Hjólaferð um Mósel, 5. kafli

Þriðji gististaðurinn okkar var í vínbænum Ürzig, um klukkutíma hjólaferð frá Bernkastel-Kues. Þar áttum við pöntuð herbergi hjá vínbóndanum Berthold Oster og eiginkonu hans, Ingrid. Þegar við komum til Ürzig reyndust húsakynni þeirra hjóna vera langt fyrir ofan bæinn.

 PICT0152

Við vorum heillengi að leiða hjólin þangað upp eftir miklum sveigum eins og á gamla þjóðveginum upp Vaðlaheiðina. Loksins þegar við komumst á leiðarenda, löðursveitt og þyrst, tókum við þar í harðlæstar dyr á bæ bónda. Miði var á hurðinni þar sem við vorum beðin að hringja í símanúmer til að láta vita af komu okkar. Heldur þótti okkur móttökurnar fátæklegar en það átti svo sannarlega eftir að breytast. Ekki liðu nema fimm mínútur þangað til vínbóndinn Berthold Oster mætti á svæðið og opnaði skælbrosandi fyrir okkur hús sín. Þegar hann sá útganginn á okkur bauð hann okkur til bakherbergis. Þar hellti hann hreinum vínberjasafa í glös og fyllti með ísköldu gosvatni. Bauð okkur að drekka með þeim orðum að þetta væri hans orkudrykkur þegar hann kæmi heim af ekrunni, þreyttur og þyrstur. Berjasafinn hafði ótrúlega skjót og öflug áhrif á okkur. Hjá Berthold bónda áttum við pantaða skoðunarferð um vínkjallarann hans, smökkun á afurðunum og svonefndar „Winzervesper", sem átti að vera einskonar vínbóndasnakk. Við vorum banhungruð og lituðumst því um eftir veitingastað á leið okkar upp til Bertholds.

PICT0157

Eftir þrúgudjúsþambið leiddi Berthold okkur til herbergja okkar og stakk upp á því að við hvíldum okkur ögn og færum í sturtu áður en hann sýndi okkur staðinn. Það gerðum við og síðan hófst skoðunin mikla sem var sko annað og meira en príl niðri í dimmum kjallara. Berthold ók með okkur út í snarbrattar hlíðarnar fyrir ofan Ürzig og sýndi okkur vinnustaðinn sinn. Hann útskýrði fyrir okkur hvernig vínrækt gengur fyrir sig, muninn á helstu þrúgunum og mestu vandamál sem steðja að þessari gamalgrónu atvinnugrein. Það leyndi sér ekki að þar nutum við uppfræðslu fagmanns sem stoltur var af þeirri vinnu sem hann stundar.

 PICT0162

Þessi mynd sýnir vel hversu brattar vínekrurnar eru víða í Mósel. Það er ábyggilega mikil erfiðisvinna að lesa berin af greinunum í þessum brekkum með fleiri tugi kílóa á bakinu.

PICT0172

Eitt af því sem Berthold sagði okkur var að víða mátti sjá skika þar vínviðurinn var ekki lengur bundinn upp. Þegar því er hætt tekur ekki nema örfá ár fyrir vínviðinn að drepast og allt fer í órækt. Mjög líklega eru þessir óræktarskikar afleiðingar af landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, tjáði Berthold okkur. Sambandið borgar vínbændum í Mósel fyrir að hætta vínrækt því það hefur í grunninn þá stefnu að hafa vínræktina þar sem hún er ódýrust. Móselbændur geta illa keppt við risavínekrur þar sem starfa átöppunarverksmiðjur sem geta dælt því sem nemur allri Móseluppskerunni á flöskur á örfáum dögum. Vínrækt í Mósel er því í ákveðnu uppnámi en hún hefur verið stunduð þar frá tímum Rómverja. Og fari vínræktin fer dalurinn í eyði því ferðamennskan á þessum slóðum þrífst ekki án ræktunarinnar og menningarinnar sem henni fylgir. Berthold bóndi átti það því sameiginlegt með íslenskum kollegum sínum að vera mjög hæfilega hrifinn af Evrópusambandinu.

 


Hjólaferð um Mósel, 4. kafli

Fyrsti gististaðurinn okkar var í borginni Wittlich en síðan héldum við áfram leið okkar niður í Móseldalinn. Síðasta spölinn þangað hjóluðum við á bökkum árinnar Lieser. Þess má geta að bæði Lieser og Mósel eru kvenkyns eins og aðrar ár og fljót á þýskri tungu. Undantekningin sem sannar regluna er sjálft Rínarfljótið sem er karlkyns. Einhvers staðar las ég að heitið Rín væri skylt sögninni að renna.

PICT0131

Skyndilega birtist okkur Móseláin en við komum niður í dal hennar á móti bænum Mühlheim.

 PICT0137

Þegar við höfðum hjólað aðeins niður með ánni sáum við inn til bæjanna Kues (okkar megin) og Bernkastel sem nú eru runnir saman í eitt. Bernkastel er m. a. frægt fyrir vínekru sem Doctor nefnist og mun ein sú dýrasta í veröld víðri. Þaðan koma einhver bestu Riesling-vín sem um getur. Bærinn Kues er á hinn bóginn þekktur vegna guðfræðingsins, heimspekingsins, stjarnfræðingsins, lögfræðingsins, stærðfræðingsins og uppfinningamannsins Nikulásar Kusanusar. Sá maður var hreinn snillingur og er mikið safn tileinkað honum í Kues sem okkur gafst því miður ekki tími til að skoða.

PICT0143

Þótt ekki gæfist tími til að skoða safn Nikulásar Kusanusar var ekki annað hægt en að sötra eitt hvítvínsglas undir hlíðum hinnar víðfrægu Doctor vínekru. Bryndís mín fékk sér sætt, ég hálfþurrt en Þjóðverjarnir sem með okkur voru fannst best að svala sér á þurru. Þarna er ég langt kominn með minn skerf sem drukkinn var úr ekta Móselvínstaupi.


Hjólaferð um Mósel, 3. kafli

Einn kosturinn við það að ferðast á hjólum er sá að þá er lítið mál að stoppa til að skoða sig um. Ekki þarf að leita að bílastæðum.

PICT0111

Á fyrsta degi ferðalagsins varð þessi fallega kirkja á vegi okkar. Garðurinn í kringum hana var ekki síðri.

PICT0121

Frú Annette Pflaeging á einni af nokkrum járnbrautabrúm sem eru á Maare-Mosel reiðhjólaveginum.

PICT0127

Á öðrum degi, eftir gistingu í Wittlich og nokkru áður en við komumst ofan í Móseldalinn, hjóluðum við í gegnum Maring-Noviand. Þar er töluverð vínrækt. Ekki var komið hádegi þegar við sáum þennan snotra áningarstað í gamalli klausturmyllu. Þar hresstum við okkur á vínglasi.

 


Hjólaferð um Mósel, 2. kafli

Maare-Mosel hjólaleiðin er um 55 km löng en á henni er hægt að taka nokkrar slaufur. Fljótlega eftir að við vorum lög af stað gerðum við lykkju á leið okkar til að skoða þorpið Schalkenmehren. Þessi hluti Eifel héraðsins var á sínum tíma mikið eldgosasvæði og þar stígur enn gas úr jörðu á nokkrum stöðum. Fyrsti gististaðurinn á leiðinni var borgin Wittlich.

PICT0096

Schalkenmehren stendur við snoturt vatn sem er afkvæmi eldsumbrotanna fyrir langa löngu.

PICT0102

Gamla járnbrautarstöðin í Schalkenmehren stendur dálítið ofan við þorpið. Það þótti mikil bylting þegar staðurinn tengdist kerfi þýsku járnbrautanna árið 1908. Áttatíu árum síðar var Maare-Mosel járnbrautaleiðin lögð niður og breytt í Maare-Mosel hjólaleiðina. Í brautarstöðinni er nú orlofsíbúð.


Hjólaferð um Mósel, 1. kafli

Sunnudaginn 24. Júní síðastliðinn komum við hjónin til bæjarins Daun í héraðinu Eifel norður af Móseldalnum í Þýskalandi. Tilgangurinn var sá að hjóla frá Daun niður að Móselánni og þaðan meðfram henni niður að borginni Cochem. Þetta var fimmta hjólaferðin mín í Þýskalandi. Að þessu sinni sá ferðaskrifstofan Moseleifel  um skipulag ferðarinnar. Við skrifuðum þeim með góðum fyrirvara, sögðum á hvaða slóðum við vildum hjóla, hversu lengi og hversu langt á að giska á degi hverjum.  Starfsfólk ferðaskrifstofunnar kom með tillögu að hjólaferð og þegar við höfðum náð sáttum um hana pöntuðu þeir gistingu og útveguðu okkur hjól. Ennfremur skipulagði skrifstofan flutning á farangri okkar milli gististaða. Verðið á ferðinni, fimm nátta gisting í tveggja manna herbergjum með sturtu, salerni og morgunverði, flutningur á farangri á milli gististaða og hjól var 446 evrur fyrir okkur hjónin eða 223 evrur á mann. Auk þess var eitt vínsmökkunarkvöld hjá vínbónda innifalið í verðinu, ein grillveisla á sama stað og flutningur á hjólunum frá Cochem aftur til Daun.

Það er dásamlegt að ferðast um Þýskaland á hjólum. Þjóðverjar eru komnir langt í að þróa þessa tegund ferðamennsku. Um landið liggur orðið þéttriðið net fjölbreytilegra hjólaleiða og þar er boðið upp á ýmsa þjónustu. Hjólavegirnir eru yfirleitt malbikaðir og aðeins ætlaðir hjólandi vegfarendum. Sá sem hjólar hefur ágæta yfirferð en er samt í góðum tengslum við umhverfið, finnur ilminn af ökrunum og heyrir söng fuglanna. Lítið mál er að stoppa á áhugaverðum stöðum og skemmtilegum þorpum sem nóg er af í Þýskalandi. Okkar reynsla er sú að hæfilegt sé að hjóla um það bil 40 km á dag. Það er nógu mikið til að maður finni örlítið fyrir því og reyni á sig án þess að maður verði örþreyttur. Ég er meira en tilbúinn að gefa frekari upplýsingar um svona ferðir og svara spurningum.

PICT0088

Í Daun. Miðbærinn er á hólnum en brúin liggur þaðan yfir á aflagða brautarstöðina. Við ætluðum að byrja á því að hjóla svokalla Maare-Mosel leið  sem liggur frá Daun í Eifel til Bernkastel-Kues við Mósel, samtals 55 km. Vegurinn var einu sinni leið járnbrauta. Þar sem eitt sinn voru teinar er nú malbik og leiðin liggur um nokkur jarðgöng og yfir gamaldags járnbrautabrýr (viaduct, sjá hér).

PICT0090

Bryndís og maðurinn sem leigði okkur hjólin í Daun.

PICT0093

Þýskir vinir okkar, Annette og Ortwin Pfläging, hjóluðu með okkur og komu akandi til Daun frá sinni heimaborg, Bochum. Hér eru þau mætt á járnbrautastöðina og gera sig klár til brottfarar.


Þjóðin eignast forseta

DSC_0228 

Síðustu árin hafa á þessu landi einkennst af miklum átökum. Ekki var nóg með að Íslendingar þyrftu að takast á við risavaxna efnahagslega örðugleika. Leiðtogar þjóðarinnar, sem báru allir sína ábyrgð á óförunum, ákváðu að leggja þyrfti meira á þjóðina en eitt stykki bankahrun. Hún þyrfti endilega að takast á við sig sjálfa líka. Fólki var hottað ofan í hinar flokkspólitísku skotgrafir. Fundin voru ný deilumál og þeim bætt við þau gömlu. Hagsmunaöflin vígbjuggust og hafa tekist á sem aldrei fyrr. Fjölmiðlum er beitt í þeirra þágu og menn hafa ekki hikað við að draga dómstóla landsins með sér niður í leðjuslaginn.

Á það hefur verið bent, að á þessum örlagatímum hafi þjóðina skort leiðtoga, manneskju, sem sameinaði hana í baráttunni við óblíð efnahagsöflin. Að sjálfsögðu hefði slíkur leiðtogi þurft að njóta trausts þjóðarinnar til að geta hafið sig yfir þá flokkadrætti sem löngum hafa einkennt okkar fámenna klíkusamfélag. Forseti Íslands hefði getað verið þessi leiðtogi. Ég er þakklátur núverandi forseta fyrir margt. Mörgum fannst kærkomið þegar hann á sínum tíma tók til varna fyrir Ísland og talaði máli þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Þá hefur hann hlustað á þjóðina þegar honum bárust áskoranir verulegs hluta hennar um að vísa umdeildum málum í dóm landsmanna. Hann átti samt erfitt með að sinna því mikilvæga starfi að leiða þjóðina í gegnum efnahagserfiðleikana og sameina hana til átaka við þá. Þar háði honum pólitískur bakgrunnur hans og þátttaka í því ferli sem til bankahrunsins leiddi.

Nú þegar þjóðin velur sér nýjan þjóðarleiðtoga rísa upp tvær gamlar valdablokkir stjórnmála og auðvalds og tefla fram sínum frambjóðendum. Þjóðin skal rekin ofan í gömlu skotgrafirnar í þessum kosningum sem öðrum. Baráttan er kostuð af sömu öflunum og náðu hér yfirráðum fyrir Hrun.

Sem betur fer eru valkostirnir þó fleiri. Þjóðin getur að nýju eignast leiðtoga sem ekki er þátttakandi í sandkassaleik íslensks flokksræðis og ekki er háður auðugum og valdagráðugum hagsmunahópum. Herdís Þorgeirsdóttir er sá valkostur. Henni er treystandi til að vera sá leiðtogi þjóðarinnar sem gætir hagsmuna hennar. Herdís er málsvari mannréttinda, frelsis og réttarríkis, þeirra grunngilda sem þjóðfélag okkar byggir á. Hún er þroskuð og reynd kona, vel menntuð, bæði í lífsins skóla og öðrum menntastofnunum. Glæsimennska og þokki einkennir framkomu hennar. Það er hlýja í röddinni en líka snerpa og hugrekki. Herdís er fljót að greina aðalatriði frá því sem minna máli skiptir. Og síðast en ekki síst: Herdís kann að hlusta á fólk og sýna því virðingu. Hún gerir sér grein fyrir að enda þótt embætti forseta Íslands sé virðulegt og því fylgi völd, er það fyrst og fremst þjónusta við fólkið í landinu, í borg, bæjum og sveitum.

Þjóðin eignast góðan forseta þegar starfi hans er sinnt af auðmýkt og hjartaheitri elsku til lands og þjóðar. Þjóðin eignast góðan forseta í Herdísi Þorgeirsdóttur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu og Vikudegi 7. 6. síðastliðinn.

Myndin er úr Kjarnaskógi.


Skíthælar Íslands

 DSC_0185

Einu sinni voru aðalskíthælar Íslands svokallaðir útrásarvíkingar og athafnamenn ásamt verðbréfadúddum og bankafólki almennt.

Ekki er langt síðan bændur og landbúnaðarmafían voru á milli tannanna á fólki sem tannlæknar landsins gerðu við fyrir svívirðilegar upphæðir og er velt upp úr tjöru og fiðri fyrir athæfið.

Nú um stundir dundar fólk sér við að úthúða útgerðarmönnum fyrir þá óhæfu að græða á fiskveiðum og hásetanum fyrir að harma hlutinn sinn.

Lengi hefur það verið þjóðaríþrótt á Íslandi að hæðast að þingmönnum og Alþingi og er sú stofnun rúin allri tiltrú.

Íslenskir ráðherrar og embættismenn munu vera þeir alvitlausustu í veröld víðri ef mark er takandi á fólki - og er þó enginn hörgull þar á misvel gefnu fólki úr þeirri stétt.

Yfirleitt er íslenskt fjölmiðlafólk ekki starfi sínu vaxið og háskólasamfélagið brást í aðdraganda Hrunsins eins og fram kemur í Skýrslunni. 

Íslenskir iðnaðarmenn eru því sem næst ófáanlegir í verk, íslenskir söngvarar springa á háu tónunum, íslenskir handboltamenn tapa úrslitaleikjunum og íslenskir kennarar klúðra öllu.

Íslenskir listamenn eru afætur sem nenna ekki að vinna frekar en öryrkjarnir og atvinnuleysingjarnir.

Íslenskir læknar sprauta iðnaðarsílíkoni í konur, íslenskir matreiðslumenn nota baneitrað iðnaðarsalt í grautana, íslenskir eftirlitsmenn sofa á verðinum og íslenskir knattspyrnumenn geta ekkert.

Og ekki þarf að fjölyrða um okkur íslensku prestana.

Íslenski forsetinn sýnir einræðistakta og forsetaframbjóðendurnir eru flestir svo hættulegir að halda verður þeim frá þjóðinni.

Frá Hruni hefur smám saman verið að koma í ljós hvað íslenskar starfsstéttir eru ómögulegar.

Eftir allnokkra yfirlegu sé ég ekki betur en að einu stéttirnar sem ekki hafa hlotið útskúfunardóm almennings séu kirkjugarðsverðir, söðlasmiðir og ljósmæður.

Á þeim byggist framtíð landsins.

Myndin: Sumarnótt á Höfðanum.


Átakamælirinn

DSC_0011 

Átakamælirinn er verkefni á vegum háskólans í Heidelberg í Þýskalandi. Þar er fylgst með átökum í heiminum, þau greind og flokkuð. Átökunum er skipt í fimm meginflokka. Í þeim vægasta eru deilur. Næst koma aðstæður þar sem menn takast á án ofbeldis. Í þriðja flokknum hefur ofbeldið bæst við og þar fyrir ofan eru stríð sem háð eru með ákveðnum takmörkunum. Stríð í sinni skelfilegustu mynd eru síðan í efsta flokknum.

Átakamælirinn styðst við 45.000 tilkynningar um 762 átök víðsvegar um heiminn.

Margt fróðlegt kemur í ljós þegar þessi skýrsla skoðuð. Því hefur til dæmis stundum verið haldið fram, að trúarbrögðin séu einn helsti friðarspillir í veröld mannanna.  Því skal ekki mótmælt hér að trúarbrögð geti valdið illdeilum enda um að ræða djúpar og heitar tilfinningar. Mörg hræðileg ódæði hafa verið unnin í nafni trúarinnar.

Mælirinn sýnir þó að „einungis" 17% átaka í veröldinni eru af trúarlegum toga og nánast í þeim öllum er það trúarlega ekki eina deiluefnið heldur tvinnast saman við önnur.

Rannsóknirnar að baki þessu verkefni leiða ekki í ljós að hætta á átökum vaxi við það að fólk af mismunandi trúarhópum sé í nábýli. Í löndum á borð við Benín, Botswana, Kamerún, Malaví og Tansaníu eru margir ættflokkar og mörg mismunandi trúarbrögð en sæmilegur friður engu að síður.

Mismunandi tungumál geta á hinn bóginn aukið hættuna á ófriði, segja vísindamennirnir. Það er ekki friðvænlegt þegar fólk skilur ekki hvert annað. Ef fólk getur talað saman enda þótt það aðhyllist ólíkar trúarskoðanir og sé af mismunandi þjóðernum eykur það líkurnar á að friður ríki.

Einnig er það niðurstaða þessara rannsókna að svonefnt youth bulge hafi mjög afgerandi neikvæð áhrif á friðarhorfur í löndum heimsins. „Youth bulge" er félagsvísindalegt hugtak notað um það ástand sem myndast þegar mikið af ungu fólki er án atvinnu og hefur enga framtíðarsýn. Varðandi friðarmálin er athyglin sérstaklega á ungum karlmönnum, frá 15 til 24ra ára. Átök eru mjög tíð í löndum þar sem mikið er af atvinnulausum körlum á slíkum aldri.

(Heimild: http://hiik.de/de/konfliktbarometer/pdf/ConflictBarometer_2011.pdf og þýska tímaritið GEO 04, Apríl 2012, bls. 81)

Myndin: Álft í Aðaldal


Réttar skoðanir á ESB

DSC_0038 

Á morgun tekur Alþingi Íslendinga ákvörðun um hvort efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Í helsta hitamáli á Alþingi undanfarna daga hafa bæði þingmenn og fræðimenn haldið því fram, að tillögur stjórnlagaráðs séu ekki nógu vel unnar til að unnt sé að fara með þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hafa verið sakaðir um að vera á móti því að leita álits þjóðarinnar.

Stór hluti þeirra sem telja tillögur stjórnlagaráðs nógu skýrar til að bera þær undir þjóðina eru annarrar skoðunar þegar kemur að Evrópusambandinu:  Þjóðinni er alls ekki treystandi til að taka afstöðu til þess hvort hún vilji ganga í það eður ei.

Staðhæft hefur verið, að til þess að geta haft skoðun á því hvort Íslandi eigi að vera í ESB, þurfi að liggja fyrir aðildarsamningur. Þau rök eru til dæmis notuð í ræðu Marðar Árnasonar á Alþingi í gær.

Þar viðurkennir Mörður, að hann viti ekki út á hvað aðild að ESB gangi. Hinar svonefndu aðildarviðræður séu of skammt á veg komnar til þess að hægt sé að mynda sér skoðun á því.

Samtökin Já Ísland er samfélag þeirra sem vilja vinna að aðild Íslands að Evrópusambandinu.  Á heimasíðu samtakanna segir:

Þeir einstaklingar sem styðja Já Ísland hafa margar og ólíkar skoðanir en eru sammála um að framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess.

Á heimasíðunni má finna lista yfir þessa umræddu einstaklinga sem styðja Já Ísland.

Á honum er margt góðra manna. Meðal annars Mörður Árnason.

Ætli það sé sá Mörður Árnason sem heldur því fram, að ekki sé hægt að leita álits þjóðarinnar á því hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggi fyrir?

Ef sú er raunin, tilheyrir sá Mörður jafnframt samfélagi manna sem vilja vinna að aðild að Evrópusambandinu og telja framtíð Íslendinga betur borgið innan þess en utan.

Hann er þá einn þeirra manna sem hefur tekið afstöðu til Evrópusambandinu en treystir þjóðinni ekki til þess að taka afstöðu til Evrópusambandsins.

Og hann virðist vera í þeim hópi manna  sem heldur því fram, að ekki sé hægt að mynda sér skoðun á aðild að Evrópusambandinu fyrr en samningum sé lokið -  nema þú sért fylgjandi aðild.

Myndin: Vor við Vestmannsvatn


Sannleikurinn og lýðræðið

DSC_0923 

Ef setningin „leyfum þjóðinni að segja álit sitt" er gúggluð fást um 53.000 niðurstöður. Orðið „þjóðaratkvæðagreiðsla" kemur 266.000 sinnum fyrir á netinu samkvæmt sömu leitarvél. Þetta eru gríðarlega umtöluð og vinsæl fyrirbæri.

Fólk finnur Alþingi Íslendinga allt til foráttu og traustið til þess hefur sjaldan verið minna en núna. Þingbundið lýðræði á undir högg að sækja en beint lýðræði þykir gott. „Valdið til fólksins!" er óumdeilanlega eitt af slagorðum nútímans.

Og um það er auðvitað ekki nema gott eitt að segja. Vel má færa fyrir því rök, að best sé að fólk ráði sér að mestu leyti sjálft og beri þá líka sjálft ábyrgð á mistökum sínum og axarsköftum. Sjálfræði lýðsins er þó ákveðnum vandkvæðum bundið. Ef við eigum sjálf að taka ákvarðanir um hin ýmsu mál sem varða okkur öll, verða ákvarðanir okkar að styðjast við þekkingu á þeim málum. Við verðum að vita um hvað málin snúast og út á hvað atkvæðagreiðslurnar ganga. Lýðræði hefur alltaf upplýsta borgara að forsendu. Lýðræði virkar ekki þar sem fólk kærir sig kollótt um mál sín.

Þess vegna eru fjölmiðlar svo mikilvægir í fyrirkomulagi lýðræðisins. Lýðræðið þrífst ekki nema þar ríki andi sannleikans og fólk hafi aðgang að áreiðanlegum upplýsingum. Það eru ekki síst fjölmiðlarnir, sem eiga að halda fólki upplýstu. Til þess að geta sinnt því hlutverki sínu verður fólk að geta treyst fjölmiðlum, að þær upplýsingar, sem þeir gefa, séu réttar.

Hvað er satt? Ef til vill er þetta grundvallarspurning lýðræðisins. Til að lýðræðið virki verða þegnarnir stöðugt að spyrja sig hennar. Þeir mega ekki láta aðra um að svara henni. Þegnarnir eiga ekki að láta stjórnmálaflokka segja sér hvað sé satt. Fjölmiðlarnir eiga heldur ekki að svara því fyrir okkur hvað sé satt. Vissulega er það hlutverk fjölmiðlanna að miðla okkur ábyggilegum upplýsingum. Þeir geta líka sett þær í samhengi og fengið álit manna á hvað þær þýða en það er okkar að draga ályktanir af því sem við vitum og tengja það okkar eigin upplifunum og lífi.         Enginn má taka af okkur það ómak að mynda okkur skoðanir. Þess vegna er sannleikurinn aldrei bara eitthvað þarna úti, eitthvað sem sérfræðingarnir finna fyrir okkur og okkar er að meðtaka og kyngja.

Sannleikurinn er andlegur. Hann er ekki síður fyrir innan augun en hitt sem á sjónhimnunum dynur. Viljinn á sinn þátt í að ákvarða sannleikann okkar. Þar er ekki einungis skynsemin að verki. Oft finnst okkur það satt sem við viljum að sé satt. Þess vegna er svo gott að geta skoðað það sem öðrum finnst satt og bera það saman við okkar eigin sannleika. Það er einmitt annað meginhlutverk fjölmiðlanna: Þeir eiga að tryggja okkur aðgang að mismundandi sjónarhornum á veruleikann. Þeir eiga að sýna okkur hinar fjölbreytilegu upplifanir manna af því hvernig sannleikurinn lítur út.

Við eigum ekki að vera hrædd við upplifanir annarra af sannleikanum. Sannleikur annarra getur þvert á móti auðgað, dýpkað og styrkt okkar eigin. Þetta hafa menn til dæmis fengið að reyna í samræðum á milli trúarbragða. Því ætti það ekki að geta gerst einnig í íslenskri þjóðmálaumræðu? Eða eins og heimspekingurinn Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands orðar það nýlega í viðtali í Fréttatímanum:

Þegar við komum saman og leyfum hverjum og einum að njóta sín verður til eitthvað nýtt og jafnvel eitthvað óvænt.

Myndin: Ég held að þessi myndarfugl sé sílamáfur en bið menn mér fróðari að leiðrétta ef rangt er með farið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband