30.12.2014 | 19:36
Án orða
Það er góður siður og kurteisi að þakka fyrir sig. Ég hef alltaf litið á fálkaorðuna þannig, að þar sé þjóðin að þakka fyrir sig. Orðan ratar ekki einungis á bringur nokkurra útvalinna Íslendinga heldur líka á milli tanna þeirra sem ekki fengu eða ekki sjá sér fært að þiggja.
Samkvæmt forsetabréfi um hina íslensku fálkaorðu má sæma orðunni innlenda einstaklinga eða erlenda fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar, einstakra þjóðfélagshópa eða landshluta, eða í þágu mikilvægra og góðra málefna á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.
Á heimasíðu fálkaorðunnar kemur fram að hver sem er geti tilnefnt orðuþega. Engin ákvæði eru um fjölda meðmælenda enda eru mörg þjóðþrifaverkin unnin í kyrrþey og utan sviðsljóss fjölmiðla.
Mér finnst góður siður að muna eftir þeim sem leggja eitthvað mikilvægt til samfélagsins, á hvaða sviði sem það er. Eflaust má endurskoða eitt og annað við framkvæmd og tilhögun þessarar viðurkenningar. Mín vegna mætti forsetinn gefa fólki konfektkassa og þakkarskjal ef einhverjum finnast orður hégómlegar en ég skil líka þau rök, að viðurkenningar af þessu kalíberi ættu að vera í varanlegra formi en pappírs og súkkulaðis.
Ég hef ekki orðið var við annað en að fálkaorðuveitingar fari fram með látlausum hætti og án lúðrablásturs þótt almenningur sé að sjálfsögðu upplýstur um hverjir hafi hlotið viðurkenningar þessar. Þær eru alla vega afhentar með mun minna tilstandi en bæði Gríman og Eddan.
Þeir fáu orðuþegar sem ég þekki hafa þegið þennan heiður í auðmýkt og þakklæti og ekki hrópað af þökum um hann.
Að sjálfsögðu er öllum frjálst að afþakka viðurkenningar á borð við fálkaorðuna. Fólk getur haft ýmsar ástæður fyrir því. Mér finnst það þó ekki sérstakt hrósunarefni né tilefni til að hnjóða í þá sem finnst kurteisi að þiggja þennan þakklætisvott frá þjóðinni en að þvi var fundið í nýlegum leiðara í Fréttablaðinu.
Hægt er að heiðra fólk með ýmsum hætti. Þegar ég las Fréttablaðsleiðarann rifjaðist upp fyrir mér að fyrir sjö árum valdi fylgirit Fréttablaðsins, Markaðurinn, viðskiptamann ársins.
Fyrir valinu varð Jón Ásgeir Jóhannesson. Fréttin um val Jóns Ásgeirs var á forsíðu Fréttablaðsins. Forsíða fylgiritsins skartaði risastórri mynd af viðskiptamanni ársins og inni í því var margra síðna viðtal við hann en svo skemmtilega vildi til, að Jón þessi Ásgeir átti bæði þessi blöð og á að því ég best veit enn.
Margt hnyttilegt kemur fram í viðtalinu. Meðal annars spyr blaðið eiganda sinn, sem það hefur nýlega útnefnt viðskiptamann ársins, hvort það væri satt, að hann ætti hundrað milljarða.
Og viðskiptamaður ársins 2007 svarar blaðinu sínu:
Veistu, ég er löngu hættur að telja.
Þess má einnig geta að þetta sama ár lét Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, ekki nægja að velja viðskiptamann ársins heldur útnefndi það líka bestu viðskipti ársins.
Fyrir valinu urðu Icesave innlánsreikningar Landsbankans og í frétt blaðsins af þessum bestu viðskiptum ársins segir:
Þrátt fyrir bankakrísu og áhyggjur samfara Northern Rock héldu Bretar ótrauðir áfram að leggja sparnað sinn inn hjá Landsbankanum.
Ég óska þeim til hamingju sem hlotnast hefur heiður á árinu 2014 og sendi þeim baráttukveðju sem sigldu í gegnum árið orðulaust og án þess að nokkrum þætti það merkilegt.
Það þarf ekki að vera svo afleitt.
Gleðilegt ár!
Bloggar | Breytt 31.12.2014 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.12.2014 | 00:51
Jötubarn
Mikið getur myrkrið verið svart
mikið getur frostið bitið kinn,
mikið getur grjótið verið hart
og grimmur verið fólki heimurinn.
Þá kviknar lítið ljós sem gefur skin,
lófinn smái veitir köldum yl.
Á grýttri leið er gott að eiga vin
og geta ratað jötubarnsins til.
Gleðileg jól!
Myndin: Aðfangadagskvöld heimilishögnans
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2014 | 16:46
Kirkjuheimsóknir skólanna
Það er orðinn fastur liður á aðventunni að þjóðin takist á um um skólaheimsóknir í kirkjur landsins.
Hér eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að benda og minna á:
Í umræðunni hefur oft komið fram töluverður ótti við áhrif kirkjuhúsa, trúarrita og vígðra starfsmanna trúfélaga. Börn mega helst ekki koma inn í kirkjur, ekki lesa Nýja testamentið og ekki hlusta á presta. Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig standi á þessum mikla ótta við afl þess trúarlega, ekki síst þegar í hlut eiga manneskjur sem halda því fram að trúin sé blekking og bábilja og það trúarlega eintóm ímyndun.
Á hinum endanum er kristið fólk sem lítur þannig á, að kirkjur séu algjörlega hlutlaus rými, enginn þurfi að verða fyrir áhrifum af lestri Nýja testamentisins og prestar séu einungis uppfræðarar eða fagmenn í sálgæslu.
Það fólk virðist stundum jafn sannfært um áhrifaleysi þess trúarlega og hinir trúlausu um áhrifamátt þess sama.
Í mínum góðu barnaskólum tíðkaðist ekki að fara í kirkju fyrir jólin og líklega er það rétt sem á hefur verið bent, að þessar aðventuheimsóknir séu tiltölulega ný hefð ein af mörgum nýjum hefðum á þessum tíma ársins. Þess ber þó að geta að þegar ég var í barnaskóla fyrir næstum hálfri öld voru hverskonar vettvangsferðir fremur fátíðar. Skólastarf hefur sem betur fer breyst heilmikið síðan ég var barn. Þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu í samskiptum sínum við skólana. Þar kemur skýrt fram að vettvangsferðir í kirkjur sem liður í fræðslu um kristinn sið séu á forsendum skólans.
Þótt ekki hafi verið til siðs í mínum barnaskóla að fara í kirkju fyrir jólin kynntumst við kristilegu helgihaldi í skólanum sjálfum, sungum bæði sálma og báðum bænir. Þá var þjóðin að langstærstum hluta kristin og í Þjóðkirkjunni. Enn er mikill meirihluti þjóðarinnar kristinn en þeim fer stöðugt fjölgandi sem játa önnur trúarbrögð eða kjósa að standa utan trúfélaga. Að sjálfsögðu á sá hópur sinn rétt. Trúarleg efni eru fólki gjarnan mikil hjartans mál. Þau eru viðkvæm og öllum sem þar að koma og um þau fjalla ber að sýna aðgát og nærgætni.
Ég er samt ekki viss um að rétta leiðin til þess sé sú að útiloka það trúarlega úr skólanum með þeim rökum að hann eigi að vera hlutlaus og veraldlegur eins og það er stundum kallað. Fordómar eyðast ekki við að fjalla ekki um það sem þeir beinast að. Ranghugmyndir leiðréttast ekki með þögninni. Ég held að miklu heillavænlegra væri að gera hinn fjölbreytta og litskrúðuga heim trúarinnar sýnilegan í skólanum að sjálfsögðu á forsendum hans. Mín skoðun er sú, að aldrei hafi verið meiri þörf fyrir slíka fræðslu á okkar tímum og uppeldisstarf sem miðar að því að eyða fordómum og auka umburðarlyndi meðal íslenskrar æsku.
Stundum heyri ég spurt: Værir þú samþykkur því að þitt barn færi í mosku með skólanum sínum og hlustaði þar á ímam tala um einhverja stórhátíð sinnar trúar? Því er auðsvarað: Já, svo sannarlega, ef það væri til þess að auka skilning barnsins á inntaki íslam og auðvelda því að lifa í sátt og samlyndi við fólk af þeim trúarbrögðum.
En væri ég þá ekkert hræddur um að barnið gæti orðið fyrir áhrifum af slíkri heimsókn? Ég veit ekki hvort hræðsla er rétta hugtakið en ég geri mér grein fyrir því að barnið mitt verður fyrir allskonar áhrifum úr umhverfi sínu. Ég ræð þeim ekki. Það er heilmikill boðskapur í veraldlegum jólalögum og ekki síður í jólaauglýsingunum en í jólasálmunum. Sem uppalandi get ég ekki meira en að kenna barninu mínu það sem ég tel vera því fyrir bestu. Það verður síðan sjálft að vinna úr þeirri kennslu og öðrum áhrifum sem það verður fyrir.
Að lokum: Oft hefur því verið haldið fram að jólin séu ekki kristin heldur heiðin. Það er rangt. Rétt er að tímasetning kristinna jóla er ekkert sérkristin. Jól miðast við gang sólar. Tímasetningar á öðrum stórhátíðum kristinna manna koma líka úr náttúrunni. Kristnir menn hafa á hinn bóginn lengi haldið jól, gætt þá hátíð kristnu inntaki og notað hana til að minnast fæðingar Jesú Krists. Kristnir menn fundu heldur ekki upp tónlistina. Þó hefur kirkjan aldrei án hennar verið og engum dettur í hug að halda því fram að tónlistin sé ekki kristin heldur heiðin.
Myndin er af Stólnum í Svarfaðardal
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.12.2014 | 21:48
Djöflast í Ríkisútvarpinu
Umræðan sem nú stendur yfir um Ríkisútvarpið, eina mikilvægustu menningarstofnun samfélagsins, litast af því að þessi sama stofnun hefur lengi verið bitbein íslenskra stjórnmálamanna. Fólkið sem datt ofan í skotgrafirnar í stúdentapólitíkinni vill annaðhvort fá að nota Ríkisútvarpið sem skotgröf sína eða er dauðhrætt um að hinir séu að fá að nota það sem slíka.
Þessi umræða sýnir að minni hyggju að losa þarf þessa sameign þjóðarinnar úr þeirri stöðu að vera áhald sem íslenskir pólitíkusar nota til að berja hver á öðrum. Yfirstjórn þjóðarútvarpsins á að vera skipuð fulltrúum allra helstu fjöldahreyfinga landsins en ekki einungis fulltrúum stjórnmálaflokka.
Nú þegar langflestir íslenskir fjölmiðlar eru í eigu auðvaldsins og er stjórnað af því eykst mikilvægi Ríkisútvarpsins.
Heilbrigt fjölmiðlaumhverfi er ekki einungis fólgið í vönduðum og fjölbreytilegum fjölmiðlum. Það þarf líka mynduga notendur. Myndugir notendur fjölmiðla trúa ekki öllu sem fjölmiðlar flytja. Myndugir notendur fjölmiðla láta ekki mata sig á staðreyndum heldur hugsa og meta það sem þeir sjá og heyra. Myndugir notendur hafa skoðanir á því hvernig fjölmiðlar eigi að vera.
Í heilbrigðu fjölmiðlasamfélagi eru myndugir notendur ófeimnir við að gagnrýna fjölmiðla. Þar kunna fjölmiðlar að taka gagnrýninni, svara henni með rökum og taka tillit til hennar finnist þeim ástæða til.
Ég er að mörgu leyti afar ánægður með Ríkisútvarpið en að mörgu leyti síður ánægður. Og mér þykir það vænt um stofnunina að ég læt óánægju mína í ljós.
Mér finnst að Ríkisútvarpið ætti að reka vandaða sjónvarpsstöð og hafa eina útvarpsrás þar sem áhersla er lögð á menningu og fréttir.
Mér finnst að Ríkisútvarpið mætti sinna landsbyggðinni miklu betur. Það eiginlega nær ekki nokkurri átt að þessi þjóðareign skuli nánast eingöngu starfa í þágu höfuðborgarsvæðisins.
Ég hef ýmislegt fleira um Ríkisútvarpið að segja og læt engan segja mér að hætta að djöflast í því.
Mér má alveg finnast eitt og annað um þessa stofnun því ég á hana í félagi við landa mína.
Myndina tók ég af Pollinum nýlega áður en það fór að snjóa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2014 | 09:51
Klækir ómyndugra leiðtoga
Um klukkan ellefu að kvöldi 20. febrúar árið 2010 sáu lögreglumenn í borginni Hannover í Þýskalandi bíl ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þeir brugðust snart við og stöðvuðu ökutækið. Anganin sem lék um nasir laganna varða þegar bílstjórinn renndi niður rúðu vakti grun þeirra um að neysla áfengra drykkja gæti hafa átt sinn þátt í umferðarlagabrotinu. Nánari athugun þeirra leiddi í ljós að þær grunsemdir áttu við rök að styðjast.
Nú eru svona uppákomur því miður alltof algengar og þarf ekki stórborgir til en þetta tiltekna atvik rataði án umsvifa í þýska fjölmiðla og vakti þjóðarathygli. Bílstjórinn drukkni reyndist nefnilega vera Margot Kaessmann, lútherskur biskup. Ekki stóð á vandlætingum og heldur ekki á stuðningsyfirlýsingum, m. a. frá æðstu yfirstjórn kirkjunnar, sem hét því að styðja Margot ákvæði hún að sitja áfram í embætti.
Aðrir, þeirra á meðal þeir sem áttu erfitt með að sætta sig við konu sem biskup, sáu í stöðunni möguleika á að þeirri byrði yrði af þeim létt.
Margot Kaessmann var ekki lengi að ákveða sig og þann 23. febrúar sagði hún af sér, bæði sem biskup og formaður kirkjuráðs. Ástæðuna fyrir afsögninni sagði hún þá að þetta lögbrot hennar hefði skaðað hana sem leiðtoga og vegna þess gæti hún ekki gegnt trúnaðastörfum sínum af myndugleika.
Ákvörðun Kaessmann var umdeild. Ég sá viðtal við hana á þýskri sjónvarpsstöð. Þar sagði hún að þetta hefði verið mikið áfall og fall úr mannvirðingarstiganum, bæði hinn hættulegi ölvunarakstur og afsögnin í kjölfar hans.
Kaessmann kvaðst á hinn bóginn trúa því að ekki væri hægt að detta lengra en niður í faðm Guðs.
Nú kennir Kaessmann við háskóla, bæði í heimalandi sínu og í Bandaríkjunum. Árið 2012 var hún valin sérstakur sendiherra kirkjunnar vegna siðbótarafmælisins 2017.
Uppi á Íslandi er ekki venja að fólk í ábyrgðarstöðum segi af sér. Þar eins og í útlöndum er stunduð klækjapólitík. Ráðherrar hafa í kringum sig hirð spunameistara sem hafa það hlutverk að afvegaleiða umræðuna, slá ryki í augu fólks og blekkja það, oft með aðstoð og fulltingi þeirra fjölmiðla sem eiga um leið að afhjúpa þetta samsæri stjórnmála- og embættismanna gegn almenningi.
Eitt af því sem okkur hefur mistekist í uppgjörinu við bankahrunið er að bæta stjórnmálamenninguna. Þegar þjóðin varð fyrir þessu eina mesta áfalli og höggi sem hún hefur orðið fyrir þurfti hún umfram allt trúverðuga leiðtoga sem sögðu henni sannleikann - líka þótt hann væri óþægilegur og ekki það sem fólk vildi helst heyra - nutu trausts til að grípa til óþægilegra en nauðsynlegra aðgerða og höfðu lag á að tala við fólk og þjappa þjóðinni saman.
Þegar vanhæfir leiðtogar bregða á það ráð að fá sér spunameistara eru það sömu úrræðin og þegar bjarga átti vonlausum íslenskum bönkum á sínum tíma með því að beita blekkingum og tala þá upp.
Myndin: Gosmóða á Akureyri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2014 | 12:47
Landflótti vegna leiðinda
Nú um helgina komst rithöfundurinn Einar Kárason heldur betur á milli tanna fólks vegna ummæla sem hann lét falla á fésbókarsíðu sinni. Þar sakaði hann íbúa landsbyggðarinnar um frekju og kallaði þá hyski.
Hljóp fram mikil skriða vandlætinga. Persóna Einars var svívirt og birtar voru skopmyndir af manninum.
Ég veit ekki hvaða skoðanir Einar Kárason hefur á flugvellinum í Vatnsmýrinni en ég er sammála honum um að varlega verður að fara í að svipta sveitarfélög réttinum til að skipuleggja umhverfi sitt.
Og við nánari athugun kemur í ljós að Einar Kárason kallaði alls ekki alla íbúa landsbyggðarinnar hyski í þessari færslu. Hann sakaði þá um frekju og yfirgang sem vilja taka skipulagsréttinn af Reykvíkingum og stjórna nærumhverfi þeirra. Þeir eru hyskið sem Einar talar um.
Kannanir sýna að mikill meirihluti landsmanna vill hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er og gildir þá einu hvort þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi.
Getur verið að einhverjir sjái sér hag í því að spilla þeirri samstöðu með því að etja saman íbúum landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar?
Ein leið til þess væri að gera sem mest úr ummælum Einars og draga upp þá mynd af sveitungum hans að þeir væru sama sinnis; tali um hyskið úti á landi á meðan þeir sötra latteið sitt.
Vinur Einars blandaði sér í umræðuna og benti á að rithöfundurinn hefði alls ekki kallað alla hyski sem búa úti á landi og væri m. a. s. sjálfur stoltur af því að vera ættaður þaðan. Vinurinn tók þannig til orða að heimskingjar færu nú að Einari með vopnum. Auðvitað var þeim ummælum snúið við og blásin upp enda buðu þau kannski upp á það og nú er vinurinn, fyrrverandi borgarfulltrúi, sakaður um að kalla íbúa landsbyggðarinnar heimskingja.
Nýlega kynnti Guðbjört Guðjónsdóttir, mannfræðinemi, doktorsrannsókn sína á reynslu Íslendinga sem flutt hafa til Noregs. Í rannsókn Guðbjartar kemur fram að eftir Hrun hafi margir flúið vegna efnahagsástandsins eða atvinnuleysis. Það eru þó ekki einu ástæður þess að fólk flýr land. Andrúmsloftið á Íslandi eftirhrunsáranna á líka sinn þátt í landflóttanum. Í rannsókn Guðbjartar nefnir fólk reiðina, heiftina og hina neikvæðu umræðu í samfélaginu sem ástæður þess að það ákvað að yfirgefa Ísland.
Nú eru ýmis teikn á lofti um að efnahagsástandið sé að batna þótt margt megi vissulega enn betur fara.
Mér finnst umræðan á hinn bóginn ekki skána og jafnvel fara versnandi. Einkenni hennar eru neikvæðni og nöldur. Þau sem leyfa sér að benda á eitthvað jákvætt eru sökuð um að gera það í annarlegum tilgangi. Hér hefur lengi verið þjóðarsport að snúa út úr orðum manna og gera þeim upp skoðanir.
Við trúum helst því versta upp á náungann.
Er það ekki umhugsunarvert fyrir okkur sem þjóð ef fólk farið að flýja Ísland í stórum stíl vegna neikvæðni og leiðinda?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.11.2014 | 08:58
Landsmæður og landsfeður
Nýlega horfði ég á tveggja ára gamlan viðtalsþátt í þýska sjónvarpinu með þarlendum stjórnmálamönnum, þeim Joachim Gauck, forseta Þýskalands, og Helmut Schmidt, fyrrverandi leiðtoga þýskra sósíaldemókrata og kanslara um átta ára skeið.
Schmidt fæddist árið 1918 og upplifði Weimarlýðveldið, valdatíma nasista, heimsstyrjöldina, kalda stríðið og hrun kommúnismans.
Gauck kom í heiminn árið 1940. Hann var prestur í gamla Austur-Þýskalandi og tók virkan þátt í starfi friðarhreyfinganna þar áður en það alræðisríki leið undir lok.
Mikið var gefandi að hlusta á þessa menn. Þeir bjuggu yfir ótrúlegri lífsreynslu og djúpri lífsvisku. Báðir voru þeir gætnir í orðum en jafnframt beinskeyttir og höfðu hvort tveggja víða sýn og skýra. Málflutningur þeirra var laus við óvild, hefndarhug eða heift. Þeir voru það sem hægt er að kalla landsföðurlegir, virðulegir, vel máli farnir, skrumlausir, skynsamir og velviljaðir.
Eftir þáttinn fór ég að hugsa um hvar svona menn væri að finna í heimi íslenskra stjórnmála. Vilhjálmur Hjálmarsson og Matti Bjarna eru í minningunni af þeirri gerð og ekki síður einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnm íslenskum, kjarnakonan Málmfríður Sigurðardóttir.
Vigdís Finnbogadóttir er sennilega landsföðurlegasti núlifandi Íslendingurinn.
Í hópi núverandi leiðtoga í íslenskum stjórnmálum finnst mér fátt um djúpvitra öldunga en Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson gætu orðið það með árunum. Mér finnst þau bæði vera að þróast í góðar áttir sem stjórnmálamenn.
Myndina tók ég í sumar í friðarsafninu í Remagen-brúnni við Rínarfljót í Þýskalandi. Á henni eru númeraspjöld af þýskum hermönnum sem dóu í heimsstyrjöldinni síðari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2014 | 21:26
ESB og andlýðræðið
Ein forsenda þess að lýðræðið þrífist er sú að fram fari umræða um hin ýmsu mál sem fólk þarf að taka afstöðu til. Vanda þarf til þeirrar umræðu. Hér á landi byrjar hún gjarnan á því að umræðustjórar, álitsgjafar og fjölmiðlar halda út á vettvanginn með skóflur og skurðgröfur og grafa þar tvær skotgrafir hvora á móti annarri. Síðan er þátttakendum í umræðunni samviskusamlega skipað ofan í aðra hvora þeirra.
Umræðan sjálf samanstendur af uppstyttulítilli skothríð á milli þessara tveggja grafa þar sem varla heyrast orðaskil fyrir byssuhvellum, sprengjugný og öskrum.
Byssur lögreglunnar eru nýjasta dæmið um þessa umræðuómenningu skothríðarinnar þar sem aðeins rúmast tvö sjónarmið, helst sitt til hvorra öfganna. Þegar biskup Íslands lagði sitt til umræðunnar og sagði það sorglegt að þjóðfélagið skuli vera þannig að lögreglan þurfi að hafa aðgang að byssum komu umræðustjórar aðvífandi og hrundu frú Agnesi umsvifalaust ofan í skotgröfina með byssudýrkendunum og ofbeldisseggjunum.
Sjálfir voru þeir flestir ofan í hinni, með þeim sem eru á móti byssum og hverskonar djöfulskap.
Eitt stærsta deilumál síðustu ára, hugsanleg aðild þjóðarinnar að Evrópusambandinu, hefur hlotið svipaða meðhöndlun. Þar eru eiginlega bara tvö sjónarmið:
Annarsvegar eru landsölumenn. Þeir eru á móti Íslendingum.
Hinsvegar eru þjóðrembingar. Þeir eru á móti útlendingum.
Auðvitað er málið ekki svona einfalt. Aðild fylgja bæði kostir og gallar. Það er umræðunni ekki til gagns að stilla henni upp þannig, að þeir sem lýsa yfir efasemdum um aðild Íslands að Evrópusambandinu séu þar með komnir ofan í skotgröfina með einangrunarsinnunum og svonefndum Evrópuandstæðingum.
Þýski eðalkratinn Klaus von Dohnányi, sem bæði hefur verið menntamálaráðherra Þýskalands og borgarstjóri í Hamborg, er mikill og einlægur Evrópusinni. Í nýlegum viðtalsþætti á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF lýsti hann þeirri skoðun sinni, að smæstu stjórnunareiningarnar, t. d. á héraðs- eða sveitarstjórnarstigi, ættu að hafa sem flest mál á sinni könnu. Fólk þyrfti að hafa góða tilfinningu fyrir sínu lýðræðislega heimili.
Það heimili gætu Þjóðverjar ekki fundið í Brussel. Ýmis völd hefðu verið tekin frá fólki og flutt til Evrópusambandsins. Sum þeirra ættu best heima þar en öðrum þyrfti að skila til baka, færa aftur heim í hérað og nær fólkinu. Því miður hefði yfirstjórn Evrópusambandsins takmarkaðan skilning á því. Það væri ein helsta ástæðan fyrir uppgangi þjóðernissinnaðra flokka í Evrópu. Rétta svarið við þeirri uggvænlegu þróun segir von Dohnányi að hugsa upp á nýtt hvernig völdum er skipt á milli Brussel og einstakra aðildarríkja. Grundvallarreglan eigi að vera sú, að það sem best eigi heima á sveitarstjórnar- eða héraðsstigi eigi að fá vera þar. Það gildi augljóslega ekki um baráttuna gegn ebólu eða heimsfjármálin, svo dæmi séu tekin en Von Dohnányi segir að t. d. David Cameron hafi á réttu að standa um að ESB verði að skila Bretum völdum til baka. Von Dohnányi bendir líka á að hollenska ríkisstjórnin hafi farið fram á svipaða valdaeftirgjöf frá ESB í 54 liðum. Þjóðríkin séu grundvallareining í ríkjasambandi eins og ESB og sumt sé best að ákvarða á vettvangi þeirra.
Í þættinum var rætt um möguleikann á heimi án sjálfstæðra þjóðríkja sem lyti einni alheimsstjórn. Mörgum finnst það eftirsóknarvert fyrirkomulag. Von Dohányi kvaðst ekki vera einn af þeim. Hann benti á að rödd Þýskalands yrði veik á slíku allsherjarþingi.
Þar eru á ferðinni sömu rök og maður heyrir oft um vægi Íslands á þingi Evrópusambandsins.
Í þættinum kom fram að sé almenningur í Þýskalandi ósáttur við eitthvað sem ESB samþykkir þurfi að fara til Brussel til að mótmæla. Ekki nægi að mótmæla í höfuðborg sinni. Þannig verði lýðræðið fjarlægara fólki og erfiðara fyrir það að nýta sér rétt sinn til mótmæla. Það sem samþykkt hefur verið á vettvangi ESB hefur af þeim sökum tilhneigingu til að meitlast í stein og vera nánast óbreytanlegt. Það getur leitt til stöðnunar.
Don Dohnányi hefur lengi haft áhuga á nýjum samskiptamöguleikum og meðal annars kynnt sér kenningar hins kunna kanadíska fjölmiðla- og bókmenntafræðings Marshall McLuhan sem fyrstur manna notaði hugtakið heimsþorp (global village). Von Dohnányi sagði að enda þótt menn geti eignast vini á facebook og verið í öflugri samskiptum við þá en þann sem býr í næstu íbúð, þurfi fólk að finna að það geti haft áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hann efast um að fólk sé tilbúið að afsala sér þeim möguleikum og afhenda þá einhverju fjarlægu valdi sem það er ekki í neinum tengslum við. Mörgum finnist Evrópa of stór að þessu leyti.
Í lok þáttarins var Von Dohnanyi spurður að því hvort þjóðríkið yrði ennþá til eftir 50 ár.
Svarið var laggott:
Já.
Myndin er tekin upp Glerárdalinn á öðrum degi vetrar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2014 | 09:04
Byssuglamur
Í gær fluttu íslenskir fjölmiðlar þær fréttir að lögregla landsins væri að vígbúast stórkostlega og hefði í því skyni fest kaup á 200 hríðskotabyssum. Hefði töluverðum fjármunum verið varið til kaupanna og heyrðust nefndar upphæðir allt að hálfum milljarði íslenskra króna. Var málið samstundis tekið upp á Alþingi þar sem talað var um sömu peningaupphæðir og stjórnvöld gagnrýnd harðlega fyrir að kaupa byssur á meðan skorið væri niður í skólum og á spítölum.
Eðlilega urðu mikil viðbrögð við þessum tíðindum og snjóboltinn fitnaði eftir því sem hann rann lengra niður fjallið. Fólk sá fyrir sér laganna verði í Skagafirði vopnaða hríðskotabyssum stoppa stressaða Akureyringa á ólöglegum ökuhraða. Sú saga fékk fætur á samfélagsmiðlum að stjórnvöld væru að byssuvæða lögregluna til að hún gæti skotið á mótmælendur á Austurvelli eða aðra sem henni væri illa við.
Þegar forsætisráðherra landsins leyfði sér að beita kaldhæðni á sömu miðlum og benda fólki á að spyrja fyrst og skjóta svo, ekki síst þegar um hríðskotabyssur væri að ræða, áttu margir ekki til orð til að lýsa því smekkleysi.
Fljótlega eftir að fréttirnar birtust komu aðrar sem drógu þær fyrri í efa. Byssurnar væru ekki 200 heldur 150. Þær hefðu ekki verið keyptar fyrir hálfan milljarð króna heldur væru vopnin gjöf frá norsku lögreglunni sem væri að endurnýja byssueign sína. Lögreglumenn á Íslandi ættu ekki að vera vopnaðir við störf sín og hvorki væri verið að breyta reglum um vopnaeign lögreglunnar né auka heimildir lögreglumanna til að beita skotvopnum. Lögreglan hefði áður átt sambærileg vopn sem væru nú úrelt. Vopnabúr lögreglunnar hefði reyndar oft verið stærra.
Auðvitað á það ekki að ganga þegjandi og hljóðalaust fyrir sig ef breyta á fyrirkomulagi löggæslu á Íslandi. Á táningsárum mínum man ég vel eftir því þegar keflvískur frændi minn bauð mér og sex ára systur minni í bíltúr upp á Völl. Þar vorum við stöðvuð af herlögreglumanni og hafði sá skammbyssu dinglandi í hulstri við læri. Þegar systir mín sá herlögguna varð hún skelfingu lostin og brast í grát því hún hafði aldrei séð manneskju með skotvopn áður. Á Akureyri sem annars staðar á Íslandi þess tíma voru hvítmálaðar lögreglukylfurnar einu vopnin sem fólk sá í fórum laganna varða. Þær veittu ekki þyngri högg en kökukeflin sem finna má í eldhúsum flestra heimila.
Þannig var Ísland þá. Ég sakna þess en sennilega er það þjóðfélag endanlega horfið. Hinn íslenski veruleiki er núna annar og á margan hátt nöturlegri. Því miður hefur Ísland glatað þessu sakleysi sínu ef við höfum einhvern tíma átt það. Íslendingar geta verið þakklátir fyrir margt. Þó erum við ekki best í heimi. Hér eru glæpir eins og í öðrum löndum og hér geta menn verið hættulegir sér sjálfum og umhverfi sínu. Ég er ekkert viss um að íslenskir lögreglumenn sinni síður hættulegum verkefnum en starfssystkini þeirra í útlöndum þótt umfangið sé vonandi minna hér en hjá fjölmennari þjóðum.
Langstærstan hluta verkefna sinna getur lögreglan þó unnið án vopna. Þannig viljum við held ég flest hafa þessa þjóna okkar. Umræða um vopnaburð lögreglunnar er þörf. Hana þarf þó að byggja á öðru en sögusögnum, dylgjum eða hreinum ósannindum. Umræðan verður aldrei til gagns nema þátttakendur í henni séu vel upplýstir.
Stundum finnst manni sumt í fjölmiðlun og umræðumenningu hér á landi sýna, að við Íslendingar þurfum alla vega ekki byssurnar til að búa til hávaða.
Myndin: Veturinn kemur í Skíðadal.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2014 | 08:56
Stríðið gegn svefninum
Á nýafstöðnum dömulegum dekurdögum í höfuðstað Norðurlands stóð dömum bæjarins til boða allskonar góss á dekurverði, m. a. hægindastólar, skór, listmunir, nærbuxur, snyrtivörur, veitingahúsamáltíðir, tertur, fatnaður og skartgripir. Í Dagskránni, helsta auglýsingamiðli Akureyrar og nágrennis, kemur aukinheldur fram að á dekurdögunum gefist akureyskum kvenpeningi kostur á ýmsum viðburðum, svo sem konukvöldi, hár- og tískusýningu, happy hour og jafnvel utanlandsferðum. Langflestum auglýsinganna í þessu tölublaði var beint til kvenna nema kannski síst þeirri frá Meindýravörnum Axels.
Á netútgáfu annars fjölmiðils gagnrýndi lektor við Háskólann á Akureyri dekurdagana. Eitt aðfinnsluefnið er að dagarnir séu of neyslumiðaðir. Skilaboðin sem þeir sendi séu, að konur láti stjórnast af neyslu og hugsi fyrst og fremst um útlit sitt. Í fréttinni er haft eftir bæjarstjóranum á Akureyri að áhyggjuefni sé ef þetta framtak fari að snúast um eitthvað annað en upphaflega var ætlað.
Það gæti reyndar átt við um fleiri framtök og atburði og hátíðir, að þau séu farin að snúast um eitthvað allt annað en meiningin var í byrjun. Oft hefur því t. d. verið haldið fram um jólin, að þau séu löngu hætt að snúast um það sem maður hélt að ætti að vera kjarni þeirra. Jólin eru einhver almesta neysluhátíð ársins sem er töluverð kaldhæðni í ljósi þess að kristnir menn halda þau í minningu barns sem fæddist í allsleysi.
Sama gagnrýni heyrist á fermingarnar og fermingarbörn landsins (a. m. k. þau sem fermast í kirkju) eru sökuð um að þau séu bara að fermast gjafanna vegna. Það hvernig við höldum upp á hátíðir og tímamót er að mörgu leyti aðfinnsluvert. Mér finnst samt alltaf dálítið undarlegt þegar fermingarbörnin verða helstu skotmörkin í þeirri gagnrýni. Það eru ekki fermingarbörnin sem semja allar auglýsingarnar um fermingargóssið eða flytja inn öll þau ósköp sem þarf að kaupa til að geta fermt barnið sitt almennilega trúi maður öllum auglýsingunum. Það eru heldur ekki fermingarbörnin sem kaupa allan þennan varning og fermingarbörnin hafa heldur ekki skapað þennan mikla neyslu- og sölukúltur í kringum þessi tímamót.
Árið eftir Hrun var ég að hlýða fermingardreng yfir boðorðin. Þau runnu upp úr honum viðstöðulítið. Við spjölluðum saman um merkingu boðorðanna. Ég spurði drenginn hvað það þýddi til dæmis að halda hvíldardaginn heilagan.
Eftir stanslaust hruntal næstliðinna mánaða svaraði stráksi sprakri röddu, að fólk hefði hvort eð er ekki efni á öðru en að halda hann heilagan.
Ég fyllist alltaf dísætri nostalgíu þegar ég rifja upp sunnudagana í gamla daga. Þeir hófust með hreyfisöngvum og skuggamyndum frá Afríku í sunnudagaskólanum í Zíon, síðan snæddi ég stundum verkamannasteik eða hrossagúllas og ávaxtagraut með rjómablandi hjá ömmu og afa niðri á Eyri. Þá gaf amma mér stundum pening í þrjú bíó. Í þá daga var maður alltaf klæddur í heldur betri föt á sunnudögum og þeir voru í eðli sínu öðruvísi en aðrir dagar vikunnar.
Þegar ég bjó í Ólafsfirði heyrði ég að fyrr á tíð hefði tíðkast, að borgarar klæddu sig í sparifötin og fengju sér labbitúr fram og aftur í Ósbrekkusandinum ef veður var hagstætt
Nú hafa sunnudagarnir allt annan svip og ef einhver sést í Ósbrekkusandinum er hann sennilega í flíspeysu. Sunnudagarnir eru ekki lengur jafn frábrugðnir öðrum dögum og þeir voru. Þeir eru ekki lengur sömu hvíldardagarnir, til dæmis hvorki fyrir starfsfólk verslana né viðskiptavini þeirra. Þvert á móti eru skipulagðir sérstakir viðburðir og hámessur í öllum helgidómum neyslunnar til að tryggja að henni sloti helst aldrei.
Í bók sinni, 24/7 fjallar Jonathan Crary, háskólaprófessor í New York, um stríðið sem hann segir háð gegn svefninum og hvíldinni. Hann segir frá því að nú rannsaki vísindamenn bandaríska hersins hvernig fuglategund geti á haustin flogið alla leið frá Alaska til Mexíkó. Flugið tekur sjö daga og allan þann tíma halda fuglarnir sér vakandi. Draumur vísindamannanna sé að gera hermönnum kleift að halda sér vakandi svona lengi í einu. Crary segir að sagan sýni, að framfarir í stríðsrekstri birtist gjarnan síðar á öðrum sviðum mannlífsins. Þannig gæti hinn sívakandi hermaður verið undanfari hins sívakandi neytanda eða verkamanns.
Hvorki í kristni né gyðingdómi er hvíldardagurinn bara hugsaður út frá forsendum hversdagsins. Hugsunin er ekki sú að hvíldardaga eigi menn að nota til að vera betur í stakk búnir til að takast á við verkefni vikunnar, vinnu og neyslu. Hvíldardagurinn felst ekki í því að safna kröftum fyrir næsta sprett lífsgæðakapphlaupsins. Hvíldardagurinn er þvert á móti til að minna okkur á að við erum ekki bara neytendur eða vinnuþrælar. Við erum menn og mennska okkar felst í því að við erum fær um að njóta lífsins, rækta tengslin við Guð, okkur sjálf og okkar nánustu. Í mennsku okkar eigum við að geta upplifað hina margháttuðu blessun þess að vera til. Hvíldardagurinn var skapaður til þess að gera okkur það kleift. Hvíldardagurinn er til að minna okkur á af hverju við lifum hér á þessari jörðu og hvað er okkur raunverulega mikilvægt og dýrmætt.
Stanslaust er verið að hvetja okkur til að slá aldrei slöku við. Þótt dömulegir dekurdagar auðgi svo sannarlega tilveruna og von mín sé sú að sem flestar dömur, ungar sem aldnar, leyfi sér að dekra og dúlla við sig á þeim dögum sem öðrum, þá er heilmikið til í því, að samfélag okkar sé í sívaxandi mæli neysludrifið. Oft er eins og ekkert annað skipti máli en að tryggja með öllum ráðum aukna neyslu. Okkur er talin trú um að við megum helst aldrei slaka neitt á því þá gætum við verið að missa af einhverju stóru. Við megum hvorki lina tökin né hægja á.
Kannski er svefninn eitt síðasta vígið sem markaðsöflin hafa ekki unnið?
Þegar við lokum augunum og sofnum, gleymum við okkur sjálfum, felum okkur svefninum á vald og getum sofnað sætt þó að við höfum ekki lengur meðvitaða stjórn á okkur sjálfum - og kannski einmitt vegna þess. Í svefninum linum við tökin, slökum á og gleymum okkur.
Tilgangur hvíldarinnar og þess að slaka á er ekki síst fólginn í því að láta okkur finna, að það er ekki allt undir okkur sjálfum komið. Við megum gleyma okkur og treysta einhverju öðru.
Í hvert sinn sem við lokum augunum og hverfum inn í heim draumanna megum við treysta því að yfir okkur er vakað.
Myndina tók ég í sumar í Val di Cecina í Toskana á Ítalíu skömmu áður en ég tók á mig náðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)