Ókeypis skeinipappír

DSC_0661 

Fréttablaðið gumar af því að vera stærst á Íslandi. Ekkert blað sé meira lesið en það.

Þá er það yfirleitt ekki tekið fram að blaðinu er dreift ókeypis inn á heimili á stærstu þéttbýlisstöðum landsins. Annars staðar liggur það fyrir fótum hunda og manna í þjóðbrautum og býður upp á að láta taka sig fyrir ekki neitt.

Ef einni tegund klósettpappírs væri dreift ókeypis inn á heimili landsmanna yrði hún ábyggilega meira notuð en aðrar.

Þrátt fyrir að Fréttablaðið komi líka frítt inn á heimilin.

Fréttablaðið er samt ekki ókeypis frekar en aðrir fjölmiðlar. Það kostar að búa það til og dreifa því. Peningarnir sem fara í Fréttablaðið koma ekki frá áskrifendum.

Ef lesendum líkar ekki Fréttablaðið dugar ekki að segja því upp. Það er ekki hægt. Fréttablaðið er að því leyti ekki háð lesendum.

Það er háð þeim sem auglýsa í því og láta það fá pening. Og þeir sem fjármagna Fréttablaðið vilja auðvitað fá eitthvað fyrir sinn snúð. Fréttablaðið er að þjóna þeim miklu fremur en lesendum.

Um páskana var Fréttablaðið með sérstakt kirkjublað. Fulltrúi blaðsins hringdi í mig og bauð mér viðtal.

Fyrir það varð reyndar að borga nokkra tíuþúsundkalla.

Sérstaklega var tekið fram að Biskupsstofa ætlaði að vera með.

Þannig er Fréttablaðið. Þar eru viðtöl við þá sem eru tilbúnir að taka upp veskin sín.

Hinir sem eru auralausir eða tíma ekki að eyða pening í Fréttablaðið fá hvorki mynd af sér í það né viðtöl.

Þeir eru eiginlega ekki til í þessu stærsta blaði á Íslandi.

Myndin: Glæsilegt flug þrátt fyrir bágt ástand á fjölmiðlum landsins.


Belgíska fyrir lengra komna

DSC_0698 

Fjármálaráðherra Íslands telur hagsmunum landsins "best fyrir komið utan Evrópusambandsins" eins og hann orðar það sjálfur.

Ríkisstjórn hans lét það verða eitt sitt fyrsta verk að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem fjármálaráðherra landsins telur að Ísland eigi ekki að vera aðili að.

Sama ríkisstjórn harðneitar því að aðildarviðræðurnar séu aðlögunarviðræður - þótt Evrópusambandið sjálft segi annað í bæklingi þar sem það gerir grein fyrir stækkunarstefnu sinni (bls 6):

First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.

Ekki er nóg með að ríkisstjórn Íslands sé að sækja um aðild að klúbbi sem helmingur hennar vill ekki vera í, hún á líka í samningaviðræðum þar sem ekki er um neitt að semja.

And these rules are not negotiable.

Annað forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar er umbylting á fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga.

Það kerfi var varanlega fest í sessi árið 1990. Þá voru ennfremur sett inn ákvæði um frjálst framsal aflaheimilda.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem voru á móti frumvarpinu en andstaða þeirra og Kvennalistans dugði ekki til.

Frumvarpið var samþykkt og kvótakerfið fest í sessi með frjálsu framsali aflaheimilda.

Hér má sjá feril frumvarpsins.

Einungis tveir þeirra þingmanna sem samþykktu frumvarpið árið 1990 eru enn á þingi:

Núverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra.

Þannig ber enginn núverandi þingmanna meiri ábyrgð á íslenska kvótakerfinu en sitjandi forsætisráðherra og sitjandi fjármálaráðherra, sem berjast nú hatrammri baráttu fyrir því að kerfið þeirra verði afnumið.

Nýjustu fréttir af Evrópusambandinu eru á hinn bóginn þær að þar á bæ vilja menn endilega taka upp íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Með öðrum orðum:

Íslenska ríkisstjórnin sækir um aðild að ESB án þess að vilja inn.

Hún á í samningaviðræðum við ESB án þess að ESB viðurkenni að um samningaviðræður sé að ræða.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar gera það að forgangsverkefni að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfi sem þeir komu á sjálfir.

Um leið telja þeir sig vera í aðildarviðræðum við ESB en ESB ætlar einmitt að taka upp kerfið sem þeir hamast við að leggja niður.

Myndin: Mýrarrauði


Ég lofa dansinn

DSC_0526

Þegar Strákarnir okkar skora sigurmarkið á lokasekúndunum í þýðingarmiklum leik sprettum við upp úr sjónvarpssófunum, lyftum höndum, hrópum og hoppum. Við gerum þetta ósjálfrátt. Dansinn er nefnilega alls ekki alltaf meðvitað og útspekúlerað hliðar-saman-hliðar fyrirbæri. Í dansinum missum við tökin á okkur sjálfum. Dans er alltaf ákveðið sjálfræðisafsal. Tónlist, taktur og ryþmi stjórna okkur. Dans og trans eru nátengdir.

Dansinn hreyfir ekki bara við einstaklingum. Stórir hópar hreyfast í dansinum nánast eins og einn maður. Dansinn gefur hópnum eina sál. Þess vegna er dansinn gjarnan trúarlegur. Í trúnni er til allsherjarregla, þar er til staðar einhvers konar æðri máttur. Í trúarlegum dansi er gefið til kynna að maðurinn sé í takti við þennan æðri mátt. Í fornri indverskri speki er sagt að Guð sé dansarinn en við mannfólkið dansinn hans. Dansinn felur í sér harmóníu, samræmi. Í honum birtist samræmi alheimsins og taktur eilífðarinnar. Að því leyti er dansinn forsmekkur þeirra tíma er sköpunin öll smellur í sama taktinn og er þátttakandi í sama dansinum.

Dansinn getur líka verið í takti sem er okkur ekki heilnæmur og hann er hægt að stíga við undirleik illra afla. Sú var raunin með sennilega frægasta dans Biblíunnar, dansinn í kringum gullkálfinn. Hann er tákn þeirrar efnishyggju sem tröllriðið hefur vestrænum samfélögum, þar á meðal okkar, með geigvænlegum afleiðingum. Dansinn í kringum gullkálfinn er tákn þess lífsviðhorfs, að efnisgæði tryggi hamingju manna og að hún sé föl fyrir peninga. Sá gullkálfsdans sem við Íslendingar stigum og erum sennilega enn að stíga, því hljómsveitin er ekki hætt að spila, lýsir sér í því að það heilbrigða og góða og sanna er troðið undir okkar dansandi fótum.

Dansinn kringum gullkálfinn er harður dans. Þar hugsar hver um sig, hamast á gólfinu, stjakar við öðrum til að ná sér í pláss og enginn biðst afsökunar þótt hann felli aðra í æðinu.

Í ljóði frá 4. öld er dansinn lofaður. Höfundurinn er ókunnur.

Ég lofa dansinn

því hann frelsar manninn frá þyngslum hlutanna

og kemur einstaklingnum í höfn samfélagsins.

Ég lofa dansinn sem allt styrkir og glæðir,

heilsu, tæran anda og leikandi sál.

Dansinn er umbreyting rýmis, tíma

og þess manns sem er í stöðugri hættu

að hrörna og verða ekkert nema heili,

ekkert nema vilji eða ekkert nema kennd.

Dansinn styrkir manninn sem heild,

þann mann sem er rótfastur í miðju sjálfs sín

og er ekki gagntekinn af græðgi

í manneskjur og hluti

eða af djöfulskap sjálfshyggjunnar.

Dansinn glæðir hinn frelsaða og leikandi mann,

í jafnvægi kraftanna.

Ég lofa dansinn!

Ó, maður, lærðu að dansa!

Annars hafa englarnir á himnum ekki hugmynd um  

hvað þeir eigi að gera við þig.

Myndin: Goðafoss stígur vordans fyrir ítalska vinkonu sína.


Með dansskóna í kirkju

DSC_0711 

Næsta sunnudag, 8. maí, hefst kirkjulistavika í Akureyrarkirkju.

Dagskrána má sjá hér.

Hér langar mig að vekja sérstaka athygli á dansmessu sem verður í kirkjunni kl. 20 á sunnudagskvöldið.

Dansinn er sammannlegur og tengist gjarnan tilbeiðslu. Í Biblíunni eru margar heimildir um trúarlegan dans. „Lofið Guð með bumbum og gleðidansi," segir í Davíðssálmum.

Hreyfisöngvarnir í sunnudagaskólanum eru sennilega það sem kemst næst dansi í kirkju samtímans.

Í dansmessunni mun Sigyn Blöndal kenna söfnuðinum einfalda dansa sem stignir verða undir sálmum, söngvum og fjölbreytilegum hljóðfæraslætti hljómsveitar hússins.

Hljómsveitina skipa Daníel Þorsteinsson, píanó, Matti Saarinen, gítar, Stefán Ingólfsson, bassi og Hjörleifur Örn Jónsson, slagverk.

Félagar úr Kór Akureyrarkirkju leiða sönginn.

Rauði þráðurinn í messunni er sálmurinn „Lord of the Dance" sem Sidney Carter orti með gamlan kvekarasöng sem fyrirmynd. Sálmurinn varð seinna að samnefndum söngleik sem öðlaðist heimsfrægð.

Vel er við hæfi að mæta í dansskóm í dansmessu þótt ekki sé það skylda.

Myndin: Dansað á tjörninni.


Þjóðremba og þakklæti

DSC_0659 

Nú árar vel fyrir neikvæðnina og skapast hafa kjöraðstæður fyrir niðurrif.

Íslendingar eru ómögulegir. Þeir gera ekkert rétt og allt vitlaust. Landið er vonlaust. Þjóðin er siðlaus. Stjórnmálastéttin gjörspillt. Alþingi vanhæft. Dómstólar ekki marktækir. Fjömiðlarnir ekki á vetur setjandi.

Íslendingar eru upp til hópa heimóttarlegir einangrunarsinnar sem er í nöp við útlendinga.

Í gamla daga voru helvítisprédikanir notaðar til að hotta fólki inn í guðsríkið.

Nú brúka menn sömu ræðurnar til að reka þjóðina í Evrópusambandið. Og kalla það „upplýsta umræðu".

Þegar síðasti lífskjaralisti Sameinuðu þjóðanna birtist var því slegið upp að Ísland hefði dottið þar niður um heil fjórtán sæti.

Aumingja við.

Minna fór fyrir þeirri staðreynd að þrátt fyrir efnahagshrun er Ísland enn í sautjánda sæti á þessum lista. Belgía, Spánn og Danmörk eru t. d. í næstu sætum fyrir neðan okkur.

Reyndar eru meira en 150 lönd neðar en við á þessum lista.

Þjóðremba felst í því að telja sér það til ágætis að vera af ákveðnu þjóðerni. Það eitt og sér geri mann jafnvel öðrum fremri.

Hér á landi tíðkast héraðshroki og um hann má finna mörg dæmi.

Sama máli gegnir um ættardrambið en á Íslandi og víðar hefur löngum verið til siðs að telja sumar ættir merkilegri en aðrar.

Þjóðremban er héraðshroki og ættardramb í örlítið víðtækari mynd.

Héraðshroka fyrirbyggjum við ekki með því að útmála eins og hægt er alla hugsanlega galla heimaslóða fyrir íbúunum.

Ættardramb verður heldur ekki læknað með því að sverta helstu ættfeður og formæður á ættarmótum.

Þvert á móti: Hroki, dramb og remba eru gjarnan fylgifiskar vanmetakenndar.

Það er engin þjóðremba að gera sér grein fyrir því að Ísland er gott og fallegt land.

Annað væri vanþakklæti.

Hér hefur tekist að byggja upp öflugt velferðarkerfi sem er þess virði að það sé varið með kjafti og klóm.

Við erum lánsöm þjóð. Okkur er ótalmargt gefið sem við megum þiggja í auðmýkt og þakklæti.

Myndin: Vorflug yfir Krossanesborgum.


Frétt páskanna

DSC_0584 

Kristur er upprisinn! Hann hefur sigrað dauðann!

Oft stendur þessi frétt alein gegn öllum öðrum fréttum.

Á páskum kemur páskafréttin til okkar og vill glæða gruninn um að hún geti verið ábyggileg og sönn:

Að til sé afl sterkara en dauðinn. Að lífið muni að lokum sigra. Að hver sem velji að vera í liði með því sé í sigurliðinu. Að hægt sé að njóta lífsins án þess að óttast dauðann. Að treysta megi lífinu. Að alltaf sé einhver morgundagur. Að óhætt sé að vona jafnvel þótt öll von sé úti.

Gleðilega páskahátíð!

Myndin: Vor í Dimmuborgum.


Land vantraustsins

DSC_0392

Danskur hagfræðingur, sem landsmenn hefðu betur hlustað á fyrir nokkrum árum, er enn mættur með hollráð handa þjóðinni. Nú segir hann okkur að hætta að líta í baksýnisspegilinn. Þess í stað vill þessi Íslandsvinur að við horfum fram á veginn. Við eigum að vera bjartsýn og jákvæð.

Undir þetta má svo sannarlega taka. Við skulum endilega bera hönd að enni og huga að framtíðinni. Löngum hefur þótt varasamt að ganga fram á við en horfa til baka. Þeir sem það gera geta átt á hættu að verða að saltstólpa - eða að minnsta kosti að ganga á einn slíkan.  

Sá ráðagóði maður Lars Christensen bendir okkur á að fortíðin sé komin í ákveðinn farveg. Sérstakur saksóknari sé t. d. að skoða meinta viðskiptaglæpi og fjármálamisferli ásamt útlendum rannsakendum.

Og svo hefur verið skrifuð merkileg skýrsla af rannsóknarnefnd Alþingis, sagði þessi ágæti Dani.

Það er mikill og hættulegur en því miður algengur misskilningur að hægt sé að byggja upp framtíð með því að grafa og gleyma fortíðinni. Það á bæði við um líf einstaklinga og þjóða.

Það er ennfremur ekki rétt að við stöndum frammi fyrir þeim valkostum að þurfa annað hvort að gera upp fortíðina eða huga að framtíðina.

Þvert á móti ræðst framtíð okkar af þeirri fortíð sem við áttum. Við leggjum grunn að góðri framtíð með því að gera upp það liðna, læra af því og forðast þau mistök sem við gerðum.

Rannsóknarskýrslan var ekki skrifuð til að rykfalla uppi í hillu. Hún var skrifuð til að upplýsa þjóðina um það sem gerðist. Við viljum vita hvað gerðist til að minnka líkurnar á að það gerist aftur. Til þess verðum við að læra af fortíðinni og gera breytingar í samræmi við þann lærdóm.

Vorið 1994  hitti ég Joachim Gauck, yfirmann Stasi, í aðalbækistöðvum leyniþjónustunnar í Berlín. Þá var Stasi reyndar engin leyniþjónusta lengur en þar var gífurlegt magn af upplýsingum um þýska borgara. Austur-þýska alþýðulýðveldið var þannig uppbyggt að stór hluti þjóðarinnar hafði það verkefni að njósna um náungann.

Eftir hrun alþýðulýðveldisins og leyniþjónustunnar var ákveðið að fela ekki þessar upplýsingar eða eyða þeim. Hver borgari gat farið í Stasi og fengið að vita hvað var sagt um hann í skýrslum njósnaranna. Og það sem meira var:

Þú  áttir rétt á að fá nafnið á þeim sem upplýsingarnar gaf um þig.

Það gat verið viðkvæmt og sárt, t. d. ef þú komst að því að þar væri um að ræða vin þinn eða skyldmenni.

Ég man að ég spurði Gauck hvort menn væru ekki hræddir um að þetta fyrirkomulag kveikti ófriðarbál í samfélaginu.

Gauck viðurkenndi að þessi aðferð við að gera upp fortíðina væri sannarlega ekki sú léttasta en hún væri samt sú eina rétta.

 „Við erum búin að prófa hina leiðina, að gera upp fortíðina með því að flýja hana," sagði hann.

Hann sagði líka að svona heiðarlegt uppgjör við fortíðina kallaði á að fólk kynni að fyrirgefa.

Mér er minnisstætt það sem hann sagði um fyrirgefninguna. Hann sagði að hún væri ferli sem gæti tekið langan tíma.

Við erum held ég ekki komin að fyrirgefningunni ennþá. Við vitum ekki alveg hvað við eigum að fyrirgefa eða hverjum. Við erum enn í samfélagi þar sem hver bendir á annan.

Þar að auki höfum við það á tilfinningunni að hér sé Stasi enn á fullu; kerfið sem kom okkur í vandræðin hafi verið endurræst - hafi það þá einhvern tíma stöðvast.

Ríkisstjórnin varðist vantrausti en það breytir því ekki að á Íslandi ríkir vantraustið.

Enn bíður þjóðin eftir því  að geta farið að treysta leiðtogum sínum.

Myndin: Það sem óx í fyrra.


Okkar jákvæða nei

DSC_0385 

Því er haldið fram að Icesave hverfi ef við segjum já á morgun. Jáið sé til þess að fá málið út úr heiminum.

Sannleikurinn er sá að hvorki já né nei á morgun láta Icesave hverfa. Með því að segja já hverfur skuldin ekki. Já þýðir þvert á móti viðurkenning á skuldinni.

Skuldin verður þjóðarinnar ef hún ákveður það í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun. Þá eigum við eftir að greiða hana, skuld sem við vitum hvorki upphæðina á né greiðslutíma.

Undanfarin ár hefur verið unnið að því með alls konar hótunum, þvingunum og kúgun að fá þjóðina til að taka á sig þessa skuld, bæði af innlendum og erlendum stjórnvöldum.

Nýleg birtingarmynd kúgunarinnar er sú hótun verkalýðsforingja og talsmanna atvinnurekenda að almenningur þessa lands fái engar launahækkanir nema hann játist þessum skuldum.

Fólkið liggur vel við höggum kúgaranna. Fáir áttu peninga aflögu til að leggja inn á hávaxtareikninga. Flestir áttu lítið nema kannski hlut í húskofa. Það var lífeyrir margra. Nú hefur sú eign fuðrað upp. Fólkið hefur þurft að taka á sig bæði skattahækkanir og launalækkanir. Verð á nauðsynjum hefur rokið upp. Margir hafa ekki vinnu og lifa á smánarbótum.

Þetta fólk á að þvinga til að borga bankaskuldir á meðan það hlustar á fréttir af nýjustu ofurlaununum í nýju bönkunum.

Óréttmæt skuldsetning þjóðríkja er ekki ný af nálinni í veröldinni. Í fyrra var eitt tölublað Víðförla, fréttablaðs Þjóðkirkjunnar, helgað baráttunni gegn henni, í tilefni af heimsókn tveggja fulltrúa Lúterska heimssambandsins hingað til lands, aðalritarans Martin Junge og Peter Prove, yfirmanns alþjóðasviðs og mannréttinda hjá sambandinu.  Þar er þetta eftir þeim haft:

Frá kirkjulegu sjónarhorni lítum við á heimsbyggðina sem hús eða heimili sjálfs Guðs -oikos. Efnahagslífið - oikonomia - á að að þjóna velferð hennar allrar. Í dag hefur hins vegar almennri velferð verið vikið til hliðar fyrir önnur markmið alþjóðlegs fjármálamarkaðar, sem eru vöxtur og gróði. Af biturri reynslu hefur fólk á Íslandi og annars staðar í heiminum lært að þessi gróði safnast á hendur fámennrar fjármálayfirstéttar á meðan fjárhagsleg áföll og félagslegt tap falla á arðrændan meirihlutann.

Í Víðförla segir ennfremur:

Lúterska heimssambandið hefur haft samband við þjóðkirkjuna og velt upp spurningum er varða stöðu þjóðarinnar og ólögmætar skuldir. Bent er á að margt sé líkt með Icesave og óréttmætri skuldsetningu annars staðar í heiminum.

Nei á morgun mun ekki láta Icesave hverfa og heldur ekki útrýma óréttmætri skuldsetningu þjóðríkja.

Nei á morgun er eitt skref á langri leið. Nei á morgun er jákvætt framlag til betri og réttlátari heims.

Í dag skrifar Eva Joly greinar í blöð. Niðurlagsorð hennar þar eru:

Efnahagskreppan hefur leitt af sér ólýsanlegar hörmungar fyrir milljónir einstaklinga sem hafa misst heimili sín, vinnu og eftirlaun. Þetta fólk hefur þurft að reyna á eigin skinni afleiðingar kreppunnar, á meðan alþjóðlegir fjármálamenn, bankamenn og skuldabréfaeigendur halda skaðlausir öllum sínum bónusgreiðslum, ævintýralegum launum og ágóða, eins og ekkert hafi ískorist. En afleiðingar kaldrifjaðrar og áhættusækinnar hegðunar þeirra eru öllum sýnilegar, eins og sprengjugígar í efnahagslandslaginu. Augu heimsins hvíla nú á íslensku þjóðinni, sem hefur hingað til hafnað öllum Icesavekröfum; kröfum um að ganga í skilyrðislausar ábyrgðir fyrir fjármálageirann. Það er mín von að þessi jákvæði baráttuandi muni hafa yfirhöndina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Myndin er af brúm.


Neitun mín

DSC_0344

Á árunum fyrir Hrun var til siðs að efna til útihátíðar í Akureyrarbæ um verslunarmannahelgina.

Herlegheitin voru kölluð fjölskylduhátíð.

Um verslunarmannahelgina sumarið 2006 voru tvær nauðganir kærðar á fjölskylduhátíðinni. Fjölskyldurnar á hátíðinni skemmtu sér líka við líkamsárásir og skemmdarverk, t. d. á 30 bílum. Upp komu á sjöunda tug fíkniefnamála. Á þriðja hundrað manns leitaði á slysadeild sjúkrahússins. Þangað komu líka hópar ungmenna til að fá hreinar sprautunálar. Unglingarnir tjáðu starfsfólkinu að þeir hefðu á sínum tíma lært að sprauta sig á Akureyri um verslunarmannahelgi. Á fjölskylduhátíðinni ráfuðu börn dauðadrukkin um götur bæjarins. Fíkniefnasalar landsins kölluðu út aukavaktir af dílerum til að nýta það tækifæri til nýliðunar sem fólst í eftirlitslausri og dómgreindarskertri æsku landsins á fjölskylduhátíðinni á Akureyri. Bent var á að ólíkt betra væri að láta nauðga sér þar, inni í bæ, en einhvers staðar úti í sveit. Dauðadrukkinn og útúrdópaður lýður gekk öskrandi um bæinn, mígandi í garðana og skítandi á útidyratröppur hjá fólki.

Þannig gekk þessi fjölskylduhátíð ár eftir ár þrátt fyrir mótmæli og gagnrýni. Hún skyldi haldast óbreytt á meðan menn græddu á henni. Eftirlitsaðilarnir, lögreglan og bæjaryfirvöld, töldu sig ekkert geta gert og báru við að heimildir skorti. 

Loksins þegar kom fram bæjarstjóri sem greip til aðgerða gegn ógeðinu varð hún fyrir grimmilegum árásum. Undirskriftum var safnað til höfuðs henni. Hún átti að segja af sér. Bent var á að 3000 hamborgarar stæðu eftir óseldir.

Ég man eftir viðtali við einn bæjarstjórnarmann á þessum árum sem sagði við mig: „Þú veist ekki við hvaða ofurefli er að etja."

Á þessum árum var valdið  nefnilega í klóm græðginnar og Akureyri um verslunarmannahelgina var Ísland í hnotskurn. Stjórnmálamenn réðu engu. Ekki eftirlitsmenn. Ekki fjölmiðlar. Meira að segja veðurfræðingarnir þorðu varla að spá rigningu þessa helgi af ótta við alla óseldu hamborgarana og önnur öflugri eiturlyf. 

Hér skyldi allt lúta einu valdi. Stjórnmálamenn voru keyptir og heilir stjórnmálaflokkar. Öðrum var hótað öllu illu.

Í bókinni Hversdagshetjur eftir þær Evu Joly og Maríu Malagardis sem út kom í íslenskri þýðingu árið 2009 kemur kollegi minn kaþólskur, Alex Zanotelli, við sögu. Hann bendir á að nú á tímum séu það ekki stjórnir landanna sem hafi hin raunverulegu völd. Zanotelli heldur áfram (bls. 40):

Þau eru í höndum fjármálaheimsins og efnahagsþrýstihópanna sem segja mönnum hvernig þeir eigi að sitja og standa. En þetta er það sem mestu máli skiptir: Það verður að hefja stjórnmálin aftur til vegs og virðingar og ljá þeim kraft á ný til þess að viðskiptaöflin séu ekki allsráðandi og segi kjörnum fulltrúum ekki fyrir verkum.

Mörgum finnst lítið hafa breyst á Íslandi eftir Hrun. Mennirnir sem áttu peningana, fyrirtækin og fjölmiðlana eiga það allt saman enn. Þingmennirnir sem fengu ofurstyrkina og kúlulánin eru enn á þingi. Við erum farin að sjá gamalkunnar tölur um ofurlaun í viðskiptaheiminum. Nú um helgina mátti lesa um það í bresku blaði að tugir milljarða króna hafi verið fluttir úr Landsbankanum gamla rétt fyrir Hrun og runnið til fyrirtækja helstu eigenda hans. Í fréttinni segir ennfremur:

Despite the collapse of Landsbanki, Thor Björgólfsson, now London-based, remains one of the richest men in the world with a fortune estimated at $1bn.

Þjóðinni var leyft að hringla örlítið í pönnum og pottum. Nú er sú útrás búin og best að taka til við þá gömlu á ný. Til þess að hún geti byrjað aftur verður þjóðin að taka á sig vanskilaskuldir elítunnar. Þjóðinni er hótað öllu illu ef hún gefur þeim ekki traust sem brugðust því og greiðir ekki skuldir sem eru ekki hennar.

Bent hefur verið á að þjóðin þurfi að borga ýmislegt fleira vegna Hrunsins en Icesave. Það er vitaskuld rétt. Munurinn er sá að nú um helgina höfum við tækifæri til að segja nei. Og sú neitun snýst í mínum huga um fleira en Icesave:  Ég afneita því fyrirkomulagi sem alltof lengi hefur viðgengist í þessum heimi, þar sem útvaldir fá að græða í friði og grilla um helgar en alþýðan má gjöra svo vel og hirða tapið.

Um verslunarmannahelgina 2006 tjölduðu gestir fjölskylduhátíðarinnar á Akureyri á Þórssvæðinu. Eftir hátíðina voru börn úr vinnuskóla bæjarins send inn á svæðið til að hreinsa það. Þau skriðu um grasið og tíndu upp glerbrot, bjórdósir, notaða smokka og sprautunálar.

Auðvitað var ekki hlustað á þá sem vildu að þeir tækju til sem efnt höfðu til hátíðarinnar og höfðu af henni tekjur.

Þegar foreldrar mótmæltu þessari meðferð á börnum sínum var þeim sagt að vera ekki með neinn æsing; börnin væru með gúmmíhanska.

Ég segi nei. Ég neita því að hreinsa upp eftir gróðabrall einkafyrirtækis og ég neita að láta börn mín og afabörn gera það - með eða án gúmmíhanska.

Myndin: Það vorar

 


Munur á 2007 og 2011?

DSC_0359 

Ein helsta niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis var sú að íslensku bönkunum hafi ekki verið hægt að bjarga eftir árið 2006.

Um tíu ára skeið var Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis. Þegar hann lét af störfum árið 2007 var skrifað:

Í raun má segja að Bjarni sé einn af bestu sonum hins endurfædda íslenska fjármálageira, elskaður og dáður af flestum fyrir sína fáguðu og yfirlætislausu framgöngu.

Í fyrra komst í fréttir hér á landi að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, væri eftirlýstur af Interpol og gefin yrði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Í sömu fréttum kom fram að meðal þeirra æðstu stjórnenda bankans sem handteknir hefðu verið væri Hreiðar Már Sigurðsson. Kaupþing er í sérstakri rannsókn breskra fjármálaglæpalögreglu.

Árið 2007 var skrifað um þá Sigurð og Hreiðar Má:

Þó eflaust verði ég hjáróma rödd í þeim umræðum sem vafalaust munu nú gjósa upp um kaupréttarsamninga Hreiðars Más og Sigurðar hjá Kaupþingi, þá má ég til með að nota þetta tækifæri og óska þeim félögum til hamingju - bæði með hagnaðinn af kaupréttarsamningunum en ekki síður með þann frábæra árangur sem þeir hafa náð í uppbyggingu Kaupþings. Það er ekki lítils viðri fyrir Ísland, bæði efnahagslega og samfélagslega að slíkir afreksmenn í viðskiptum finni sér starfsvettang í íslensku atvinnulífi. Á örfáum árum hefur þeim tekist að breyta stöðnuðum og gamaldags banka og sjóðum úr ranni ríkisins í eithvert öflugasta viðskiptaveldi íslensks viðskiptalífs, viðskiptaveldi sem malar gull fyrir íslenskt samfélag.

Þessa dagana er tekist á um Icesave-reikninga Landsbankans. Árið 2007 var þetta skrifað um þá Björgólfsfeðga:

Það er ekki að spyrja að stórhug Björgólfs Thors - 600 milljónir í borgarsjóð og aðrar 200 til að endurbæta eitt fegursta hús miðbæjarins og glæða það lífi. Ekki síður finnst mér það vel til fundið að ætla húsinu það hlutverk að halda á lofti minningu og ævintýralegum ferli langafa Björgólfs, Thors Jensen en fá athafnaskáld íslensk hafa átt ævintýralegri feril í viðskiptum, nema ef vera skildu þeir feðgar, Björgóflur Thor og Björgólfur Guðmundsson.

Og sama ár var þetta skrifað:

Þegar haft er í huga að íslensku útrásarfyrirtækin standa andspænis stofnanavæddu "nýlenduskipulagi" bresks efnahagslífs er maður ekki undrandi á að "íslenski stjórnunarstíllinn" nái yfirhöndinni. Þessari staðreynd eru æ fleiri að átta sig á og þess vegna sækjast æ fleiri eftir samvinnu og viðskiptum við íslensku útrásarfyrirtækin. "Íslenski stjórnunarstíllinn" nýtur orðið trausts og vinsælda og mun sjálfsagt komast í tísku áður en langt um líður. Það má því með góðu móti halda því fram að nýjasta og mikilvægasta útflutningsvara okkar Íslendinga sé stjórnunarþekking.

Nú er komið 2011 og okkur er sagt að verið sé að endurreisa Ísland eftir hrun bankanna og hörmungar útrásarinnar.

Sá sem árið 2007 skrifaði  allar ofangreindar útlistanir á ágæti íslenskra bankamanna og snilld útrásar er meðal þeirra sem árið 2009 hafa forystu í því verkefni að taka til eftir hrun sömu banka og hörmungar sömu útrásar.

Það er kannski ekki nema von að sumum finnist seint ganga?

Þjóðin upplifir 2007 nánast á hverjum degi. Hér er ein slík frétt sem maður vonaði að væri aprílgabb en er það sennilega ekki.

Um mitt ár 2006 skrifuðu tveir háskólaprófessorar skýrslu um stöðu íslenska fjármálakerfisins. Hér eru örfáar tilvitnanir í niðurstöður fræðimannanna:

In the last chapter we asked the question whether Iceland was going down traditional routes to financial crisis. The answer is definitely no....

Our assessment of Iceland's economy is that the fundamentals are, in general, quite strong.....

The analysis in this study suggests that although Iceland's economy does have imbalances that will eventually be reversed, financial fragility is not high and the likelihood of a financial meltdown is very low.

Ég endurtek: Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2006, sama ár og fræðimennirnir gáfu sömu bönkum gæðastimpilinn.

Rúm tvö ár liðu frá útkomu skýrslunnar og þá voru 90% íslenska bankakerfisins hrunin.

Skömmu síðar var annar höfundanna gerður að sérlegum efnahagsráðgjafa stjórnvalda og síðan kosinn á þing.

Þar hefur þingmaðurinn þá köllun helsta nú um stundir að sannfæra þjóðina um að hún verði að borga skuldir eins þeirra gjaldþrota banka sem hann tók þátt í að mæra skömmu áður en bankarnir allir fóru á hvínandi hausinn.

Svo eru menn hissa á því að þjóðin sé ennþá reið. Reiðin er sögð stafa af annarlegum hvötum. Sumir vilja banna hana.

En reiðin er skiljanleg og hún hverfur ekki fyrr en með ranglætinu og spillingunni.

Reið erum við vegna þess að við sjáum ekki allan muninn á árunum 2007 og 2011.

Myndin er af einum götukrummanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband