19.2.2012 | 21:48
Lyktin af forsetanum
Þegar þessar línur skrifast eru þýskir fjölmiðlar að tilkynna nýjan forseta þýska sambandslýðveldisins.
Sá heitir Joachim Gauck.
Gauck var borgari í gamla austur-þýska alþýðulýðveldinu og tók þátt í andófinu gegn því.
Þegar DDR varð gjaldþrota, efnahagslega og hugmyndafræðilega, var ákveðið að borgararnir gætu nálgast öll gögn um sig sem voru að finna í hirslum þýsku leyniþjónustunnar, STASI. Eftir hrun múrsins var Gauck skipaður yfirmaður þessa gríðarlega gagnasafns en drjúgur hluti borgara hins sósíalíska alþýðulýðveldis var á mála hjá leyniþjónustu landsins við að njósna um samborgara sína.
Vorið 1994 var ég á ráðstefnu í Berlín og heimsótti STASI. Gauck tók á móti okkur. Hann er mjög eftirminnilegur maður.
Ég hef sagt frá þessari heimsókn minni áður hér á blogginu og endurbirti hér hluta þeirrar frásagnar.
Gauck sagði okkur sögu Stasi og leiddi okkur um húsakynni stofnunarinnar. Við sáum meðal annars deildina sem sá um að opna bréf til almennings.
Það eftirminnilegasta var samt risastór geymslusalur, fullur af vandlega lokuðum glerkrukkum. Hver þeirra var merkt mannsnafni og hafði að geyma klút. Við gestirnir vissum ekkert hvað þetta var en Gauck vissi af eigin raun hvað hér var um að ræða.
Á sínum tíma var Gauck æskulýðsprestur í borginni Rostock í gamla austurhlutanum. Margir prestar létu um sig muna í andófi gegn alræðinu og auk þess var kirkjan bakhjarl friðarhreyfinga sem voru stjórnvöldum mikill þyrnir í augum. Einu sinni sem oftar var Gauck færður til yfirheyrslu. Að henni lokinni var honum réttur klútur og hann beðinn að nudda honum við nára sér. Þar er víst mesta útstreymi lyktar á líkamanum og þess vegna hoppa hundar gjarnan í klof manna.
Klúturinn var svo gripinn með töng og settur ofan í krukku. Henni var lokað og síðan var hún merkt og komið til geymslu á vísum stað. Gauck var einn fjölmargra borgara sem þótti líklegur til að reyna flótta vestur yfir. Þess vegna fannst þeim vissara að eiga lykt hans til að geta sent hundana á eftir honum.
Stasi fylgdist vel með sínum, skráði hjá sér daglega hegðun fólks, hlustaði á það tala við sína nánustu við eldhúsborðið og elskast á kvöldin. Þar að auki átti ríkið lykt af þúsundum borgara sinna.
Myndin er fengin af Wikipedia.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2012 | 22:27
Pravda ríkisstjórnarinnar
Síðastliðinn fimmtudag mætti nýráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í viðtal í útvarp ríkisins til að kynna sig, hlutverk sitt og draum sinn um samfélagið. Orðrétt sagði hann:
Ég mun halda mig við staðreyndir, það er minn draumur að búa í samfélagi sem byggir umræðuna meira og minna á köldum staðreyndum en minna á svona, þið vitið, umræðuhefð sem að við þekkjum mjög vel þar sem skoðunum er haldið á lofti og jafnvel brestur út í einhvern svona einhvern hráskinnaleik, bara segja svona skrum jafnvel. Ég kann því æ verr með aldrinum, þessháttar umræðu."
Upplýsingafulltrúinn greindi okkur ennfremur frá því að mikið offramboð væri af upplýsingum á Íslandi. Þess vegna væri sífellt erfiðara að skilja meginatriði og sjá mál í samhengi. Hann ræddi um nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands en um hana hafa verið skiptar skoðanir. Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sagði að það yrði hlutverk sitt að paufast í gegnum svona mál" og segja þjóðinni hvað sé satt og hvað sé rétt.
Samkvæmt þessu hefur ríkisstjórnin ekki ráðið sér upplýsingafulltrúa til að dreifa upplýsingum. Ríkisstjórnin hefur nú á sínum snærum starfsmann sem mun segja þjóðinni hvað sé rétt og satt í öllu því mikla upplýsingaflóði sem á henni skellur á degi hverjum. Þessi starfsmaður ríkisstjórnarinnar mun halda sig við kaldar staðreyndir og því þarf ekki að efast um neitt sem frá honum kemur. Ríkisstjórnin hefur ennfremur ráðið sér talsmann sem síður kýs umræðuhefð þar sem skoðunum er haldið á lofti".
Þar eiga einungis að vera hinar jökulköldu staðreyndir fulltrúans. Skrum líðst ekki.
Lýðræðismenning er meðal annars í því fólgin, að þar fá ólík og stundum andstæð viðhorf að takast á. Við stuðlum að öflugri og þroskaðri lýðræðismenningu með því annars vegar að tryggja borgurunum aðgang að fjölbreytilegum skoðunum og viðhorfum. Hins vegar hlúum við að lýðræðismenningu með því að hjálpa fólki að tileinka sér gagnrýna hugsun og grundvallarreglur lýðræðislegrar umræðu.
Í alræðisríkjum er ekki rými fyrir margar skoðanir. Þar leyfist helst ekki nema ein skoðun, hin viðurkennda ríkisskoðun. Hún er bláköld staðreynd og um staðreyndir þarf ekki að ræða frekar. Alræðisríki eiga helst ekki nema einn Sannleika, Prövduna.
Það setti því að mér örlítinn hroll eftir viðtalið við hinn nýráðna upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.
Þó gat ég ekki varist brosi þegar upplýsingafulltrúinn sagði að ráðning hans væri í takti við áherslur ríkisstjórnarinnar á gagnsæi því ekki verður betur séð en að ríkisstjórnin hafi beitt ógagnsærri aðferð við ráðningu þessa gagnsæisstarfsmanns síns:
Fyrr á árinu var staðan auglýst laus til umsóknar. Umsækjendur skiptu tugum enda atvinnuleysi meðal íslenskra blaðamanna. Enginn var ráðinn þá en nú er ráðið í stöðuna án auglýsingar.
Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar benti einnig á að ríkisstjórnin hefði á stefnuskrá sinni betri upplýsingagjöf til almennings. Jafnframt fannst honum ekki nema sjálfsagt að forsætisráðherrann vildi láta lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum.
Sennilega er það mjög í anda þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar, að bæta upplýsingagjöf til almennings og auka gagnsæi, að æðsti ráðamaður þjóðarinnar vilji helst sem minnst við þjóðina tala.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.1.2012 | 20:04
Fram og til baka
Völvur landsins spá mörgum feitum hneykslum á nýju ári og sérstakur saksóknari hefur boðað sverar ákærur.
Margt býr í fortíðinni og við skulum endilega skoða það. Þó megum ekki láta hjá líða að hefja okkur ofar og sjá hið stærra samhengi.
Ekki er nóg að virða fyrir sér það sem á veginum er. Við verðum að vita hvert hann liggur.
Orsökina fyrir því að illa fór fyrir okkur er ekki einungis að finna í einstökum verkum, yfirsjónum eða glæpum einstaklinga og hópa. Við villtumst af leið vegna þess að stefnan var röng. Og þótt okkur beri réttlætisins vegna skylda til að draga þá til ábyrgðar sem gerst hafa sekir um misgjörðir verður það til lítils ef við höldum áfram að ganga í ranga átt.
Þjóðin vill trúa því að rannsakendur hennar hafi erindi sem erfiði í vandasömum verkefnum en margt bendir til þess að stefnan sem til Hrunsins leiddi hafi ekki verið leiðrétt. Enn eigi að vera flott að vera gráðugur. Enn eigi landsmenn að vera alifuglar í hagkerfi þar sem verðgildið er mikilvægara en manngildið. Og enn haldi þeir ríku áfram að verða ríkari og þeir fátæku fátækari.
Janúar er magnaður mánuður. Heiti sitt fær hann af rómverska guðinum Janusi. Janus var guð umskipta og breytinga. Hann var dyraguðinn.
Janus var þeirrar náttúru að hafa tvö andlit. Annað vísaði aftur á bak en hitt fram. Hann sá í báðar áttir.
Þegar okkur er sagt að líta ekki til baka heldur beina sjónum okkar fram á veginn gæti þar verið um að ræða menn sem gjarnan vilja fela það sem fortíðin geymir.
Og þeir sem eggja okkur til að líta til baka en horfa ekki til framtíðar eru yfirleitt þeir sem hafa hagsmuni af því að við hjökkum í sama farinu.
Við eigum að vera eins og Janus og hafa tvö andlit. Við eigum að horfa til baka og fram á við.
Gleðilegt nýtt ár!
Myndin er af norðlensku fjalli í vetrarskapi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.12.2011 | 22:26
Brosandi fólk með rauð nef í ryðguðum smábíl með bilaða miðstöð
Núna rétt fyrir jólin sá ég bíl hossast eftir illa mokaðri Glerárgötunni. Þetta var gamall bíl, ryðgaður og pínulítill en fleytifullur af fólki og góssi. Plássið aftan við aftursætin var yfirfullt af innkaupapokum og á toppinn á þessu agnarsmáa farartæki var búið að binda eitthvert stærsta jólatré sem ég hef augum litið. Það var auðvitað enn stærra þegar það dúaði þarna á þessum smábíl svo greinarnar slettust niður fyrir hliðargluggana. Og inn á milli grenigreinanna sem nánast þöktu bifreiðina glitti í bros á vörum, roða í kinnum og prjónahúfur á höfðum því sennilega hefur miðstöðin verið biluð í þessum gamla bíl og það var kalt.
Í öllum önnum jólanna koma stundum augnablik sem sanna manni að jólin séu að koma. Það gerist eitthvað ekta sem fær mann til að skynja jólin og það sem þau snúast um; andi jólanna hellist yfir mann og einmitt það gerðist þessi andartök þegar ég sá grænt jólatréð bylgjast á þaki japansks smábíls sem var fullur af jólagóssi og brosandi fólki með prjónahúfur og rauð nef.
Í vetur hef ég stundað spinning en sú íþrótt er í því fólgin að fólk safnast saman og hjólar eins og það eigi lífið að leysa án þess að hreyfast spönn úr rassi. Þetta eru með öðrum orðum tilgangslausar hjólreiðar. Eftir síðasta spinningtímann minn fyrir jól hitti ég mann í sturtunni sem sagði það eiginlega stórfurðulegt að enn væri boðið upp á spinning í líkamsræktarstöðvum. Þar væri alltaf verið að bjóða upp á einhverjar nýjungar og hann kunni ekki einu sinni að nefna þær allar. Flestar eru gleymdar - en spinning hefur lifað af í marga áratugi. Sennilega vegna þess að spinning hefur reynst vel," sagði maðurinn undir sturtunni og bætti við já, eins og jólin, þau eru búin að duga margar aldir, eru alltaf jafn vinsæl þótt þau séu í raun og veru gamlar lummur."
Þetta var auðvitað hárrétt hjá manninum. Ýmsar atlögur hafa verið gerðar að jólunum og eru enn gerðar. Reynt hefur verið að telja þjóðinni trú um að jólin gangi bara út á verslun og neyslu. Fullyrðingar hafa verið settar fram um að jólin séu heiðin hátíð en ekki kristin og snúist um gang himintunglanna. Gerð hefur verið tilraun til að banna jólaguðspjallið innan 16 ára.
Jólin hafa staðist þessar atlögur allar.
Og ár eftir ár koma þessi augnablik og andartök þegar við finnum fyrir nálægð heilagra jóla. Ef til vill komumst við aldrei nær þeim en þegar við heyrum jólaguðspjallið og við sjáum fyrir okkur þau Maríu og Jósef, Jesúbarnið í jötunni, fjárhirða á völlunum og englana á himninum. Þá kemur upp andartakið þegar jólaandinn gagntekur okkur.
Og nú erum við komin hingað í kirkjuna. Undirbúningi er lokið. Og þó að ekki hafi náðst að klára allt verður ekki meira gert því nú láta jólin ekki bíða lengur eftir sér. Þau eru komin. Þrátt fyrir allar hindranirnar og allt það ótalmarga sem ógnar tilvist jólanna eru þau hér, rétt eina ferðina, og þrátt fyrir allt sem gæti hafa afvegaleitt okkur á leið okkar til jólanna og þrátt fyrir allt það ótalmarga sem gæti hafi truflað jólin á leið þeirra til okkar eru þau hér eitt árið enn.
Ekki hefur farið framhjá neinum að margir halda nú jól sín í skorti. Við hugsum til þeirra allra og ég vil leyfa mér hér að þakka fyrir þann mikla stuðning sem Líknarsjóðurinn Ljósberinn fékk núna fyrir jólin. Þær gjafir allir lýsa sönnum jólaanda og framlögin munu nýtast þeim sem fyrir þau hafa þörf. En þó að ég vilji ekki lofsyngja fátæktina eða skortinn vil ég benda á að jólin koma líka til þeirra sem ekki eiga mikið. Og það að fólk hafi nóg handanna á milli er engin trygging fyrir góðum og heilögum jólum.
Þó væri ég ekki að segja alveg satt ef ég staðhæfði hér að jólin snérust ekki um það ytra. Auðvitað gera þau það. Þau snúast um ákveðið útlit, myndir, ilm, bragð og hljóð. Jólamatur, jólakökur, jólaljós og jólalög, allt er þetta hluti jólanna. En kjarna þeirra er samt ekki að finna í neinu af því. Kjarni jólanna er nokkuð hreint, einfalt, óspillt, ekta.
Og hugsið ykkur: Þrátt fyrir alla þessa miklu umgjörð, sem við erum búin að smíða utan um jólin, alla þeirra miklu yfirbyggingu, allar sögurnar sem samdar hafa verið um jólin, öll jólaljóðin og jólalögin, þrátt fyrir allar annirnar, allan undirbúninginn og alla okkur miklu vinnu dag og nótt, þá er kjarna jólanna að finna í einfaldri sögu sem gerðist fyrir tvöþúsund árum, af fátækum foreldrum, fátæku barni sem fæddist í allsleysi, var lagt í jötu og var heilsað af fjárhirðum úr næsta haga.
Við leitum Guðs gjarnan í því stóra og háa og mikla. Guð er eilífðin, hann er almáttugur, hann er óendanlegur, hann á sér hvorki upphaf né endi, hann er óskiljanlegur. Slíkum Guði hæfir mikil hátíð og flókin og skrautleg.
Á kristnum jólum erum við leidd að jötunni og við okkur er sagt: Guð er ekki lengur einhvers staðar úti í ómælum himnanna, hann er ekki lengur óskiljanlegur og ósnertanlegur, hann er hér. Þú sérð hann í barninu sem sefur í hálmi jötunnar. Saga jólaguðspjallsins er saga þess Guðs. Guð finnum við ekki í mörgum bindum af frumspekilegum skilgreiningum. Guð finnum við með því að heyra söguna og horfa ofan í jötuna.
Guð er í barninu og þar er hann kominn að vitja þín.
Ekkert er saklausara, hreinna og óspilltara en sofandi nýfætt barn. Þess vegna er það ekki endilega það háa og tilkomumikla sem kemur okkur í snertingu við jólin heldur allt það sem er ekta og einlægt, saklaust og hreint.
Og þess vegna eru jólin ekki endilega fólgin í drunum flugeldasýninga heldur ekki síður í flökti kertis.
(Prédikun við aftansöng í Akureyrarkirkju á aðfangadagskvöld 2010)
Myndin er af glitskýjum yfir Akureyri.
Bloggar | Breytt 28.12.2011 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2011 | 17:35
Ljósberinn
Við Akureyrarkirkju starfar líknarsjóðurinn Ljósberinn sem stofnaður var til minningar um sr. Þórhall Höskuldsson, fyrrverandi sóknarprest við kirkjuna.
Framlög koma í sjóðinn eftir ýmsum leiðum, allt árið um kring, en árlegir Ljósberatónleikar eru ein mikilvægasta fjáröflun hans.
Í ár voru þeir 14. desember og eins og venjulega hafði Björg Þórhallsdóttir, söngkona og dóttir sr. Þórhalls heitins, yfirumsjón með tónleikunum. Bróðir hennar, Höskuldur, var kynnir. Tónleikarnir tókust frábærlega og full kirkja af fólki naut tónlistar einvala liðs listamanna.
Það kemur í hlut okkar presta Akureyrarkirkju að úthluta úr sjóðnum. Ég vil fyrir hönd styrkþega þakka öllum þeim sem gefið hafa í hann. Framlög úr sjóðnum eru alla jafna ekki há en munar svo sannarlega um þau.
Fleiri hafa beðið okkur prestana fyrir peninga til þeirra sem lítið eða ekkert eiga fyrir þessi jól, bæði einstaklingar og félög. Þeim vil ég ennfremur þakka.
Samkvæmt vígsluheiti presta eiga þeir að vera málsvari fátækra og boðberar réttlætis.
Svo sannarlega eru fátækir á meðal okkar. Kreppur koma harðast niður á þeim sem veikastir eru fyrir. Kjör sumra þjóðfélagshópa eru þjóðarskömm.
Þó að margir hafi lapið dauðann úr skel í góðærinu svokallaða er mín tilfinning sú að kreppan hafi skerpt skilin á milli ríkra og fátækra í þessu landi. Þeir fátæku hafi enn minna á milli handanna en þeir ríkustu hafi jafnvel grætt á ástandinu.
Ef til vill ættu fleiri stéttir en prestar að heita því að tala máli fátæklinga og boða réttlæti?
Myndin: Desembersól í eyfirskum skógi.
Bloggar | Breytt 20.12.2011 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2011 | 00:51
Biðin er systir trúarinnar
Okkur nútímamönnum er margt betur gefið en að kunna að bíða. Bið er ekki í tísku. Nú á allt að gerast fljótt og vel og vera skilvirkt.
Á aðventunni er samt upplagt að íhuga biðina.
Andlegur þroski næst aðeins þeim sem kunna að bíða.
Bið er traust. Hún er systir trúarinnar.
Sá sem bíður leggur á vissan hátt árar sínar í bát. Hann hættir að hamast á hafinu. Áratök hans hljóðna.
Sá sem kann að bíða reynir ekki að troða sér fram fyrir þann sem er á undan honum í biðröðinni. Sá sem bíður rétt treystir því því að röðin muni komi að sér. Hann treystir því að biðin beri árangur, hún sé ekki til einskis.
Sá sem bíður treystir framvindunni. Sá sem bíður og biður leggur tímann í hendur Guðs og treystir því að hann muni að lokum leiða allt farsællega til lykta.
Þegar okkur er sagt að bíða er stundum sagt: Bíddu rólegur."
Sönn bið felur í sér ákveðna yfirvegun og ákveðinn kjark. Ég þori að bíða og sá sem ekki þorir að bíða er hræddur.
Óttinn er á margan hátt helsti drifkraftur neyslusamfélagsins. Við erum látin kaupa hluti með því að ala á ótta okkar. Okkur er talin trú um að sá sem ekki eigi þennan hlut, hann sé ekki maður með mönnum, hann sé að missa af einhverju, hann sé að láta gullið tækifæri ganga sér úr greipum. Lífið er stutt, er okkur sagt. Dægurflugan lifir ekki nema einn dag og við erum eins og hún. Um að gera að njóta sem mests á þessum stutta tíma sem okkur er úthlutað.
Í óttanum er enginn tími fyrir biðina. Biðin á sér aðeins rými í trúnni og traustinu.
Sá sem bíður, undirbýr sig fyrir það að þiggja. Hann setur sjálfan sig á bið, er óttalaus og móttækilegur fyrir blessandi áhrifum.
Mættum við öll njóta þess að bíða heilagra jóla.
Myndina tók ég í Hörgárdalnum í 17 stiga frosti nú um helgina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2011 | 00:02
Gróði bankanna og ruslatunnur öreiganna
Á þessum þjóðlega degi við upphaf jólaföstunnar fluttu fjölmiðlar Íslendingum þau tíðindi, að hagnaður bankans Arion á þriðja ársfjórðungi þessa árs hefði numið 3,5 milljörðum króna eftir skatta.
Í gær sáum við svipaðar hagnaðartölur. Á árunum 2009 og 2010 græddu níu íslenskar lögmannsstofur samtals 3,7 milljarða króna.
Bankahrunið sem átti sér stað í lok árs 2008 virðist hafa haft afar jákvæð áhrif á rekstrarafkomu flestra lögfræðistofanna níu," segir í einni fréttinni.
Í dag fengum við einnig þær fréttir að tæplega 700 sjúklingum hefði verið stefnt fyrir héraðsdóm vegna skulda við Landspítalann frá árunum 2007 - 2010. Síðustu fjögur árin hefur spítalinn sent hvorki fleiri né færri en 21.676 reikninga sjúklinga í lögfræðiinnheimtu.
Einn blaðamannanna staðhæfir, alveg grínlaust:
Dæmi er um að sjúklingar á skurðdeild hafi verið látnir greiða fyrir fram þar sem þeir eru oftast undir áhrifum svæfingar- eða deyfilyfja í nokkurn tíma eftir aðgerð.
Í dag var ég líka hjá vini mínum sem undanfarna mánuði hefur verið að jafna sig eftir slys. Hann lepur dauðann úr skel eins og svo margir aðrir í hans stöðu.
Við gerðum okkur það til gamans með kaffisopanum að lesa nokkur innheimtubréf sem hann hefur verið gladdur með, nú í aðdraganda heilagra jóla.
Skemmtilegast fannst mér bréfið þar sem þessi góði vinur minn var krafinn um greiðslur vegna smáskuldar við gámafyrirtæki.
Var honum hótað því að ef hann borgaði ekki tafarlaust yrði sorptunna hans gerð upptæk án frekari aðvarana.
Svona er Ísland 1. desember 2011: Bankar og lögmannsstofur græða milljarða en menn taka ekki sénsinn á að láta sjúklingana fara í svæfingu nema þeir séu búnir að gera upp reikningana áður því ekki er gott að segja hvenær þeir vakni og komist í ástand til að taka upp veskin sín.
Og öreigar landsins eru svo miklir öreigar að þegar þeir geta átt von á því að ruslatunnurnar þeirra hverfi án frekari aðvarana.
Myndin er af bæjarfjalli Akureyringa, Súlum, í vetrarskrúða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.11.2011 | 23:28
Gleðileg jól án upphrópunarmerkis
Þegar þessar línur skrifast er ég farinn að leggja drög að jólakortunum sem eiga að vera dottin inn um bréfalúgur hjá vinum og vandamönnum áður en hátíðin gengur í garð.
Frumleg jólakort eru orðin svo algeng að þessi gömlu og góðu með jólasveinum og jesúbörnum fara smám saman að skara fram úr hvað frumleika áhrærir. Eitt hefur þó haldist á velflestum jólakortum landsmanna, frumlegum sem hefðbundnum, kveðjan góða:
Gleðileg jól!"
Ég hef stundum verið að hugsa um þetta upphrópunarmerki. Það er þarna af því að um kveðju er að ræða. En kannski virkar upphrópunarmerkið dálítið frekjulega. Sumir gætu skilið það sem skipun.
Haltu gleðileg jól og hananú!
Og ef til vill upplifum við jólin sem eitt stórt upphrópunarmerki, bunka af verkefnum sem þarf að vinna, heilan helling af vandamálum sem þarf að leysa. Jólaundirbúningurinn er þegar hafinn og hann er fólginn í skipunum sem berast úr öllum áttum. Gerðu þetta og gerðu hitt! Þú þarft að kaupa þetta!
Sé því þannig farið er kominn tími til að setja spurningarmerki aftan við upphrópunarmerkið og endurskoða afstöðuna til jólanna.
Vissulega þarf að gera heilmikið fyrir jólin. Þau geta verið kröfuhörð og menn gera sér ekki dagamun öðruvísi en að leggja eitthvað á sig. En vikurnar framundan eiga ekki bara að kosta orku. Þær eiga líka að gefa okkur kraft. Það getur þessi tími svo sannarlega gert.
Þá eigum við samfélag við það fólk sem er okkur nánast.
Næstu vikurnar syngjum við meira en á öðrum tímum ársins. Söngur er vanmetin heilsurækt. Hann er á við hressilegan sundsprett.
Aðventan og jólin eru tími listanna. Við lesum bækur, horfum á myndir og hlustum á tónlist. Það er gefandi.
Og ekki megum við gleyma því, í öllum önnunum og erlinum, að aðventan er fasta, tími íhugunar, kyrrðar og hvíldar. Sé söngurinn vanmetin heilsurækt er hvíldin það enn frekar.
Og síðast en ekki síst er orkuuppsprettu komandi daga að finna í helgihaldi þeirra, hvort sem kveikt er á kerti heima í stofunni eða farið á aðventustund í kirkjunni.
Megi aðventan færa þér blessun og gleðileg jól.
Myndin: Klettur með jólasveinaskegg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2011 | 14:59
Jólagjöf ársins
Við Háskólann á Bifröst starfar svonefnt Rannsóknasetur verslunarinnar. Það er samstarfsverkefni háskólans þar, efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Kaupmannasamtaka Íslands.
Meðal viðfangsefna á Rannsóknasetri verslunarinnar eru jólagjafir. Nú flytja fjölmiðlar fréttir af rannsóknum setursins á þeirri venju landsmanna að kaupa jólagjafir og annað jólagóss.
Samkvæmt þeim fréttum munu Íslendingar kaupa 2,5% meira fyrir þessi jól en þeir keyptu fyrir þau síðustu. Þegar tekið hefur verið tillit til verðhækkana er þó um samdrátt upp á 2% að ræða.
Þá segir setrið okkur að hver Íslendingur muni að meðaltali eyða 38.000 krónum í neyslu vegna jólahaldsins.
Þetta eru merkilegar tölur.
Enn meiri tíðindum sætir þó sú niðurstaða vísindamannanna á Bifröst, að jólagjöf ársins 2011 sé spjaldtölva.
Ég hef reyndar lengi haft það á tilfinningunni en mikið er nú gott að vita að sá grunur var á rökum reistur.
Nú get ég hafið undirbúning jólanna í ljósi þessarar vísindalegu niðurstöðu rannsóknarfólks akademíunnar.
Öllum vafa hefur verið eytt og hægt er að anda léttar.
Listaskáldið góða sagði, að vísindin efldu alla dáð.
Nú flytja fjölmiðlar landsmönnum boð frá vísindunum um hvað skuli gefa ástvinum í jólagjöf, eigi gjöfin að standa undir nafni.
Hver vill lenda í því eftir jól að vera spurður með fyrirlitningu: Hvað segirðu, fékkstu ekki jólagjöf ársins?"
Þess má geta að verð á spjaldtölvu er um það bil helmingi hærra en sú upphæð sem hver Íslendingur eyðir að meðaltali í öll sín jólainnkaup, samkvæmt niðurstöðum rannsóknasetursins.
Það segir okkur að aðeins sáralítill hluti landsmanna hefur efni á jólagjöf ársins.
Þeir sem hyggjast hafa að engu tilmæli vísindamanna um jólagjafir og gefa ástvinum sínum ekki spjaldtölvu geta farið hálfa leið og gefið spjald - enda er í tísku að mótmæla og ekki vanþörf á.
Það mætti til dæmis byrja á því að mótmæla misnotkun á vísindum og gagnrýnislausum fréttaflutningi fjölmiðla.
Svo má líka vera rausnarlegur og gefa spjöld í stað spjalds. Hvenær voru kerti og spil jólagjafir ársins?
Og hvaða rannsóknir ætli hafi legið þar að baki?
Myndin: Akureyri og hennar helsta tákn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2011 | 23:49
Yngingarlyfsuppskrift
Sú saga er sögð af séra Matthíasi Jochumssyni að eitt sinn, er hann var kominn á efri ár, hafi hann verið spurður að því hvernig hann færi að því að halda sér svona unglegum.
Séra Matthías á að hafa hugsað sig um eitt andartak en síðan svarað:
Með því að skipta nógu oft um skoðanir."
Mikill og djúpur sannleikur í þessum orðum skáldsins. Við erum ung meðan við höfum hæfileikann til að skipta um skoðanir, sjá heiminn í nýju ljósi og tileinka okkur nýja þekkingu á veröldinni og lífinu. Við verðum á hinn bóginn fórnarlömb ellinnar ef viðhorf okkar hætta að breytast og við erum orðin ónæm á hinar nýju víddir tilverunnar.
Stundum segjumst við bara vilja fá að vera í friði með okkar trú og skoðanir og við ömumst við áróðursmönnum sem raska þeirri ró okkar.
Þó er það ekki endilega neikvætt að fá fólk til að skipta um skoðanir. Það er ekkert að því að endurhugsa viðhorf sín. Þvert á móti. Sá er hálfdauður sem ætíð hjakkar í sama farinu.
Þannig geta bloggarar, blaðaskríbentar, mótmælendur og aðrir áróðursmenn verið að vinna hið mesta þjóðþrifaverk við að yngja upp fólk - þótt vissulega skipti máli hvernig við förum að því að fá fólk til að hugsa og endurmeta viðhorf sín og gildi.
Við erum oft fangar eigin fordóma og þröngsýni. Heimurinn væri ábyggilega mun verri staður en hann er ef við hefðum ekki þau sem boða okkur eitthvað og fá okkur til að hugsa okkar gang.
Viðhorfsbreytingar eru vanmetið yngingarlyf.
Myndin er úr Glerárdal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)