19.4.2015 | 21:09
Fjölgun í kirkjunni?
Við tölum stundum óvirðulega um kerfi. Kerfiskallar fara í taugarnar á okkur. Kerfi eru þunglamaleg skriffinnska. Hugsandi menn eru á móti kerfinu.
Kerfin eru í sjálfum sér ekki slæm. Stofnanir eru til dæmis kerfi sett saman til að mæta ákveðnum þörfum mannsins. Sum hafa dugað ágætlega og þjónað manninum vel.
Sagan sýnir að iðulega kúplast kerfin frá þessum tilgangi sínum að þjóna manninum og fara að snúast um eitthvað allt annað. Stundum starfa kerfin þannig að þau hafa ekkert annað markmið en að viðhalda sér sjálfum.
Stjórnmálaflokkar eru kerfi í þágu ákveðinna hugsjóna. Þeir verða oft að tækjum í þágu ákveðinna sérhagsmunahópa.
Fjölmiðlar eiga að upplýsa almenning og vera liður í lýðræðisumræðu. Þeir verða í sívaxandi mæli málpípur auðmanna.
Nýlega las ég að Þjóðkirkjan hefði skipað starfshóp sem koma á með tillögur um hvernig fjölga megi í kirkjunni.
Þjóðkirkjan hefur ýmis hlutverk. Henni ætlað að vera boðberi ákveðinna viðhorfa. Hún vinnur að því að afla þeim fylgis. Hún vill fjölga lærisveinum Jesú Krists.
Ég efast um að það eigi að vera sérstakt verkefni Þjóðkirkjunnar að fjölga þeim sem haga sinni skráningu hjá Þjóðskrá Íslands þannig, að þeir tilheyri trúfélaginu Þjóðkirkja Íslands.
Það gæti borið vott um að Þjóðkirkjan sé stofnun sem lítur á það sem eitt sitt helsta hlutverk að viðhalda sjálfri sér.
Nær væri að Þjóðkirkjan kappkostaði að rækja raunverulegt hlutverk sitt eins vel og henni er unnt og legði sig fram við að vera sönn og trú köllun sinni.
Það gæti hugsanlega haft þá gleðilegu hliðarverkun að skráningum í trúfélagið Þjóðkirkjan hjá Þjóðskrá Íslands fjölgaði.
Hagi kirkjan sér eins og hver önnur búlla óttast ég að þá muni þeim fækka sem treysta kirkjunni og kæra sig um að tilheyra henni formlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2015 | 22:09
Í nafni lýðræðis
Fyrir kosningarnar 2009 hafði einn stjórnmálaflokkur af þeim sjö sem buðu fram á stefnuskrá sinni að Ísland gengi í ESB.
Eftir kosningar sótti Ísland um aðild að ESB í nafni lýðræðis.
Í umræðuþætti ríkissjónvarpsins kvöldið fyrir kosningarnar 2009 þvertók formaður VG í þrígang fyrir að til greina kæmi að hefja undirbúning að því að sækja um aðild að ESB og sagði: Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður gagnstætt okkar stefnu í maí þá yrði það fellt í flokksráði Vinstri grænna þannig að slíkt er ekki í boði.
Tæpum þremur mánuðum síðar sótti ríkisstjórn VG og Samfylkingar um aðild að Evrópusambandinu - í nafni lýðræðis.
Árið 2010 var farið var fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn í nafni lýðræðisins.
Árið 2014 fóru þeir sem ekki máttu heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2010 fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál. Þá brá svo við að þeir voru gjörsamlega mótfallnir þjóðaratkvæðagreiðslu sem upphaflega fóru fram á hana í nafni lýðræðis.
Í aðdraganda síðustu alþingiskosnina gáfu ýmsir forystumenn stjórnmálaflokka fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslur sem þeim var ómögulegt að efna enda voru þau þvert á samþykktir landsfunda flokka þeirra - í nafni lýðræðis.
Þegar núverandi ríkisstjórnarflokkar ætluðu að framfylgja stefnu flokka sinna í Evrópusambandsmálinu var því haldið fram að það mættu þeir ekki heldur bæri þeim skylda til að framfylgja stefnu síðustu ríkisstjórnar í nafni lýðræðis.
Þegar núverandi ríkisstjórn hugðist láta stefnu sína í Evrópusambandsmálinu fá þinglega meðferð var því hótað af fyrrverandi utanríkisráðherra að slíku yrði mætt með eldi og brennisteini í nafni lýðræðis.
Samkvæmt skoðanakönnunum síðustu ára er meirihluti Íslendinga á móti aðild að ESB. Meirihluti kjörinna fulltrúa á þjóðþinginu er á móti aðild að ESB. Ríkisstjórn landsins er á móti aðild að ESB.
Ísland er engu að síður umsóknarríki að ESB í nafni lýðræðis.
Auðvitað er lýðræðið löngu hætt að hlýða nafni í allri þeirri refskák og blekkingarleik sem þetta mál hefur frá upphafi verið.
Staðreynd málsins er sú að engar aðildarviðræður eru í gangi. Fráleitt er að ætlast til þess að ríkisstjórn sem ekki vill í ESB semji um aðild að ESB. Forystumenn ESB hafa lýst því yfir að engin ný ríki verði tekin inn næstu fimm árin.
Vilji menn raunverulega hafa næstu skref í þessu máli lýðræðisleg verður að tryggja að þjóðin verði spurð þegar þar að kemur og ekki sé hægt að taka upp þráðinn að nýju án þess að kanna vilja hennar fyrst.
Það er alveg kominn tími til að eitthvað sé gert í þessu máli sem er raunverulega í nafni lýðræðis.
Myndin: Vormerki í bráðnandi klaka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.2.2015 | 22:02
Hvort Guð sé til
Að undanförnu hefur verið tekist á um hvort Guð sé til eður ei. Sýnist sitt hverjum. Fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík segir að Guð sé ekkert einkamál presta í ágætri grein í Fréttablaðinu sem hefur yfirskriftina Guð©.
Undir það tek ég. Guð er ekki einkamál presta og heldur ekki kirkna.
Guðleysi og vantrú er heldur ekki einkamál trúlausra eða samtaka sem stofnuð hafa verið um slíka afstöðu til trúar.
Þetta er ekki þannig, að annarsvegar höfum við þau sem trúa og hinsvegar þau sem trúa ekki.
Í langflestum okkar takast á trúin og vantrúin, sannfæringin og efinn. Sá sem efast getur verið trúaður og trúuð manneskja þarf ekki endilega að vera svo sannfærð að hún eigi ekkert rými fyrir efa í hjarta sínu.
Ég held að heiðarlegur efi sé Guði þóknanlegri en blind trú sem einskis þarf að spyrja. Slíkur efi getur nært trú manns og dýpkað.
Það getur verið mjög gefandi að skiptast á skoðunum við fólk sem efast um sig hvort sem það er trúað eða trúlaust.
Á hinn bóginn finnst mér oft að hægt sé að verja tíma sínum betur en í að rökræða við þau sem eru svo sannfærð í trú sinni eða trúleysi að þau eru hætt að leita og velta fyrir sér tilverunni.
Ég þekki hugsandi trúleysingja. Mikið getur verið gott og gaman að spjalla við þá. Ég þekki líka hugsandi trúmenn. Sjaldan verða umræðurnar dýpri en þegar slíkt fólk er annars vegar.
Þá fer stundum svo að að umræður þagna og menn horfa saman ofan í það hyldýpi, að þeir vita ekki allt og eiga engin svör þótt spurningar brenni á vörum.
Myndina tók ég nýlega hjá Old Sarum við borgina Salisbury á Englandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2015 | 10:35
Fremstur í sókninni
Eftirtektarverður er leiðari Fréttablaðsins í dag, fullur vandlætingar og heilagrar reiði yfir því að forseti Íslands skyldi á sínum tíma hafa greitt götu og lagt lið Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, sem nú hefur verið dæmdur fyrir alvarleg brot á landslögum.
Í leiðaranum er tekið fram að forsetinn hafi beðist afsökunar mörgu sem hann sagði en ritstjóri Fréttablaðsins efast um að það dugi nú þegar alvara málsins rifjast upp eins og það er orðað.
Ýmislegt fleira mætti rifja upp í þessu samhengi.
Til dæmis það að þann 30. desember árið 2004, því sældarári íslensku útrásarinnar, valdi hið sama Fréttablað téðan Sigurð viðskiptamann ársins.
Í frétt blaðsins þar að lútandi segir:
Úrslitin ættu ekki að koma á óvart þar sem Sigurður hefur sem forstjóri Kaupþings og stjórnarformaður KB banka eftir sameiningu við Búnaðarbankann verið frumkvöðull í sókn íslenskra fyrirtækja á erlendan markað.
Greininni fylgir stór mynd af viðskiptamanni ársins 2004 undir fyrirsögninni:
Fremstur í sókninni
Á forsíðu þessa hluta Fréttablaðsins að þessu sinni var risastór andlitsmynd af viðskiptamanni ársins. Á hana er ritað:
Sigurður Einarsson Í fararbroddi innanlands og utan
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna segir:
Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi fyrir hættumerkjum. Flestir miðlarnir voru í eigu sömu aðila og áttu helstu fjármálafyrirtækin...
Vissulega má efast um að það dugi fyrir forseta Íslands að biðjast afsökunar á stuðningi sínum við lögbrjóta.
Tæplega er það þó drengilegri framkoma að biðjast ekki einu sinni afsökunar á því að hafa stutt og mært nákvæmlega sömu menn - og hneykslast á mönnum sem gerðu nákvæmlega það sama og þeir sjálfir, ekki síst nú þegar alvara málsins rifjast upp.
Myndin er úr Ólafsfirði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.2.2015 | 20:49
Vald býr í orðum
Vald er umdeilt. Sagan sýnir að það er vandmeðfarið og geymir mýmörg dæmi um misnotkun valds, bæði veraldlegs og trúarlegs.
Samkvæmt orðabókum má skilja vald sem mátt. Vald er í því fólgið að geta komið einhverju til leiðar, að vald-a einhverju. Þess vegna er ekki hægt að setja samasemmerki á milli valds og misbeitingar þess. Vald er ekki það sama og ofbeldi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru allir menn í þeim sporum að þurfa að beita valdi eða hlýða því. Sjúklingar fara eftir fyrirmælum lækna sinna. Foreldrar gefa börnum sínum ráð sem þeir ætlast til að þau hlýði.
Sá sem býr yfir valdi hefur möguleika á að hafa áhrif á líf annarra. Því er mikilvægt að skilgreina valdið ekki einungis út frá þeim sem misbeita því. Vald er líka hægt að nota til blessunar.
Fleiri en þeir sem tilheyra svokallaðri valdastétt hafa völd. Allir menn geta verið í þeirri aðstöðu að hafa áhrif á líf annarra. Þess vegna stöndum við öll frammi fyrir þeim valkostum að nota valdið sem við höfum til góðs eða ills.
Í heimi trúarinnar er líka fengist við spurninguna um valdið. Þýski guðfræðingurinn Eugen Drewermann benti á að trúarlegt vald geti verið sérstaklega hættulegt vegna þess að trúin höfðar til svo margra þátta í persónu fólks. Hún hefur mótandi áhrif á innstu og dýpstu tilfinninga þess, afstöðu þess til lífsins auk þess að hafa afgerandi áhrif hegðun og framferði manna. Þessvegna þurfa þeir sem fara með trúarlegt vald að vanda sig sérstaklega við meðferð þess. Mikil ábyrgð fylgir svo altæku valdi. Hér þarf íslenska kirkjan að hugsa sinn gang og ef til vill er orðið aðkallandi að hér á landi eigi fórnarlömb trúarlegs ofbeldis kost á sérstakri aðstoð.
Sá hefur vald sem hefur orðið. Þjóðflokkur nokkur í Afríku hefur þá venju að þegar safnast er saman í kringum eldinn á kvöldin til að ræða málin fær sá sem hefur orðið afhentan staf, veldissprota, til að minna hann og aðra á það vald sem hann hefur.
Blaðamenn hafa mikil völd því þeir hafa orðið, ráða bæði því hvaða mál eru tekin fyrir og hvernig þau eru meðhöndluð. Ef blaðamenn neita að viðurkenna völd sín magnast upp hættan á að þeir misnoti vald sitt.
Sú ábyrgð sem fylgir tjáningarfrelsinu er meðal annars í því fólgin að gera sér grein fyrir því að orð hafa áhrif. Vald býr í orðum. Sá sem tjáir sig býr yfir valdi. Því valdi má misbeita. Við getum til dæmis notað frelsi okkar til tjáningar til að hræða aðra frá því að nota sitt tjáningarfrelsi. Allir eiga að geta tjáð skoðun sína og enginn getur búist við því að fá einungis jákvæð viðbrögð við því sem hann segir. Við höfum rétt til að andmæla því sem við erum ósammála og benda á hnökra eða rangfærslur í málflutningi annarra. Felist viðbrögðin við tjáningu fólks á hinn bóginn í persónuárásum, skítkasti eða útúrsnúningum getur slík ofbeldisfull umræða orðið til að fæla það frá því að tjá sig.
Kannski er það einn helsti ókosturinn á opinberri umræðu á Íslandi. Of oft er hún á forsendum orðljótu naglanna og meinhæðnu skraffinnanna. Óframfærinn og feiminn nýbúi með rætur í allt annarri menningu en hér ríkir gæti t. d. veigrað sér við að taka til máls á opinberum vettvangi eigi hann á hættu að verða fyrir persónulegum árásum fyrir vikið eða hans dýpstu og helgustu tilfinningar smánaðar, allt í nafni tjáningarfrelsisins, sem þá er einungis frelsi hinna freku.
Og þá verður opinber umræða að minnsta kosti einu sjónarmiði fátækari.
Fleira en tjáningarfrelsið er hér í húfi. Ég heyri stundum sagt í umræðunni að óþarfi sé að bera virðingu fyrir skoðunum annarra eða það megi hreinlega ekki að bera virðingu fyrir þeim. Ef við skiljum það þannig, að virðing fyrir skoðunum felist í því að andmæla þeim ekki eða jafnvel að samsinna þeim, má vera að það sé réttmæt ábending. Að mínu mati sýnum við þó skoðunum annarra virðingu fyrst og fremst með því að gera fólki ekki upp skoðanir eða skrumskæla, afbaka og rangtúlka það sem því finnst. Og einmitt það finnst mér of algengt í umræðunni á Íslandi. Hér eru menn miskunnarlaust látnir segja eitthvað sem þeir alls ekki sögðu. Eitt dæmi um slíkta vanvirðingu fyrir skoðunum er við hæfi að nefna í þessu samhengi:
Sá sem bendir á nauðsyn þess að vera málefnalegur og sleppa skítkasti er gjarnan úthrópaður fyrir að þola ekki gagnrýni.
Orðum fylgir vald. Könnumst við það, veljum orð af ábyrgð og notum ekki tjáningarfrelsi okkar til að skerða sama frelsi náungans.
Myndin: Hrísey á Eyjafirði
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2015 | 09:22
Bjargað frá björgunarsveitinni
Eitt sinn fékk maður úti á landi þá hugmynd að bregða sér í gönguferð um fjallaskarð yfir í nærliggjandi eyðifjörð. Var hann nokkuð við skál þegar hann lagði af stað. Eiginkona mannsins reyndi að telja honum hughvarf án árangurs. Þegar maðurinn var kominn hátt upp í skarðið skall á svartaþoka og hann vissi ekkert hvar hann var. Ráfaði hann um auðnirnar kaldur og hrakinn og löngu runnið af honum.
Í millitíðinni hafði eiginkonan ræst út björgunarsveitina á staðnum og lét þess getið að göngumaður væri eigi allsgáður. Þar sem hann átti til að vera vondur við vín þótti sveitarmönnum vissara að hafa með sér snæri til að binda manninn. Sumir gripu ennfremur með sér barefli. Þannig búin hélt sveitin til fjalla.
Víkur nú sögunni að manninum, villtum og aðframkomnum. Hann verður afar feginn þegar hann sér grilla í björgunarmenn í þokunni í sínum skærlitu stökkum. Fyllist hann von og nýjum þrótti, hleypur fagnandi til móts við velgjörðarmenn sína en snarstoppar þegar þeir koma á móti honum með steytta hnefa, kylfur reiddar til höggs og sveiflandi snærum.
Átti maðurinn fórum sínum fjör að launa og sagði síðar sjálfur svo frá, að hann hefði rétt sloppið undan björgunarsveitinni til byggða.
Ég mundi eftir þessari sögu í gær þegar ég sá umræðuþátt á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF þar sem skipst var á skoðunum um ástandið í Grikklandi. Grikkir eru vægast sagt illa staddir. Okkur er sagt að Evrópusambandið hafi á undanförnum árum verið að reyna að bjarga þeim.
Úrslit nýafstaðinna kosninga þar í landi má á hinn bóginn skilja þannig að gríska þjóðin sé á flótta undan björgunarsveitinni.
Þátturinn var hinn fróðlegasti og þar kom ýmislegt fram um björgunarpakka Evrópusambandsins handa Grikkjum (sem líklega er best að hafa innan gæsalappa).
Björgunaraðgerðirnar áttu að lækka skuldir Grikkja. Þær hafa á hinn bóginn hækkað úr 120% af þjóðarframleiðslu í 175%. Á tíma björgunaraðgerðanna hefur hagkerfið ennfremur skroppið saman um heilan fjórðung, laun hafa lækkað um 35 40%, atvinnuleysi er núna 27%, atvinnuleysi ungs fólks til 25 ára aldurs er um 60%, að minnsta kosti þriðjungur þjóðarinnar er ekki lengur sjúkratryggður og sumir segja að það gildi um helming þjóðarinnar, tíðni barnadauða hefur vaxið um 43% og sjálfsvígum fjölgað um 45%.
Í þættinum var ennfremur rætt um undanskot frá skatti sem þáttarstjórnandi sagði þjóðarsport í Grikklandi. Dimitri Kamargiannis, grískur athafnamaður, fullyrti að gríska ríkið yrði árlega af svimandi upphæðum vegna skattsvika.
Spurður um skýringar benti hann á, að gríska skattalöggjöfin væri upp á heilar 45.000 síður.
Til að vinna gegn skattsvikum þyrftu Grikkir nýtt og einfaldara skattkerfi.
Fleira fróðlegt heyrðist í þessum þætti sem er aðgengilegur hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2015 | 14:45
Máttur orða
Sagan sýnir að tjáningarfrelsið er viðkvæmt og margir upplifa það sem ógn, ekki síst alræðisöfl, hvort sem þau eru trúarleg eða pólitísk. Þess vegna hafa mennirnir reist allskonar varnarmúra í kringum hina frjálsu tjáningu. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, segir í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og þar er lagt bann við ritskoðun eða öðrum sambærilegum takmörkunum á þessu frelsi. Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós, er ritað í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Þegar mennirnir árétta þannig gildi hinnar frjálsu tjáningar eru þeir að segja að það skipti máli, að maðurinn megi taka til máls og megi tjá sig með orðum, myndum eða öðrum hætti. Það geti skipt sköpum. Orð eru til alls fyrst, segir gömul speki og sönn. Orð mannsins afhjúpa ranglæti. Orð hvetja menn til að ráðast til atlögu við það. Orð hleypa af stað byltingum og setja í gang þróun til hagsbóta fyrir mennina.
Orð eru máttug. Þau hafa áhrif sem geta verið bæði til góðs og ills. Orð verða til blessunar og orð eru bölvaldar. Orð má nota til að æsa menn upp til haturs, hryðjuverka og manndrápa. Orð koma af stað styrjöldum.
Þessvegna hafa mennirnir ekki einungis sett lög og reglur til verndar hinni frjálsu notkun orða og annarrar tjáningar. Mennirnir hafa líka séð sig tilneydda að semja lög til að vernda fólk fyrir orðum. Í íslenskum hegningarlögum segir til dæmis að að sekta megi menn eða fangelsa fyrir að hæðast að, rógbera, smána eða ógna manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.
Sömu takmarkanir á tjáningarfrelsinu er að finna í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þar segir:
Allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður með lögum.
Tjáningarfrelsið er í þágu mannsins. Það á sér tilgang. Það á að vera mönnunum til blessunar en þeir gera sér líka grein fyrir að þessu frelsi má misbeita eins og sagan sýnir. Í fyrrnefndum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna er ákvæðum um tjáningarfrelsið fylgt eftir með þeirri ábendingu, að sérstakar skyldur og ábyrgð felist í því að nota sér þau réttindi.
Frelsið til tjáningar er ekki skylda til tjáningar. Í tjáningarfrelsinu felst líka frelsi til að þegja. Sá sem hefur frelsi til tjáningar hefur frelsi til að ákveða sjálfur hvenær hann tekur til máls og hvenær hann kýs að þegja.
Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Líka tjáningarfrelsinu. Allt frelsi má misnota. Líka tjáningarfrelsið. Allt frelsi verður að nota af dómgreind. Það á líka við um tjáningarfrelsið.
Vestræn löggjöf gerir ekki ráð fyrir miklum takmörkunum á tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins tilgreinir sérstaklega þær lagaskorður sem setja má frjálsri tjáningu. Þar mega þær aðeins vera í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra eins og þar stendur.
Á sama hátt og tjáningarfrelsið skal vera í þágu mannsins eru skorður á því líka einungis leyfilegar, séu þær í þágu mannsins.
Í kjölfar voðaverkanna í París hefur einkum ein takmörkun á tjáningarfrelsi verið til umræðu hér á landi, lög gegn guðlasti, 125. grein almennra hegningarlaga. Samkvæmt henni telst refsivert að smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegra trúfélaga á Íslandi.
Margir hafa bent á að þessi takmörkun á frelsinu til tjáningar sé barn síns tíma og löngu úrelt enda sjaldgæft að þessum lögum sé beitt, þótt ein skýringin á því kunni að vera sú, að mál þar að lútandi er ekki hægt að höfða nema að fyrirlagi ríkissaksóknara.
Ef til vill eru sterkustu rökin gegn þessum guðlastsákvæðum þau, að þessi takmörkun á tjáningarfrelsi sé ekki í þágu manna heldur birtist í þeim þörf fólks fyrir að verja Guð. Þegar maðurinn sér sig knúinn til að semja sérstaka löggjöf til verja Guð fyrir orðum manna, teikningum eða athæfi, getur það lýst vantrú á mætti Guðs.
Guði hlýtur að vera treystandi til að verja sig sjálfur sýnist honum þörf á.
Sagan sýnir líka, að yfirvöld hafa iðulega sett tjáningarfrelsinu skorður til að verja stofnanir og trúarkerfi. Þá hafa menn verið sóttir til saka fyrir að gagnrýna stofnanirnar og kerfin og grafa þannig undan völdum þeirra. Gleymum ekki að Jesú Kristi var gefið að sök að guðlasta þegar hann leyfði sér að gagnrýna viðtekin trúarleg viðhorf síns tíma. Og nú, þegar styttist í stórafmæli siðbótarinnar, skulum við heldur ekki gleyma beinskeyttri gagnrýni hennar á kristna kirkju þess tíma og margar af kenningum hennar. Oft notaði Marteinn Lúther háðið í þeirri beittu gagnrýni, komst í bráða lífshættu fyrir vikið og var í raun lýstur réttdræpur.
Þótt lög gegn guðlasti kunni að vera óþörf og úrelt er alltaf þarft að verja rétt þeirra sem verða fyrir aðkasti og eiga undir högg að sækja. Stundum má níðast á fólki með því að traðka á því sem því er heilagt. Mörkin á milli guðlasts og hatursáróðurs geta verið óljós.
Í umræðu vikunnar hefur örlað á því sjónarmiði að þjóðfélög séu hvorki almennilega frjáls né opin nema þar sé guðlastað, nítt og móðgað í allar áttir til að allir viti, að þar sé tjáningarfrelsið heldur betur virkt og í lagi.
Kannski ættu slík samfélög að hafa fólk í vinnu við að móðga, hneyksla og níða niður það sem öðrum er heilagt, ekki síst nýbúum, til að gera þeim ljóst, að nú séu þeir að hefja búsetu í landi sem kennir sig við fjölmenningu, frið og virðingu fyrir ólíkum menningarheimum?
Án efa eru þó til heppilegri leiðir fyrir þjóðir til að sýna tjáningarfrelsinu þá virðingu sem það á skilið í öllum lýðræðisríkjum.
(Pistill þessi er byggður á prédikun sem ég flutti í Akureyrarkirkju í dag.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2015 | 21:02
Svarið er lýðræðislegra, opnara og mannúðlegra þjóðfélag
Skelfileg eru drápin í París og svo sannarlega eru þau atlaga að tjáningarfrelsi og vestrænum gildum.
Það verður líka skelfilegt ef þessi voðaverk verða vatn á myllu öfgafólks og lýðskrumara hvort sem þeir hatast við fylgjendur Múhameðs spámanns eða önnur trúarbrögð og þjóðfélagshópa.
Það verður skelfilegt ef þau kveikja fordóma í garð friðelskandi og hófsamra múslima og koma af stað bylgju þeirrar sömu íslamófóbíu og við sáum að verki í fjöldamorðunum í Útey um árið.
Það verður skelfilegt ef þessi manndráp verða tilefni ofsókna æsts múgs í okkar upplýstu álfu. Ekki er liðin öld síðan það gerðist síðast.
Réttvísin verður að fá að hafa sinn gang en þegar ég las viðbrögð fólks við atburðum dagsins á samfélagsmiðlum rifjuðust upp fyrir mér orð Jens Stoltenberg, sem var forsætisráðherra Noregs þegar fjöldamorðin í Útey áttu sér stað.
Í minningarathöfn um þá látnu í dómkirkjunni í Osló sagði Stoltenberg:
Vi er et lite land, men vi er et stolt folk.
Vi er fortsatt rystet av det som traff oss, men vi gir aldri opp våre verdier.
Vårt svar er mer demokrati, mer åpenhet og mer humanitet. Men aldri naivitet.
Ingen har sagt det finere enn AUF-jenta som ble intervjuet av CNN:
Om én mann kan vise så mye hat, tenk hvor mye kjærlighet vi alle kan vise sammen.
Myndin er af legsteini í Kirkjugarði Akureyrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2015 | 13:59
Nægir að efast?
Áramótaávörp forseta og biskups hafa orðið tilefni til skoðanaskipta um gagnrýna umræðu og efann eins og ég fjallaði um í síðasta pistlinum hér.
Sá sem beitir gagnrýninni hugsun tekur ekki öllu sem gefnu. Hann staldrar við, og leyfir sér að efast um það sem hann sér. Hann trúir ekki sínum eigin augum.
Efinn er ómissandi fyrir alla sem vilja velta fyrir sér hlutunum með gagnrýnum hætti.
Reyndar á flest af því sem raunverulega skiptir máli í lífinu það sameiginlegt, að um það má efast. Þannig hafa mennirnir löngum glímt við efasemdir um ást, vináttu, heiðarleika, einlægni, Guð og himnaríki, svo nokkuð sé nefnt.
Við efumst meira að segja um okkur sjálf.
Margt af því miklivægasta í lífinu á það ekki einungis sammerkt að um það megi efast; vegna þess að hægt er að efast um það er líka hægt að trúa því.
Og oft er enginn sannleikur meiri en sá sem við höfum efast um, velt fyrir okkur og tekið persónulega afstöðu til. Oft er það sannast sem bæði má efast um og trúa.
Trúin og efinn eru ekki andstæður heldur getur efinn þvert á móti dýpkað trúna og trúin fóðrað efann.
Gagnrýni felur í sér trú: Þegar við til dæmis gagnrýnum þau sem vilja hafa heilbrigðiskerfið þannig að þar geti ríkt fólk keypt sér betri þjónustu en aðrir getur sú gagnrýni stafað af trú á heilbrigðiskerfi sem virkar eins fyrir alla.
Eitt finnst mér ástæða til að minna á í þessari ágætu og þörfu umræðu um efann og gagnrýna hugsun.
Við megum líka hafa efasemdir um neikvæðnina. Við megum efast um umræðuhefð sem einkennist af heift og skítkasti. Við megum skoða með gagnrýnum hætti hvernig við tölum saman, hvert um annað og um okkur sjálf.
Við megum efast um þau gildi sem leiddu yfir okkur hrunið og allan djöfulskap græðginnar.
Við skulum hafna því sem við viljum ekki en við þurfum líka að játast því sem við viljum, vita á hverju við viljum byggja og hvað við viljum endurreisa.
Við þurfum nú sem fyrr bæði efann og trúna.
Myndin er af vetrarríki við Menntaskólann á Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2015 | 00:19
Garg- og græðgisvæðingin
Í áramótaávarpi sínu minnir forseti Íslands á mikilvægi gagnrýninnar umræðu, segir hana forsendu þess að lýðræðið virki og bendir á að aðhald og gagnsæi sé grundvöllur stjórnkerfis okkar.
Forsetinn segir ennfremur að enda þótt þjóðin þurfi að læra af mistökum þurfi hún líka að muna eftir hinum góðu verkum heiðra það sem vel var gert, vita hve oft henni hefur tekist að ná og halda til jafns við aðra; hvaða verk skipa henni í fremstu röð.
Í nýársræðu sinni komst biskup Íslands þannig að orði, að það sé sama hvað sagt sé, allt sé dregið í efa og stutt í hugsanir um annarlegan tilgang eða hagsmunapot.
Þegar menn kjósa að skilja áramótaávarp forseta þannig, að hann sé á móti gagnrýninni umræðu er ekki laust við að manni finnist biskupinn hitta naglann á höfuðið.
Ein markverðra frétta frá nýliðnu ári var um doktorsrannsókn mannfræðinemans Guðbjartar Guðjónsdóttur, en hún rannsakaði reynslu þeirra Íslendinga sem fluttu til Noregs eftir hrunið 2008.
Í fréttinni kemur fram að margir hafi flúið Ísland vegna fjárhagsörðugleika, stökkbreytingu lána og minni vinnu en einnig vegna andrúmsloftsins á Íslandi eftir efnahagshrunið.
Síðan segir í þessari frétt Ríkisútvarpsins:
Þar nefnir fólk í rannsókn Guðbjartar reiðina, heiftina og umræðuna í samfélaginu, sem hafi verið mjög neikvæð."
Það hlýtur að vera öllum umhugsunarefni og þá ekki síst íslenskum ráðamönnum sé fólk farið að hrekjast úr landi vegna neikvæðrar umræðu og heiftar.
Og ekki er það til að bæta ástandið ef þeir sem vekja máls á þessum vanda eru umsvifalaust sakaðir um að vera á móti því að hér eigi sér stað lýðræðisleg og gagnrýnin umræða.
Einhverstaðar las ég að gargvæðing umræðunnar væri lítið skárri en græðgisvæðingin.
Í minni áramótaræðu benti ég á að neikvæðnin og græðgin væru náskyld fyrirbæri.
Hin gráðuga sál er óseðjandi og þess vegna er hún aldrei ánægð með neitt. Græðgin lýsir sér í stöðugri ófullnægju. Mettur maður og sáttur er ekki lengur gráðugur. Eigi að viðhalda græðginni þarf að pumpa upp neikvæðnina og halda jákvæðninni í skefjum.
Það er mikill misskilningur að gagnrýni sé það sama og neikvæðni. Vel er hægt að vera bæði jákvæður og gagnrýninn.
Mínir bestu og beittustu gagnrýnendur hafa haft lag á að vera bæði jákvæðir og uppbyggilegir í gagnrýni sinni. Af þeim hef ég lært mest.
Ýmislegt er aðfinnsluvert á Íslandi. Við þurfum nauðsynlega að vera gagnrýnin og veita valdinu aðhald. Það þýðir á hinn bóginn ekki að bannað sé að vera þakklátur.
Öflugasta mótefnið við græðginni er ekki nægjusemin og alls ekki gagnrýnisleysið eða það að láta allt yfir sig ganga.
Öflugasta mótefnið við græðginni er hin gamla og góða dyggð þakklætisins, það hugarfar að kunna að meta það sem maður hefur og geta glaðst yfir því.
Myndin er af áramótunum í götunni minni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)