13.5.2012 | 12:41
Að hengja bónda fyrir auðmann
Í 2. kafla 1. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru dregnar saman helstu niðurstöður þess mikla og þarfa verks. Fyrsta skýringin sem nefnd er á falli íslensku bankanna er ör vöxtur þeirra.
Efnahagur og útlán bankanna uxu fram úr því sem innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki eftir útlánavextinum,
segir í skýrslunni.
Ein forsenda þessa ofvaxtar bankanna er var greiður aðgangur þeirra að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, m.a. vegna góðs lánshæfismats sem þeir fengu í arf frá íslenska ríkinu eins og skýrsluhöfundar benda á. Einnig gerði EES-samningurinn bönkunum kleift að sækja sér peninga til útlanda. Á árinu 2005 sóttu íslensku bankarnir 14 milljarða evra á erlenda skuldabréfamarkaði sem var rúm landsframleiðsla Íslands sama ár.
Stjórnvöld hefðu þurft að grípa inn í þennan alltof hraða vöxt en gerðu það ekki eða eins og skýrsluhöfundar orða það:
Þvert á móti var það stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar samkvæmt stjórnarsáttmála frá 23. maí 2007 að tryggja að fjármálastarfsemi gæti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði. Það var einnig stefna ríkisstjórnarinnar að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.
Í þessum meginniðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis er ennfremur nefnd sú staðreynd, að þeir sem helst fengu peninga að láni úr þessum nýríku bönkum, voru eigendur þeirra.
Stærstu lántakendur hjá Glitni voru Baugur og félög honum tengd. Við fall Glitnis skulduðu þeir aðilar bankanum 250 milljarða króna eða 70% af eiginfjárgrunni bankans.
Mesti skuldunautur Kaupþings var Robert Tschenguiz en sá næststærsti Exista sem skuldaði bankanum 200 milljarða króna þegar bankinn fór á hausinn.
Feðgarnir Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson voru með stærstu skuldirnar í Landsbankanum og átti bankinn inni hjá þeim vel yfir 200 milljarða króna.
Margt fleira er nefnt í skýrslunni, m. a. skortur á eftirliti og mistök í hagstjórn.
Töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan skýrslan kom út árið 2010 en nú berast þær fréttir, að helstu skuldunautar íslensku bankanna frá því fyrir Hrun hyggi á endurkomu. Þannig er það orðað í leiðara DV frá 27. apríl síðastliðnum:
Við eigum að virkja útrásarvíkingana fyrrverandi í endurreisn samfélagsins í stað þess að halda þeim í útlegð. Ekki er vanþörf á því að kalla til verka alla þá sem hafa vit og þekkingu sem nýtast kann endurreisn Íslands.
Á sama tíma er umræðan í samfélaginu þannig, að manni skilst að helstu óvinir íslenskrar alþýðu séu annarsvegar bændur og hinsvegar útgerðarmenn - og sjómennirnir fyrir að kyssa vönd þeirra síðarnefndu. Bændur eiga að vera afætur og útgerðarmenn hrægammar.
Á árunum fyrir Hrun, þegar bankarnir og auðmennirnir óðu í peningum, var þenslan fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Bankar vildu helst ekki lána peninga langt norður fyrir Hvalfjörðinn. Peningarnir fóru í skynsamlegri" fjárfestingar og íslenska þjóðin sýpur nú seiðið af þeirri stefnu.
Nú eru helstu atvinnuvegir landsbyggðarinnar sagðir mestu skaðvaldarnir en þeir sem ryksuguðu peningana úr bönkunum boða endurkomu undir lúðrablæstri fjölmiðla og álitsgjafa. Fyrirgefning er boðuð - án þess að játuð hafi verið mistök eða sekt.
Í rannsóknarskýrslunni er einnig fjallað um þátt fjölmiðla í Hruninu (8. bindi). Í lokaorðum þeirrar umfjöllunar segir:
Færa má rök fyrir því að fjölmiðlar hér hafi einnig rammað inn umræðu um fjármálalíf á forsendum fjármálafyrirtækja og fjárfesta fremur en almennings. Stór hluti umfjöllunarinnar virðist runninn undan rifjum fyrirtækjanna sjálfra og það hversu jákvæð hún var bendir ekki til þess að efasemdir um grundvallaratriði í stefnu eða rekstri fjármálafyrirtækja hafi verið miklar.
Stundum er sagt að lítið hafi breyst á þessu landi frá því að bankarnir hrundu. Ég held að enn geti maður spurt sig, á hvaða forsendum umræðan í þessu þjóðfélagi sé og undan hvaða rifjum hún renni.
Myndin er af klukkum Þorgeirskirkju við Ljósavatn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2012 | 12:06
Ást og hatur
Ástin getur birst í svo óteljandi myndum," segir í dægurlagatextanum. Sama á við um hatrið. Það getur brotist fram á ótrúlegustu stöðum og í ólíklegustu myndum. Oft ólgar það í brjóstunum án þess að finna sér farveg eða útrás og stundum veit maður ekki af hatrinu í sjálfum sér fyrr en allt í einu.
Því er stundum haldið fram að umræðan á Íslandi nútímans sé hatrömm. Þannig umræðumenning er ekki ný af nálinni okkar á meðal. Lengi hafa Íslendingar tíðkað að ræða málin með skítkasti og svívirðingum um nafngreinda menn og hópa. Soðketill hatursins hefur verið óspart kyntur á þessu landi. Um það má til dæmis lesa hér.
Eitt einkenni íslenskrar umræðuhefðar er hvað hún er oft neikvæð. Í stað þess að segja hvað menn vilja tala þeir um það sem þeir vilja ekki. Menn tala frekar um það sem þarf að forðast en að hverju skuli stefna. Í stað þess að tala um framtíð er horft til baka. Í stað þess að segja hvað maður hafi fram að færa er rætt um hvað hinir séu ómögulegir. Í stað þess að vekja von er alið á ótta.
Íslensk umræða er ofan í djúpum skotgröfum sem tekið hefur áratugi að moka.
Þegar menn eru gagnrýndir er ekki gripið til málefnalegra raka heldur er mykjudreifarinn tengdur við dráttarvélina og ekið af stað út á opinberan vettvang. Þar er ekki einungis um að ræða hina alræmdu netheima heldur líka íslenska fjölmiðla. Sum blöð velja m. a. s. eins afleitar myndir og hægt er af þeim einstaklingum sem verið er að taka niður" eins og það er kallað á fagmáli.
Erfitt getur verið að skilgreina hatur. Ætli það sé ekki í flestra hugum tengt fyrirlitningu, reiði og að vilja einhverjum illt? Í Nýja testamentinu er hatur stundum notað í merkingunni að aftengjast einhverju". Hatur er aðskilnaður sem lýsir sér í girðingum og múrum. Kærleikurinn á hinn bóginn sameinar fólk og tengir það hvert öðru.
Ef til vill er það útópía að öll dýrin í skóginum geti verið vinir. Á sama hátt og við eigum okkur fyrirmyndir sem við viljum líkjast eigum við okkur andstæðinga og óvini. Við viljum ekki feta í fótspor þeirra. Þannig skýra óvinirnir sjálfsmynd okkar. Þeir hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og hvað við viljum. Þetta hefur verið skoðað af fræðimönnum. Bandaríski félagsfræðingurinn Neil Joseph Smelser rannsakaði t. d. þátt þeirra mynda sem við gerum okkur af óvinum okkar í samskiptum okkar við annað fólk.
Því má færa rök fyrir því að við höfum þörf fyrir andstæðinga og manneskjur sem eru okkur engan veginn sammála. Mig minnir að einhver þýskumælandi hafi kallað það Feindbedürfnis". Gott er að skoða boðið um að elska óvini sína í því ljósi.
Að lokum: Elska til eins þýðir ekki hatur til annars. Það mun hafa verið Charles de Gaulle sem benti á muninn á ættjarðarást og þjóðernishyggju:
Ættjarðarást er elska til eigin þjóðar en þjóðernishyggja hatur til annarra.
Myndin er af heimiliskettinum sem notar gluggaveðrið til að láta sólina verma á sér belginn í stað þess að kljást við óvini sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2012 | 11:15
Líf í lit
Regnbogafáninn er eitt af táknum homma og lesbía. Upphaflega hafði hver litur hans sína merkingu en fánann má líka skilja sem merki hins fjölbreytta og litskrúðuga mannlífs. Við erum ekki öll eins, hvert okkar hefur sinn lit og einmitt þess vegna höfum við alla regnbogans liti en ekki bara svart og hvítt. Samkynhneigt fólk er einn regnbogans litur og án þess er regnboginn ekki fullkominn. Án samkynhneigðra er kirkjan ekki fullkomin. Án þeirra er kirkjan vanheil.
Samkvæmt fyrstu Mósebók er regnboginn áminning um sáttmálann sem Guð gerði við mennina eftir Nóaflóðið um að aldrei aftur skyldu þvílíkar hörmungar koma yfir mannkynið sem átti að fá að fjölga sér og vera fjölmennt. Í Gamla testamentinu er regnboginn þess vegna tákn friðar og fjölbreytileika.
Litir tákna líf. Þegar Nói sigldi um á örkinni sinni í hámarki flóðsins hefur það varla verið litrík tilvera. En þegar vatnið fór að sjatna, landið kom í ljós og lífið fór að kvikna aftur, þá fjölgaði litunum.
Regnboginn er gleðitákn því fögnuðurinn er fylgifiskur fjölbreytileikans. Tilveran í svarthvítu er hvorki fagnaðarrík né gleðileg. Við tölum um gráan hversdagsleikann. Í honum er hver dagur öðrum líkur, lífið í sauðalitunum, fátt kemurt á óvart og allt svipað, aðeins mismunandi mikið svart eða hvítt. Þannig líf getur veitt öryggi. Við vitum á hverju við eigum von. Það er nánast bara um tvennt að velja.
Líf í litum er á hinn bóginn ekki einfalt. Það er meiri kúnst. Þar erum við kannski allt í einu umkringd litum sem við höfum aldrei séð áður. Við vitum aldrei á hverju við eigum von. Líf í lit er áhættusamt.
Lífið í lit er hýrt. Það er skemmtilegt. Undrunin er talin vera ein móðir hlátursins. Við hlæjum að brandaranum vegna þess að þar gerðist eitthvað sem við áttum ekki von á. Vaninn getur verið lamandi en það óvænta örvar hugsunina og skynjunina. Guði sé lof fyrir að allt er ekki eins og við héldum að það ætti að vera. Guði sé lof fyrir að tilveran er í lit en ekki svarthvít. Guði sé lof fyrir gleðina og hláturinn. Guði sé lof fyrir hýrleikann.
(Úr hugvekju sem ég flutti síðastliðinn sunnudag í regnbogamessu í Akureyrarkirkju. Að henni stóðu kirkjan og HIN - Hinsegin Norðurland. Myndin er af regnboga á Akureyrarpolli.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2012 | 20:46
Þaklausar kirkjur
Stutt frá borginni Siena, í hjarta héraðsins Toskana á Ítalíu, er yfirgefið klaustur, San Galgano. Það er kennt við hinn hugumprúða riddara Galgano Guidotti (f. 1148) sem snéri við blaðinu og hætti riddaramennsku og hernaðarbrölti eftir að sjálfur Gabríel erkiengill birtist honum í draumi. Í honum var riddarinn beðinn um að fylgja Kristi. Galgano hlýddi og var borinn af hesti sínum að hæðinni Montesiepi. Þar ákvað hann búa sem einsetumaður og helga líf sitt Guði.
Galgano varð fljótlega kunnur fyrir guðrækilegt líferni og kraftaverk. Það frægasta var þegar hann rak sverð sitt á kaf í stein í skýli sínu. Eftir daga Galganos var byggð kapella yfir sverðið í steininum. Þar er það enn þann dag í dag sýnilegt undir glerkúpli. Hefur sá sem hér skrifar barið það augum. Vísindamenn munu hafa staðfest að sverðið sé frá dögum riddarans en engar skýringar eru á því hvernig unnt var að reka það í steininn upp að hjölt.
Skömmu eftir dauða sinn árið 1181 var Galgano tekinn í dýrlingatölu. Hvert ár fjölgaði pílagrímunum, sem komu til Montesiepi til að sjá sverðið í steininum. Klaustur var stofnað á staðnum, kennt við riddarann fyrrverandi og dýrlinginn, San Galgano. Byggð var myndarleg kirkja, sú fyrsta í gotneskum stíl í Toskana. Staðurinn varð forríkur en sú þróun reyndist ekki einungis til heilla. Auðæfi San Galgano löðuðu að innrásarheri og þjófa sem létu greipar sópa um það sem klaustrið átti. Gjarnan fylgir spilling ríkidæmi og frægð og San Galgano fór ekki varhluta af henni. Hnignun klaustursins var býsna hröð. Árið 1550 voru þar ekki nema fimm munkar og í byrjun 17. aldar bjó þar aðeins einn gamall munkur, lasburða og tannlaus. Þann 6. janúar árið 1786 hrundi svo hinn 36 metra hái turn kirkjunnar ofan í þak hennar.
Síðan hefur kirkjan staðið þannig, án turns og þaks, og er sem slík minnisvarði um forna frægð en einnig þær hættur sem felast í auði og völdum.
Miklu sunnar á jarðarkringlunni, í vesturhluta Afríkuríkisins Keníu, er þorpið Kamito í Pókot-héraði. Þar er þaklaus kirkja eins og í Montesiepi í Toskana. Síðan árið 1978 hefur Samband íslenskra kristniboðsfélaga haft kristniboða í Pókot. Í lok ársins 2007 tilheyrðu meira en 20.000 manns kirkjunni þar. Einn safnaðanna er í Kamito. Þegar fyrsta kirkjan þar var orðin of lítil var hafist handa við að reisa nýja. Var hún höfð á nákvæmlega sama stað og sú gamla og hlaðin upp í kringum þá gömlu. Verkið sóttist ágætlega og upp komust útveggir en þegar hefjast átti handa við þakið voru peningarnir búnir.
Nú stendur nýja kirkjan í Kamito þannig, þaklaus með þá gömlu inni í sér. Vegna þakleysisins eru múrsteinarnir í nýbyggingunni algjörlega berskjaldaðir fyrir regni og vindum. Þess vegna er ekki nóg með að söfnuðurinn eigi ekki fyrir þaki á kirkjuna heldur liggur það undir skemmdum sem þó tókst að ljúka. Það er því mikið í húfi. Kostnaðurinn við að koma þaki á kirkjuna í Kamito er áætlaður 300.000 krónur íslenskar.
Kamito er vinasöfnuður Akureyrarkirkju og við ætlum að leggja okkar af mörkum til að koma þaki á kirkju vina okkar. Við munum taka samskot í sunnudagsmessum þangað til hættir að rigna á söfnuðinn í nýju kirkjunni í Kamito. Í fyrstu messunni söfnuðust kr. 25.000.
Tvær þaklausar kirkjur: Önnur er umbúðirnar einar, tákn fornrar frægðar, áminning um að ekki sé allt fengið með peningum og hættur þær sem fylgja ríkidæmi og völdum. Hin kirkjan er byggð utan um söfnuð sem stöðugt vex og dafnar. Hún minnir okkur á að kirkjulegt starf þarf þak yfir höfuðið, aðstöðu, úbúnað og starfskrafta.
Myndin er frá SÍK og sýnir vini okkar við gömlu kirkjuna, inni í þeirri nýju þaklausu.
Bloggar | Breytt 23.4.2012 kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2012 | 23:27
Hagfræði góðs og ills
Hinn tékkneski Tomas Sedlacek er einn áhugaverðasti hagfræðingur okkar tíma. Á árunum 2001 - 2003 var hann meðal ráðgjafa Václav Havel, forseta Tékklands, og næstu þrjú árin sinnti hann sömu störfum fyrir tékklenska fjármálaráðuneytið. Hið virta hagfræðirit Yale Economic Review útnefndi Sedlacek einn af fimm heitustu hugsuðunum í hagfræði. Nú starfar hann sem aðalhagfræðingur hins stóra CSOB-banka í Tékklandi og á sæti í efnahagsráði ríkisstjórnarinnar auk þess sem hann kennir við háskóla í Prag.
Árið 2009 sendi Sedlacek frá sér bókina Hagfræði góðs og ills" sem þýdd hefur verið á margar tungur og hefur víða komist á metsölulista. Leikrit hefur verið skrifað á grundvelli bókarinnar og sett á svið í Prag við miklar vinsældir.
Í 12. tölublaði þýska vikuritsins Der Spiegel frá sem út kom 19. 3. síðastliðinn birtist viðtal við Sedlacek undir yfirskriftinni Græðgin er upphaf alls". Þessi færsla er byggð á því viðtali.
Elstu sögur mannkynsins fjalla um hversu viðsjárverð græðgin getur verið. Hún er aflgjafi framfara en jafnframt orsök hruns. Það virðist vera okkur mönnunum meðfætt að vera alltaf óánægðir og girnast sífellt meira. Upprunasyndin í garðinum Eden var afleiðing græðgi. Paradís bauð upp á fullkomið líf og gallalaus búsetuskilyrði en það nægði mönnunum ekki. Þau Adam og Eva vildu meira. Þar með hófst saga mannkyns. Græðgin kom henni af stað, segir Sedlacek.
Manninum tekst aldrei að fullnægja græðgi sinni. Hann verður aldrei mettur. Neyslan virkar eins og eiturlyf. Eftirspurnin verður alltaf til staðar. Maðurinn á ekki afurkvæmt í Paradís. Tyler Durden, persóna í kvikmyndinni Fight Club, lýsir þessum örlögum mannsins þannig:
Við förum í vinnu, sem við hötum, til að geta keypt drasl, sem við höfum enga þörf fyrir.
(Advertising has us chasing cars and clothes, working jobs we hate so we can buy s**t we don't need. ")
Ekki eru nema tvær leiðir til að jafna misræmið á milli löngunar og saðningar, eftirspurnar og framboðs.
Annarsvegar er hægt að auka framboð af gæðum og ennfremur getu neytendanna til að kaupa þau. Það er hin hedóníska leið sem mannkynið hefur valið að fara. Núverandi skuldakreppa segir okkur ef til vill, að lengra verði ekki komist eftir þeirri leið.
Hinsvegar er hægt að fara leið hinna fornu Stóíkera með því að minnka eftirspurnina uns hún samsvarar framboðinu. Sedlacek aðhyllist einskonar hvíldardagshagfræði". Guð hvíldist á sjöunda deginum. Það gerði hann ekki vegna þess að hann væri þreyttur, heldur sá hann, að það sem hann hafði gert var harla gott. Samkvæmt Gamla testamentinu á ennfremur að hvíla akrana sjöunda hvert ár. Þar er fyrirfinnst líka svonefnt fagnaðarár. Það rennur upp á 49 ára fresti með einskonar skuldauppgjöf. (Sjá nánar hér.)
Að mati Sedlacek hvílir samfélagið á þremur stoðum: Siðferði, samkeppni og reglum. Sé siðferðisstoðin veik þarf að auka við reglugerðarstoðina. Eftir fall kommúnismans gáfu mörg ríkjanna í Austur-Evrópu markaðsöflunum lausan tauminn, en komust að því að samfélag, sem byggt er á sjálfselsku án siðferðis, endar í óreiðu og stjórnleysi.
Sú hagfræði sem Sedlacek aðhyllist hefur siðfræðilegan kjarna enda telur hann hverja efnahagslega ákvörðun, t. d. kaup á vöru eða þjónustu, gildishlaðna. Markaðshagkerfi án siðferðis er ávísun á gjöreyðingu.
Krepputímar eru góðir því þeir henta vel til að spyrja réttu spurninganna. Hagfræðin má ekki bara snúast um endalausan vöxt. Í stað þess að vilja stöðuga aukningu á þjóðarframleiðslu ættum við að reyna að lækka skuldirnar. Þegar vel gengur á að leggja fyrir - eins og gert er í sögunni úr Gamla testamentinu um kýrnar sjö feitu og mögru. (Genesis 41)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2012 | 09:01
Biskup okkar tíma
Tvennu þurfum við að spyrja okkur að sem stöndum frammi fyrir vali á næsta biskupi Íslands. Annars vegar er það spurningin um hvernig biskup þurfi að vera, óháð tíma og rúmi og hins vegar hvernig biskup við þurfum í okkar tíma og rúmi. Biskup þarf alltaf að hafa ákveðnar grunnforsendur til að virka í starfi. Hann þarf að eiga einlæga trú sem snertir við fólki og vekur til umhugsunar auk þess að þekkja innviði kirkjunnar vel og samhengi hennar í samfélaginu. Þetta er grundvallarkrafa sem eðlilegt er að gera til biskupa á öllum tímum. Að þessu sögðu bætast við fleiri þættir sem við teljum mikilvægt að næsti biskup Íslands, kjörinn árið 2012, hafi.
Fyrst skulum við samt aðeins gera okkur grein fyrir því hvers konar tíma við lifum í dag. Við lifum sannarlega velmegunartíma í þeim skilningi að við búum í landi auðlinda og fegurðar, ósnortinnar náttúru og tærleika í lofti, á láði og legi. Við búum í landi tækifæra þar sem framtíðin er björt en við búum líka við tímabundna erfiðleika sem stafa af mannlegum mistökum og blindu. Það gerir það að verkum, að traust til margra rótgróinna stofnanna hefur hrunið.
Hinu megum við ekki gleyma að við búum líka við gríðarlegan mannauð og hátt menntunarstig, meira jafnrétti en víðast þekkist í veröldinni og gagnsæi í mörgum mannréttindamálum. Við höfum sýnt hugrekki á mörgum sviðum. Hér á landi hafa t.d. gagnkynhneigðir og samkynhneigðir sama rétt til hjúskapar. Við getum verið býsna hugrökk. Gagnrýnin hugsun er víðast hvar í hávegum höfð, fólk er alla jafna vel upplýst og þolir illa að talað sé niður til þess af valdhöfum og öðrum háttsettum embættismönnum. Það er vel. Í okkar landi leynist bæði gull og grjót.
Inn í þetta samhengi kjósum við nú biskup. Það er vandi, ekki af því að góða kandidata vanti, heldur vegna þess að þjóðfélagið þráir öfluga, einlæga og hreinskiptna kirkju eftir sársaukatíma og langa fæðingu uppgjörs og sannleika. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu en hún hefur ekki lengur þá forréttindastöðu að vera ein á sviðinu. Þjóðin er þróast jafnt og þétt í átt til fjölmenningar. Í fjölbreytileikanum felast mörg tækifæri og fyrir kirkjuna hefur hann þær afleiðingar, að hún verður að vanda sig enn meira en áður. Nýir tímar þýða ný viðmið, þó að gildi kirkjunnar séu alltaf þau sömu, að ganga fram í kærleika með augu Jesú Krists á lífinu.
Framundan eru spennandi tímar. Kirkjan og samfélagið ganga saman hlið við hlið áfram veginn með það markmið að græða sár, efla mannsandann og læra af fortíðinni, því hvort sem litið er til bankahruns eða kirkjukreppu þá er markmiðið það sama; að vera manneskjur og mæta manneskjum.
Nú viljum við gera grein fyrir því hvern við styðjum nú til embættis biskups Íslands. Við teljum að dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju hafi til að bera mannlega eiginleika sem séu vissulega mikilvægir á öllum tímum en ekki síst nú. Sigurður Árni er samræðumaður, hann hefur fölskvalausan áhuga á fólki og þá ekki síst því fólki sem velur aðrar leiðir en hann. Hann kann að hrífast með og læra. Sigurður Árni er vel lesinn guðfræðingur og þekkir sögu kirkjunnar í þaula. Hann er hvort tveggja í senn, forn og nýr, virðulegur og afslappaður, yfirvegaður og glaður. Hann er faðir uppkominna og ungra barna, brennandi í áhuganum fyrir hinni ungu kirkju, börnunum og foreldrum þeirra. Sigurður Árni er líka frábærlega kvæntur. Það skiptir máli þegar tekist er á við vandasamt embætti að eiga traustan lífsförunaut. Hann er lífsreyndur maður sem þekkir bæði gleði og sorg. Sigurður er prýðilegur ræðumaður, ljóðrænn en skýr, einlægur í dýptinni og hefur sinn sérstaka stíl.
Vissulega hefur Sigurður Árni margt fleira til brunns að bera en þessir kostir henta að okkar mati þeim manni sem gegnir embætti Biskups Íslands á okkar tímum.
Þessa grein birtum við kollegarnir, vinirnir og samherjarnir, sr. Hildur Eir Bolladóttir og sr. Svavar Alfreð Jónsson, prestar við Akureyrarkirkju, í Mogganum fyrr í þessari viku.
Myndin: Vor
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2012 | 23:44
Lygimál
Í gær barst mér mikil aufúsusending, Glíman, óháð tímarit um guðfræði og samfélag, sem að þessu sinni fjallar um réttlætiskennd og samfélagssýn. Þar eru áhugaverðar greinar eftir valinkunna fræðimenn. Eina ritar Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst.
Grein Jóns nefnist Sannleikur og lygi". Þar segir hann að enda þótt sannleikurinn sé grundvallaratriði í mannlegum samskiptum og sannsögli ein mikilvægasta dyggð samfélagsins séu lygar mikilvægar samskiptaaðferðir.
Í greininni fjallar Jón um fjórar tegundir lyga; klókindi, spuna, launhæðni (íróníu) og ímyndarsköpun. Allar gerðirnar segir hann vera áberandi í stjórnmálum.
Völuspá á hebresku" nefnist smásaga eftir Halldór Laxness. Þar tekur spámaðurinn og skáldið Karl Einfer að sér að liðsinna færeyskum barnakennara, Jeggvani nokkrum frá Trangisvogi, sem hafði flækt sig í skuldir í Kaupmannahöfn. Kom Einfer þeim orðrómi af stað að Jeggvan væri við það að fá Nóbelsverðlaunin. Þóttu þau tíðindi það mikil, að blaðamenn voru sendir til Færeyja þar sem Jeggvan átti að hafa kvæði í þúsundavís í kistum uppi á lofti hjá sér.
Jeggvan var spurður hvernig hann hugsaði til Nóbelsverðlaunanna og hann sagði vel, og hvað hann ætlaði að gera við þau og hann sagði að þau mundu renna inní húsholnínguna", en það þótti mörgum fyllirafti á Norðurlöndum miðlungi skáldlegt svar. Síðan leið framá haustið og Nóbelsverðlaunum var úthlutað - einhverjum miklu verri manni. Og frægð Jeggvans sem fékk ekki Nóbelsverðlaunin féll í gleymsku og dá eingu síður en frægð þess manns sem fékk þau,
segir í sögunni. Áður en það uppgötvaðist hafði Karl Einfer virkjað orðróminn og sannfært peningamenn í Danaveldi um að maður sem ætti von á Nóbelsverðlaunum mætti ekki hafa smáskuldir. Þannig fékk Jeggvan frá Trangisvogi að taka eitt stórt lán til greiðslu hinna smærri.
Þetta er eitt dæmi um vel heppnaðan spuna og mátt orðrómsins.
Stundum er lygin klædd í kjól þagnarinnar. Það kom vel í ljós í nýlegum vitnaleiðslum í Landsdómi að íslensku bankarnir hefðu fallið mun fyrr en haustið 2008 ef sannleikurinn um þá hefði verið sagður.
Oft spyr maður sig hvort ástæðan fyrir lélegu ástandi á fjármálakerfi heimsins sé kannski sú, að það byggist samsæri þöggunar, blekkinga og lyga?
Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi," segir Stephan G. í frægu kvæði. Hálfsannleikur er ein tegund þagnarlygi. Þá er sannleikurinn sagður en ekki nema til hálfs. Sennilega er slík lygi ein sú vinsælasta í mannheimum. Þegar menn ljúga vísvitandi er það sjaldnast gert beint heldur á ská, með því að segja ekki söguna alla og þegja um sumt.
Lygar virðast að mörgu leyti viðurkenndar í heimi stjórnmálanna. Þannig heyrast stjórnmálamenn stundum segja að ummæli annarra stjórnmálamanna séu til heimabrúks". Eftir því sem ég kemst næst þýðir það á mannamáli, að ekkert sé að marka ummælin. Þau séu einungis til að slá ryki í augu samlanda eða samflokksmanna þess sem lét þau falla.
Talsmenn viðskiptalífsins kvarta gjarnan undan því að trúverðugleikinn hafi glatast og kannanir sýna að stjórnmálamenn glíma við sama vanda. Ef til vill er ein stærsta skýringin á þeim skorti sú, að á þeim bæjum báðum hefur verið spilað samkvæmt reglum lyginnar fremur en sannleikans?
Og til að endurheimta trúverðugleikann og traustið, er þá ekki best segja satt og koma heiðarlega fram?
Að lokum er hér tilvitnun í bæklinginn Understanding Enlargement. The European Union's enlargement policy" sem Evrópusambandið gaf út árið 2007 til að útskýra stækkunarstefnu sína og hvernig sú stefna er framkvæmd. Þar segir á bls. 6:
Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate's implementation of the rules.... Negotiations are conducted individually with each candidate, and the pace depends on each country's progress in meeting the requirements. Candidates consequently have an incentive to implement necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country's political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. Support from civil society is essential in this process.
Berum ofangreint saman við lýsingu á sama ferli úr grein sem forystumenn ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, rituðu í Fréttablaðið þann 1. febrúar síðastliðinn:
Enginn þarf að velkjast í vafa um að þjóðin á síðasta orðið um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt ákvörðun meirihluta Alþingis er nú verið að kanna til fullnustu kosti og galla aðildar.
Myndin er úr Svarfaðardal.
Bloggar | Breytt 21.3.2012 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2012 | 10:10
Lof og last
Um tungumálið gildir það sama og aðrar gjafir Gjafarans: Það má nota bæði til góðs og ills.
Málið getum við notað til að ljúga, rægja, móðga, niðurlægja og særa en með því má líka segja sannleikann, hrósa, byggja upp og lofa.
Það skiptir máli hvernig við beitum málinu. Undanfarnar vikur hefur til dæmis verið í umræðunni hvernig sumir leyfa sér að tala um konur á netinu. Sú goðsögn virðist ætla að vera lífseig, að einhverjar aðrar reglur um kurteisi og siðgæði eigi að gilda þar en í öðrum samskiptum manna á milli. Siðleysið á netinu, gífuryrðin þar, svívirðingarnar um nafngreindar manneskjur og þjóðfélagshópa, þetta hefur áhrif. Óhörðnuð börn eyða til dæmis miklum tíma á netinu og margir telja að sé siðferðisstuðullinn færður niður á einum miðli sé þess skammt að bíða að hann færist niður á öðrum líka.
Orð hafa áhrif og þá skiptir ekki höfuðmáli hvort þau eru sögð augliti til auglitis, hvort við heyrum þau í útvarpi, lesum þau í bók eða nemum þau af tölvuskjá.
Við skulum vera þakklát fyrir að búa við málfrelsi sem má nota til að gagnrýna, setja út á og vanda um.
Hinu megum við ekki gleyma, að það frelsi gefur okkur líka svigrúm til að vekja athygli á því sem vel er gert, hrósa, lofa og byggja upp. Það er reyndar ekki vel séð af öllum og stundum er gefið í skyn að nánast hallærislegt sé að hafa þá trú á því góða og bjarta, að vilja gefa því rúm í umræðunni. Bent er á að ævinlega sé áhætta fólgin í hrósinu því við gætum verið að hrósa einhverju slæmu.
Varð Hrunið ekki vegna þess að við vorum gagnrýnislaus?
Jú, vissulega getur verið hættulegt að vera of gagnrýnislaus og hrósa og lofa. Við gætum verið að lofa eitthvað sem í raun verður til bölvunar. En fylgja ekki nákvæmlega sömu hættur lastinu? Við gætum verið að lasta og rífa það niður sem er til blessunar.
Við skulum endilega halda áfram að vera gagnrýnin og efast um ágæti hlutanna. Eitt skulum við samt muna: Það er yfirleitt miklu auðveldara að lasta en lofa. Það er ekkert stórmál að finna eitthvað neikvætt við nánast hvað sem er.
Hitt getur verið undarlega erfitt, að finna björtu blettina. Stundum er hinn ásakandi vísifingur léttasti líkamsparturinn en vöðvarnir sem mynda brosið og opna faðminn stirðir og linir.
Við skulum halda áfram að benda á það sem betur má fara. Við skulum halda áfram að vera gagnrýnin. En við skulum umfram allt láta það sjást í máli okkar, að við viljum taka okkur stöðu með lífinu andspænis dauðanum, spilum í liði með elskunni gegn illskunni og höfum meiri trú á ljósinu en myrkrinu.
Myndin er úr Akureyrarkirkju
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2012 | 15:37
ÁTVR og heimilisfriðurinn
Nýlega komst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að þeirri niðurstöðu að ÁTVR væri heimilt að stækka vínbúð sína við Hólabraut á Akureyri. Íbúar í næstu götum við verslunina höfðu kært þær ákvarðanir bæjaryfirvalda á Akureyri að leyfa framkvæmdina.
Ein vinsælasta verslunin í höfuðstað Norðurlands er þessi vínbúð ríkisins. Hún er staðsett í gömlu íbúðahverfi með þvengmjóum götum. Bílastæði eru af skornum skammti.
Á álagstímum er vitlaust að gera í þessari einu áfengisverslun í mesta þéttbýliskjarna utan suðvesturhornsins. Búðin er svo lítil, að stundum verður að hleypa inn í hana í hópum. Oft nær biðröðin frá dyrum verslunarinnar út á götu. Þá verða bæjarbúar og aðkomumenn að standa úti í kulda og trekki uns þeim er hleypt inn í dýrðina og hlýjuna - þótt yfirleitt sé gott veður á Akureyri eins og alþjóð veit.
Heyrt hef ég af fólki sem komið hefur í verslunina svo troðna af kúnnum, að ekki var um annað að ræða en láta berast með straumnum milli flöskurekkanna og freista þess að sópa einhverjum guðaveigum ofan í körfuna áður en komið var að afgreiðslukössunum.
Á slíkum dögum eru bílastæðin við verslunina fljót að fyllast. Bifreiðum viðskiptavinanna er þá troðið á ólíklegustu staði. Þær standa á öllum gangstéttum í kringum búðina, húsbílum er lagt fyrir innkeyrslur íbúanna og vambsíðir pallbílar með fellihýsi standa malandi við eldhúsgluggana. Umferðargnýrinn er stöðugur og olíubræla liggur yfir hverfinu. Börn eru í stórhættu þar sem þau skjótast út á götuna á milli bílanna í þessum þröngu götum.
Lengi hefur forráðamönnum ÁTVR verið ljóst, að vínbúðin á Akureyri er of lítil og aðkoma ófullnægjandi, bæði fyrir viðskiptavini og aðdrætti. Árið 2007 auglýsti fyrirtækið eftir húsnæði sem það hugðist taka á leigu. Þar voru skilyrðin meðal annars þau, að góð aðkoma væri fyrir viðskiptavini, flutningabíla og lyftara, nóg væri af bílastæðum og ennfremur þyrfti húsnæðið að vera á skilgreindu verslunarsvæði.
Ekki fannst hentugt húsnæði þá - enda 2007. Nú er öldin önnur. Fjöldi verslana í bænum er annaðhvort farinn á hausinn eða hefur flutt í minna húsnæði. Sú þörf sem lýsir sér í auglýsingu ÁTVR hefur á hinn bóginn ekki breyst. Verslun ÁTVR við Hólabraut er enn sú sama og einnig umhverfið. Hvort tveggja taldist ófullnægjandi árið 2007 og ekki drekka landsmenn minna af göróttum drykkjum nú en þá.
Því á maður erfitt með að skilja þá ráðstöfun ÁTVR, að hætta við að flytja verslun sína úr Hólabrautinni. Þess í stað vill fyrirtækið byggja við hina aðþrengdu búð sem þar er. Mannvirkið á að vera 126 fm að grunnfleti og jafnhátt núverandi húsnæði.
Íbúar í hverfinu eru ekki sáttir við þessi áform og erfitt er að sjá hvaða vanda ÁTVR er að leysa með þeim. Fyrir fimm árum taldi fyrirtækið hvorki aðkomu viðskiptavina að versluninni nógu góða né bílastæðin. Mun 126 fm nýtt hús á þessu þrönga plássi laga það eða bæta athafnarými flutningabíla og lyftara?
Og er hverfið nú orðið að skilgreindu verslunarsvæði?
Ég er enginn sérstakur áhugamaður um vínbúðir og mér er heldur ekki í nöp við þær en ég hef áhyggjur af íbúunum, fólkinu sem býr í nágrenni við þessa verslun. Oft hefur mér verið hugsað til þess þegar ég hef átt leið um Hólabrautina og séð örtröðina í kringum búðina.
Heimili á að vera griðastaður. Ein frumskylda yfirvalda í hverju sveitarfélagi er að verja það hlutverk heimilanna. Of lengi hafa íbúar í nágrenni vínbúðarinnar við Hólabraut þurft að búa við skert lífsgæði vegna nábýlisins við verslunina.
Bær sem auglýsir sig undir slagorðinu Öll lífsins gæði" getur ekki látið viðgangast, að hluti borgaranna sé sviptur réttinum til öruggra heimila.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hlýtur að vilja bjóða viðskiptavinum sínum í höfuðstað Norðurlands upp á sómasamlega aðstöðu til innkaupa. Þetta ríkisfyrirtæki getur ekki haft áhuga á að reka verslun sína þannig, að lífsgæði fólks skerðist og heimilisfriður þess spillist.
Myndin: Umrædd verslun er í grænu byggingunni sem glittir í á milli húsanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.2.2012 | 20:57
Blessuð Biblían
Undanfarið hafa verið allnokkrar umræður um Biblíuna. Hún er trúarrit kristinna manna og þeirra á meðal er hún gjarnan nefnd orð Guðs.
Það vilja margir skilja þannig, að Biblían sé öll heilagur sannleikur og í henni verði menn annaðhvort að trúa öllu eða engu.
Oft gleymist að Biblían er ekki eitt rit. Hún er safn margra, ritsafn. Rit Biblíunnar eru af ýmsum tegundum. Þau urðu til á mjög löngum tíma, í mörgum ólíkum aðstæðum og voru skrifuð af ótalmörgum höfundum.
Í Biblíunni finnum við allskonar hugmyndir um lífið og tilveruna. Þar er engin ein guðfræði, enginn einn menningarheimur og ekkert eitt sögusvið. Biblían talar ekki einni raust heldur heyrast þar margar ólíkar raddir.
Engu að síður halda margir því fram að ekki sé nema um tvennt að ræða varðandi Biblíuna. Annaðhvort trúi menn öllu eða engu. Þessu er bæði haldið fram af sumum kristnum mönnum, svonefndum bókstafstrúarmönnum, og ennfremur af þeim sem vilja endilega sýna fram á fáránleika Biblíunnar.
Auðvitað þurfum við ekki að trúa öllu sem í Biblíunni stendur. Hún getur hæglega staðið undir nafni sem trúarrit og orð Guðs án þess að menn líti þannig á að hver einasti stafur í henni sé borðleggjandi sannleikur.
Trúaðir menn lesa Biblíuna og sumt í henni talar til þeirra og annað ekki. Sumt þar finnst þeim mikilvægara en annað. Sumt á við nú á dögum. Annað er úrelt. Sumt nærir trúna og annað ekki.
Að sjálfsögðu túlka menn það sem þeir lesa í Biblíunni. Menn túlka yfirleitt allt sem þeir lesa. Fréttir blaðanna eru túlkaðar og þar sé ég ekkert endilega það sama og þú. Meira að segja jafn óvéfengjanlegir hlutir og hæstaréttardómar eru túlkaðir.
Þeir sem heimta að Biblíunni verði að trúa allri láta yfirleitt ósagt hvaða Biblíu eigi að trúa þannig. Er það sú íslenska? Biblían var nefnilega ekki skrifuð á íslensku en er til í íslenskri þýðingu. Við þýðingu Biblíunnar gilda sömu lögmál og þegar önnur rit eru þýdd. Þar fer fram ákveðin túlkun. Það sem stendur í íslensku þýðingunni er ekki nákvæmlega það sem stóð í frumútgáfunni.
Kristnir menn eru ekkert sammála um það sem í Biblíunni stendur. Þeir þurfa heldur ekkert að vera það. Kristnir menn mega gjarnan vera ósammála og ólíkir. Það sama gildir um hindúa eða fólk af öðrum trúarbrögðum. Trúleysingjar þurfa ekki að vera á einu máli um alla skapaða hluti. Það er kannski helst í alræðismenningu, hvort sem hún er trúarleg eða hugmyndafræðileg, sem gerð er krafa um að allir hugsi eins.
Mér þykir vænt um Biblíuna. Hún er uppspretta helstu hugmynda minna um Guð. Þangað sæki ég ýmsa speki um lífið og tilveruna.
Og þar les ég söguna um Jesú og þess vegna er Biblían mér heilög.
Myndin er af Dranga í Hörgárdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)