Aldrei að hætta að vona

DSC_0105 

Fyrir nokkrum árum fjallaði ég um sköpunartrú kristinna manna í tíma hjá kennaranemum í Háskólanum á Akureyri. Eftir kennsluna mætti ég þáverandi rektor skólans, Haraldi Bessasyni. Við tókum spjall saman og hann spurði mig hvað ég hefði verið að kenna. Ég sagði honum að ég hefði verið að tala um sköpunarsögur Biblíunnar og reynt að benda á að hægt sé að segja ýmislegt upphaf lífsins og heimsins þótt ekki sé það náttúruvísindalegt.  

Haraldur tók undir það. Hann tjáði mér að hann nýlega hefði hann kennt um upphaf heimsins í norrænum átrúnaði og það væri „heilagur sannleikur" eins og hann orðaði það.

Í trúarbrögðunum er reynt að gefa upphafi heims merkingu og tilgang. Trúarbrögð heimsins eiga sínar skýringar á tilurð lífsins, hvort sem um er að ræða einstaklinginn eða lífið í stærra samhengi.

Þær skýringar eru ekki náttúruvísindalegar en í þeim getur engu að síður falist mikilvægur sannleikur.

Við fæðumst og deyjum og það sama á við um heiminn.

Einhvern tíma endar hann. Hvenær það verður veit enginn,  ekki frekar en við vitum hvenær við deyjum.

Nú keppast amerískir auðkýfingar við að  auglýsa aðsteðjandi heimsslit. Það er illa gert að valda fólki ótta og áhyggjum með heimsendaspám.

Hið veraldlega neyslusamfélag er reyndar ekki saklaust af því. Þar lifum við á síðustu forvöðum. Það er annað hvort núna eða ekki. Annað hvort höndlum við alsæluna hér og nú eða hún er endanlega gengin okkur úr greipum.

Við lifum í óttanum við að vera að missa af hamingjunni og öllu því sem verið er að bjóða okkur og selja.

Svo sannarlega hafa trúarbrögðin hafa verið notuð af valdhöfum, veraldlegum sem andlegum, til að koma taumhaldi á þegnana og halda þeim í skefjum.

Trúarbrögðin geta líka hjálpað okkur til að skilja uppruna okkar, horfast í augu við örlög okkar, finna þeim merkingu og tilgang og sættast við endalok okkar.  

Þau geta hjálpað okkur að lifa lífinu án þess að vera sífellt undir steyttum hnefa óttans og kvíðans.

Samkvæmt náttúruvísindunum mun sólin sortna og heimurinn eins og við þekkjum hann líða undir lok.

Samkvæmt trúnni  kemur sá tími, að Guð sjálfur mun vera hjá okkur og þerra hvert tár af augum okkar, dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl, réttlætið mun sigra, friðurinn ríkja og sá sem í hásætinu situr gjörir alla hluti nýja.

Samkvæmt trúnni hættum við aldrei að vona.  Haft er eftir Marteini Lúther að þótt hann vissi að heimurinn ætti að farast á morgun myndi hann gróðursetja eplatré í dag.

Þótt vafi leiki á að eigna megi Lúther þessi orð eru þau góð speki.

Myndin: Þessir tvíburafossar eru í Vaðlaheiði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Var það ekki líka "illa gert" af Jesú að  "valda fólki ótta og áhyggjum með heimsendaspám". Nema þú haldir að það sé ekkert að marka guðspjöllin, þá hélt hann að heimsendir hafi átt að koma fyrir 2000 árum síðan.

Samkvæmt trúnni  kemur sá tími, að Guð sjálfur mun vera hjá okkur og þerra hvert tár af augum okkar, dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl, réttlætið mun sigra, friðurinn ríkja og sá sem í hásætinu situr gjörir alla hluti nýja.

Samkvæmt trúnni mun fólk kveljast að eilífu í helvíti. Ekki gleyma því  

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.5.2011 kl. 00:46

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Þessi ameríski auðkylfingur sem smalar sálum sauðsvarts almúgans í flokk hjá sér er bara að markaðssetja sitt trúfélag. það fylgdi sögunni að þeir sem væru í HANS trúfélagi myndu bjargast en aðrir fara til helvítis. Sjálfri fannst mér alveg tími til að hann færi fjandans til eða eitthvað annað þetta óhræsis gamalmenni  Ekki var nú annað hægt en að brosa þegar koma svo upp hræringar og gos í Grímsvötnum akkúrat í dag . Falleg myndin hjá þér og minnti mig á brúðkaup einhverra hluta vegna. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 21.5.2011 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband