12.10.2014 | 21:22
Fáir eru eins og fólk er flest
Á fyrsta námsári mínu í Háskóla Íslands fyrir 34 árum var ég kallaður inn á skrifstofu til prófessors. Ég man að skrifstofan var gjörsamlega sneisafull af bókum. Bækur í öllum hillum, skrifborð prófessorsins þakið bókum, blöðum og fræðiritum, bækur í hrúgum á stólum svo ég gat hvergi sest og varla hægt að standa á skrifstofugólfinu því þar stóðu á víð og dreif myndarlegar bókasúlur. Þessar vistarverur voru svo yfirfullar af visku og þekkingu að fávís stúdent að norðan gat ekki annað en fyllst af lotningu.
Prófessorinn reykti pípu og ræddi við mig um eitt og annað í gegnum reykinn. Við vorum sammála um að ástand heimsmála væri grafalvarlegt en þá var kjarnorkuvopnakapphlaupið að ná slíku hámarki að mannkynið var orðið fært um að eyða sjálfu sér og jarðarkringlunni ótalmörgum sinnum.
Ég orðaði það þannig að þetta væri nú ,,algjör geðveiki.
Þá man ég að prófessorinn tók pípuna út úr sér og bað mig lengstra orða að tala ekki svona illa um geðveikina. Hún væri hluti af lífinu.
Á alþjóðlegum degi geðheilbrigðis skulum við hugleiða hvernig skilja megi hugtakið ,,heilbrigði. Sumum finnst að það heilbrigða hljóti að vera skylt því sem telst venjulegt og eðlilegt. Það óheilbrigða á hinn bóginn því óvenjulega og óeðlilega.
Eigi sú skilgreining við rök að styðjast eiga trúin og geðveikin ýmislegt sameiginlegt. Trúin er á skjön við það venjulega. Í heimi trúarinnar tíðkast ýmislegt sem ekki á að geta gerst í sæmilega normal heimi. Konur verða barnshafandi án þess að hafa karlmanns kennt. Blindir fá sýn. Dauðir lifna við.
Inni í kirkjuhúsunum er margt í gangi sem við sjáum ekki í hinum venjulega heimi. Þar klæðast menn sérkennilegum fötum, tala undarlegt mál, neyta skrýtinnar fæðu, syngja framandi söngva og í sumum kirkjum tala menn tungum og falla í trans.
Í vissum skilningi er hver einasta messa geðveik. Messur eru öðruvísi en veruleikinn. Messur fara út fyrir ramma þess venjulega. Messur eru á skjön við það sem margir telja eðlilegt. Það trúarlega er á margan hátt fáránlegt.
Þess vegna er það engin tilviljun að hin heilaga fíflska á sér ýmsar birtingarmyndir í trúarbrögðum heimsins. Hún sést í taóisma, zen-búddisma og indverskum átrúnaði. Í kristni má sjá hina heilögu fíflsku í því þegar Davíð dansaði allsber fyrir framan sáttmálsörkina í Jerúsalem, Jesaja spámaður sprangaði um á Adamsklæðum í heil þrjú ár og þegar kollegi hans Esekíel fékk fyrirmæli um að baka brauð sitt við þurrkaðan mannaþrekk eins og það var kallað.
Meira að segja frelsarinn sjálfur sýndi ákveðna fylgni við þessa hefð fíflskunnar þegar hann kom ríðandi á asna inn í borgina helgu.
Í sögu kirkjunnar eru ýmis dæmi um heilög fífl sem fóru út fyrir ramma þess sem talið var eðlilegt og tilhlýðilegt. Á sjöttu öld sögðu þau Teofílus og María frá Antíokkíu skilið við lífshætti fyrirfólks vegna trúar sinnar. Hann gekk um í skrípabúningi en hún eins og vændiskona. Kristni einsetumaðurinn Sýmeon frá Emesa gekk á milli kirkna, kastaði valhnetum í kirkjugesti, velti um borðum götusala, ruddist inn í baðhús kvenna og kjamsaði á þykkum kjötsteikum á föstunni.
Enda þótt margir tengi kirkju og kristni fyrst og fremst við hátíðleika og íhaldssemi segir hefðin og sagan að þar sé líka pláss fyrir það afbrigðilega. Í kirkjunni ætti að vera skilningur á því að þeir eru einkennilega fáir sem eru eins og fólk er flest.
Og ef geðheilbrigði er í því fólgið að vera eins og hinir ættum við öll að passa okkur á því að vera ekki alltof heilbrigð að því leyti. Tilveran væri bæði litlaus og leiðinleg og andlaus ef allir væru eins. Það sem gerir tilveruna fjölbreytilega, skemmtilega og ævintýri er það ástand, að ekkert okkar er fullkomlega heilbrigt, ekkert okkar fellur nákvæmlega að skilgreiningunni á andlega heilbrigðri manneskju heldur erum við öll misheilbrigð og misgeðveik. Við erum öll mismunandi blöndur af eftirsóknarverðum og síður eftirsóknarverðum eiginleikum.
Í grein á Vísindavef Háskóla Íslands segir Gylfi Ásmundsson, sálfræðingur, að ný sjónarmið leggi áherslu á að ,, andlegt heilbrigði einstaklings byggist á því að hann sé sjálfstæður, óháður og skapandi, áhrifavaldur á umhverfi sitt en ekki þræll þess.
Á degi geðheilbrigðis er gott að minna sig á að vera ekki þræll umhverfisins heldur hafa skapandi áhrif á það. Verum óhrædd við að vera öðruvísi.
Afbrigðileikinn er á vissan hátt ein forsenda heilbrigðs samfélags.
Geðveikin er hluti af lífinu.
Blessuð sé minning prófessorsins sem kenndi mér það.
(Hugvekja í geðveikri messu í Akureyrarkirkju 10. 10. 2014)
Bloggar | Breytt 13.10.2014 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.9.2014 | 21:28
Beðið fyrir kvótakerfinu og fleiru
Eitt af því sem gerir tilveru mannsins skemmtilega, spennandi og ögrandi er það ástand hennar, að fólk hefur mismundandi lífsskoðanir og viðhorf. Okkur gengur misvel að umgangast eða þola þann fjölbreytileika. Nú heyri ég til dæmis fólk amast allhressilega við fyrirbænarefnum á kristilegri samkomu í Reykjavík.
Mér skilst að þar hafi menn m. a. unnið sér það til óhelgi að hafa ætlað að biðja fyrir kvótakerfinu og breyttum viðhorfum til fóstureyðinga.
Hafi fólk áhyggjur af kvótakerfinu og viðhorfum til fóstureyðinga finnst mér ekki nema sjálfsagt að það fái að fela almættinu þann kvíða í bæn. Ég treysti Guði fyllilega til að bregðast skynsamlega við þeim bænum - eða bregðast ekki við þeim finnist honum ekki ástæða til annars.
Og mér finnst fráleitt að gera kröfu um að allir hafi sömu áhyggjurnar eða biðji sömu bænirnar.
Sumum finnst kvótakerfið ranglátt og hafa af því sverar áhyggjur. Þá er ekki nema eðlilegt að tala um þær áhyggjur sínar við Guð sé maður á annað borð trúaður.
Öðrum finnst kvótakerfið frábært. Þeir gætu þakkað Guði fyrir blessun þess í bænum sínum.
Ég gæti reyndar gert hvort tveggja. Mér finnst nauðsynlegt að takmarka aðganginn að auðlind sjávar til að ekki verði of mikið veitt af fiskum. Þess vegna gæti ég þakkað Guði kvótakerfið. En það eru líka gallar á því fyrirkomulagi sem við Íslendingar höfum á stjórn fiskveiða. Þess vegna er kvótakerfið alls ekki svo galið fyrirbænarefni.
Ég aðhyllist þá skoðun að fóstureyðingar eigi rétt á sér innan ákveðinna marka og með vissum skilyrðum. Ég þekki fólk sem er annarrar skoðunar og er nánast alfarið á móti fóstureyðingum. Aðrir vilja leyfa fóstureyðingar þótt ég hafi enn ekki hitt manneskju sem vill heimila þær án skilyrða. Fóstureyðingar eru siðfræðilegt álitmál. Um þær hefur verið deilt og enn eru þær umdeildar. Til að takast á við það álitamál þarf að svara ýmsum spurningum. Í hverju er rétturinn til lífsins fólginn? Hver er munurinn á fóstri og ófæddu barni? Hvernig skiljum við sjálfsákvörðunarrétt kvenna?
Ég geri ekki ráð fyrir að allir svari þessum spurningum eins og þess vegna hefur fólk mismunandi skoðanir á fóstureyðingum. Spurningunum sem þeim tengjast hefur ekki verið svarað í eitt skipti fyrir öll. Þær eru enn þess virði að velt sé vöngum yfir þeim og skipst á skoðunum um þær. Þess vegna er umræðunni um fóstureyðingar ekki lokið.
Telji einhver að ekki mega ræða fóstureyðingar lengur vegna þess að þær séu útrætt mál finnst mér full þörf á að biðja fyrir breyttum viðhorfum til þeirra.
Hvaða skoðun sem fólk hefur á málinu held ég að konur geri sér grein fyrir því að öllu frelsi fylgir ábyrgð, líka því að geta tekið ákvörðun um fóstureyðingu. Fóstureyðingar kosta oft erfið tilfinningaleg átök. Konur sem fara í fóstureyðingu þurfa því sérstakan stuðning samfélagsins. Samfélagið sýnir ábyrgð með því að veita þeim þann stuðning og þar gæti það held ég breytt sér og bætt sig.
Myndin er af haustlaufi í velflestum heimsins litum.
Bloggar | Breytt 29.9.2014 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 21:19
Flaðrandi varðhundar
Fjölmiðlar eiga að veita valdinu aðhald hvort sem það er pólitískt, trúarlegt eða fjárhagslegt.
Margt bendir til þess að þeir hafi um nokkurt skeið sett upp silkihanska við umfjöllun sína þegar auðvaldið á í hlut.
Það er mikið áhyggjuefni.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (8. bindi) um hrun íslensku bankanna er á það bent að fjármálafyrirtæki telji ,,...sig nær örugglega eiga ríkra hagsmuna að gæta að ekki sé fjallað á gagnrýninn hátt um fjármálamarkaðinn."
Í skýrslunni er vitnað í álit fjölmiðlanefndar frá árinu 2005 þar sem eftirfarandi dómur er felldur:
Þess eru mörg dæmi að fjölmiðlar fjalli ekki um fyrirtæki eða hagsmunaaðila ef það getur komið sér illa fyrir fjölmiðilinn sjálfan, eigendur hans eða starfsfólk.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur m. a. fram að á árunum fyrir Hrun hafi íslenskir fjölmiðlar haft afar takmarkaðan áhuga á að fjalla á gagnrýninn hátt um efnahagsmál. Þar er tilgreint sláandi dæmi um geðlækni sem blöskraði þetta og ritaði grein um þennan skort á gagnrýninni umræðu um þetta efni.
Grein hans fékkst hvergi birt í íslenskum blöðum.
Í ljósi þessarar sögu er skuggalegt að heyra nýjar fréttir af tilraunum peningavaldsins til að stjórna fjölmiðlunum - jafnvel þótt megnið af þeim hvíli nokkuð örugglega í faðmi þess.
Fyrir nokkrum misserum fékk ég tilboð frá útbreiddasta dagblaði Íslands. Við upphaf páskastarfsins í kirkjunni minni var mér gefinn kostur á að fá umfjöllun um starfið í blaðinu - gegn þóknun.
Ég afþakkaði pent. Fyrir vikið var engin umfjöllun í þessu blaði um hið fjölbreytta safnaðarstarf í Akureyrarkirkju. Hana fengu að þessu sinni aðeins þeir sem tímdu að taka upp veskin eða höfðu efni á því.
Því miður virðist þetta lýsandi dæmi um það sem er að gerast í heimi fjölmiðlanna. Gróðasjónarmiðin ein ráða ferðinni. Þeir komast í fjölmiðla sem eiga pening eða eru peningaöflunum þóknanlegir. Hinir sjást hvorki né heyrast.
Og dæmi virðast einnig vera um að hægt sé að kaupa sig frá gagnrýninni umfjöllun fjölmiðla.
Í áðurnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir um hlutverk fjölmiðla:
Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi fyrir hættumerkjum.
Þrátt fyrir þennan þunga áfellisdóm sýnist manni ósköp lítið hafa breyst í vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla.
Þeir hafa lítið lært.
Og enn eru þeir að mestu leyti í eigu þeirra sem áttu þá fyrir Hrun. Þessir varðhundar almennings halda áfram flaðra upp um eigendur sína í stað þess að gelta að þeim.
Myndin: ,,You scratch my back and I´ll scratch yours."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.8.2014 | 08:13
Fjölmiðlar og eigendur þeirra
Merkilegur er leiðarinn í Fréttablaði dagsins. Þar segir um nýleg fjölmiðlalög og ákvæði þeirra um sjálfstæði ritstjórna:
Þessi viðleitni löggjafans til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla er góðra gjalda verð, enda skiptir það miklu máli í lýðræðislegu þjóðfélagi. Hins vegar er það svo að slíkur lagabókstafur og siðareglur fjölmiðla skipta litlu sem engu máli ef vilji eigenda stendur ekki til þess í raun að starfrækja sjálfstæða miðla, þar sem ritstjórnin lýtur ekki eigendavaldi.
Þetta er áréttað í niðurlagi leiðarans:
Eigandi sem vill hafa áhrif á ritstjórn fjölmiðils þarf hvorki að láta lagabókstaf né siðareglur stöðva sig.
Hér virðist maður stýra penna sem talar af reynslu.
Í síðasta bloggi ræddi ég um þann vanda sem fylgir því að búa í fámennu þjóðfélagi. Hann lýsir sér meðal annars í því hér er fjölmiðlamarkaðurinn smár og hægur vandi fyrir fjársterka aðila að ná þar yfirráðum.
Ef það gerist verður upplýsingagjöf til almennings og stýring hinnar þjóðfélagslegu umræðu á fárra höndum.
Til að afstýra því þarf að mínu mati tvennt:
Annars vegar þarf að setja hér lög sem takmarka eignarhald á fjölmiðlum.
Hins vegar þarf að efla Ríkisútvarpið og gera það enn meira þjóðarútvarp en það er.
Myndin er tekin á Þelamörk
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2014 | 21:48
Út á land með latteið!
Að mörgu leyti hefur okkur Íslendingum auðnast að byggja upp gott samfélag sem við ættum að vera þakklát fyrir - sé mark takandi á niðurstöðum erlendra stofnana og sérfræðinga.
Hér er örlítil samantekt á alþjóðlegum samanburði þar sem Ísland kemur vel út.
Ísland telst til dæmis friðsælasta land í heimi, þriðja besta landið að búa í, einnig þriðja besta landið sé litið til stöðu lýðræðis, hvergi er atvinnuþátttaka kvenna meiri en á Íslandi, landið er í fyrsta sæti þegar mat er lagt á jafnrétti kynjanna, Íslendingar eru næsthamingjusamasta þjóð í heimi, Ísland er í fimmta sæti á lista yfir lönd með heilbrigðustu lífsgæðin, í sjötta sæti landa þar sem frelsi fjölmiðla er talið mest, í þriðja sæti evrópskra landa í mælingu á árangi af heilbrigðisstefnu, á Íslandi er minnsti ungbarnadauði í Evrópu, hvergi í Evrópu lifa karlar lengur en á Íslandi, íslenskar konur eru þar í sjötta sæti og samkvæmt einni mælingunni er Ísland áttunda stöðugasta ríki heims þrátt fyrir óblíð náttúruöfl og miklar sveiflur í tíðarfari og sjávarafla.
En þó að margt sé til fyrirmyndar á Íslandi er þar líka margt sem betur mætti fara.
Við erum til dæmis voðalega fá og því fylgja ýmsar hættur. Nýlega skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, litla grein um það.
Þannig hefjast þau skrif:
Mér hefur stundum dottið í hug að kannski séum við Íslendingar of fáir og smáir til að geta haldið uppi samfélagi, þar sem stofnanir standa undir nafni og gegna því hlutverki sem við ætlum þeim. Smæðin hefur meðal annars þau áhrif að þeir sem starfa við þessar þjóðfélagsstofnanir eiga svo marga vini og kunningja að þess sér merki í afstöðu til verka þeirra.
Hér á landi er þessi vandi fámennis og nálægðar magnaður enn frekar upp með því að valdinu er nánast öllu hrúgað á einn stað. Stjórnsýslan er á einum bletti eyjunnar, fjölmiðlar á landsvísu á sömu sárafáu ferkílómetrunum, helstu listastofnanir landsins líka og höfuðstöðvar langflestra stórfyrirtækja.
Þar þekkjast menn þvers og kruss, voru skólabræður og vinir, fara saman í ferðalög og hittast um helgar til að gera sér glaðan dag,
skrifar Jón Steinar í greininni.
Þjóðverjar hafa sína höfuðborg í Berlín. Í Frankfurt eru svo margar mikilvægar fjármálastofnanir að hún er gjarnan nefnd fjármálahöfuðborg Þýskalands. Hæstiréttur Þýskalands er með aðsetur í Karlsruhe. Eldri ríkisrekna sjónvarpsstöð Þjóðverja er með öfluga starfsemi í öllum landshlutum en hefur lögheimili í Bæjaralandi. Yngri ríkisrekna sjónvarpsstöðin er með höfuðstöðvar sínar í Mainz. Aðrir einkareknir fjölmiðlar hafa aðalstöðvar í góðri dreifingu um landið og sama máli gildir um helstu fyrirtækin.
Þjóðverjar eru stórþjóð en þar í landi sýnist manni miklu meira tillit tekið til þeirrar hættu sem fylgir samþjöppun valds en á litla Íslandi þar sem nánast öllu er troðið í eitt póstnúmer, valdastéttirnar skála á sömu fáu knæpunum og embættismennirnir lepja sitt víðfræga latte úr sama bollastellinu á kaffihúsum miðborgarinnar.
Myndin er frá Vestmannsvatni í Aðaldal. Þar er oftast dásamlega fámennt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2014 | 22:06
Íslensk kirkjufóbía
Sem betur fer munu afdrif kirkju og kristni á Íslandi ekki ráðast af því hvort morgunbænir verði fluttar í Ríkisútvarpinu eða Orð kvöldsins fái náðarsamlegast að lafa þar á dagskránni.
Og- Guði sé lof - eru þessir dagskrárliðir heldur ekki ein helsta ógnin við velferð, mannréttindi og tjáningarfrelsi á Íslandi - ef þannig má skilja Egil Helgason í pistli sem hann ritaði nýlega á sína Silfursíðu.
Þar hefur Egill mikið til síns máls þegar hann hrósar Þjóðverjum fyrir skynsamleg stjórnmál, siðferðislega vídd í stjórnmálaumræðunni og góða frammistöðu í mannréttindamálum, velferð og frelsi til tjáningar.
Ég efast á hinn bóginn um um að hægt sé að tengja þann árangur Þjóðverja við almennt trúleysi þar í landi og lítið vægi trúarinnar eins og Egill gerir í pistli sínum.
Sannleikurinn er sá að þó að formlega hafi verið skilið á milli ríkis og kirkju í Þýskalandi eru tengsl þeirra aðila á margan hátt mun öflugri en á Íslandi.
Á Íslandi efast menn um réttmæti þess að fara með bænavers í útvarpi landsmanna.
Í Þýskalandi er fjölbreytt trúarlegt efni á dagskrá ríkisfjölmiðla, framleitt í samstarfi fjölmiðlanna og kirknanna. Sunnudagshugvekjan hefur til dæmis verið á dagskrá annarrar helstu ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar Þýskalands, ARD, í sex áratugi, á besta tíma á laugardagskvöldum.
Og það sem meira er: Fulltrúar kirknanna eiga sæti í útvarpsráðum ríkisrekinna ljósvakamiðla.
Báðar stærstu kirkjur Þýskalands taka virkan þátt í samfélagsumræðunni og er sóst eftir áliti þeirra, bæði af fjölmiðlum og opinberum stofnunum. Nefndir á vegum þýska sambandsþingsins eru ófeimnar við að leita ráða hjá kirkjunum t. d. þegar þær fjalla um siðfræðileg álitamál.
Samstarf ríkis og kirkju í Þýskalandi birtist á fleiri sviðum: Kirkjulegir helgidagar njóta stjórnarskrárvarinnar lagaverndar. Fjármálaembætti hins opinbera annast innheimtu á svonefndum kirkjuskatti fyrir kirkjurnar. Þýsku sambandsríkin eiga samstarf við kirkjurnar um menntun þeirra kennara sem veita trúarbragðafræðslu í ríkisreknum skólum. Ríki og kirkjur reka saman stofnanir, m. a. sjúkrahús og meðferðarheimili.
Um þetta má lesa hér.
Þýskaland er samt engan veginn teókratía og þar eru menn ófeimnir við að gagnrýna kirkju og kristni. Við sem höfum búið þar vitum að í Þýskalandi er að mörgu leyti fyrirmyndarsamfélag.
Þar virðast til dæmis mun minni fordómar ríkjandi í garð kristinna manna og kirkjulegrar starfsemi en á Íslandi þar sem einn umræðustjóra Ríkisútvarpsins er svo vel upplýstur og pólitískt rétthugsandi að hann setur óskina um morgunbænir og Orð kvöldsins í þjóðarútvarpi í samhengi við klerkastjórnina í Íran.
Myndin er af þingeyskum krækiberjum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.8.2014 | 00:13
Fylkisflokkurinn og Nyhedsavisen
Á árunum fyrir hrun fóru nokkrir Íslendingar í útrásarvíking í blaðaútgáfu og ætluðu að kenna Dönum hvernig ætti að bera sig að í þeim bransa.
Höfundur þess fjármálaævintýris var Gunnar Smári Egilsson. Markmiðið var að ná yfirráðum á blaðamarkaðinum í Danmörku.
Digurbarkaleg ummæli Gunnars Smára vöktu athygli þar í landi er hann sagði að peningar væru ekkert vandamál þegar fyrirtæki hans, Dagsbrun Media, ætlaði að kaupa stórblaðið Berlingske Tidende fyrir litla 80 milljarða íslenskra króna.
Ekki endaði þessi íslenska útrás vel og blað Gunnars Smára, Nyhedsavisen, fór á syngjandi hausinn. Þá var tapið á þessari útrás komið upp í rúma þrettán milljarða íslenskra króna eins og lesa má um hér.
Þá hafði íslenska stórfyrirtækið Baugur lagt út rúma ellefu milljarða íslenskra króna til að stórveldisdraumar Gunnars Smára mættu rætast.
Nú, nokkrum árum eftir ævintýri Gunnars Smára í Danaveldi, hefur sami Gunnar Smári stofnað stjórnmálaflokk uppi á Íslandi, Fylkisflokkinn.
Sá Gunnar Smári sem eitt sinn hugðist sölsa undir sig alla helstu fjölmiðla Danmerkur hefur að þessu sinni hógværari markmið.
Nú ætlar hann ekki að leggja neitt undir sig heldur vill hann leggja Ísland undir Noreg.
Þar að auki ætla Gunnar Smári og Fylkisflokkur hans að kenna Íslendingum að dreyma.
Ef íslenskur almenningur vill eiga möguleika á að búa við sambærileg lífskjör og öryggi og frændur okkar og frænkur á Norðurlöndunum; verða Íslendingar fyrst að láta sig dreyma. Og síðan að hugsa stórt....
segir Gunnar Smári.
Í ljósi sögunnar kynnu einhverjir að efast um að Gunnar Smári sé rétti maðurinn til að kenna Íslendingum að dreyma og hugsa stórt.
Myndin er úr Lystigarðinum á Akureyri
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2014 | 22:57
Castelnuovo di Val di Cecina
Bærinn Castelnuovo í Val di Cecina í Toskana á Ítalíu er á lista Touring Club Italiano yfir bestu smábæi landsins.
Klúbburinn sæmdi bæinn appelsínugula flagginu, gæðamerki fyrir ferðamennsku og umhverfisvernd.
Ég var þar á ferðinni í byrjun júlí. Myndirnar tala sínu máli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2014 | 09:46
Af umburðarlyndinu
Umburðarlyndi (tolerance, toleration, toleranz) í þeirri merkingu sem við þekkjum það kom fyrst til sögunnar á 16. öld í því trúarlega umróti sem þá var í Evrópu. Þá var hugtakið notað um það háttalag að láta vera að ofsækja þau sem höfðu aðrar trúarskoðanir og siði en fjöldinn.
Í Umburðalyndisyfirlýsingu UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995 er umburðarlyndi skilgreint sem virðing fyrir fjölbreytileika heimsmenningarinnar. Dyggð umburðarlyndisins er forsenda friðar og vörn gegn stríði.
Í yfirlýsingunni er ennfremur tekið fram að umburðarlyndið sé ekki fólgið í að umbera ranglæti né þurfi fólk að afneita eigin sannfæringu til að vera umburðarlynt. Umburðarlyndi er alls ekki skoðanaleysi. Umburðarlynt fólk reynir á hinn bóginn ekki að þvinga aðra til að vera sömu skoðunar og það sjálft.
Stofnunin hefur gert 16. nóvember að sérstökum Degi umburðarlyndis.
Við sýnum ekki umburðarlyndi með því að taka undir með fólki. Umburðarlyndið felst ekki í því að vera alltaf sammála síðasta ræðumanni. Þvert á móti er umburðarlyndið viðurkenning á þeirri staðreynd að íbúar jarðar geta verið ósammála um nánast allt og um leið viðbrögð við því ástandi. Ég þarf ekki að umbera skoðanir sem ég er sammála og heldur ekki lífshætti eða venjur sem eru mínar eigin. Þá fyrst kemur til kasta umburðarlyndisins og reynir á það þegar ég þarf að vera innan um fólk sem hefur aðrar skoðanir en ég eða lifir lífinu á annan hátt en ég tel réttast.
Í bók sinni Mini-Traktate über Maxi-Themen fjallar pólski heimspekingurinn Leszek Kolakowski um umburðarlyndið. Þar bendir hann á að hættur geti falist í því fyrir samfélag sem vill vera umburðarlynt að umbera öfl sem vinna gegn umburðarlyndinu og vilja spilla eða eyða skilyrðum þess. Þá geti umburðarlyndið snúist gegn sér sjálfu.
Í lok umfjöllunar sinnar segir Kolakowski að umburðarlyndi verði ekki síður tryggt með ákveðinni menningu en lagasetningu. Öll höfum við tilhneigingu til umburðarleysis því í okkur öllum blundar sú löngun að sannfæra aðra um okkar eigin viðhorf. Við viljum helst að aðrir trúi því sama og við. Það er vandræðaminnst fyrir okkur því það fyllir okkur öryggi og sparar okkur það ómak að þurfa að verja og ígrunda eigin skoðanir.
Kolakowski minnir á að í stað umburðarleysisins megi ekki koma samfélag þar sem enginn trúir neinu og enginn metur neitt nema það sem er skemmtilegt og gaman; ofbeldismenning verði ekki sigruð með menningu hins almenna sinnu- og áhugaleysis.
Myndin er úr Þistilfirði. Kirkjustaðurinn Svalbarð í fjarska og áin við hann kennd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2014 | 14:50
Moskan í Reykjavík
Ég leyfi mér að vísa á pistil sem ég skrifaði fyrir tæpu ári. Umræðan um málið nú er því miður ekki laus við upphrópanir og sleggjudóma sem ef til vill skýrist af nálægðinni við kosningarnar.
Ég vona að þessi skrif geti verið innlegg í þá yfirveguðu umræðu sem málefnið á skilið.
Pistilinn má lesa hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)