Hroki og Hrun

DSC_0273

Þótt Hrunið hafi verið sett í tengsl við hina ólíklegustu hluti er það sjaldan skoðað með tilliti til þeirrar sígildu speki, að dramb sé falli næst.

Grikkir til forna töluðu um hubris, hrokann. Hubris var það athæfi að lítillækka fórnarlömb og tapara til þess að geta betur stært sig af yfirburðum sínum og sigrum. Hjá þeim endaði hubris gjarnan í nemesis eða hruni.

Þannig er það líka í sögunni af syndafallinu. Í hroka sínum taldi maðurinn sig ekki þurfa að fara að ráðum eða fyrirmælum skapara síns. Hann vissi betur. Sá hroki mannsins leiddi til falls hans.

Breski sagnfræðingurinn Ian Kershaw ritaði fræga ævisögu um Adolf Hitler. Í fyrra bindinu fjallar hann um leið Hitlers til valda. Það nefnist Hubris. Í því síðara skrifaði Kershaw um stríðið, hnignun þriðja ríkisins, ósigurinn og sjálfsvígið. Það bindi ber titilinn Nemesis.

Mýmörg dæmi eru um tengsl hroka og hruns í bókmenntasögunni. Þau sjást í Paradísarmissi Miltons. Í sögu skáldkonunnar Mary Shelley um Victor Frankenstein gerir hann sig guði líkan með því að skapa líf. Það leiddi til hruns. Í hroka sínum samdi doktor Fást við djöfulinn sem endaði með dauða og glötun.

Hrokinn í einhverri mynd á sinn þátt í fjölmörgum harmleikjum veraldarinnar. Hrokinn kallar á hrun. Það tvennt helst í hendur. Annað leiðir óhjákvæmilega til hins. Það er nánast náttúrulögmál eins og nótt fylgir degi.

Hógværðin er andstæða hrokans. Til að forðast hrun þurfum við hógværð, lítillæti og auðmýkt. Hrokinn felst m. a. í því að lítillækka aðra til þess að upphefja sig sjálfan.

Hógværðin er  á hinn bóginn í því fólgin að benda á dyggðir og hæfileika annarra og upphefja það. Og hógvær maður má vita af eigin dyggðum og hæfileikum, en hann gerir sér grein fyrir takmörkunum þeirra. Hann gerir sér grein fyrir þeirri blindu sem við erum öll haldin þegar við sjálf erum annars vegar.

Latneska orðið yfir hógværð er humilitas. Það er dregið af humus sem þýðir jörð. Hógvær maður er frá jörðinni. Hann veit að hann er mold.

Hógværðin er vitundin um eigin smæð, eigin takmarkanir, eigin synd, eigin veikleika. Sá hógværi veit að hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann er upp á aðra kominn. Hann er öðrum háður. Hann er hluti af umhverfi sínu.

Þess vegna er hógværðin forsenda samfélags mannanna. Samfélag byggist á því að ég viðurkenni aðra.

Samfélag þar sem hverjum er gert að ota sínum tota endar í hruni en þar sem hógværðin ríkir og gagnkvæm virðing, þar mun samfélagið blómstra.

Dramb er falli næst en sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.

Myndin: Eyjafjarðarfossarnir eru hógværðin uppmáluð enda sífallandi. Þó eru þeir á leið til Þýskalands og verða þar á auðmjúkri sýningu með haustinu. Þessi foss er í Núpá í Sölvadal.

 


Blessað Fréttablaðið

DSC_0152 

Í gamla daga höfðum við flokksblöð. Mogginn var íhaldskurfanna, kratarnir lásu Alþýðublaðið (og voru snöggir að því), Þjóðviljinn var borinn út til allaballa og mjólkurbíllinn ók Tímanum til framsóknarmannanna í sveitum landsins.

Stjórnmálastéttin stjórnaði fjölmiðlunum. Flokkarnir áttu blöðin og skipaði í æðstu stjórn ríkisútvarpsins.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (Viðauka 1) er því vel lýst hvernig pólitíkusar landsins skiptu sér af störfum blaðamanna. Þar er meðal annars vitnað í fréttastjóra RÚV:

Stjórnmálamenn hringdu, hringdu strax eftir fréttir, kröfðust leiðréttingar, kröfðust þess að fá að koma að sínum sjónarmiðum. Og þeir, veit ég, beittu þáverandi fréttastjóra oftsinnis þrýstingi.

Í sömu skýrslu greinir sami fréttastjóri einnig frá því hvernig þessi afskiptaárátta færðist frá stjórnmálamönnunum yfir til fjármálageirans á árunum fyrir hrun. 

Þá voru það ekki lengur þingmenn og ráðherrar sem hringdu og hótuðu öllu illu heldur bankastjórar, auðmenn og blaðafulltrúar stórfyrirtækja.

Fyrir hrunið færðust völdin smám saman frá þingmönnum, fulltrúum fólksins, til viðskiptalífsins.

Í skýrslunni segir:

Vinnuhópur um siðferði hefur undir höndum gögn sem sýna ýmiss konar afskipti eigenda fjölmiðla af fréttum og annarri dagskrá. Fjölmiðlamenn veigra sér hins vegar við að fara út í einstök mál vegna hættu á starfsmissi eða meiðyrðamáli. Full ástæða er til að rannsaka sérstaklega samskipti eigenda fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

Í dag las ég fjölmiðlapistil Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings. Hann birtist í Fréttablaðinu.

Til upprifjunar:

Lesendur Fréttablaðsins borga ekkert fyrir blaðið. Samt kostar peninga að gefa það út. Það er prentað á pappír og bæði þarf að borga prenturunum og kaupa pappírinn. Blaðamennirnir sem skrifa í blaðið þurfa sitt kaup.

Fréttablaðið er kostað af mönnum sem eiga peninga. Þeir senda þér ekki þetta blað af góðmennskunni einni. Það er þeim mikils virði að þú lesir blaðið þeirra. Þess vegna eyða þeir peningunum sínum í það.

Fréttablaðið er ánægt með Sigurð Einarsson og auglýsir greinina hans á forsíðu.

Og sú ánægja er gagnkvæm.

Sigurður Einarsson kvartar sáran undan íslenskum fjölmiðlum. Þeir eru alltof grimmir.

Nema Fréttablaðið. Það er til fyrirmyndar, segir Sigurður Einarsson.

Eigendur Fréttablaðsins eru meðal þeirra sem tæmdu íslensku bankana innan frá. Til dæmis Landsbankann.

Þessa dagana nota eigendur Fréttablaðsins dágóðan hluta af hverju einasta tölublaði til að hræða íslenska þjóð til að taka á sig skuldir bankans sem þeir áttu þátt í að setja á hausinn.

Ég er ekki hissa á að margir segi nei takk.

Í fjölbýlishúsi einu hér í bæ sá ég þessi skilaboð á póstkassa:

Ekki Fréttablaðið eða annan ruslpóst.

Myndin: Framtíð Íslands er ekki síst í vistvænni orku.


Lýðræðisleg umræða

DSC_0374 

Kastljós er að byrja. Tveir karlar með hálsbindi sitja við borð andspænis hvor öðrum og stjórnandinn þar á milli. Við fylgjumst með hvernig honum tekst að etja þessum körlum saman. Þeir voru valdir með það fyrir augum að sem gagnstæðust sjónarmið tækjust á. Þá er von á mesta fjörinu, mesta hávaðanum, mestu átökunum og bestu skemmtuninni.

Eftir á að giska fimmtán mínútna hróp og frammíköll karlanna er nóg komið. Stjórnandinn tilkynnir brosandi að lengra verði ekki komist að þessu sinni. Skemmtunin er búin, atinu lokið. Áhorfendur eru engu nær um málið; stundum er maður ekki einu sinni með á hreinu um hvað það snérist í upphafi. Það eina sem maður veit er að annar karlanna var á algjörlega á móti en hinn algjörlega með.

Þessir karlar hafa gefið tóninn um frekari umræðu. Fólk bloggar, skrifar blaðagreinar og skipar sér í aðra hvora fylkinguna, með eða á móti, já eða nei. Hvort sem það samþykkir eða hafnar tekur það þátt í leiknum sem gengur út á hvor sé meiri, hvor hafi rétt fyrir sér og hvor komi sínu fram.

Þannig er umræðuhefðin sem við búum við á þessu landi. Hún er hefð hinna háværu og freku. Hér er ekki til siðs að fólk tali saman. Hér öskrum við hvert á annað. Ef þú ert einhverrar skoðunar er ekki mikilvægast að reyna að tjá hana og færa rök fyrir henni; skítkast í hina sem eru á öndverðri skoðun er miklu brýnna. Fyrsta verkefni umræðunnar er að gera lítið úr þeim sem þú ert að tala við, hrópa þau út í horn og helst út úr herberginu.

Þöggunin er einn skæðasti óvinur lýðræðisins. Þöggun nefnist það andrúmsloft þegar ekki nema sumir þora að taka til máls. Í umræðuhefð hávaða, frekju og pólitísks rétttrúnaðar er mikil hætta á að þeir sem undir högg eiga að sækja og þeir sem aðhyllast undarlegar og óvinsælar skoðanir treysti sér ekki til að taka þátt í umræðunni. Þöggunin átti sinn þátt í Hruninu. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að samfélagið hafi ekki veitt það aðhald sem þurfti að vera til staðar og formaður rannsóknarnefndarinnar sagði í blaðaviðtali:

„Það var þessi þöggun. Það var veist að fólki."

Í lýðræðisríkjum fær fólk ekki að nota tjáningarfrelsi sitt til að níða æruna af fólki eða bera á það upplognar sakir. Meðal siðaðra manna tíðkast heldur ekki að kalla skoðanaandstæðinga sína ónefnum, svívirða þá og móðga. Í siðuðum lýðræðisþjóðfélögum er ekki venja að veitast að fólki í opinberri umræðu. Slíkar aðferðir eru tæki skoðanaofbeldis og þöggunar.

Við búum ekki við einræði harðstjóra á Íslandi. Ísland er lýðræðisríki, segjum við. Þó temjum við okkur oft aðferðir og viðhorf harðstjóranna þegar við tölum saman. Lýðræðið lifir ekki án lýðræðislegrar umræðu. Þegar sú umræða byggist á þöggun og valdbeitingu er orðið styttra í harðstjórn og einræði en okkur grunar.

Lýðræðisleg umræða hafnar valdinu, hávaðanum, þögguninni og drottnunargirninni. Hún hefur ekki að markmiði að koma sínu í gegn. Tilgangurinn er ekki sá að ég verði mestur en sem minnst sé gert úr viðmælanda mínum.

Lýðræðisleg umræða fer ekki fram með munninum og tungunni. Í henni er eyrað ekki síður mikilvægt. Siðuð umræða felst ekki síður í að hlusta en að tala.

Í umræðu tölum við saman og til þess að tala saman þurfum við að nota munninn.  Oft  ná hugmyndir okkar um umræðu ekki lengra.

Við vitum hvaða þingmenn taka oftast til máls á þingfundum og tala lengst.

Hitt veit enginn hverjir hlusta best þótt það sé mikilvægast.

Umræða byggist aldrei á því að tala. Umræða byggist ekki síður á því að hlusta. Gefa öðrum svigrúm. Örva þá til að segja sitt. Sýna þeim áhuga. Reyna að setja sig í þeirra spor. Sýna þeim virðingu.

Sönn umræða byggist aldrei á því að drottna. Umræðan verður ekki sönn fyrr en hún felst í gagnkvæmri þjónustu hlustunar og virðingar.

Myndin: Það hefur verið vetrarlegt á Akureyri að undanförnu.


Alúðarófreskjan Brüssel

DSC_0275

Hans Magnus Enzensberger skrifar ljóð, bækur og blaðagreinar. Nýjasta bók hans fjallar um Evrópusambandið eða alúðarófreskjuna Brüssel eins og Enzensberger nefnir það. Útgáfudagur hennar er 15. mars næstkomandi en þýska tímaritið Spiegel birti kafla úr henni í 9. tölublaði þessa árs.

Það eru fróðleg skrif.

ESB rúið trausti

Enzensberger byrjar á því að hrósa Evrópusambandinu fyrir framlag þess til friðar í álfunni. Hann er þeirrar skoðunar að hin evrópska sameiningarviðleitni hafi haft góð áhrif á daglegt líf þeirra sem búa í aðildarlöndum sambandsins.

Þrátt fyrir það bendir Enzensberger á að aðeins 49% Evrópubúa líti jákvæðum augum á aðild lands síns að sambandinu og aðeins 42% beri traust til stofnana þess.

Enzensberger veltir fyrir sér ástæðunum fyrir þessu vanþakklæti.

Lýðræðishalli og skrifræði

Ein helsta ástæðan fyrir vantrausti á Evrópusambandinu er skortur á lýðræði. Þess í stað hefur sambandið komið sér upp alræði embættismanna. Enzensberger segir það enga tilviljun. ESB hafi markvisst unnið að því að svipta borgarana pólitísku sjálfræði. Kommisararáð sambandsins, sem skipað er 27 fulltrúum aðildarlandanna, hafi í raun einkarétt á frumkvæði að lagasetningu. Evrópuþingið megi sín lítils gagnvart því.

Frá árinu 1979 hefur þingið verið kosið í beinni kosningu með sífellt minni þátttöku kjósenda. Síðast nýttu 43% kosningarétt sinn. Enzensberger segir það ekki nema von. Kosningareglurnar séu illskiljanlegar og sárafáir geri sér grein fyrir flokkunum sem á þinginu sitja. Það er með öðrum orðum hvorki á hreinu hvernig kosningin fari fram né til hvers sé verið að kjósa. Óvirkir kjósendur, sviptir pólitísku sjálfræði, er paradísarástand þeirra sem völdin girnast en heima fyrir yppa stjórnvöld öxlum og segjast bara vera að fylgja stefnu aðildarríkjanna.

Regluverkið

Afleiðing þessa ferlis sést í hinu útblásna regluverki Evrópusambandsins, svonefndu Acquis communautaire. Árið 2005 taldi það 85.000 blaðsíður en í dag eru þær taldar vera ekki færri en 150.000. Talið er að yfir 80% allra laga í sambandinu séu ekki lengur samin af þingum aðildarríkjanna heldur embættismönnum í Brüssel. Þessum reglum, acquis, verða öll ríkin að hlýða.

Aðildarferli Íslands að ESB felst ekki í eiginlegum samningaviðræðum heldur er þar vélað um hvernig Ísland eigi að taka upp þessi tonn af reglum og tilskipunum sem ákveðin hafa verið í Brüssel eins og ég hef áður skrifað um.

Andevrópsk viðhorf

ESB vill stækka og ráðamönnum sambandsins í Brüssel gengur illa að skilja þá sem standa gegn innlimunaráráttu þess. Þeir eru sagðir illa að sér og uppreisnargjarnir. Evrókratíunni er sérstaklega í nöp við hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur, staðhæfir Enzensberger í bókinni. Hún gleymir því ekki að Norðmenn, Danir, Svíar, Hollendingar, Írar og Frakkar höfnuðu því sem Brüssel vildi.

ESB hefur komið sér upp áætlun sem á að gera sambandið ónæmt fyrir gagnrýni. Sá sem mótmælir því er sagður andevrópskur. Sú orðræða minnir Enzensberger á tímabilið í Bandaríkjunum sem kennt er McCarthy eða starfsemi pólítbúrós kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum sálugu. Þá ræddu menn um „óameríska starfsemi" eða „andsovéska viðleitni". Enzensberger rifjar upp þegar forsætisráðherrann í  Lúxemborg sakaði starfsbróður sinn um „andevrópsk viðhorf" eða þegar yfirkommisari ESB, José Manuel Barroso komst þannig að orði að þau aðildarríki sem andvíg væru áætlunum hans ynnu ekki „í evrópskum anda".

Á hljóðlátum sólum

Að sögn Enzensberger ganga valdamenn í Brüssel um á hljóðlátum sólum. Valdafyrirkomulagið á sér ekki fyrirmyndir. Það er „miskunnarlaus mannelska" eins og það er orðað í bókinni. ESB vill okkur aðeins það besta. „Við reykjum, við borðum of mikið af fitu og sykri, við hengjum upp róðukrossa í skólastofunum, við hömstrum ólöglegar ljósaperur, við þurrkum þvottinn okkar úti þar sem hann á ekki heima. Hvað yrði um okkur ef við  fengjum sjálf að ákveða hverjum við leigðum íbúðina okkar?" spyr Enzensberger. Verður ekki að hafa sama hámarkshraða í Madrid og Helsinki í samræmi við evróstaðla? Verður ekki að byggja evrópsk hús úr sömu efnunum, burtséð frá loftslagi og reynslu? Er hægt að láta viðgangast að einstök ríki ráði starfinu í eigin skólum? Hver nema kommisararnir í Brüssel ætti að ráða því hvernig evrópskar gervitennur eiga að líta út?

Nei, ESB veit allt og er best treystandi. Hlutverk þess er ekki fólgið í kúgun á borgurunum heldur í hljóðlausri samræmingu allra lífshátta þeirra. Borgararnir verða ekki sendir í Gúlagið heldur á betrunarstofnanir.

Hin sjálfviljuga ánauð

Enzensbergar vitnar í franska stjórnleysingjans Étienne de La Boétie sem talinn er meðal frumkvöðla í stjórnmálaheimspeki. Hann veltir því fyrir sér hvernig þjóðirnar afsali sér sjálfstæði sínu og beygi sig sjálfviljugar undir okið. Engu sé líkara en að eymdin sé þeirra keppikefli. Þótt aðstæðurnar sem La Boétie skrifaði um séu aðrar en í Evrópu nútímans sér Enzensberger þar hliðstæður. Hann bendir á að samkvæmt kenningum þessa franska hugsuðar sé vaninn forsenda hinnar sjálfviljugu ánauðar. Evrópa sé að venjast á skrifræðið í Brüssel. Fátt bendi til þess að borgarar álfunnar sjái ástæðu til að verja eigið pólitískt sjálfræði. Lýðræðisskorturinn í Evrópu hefur ekki leitt til uppreisnar heldur þátttökuleysis og samfélagslegs þunglyndis.

Myndin: Svona líta þeir út, Naustaborgarkönglarnir.


Bæn barnanna

Páskar 2005 - Barnakór

Víða er ófriðlegt í veröldinni og nú hrannast upp ógnvænleg ský yfir Norður-Afríku.

Undir þeim býr fjöldi barna en styrjaldir heimsins bitna ekki síst á þeim.

Í kvöld hugsaði ég til þeirra og mundi þá eftir fallegri bæn sem ég fann á netinu, Bæn barnanna, Prayer of the Children.

Höfundur hennar, Kurt Bestor, bjó um tíma í Júgóslavíu meðan hún var og hét. Þegar ríkið leystist upp og út braust grimmileg borgarastyrjöld var Kurt víðs fjarri en fylgdist agndofa með því í sjónvarpinu hvernig þjóðarbrotin börðust.

Honum var hugsað til barnanna og bænin varð til:

Can you hear the prayer of the children
on bended knee, in the shadow of an unknown room?
Empty eyes with no more tears to cry
turning heavenward toward the light.
Crying," Jesus, help me
to see the morning light of one more day,
but if I should die before I wake,
I pray my soul to take."
Can you feel the hearts of the children
aching for home, for something of their very own.
Reaching hands with nothing to hold onto
but hope for a better day, a better day.
Crying," Jesus, help me
to feel the love again in my own land,
but if unknown roads lead away from home,
give me loving arms, away from harm."
(oooooo la la la la etc etc.)
Can you hear the voice of the children
softly pleading for silence in their shattered world?
Angry guns preach a gospel full of hate,
blood of the innocent on their hands.
Crying," Jesus, help me
to feel the sun again upon my face?
For when darkness clears, I know you're near,
bringing peace again."

Dali čujete sve dječje molitve?

Can you hear the prayer of the children?

Í blaðaviðtali sagði Kurt þetta um börnin sem urðu fórnarlömb í þessum hildarleik:

Those children didn't hate anybody. They didn't care about who owned the land, or who had the power or the money. These are adult neuroses. They just wanted to have a mom and dad and a place to play.

Það sama á við um börnin sem nú eru að þjást og deyja í þessum harða heimi sem við fullorðna fólkið búum þeim.

Börn heimsins vilja eiga mömmu og pabba og stað þar sem þau geta leikið sér í friði.

Ég mæli með þessum útgáfum af Bæn barnanna.

Myndina tók ég fyrir allmörgum árum af barnakórum í Akureyrarkirkju.

 


Heimskra manna ráð

 

DSC_0277

Árið 1932 sendi enski rithöfundurinn Aldous Huxley frá sér bókina Brave New World (Veröld ný og góð). Sautján árum síðar gaf landi hans George Orwell út bókina Nineteen Eighty-Four (1984). Báðar fjölluðu þær um þjóðfélag framtíðarinnar.

Nýlega rakst ég á skondinn samanburð á þessum bókum en spár beggja höfundanna hafa ræst, alla vega að hluta.

Þó voru þeir ósammála í rótinni.

Orwell taldi að í framtíðinni yrði fólki stjórnað af því sem það hataði.

Huxley var á hinn bóginn sannfærður um að lýðurinn myndi láta stjórnast af tilboðum um hamingju og sælu, af því sem við elskuðum.

Orwell óttaðist að í framtíðinni myndu yfirvöld aðeins leyfa bækur þeim þóknanlegar en banna aðrar.

Huxley var uggandi um að þegar fram liðu stundir þyrfti ekki að hafa fyrir því að banna neinar bækur; þeir fáu sem kynnu að lesa hefðu engan áhuga á þeim.

Orwell sá fyrir sér þá tíma er almenningur hefði ekki aðgang að nema örlitlu broti af upplýsingum. Hann hefði verið hrifinn af WikiLeaks.

Huxley óttaðist það gagnstæða, að okkur yrði svo gjörsamlega drekkt í upplýsingum að við sæjum ekki lengur muninn á þeim mikilvægu og hinum sem engu máli skipta.

Orwell var hræddur um að sannleikanum yrði haldið leyndum fyrir okkur.

Huxley spáði því að sannleikurinn hyrfi í öllum þeim skilaboðum og áreitum sem sífellt eru að berast okkur.

Ég held að Huxley hafi ekki síður verið framsýnn en Orwell.

Dag hvern, hverja klukkustund, hverja mínútu, er hellt yfir okkur þvílíku magni af upplýsingum, skilaboðum, auglýsingum, staðreyndum, fróðleik og tölum, að við höfum ekki minnstu möguleika að vinna úr því öllu.

Afleiðingin er sú að við könnumst við margt en vitum sífellt minna.

Bandaríski heimspekingurinn Harry Frankfurt er sérfræðingur í kjaftæði. Árið 2005 skrifaði hann bókina On Bullshit. Þar segir hann:

Kjaftæði er óumflýjanlegt hvenær sem aðstæður krefjast þess að einhver tali án þess að hann viti hvað hann er að tala um. (Bullshit is unavoidable whenever circumstances require someone to talk without knowing what he is talking about.)

Nákvæmlega þetta upplifir maður daglega í íslenskum fjölmiðlum - sem eiga þó hafa þann tilgang að upplýsa okkur.

Meira magn upplýsinga og betra aðgengi að þeim leiðir ekki til upplýstari þjóðar. Í Laxdæla sögu er sagt frá því er Ólafur pá villtist á sjó. Voru menn  ekki á einu máli um hvert skyldi snúa stýrinu. Ólafur stóð með Erni stýrimanni þótt flestir vildu annað og mælti:

Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru; því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman.

Mér heyrist góður samhljómur með þeim Aldous Huxley, Harry Frankfurt og Ólafi pá.

Ég vona að þessi pistill sé ekki enn ein sönnun þess að þeir hafi á réttu að standa.

Myndin er tekin í Naustaborgum.

 


en...

DSC_0198 

Íslensk þjóðmálaumræða veldur heilabrotum

og í henni er ótalmargt sem maður skilur ekki.

Hér eru nokkur dæmi:

I

Sumarið 2004 vísaði forseti Íslands fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá var málskotsrétturinn leið til að „færa valdið í hendur fólksins"...

en...

næst þegar sami forseti vísaði lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu er forsetinn sagður athyglissjúkt ólíkindatól sem sé að fara gegn þinginu.

II

Sumarið 2004 þegar forseti Íslands vísaði fjölmiðlalögum í þjóðaratkvæðagreiðslu sagði ákveðinn maður að forsetinn væri að „fara gegn þinginu"...

en...

þegar forsetinn sjö árum síðar vísaði öðrum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu segir sami maður að forsetinn sé að „skipa sér í sveit með þjóðinni gegn nokkrum flokksforingjum" eins og það er orðað í nýlegum leiðara Morgunblaðsins.

III

Í lok ársins 2008 sagði íslenskur stjórnmálamaður það „lýðræðislegan rétt kjósenda að fá að ráða því" hvort Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.  Í lok ársins 2009 kvaðst sami maður „fullviss um að Íslendingar eigi að standa utan Evrópusambandsins"...

en...

sami maður sótti um aðild að Evrópusambandinu að þjóðinni forspurðri og beitir sér nú fyrir aðildarferli Íslands að því.

IV

Á næstsíðasta degi ársins 2010 samþykkti Alþingi Íslendinga Icesave II. Það gerðu menn með „góðri samvisku". Stjórnarliðar sögðu það hafa „alvarlegar afleiðingar" fyrir allt atvinnulíf landsins og fjármálakerfi ef samningnum yrði hafnað...

en...

tæpir þrír mánuðir liðu og sama fólk flutti þjóðinni þau tíðindi að kominn væri svo miklu betri samningur „á borðið" að þjóðaratkvæðagreiðsla um fyrri samninginn væri „hráskinnaleikur".

V

Ef ráðamenn hefðu fengið að ráða hefðu þeir samþykkt samninginn sem var verri en sá sem þó lá á borðinu. Það gerðist ekki því þjóðin tók ráðin af ráðamönnum og hafnaði verri samningnum...

en...

nú er kominn betri samningur og þá skilja sömu ráðamenn ekkert í því að þjóðin vilji fá sitt að segja um samninginn sem er henni að þakka.

VI

Hæstiréttur landsins var harðlega gagnrýndur fyrir að gera of strangar kröfur um kosningar til stjórnlagaþings...

en...

skömmu síðar fór fram heilmikil undirskriftasöfnun og þá fannst sama fólki reglurnar um hana alls ekki nógu strangar.

VII

Þeir sem eru á móti umsókn Íslands að Evrópusambandinu fá þau svör að ekki sé hægt að vera á móti einhverju sem ekki sé vitað hvernig líti út. Aðeins sé hægt að taka afstöðu til aðildar út frá samningi sem enn eigi eftir að gera...

en...

sama fólk hefur á hinn bóginn tekið þá eindregnu afstöðu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

VIII

Þeir sem eru hlynntir aðild Íslands að ESB segja andstæðinga ESB fulla af þjóðrembu...

en...

sömu aðildarsinnar nefna sín samtök Já Ísland!

Myndin: Bátar í Bótinni


Dansinn kringum gullkálfinn

DSC_0252 

Dansinn kringum gullkálfinn er tákn efnishyggju, þess lífsviðhorfs að efnisgæði tryggi hamingju manna og að hún sé föl fyrir nógu mikla peninga.

Meira er þó fólgið í þessum fræga dansi.

Á það hefur verið bent að kálfsdýrkunin sé systir þeirrar nautsdýrkunar sem margar heimildir eru um í sögu trúarbragðanna.

Nautsdýrkunin fólst í aðdáun og upphafningu karllægra gilda.

Fólk tignaði styrk nautsins, árásargirni þess og hugrekki.

Sá gullkálfsdans sem við Íslendingar stigum og erum enn að stíga lýsti sér ekki einungis í dýrkun efnisgæða á dansgólfum molla og kauphalla þar sem það rétta og heilbrigða var troðið undir dansandi fótum, þessi dans var ekki bara þannig að engum væri boðið upp nema það borgaði sig og hann þekktist ekki bara á því að hann væri dansaður í takti græðginnar.

Við dönsuðum ekki bara kringum kálf heldur var nautið þar líka. Við tilbáðum það karllæga.

Sá sterki var settur í hásætið. Hugrekki var dyggð undir heitinu „áhættusækni". Harka, samkeppni og ójöfnuður urðu kennileiti samfélagsins.

Eigindin mýkt, samstarf, varkárni og tilfinningagreind þóttu ekki góð vísindi því þau voru ekki nógu karlmannleg.

Þetta er hollt að rifja upp á konudegi, þessum „sólbjarta sunnudegi" sem forsetanum varð tíðrætt um á blaðamannafundinum á Bessastöðum í dag.

Myndin: Það er að verða pínulítið vorlegt þótt enn eigi eftir að koma öflug hret.


Dagur elskenda

DSC_0246

Valentínusardagurinn er að festa sig í sessi á Íslandi og er orðinn hluti af neysluvíagra viðskiptaaflanna.

Á konudaginn kaupir maður angandi blóm en á bóndadaginn súr eistu undan hrútum og úldinn hákarl.

Á Valentínusardaginn fara elskendur út að borða, skiptast á gjöfum og fjárfesta í rafhrókum og öðrum hjálpartækjum lágmarks ástarlífs.

Annars má það ekki minna vera en að elskendur fái einn dag fyrir sig árlega og margar verri hugmyndir hefur mannskepnan fengið en Valentínusardaginn.

Í stað þess að nöldra yfir þessum útlenda sið ættum við að stíga skrefið til fulls og gefa landsmönnum frí á Valentínusardaginn.

Þá gætu elskendur haldið kyrru fyrir í rúmum sínum eins og John Lennon og Yoko Ono gerðu um árið.

Þótt það leiddi til þess að þeir legðu hvorki leið sína í blómaverslanir né besefabúðir myndi það fyrirkomulag leggja grunn að fjölgun landsmanna og þannig örva hagvöxt.

Make love, not war!

Myndin er af nýjasta parinu í bænum.


Negapósitívur pistill

sumarið og haustið 2005 043 

Ég segi aftur: Við skulum ekki vera feimin við reiðina.

Reiðin er fyrir það fyrsta skiljanleg. Enginn á að þola ranglæti, spillingu  og glæpi nema reiðast. Illa er komið fyrir okkur ef við horfum upp á slíkt, finnum ekki neitt og höldum bara áfram að japla á beikoninu okkar og eggjunum.

Í öðru lagi er reiðin hreinsandi og hreinsunin er forsenda endurreisnarinnar. Stundum þarf að rífa húsið niður að grunni ef takast á að endurreisa það almennilega. Stundum þarf tannlæknirinn að spóla tönnina niður að kjálka og juðast á emjandi skjólstæðingi sínum ef viðgerðin á að heppnast.

Reiðin og gleðin eru ekki valkostir sem útiloka hvor annan. Annað getur verið forsenda hins; stundum þurfum við að vera neikvæð til að geta orðið jákvæð, stundum þarf að rífa niður til að byggja upp.

Reiðina þýðir ekki að banna og ekki er heldur skynsamlegt að flýja hana. Við þurfum þvert á móti að kannast við hana, takast á við hana og finna henni skynsamlega útrás. 

Sú reiði er til lítils sem birtist einungis í niðurrifi, leiðindarnöldri og persónuníði. Ekki er góðs viti ef reiði þjóðarinnar fær ekki annan farveg en athugasemdakerfi Eyjunnar og Silfurs Egils.

Reiðin getur nagað okkur í sundur og dregið úr okkur kjarkinn og þróttinn en hún getur líka rutt brautina fyrir alvöru endurreisn.

Stundum finnst okkur nærtækara og eðlilegra að óttast helvíti en elska himnaríki.

Þannig er komið fyrir þeim sem er einungis reiður og lætur reiðina og biturleikann stjórna lífi sínu.

Við eigum ekki að vera feimin við reiðina en við megum heldur ekki vera feimin við gleðina og bjartsýnina.

Við tölum um Hrunið og Kreppuna með stórum stöfum. Nánast daglega berast okkur fréttir af misferli og spillingu. Sagt er að þjóðfélagið sé ógeðslegt og Íslendingar fyrirlitnir í útlöndum.

Samt er gott að búa á þessu landi og hér vildu margir vera sem ekki eiga þess kost. Hér er frábært velferðarkerfi, sem okkur hefur tekist að byggja upp og er þess virði að það sé varið með kjöftum og klóm. Ekki er langt síðan Ísland var eitt fátækasta ríki álfunnar. Nú erum við ein ríkasta þjóð í veröldinni. Þrátt fyrir ýmsa galla sýna alþjóðlegar úttektir að stjórnarfar er hér tiltölulega gott. Hér ríkir skoðanafrelsi. Íslendingar eiga dýrmætan bókmenntaarf. Þeir búa í yndislega fallegu landi. Veðráttan er hvorki einhæf né skaplaus. Framtíðarhorfur þjóðarinnar teljast öfundsverðar.

Það er engin þjóðremba að gera sér grein fyrir þessu. Ísland er svo sannarlega þess virði að fyrir því sé haft og yfir því sé glaðst.

Nú eiga vel við orð postulans úr Filippíbréfinu:

Verið ávallt glöð í Drottni.

Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Myndin er af læk sem keppist við að renna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband