til,
þar sem öldurnar kyssa sitt langþráða land
og litirnir dansa í Pollsins hyl,
þar er móðir mín jörð með sinn fegursta fjörð,
henni flyt ég þakkargjörð.
Hann er sólinni kær þessi blessaði bær
eins og blóm sem á eyrinni grær.
Bloggar | Breytt 30.8.2012 kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)