3.7.2011 | 23:17
Til hvers allar þessar kirkjur?
Maður skilur þá útlendu ferðamenn sem á ferðum sínum um landið velta því fyrir sér til hvers allar þessar kirkjur séu. Þeir vita að á Íslandi býr alveg ótrúlega fátt fólk; íbúafjöldinn á öllu landinu er eins og í smáborg í heimalöndum þessara erlendu ferðamanna. Sumstaðar á landinu býr varla nokkur lifandi maður en samt er þar snotur kirkjan, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel nýmáluð.
Það er undarlegt að koma inn í margar af þessum kirkjum. Þær eru örsmáar. Rúma kannski ekki nema örfáa tugi. Manni finnst að varla hafi tekið því að byggja þær. Um þær eru gjarnan talað óvirðulega. Þær séu ekki til neins. Standi tómar. Hafi engan tilgang lengur.
Stundum er því haldið fram að Íslendingar séu ekki lengur kristnir. Þeir hafi tamið sér önnur trúarbrögð - eða þá gefist upp á Guði og gengið trúleysinu á hönd.
Sé það rétt hafa kirkjurnar varla nokkurt trúarlegt gildi lengur. Þá eru þær einungis hluti af sögunni. Arfur þess liðna. Einskonar söfn. Fólk umgengst kirkjurnar líka oft þannig. Kemur í þær til að skoða og er í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Margar kirkjur anga hreinlega af sögu. Margar eru fögur dæmi um byggingalist. Margar eiga fagra listgripi.
Kirkjur eru vinsælar meðal ferðafólks og þrátt fyrir allt sem sagt er um hnignun trúar og kristindóms hafa kirkjur ennþá það hlutverk að vera bænahús. Þær eru afdrep. Skjól. Þeir sem leita þangað inn hafa á vissan hátt yfirgefið þennan venjulega veruleika og horfið inn í annan.
Við þekkjum þetta af okkur sjálfum þegar við erum í útlöndum. Þá komum við gjarnan í kirkjur. Helgir staðir, tilbeiðslustaðir, hafa aðdráttarafl, og þá skiptir ekki höfuðmáli hverrar trúar fólk er. Og við finnum að það er eitthvað öðruvísi við andrúmsloftið á þessum stöðum. Kirkjurnar í útlöndum eru margar risastórar. Þær fylla mann lotningu og jafnvel óttablandinni virðingu.
Bænahús heimsins segja okkur ákveðna sögu. Þau eru reist til að mæta ákveðnum þörfum mannsins. Þau lýsa eiginleikum mannsins og eðli. Maðurinn biður. Hann leitar út fyrir sig. Hann leitar þess sem er æðra og meira en hann. Hann á sér staði sem eru tileinkaðir þessari leit mannsins og þessari áráttu hans að biðja.
Á hverjum einasta degi streymir fólk til slíkra staða vítt og breitt um veröldina. Það segir okkur að maður sé andleg vera. Hann hefur andlegar þarfir. Kannski er maðurinn er aldrei meiri manneskja en þegar hann sinnir þeim?
Þess vegna eru bænahús um veröld víða, hvert með sínu sniði. Alls staðar er manneskjan að reyna að gangast við sér sjálfri.
Þess vegna höfum við kirkjur og helgidóma.
Myndin er af kirkjunni á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi. Hún mun vera fyrsta steinsteypta kirkja heimsins, hvorki meira né minna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.6.2011 | 15:55
Hinn skýri spuni
Mánudaginn 27. júní síðastliðinn var í fréttatíma ríkissjónvarpsins íslenska greint frá upphafi efnislegra aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Fréttamaðurinn, Heiðar Örn Sigurfinnsson, var staddur í Brussel og sagði þannig frá þessum viðburði:
Samningaviðræðurnar hófust á ríkjaráðstefnu hér í Brussel með því að fjórir kaflar af þrjátíu og fimm voru opnaðir. Þetta þýðir að viðræður hófust um það hvernig Ísland taki yfir lög og reglur ESB á fjórum sviðum: Opinber innkaup, vísindi og rannsóknir, menntun og menning og upplýsingasamfélagið og fjölmiðlar.
Skilgreining fréttamansins á inntaki hinna efnislegu viðræðna er hárrétt. Þær snúast ekki um að skoða hvað pakkinn hafi að geyma eða að Íslendingar velji það sem þeir vilji hafa í margumræddum pakka. Pakkinn er til staðar og innihald hans liggur fyrir: Níutíuþúsund blaðsíður af lögum og reglum ESB. Á máli ESB er þessi pakki kallaður acquis". Það orð kemur úr frönsku og þýðir það sem hefur verið samþykkt". Um það verður ekki samið og reglunum verður ekki breytt, eða eins og ESB segir sjálft:
Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.
Skilgreining fréttamannsins á inntaki hinna efnislegu aðildarviðræðna er því í samræmi við skilning ESB: Í viðræðunum er tekist á um hvernig og hvenær Ísland taki yfir lög og reglur ESB og hrindi þeim í framkvæmd.
Á ríkjaráðstefnunni lýsti utanríkisráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, því yfir að hann vildi hefja viðræður um sjávarútveg og landbúnað sem fyrst. Þegar að þeim kemur mun gilda það sama um þá málaflokka og aðra; Um acquis" verður ekki samið. Það þýðir að ekki er hægt að semja um lög og reglur ESB á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Þegar sú stund rennur upp að RÚV segir frá upphafi efnislegra viðræðna á þeim sviðum er hægt að nota nákvæmlega sömu orð og Heiðar Örn notaði 27. júní síðastliðinn:
Þetta þýðir að viðræður hófust um það hvernig Ísland taki yfir lög og reglur ESB á sviðum sjávarútvegs og landbúnaðar.
Ekki er nóg með að Ísland hafi sótt um aðild að ESB þótt meirihluti þjóðarinnar vilji ekki þangað inn. Helmingurinn af ríkisstjórninni sem sendi aðildarumsókn til Brussel vill ekki í ESB. Þegar kemur síðan að efnislegum viðræðum" á ekki að fara eftir þeim skilyrðum sem ESB setur sjálft slíkum viðræðum. Þótt það sé margítrekað að hálfu ESB að um pakkann verði ekki samið kemur íslenski utanríkisráðherrann, sem sendi fyrir hönd þjóðar sinnar umsókn um aðild að ESB þótt hún vilji ekki þangað, og tilkynnir forráðamönnum sambandsins eftirfarandi:
Í þessum tveimur köflum getur því ekki verið um það að ræða að Ísland taki upp löggjöf ESB óbreytta eins og ég rakti í ávarpi mínu og útskýrt er í hinni almennu yfirlýsingu Íslands fyrir ári síðan.
Í sama ávarpi staðhæfir íslenski utanríkisráðherrann að skýr meirihluti Íslendinga styðji aðildarferlið að ESB.
Þann 27. 6. síðastliðinn stóð íslenski utanríkisráðherran fyrir framan talsmenn Evrópusambandsins, með umsókn sem hvorki nýtur stuðnings þjóðar hans né ríkisstjórnar, kvaðst ætla að hafa að engu fyrirmæli sambandsins um aðildarferlið, breyta því sem búið er að segja að verði ekki breytt og klykkti svo út með þessum skýra 38,5% meirihluta Íslendinga.
Myndin er úr Laxárdal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.6.2011 | 22:35
Maturinn hennar ömmu
Þegar ég var strákur borðaði ég stundum niðri í Norðurgötu hjá afa Svavari og ömmu Emelíu, oft í hádeginu á sunnudögum.
Nú, á laugardagskvöldi tæpri hálfri öld síðar, stanga ég sunnudagsmatinn úr tönnunum og rifja upp þá gömlu góðu daga.
Ömmur fortíðarinnar voru snillingar í að steikja kleinur og soðibrauð og amma mín var ein þeirra drottninga.
Maturinn hennar var líka frábær og minningarnar um hann koma munnvatnskirtlunum af stað.
Sérstaklega er mér minnisstæður steinbítur á pönnu með brúnni sósu og helling af lauk. Ég efast um að til sé betri matur.
Hræringurinn sem afi slafraði í sig í tíma og ótíma var andstæða steinbítsins. Hann var búinn til úr skyri og köldum hafragraut, kekkjóttur og grái liturinn frekar lítið lokkandi enda var bragðið eftir því.
Afi elskaði hræringinn og oft skóflaði hann líka í sig uxahalasúpu frá Maggí. Hún fannst mér mun skárri fæða.
Með uxahölunum mauluðum við Korni hrökkbrauð með smjöri. Afi kallaði þennan dökkbrúna og bragðsterka vökva kraftsúpu og sagði að hún færi beint í upphandleggsvöðvana.
Mjög oft sást greinilegur munur á þeim fyrir og eftir súpuát þannig að það var ábyggilega heilmikið til í þessu hjá kallinum.
Amma og afi áttu heima á Eyrinni. Amma vann á Niðursuðunni en afi í Slippnum.
Þegar afi kom heim úr vinnunni var hann yfirleitt alveg hrikalega drullugur um lófana. Þá byrjaði hann á því að fara í vaskaskápinn og náði sér í stauk með Vim ræstidufti. Því sáldraði hann yfir hendurnar og skrúbbaði þær svo með grófum bursta undir heitu vatni.
Þetta fannst mér karlmannlegur handaþvottur og stefndi því að þvo mér með sama hætti þegar ég yrði stór en þá voru þeir því miður hættir að framleiða Vim eða alla vega flytja það inn.
Á sunnudögum hafði amma annaðhvort verkamannasteik (ofnsteikt súpukjöt í smábitum) með brúnuðum kartöflum eða hrossagúllas með kartöflustöppu. Hvort tveggja var einstakt ljúfmeti.
Í eftirmat var ævinlega boðið upp á ávaxtagraut með rjómablandi. Ég kúgaðist á sveskjusteinunum en þá fann afi upp á því að fara í kapp við mig hvor fyndi fleiri steina.
Eftir það borðaði ég grautinn með bestu lyst og hafði jafnan sigur eftir harða og tvísýna keppni.
Enn sé ég fyrir mér víbrandi ávaxtagrautinn og hvernig glampaði á hann í Eyrarsólinni eins og nýbónaðan góðærisjeppa.
Eftir matinn, þegar afi var farinn inn á dívan að leggja sig, náði amma í veskið sitt upp í skáp og gaf mér í þrjúbíó.
Stundum spiluðum við ólsen-nólsen þangað til ég lagði af stað suður Norðurgötuna og stefnan var tekin á kvikmyndahús bæjarins og þá félaga Tarsan, Roy Rogers, Villa spætu og Jóga björn.
Auður slíkra minninga er ómetanlegur.
Myndin er af menningarhúsinu Hofi sem er á Eyrinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2011 | 23:32
Hið kerfisbundna taumleysi
Daginn út og inn er verið að útmála fyrir okkur það sem við þurfum. Það er ekkert smáræði. Nauðsynlegt er að rækta með okkur sterka þarfatilfinningu til þess að gera okkur að duglegum neytendum og ala okkur upp sem kaupendur.
Sífellt þarf að örva neysluna í samfélaginu. Það er forsenda þess að hagkerfið gangi upp. Því meira sem við teljum okkur þurfa, þeim mun meiri peningum eyðum við og það eru góðar fréttir fyrir hagvöxtinn.
Samkvæmt neyslutrú samtímans þarf maðurinn mikið. Í þeirri menningu sem hefur mótað okkur er hófsemi hallærisleg og gamaldags - auk þess að virka hamlandi á hagvöxtinn. Og hér eru ekki einungis einhverjar siðaprédikanir á ferðinni. Óhófið er til umfjöllunar í hinni vönduðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en þar segir á einum stað:
Skortur á hófsemi og ráðdeild í íslensku samfélagi, ásamt með ógagnrýninni sjálfsánægju meðal þjóðarinnar, bjuggu á sinn hátt í haginn fyrir þá atburðarás sem hér varð í bankahruninu.
Öll kerfi eru til þess að mæta mannlegum þörfum. Mjög oft hætta þau að snúast um manninn en hafa engan annan tilgang en að viðhalda sér sjálfum. Hagkerfi sem byggist á hófleysi og græðgi er ekki í þágu mannsins. Þar er maðurinn þvert á móti til fyrir kerfið. Hann verður þræll þess. Kerfið krefst sífelldrar neysluaukningar. Nú þegar sjáum við ýmis merki þess að vistkerfið þoli ekki þessar lífshætti okkar.
Maðurinn hefur gengið freklega á auðlindir jarðarinnar til að viðhalda þessu kerfi græðgi og taumleysis.
Til þess að breyta því, til þess að snúa við þróuninni, er ekki nóg að breyta lögum og reglum eða grípa til tæknilegra aðgerða. Við þurfum að horfa inn á við. Mestu og sönnustu byltingarnar í veraldarsögunni byrja þar. Hjá mér og þér.
Myndin er úr Flateyjardal.
Bloggar | Breytt 20.6.2011 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2011 | 20:44
Um orð
Orð eru til alls fyrst, segir spakmælið. Í sköpunarsögunni skapaði Guð með orðum. Hann talaði og það varð.
Jóhannesarguðspjall hefst á orðunum: Í upphafi var orðið".
Orð láta ekki mikið yfir sér. Þau eru ekki nema nokkrir stafir á bók eða röð af hljóðum, numin með eyrum.
Orð eru meira en þau sýnast vera með augunum eða eyrunum. Þau hafa merkingu.
Eitt orð getur dregið máttinn úr manninum og svipt hann voninni.
Eitt orð getur eyðilagt ástarsamband, leyst upp fjölskyldur, komið af stað byltingum, velt valdhöfum úr sessi og valdið styrjöldum.
Ekki að ástæðulausu er stundum sagt við okkur þegar mikið liggur við: Ekki eitt orð!"
Stundum þarf ekki nema eitt orð til að klúðra öllu.
Orð geta hughreyst og huggað, gefið fólki styrk, aukið bjartsýni og hækkað gengi gjaldmiðla.
Orð sætta deilendur og stofna frið á meðal þjóða.
Já" er ekki nema tveir stafir en getur samt skipti sköpum.
Nei" er líka smáorð en engu að síður fært um að gjörbreyta örlögum þínum.
Orð eru eins og lítil sáðkorn. Ef þau ná til hjartnanna og finna þar jarðveg geta þau skotið rótum og vaxið og orðið öllum jurtum meiri.
Gefum gaum að orðum. Efumst um þau. Hugsum um þau. Veltum þeim fyrir okkur.
Í dag var síðasta ferming ársins í Akureyrarkirkju.
Guð blessi fermingarbörnunum jáin.
Myndin: Þannig blasti Akureyrarkirkja við ofan úr Þingvallastrætinu eldsnemma í gærmorgun þegar ekið var með fermingarstúlkur dagsins á hárgreiðslustofur bæjarins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2011 | 12:09
Gjaldþrota stjórnmálaflokkar
Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hún flutti á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. maí síðastliðinn, hefur vakið athygli.
Ekki síst hefur mönnum orðið tíðrætt um þennan kafla ræðunnar:
Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni.
Þarna býður Jóhanna upp á að stofna nýjan flokk með nýrri forystu fyrir þau sem eiga sér sameiginlegar hugsjónir.
Og leggja niður eigin flokk í núverandi mynd.
Þetta tilboð getur haft tvær hliðar eins og flest annað.
Annars vegar geta menn litið á þetta sem gamla kennitöluflakkstrixið: Fyrirtækið er farið á hausinn, við stofnum nýtt og skiljum skuldirnar eftir í því gamla.
Samfylkingin er líka á vissan hátt gjaldþrota stjórnmálaafl. Hún var í ríkisstjórninni sem var á vaktinni þegar allt fór á hausinn. Síðan þá hafa forystumenn Samfylkingarinnar keppst við að sverja það af sér og bent á hinn flokkinn í ríkisstjórninni.
Vissulega ber Sjálfstæðisflokkurinn sína ábyrgð og ekki minni en Samfylkingin og þar er ekki síður þörf á að gaumgæfa gjaldþrota hugmyndafræði og starfshætti en hjá krötunum.
Samfylkingin getur samt ekki lýst sig saklausa. Flokkurinn fór með forræði í málefnum bankanna sem hrundu eins og spilaborgir og Jóhanna sjálf átti sæti í sérstakri ráðherranefnd um ríkisfjármál, ásamt þeim Geir Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, svo nokkuð sé nefnt.
Er Jóhanna að stinga upp á að stofna nýjan stjórnmálaflokk til að geta skilið gömlu syndirnar eftir í gömlu Samfylkingunni?
Hins vegar er hægt dást að þessu tilboði Jóhönnu og færa fyrir því rök að með þeim sýni hún aðdáunarverðan pólitískan þroska.
Stjórnmálaflokkar eru eins og önnur kerfi sem manneskjan býr sér til. Kerfin eru smíðuð utan um ákveðnar þarfir og eiga að þjóna þeim.
Síðan gerist það oft - sennilega oftast - að kerfin hætta að þjóna þessum þörfum mannsins en fara snúast um sig sjálf. Þeirra eina markmið verður að viðhalda sér sjálfum.
Þannig þróast gjarnan öll kerfi, hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokka, þrýstihópa, grasrótarhreyfingar, líknarfélög eða kirkjur.
Þá er um tvennt að ræða: Annað hvort er reynt að stíga af kúplingunni og koma þörfunum aftur í tengsl við kerfið eða menn búa sér til ný kerfi.
Vaki það fyrir Jóhönnu óska ég henna góðs gengis í því verkefni. Þótt ég sé mjög efins um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið deili ég með henni mörgum hugsjónum.
Íslenska flokkakerfið þarfnast endurskoðunar og um stjórnmálaflokkana á að gilda reglan sem siðbótarmennirnir settu kirkjunni: Ecclesia semper reformanda est."
Öll mannanna kerfi þarfnast stöðugrar siðbótar og endurmats.
Myndin er af bullandi leirhver í Námaskarði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.5.2011 | 23:41
Við fasistarnir
Þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu var það gert með tilstyrk stjórnmálaflokks sem er á móti aðildinni.
Nýlega ítrekaði flokkurinn þá andstöðu sína.
Það athæfi, að sækja um aðild að samtökum sem maður vill alls ekki í vera, var réttlætt með því að skoða ætti í pakkann, sjá hvaða samning hægt væri að fá og síðan ætti þjóðin að fá að ákveða hvort hún vildi aðild eða ekki.
Síðan hefur verið að koma í ljós að umsóknin var ekki send til að skoða í pakkann. Nú síðast lýsti Þorsteinn Pálsson því yfir í viðtali á Eyjunni, að sú ákvörðun Alþingis, að sækja um aðild að ESB feli í sér að Ísland stefni að aðild.
Viðræðurnar séu ferli sem miði að aðild.
Hafi einhver efast um að meiningin með aðildarumsókn Íslands hafi verið sú að fá að skoða í pakkann, hafa nú verið tekin af öll tvímæli um það, af manni sem situr í samninganefndinni sjálfri.
Þegar Ísland sótti um aðild að ESB var það yfirlýsing um að Ísland ætlaði sér þangað inn.
Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um trúverðugleika Íslands. Það er ekki trúverðugt að sækja um aðild að alþjóðlegum samtökum en vera um leið á móti aðild að samtökunum.
Illa var staðið að ESB-umsókn Íslands. Sótt var um með hangandi hendi og ferlið hefur einkennst af spuna og blekkingum.
Aðildarsinnar staðhæfðu að umsóknin myndi hafa í för með sér upplýsta" umræðu um Evrópusambandið.
Sú umræða hefur einkennst af öfgum. Hún er í sama anda spuna og blekkinga og umsóknin.
Í herbúðum heitustu andstæðinga aðildar er rætt um landsölu og föðurlandssvik.
Aðildarsinnar hafa síst verið skárri. Þeir sem leyfa sér að efast um aðild Íslands að ESB eru sagðir þjóðrembur, einangrunarsinnar sem hafi andúð á útlendingum og óvinir alþjóðlegrar samvinnu.
Nýjasti stimpillinn á okkur er sá að við séum öfgafólk og á móti lýðræði. Við viljum ekki að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum. Við erum fasistar.
Einn samningamanna Íslands hefur nú áréttað hvað umsókn Íslands að ESB þýddi.
Ákvörðun Alþingis felur í sér að Ísland stefnir að aðild,
segir hann orðrétt í áminnstu viðtali.
Þess vegna átti að spyrja þjóðina áður en sótt var um. Það hefði verið lýðræðislegast.
Við sem erum andsnúin aðild Íslands að ESB hefðum glaðst ef þjóðin hefði fellt umsóknina. Málið hefði þá verið úr sögunni, í bili alla vega, og tómt mál að tala um tvöfalda atkvæðagreiðslu" eins og einu sinni var í tísku að kalla það.
Já hefði á hinn bóginn styrkt ferlið. Með því hefði samninganefndin umboð þjóðarinnar á bak við sig og vilji hennar væri skýr:
Hún vildi í ESB og væri þess vegna að óska eftir aðild.
Þetta heitir víst að vera trúverðugur og heiðarlegur sem eitt sinn þóttu dyggðir á Íslandi.
En það er orðið nokkuð langt síðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.5.2011 | 11:55
Andvörp gullkálfanna
Uppgjörið við Hrunið heldur áfram. Nú eru komnar út tvær bækur um það sem ég hlakka til að lesa. Annars vegar er um að ræða Bankastræti núll eftir Einar Má Guðmundsson þar sem hann veltir m. a. fyrir sér hvort hægt sé að kaupa menninguna.
Það er skiljanleg spurning.
Hins vegar hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, ritað heilmikla bók um Baugsmálið.
Henni verður ábyggilega misjafnlega tekið - ekki síður en þeirri fyrrnefndu.
Baugur kom heldur betur við sögu í Hruninu. Tvö stórmál áranna þar á undan voru í föruneyti hans, fjölmiðlafrumvarpið og málið sem þessi fyrrverandi dómsmálaráðherra Íslands hefur nú ritað um heilmikla bók.
Nú eins og þá dæsa sumir og segjast ekki nenna að tala um Baug. Gefið er í skyn að málið sé gamalt og þeir sem ennþá standi í því að ræða það séu með það á heilanum eða persónulega í nöp við fólkið á bak við veldið.
Þó berast enn fréttir af eftirstöðvum Baugsmálsins.
Í þessari viku mátti til dæmis lesa um mörg hundruð milljóna gjaldþrot eignarhaldsfélags fyrrum forstjóra Baugs.
Baugsveldið átti stóran þátt í því að sjúga upp peningana úr íslenska bankakerfinu. Við Hrun skulduðu fyrirtæki Jóns Ásgeirs Jóhannessonar meira en þúsund milljarða.
Samt finnst mörgum óttaleg sérviska að tala um Baug þótt þeir fjalli ófeimnir og miskunnarlaust um aðra Hrunkvöðla.
Það ískyggilega er að mennirnir sem helst má ekki fjalla um eiga ennþá stóran hluta íslenskra fjölmiðla. Kannski er þar að finna skýringuna á ofnæmisviðbrögðum við umfjöllun um þessa menn?
Bók Björns var varla komin út þegar umræðustjóri Íslands, Egill Helgason, andvarpaði á bloggsíðu sinni og stimplaði hana ógurlega langa bloggfærslu".
Eitthvað eru þessi andvörp kunnugleg.
Egill efast um að bók Björns sé hlutlæg. Þeim efasemdum get ég deilt með Agli. Rosabaugur Björns Bjarnasonar er ábyggilega enginn stórisannleikur um Baugsmálið. Ekki frekar en bækur annarra manna um önnur mál.
Helsta einkenni þroskaðrar umræðumenningar er ekki gott aðgengi fólks að stórasannleika um málefni samtímans.
Umræðumenningin er öflug ef við höfum aðgang að fjölbreytilegum skoðunum um málin og eigum kost á að virða þau fyrir okkur frá ýmsum sjónarhornum.
Lilja Skaptadóttir, einn helstu eigenda DV og Smugunnar, orðar þetta mjög vel í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í nýjasta Sunnudagsmogganum:
Því fleiri sjónarhorn sem fólk fær á málin því betri aðstöðu hefur það til að taka upplýstar ákvarðanir. Ef fólk fær einhliða upplýsingar er ekki verið að upplýsa það heldur mata það. Það vil ég ekki horfa upp á og þess vegna er ég að leggja mitt af mörkum til að styrkja sjálfstæða fjölmiðla.
Hættan á einhliða upplýsingum vex ef fjölmiðlar komast í eigu fárra, ef sumar skoðanir mega ekki heyrast og ef menn eru gerðir að gullkálfum sem á að hlífa við gagnrýni.
Í því samhengi er hollt að rifja upp þetta tæplega þriggja ára gamla mál, þegar bloggari á Eyjunni leyfði sér að gagnrýna sjónvarpsþátt.
Þar koma gullkálfar við sögu.
Myndin er af skælæni Hörgárdals.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2011 | 09:18
Ríkidæmi fyrir fáa
Ójöfnuður er að aukast í heiminum. Þeir ríku verða ríkari og fátækir fátækari.
Þetta er engin klisja heldur niðurstaða nýlegrar skýrslu OECD.
Samkvæmt skýrslunni er þessi þróun hvergi hraðari en á Norðurlöndunum eins og lesa má um hér.
Kreppan á Íslandi virðist á margan hátt hafa skerpt skilin á milli ríkra og fátækra.
Til okkar prestanna leita t. d. í viku hverri einstæðar mæður sem ekki eiga fyrir mat handa börnum sínum.
Og einhvers staðar las ég að sala á lúxusbílum væri að aukast.
Ég hef ekki bara áhyggjur af einstæðum mæðrum og börnum þeirra.
Stór hluti fjölskyldna í þessu landi á í vök að verjast og getur ekki veitt börnum sínum það sem sjálfsagt þykir fyrir önnur börn.
Ég veit að fjölmörg börn hafa til dæmis aldrei komist í frí með foreldrum sínum. Þau munu ekki eiga neinar minningar úr skemmtilegum fjölskylduferðalögum, hvorki innanlands né utan.
Á mörgum heimilum eru ekki til peningar til að kaupa skólamáltíðir handa börnunum. Þau verða að láta sér nægja þvælda samloku meðan þau fylgjast með skólasystkinum frá betur stæðum heimilum gæða sér á heitri máltíð.
Sífellt fleiri foreldrar hafa ekki efni á að leyfa börnunum sínum að taka þátt í tómstundastarfi. Börn fátækra foreldra geta verið ekki síður músíkölsk en aðrir krakkar en það kostar mikla peninga að senda barnið sitt í tónlistarskóla. Þeir eru ekki til nema á sumum heimilum þessa lands.
Íþróttastarf barna útheimtir ekki bara mikla fjármuni heldur krefst það tíma og vinnu. Foreldrarnir þurfa að reiða fram jafnvel hundruð þúsunda króna árlega til að eitt barn geti æft íþrótt. Þar að auki þarf að fylgja barninu í ferðir og standa í alls konar fjáröflun.
Sumir foreldrar eiga hvorki tíma né aura til að standa undir íþróttaiðkun barnanna.
Ástandið á þessu landi er þannig að með hverjum deginum stækkar sá hópur barna sem ekki á þess kost að fara í frí með foreldrum sínum, ekki getur stundað tómstundastarf eins og aðrir jafnaldrar og ekki fær að borða sama mat í hádeginu og skólasystkinin.
Hér á landi eru börnin alin upp við að eðlilegt þyki að sumir geti leyft sér nánast allt en aðrir verði að láta sér nægja molana.
Nú er tekist á um auðlindir landsins og gjarnan er því slegið fram að Ísland sé ríkt.
Ríkidæmið virðist þó aðeins vera fyrir fáa af þessari fámennu en ríku þjóð.
Myndina tók ég í gær af Kinnarfjöllum handan Húsavíkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2011 | 22:58
Aldrei að hætta að vona
Fyrir nokkrum árum fjallaði ég um sköpunartrú kristinna manna í tíma hjá kennaranemum í Háskólanum á Akureyri. Eftir kennsluna mætti ég þáverandi rektor skólans, Haraldi Bessasyni. Við tókum spjall saman og hann spurði mig hvað ég hefði verið að kenna. Ég sagði honum að ég hefði verið að tala um sköpunarsögur Biblíunnar og reynt að benda á að hægt sé að segja ýmislegt upphaf lífsins og heimsins þótt ekki sé það náttúruvísindalegt.
Haraldur tók undir það. Hann tjáði mér að hann nýlega hefði hann kennt um upphaf heimsins í norrænum átrúnaði og það væri heilagur sannleikur" eins og hann orðaði það.
Í trúarbrögðunum er reynt að gefa upphafi heims merkingu og tilgang. Trúarbrögð heimsins eiga sínar skýringar á tilurð lífsins, hvort sem um er að ræða einstaklinginn eða lífið í stærra samhengi.
Þær skýringar eru ekki náttúruvísindalegar en í þeim getur engu að síður falist mikilvægur sannleikur.
Við fæðumst og deyjum og það sama á við um heiminn.
Einhvern tíma endar hann. Hvenær það verður veit enginn, ekki frekar en við vitum hvenær við deyjum.
Nú keppast amerískir auðkýfingar við að auglýsa aðsteðjandi heimsslit. Það er illa gert að valda fólki ótta og áhyggjum með heimsendaspám.
Hið veraldlega neyslusamfélag er reyndar ekki saklaust af því. Þar lifum við á síðustu forvöðum. Það er annað hvort núna eða ekki. Annað hvort höndlum við alsæluna hér og nú eða hún er endanlega gengin okkur úr greipum.
Við lifum í óttanum við að vera að missa af hamingjunni og öllu því sem verið er að bjóða okkur og selja.
Svo sannarlega hafa trúarbrögðin hafa verið notuð af valdhöfum, veraldlegum sem andlegum, til að koma taumhaldi á þegnana og halda þeim í skefjum.
Trúarbrögðin geta líka hjálpað okkur til að skilja uppruna okkar, horfast í augu við örlög okkar, finna þeim merkingu og tilgang og sættast við endalok okkar.
Þau geta hjálpað okkur að lifa lífinu án þess að vera sífellt undir steyttum hnefa óttans og kvíðans.
Samkvæmt náttúruvísindunum mun sólin sortna og heimurinn eins og við þekkjum hann líða undir lok.
Samkvæmt trúnni kemur sá tími, að Guð sjálfur mun vera hjá okkur og þerra hvert tár af augum okkar, dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl, réttlætið mun sigra, friðurinn ríkja og sá sem í hásætinu situr gjörir alla hluti nýja.
Samkvæmt trúnni hættum við aldrei að vona. Haft er eftir Marteini Lúther að þótt hann vissi að heimurinn ætti að farast á morgun myndi hann gróðursetja eplatré í dag.
Þótt vafi leiki á að eigna megi Lúther þessi orð eru þau góð speki.
Myndin: Þessir tvíburafossar eru í Vaðlaheiði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)