Samkynhneigð og samviskufrelsi

DSC_0584 

Í fyrsta lagi:

Mér finnst að ríkið eigi að setja það skilyrði fyrir veitingu heimildar til að gefa saman fólk, að vígslumenn mismuni fólki ekki heldur séu tilbúnir að gefa saman jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða.

Sú ráðstöfun mun sennilega leiða til þess að þau trúfélög á Íslandi sem ekki viðurkenna hjónabönd samkynhneigðra fái ekki heimild til að framkvæma hina lagalegu hlið hjónavígslunnar. Þau gætu eftir sem áður annast hinn trúarlega þátt hennar.

Þjóðkirkjan viðurkennir hjónabönd fólks af sama kyni og mikill meirihluti starfandi presta hennar er tilbúinn að veita samkynhneigðum þá þjónustu að gefa þá saman.

Einhverjir prestar treysta sér ekki til þess og lúta þar með ekki þeim skilyrðum sem mér finnst að ríkið ætti að setja fyrir veitingu heimildar til að annast hinn lagalega gjörning hjónavígslunnar.

Fjöldi þeirra er óþekktur. Árið 2008 voru þeir níu samkvæmt könnun dagblaðsins 24 stundir. Mér finnst trúlegra að þessum prestum hafi fremur farið fækkandi en fjölgandi enda hefur sú staða sem betur fer ekki komið upp að prestur í þjóðkirkjunni hafi neitað samkynhneigðu fólki um hjónavígslu.

Engu að síður finnst mér að þjóðkirkjan sem sjálfstætt trúfélag þurfi að vera undir það búin að slíkt geti gerst.

Þá hefur hún sýnist mér um þrennt að velja.

Hún getur leyst viðkomandi presta frá störfum.

Hún getur ákveðið að viðkomandi prestar annist engar hjónavígslur.

Hún getur ákveðið að viðkomandi prestum sé einungis heimilt að annast hinn trúarlega þátt hjónavígslna.

 

Í öðru lagi:

Það eru mannréttindi að fá að ganga í hjónaband og njóta þeirra borgaralegu réttinda sem sú hjúskaparstaða veitir.

Það eru ekki síður mikilvæg mannréttindi að vera frjáls hugsana sinna, samvisku, sannfæringar og trúar.

Það frelsi er eitt einkenni og hornsteinn réttarríkisins. Í nýlegri mannréttindahandbók Evrópuráðsins segir:

„Guarantees of religious liberty and respect for conscience and belief are inevitably found in the constitutional orders of liberal democratic societies and in international and regional human rights instruments.“ (Bls. 9)

Í umræðunni um hjónabönd samkynhneigðra hefur fólki eðlilega orðið tíðrætt um að ekki megi mismuna fólki eftir kynhneigð.

Undarlegt er að sjá sama fólk leggja til þá grófu og freklegu mismunun, að svipta tiltekna stétt manna þessum grundvallarmannréttindum, samviskufrelsinu.

Allir eiga að njóta þeirra mannréttinda að vera frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Líka prestar þjóðkirkjunnar. Líka þessir fáu prestar sem ekki treysta sér til að gefa saman samkynhneigð pör.

Og líka þau sem okkur finnst hafa alveg fáránlegar skoðanir.

Hitt er mikill misskilningur að menn geti notað samviskufrelsi sitt til að skerða frelsi og réttindi annarra. Samviskufrelsið á sér mörk. Það er ekki eitt í húsinu heldur verður að búa þar með allskonar öðru frelsi og láta sér lynda við ýmis önnur réttindi.

Engar reglur eru til um samviskufrelsi presta en íslensk löggjöf verndar samviskufrelsi heilbrigðisstéttanna með sérstöku lagaákvæði (Lög um heilbrigðisstarfsmenn, 14. gr.). Þar er kveðið á um að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt að skorast undan störfum sem stangast á við siðferðileg eða trúarleg viðhorf hans.

Þótt heilbrigðisstéttirnar allar njóti að þessu leyti sérstakrar verndar umfram aðrar á Íslandi gilda ákvæði stjórnarskrár engu að síður um þessa mikilvægu starfsmenn og þeim er ekki heimilt að brjóta mannréttindi skjólstæðinga sinna.

Við lifum mikla umbrotatíma. Íslenskt samfélag tekur örum breytingum. Hér fjölgar sífellt fólki með viðhorf gjörólík þeim sem eitt sinn ríktu á þessu landi. Mín skoðun er sú að enda þótt ekki megi gefa neinn afslátt af mannréttindum sé skynsamlegt að sýna sveigjanleika og teygja sig langt í þeirri viðleitni að virða samviskufrelsi nýrra Íslendinga og rétt þeirra til að lifa samkvæmt trú sinni og siðferði.

Fái fólk ekki að njóta þeirra mikilvægu mannréttinda mun því ekki líða vel í þessu samfélagi.

Myndina tók ég í sumar af Skálarkambi á Hornströndum. Horft yfir Hlöðuvík og Kjaransvík. Álfsfell þar á milli.


Um sóknargjöld

DSC_0357

Í Fréttablaði dagsins er hækkun sóknargjalda sögð meðal þess í nýframkomnu fjárlagafrumvarpi sem er neikvætt fyrir heimilisbókhald landsmanna.

Sú framsetning blaðsins getur verið villandi. Þessi svokallaða hækkun sóknargjalda hefur ekki í för með sér aukna greiðslubyrði fyrir heimilin í landinu. Ríkið innheimtir og hefur innheimt þetta gjald af öllum 16 ára og eldri. Eftir Hrun hefur ríkið ekki skilað nema hluta af því til viðkomandi trú- eða lífsskoðunarfélags. Þessi svonefnda hækkun er leiðrétting á hluta þeirrar skekkju.

Þetta er ekki í eina og fyrsta skiptið sem fjölmiðlar gefa ónákvæmar upplýsingar um sóknargjöld og fjármögnun Þjóðkirkjunnar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi.

Þótt náið samband sé á milli ríkis og kirkju hér á landi eins og hefð er fyrir á Norðurlöndum er Þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag samkvæmt lögum og nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu. Í stjórnarskrá eru ákvæði um að ríkinu beri að styðja og vernda Þjóðkirkjuna. Þar er á hinn bóginn ekki kveðið á um að ríkið eigi að fjármagna starf kirkjunnar. Sá misskilningur virðist útbreiddur að svo sé.

Starfið í sóknum landsins er einkum fjármagnað með sóknargjöldum sem eru nefnd eftir þeim tilgangi sínum. Upphaflega voru sóknargjöldin hugsuð sem félagsgjöld. Lengi sáu sóknirnar sjálfar um að innheimta þau.

Árið 1985 voru gerðar breytingar á lögum um sóknargjöld. Þá gátu sóknarnefndirnar ráðið hvort þær rukkuðu sjálfar inn sóknargjöldin eða fólu innheimtustofnunum viðkomandi sveitarfélaga þá aðgerð.

Þegar staðgreiðslukerfi skatta var innleitt árið 1987 urðu aftur breytingar á sóknargjöldum. Þá hætti sóknarfólk að greiða beint til sókna sinna heldur fengu Þjóðkirkjan, önnur trúfélög og síðar lífsskoðunarfélög hlutdeild í þeim nýja tekjuskatti sem til varð með tilkomu staðgreiðslukerfisins. Var skatturinn hækkaður sem nam þeirri hlutdeild.

Einn tilgangur hins nýja fyrirkomulags á sóknargjöldunum var að tryggja að kirkjan héldi tekjustofnum sínum óskertum.

Nú er fyrirkomulagið þannig að allir landsmenn 16 ára og eldri greiða sóknargjald með sköttum sínum. Ríkið sér um að skila gjaldinu til þeirra trú- og lífsskoðunarfélaga sem viðkomandi er skráður í.

Þjóðkirkjan sem slík fær ekki sóknargjöldin heldur sóknir Þjóðkirkjunnar. Þannig skilar ríkið minni sókn, Akureyrarsókn, þeim sóknargjöldum sem það hefur innheimt af skráðum Þjóðkirkjumeðlimum í sókninni 16 ára og eldri.

Nú þegar vetrarstarfið í kirkjum landsins er að fara af stað er tilefni til að minna á að það er fjármagnað með sóknargjöldum sóknarbarnanna. Tónlistarstarfið, barnastarfið og annað sem fram fer í kirkjum landsins væri óhugsandi án þess framlags meðlima viðkomandi sókna. Sóknargjöldin gera sóknarnefndunum kleift að halda við kirkjuhúsunum og tryggja að þær séu viðeigandi umgjarðir um merkileg tímamót í lífi sóknarbarnanna svo dæmi séu tekin um það sem sóknargjöldin eru notuð í.

Þau sem vilja fá nánari upplýsingar um fjármál sóknanna er bent á ársreikninga þeirra. Þeir eiga að vera opinber gögn og öllum aðgengilegir.

Myndin er tekin af Þingmannahnjúk á Vaðlaheiði


Áfram með vinsældavagninum

P1030445

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með hvernig umræðan um flóttamenn hefur þróast hér upp á síðkastið. Mér sýnist að skelfilegar myndir af sjóreknum líkum flóttafólks á ströndum Miðjarðarhafsins hafi hleypt af stað mikilli samúðarbylgju hér uppi á Íslandi og víðar. Hverjum rennur ekki til rifja að sjá slíkar myndir?

Viðbrögð almennings við myndunum voru skiljanleg og fyllsta ástæða væri til að hafa sverar áhyggjur af þjóð sem hefði brugðist við þeim með pókerfési og hjartakulda.  Að mínu mat er það alvarlegt dómgreindarleysi að vanvirða og hæðast að því þegar manneskjur finna til með þeim sem eru í neyð. Alltaf þegar heitar og heilagar tilfinningar eru annarsvegar geta vanhugsuð orð hleypt öllu í bál og brand. Það mættu bæði leiðarahöfundar og skopmyndateiknarar hafa í huga.

Undanfarin ár hafa margir hamrað á því að allt sé ómögulegt á Íslandi og ekki sé nema skiljanlegt að fólk flýi land í stórum stíl; hér vilji enginn búa lengur nema aumingjar og fávitar. Þau sem dirfst hafa að benda á, að Ísland sé eitt ríkasta land í heimi og að fjölmargar alþjóðlegar kannanir sýni að hér séu lífskjör með þeim bestu í veröld víðri, hafa verið sökuð um undirlægjuhátt og meðvirkni með vanhæfum ríkisstjórnum.

Umræðan um flóttafólkið virðist hafa beint athygli þjóðarinnar upp frá eigin nafla. Ísland getur orðið að liði í þessu máli vegna þess að landið er ríkt og innviðir sterkir – og það sem mikilvægast er: Hér búa ekki eintómir fávitar og aumingjar heldur þjóð sem þorir að finna til með öðrum og vill einlæglega miðla öðrum af gnóttum sínum og gæðum.

Því hefur líka verið haldið fram að Íslendingar eigi að leysa sín vandamál áður en þeir komi öðrum til hjálpar. Að sjálfsögðu er það óviðunandi að í ríku landi eins og okkar séu þegnar sem hvorki eiga til hnífs né skeiðar. Saga mannsins sýnir samt að hið fullkomna ríki er ekki til – og stundum hafa þau ríki verið hættulegust mannkyni þar sem allt er talið í lagi og engin vandamál mega vera. Við munum alltaf geta bætt þjóðfélagið eitthvað og ef við eigum að bíða með að hjálpa öðrum þangað til við erum búin að uppræta öll þjóðfélagsmein á Íslandi munum við einfaldlega bíða endalaust og ekki lyfta svo mikið sem litlaputta fyrir aðra.

Þótt garðurinn minn þarfnist aðhlynningar, vökvunar og þar þurfi að halda illgresi í skefjum þýðir það ekki að ég mér sé fyrirmunað að bjóða þeim þar athvarf sem hefur misst garðinn sinn.

Eðlilegt er að fólki sé mikið niðri fyrir þegar um örlög barna, framtíð fjölskyldna og líf og dauða er að tefla. Þær djúpu og heitu tilfinningar geta þó afvegaleitt umræðuna. Þannig er það ekki sjálfgefið að þau sem hvetja til þess að varlega sé farið af stað og engu stillt út í gluggana sem ekki er til í búðinni séu vondar manneskjur sem sé skítsama um flóttafólkið.  Mér finnst það til dæmis bera vott um fallegt hugarfar og góðan vilja að bjóða fram sumarhúsið sitt fyrir landflótta fjölskyldu en ég er alls ekki viss um að það sé af illum hvötum þegar á það er bent að ef til vill dugi slík úrræði skammt. Meira þurfi til.

Íslenskur geðlæknir sem unnið hefur í flóttamannabúðum efast um að landið ráði við að taka við hundruðum flóttamanna. Sá fjöldi þurfi sérfhæfða þjónustu sem ekki sé til staðar hér. Læknirinn segir að Íslendingar megi ekki taka við fleiri flóttamönnum en þeir ráði við.

„Hins vegar eigi sannarlega að taka við einhverjum og gera það eins vel og hægt er og hjálpa því fólki svo sómi sé að,“ er haft eftir honum.  

Þótt botnlaus skelfingin sem flóttafólkið býr við kalli á skjót viðbrögð og raunhæfar aðgerðir er alltaf ástæða til að staldra við þegar gefið er til kynna að sum mál séu þannig að þau megi helst ekki ræða.

Við Íslendingar getum staðið okkur miklu betur í að aðstoða fólk í neyð. Sumt getum við gert sjálf  – eins og til dæmis það að taka á móti flóttafólki á okkar góða landi, veita því húsaskjól, lífsviðurværi, menntun og heilbrigðisþjónustu. Við skulum endilega taka á móti eins mörgum og við treystum okkur til að hjálpa þannig að sómi sé að.

Annað getum við ekki gert ein og sér heldur aðeins í samstarfi við aðrar þjóðir og alþjóðleg hjálparsamtök. Þótt nauðsynlegt sé að takast á við flóttamannavandann með því að bjóða flóttafólki skjól er ekki síður brýnt að ráðast að rótum þess vanda. Það verður ekki gert með framlagi einstakra þjóða heldur aðeins í samstilltu átaki á breiðari vettvangi.

Á heimasíðu UNICEF á Íslandi kemur fram að daglega láti að meðaltali átta börn lífið eða særist í átökunum í Jemen. 1,8 milljón barna eiga á hættu að veikjast af vannæringu. Meira en 800.000 börn hafa neyðst til að flýja heimili sín í Nígeríu vegna vopnaðra átaka þar í landi, svo nokkuð sé nefnt.

Tíunda hvert barn í heiminum býr á átakasvæði.

Verkefnin eru því ótalmörg. Einbeittur og góður vilji er ómetanlegur en úthaldið er ekki síður mikilvægt.

Því hefur verið haldið fram að með því að lýsa yfir löngun til að hjálpa flóttafólki sé verið að hoppa upp á einhvern vinsældavagn. Slíkt hopp er bara af því góða ef fólk hoppar ekki af þeim ágæta vagni aftur strax á næstu stoppistöð heldur lætur hann bera sig lengra  áfram á leið sem er bæði löng og ströng.

Myndina tók ég í sumar við Lac du Bourget í Frakklandi af leikskólabörnum í strandferð. Við vonum að sá tími komi að öll börn heimsins fái að upplifa gleði þeirra. 


Maðurinn sem gifti sig sjálfan

DSC_0438

Margt merkra manna hefur setið Vatnsfjarðarstað. Þeirra á meðal er séra Jón Loftsson sem þjónaði í prestakallinu á 16. öld.  Ekki naut hann mikilla vinsælda sóknarbarna enda „sérsinna og undarlegur“ eins og það er orðað í sagnaþáttunum  „Frá yztu nesjum“ sem Gils Guðmnundsson safnaði á sínum tíma.

Jón var þríkvæntur. Síðasta hjónaband hans var allsögulegt. Segir þannig frá því í sagnaþáttum Gils.

„Snemma vetrar 1591 – 1592 missti séra Jón Sigríði konu sína. Er helzt að sjá sem eitthvert rugl hafi yfir hann komið við þann atburð. Fór hann þegar á stúfana og bað sér konu, en fékk hryggbrot þar sem hann bar fyrst niður. Það lét hann þó ekki á sig fá, en fór í biðilsför til Guðrúnar nokkurrar Sigtryggsdóttur og fékk jáyrði hennar. Var klerkur þá ekkert að tvínóna við þetta lengur, tók konuna heim á staðinn og drakk festaröl til hennar. Þótti mönnum þetta helzt til mikið skjótræði, þar eð ekki var mánuður liðinn frá andláti Sigríðar Grímsdóttur, og hneyksluðust á. Þó keyrði fyrst um þverbak, þegar klerkur tók upp á þeim skolla að gifta sig sjálfur. Viðhafði hann að vísu alla rétta og löglega giftingarsiði, en þetta þóttu firn svo mikil, að ekki var látið kyrrt liggja.“

Varð þessi umdeilda hjónavígsla upphaf mikilla málaferla sem lyktaði þannig að séra Jón var sviptur kjóli og kalli. Hann lést árið 1607. Þannig hljóðar niðurlag þáttarins um hann:

„Allt bendir til þess, að séra Jón hafi verið bilaður á geðsmunum síðari árin. Var hann haldinn þeirri grillu, að menn ofsæktu sig og vildu koma sér fyrir kattarnef. Mun einkum hafa á þessu borið eftir málaferlin út af kvonfanginu. Hlóð hann stóra vörðu eða virki í holti einu nálægt bæ sínum, og dvaldist þar öllum stundum meðan úti var vært. Beið hann þar óvina sinna.“

Ekki hafa margir leikið það eftir séra Jóni að gifta sig sjálfa en ef til vill kannast einhverjir við að hafa hlaðið sér vörðu og beðið þar óvina sinna?

Myndina tók ég um síðustu helgi við Vestmannsvatn í Aðaldal.


Tveir fánar

P1030539

Einn blíðudaginn í sumar fann ég borð á sætu útikaffihúsi á markaðstorginu í hollensku borginni Maastricht. Ég fékk mér glas af trappistaöli dæsandi feginshugar yfir fríinu og skyggndist um úr sæti mínu. Gamla ráðhúsið stóð á torginu fyrir framan mig. Ofan á því blöktu tveir fánar gætilega til að styggja ekki goluna. Borgarfáninn sá fremri, rauður með hvítri stjörnu. Saga hans nær að minnsta kosti aftur til 16. aldar þannig að hæpið er að tengja hann við pólitíska hugmyndafræði síðari tíma. Aftar sást í hinn stjörnumprýdda bláfána Evrópusambandsins.

Fyrstu drögin að þessari bloggfærslu urðu til áður en mér hafði tekist að klára alveg úr glasinu. Ég smellti því meðfylgjandi mynd af flöggunum til að geta myndskreytt færsluna ef mér auðnaðist að skrifa hana heim kominn.

Borgarfáninn er tákn kampanílismans en sá ismi fær heiti sitt af ítalska orðinu campanile sem þýðir klukkuturn. Báðir fánarnir voru einmitt við hliðina á þeim hluta ráðhússins. Kampanílistar eru svo hugfangnir af klukkuturninum sínum að þeim líður illa ef þeir eru komnir það langt frá honum að þeir sjá hann ekki lengur.

Turnspíruhyggja er átthagadýrkun. Hún getur haft leiðinlega fylgifiska, þröngsýni, umburðarleysi, heimóttarskap, einsleitni, hroka og fordóma. Heilbrigður kampanílismi er þó alls ekki neikvæður. Hann hvetur til þess að fólk rækti tengsl sín við það sögulega og hlúi að nærumhverfi sínu í þeim tilgangi að þar sé hægt að mæta þörfum borgaranna á sem bestan hátt. Kampanílistar dúlla við borgina sína eða bæinn sinn og reyna að láta íbúunum líða vel. Til þess þurfa þeir að fá að hafa sitt að segja um hvernig sveitarfélaginu er stjórnað. Borgararnir þurfa völd og borgarfáninn á markaðstorginu í Maastricht sagði mér að minnstu stjórnunareiningarnar, héraðs- og sveitarstjórnir, ættu að hafa sem flest mál sér viðkomandi á sinni könnu. Best sé að hafa völdin nálægt fólkinu þegar um er að ræða mál sem hafa áhrif á daglegt líf þess.

Sum mál eiga heima í héraði en öðrum þarf að sinna á breiðari vettvangi. Einstakar héraðsstjórnir mega sín lítils í baráttunni gegn mengun, farsóttum, hryðjuverkum og vaxandi misskiptingu heimsins gæða, svo nokkuð sé nefnt. Til þess þarf yfirþjóðlegt vald. Blaktandi bláfáni Evrópusambandsins á þaki ráðhússins í Maastricht þennan sumardag minnti mig á það nauðsynlega vald. Ég sá ekki betur en vel færi á með flöggunum tveimur. Þau bærðust í takt og virtust vinna vel saman, tákn þessara tveggja stjórnunarstiga.

Hvaða augum sem menn líta Evrópusambandið er nokkuð óumdeilt að það stendur nú á miklum tímamótum. Ef til vill má lýsa inntakinu í yfirstandandi átökum í þessu ríkjasamfélagi þannig, að þar sé tekist á um hvaða völd eigi heima á hvaða stigi. Evrópusambandið hefur sogað til sín völd frá þjóðum og héruðum. David Cameron vill að sambandið skili Bretum völdum til baka sem það hefur haft af þeim. Hollenska ríkisstjórnin hefur farið fram á svipaða valdaeftirgjöf frá ESB í 54 liðum.

Bláfáni Evrópusambandsins minnti mig líka á þetta mikla mein þess, að völdin, sem ættu að vera sem næst fólkinu, hafa verið flutt frá því. Síðast þegar ég var í Maastricht fylgdist ég með örlítilli mótmælagöngu úr sæti mínu á öðru kaffihúsi í borginni. Það er gott að geta mótmælt heima hjá sér en þurfa ekki alla leið til Brüssel – þótt styttra sé þangað frá Maastricht en flestum öðrum borgum í ESB. Það er gott ef hið lýðræðislega heimili manns er í nágrenni við lögheimilið.

Umræðan á Íslandi er gjarnan svarthvít og annaðhvort eða enda virðist henni stundum stjórnað af æsingaöflum. Ísland myndi bæði hagnast og tapa á því að gerast aðili að Evrópusambandinu. Aðildinni fylgdu bæði ótvíræðir gallar og kostir. Ég er þeirrar skoðunar að eins og er séu gallarnir fleiri. Ég er líka þeirrar skoðunar að sambandið muni á næstu misserum taka róttækum breytingum og því sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að bíða og sjá í hvaða áttir sú þróun verður. Og síðast en ekki síst er ég þeirrar skoðuna að renni einhvern tímann upp sú stund að vænlegt geti talist fyrir okkur að sækja um aðild eigi að gera það af alvöru, í samræmi við þjóðarvilja og af virðingu fyrir sambandinu og þeim reglum sem það setur slíku ferli.


Blessaðir skíthælarnir

DSC_0565

Sunnudaginn 28. júní 2015 flutti ég þessa prédikun í útvarpsguðsþjónustu í Akureyrarkirkju.

Guðspjallið var Jóhannes 8, 2 – 11:

„Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. 
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. 
Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ 
En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ 
Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ 

 

Biðjum: Góði Guð, við þökkum þér að þú leiðir okkur inn á grundirnar grænu og að vötnunum friðarríku. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Við mennirnir felum okkur á bak við lokaðar dyr, á afviknum stöðum, inni í krókum og kimum, í skjóli nætur og undir huliðshjúpi skuggans. Allskonar feluleikir koma fyrir í sögu mannkyns. Strax í Fyrstu Mósebók segir, að þegar Adam og Eva óhlýðnuðust Skaparanum og neyttu forboðinna ávaxta hafi augu þeirra opnast. Þau gerðu sér grein fyrir að þau voru nakin og bjuggu sér til mittisskýlur til að hylja nekt sína. Síðan földu þau sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum.

Stundum felum við okkur til að forðast ógnir sem af öðrum stafa. Við leitum líka í fylgsnin þegar við aðhöfumst það sem aðrir mega hvorki sjá né heyra. Felustaðir hafa til dæmis verið vettvangur ófárra hjúskaparbrota. Á öllum tímum hefur fólk átt í erfiðleikum með að beina kynhvöt sinni í viðurkennda farvegi. Fólk drýgir hór, karlar með konum, karlar með körlum og konur með konum. Óleyfilegir ástarleikir hafa átt sér stað inni í hlöðum eða á ódýrum hótelherbergjum, með óleyfilegum aðilum og stundum með óleyfilegum fjölda þátttakenda. Maðurinn hefur ekki vílað fyrir sér að drýgja margfalt hór á einni kvöldstund. Útrás hans fyrir holdlegar fýsnir sínar tekur á sig ótrúlegustu myndir.

Ástarleikirnir geta ekki síður orðið dauðans alvara en feluleikirnir. Hinum sjóðheitu og forboðnu ástum fylgja gjarnan ískaldar blekkingar, lygar og svik þar sem maðurinn særir og svívirðir þau sem eru honum kærust og næst. Með einu hliðarspori er hægt að tvístra heilu fjölskyldunum og heimili fólks hafa verið leyst upp eftir gaman einnar nætur.

II

Hórseka konan í guðspjalli dagsins var staðin að verki og gripin glóðvolg. Komið var að henni í miðjum klíðum. Ekkert er sagt frá elskhuga hennar en búið er að leiða konuna út af felustaðnum og stilla henni upp fyrir framan þá sem áfelldust hana. Farísearnir og fræðimennirnar létu hana standa mitt á meðal sín, komu henni fyrir á punktinum þar sem allra augu hvíldu á henni, allra vísifingur bentu á hana og allra ásakandi orð beindust að henni.

Við sjáum konu sem á sér engar málsbætur og enga undankomuleið. Refsingin blasti við, þau málagjöld sem þessari samtíð þóttu makleg slíkum brotum.
Hórsekar konur átti að grýta, bauð lögmálið.

Grýtendurnir töldu það skyldu sína að beita þeim viðurlögum sem konan hafði unnið til; sársaukafullum dauða. Réttlætinu þurfti að fullnægja og réttlætið getur verið miskunnarlaust.

Þó er alltaf fleira á ferðinni en réttlæti þegar sökudólgum heimsins er stillt upp þannig, að allir geti séð, bent á og ásakað. Þegar maður heldur á grjótinu og telur sig hafa rétt til að kasta því í aðra manneskju fylgir því tilfinning um yfirburði. Grjótið í hnefa mínum segir mér, að ég sé betri en sú manneskja sem unnið hefur til þess. Um leið og ég bendi á sökudólginn er ég að benda frá mér. Um leið og ég hef upp vísifingurinn upphef ég sjálfan mig. Guði sé lof fyrir þau seku, alla skíthælana og drullusokkana, alla syndaseli heimsins sem við leiðum fram og látum standa mitt á meðal okkar, á síðum dagblaða, í fréttatímum, á bloggum og í athugasemdakerfum. Allt þetta misyndisfólk er sönnun þess, að þótt ég geti verið slæmur, eru þau miklu verri.

III

Mitt á meðal okkar standa brjáluðu útrásarvíkingarnir, gráðugu auðmennirnir, vanhæfu embættismennirnir, spillta stjórnmálastéttin, sægreifarnir, afæturnar, lattelepjararnir, landsbyggðarlúðarnir, einangrunarsinnarnir, landráðaliðið, trúleys-ingjarnir, múslimarnir og allt trúaða fólkið. Á þessu landi er enginn hörgull á sökudólgum. Og vegna þess að hverjum sökudólgi fylgja ótal fórnarlömb er líka nóg af þannig lömbum á Íslandi.

Hér varð hrun. Alltaf er verið að minna okkur á að hér fór allt svo gjörsamlega fjandans til að það þótti óstjórnlega fyndið þegar forsætisráðherrann bað Guð, helsta óvin fjandans, að blessa Ísland. Eftir mikilmennskubrjálæði bóluáranna tók við tímabil minnimáttarkenndar og mölbrotinnar þjóðarsjálfsmyndar enda er ekki langt á milli þjóðrembunnar og sjálfsfyrirlitningarinnar, sem ef til vill eru tvær hliðar á sama hlutnum.

Þegar við erum óörugg og óviss um okkur sjálf freistumst við til að vera dómhörð við aðra. Ef við sjáum ekkert jákvætt hjá okkur sjálfum geta veikleikar hinna verið stökkbretti til að lyfta okkur upp úr lágkúrunni. Yfirsjónir þeirra og sekt verða upphafning okkar. Það er gömul og vinsæl brella að nota bresti náungans til að fegra sjálfan sig.

Vel má spyrja hvort íslensk stjórnmálamenning sé þessu marki brennd. Hvort of sjaldgæft sé, að íslenskir stjórnmálaflokkar reyni að höfða til okkar með því að draga upp fyrir okkur ákveðna framtíðarsýn, gera grein fyrir glæstum hugsjónum og afla þeim fylgis en þess í stað sé aðalatriðið að útmála galla, heimsku og jafnvel illsku andstæðinganna. Stundum finnst manni íslenskir stjórnmálaflokkar ekki hafa neina eiginlega stefnu nema þá að tryggja með öllum ráðum að hinir komist ekki til valda.

IV

Því er þó ekki að neita að ásakendur og ákærendur heimsins hafa allir nokkuð til síns máls. Maðurinn er stórvarasamur og engin tilviljun að hann telur sig þurfa að fela það sem ekki þolir dagsljósið. Syndin er til og syndin er lævís og lipur.

Farísearnir og fræðimennirnir töldu sig hafa fullan rétt til að grýta konuna; í raun væru þeir að grýta syndina. Þeirra Guð var hinn vinsæli Guð hreinna lína og skýrra marka, sá Guð sem skerpir skilin á milli okkar, hinna réttlátu, og hinna sem eru sek, sá Guð sem gerir okkur mögulegt að spegla ágæti okkar í stórkostlegum breyskleika hinna. Þegar þeir stóðu frammi fyrir hinni seku konu brugðust þessir herramenn við með áfellisdómum og grjótkasti. Það er hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem maðurinn grípur til þeirra úrræða í baráttu sinni við synd og sekt.

Jesús tók öðruvísi á þessum mannlega breyskleika. Hann skrifaði með fingri sínum á jörðina, þá sömu jörð og átti að taka við blóði sakborningsins. Við vitum ekki hvað hann skrifaði. Ef hann hefði skrifað það á netið hefði það geymst og varðveist því manni er sagt að netið gleymi engu. Hitt sem ritað er á jörðina hverfur ofan í hana í næstu rigningu eða fýkur burt með næstu vindhviðu. Kannski var Jesús einmitt að sýna það með skrifum sínum í rykið að hann vildi ekki dæma. Og þegar hann bað þann syndlausa að kasta fyrsta steininum gátu ákærendur ekki framfylgt hörðum dómum sínum. Hendur þeirra sigu. Hnefarnir opnuðust og steinarnir duttu á jörðina einn af öðrum.

„Ég sakfelli þig ekki heldur,“ sagði Jesús við konuna. Jesús hóf ekki upp vísifingur sinn til að benda ásakandi á hana. Hann lyfti fingri sínum til að benda konunni út í lífið. „Farðu,“ sagði hann við hana. „Farðu af þessum vettvangi dómhörkunnar,“ sagði hann. „Farðu út í lífið þitt og haltu því áfram.“

Og þegar konan var lögð af stað heyrði hún kallað á eftir sér, að syndga ekki framar. Þótt Jesús neiti að dæma og sakfella veit hann að til að halda áfram að lifa lífinu þarf að vara sig á syndinni. Og hann veit að syndin er ekki í því fólgin að móðga siðapostulana eða hinn stranga Guð þeirra. Syndin er að gera það sem er manni sjálfum ekki til góðs. Syndin er að vera sjálfum sér til bölvunar. Syndin er að kannast ekki við sjálfan sig. Syndin er að fela sig í göllum hinna. Syndin er að leynast í fylgsnum fyrir sjálfum sér og Guði.

Í dag göngum við út til lífsins með sömu viðurkenningu í eyrunum og uppörvun hans sem vill hjálpa okkur að lifa sjálfum okkur og öðrum til góðs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Sömu helgi og messunni var útvarpað var ég á göngu um Hornstrandir. Þar tók ég myndina hér fyrir ofan. Hún er úr Rekavík bak Höfn.


Að vitja upprunans

DSC_0755

Ég er nýkominn úr stórkostlegri göngu um Hornstrandir og Jökulfirði. Hér fyrir ofan er mynd sem tekin var á síðasta degi ferðarinnar. Þar er ég við leiði langafa míns, Guðjóns Kristjánssonar, sem hvilir í kirkjugarðinum á Hesteyri. Guðjón langafi var bóndi á Langavelli á Hesteyri frá árinu 1895 til æviloka en hann lést árið 1936.

Þess má geta að á árunum 1917 - 1919 bjuggu afi minn og amma á Langavelli ásamt langafa. Afi, Guðlaugur Kristjánsson frá Ófeigsstöðum í Kaldakinn, var búfræðingur að mennt. Amma mín hét Bjarney Pálína Guðjónsdóttir (sumir vilja meina að hún hafi heitið Pálína Bjarney). Móðir hennar hét Pálína Guðrún Pétursdóttir. Amma Pálína hefur ef til vill verið skírð í höfuðið á langömmu og fyrri eiginmanni hennar, Bjarna Jakobssyni á Búðum í Hlöðuvík. Bjarni dó ungur maður er hann varð bráðkvaddur þar í víkinni 1893. Með honum átti Pálína langamma mín tvær dætur, Rebekku og Kristínu.

Eitt kvöldið í Hlöðuvík rifjaði ég upp þessa sögu og gerði grein fyrir rótum mínum í þessum magnaða landshluta. Þá kvaddi sér hljóðs einn samferðarmanna minna, maður sem ég hafði fyrst augum litið í þessari ferð. Kvað hann Bekku ömmusystur mína hafa verið ömmu sína. Þar með var Gústi frændi minn kominn til sögunnar, dásemdardrengurinn Ágúst Hálfdánsson. Myndin hér fyrir neðan er af okkur frændum og langömmudrengjunum hennar Pálinu Guðrúnar. Fór vel á með okkur ferðina alla. Ekki fundum við leiðið hennar en kunnugir telja að það geti verið á Stað í Aðalvík. Þangað munum við frændur halda í aðra pílagrímsferð eins fljótt og auðið er. Hlakka ég mikið til að hitta Gústa aftur og skiptast á sögum við hann af ættmennum okkar og öðrum origínölum og sérvitringum.

Fyrir mörgum árum var kirkjan á Hesteyri fjarlægð og flutt til Súðavíkur. Tvíburabróðir ömmu minnar, Jón Stefán, var einn þeirra sem beitti sér fyrir því að reist var veglegt minnismerki í grunni kirkjunnar á Hesteyri. Þar er hin hljómfagra klukka Hesteyrarkirkju og skrá yfir þekkt leiði i kirkjugarðinum. Í stofunni í Læknishúsinu á Hesteyri þar sem gönguhópurinn gisti síðustu nóttina er ljósmynd af Nonna bró, eins og ömmur okkar Gústa kölluðu hann. Þar stendur hann við hlið Herra Sigurbjörns Einarssonar, biskups Íslands og var myndin tekin þegar biskup vígði minnismerkið.

Í Læknishúsinu er innrammað ljóð eftir Ásu Ketilsdóttur. Þar er þetta vers sem á vel við myndirnar:

„Í kirkjugarðinn við gengum inn

glitraði sléttur sær.

Meðal lágu leiðanna þar

litfögur sóley grær.

Klukkunnar einu kliður berst

kristals og silfur skær.“

 

DSC_0758

 


Besti matur í heimi?

DSC_0092

Undanfarið hefur íslenska ríkissjónvarpið sýnt fræðsluþætti um besta mataræði heimsins. Þættirnir eru framleiddir af bresku almannastöðinni Channel 4. Þáttastjórnendur heimsóttu ýmis lönd og kynntu sér fæðuna sem íbúarnir hafa sér til viðurværis. Þeir fengu næringarfræðinga til að meta mataræði í viðkomandi löndum og studdust við vísindaleg gögn um heilbrigði, meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Efnhags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).

Skemmst er frá því að segja að hvergi í heiminum er heilsusamlegra mataræði en á Íslandi sé mark takandi á þeim sem um málið fjölluðu í þessari mynd. Hollustu íslenskra matvæla má samkvæmt þeim þakka ferskum fiski og hvort tveggja kjötvöru og mjólkurafurðum í hæsta gæðaflokki.

Ítalir og Grikkir fengu silfrið og bronsið á þessum lista en í fjórða sæti urðu Sjöunda dags aðventistar.

Íslenskir aðventistar eru því í verulega góðum málum.

Fimmta heilsusamlegasta fæði heimsins er í Japan en frændur vorir Svíar, Norðmenn og Danir skipta bróðurlega með sér sjötta sætinu.

Að sjálfsögðu verður að taka svona listum með miklum fyrirvörum en þeir geta þó gefið ákveðnar vísbendingar.

Ef til vill veldur brotin þjóðarsjálfsmynd Íslendinga því að þeir eru annaðhvort fullir mikilmennskubrjálæðis eða niðurbrjótandi vanmetakenndar. Þannig hafa álitsgjafar lengi hlegið með öllum kjaftinum að þeirri staðhæfingu, að í legu landsins og óspilltri náttúru felist vannýtt tækifæri til framleiðslu á hollri hágæðamatvöru. Þannig hugmyndir þykja mörgum argasta þjóðremba – eða eins og blaðamaður Moggans skrifaði í blaðið sitt nú í vikunni eftir að listinn lá fyrir:

„Vissulega var þar hollur matur á borð við skyr og lambakjöt en er íslenskt mataræði virkilega betra en t.d. í löndunum við Miðjarðarhaf? Trúir því einhver? Ekki ég."

Íslenskum blaðamönnum kann að þykja árennilegra að Íslendingar framleiði ál og tölvuleiki en matvæli – eða snúi sér aftur að því ögrandi verkefni að gera eyjuna að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Ég hef þó ekki síður trú á íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði. Þeim sem finnst það fyndið og áminna mig um að gleyma nú ekki sviðunum, harðfiskinum og Mangósopanum þegar ég fer til Frakklands í sumar bendi ég á nýlega grein um íslenskan mat í Læknablaðinu.

Hún hefst á þessum orðum:

„Aðgangur að öruggum matvælum er hluti af forréttindum Íslendinga."

Og þetta má lesa í niðurlagi greinarinnar:

„Mjög lítil notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði ásamt virkum aðhaldsaðgerðum til að draga úr útbreiðslu Campylobacter og Salmonella hafa gert íslensk matvæli með þeim öruggustu í heiminum í dag."

Myndin er af íslensku lambakjöti, grilluðu með íslensku rifsberjahlaupi


Vertu vandlátur á óvini þína

DSC_0442

Við tökum þannig til orða að við eigum vini. Séu þeir eign manns erum við líka eign vinanna. Þess vegna getur vinátta verið varasöm þegar um er að ræða þá sem starfa í almannaþágu.

Hver ærlegur maður á vini og aðeins vinalausir menn eru ekki að einhverju leyti eign vina sinna. Vinalausir menn fyrirfinnast. Vinir eru ekki lífsnauðsynlegir. Dæmin sýna að óvinsælir menn geta komist ágætlega af – þótt efalítið sé tilvera án vina oft einmanaleg.

Óvini eigum við á sama hátt og vinina. Og óvinir okkar eiga okkur. Óvinir okkar eru eign okkar og við erum eign þeirra. Oft hafa óvinir okkar mikil tök á okkur og við eyðum bæði tíma og orku í allskonar óvináttu.

Í einu rita sinna fjallar pólski heimspekingurinn Leszek Kolakowski um gagnsemi óvinanna. Hann bendir á að þegar byggja eigi upp hópvitund eða samkennd séu óvinirnir eitt mikilvægasta byggingarefnið. Allir heimsins harðstjórar fyrr og síðar eiga það sameiginlegt, að hafa átt hættulega óvini – og að hafa nýtt sé þá óvináttu til að réttlæta völd sín og viðhalda þeim. Stundum hafa slíkir stjórnarhættir verið nefndir óttastjórnun. Kolakowski segir að því meiri völd sem  hinar ríkjandi stéttir vilji hafa yfir þegnum þínum, því fleiri óvinum sínum og óvinum fólksins þurfi þær að tefla fram. Ekkert hefur bitið betur á friðarvilja fólks en að útmála fyrir því óvini þess og hættuna sem af þeim stafar. Óvinirnir virka eins og rauð dula nautabanans þegar etja á þjóðum út í styrjaldir. Gyðingarnir og bolsjevikkarnir voru helstu óvinir nasistanna. Kapítalistarnir voru óvinir bolsjevikkanna.  Aristókratarnir, auðræðissinnarnir, hatursprédikararnir og imperíalistarnir þurfa allir sinn góða skammt af óvinum til að gefa málflutningi sínum vægi og gildi. Og sagan geymir mörg dæmi um hvernig ógnin af óvinunum er notuð til að réttlæta að yfirvöld fari á svig við lög eða gott siðferði.

Óvinirnir gagnast fleirum en alræðisöflunum. Öll skilgreinum við okkur ekki einungis út frá því sem við erum, hvað við hugsum, viljum og hvert við stefnum. Sjálfskilningur okkar mótast ekki síður af því sem við teljum okkur ekki vera, hvernig við hugsum ekki, hvað við viljum ekki og viljum forðast. Óvinirnir eru holdgerving alls þess. Hluti þeirrar myndar sem við gerum okkur af okkur sjálfum er mynd óvinarins, því sem við viljum ekki vera. Óvinirnir skerpa sjálfsmynd okkar. Óvinirnir hjálpa okkur að gera okkur grein fyrir hvað við viljum ekki og það er mikilvægt að vita hvað maður vill ekki. Það er ein ástæða þess að okkur ber að elska óvini okkar.

Ósköp væri tilvera KA-mannsins daufleg ef engir væru Þórsararnir.

Sé horft yfir sviðið á Íslandi kemst maður ekki hjá því að sjá, að hér er enginn hörgull á óvinum. Fyrst eftir hrun fengu bankafólkið, auðkýfingarnir, útrásarvíkingarnir, stjórnmálastéttin og embættismennirnir sinn góða skammt af útnefningum sem helstu óvinir þjóðarinnar. Seinna hlotnaðist liðinu sem vildi borga Icesave sami vafasami heiður og að sjálfsögðu líka hinum sem vildu ekki borga Icesave. Lengi hefur verið útmáluð fyrir okkur þjóðaróvinátta þeirra sem vilja afhenda Evrópusambandinu auðlindir landsins og fullveldi á silfurfati og þá er ekki síður ljós stórhættulegur fjandskapur hinna sem vilja gjörsamlegra einangra Ísland og hatast við Evrópu og allt sem útlenskt er. Útgerðarmenn, bændur, álfurstar, kvótagreifar, landeigendur, ríkisstjórnin,  stjórnarandstaðan, verkalýðsforystan, atvinnurekendur, kröfuhafar, prestar, kirkjan, trúleysingjar, forsetinn, blaðamenn, listaelítan, vinir og óvinir flugvallarins í Vatsnmýrinni, allt eru þetta vel þekktir óvinir og andskotar sem nýttir hafa verið til að þjappa fólki saman, skapa samvitund, draga skýr mörk á milli okkar og hinna, góða fólksins og þeirra vondu.

Við þurfum að vera vandlát á vini. Ekki er víst að allir sem nálgast okkur með fagurgala og kjassi vilji okkur vel. Óvinirnir geta ekki verið síður gagnlegir en vinirnir og hjálpað okkur að skilja betur okkur sjálf. Við skulum því líka vanda okkur þegar við veljum okkur óvini.

Og bæði vinina og óvinina skulum við velja sjálf en ekki láta öðrum eftir að velja þá fyrir okkur. Menn geta haft mikla hagsmuni af því að eiga rétta vini á réttum stöðum.

Ekki síður geta menn grætt mikið á að passa upp á að þjóðin eignist réttu óvinina.


Vörn málfrelsis og frelsi málsvarna (endurbirt)

DSC_0090

Árið 2007 var hér á landi töluverð umræða um tjáningarfrelsið, m. a. vegna íslenskrar vefsíðu með ógeðfelldum rasistaáróðri. Þá skrifaði ég örlítinn bloggpistil sem ég endurbirti nú þegar tekist er á um svipuð málefni.

„Tjáningarfrelsið gefur mér rétt til að segja hvað mér finnst. Margir taka það á orðinu og segja allt sem þeim í huga býr. Útbreiða lygar og svívirðingar um fólk.

"Hvað? Ég má það!"

Á þjóðvegi 1 er yfirleitt 90 km hámarkshraði. Sé hann minni er það sérstaklega merkt.

Segjum sem svo að þú sért að keyra á þjóðvegi 1. Þar sem þú ert er 90 km hámarkshraði og engin merki um annað. Þú keyrir fram á bilaðan bíl í kantinum. Nokkrir hafa stoppað til að hjálpa. Fólk er á þönum. En þú hægir ekkert á þér. Þú mátt keyra á 90. Það er þinn réttur.

Þú mátt það.

Framkölluðu dönsku skopmyndirnar af Múhameð spámanni mörg bros? Ég sá þær. Þær voru ekkert fyndnar enda voru þær sennilega ekki birtar í þeim tilgangi. Þær voru ögrun. Prófsteinn á það sem má.

Vissulega má segja að við höfum öll ekki nema gott af því að láta ögra okkur og storka. Spurningin er hversu langt skuli ganga í þeim efnum. Rasistasíðan íslenska hefur orðið mér og öðrum umhugsunarefni. Þar finnst mér farið langt yfir mörkin.

En það getur verið snúið að setja tjáningarfrelsinu mörk. Það reyndu til dæmis andfætlingar okkar í Ástralíu. Þar í landi voru fyrir nokkrum árum sett lög sem bönnuðu fólki að útbreiða andúð á trúflokkum og trúarskoðunum, svonefnt "hate speech". Margir tóku lögunum fagnandi. Vinstri menn töldu þau samræmast þeirri skyldu ríkisins að verja fólk hvert fyrir öðru. Múhameðstrúarmenn sáu í þeim vörn gegn islamófóbíu.

Tilgangur laganna var að sjálfsögðu sá að standa vörð um frið og reglu í samfélaginu.

Útkoman varð þveröfug. Lögin hafa kynt undir ófriðareldum sem enn loga. Hver sem talar ógætilega um trúmál á yfir höfði sér málssókn.

Fyrsta stóra dómsmálið eftir lögin var sótt af islömskum samtökum. Þau ákærðu lítinn kristinn sértrúarflokk. Á samkomum hans hafði verið talað afar niðrandi um múhameðstrú og fylgjendur hennar.

Málið fékk alþjóðlega umfjöllun og sakborningarnir, fámennur hópur ástralskra bókstafstrúarmanna, urðu að píslarvottum og merkisberum tjáningarfrelsisins. Stuðningsmenn þeirra fóru að láta sjá sig á samkomum múhameðstrúarmanna, vopnaðir skrifblokkum og upptökutækjum, til að ná því nú örugglega ef þar yrði eitthvað miður gott sagt um kristni. Réttarhöldin stóðu mánuðum saman og kostuðu stórfé. Þar var tekist á um alls konar trúarlegar og guðfræðilegar skilgreiningar. Arabísk málfræði kom einnig við sögu.

Dómurinn féll hinum kristna sértrúarflokki í óhag. Forsvarsmenn hans urðu að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum.

Sér nú ekki fyrir endann á málssóknum. Dæmdur barnaníðingur stefndi Hjálpræðishernum fyrir að bendla galdra við djöflatrú. Fylgjendur hins víðfræga satanista Alistair Crowley drógu þekktan barnasálfræðing fyrir rétt. Hann átti að hafa gefið í skyn að börn væru misnotuð í trúarathöfnum hópsins.

Frægasta dæmið er samt mál kynskiptingsins og nornarinnar Oliva Watts gegn áströlskum hvítasunnumönnum. Árið 2003 bauð hún sig fram til borgarstjórnar í sinni heimabyggð. Það athæfi mætti harðri andstöðu hvítasunnumanna á svæðinu en sú kirkjudeild er þar útbreidd. Þeir gátu ekki hugsað sér kynskipting og norn í borgarstjórn. Efnt var til bænasamkoma gegn frú Watts sem brást hin versta við andstöðunni.

Deilan breiddist út. Í hana blönduðu sér samtök á borð við Pagan Awareness Network (PAN). Amerísk samtök, Witches Voice in America, sendu frú Watts fjárframlag. Hið ástralska samfélag var sagt gegnsýrt af nornafóbíu (wiccaphobia).

Réttarhöldin tóku 14 mánuði með tilheyrandi fjárútlátum.

Sennilega hefur enginn grætt á þessum lögum.

Nema þá nokkrir lánsamir lögfræðingar. Og ef til vill blöðin.“

Myndin: Ekki veitir af að senda lesendum sumarkveðju með þessari mynd úr Lystigarðinum á Akureyri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband