Ríkidæmi fyrir fáa

Nikon D60 001 038 

Ójöfnuður er að aukast í heiminum. Þeir ríku verða ríkari og fátækir fátækari.

Þetta er engin klisja heldur niðurstaða nýlegrar skýrslu OECD.

Samkvæmt skýrslunni er þessi þróun hvergi hraðari en á Norðurlöndunum eins og lesa má um hér.

Kreppan á Íslandi virðist á margan hátt hafa skerpt skilin á milli ríkra og fátækra.

Til okkar prestanna leita t. d. í viku hverri einstæðar mæður sem ekki eiga fyrir mat handa börnum sínum.

Og einhvers staðar las ég að sala á lúxusbílum væri að aukast.

Ég hef ekki bara áhyggjur af einstæðum mæðrum og börnum þeirra.

Stór hluti fjölskyldna í þessu landi á í vök að verjast og getur ekki veitt börnum sínum það sem sjálfsagt þykir fyrir önnur börn.

Ég veit að fjölmörg börn hafa til dæmis aldrei komist í frí með foreldrum sínum. Þau munu ekki eiga neinar minningar úr skemmtilegum fjölskylduferðalögum, hvorki innanlands né utan.

Á mörgum heimilum eru ekki til peningar til að kaupa skólamáltíðir handa börnunum. Þau verða að láta sér nægja þvælda samloku meðan þau fylgjast með skólasystkinum frá betur stæðum heimilum gæða sér á heitri máltíð.

Sífellt fleiri foreldrar hafa ekki efni á að leyfa börnunum sínum að taka þátt í tómstundastarfi. Börn fátækra foreldra geta verið ekki síður músíkölsk en aðrir krakkar en það kostar mikla peninga að senda barnið sitt í tónlistarskóla. Þeir eru ekki til nema á sumum heimilum þessa lands.

Íþróttastarf barna útheimtir ekki bara mikla fjármuni heldur krefst það tíma og vinnu. Foreldrarnir þurfa að reiða fram jafnvel hundruð þúsunda króna árlega til að eitt barn geti æft íþrótt. Þar að auki þarf að fylgja barninu í ferðir og standa í alls konar fjáröflun.

Sumir foreldrar eiga hvorki tíma né aura til að standa undir íþróttaiðkun barnanna.

Ástandið á þessu landi er þannig að með hverjum deginum stækkar sá hópur barna sem ekki á þess kost að fara í frí með foreldrum sínum, ekki getur stundað tómstundastarf eins og aðrir jafnaldrar og ekki fær að borða sama mat í hádeginu og skólasystkinin.

Hér á landi eru börnin alin upp við að eðlilegt þyki að sumir geti leyft sér nánast allt en aðrir verði að láta sér nægja molana.

Nú er tekist á um auðlindir landsins og gjarnan er því slegið fram að Ísland sé ríkt.

Ríkidæmið virðist þó aðeins vera fyrir fáa af þessari fámennu en ríku þjóð.

Myndina tók ég í gær af Kinnarfjöllum handan Húsavíkur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Veistu Svavar, á meðan þú plöggar kristni þá hefur þú ekki efni á að gagnrýna eitt né neitt...
Þú getur reynt að snúa þig út úr því að ég, já meirihluti allra manna sem hafa fæðst muni verða pyntaðir að eilífu..

Sorry dude.. þú verður að horfast í augu við sjálfan þig og ógnar einræðisherran ímyndaða sem þú dýrkar svo rosalega(Vegna græðgi í eilíft líf í lúxus)

doctore (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 11:26

2 identicon

Godann daginn Svavar.

Falleg mynd og godur pistill, eins og thin er von og visa.

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband