7.9.2011 | 00:42
ESB lagar sig að Íslandi
Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er gott dæmi um þau vinnubrögð spuna og blekkinga sem lengi hafa tíðkast í íslenskri pólitík.
Evrópusambandið er eins og önnur alvörusamtök: Þar er reiknað með því að þeir sæki um aðild sem áhuga hafa á að ganga í klúbbinn. Reglur sambandsins um umsóknarferli miðast við að banki fólk á hurðina sé tilgangurinn sá að fá dyr opnaðar til að unnt sé að ganga inn - eins og tíðkast meðal siðaðra manna.
Þegar ríkisstjórn Íslands knúði dyra í Brussel var ekki um slíkt að ræða. Helmingurinn af ríkisstjórninni kvaðst bara vilja fá að kíkja inn og skoða hvað væri í húsinu.
Þessi helmingur vildi freista þess að breyta félaginu sem það vildi fá aðild að áður en hann gerðist þar félagi.
Engu máli skipti þótt félagið tæki fram að reglur þess væru óumsemjanlegar og annað hvort sætti fólk sig við þær eða ekki. Ræða mætti um það hvernig og hvenær reglurnar tækju gildi.
Ríkisstjórnarhelftin lét það eins og vind um eyru þjóta.
Evrópusambandið er samfélag hundraða milljóna manna. Þegar umsókn um aðild að því barst frá fulltrúum nokkur hundruð þúsund Íslendinga fylgdu henni þau skilaboð, að þeir ætluðu ekki að laga sig að ESB heldur ætti ESB að laga sig að Íslandi.
Þegar hissa húsráðendur snéru sér að hinum helmingi fulltrúa Íslands sem létu hnefana dynja á útidyrahurðinni margfrægu í Brussel tók ekki betra við.
Sá flokkur tók fram að hann ætlaði alls ekki inn og hefði aldrei langað þangað. Eini tilgangurinn með hurðaklappinu væri sá að geta skellt á nefið á þeim sem dyrnar opnaði.
Umsóknin um aðild að ESB væri til heimabrúks: Með henni væri flokki, sem er á móti aðild Íslands að ESB, tryggð aðild að ríkisstjórn, sem er að sækja um aðild Íslands að ESB.
Nýjustu tíðindin sem ríkisstjórnin hefur að flytja af samingaviðræðunum við ESB eru þau, að Ísland sé varla hæft til samninga um landbúnaðarmál.
Þar stendur ríkisstjórnin óneitanlega frammi fyrir erfiðu verkefni:
Áður en hún getur byrjað að semja um undanþágur og breytingar á reglum ESB um landbúnað verður hún leggja fram nákvæma áætlun um hvernig og hvenær Ísland hyggist taka upp reglurnar sem á að semja um breytingar á og undanþágur frá.
En hvað gera menn ekki þegar þarf að endurheimta trúverðugleika Íslands og traust í útlöndum?
Myndin er af Dranga í Hörgárdal sem heitir Hraundrangi í Öxnadal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.9.2011 | 22:40
Malta á Fjöllum
Mikið er ég hrifinn af fyrirætlunum kínverska auðkýfingsins Huang Nubo um útivistarparadís, golfvöll og lúxushótel á Grímsstöðum á Fjöllum.
Þetta eru auðvitað geggjaðar hugmyndir: Alþjóðlegt djettsett liggjandi í heitum pottum í norðanbyl og skammt þaðan björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit að hjálpa íslenskum fjölskyldum sem fest hafa bíla sína í skafli.
Kannski er alltaf stutt á milli snilldar og brjálæðis?
Ég er sannfærður um að erlendir ferðamenn - eins og margir íslenskir - kunna vel að meta öræfin og óbyggðirnar, víðátturnar, kyrrðina og hreinleikann. Þeim finnst líka spennandi að upplifa sviptingar náttúrunnar, ofsann í íslenska veðrinu og kynnast umhverfi Fjalla-Bensa.
Við eigum að taka þeim fagnandi sem eru skapandi og hafa fjárhagslegt bolmagn til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Hvort sem þeir koma frá Kína eða Kópaskeri.
En þó að hugmyndin um hótel á Fjöllum sé góð er ekki þar með sagt að hana eigi að gleypa ótuggða.
Vinur minn úr lögfræðingastétt kenndi mér ágæta þumalputtareglu:
Ef þú færð tilboð sem þú átt að svara á staðnum er nánast undantekningarlaust eitthvað gruggugt við það.
Séu tilboðin virkilega góð þola þau umhugsun og nánari skoðun.
Í fréttum af hugsanlegri sölu Grímsstaða á Fjöllum hefur komið fram að ekki sé víst að stjórnvöld í Kína heimili gjörninginn vegna þess uppnáms sem málið hafi valdið" eins og það er orðað í fréttum Ríkisútvarpsins.
Ég er ekki viss um að þetta mál hafi valdið miklu uppnámi. Hitt er óumdeilanlegt að um það hefur verið allnokkur umræða og sýnist þar sitt hverjum. Innanríkisráðherra hefur sagst vilja skoða málið með hagsmuni Íslands að leiðarljósi eins og honum ber skylda til.
Enginn ætti að vera hissa á að þessi jarðarkaup veki umræðu og hugmyndin verði tilefni heilabrota - þó ekki væri nema vegna umfangs jarðarkaupanna. Sjálfsagt þarf lúxushótel stærra svæði undir sig en önnur gistihús. Ef til vill er meiri fyrirferð í milljarðamæringum en meðaljónum. Ábyggilega eru þeir sem geta pungað út háum upphæðum fyrir afþreyingu kröfuharðari á lífsrými en hinir sem elda á prímusunum á tjaldstæðinu í Reykjahlíð.
Venjulegum manni gengur samt illa að skilja að til séu svo höggþungir golfiðkendur að þeir þurfi 18 holu golfvöll á stærð við Möltu - en eyjan sú mun vera álíka stór og Grímsstaðir á Fjöllum í ferkílómetrum.
Á Möltu er sjálfstætt ríki, alþjóðaflugvöllur, sjúkrahús, skólar, baðstrendur, mörg hótel af öllum gerðum, 420.000 íbúar, mikill fjöldi ferðamanna og fleiri en einn golfvöllur, svo fátt eitt sé nefnt.
Grímsstaðir á Fjöllum munu vera um 0,3% af Íslandi. Ísland mun vera um 103.000 ferkílómetrar. Kína er töluvert stærra, 9,6 milljón ferkílómetrar.
Ef íslenskur fjárfestir gerði sig líklegan til að kaupa hlutfallslega jafn stóra sneið af kínverska alþýðulýðveldinu og Grímsstaðir eru af Íslandi yrði þar um væna spildu að ræða. Talnaglöggir menn geta reiknað út stærðina. Ég er ekki viss um að kaupin á henni gengju umræðulaust fyrir sig úti þar.
Hugmyndir hins kínverska ljóðskálds, útivistarmanns og auðkýfings um Grímsstaði á Fjöllum hafa vakið athygli í útlöndum eins og fram kemur áður tilgreindri frétt RÚV og sjá má til dæmis hér.
Hvorki hann né kínversk stjórnvöld geta ætlast til þess að Íslendingar hafi engar eða aðeins jákvæðar skoðanir á þessum fyrirætlunum.
Hugmyndin er djörf en sé hún góð þolir hún bæði nánari skoðun og umræðu.
Myndina tók ég á leiðinni í Möðrudal á Fjöllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.8.2011 | 17:04
Hinar skoðanirnar
Einn lærimeistara minna í guðfræði hélt því fram að það væri afleitur dómur um prédikun þegar áheyrendur þökkuðu fyrir hana með orðunum: Þetta var eins og talað úr mínu hjarta."
Ef ræðan væri eitthvað sem áheyrandinn hefði getað sagt sér sjálfur hefði hann getað sparað sér tímann sem fór í að hlusta á hana.
Í auglýsingasálfræði er því haldið fram að maðurinn heyri það sem hann vilji heyra. Hann vilji síður heyra eitthvað nýtt, eitthvað sem raskar heimsmynd hans, gildismati og þankagangi. Ef hann þurfi endurskoða sjálfan sig þýði það bara vesen.
Þess vegna hlustum við, meðvitað og ómeðvitað, best á það sem staðfestir okkur í skoðunum okkar og gildismati og lætur heimsmynd okkar standa óhaggaða.
Þetta er ástæða þess að hægri menn lesa Moggann, aðdáendur Evrópusambandsins Fréttablaðið, kratarnir Eyjuna og kjósendur Vinstri grænna Smuguna. Við viljum helst sjá það sem er eins og talað úr okkar eigin hjarta.
Á Íslandi er löng hefð fyrir því að láta ekki berast með straumnum en standa með sjálfum sér.
Það er reyndar rannsóknarefni að þrátt fyrir þessa ríku áherslu á einstaklinginn og hefð fyrir sjálfstæði hans er hjarðhegðun hér oft mikið þjóðarmein. Hjarðmennskan er talin vera ein af mörgum orsökum Hrunsins.
Það endar með ósköpum ef við tökum aldrei mark á neinu nema okkur sjálfum. Þá höfum við aldrei neitt að læra nema af okkur.
Ykkur er óhætt að trúa mér: Allt það mikilvægasta sem við getum lært, lærum við af einhverjum öðrum en okkur sjálfum.
Þar mæli ég af mikilli reynslu.
Við skulum vera þakklát fyrir fólkið sem er ekki á sömu skoðun og við. Það getur verið öflugt móteitur gegn forherðingu í okkar eigin skammsýni, heimsku og öfgum.
Myndin: Hvað væri fífillinn án býflugunnar eða hún án hans?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2011 | 10:45
Íslenskt múgræði
Hrunið á Íslandi fæddi af sér víðtæka þjóðfélagsumræðu. Íslendingar hættu að grilla um helgar. Ópíumreykur kolanna steig ekki lengur upp af sólpöllum heldur barst pottaglamur frá Austurvelli. Í skírnarveislum skiptist fólk á skoðunum um það hvað hefði aflaga farið, hvaða gildi hefðu gleymst og hvernig það vildi sjá þjóðfélaginu háttað í framtíðinni. Netheimar loguðu af skiljanlegri reiði sem enn hefur ekki runnið til fulls.
Fólk sá að margt hafði brugðist og það var staðfest í rannóknarskýrslu Alþingis. Stjórnmálamenn, flokkar, eftirlit, allar helstu stofnanir samfélagsins, akademían, fjölmiðlar og síðast en ekki síst, fólkið sjálft. Allt brást.
Ef til vill er ein ástæða Hrunsins of mikið traust. Við létum nægja að setja krossa við stafi á kjörseðlum en aðrir urðu að taka ákvarðanirnar.
Allir aðrir en við áttu að axla ábyrgð", svo gripið sé til vinsæls orðalags.
Ein krafa eftirhrunsáranna var um beinni þátttöku almennings í ákvarðanatökunni. Fólk sá fyrir sér fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem það fengi að segja sitt um hin ýmsu mál. Mörgum þótti reynslan af Icesave lofa góðu.
Ég er einn þeirra sem tel að fólki sé vel treystandi, bæði til að taka réttar ákvarðanir - og rangar. Í seinna tilvikinu hefur fólk þá ekki við neina aðra að sakast en sig sjálft.
Eitt gleymist þó gjarnan í þessu öllu: Ef samfélagið færir ábyrgðina á ákvarðanatöku til borgaranna sjálfra ber því skylda til að upplýsa þá um málin og gera þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir.
Beint lýðræði kallar á tvennt: Annars vegar vandaða fjölmiðla og hins vegar þroskaða umræðuhefð.
Í Grikklandi hinu forna, vöggu lýðræðisins, greindi sagnaritarinn Polybios á milli lýðræðis, demókratíu, annars vegar og hins vegar múgræðis, ochlóhkratíu.
Múgræði er það stjórnarform þar sem óupplýstur og æstur múgur hefur síðasta orðið.
Ef til vill ættum við að skoða hvort íslenskir fjölmiðlar og hérlend umræðuhefð ver okkur fyrir múgræði eða stuðlar beinlínis að því?
Myndin: Moon River and me."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2011 | 16:34
Þrælar neyslunnar
Nýafstaðin verslunarmannahelgin kemur á margan hátt illa út sé miðað við sömu helgi í fyrra. Það dró t. d. úr sölu í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Í versluninni í Vestmannaeyjum var samdrátturinn milli áranna heil 4,5%. Byrðarnar sem landsmenn báru út úr verslunum ÁTVR fyrir þessa verslunarmannahelgi voru heilum sjö þúsund lítrum léttari en fyrir helgina árið 2010. Bílaumferð minnkaði líka og nam sú minnkun heilum tólf prósentum.
Þessar samdráttartölur eru í sjálfum sér engin ótíðindi. Ef minni vínkaup benda til vaxandi hófs í meðferð áfengra drykkja þessa sukksömu helgi má gleðjast yfir því.
Minni umferð þýðir minni mengun, minna slit á vegum og ætti að hafa færri slys í för með sér. Ekki eru þær fréttir heldur slæmar.
Engu að síður var neikvæður tónn í ofangreindum tíðindum og það á sér skýringar: Minni áfengissala ríkisins hefur í för með sér færri krónur í ríkiskassann. Minni umferð sýnir minnkandi ferðamennsku og hvort tveggja, minnkandi víndrykkja og minnkandi bílaumferð þýðir minnkandi neyslu og sé neyslan að minnka eru það ekki góðar fréttir því þá er kreppan að dýpka.
Hagkerfi okkar byggist á neyslu. Aukin neysla er hagstæð fyrir hagkerfið. Þýsk-ameríski heimspekingurinn og rithöfundurinn Erich Fromm lýsir þróun vestrænna hagkerfa þannig, að smám saman hafi hin leiðandi spurning hætt að vera hvað er gott fyrir manninn?" en í stað hennar hafi komið spurningin hvað er gott fyrir vöxt og viðgang kerfisins" (Haben oder Sein, bls. 26). Samkvæmt því er maðurinn til fyrir kerfið og lifir í þágu þess.
Neysla þarf neytendur og kerfi sem þrífst á sívaxandi neyslu þarf sífellt duglegri og þurftarfrekari neytendur. Þess vegna er maðurinn fyrst og fremst neytandi í þessu kerfi. Til þess að gera manninn duglegan neytanda þarf að örva neysluþarfir hans. Í slíku kerfi verður græðgin dyggð. Græðgin verður hluti af ríkjandi persónuleikamynstri og sú hugmyndafræði sem vill umgangast græðgina af varúð og temja hana er talin frumstæð, hallærisleg eða einfeldningsleg.
Hungur er ein forsenda þess samfélags sem við höfum búið okkur til. Allar auglýsingarnar, ljósar sem leyndar, höfða til einhvers konar hungurs, skorts, ófullnægðra þarfa og langana sem ekki hefur verið svalað. Sé ekkert slíkt til staðar á kerfið ekki um annað að ræða en að búa til nýjar þarfir í því skyni að skapa forsendur fyrir hinni stöðugu neysluaukningu sem allt byggist á.
Hungrið í okkar heimshluta er geigvænlegt. Suður í Afríku eru börn að deyja úr hungri en í okkar heimshluta eru síður dagblaða, dagskrár ljósvakamiðla, hliðar strætisvagna og keppnistreyjur íþróttafólks undirlagðar af áreitum til að æsa upp hungrið og sýna okkur hvernig hægt sé að seðja alla okkar sáru svengd.
Drjúgur hluti af hverjum einasta degi lífs okkar fer í að minna okkur á öll þau ósköp sem við þurfum, allt það ótalmarga sem okkur skortir, hvað okkur vanti í raun rosalega mikið til að líf okkar geti talist mannsæmandi. Það er alið á óánægju og ófullnægju því óánægðir og ófullnægðir neytendur, þjakaðar þarfaverur, er það sem heldur hagkerfinu gangandi.
Þess vegna megum við helst ekki drekka minna í ár en í fyrra og þess vegna er ekki gott að við keyrum færri kílómetra en árinu áður.
Myndin: Við Reyká í Eyjafjarðarsveit
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.8.2011 | 00:37
Gegn hatri og mannvonsku
Í Vallakirkju í Svarfaðardal var gömul altaristafla sem sýndi heilaga kvöldmáltíð. Taflan brann með kirkjunni í brunanum árið 1996. Áður hef ég bloggað um myndina en geri það aftur í ljósi atburðanna.
Eitt sinn var ég að embætta í Vallakirkju og stóð fyrir altarinu. Sunginn var langur sálmur og undir honum skoðaði ég altaristöfluna. Þá sá ég allt í einu að það mótaði fyrir einhverri veru í myrkrinu undir borðinu sem Jesús sat við með lærisveinum sínum. Mig minnir að hún hafi verið með einhvers konar mannshöfuð en búkurinn minnti á hund.
Ég vissi ekkert hvað þetta gat verið og eftir messuna sótti ég meðhjálparann, sem einnig var formaður sóknarnefndar, sýndi honum veruna og spurði hann hvað væri þarna á ferðinni.
Ekki var laust við að formaður sóknarnefndar yrði hneykslaður á prestinum. Veistu ekki hvað þetta er?" spurði hann. Ég hristi höfuðið en formaðurinn hélt áfram og sagði: Þetta er andskotinn."
Það þóttu mér allnokkur tíðindi og svo mikil að ég fékk mér sæti og lét segja mér þau aftur. Meðhjálparinn gerði það svikalaust og lét fylgja með ítarlegar útskýringar. Þar kom meðal annars fram, að myndir af þeim vonda sjálfum væru í fleiri kirkjum en Vallakirkju í Svarfaðardal.
Í gamla daga, þegar andskotinn var ekki orðinn tabú, var mynd af honum stundum höfð í kirkjum til að minna söfnuðinn á að alls staðar þyrfti að vera á varðbergi gagnvart þeim vonda. Líka í kirkjunum og kannski ekki síst þar, því andskotinn liggur í leyni og gerir árásir þar sem menn eiga síst von á þeim og eru þess vegna verst undir þær búnir.
Nú á dögum er ekki í tísku að tala um andskotann og sumum finnst hæpið að tala um það illa. Þó erum við með reglulegu millibili minnt á veruleika þess. Stundum er hann svo mikill og ógnvænlegur að við tökum andköf og verðum orðlaus. Það gerðum við þegar fréttirnar af fjöldamorðunum í Noregi tóku að berast okkur.
Við flokkum fólk gjarnan í annarsvegar okkur" og hinsvegar hina". Mannkynssagan - þar með talin kirkjusagan - sýnir að þegar það illa lætur á sér kræla finnst manninum það oftast og helst gerast hjá hinum en síður hjá okkur og allra síst sér.
Við fyrstu fréttir frá Noregi vorum við fljót að hefja upp vísifingurna og benda á sennilega sökudólga enda margsannað að vísifingurnir eru léttastir fingra. Þegar ljóst var að morðin voru ekki unnin af þeim sem við bentum á fórum við að benda í aðrar áttir og á annan hóp.
Í síðustu viku sendu Ungir jafnaðarmenn á Íslandi frá sér ályktun. Þar segir að árásirnar í Noregi hafi ekki einungis verið á ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins í Noregi og þarlend stjórnvöld, heldur hafi hið norræna samfélag orðið fyrir árás, norræn gildi og lýðræðið allt. Í ályktuninni segir orðrétt:
Við verðum öll, óháð flokk eða hreyfingu, að taka höndum saman í baráttunni gegn hatri og mannvonsku.
Þetta eru mikilvæg skilaboð frá ungum íslenskum jafnaðarmönnum og í sama skynsamlega anda og frá norskum samherjum þeirra. Nú er ekki tíminn til að hefja upp vísifingurna og benda á hina.
Einn tilgangur hryðjuverka er sá að reyna að sundra okkur og koma af stað illindum í röðum þeirra sem hryðjuverkin beinast að. Ódæðismennirnir vita að ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt stenst ekki.
Þess vegna er svo mikilvægt að við hlustum á þessar áeggjanir norskra og íslenskra jafnaðarmanna: Stöndum saman gegn mannvonsku og hatri.
Og byrjum á að gera hreint í eigin ranni.
Myndin: Þetta svarfdælska folald, sem ég sá um verslunarmannahelgina, minnir okkur á að enda þótt margt sé andstyggilegt í þessum heimi á hann líka til ótrúlega fegurð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.7.2011 | 00:40
Trassi
Einu sinni á ári geta Íslendingar varið nokkrum dögum í þá göfugu iðju að skoða ofan í launaumslag náungans til að sjá hvað hann ber úr býtum fyrir brauðstrit.
Nú er sú mikla gósentíð upp runnin og fjölmiðlar selja landsmönnum tölurnar.
Í gærkvöldi sá undirritaður á vef DV að hann væri með hátt í eina milljón í mánaðarlaun og skipaði sér þar með í þriðja sæti á lista yfir launahæstu presta landsins.
Bronsið í þessari keppni er vafasamur heiður eins og athugasemdirnar við frétt DV sýna.
Í dag fékk ég svo sjálfan álagningarseðilinn. Aftan á honum stendur:
Skattframtal yðar fyrir árið 2011 barst ekki í framtalsfresti. Álagning, sem fram kemur á seðli þessum, byggist því á áætlun ríkisskattstjóra á gjaldstofnum að viðbættu álagi samkvæmt lögum.
Ég lofa að koma réttum tölum á framfæri við fjölmiðla þegar þær liggja fyrir.
Þangað til verður þjóðin að láta sér nægja þá vitneskju að ég er trassi.
Myndin: Júlítungl yfir Látraströnd
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.7.2011 | 15:24
Lömbin gagna
Guðspjall dagsins er sagan um hórseku konuna sem átti að fara að grýta (Jóhannes 8, 2 - 11). Þar er að finna hin frægu orð Jesú:
Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.
Sagan hefst á því að það er komið með hina hórseku konu. Hún kemur ekki sjálf heldur er hún færð inn á sögusviðið af faríseum og fræðimönnum. Þeir stilla þessari konu upp í ákveðnum tilgangi, sem innleggi í rökræður. Henni er beitt sem vopni og gildru í hugmyndafræðilegum átökum; farísearnir og fræðimennirnir spurðu Jesú um konuna til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir", eins og það er orðað í guðspjallinu.
Konan hafði verið staðin að verki þar sem hún drýgði hór. Ruðst hafði verið inn í einkalíf hennar, í athöfn þar sem manneskjan er viðkvæmust og berskjölduðust. Nú var hún leidd inn á samræðuvettvang áður en farið var með hana inn á blóðvöllinn.
Samkvæmt lögmálinu átti að grýta hana. Grýting fór þannig fram að fórnarlambinu var hrundið ofan í gryfju. Sá sem orðið hafði vitni að syndinni eða dauðasökinni gekk fram á barm gryfjunnar, hrækti á manneskjuna sem þar lá áður en hann kastaði fyrsta steininum. Síðan henti fólk grjóti í hana þangað til hún dó.
Þessi örlög blöstu við konunni. Áður en þau urðu að veruleika var komið með hana og hún notuð sem peð á skákborði og barefli í átökum. Þannig hefur heimurinn gjarnan nýtt sér fórnarlömb. Menn nýta sér þau í þágu eigin málstaðar. Þá er þeim iðulega teflt fram gegn sér sjálfum.
Þótt grýtingar tíðkist ekki í okkar heimshluta hafa menn haldið áfram að nýta sér fórnarlömbin sjálfum sér til framdráttar og til að ná höggi á andstæðinga sína. Það er gömul saga og ný.
Stundum á valdastéttin engin vopn beittari en fórnarlömbin og stundum eru fórnarlömbin öflugasta límið til að halda henni í stólunum.
Myndin: Eyfirskt sólarlag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.7.2011 | 02:21
Áfram Þýskaland!
Að þessu sinni er sumarfrísbókin mín Germania eftir breska rithöfundinn Simon Winder.
Hún fjallar um Þýskaland og Þjóðverja og er framúrskarandi skemmtileg. Gagnrýnandi Sunday Times sagðist hafa hlegið svo mikið undir lestri hennar að konan hans hafi ekki getað sofið.
Þegar Þýskaland ber á góma er hlátur ef til vill ekki það fyrsta sem manni dettur í hug. Þessi bók sýnir að vel er hægt að skrifa fyndna bók um Þjóðverja. Auk þess er hún fræðandi og skrifuð af mikilli elsku til efnisins. Betri meðmæli með bók er varla hægt að hugsa sér.
Sumir elska Breta og eru anglófíl. Aðrir kunna vel að Frakkland og eru frankófíl. Ég þekki marga ítalófíla sem dá allt ítalskt. Sjálfur er ég mjög svag fyrir hinni dásamlegu Ítalíu. Þar er svo sannarlega gott að dvelja, borða góða matinn og drekka rauðvínið, söguna og menninguna.
Germanófílar eru á hinn bóginn fremur fágætir en ég er einn þeirra og er enn staðfastari eftir lestur ofangreindrar bókar. Mér finnst Þýskaland frábært. Hvergi finnst mér betra að vera ferðamaður en þar enda eru ferðir mínar þangað orðnar ótalmargar.
Ég elska snitsel, bratvúrst, súrkál, bratkartoffeln, bjór, móselvín, spergil og súkkulaðileyndarmálið hennar ömmu.
Ótalmargt annað mætti nefna sem er aðlaðandi við Þýskaland og þýska þjóð. Eitt af því er einlæg lýðræðisást en Þjóðverjar þekkja vel hvernig er að búa í samfélagi þar sem lýðræðið ríkir ekki.
Mjög gott er að vera Íslendingur í Þýskalandi en auk þess að hafa ferðast um landið hef ég tvisvar búið í því. Ég efast um að Íslendingar eigi betri vini en Þjóðverja.
Ég mæli með Germania eftir Simon Winder.
Þjóðin sem bókin fjallar um fær ennfremur mín bestu meðmæli.
Myndin er af fossi í Lögmannshlíðinni. Hana tók ég fyrr í kvöld. Í haust fer ég til Þýskalands með fossana mína og sýni þá þar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2011 | 00:22
Gestgjafinn og Jónas
Biðstofur eru þannig nefndar vegna þess að þar bíður fólk. Nýlega reyndi ég það á eigin skinni. Á borðinu fyrir framan mig var stafli af eldgömlum blöðum. Ég hafði lesið mig langt niður í hann og var kominn aftur á síðasta árþúsund þegar bið minni lauk.
Meðal annars fletti ég snjáðum, fingrafitugum og lítt kræsilegum Gestgjafa. Gaman var að lesa úr hverju menn voru að elda á síðasta áratug aldarinnar. Nú tíðkast töluvert öðruvísi matur.
Nýlega átti ég líka dvöl í orlofshúsi sem var álíka róleg og á biðstofunni en ólíkt ánægjulegri. Í bókasafni hússins fann ég bókina Lífsviðhorf mitt sem út kom í Reykjavík árið 1991. Þar eru viðtöl við átta landsþekkta Íslendinga um mótun þeirra og lífsgildi.
Einn þeirra þekktu manna er Jónas Kristjánsson sem á sínum tíma ritstýrði víðlesnum dagblöðum.
Nú ritstýrir Jónas sjálfum sér í vinsælu bloggi sem margir vitna í og læka á feisinu.
Jónas hefur miklar og sterkar skoðanir á efnahagshruninu. Vandar hann hvorki frjálshyggjupostulum né gróðapungum kveðjurnar og telur þá bera mikla ábyrgð á því hvernig fór.
Í viðtalinu segir Jónas Kvennalistann af hinu góða. Hann sinni mjúkum gildum. Þó vanti karlalista sem leggi áherslu á hörð gildi eða eins og ritstjórinn þáverandi orðaði það:
Flokkur hinna hörðu gilda ætti að stefna að strangri markaðshyggju og gróðahyggju með miskunnarlausu úrvali fyrirtækja, sem hafi næga rekstrarlega þjálfun til að standast samkeppni við umheiminn, meira eða minna frjáls af fjötrum embættis- og stjórnmálamanna. Flokkur hinna hörðu gilda á að geta sagt með töluverðum rétti, að afrakstur hans aðferða sé meðal annars besta leiðin til að kosta hin mjúku gildi á þann hátt, að atvinnulífið sé ekki þess vegna reyrt í viðjar skattheimtu, reglugerða og kvóta.
Jónasi varð að ósk sinni. Um þetta leyti varð gróðahyggjan alls ráðandi á Íslandi og græðgisvæðing þess hófst. Atvinnulífið var leyst úr viðjum skattheimtu og reglugerða og "frelsað úr fjötrum embættismanna" eins og hægt er að nefna eftirlitsleysið sem smám saman varð ríkjandi.
Sú þróun varð meðal annars vegna skrifa og áhrifa talsmanna hinna hörðu gilda.
Þegar gróðapungar karlalistans hans Jónasar höfðu siglt þjóðarskútunni í strand byrjaði hann að blogga um strandið.
Kveður þar óneitanlega við annan tón en í viðtalinu og svo sannarlega breytist fleira í þessum heimi en mataruppskriftir Gestgjafans.
Myndina tók ég á föstudagskvöldið við Þingvallavatn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)