Kirkjuheimsóknir skólanna

DSC_0087

 

Það er orðinn fastur liður á aðventunni að þjóðin takist á um um skólaheimsóknir í kirkjur landsins.

Hér eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að benda og minna á:

Í umræðunni hefur oft komið fram töluverður ótti við áhrif kirkjuhúsa, trúarrita og vígðra starfsmanna trúfélaga. Börn mega helst ekki koma inn í kirkjur, ekki lesa Nýja testamentið og ekki hlusta á presta. Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig standi á þessum mikla ótta við afl þess trúarlega, ekki síst þegar í hlut eiga manneskjur sem halda því fram að trúin sé blekking og bábilja og það trúarlega eintóm ímyndun.

Á hinum endanum er kristið fólk sem lítur þannig á, að kirkjur séu algjörlega hlutlaus rými, enginn þurfi að verða fyrir áhrifum af lestri Nýja testamentisins og prestar séu einungis uppfræðarar eða fagmenn í sálgæslu.

Það fólk virðist stundum jafn sannfært um áhrifaleysi þess trúarlega og hinir trúlausu um áhrifamátt þess sama.

Í mínum góðu barnaskólum tíðkaðist ekki að fara í kirkju fyrir jólin og líklega er það rétt sem á hefur verið bent, að þessar aðventuheimsóknir séu tiltölulega ný hefð – ein af mörgum nýjum hefðum á þessum tíma ársins. Þess ber þó að geta að þegar ég var í barnaskóla fyrir næstum hálfri öld voru hverskonar vettvangsferðir fremur fátíðar. Skólastarf hefur sem betur fer breyst heilmikið síðan ég var barn. Þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu í samskiptum sínum við skólana. Þar kemur skýrt fram að vettvangsferðir í kirkjur sem liður í fræðslu um kristinn sið séu á forsendum skólans.

Þótt ekki hafi verið til siðs í mínum barnaskóla að fara í kirkju fyrir jólin kynntumst við kristilegu helgihaldi í skólanum sjálfum, sungum bæði sálma og báðum bænir. Þá var þjóðin að langstærstum hluta kristin og í Þjóðkirkjunni. Enn er mikill meirihluti þjóðarinnar kristinn en þeim fer stöðugt fjölgandi sem játa önnur trúarbrögð eða kjósa að standa utan trúfélaga. Að sjálfsögðu á sá hópur sinn rétt. Trúarleg efni eru fólki gjarnan mikil hjartans mál. Þau eru viðkvæm og öllum sem þar að koma og um þau fjalla ber að sýna aðgát og nærgætni.

Ég er samt ekki viss um að rétta leiðin til þess sé sú að útiloka það trúarlega úr skólanum með þeim rökum að hann eigi að vera hlutlaus og „veraldlegur“ eins og það er stundum kallað. Fordómar eyðast ekki við að fjalla ekki um það sem þeir beinast að. Ranghugmyndir leiðréttast ekki með þögninni. Ég held að miklu heillavænlegra væri að gera hinn fjölbreytta og litskrúðuga heim trúarinnar sýnilegan í skólanum – að sjálfsögðu á forsendum hans. Mín skoðun er sú, að aldrei hafi verið meiri þörf fyrir slíka fræðslu á okkar tímum og uppeldisstarf sem miðar að því að eyða fordómum og auka umburðarlyndi meðal íslenskrar æsku.

Stundum heyri ég spurt: Værir þú samþykkur því að þitt barn færi í mosku með skólanum sínum og hlustaði þar á ímam tala um einhverja stórhátíð sinnar trúar? Því er auðsvarað: Já, svo sannarlega, ef það væri til þess að auka skilning barnsins á inntaki íslam og auðvelda því að lifa í sátt og samlyndi við fólk af þeim trúarbrögðum.

En væri ég þá ekkert hræddur um að barnið gæti orðið fyrir áhrifum af slíkri heimsókn? Ég veit ekki hvort hræðsla er rétta hugtakið en ég geri mér grein fyrir því að barnið mitt verður fyrir allskonar áhrifum úr umhverfi sínu. Ég ræð þeim ekki. Það er heilmikill boðskapur í veraldlegum jólalögum og ekki síður í jólaauglýsingunum en í jólasálmunum. Sem uppalandi get ég ekki meira en að kenna barninu mínu það sem ég tel vera því fyrir bestu. Það verður síðan sjálft að vinna úr þeirri kennslu og öðrum áhrifum sem það verður fyrir.

Að lokum: Oft hefur því verið haldið fram að jólin séu ekki kristin heldur heiðin. Það er rangt. Rétt er að tímasetning kristinna jóla er ekkert sérkristin. Jól miðast við gang sólar. Tímasetningar á öðrum stórhátíðum kristinna manna koma líka úr náttúrunni. Kristnir menn hafa á hinn bóginn lengi haldið jól, gætt þá hátíð kristnu inntaki og notað hana til að minnast fæðingar Jesú Krists. Kristnir menn fundu heldur ekki upp tónlistina. Þó hefur kirkjan aldrei án hennar verið og engum dettur í hug að halda því fram að tónlistin sé ekki kristin heldur heiðin.

Myndin er af Stólnum í Svarfaðardal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Enn er mikill meirihluti þjóðarinnar kristinn en þeim fer stöðugt fjölgandi sem játa önnur trúarbrögð eða kjósa að standa utan trúfélaga. 

Svavar, samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið á trúarlífi Íslendinga, þá segjast ~50% játa kristna trú. 

Flokkar þú fólk sem kristið af því að það var sjálfkrafa skráð í ríkiskirkjuna sem barn?

Svo held ég að andstaðan við þessar ferðir sé svona mikil af því að fólk telur þetta einmitt ekki vera gert sem "fræðslu" á "forsendum skólans". Hvað eru börnin að læra þarna sem þarf að endurtaka fyrir þau ár eftir ár?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 15.12.2014 kl. 17:08

2 Smámynd: Óli Jón

Svavar: Þú ferð býsna nálægt því að ljúga hreint og klárt þegar þú segir:

Börn mega helst ekki koma inn í kirkjur, ekki lesa Nýja testamentið og ekki hlusta á presta.

Þetta er ekki rétt og þú veist það vel. Enginn gerir athugasemdir við það að foreldrar fari með börn í kirkju eða þá að börnin sjálf fari í kirkju. Hins vegar eru gerðar athugasemdir við það að farið sé með auðtrúa börn í kirkju á skólatíma þar sem þeim er sagt að Jesús sé besti vinur barnanna.

Þetta er ódýr og léleg veiðimennska og álíka erfitt og að veiða epli upp úr tunnu, en Ríkiskirkjan er hálf metnaðarlaust apparat og gerir sér þetta því að góðu. Svo er líka að flæða undan henni og þess vegna helgar tilgangurinn bragðvont meðalið.

Athugum að enginn myndi gera athugasemdir við heimsóknir kirkjunnar í framhalds- og háskóla eða það að nemendum úr þessum skólum væri ekið í trúboðið á skólatíma. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þar er um að ræða fólk sem hefði sjálfstæða og upplýsta skoðun á tilboði kirkjunnar og þess vegna reynir hún ekki einu sinni að sækja á þau miðin. En óhörðnuðu smábörnin, þau eru sýnd veiði og gefin!

Þetta er aumur málflutningur, það er ekkert annað hægt að segja um hann!

Óli Jón, 16.12.2014 kl. 10:21

3 identicon

Í auglýsingu, sem formaður Mannréttindaráðs Reykjavíkur, vakti athygli á kom fram að nemendur og starfsmenn Langholtsskóla myndu fara í Langholtsskirkju og þar myndi prestur flyja hugvekju. Jafnframt kom fram í auglýsingunni: "Kennarar sjá um skemmtilega stund í skólanum fyrir þá sem ekki fara í kirkjuna. Foreldrar eru beðnir að láta umsjónarkennara vita ef börnin þeirra fara ekki í kirkju."

Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram:

"Grunnskólar skulu leitast við að haga störfum sínum þannig að nemendur þurfi ekki að fá undanþágu frá ákveðnum þáttum skólastarfs vegna trúar- og lífsskoðana sinna."

Er þessi auglýsing ekki í ósamræmi við ofangreint sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla?

Kristján Sturluson (IP-tala skráð) 16.12.2014 kl. 12:38

4 identicon

Svabbi og kirkjan eru í örvæntingu að ráðast að börnum með dogmað, kirkjan veit vel að hún er að hruni komin, ekkert getur bjargað henni, ekki einu sinni þessi fáránlegi leikur að aðskilja börn vegna trúarskoðana í grunnskólum.

Leggja hempunni Svabbi, þetta er búið :)

DoctorE (IP-tala skráð) 16.12.2014 kl. 13:27

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Í Noregi hefur nákvæmlega sama umræða farið fram um þessa hluti. Þar tíðkast að skólabörn fara í messur fyrir jólin en þeir sem ekki vilja það fá í staðinn að heimsækja elliheimili og það er reyndar mjög vinsælt meðal barnanna að velja þann kostinn. Nýverið var gerð skoðanakönnun meðal ungs fólks undir 30. Niðurstöður voru að 2/3 þessa hóps voru á móti kirkjuferðum. gerð var könnun fyrir ca. tveim árum um trúhneigð fólks í Noregi. Niðurstöður voru að rúmlega 40% töldu sig vera trúaða. Hlutirnir eru að breytast hvað varðar trúarlíf-með kynslóðaskiptum. En mér finnst fólk fara svolítið offari í þessum málum.Það er ekkert að því að farið sé með börn í vettfangsferðir í kirkju fyrir jólin. En reyndar finnst mér það eigi að vera á hendi foreldrafélaganna að fara með börnin og þá utan skólatíma. Og ég held líka að foreldrar með aðrar trúarskoðanir en kristinnar eða bara alls engar eigi að vera alls óhræddir að leyfa sínum börnum að ákveða það sjálf hvort þau koma með eða ekki. Ég hef kynnst og talað við múslima sem búa í Noregi og þeir segja allir að þeir hafi ekkert á móti því að þeirra börn fari í kristnar kirkjur og kynni sér siði heimalandsins enda líta þeir svo á að guð kristinna og múhameðstrúarmanna sé sá sami.Ég held að andstaðan sé aðallega hjá trúlausum sem ég er reyndar. Ég held að við eigum að ræða þessi mál af yfirvegun en sleppa öfgunum.

Jósef Smári Ásmundsson, 16.12.2014 kl. 14:15

6 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Undarlegt að sumt fólk virðist vera reitt yfir því að þjóðkirkjan sé eina trúfélagið sem nennir að kynna sig fyrir grunnskólabörnum.

Hreinn Sigurðsson, 18.12.2014 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband