Þjónusta við ferðafólk í Akureyrarkirkju

DSC_0439 

Akureyrarkirkja er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Akureyri. Kirkjan blasir við farþegum skemmtiferðaskipa þegar þau sigla inn á pollinn þar sem hún gnæfir yfir miðbænum með sína tvo turna. Húsið sjálft er listaverk utan sem innan og fagurt dæmi um byggingarlist höfundarins, Guðjóns Samúelssonar. Staðsetning kirkjunnar er ekki síður listræn en byggingin enda vann arkitekt hennar mikið að skipulagsmálum.

Listgildi Akureyrarkirkju einskorðast því ekki við kirkjuhúsið sjálft, heldur er samspil þess við staðhætti, skipulag og bæjarmynd, sem og kirkjutröppurnar, hin hugvitsamlega tenging þess við hjarta miðbæjarins, órofa hluti af sköpunarverki Guðjóns Samúelssonar,

skrifar Pétur H. Ármannsson, arkitekt, í  Kirkjur Ísland (10. Bindi, Reykjavík 2007, bls 29).

Akureyrarkirkja er sennilega frægasta byggingin í höfuðstað Norðurlands og hefur lengi þjónað sem tákn bæjarins.

Mörg undanfarin ár hefur verið ráðin manneskja yfir sumartímann til að annast móttöku ferðafólks í kirkjunni. Síðustu sumur hefur sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir verið í því starfi. Hún er fyrrverandi prestur við Akureyrarkirkju, þekkir vel til sögu hennar og þess starfs sem þar er unnið auk þess sem hún hefur langa reynslu af að starfa við leiðsögn ferðafólks bæði hér á landi og erlendis. Um leið og sr. Jóna Lísa var ráðin var ákveðið að hafa kirkjuna opna lengur fram á kvöldin.

Ferðamannapresturinn sér um að taka á móti ferðamönnunum, veitir fræðslu um kirkjuna og svarar fyrirspurnum. Auk þess er presturinn til viðtals því stundum hafa þessir gestir bæjarins fengið vondar fréttir að heiman eða finna hjá sér þörf til að spjalla þegar gengið er inn í kyrrð helgidómsins. Ferðamannapresturinn sér líka um helgihald fyrir þau sem þess óska.

Upphaflega var þetta starf tilraunaverkefni í samstarfi Biskupsstofu, Eyjafjarðarprófastsdæmis og Akureyrarsóknar. Þegar tilrauninni lauk leitaði söfnuðurinn til fyrirtækja og stofnana á Akureyri sem tengjast ferðaþjónustu um að styrkja starfið fjárhagslega. Héraðssjóður Eyjafjarðarprófastsdæmis leggur líka sitt af mörkum. Þannig hefur það verið fjármagnað síðustu árin enda ánægja með þessa þjónustu. Samstarfsaðilar kirkjunnar við þetta verkefni hafa allir hag af því að vel sé tekið á móti ferðafólki á þessum vinsæla viðkomustað.

Þó að ferðamenn heimsæki kirkjuna árlega í tugþúsundatali og þeim fjölgi ár frá ári er aðstaðan til að taka á móti þeim þar ekki góð. Til dæmis er aðeins eitt salerni í kirkjunni. Akureyrarkirkja er afar vinsæl til kirkjulegra athafna og þau sem lagt hafa á sig göngu upp tröppurnar til að skoða kirkjuna þurfa stundum að bíða úti drykklanga stund áður en þau komast inn.

Þegar talað er um að efla Akureyri sem ferðamannabæ þarf ekki síður að bæta það sem þegar er til staðar en að búa til eitthvað nýtt. Aðstaða ferðafólks við Akureyrarkirkju er eitt af því sem nauðsynlegt er að bæta. Fjölga þarf snyrtingum við kirkjuna og koma upp einhverju húsaskjóli fyrir ferðamennina, t. d. litlu kaffihúsi. Ennfremur mætti auka enn starfið í kirkjunni í þágu þessara gesta okkar. Lengi hafa Sumartónleikar verið á dagskrá í Akureyrarkirkju en fram hafa komið hugmyndir um að fjölga tónleikunum enda er góður hljómburður í kirkjunni og prýðileg hljóðfæri.

Síðast en ekki síst - og fyrst og fremst - er kirkjan þó helgidómur. Þar á að bjóða upp á helgihald og kyrrðarstundir sem höfða til fólks með ólíkan trúar- og menningarlegan bakgrunn.  

Fyrir nokkrum árum heyrði ég ferðasögu akureyskra hjóna sem voru á ferðalagi um Asíu. Einn viðkomustaðurinn var búddískur helgidómur. Þar var fyrir brosandi búddamunkur sem bauð Akureyringunum blessun og volga geitamjólk að drekka. Ekki voru þau áfjáð í mjólkina en blessunina þáðu þau með þökkum. Þessi heimsókn var einn af hápunktum ferðarinnar. Ég veit ekki hvort hún hafi valdið einhverjum trúarlegum straumhvörfum, vafalítið hefur hún verið andlega gefandi en ég er nokkuð viss um að innlitið í þennan helgidóm og stutt kynni af munkinum glaða hafa aukið skilning hjónanna á framandi trúarbrögðum og menningu landsins sem þau voru að ferðast um.

Þjónustan við ferðafólk í Akureyrarkirkju er ekki einkamál kirkjunnar. Það skiptir öllu máli fyrir ferðamannabæinn Akureyri að gestir hans fái góða þjónustu, hafi góða upplifun af að heimsækja viðkomustaði í bænum og haldi síðan heim með góðar minningar. Þess vegna er þjónusta við ferðafólk í Akureyrarkirkju mál sem samfélagið allt ætti að láta sér annt um.


Kveðja til frambjóðenda og kjósenda þeirra

P1010450 

 

Á Ítalíu er talað um kampanílisma. Það er dregið af orðinu campanile sem þýðir klukkuturn. Slík mannvirki eru gjarnan mest áberandi byggingar borga, bæja og þorpa. Kampanílistar eru hugfangnir af heimabæ sínum og líður best svo lengi sem þeir sjá klukkuturninn sinn.

 

Átthagahyggja getur verið neikvæð. Henni fylgir gjarnan þröngsýni, hroki og fordómar í garð þeirrar tegundar manna sem nefnast aðkomumenn eða forestiero á ítölsku.

 

Þó er alls ekki bara neikvætt að þykja vænt um bæinn sinn og sakna kirkjuturnanna þegar fjarskinn hefur gleypt þá.

 

Heimurinn verður sífellt minni og örlög íbúa hans samtvinnaðri. Engu að síður eigum við enn mest undir nærumhverfinu. Til að okkur farnist vel þarf það að vera þannig úr garði gert að helstu þörfum okkar sé sinnt þar. Í sveitarfélaginu okkar viljum við hafa öll skilyrði til að geta lifað mannsæmandi lífi með reisn. Við viljum líka geta haft áhrif á það til að tryggja að samfélagið sé að okkar óskum.

 

Þessvegna eru fáar kosningar þýðingarmeiri en sveitarstjórnarkosningar. Það skiptir máli hvernig heimabyggð okkar er stjórnað. Akureyri á sér allnokkra sögu þar sem reynt hefur verið að þróa samfélagið þannig að það sé fært um að sinna þörfum íbúanna. Sú saga heldur áfram og nú liggur fyrir að rita næstu kafla hennar.

 

Í komandi bæjarstjórnarkosningunum er um marga lista að velja. Þeir eru allir skipaðir sveitungum okkar sem bjóða fram krafta sína í þágu okkar íbúanna. Frambjóðendurna greinir á um margt en eitt af því sem sameinar þá er viljinn til að verða sveitarfélaginu að gagni og borgurunum til blessunar.

 

Að sjálfsögðu þurfa þeir aðhald sem völd hafa. Lýðræðið þrífst ekki án þess að fólk skiptist á skoðunum. Hin þjóðfélagslega umræða getur orðið óvægin. Þegar fólki er mikið niðri fyrir er ef til vill skiljanlegt að hún sé stundum án yfirvegunar. Það er samt hvorki lýðræðinu né tjáningarfrelsinu til framdráttar ef umræðumenningin er svo ruddaleg og persónuleg að fólk veigrar sér við að kveðja sér hljóðs eða taka þátt í stjórnmálum.

 

Ég dáist að þeim sem nú bjóða sig fram til starfa fyrir borgarana í sveitarfélaginu Akureyri. Ekki er ég endilega alltaf sammála þeim öllum en efast ekki um heilindi frambjóðendanna og vilja þeirra til að gera samfélagið betra.

 

Það er okkur íbúunum mikilvægt að vandaðar manneskjur veljist til forystu fyrir sveitarfélagið, fólk sem elskar þorpið sitt, eyjuna sína og bæinn sinn og vill halda áfram að þróa samfélagið þannig að þar sé þörfum borgaranna sinnt.

 

Við skulum endilega takast á um málefni og leiðir en höfum andrúmsloftið þannig að velviljuðu fólki finnist eftirsóknarvert að taka að sér þjónustustarf bæjarfulltrúans.

 

(Birtist í Akureyri vikublaði 9. 5. 2014)

Myndin er af bæjarstjóraefni andapollsins á Akureyri


Lystireisa um Svarfaðardal

Í dag, 1. maí, var farin hin árlega vorferð starfs eldri borgara í Akureyrarkirkju. Að þessu sinni var ekið út í Svarfaðardal. Hér er ferðasagan. 

 

P1010556 

Lagt var af stað frá Akureyrarkirkju eins og sjá má í þakglugganum.

 

 

P1010560 

Við fengum ákjósanlegt ferðaveður, bjart og stillt. Blessaður Eyjafjörðurinn gladdi augu ferðalanga á leiðinni út eftir.

 

 

P1010562 

Við afleggjarann fram í austurkjálka Svarfaðardals bættist leiðsögumaður í hópinn, Svarfdælingurinn Björn Daníelsson, tengdafaðir minn.  Hann sagði okkur ýmislegt um sinn heittelskaða og fagra dal. Við fengum til dæmis að heyra um Hreiðar heimska, bræðurna á Bakka og fleiri fulltrúa svarfdælsku intelligensíunnar. Tengdapabbi kunni svo sannarlega til verka.

 

 

P1010566

 Fyrsti viðkomustaðurinn var hin þokkafulla kirkja á Völlum.

 

 

P1010571

Á Völlum tók formaður sóknarnefndar á móti okkur, organistinn Jóhann Ólafsson. Hann sagði okkur frá kirkjunni og nokkrum prestum hennar. Kirkjan var byggð 1861 en brann eftir gagngerar endurbætur árið 1996. Söfnuðurinn, sem nú telur 50 gjaldendur, vann það afrek að byggja kirkjuna aftur og var hún vígð um aldamótin.

 

 

P1010577 

Biblían á altari Vallakirkju er sú sama og var í kirkjunni þegar hún brann. Þó að ummerki eldsvoðans sjáist utan á hinni helgu bók slapp innihaldið enda skiptir það mestu máli eins og í flestum bókum.

 

 

 P1010578

Sóknarnefndarformaðurinn kvaddi okkur með því að hringja klukku Vallakirkju sem á sínum tíma var sú langstærsta á landinu enda þurfti að reisa henni sérstakan turn.

 

 

 P1010582

Næst örkuðu ferðalangar glaðbeittir inn í Húsabakkaskóla.

 

 

P1010583 

Á Húsabakka skoðuðum við fuglasafn. Það er eitt flottasta safn sem ég hef séð.  Ég gef því fullt hús stjarna. Leiðsögn safnstjórans fjölhæfa, Hjörleifs Hjartarsonar, skólabróður míns, var bæði mjög fræðandi og stórskemmtileg.

 

 

P1010589

Áður en við lögðum af stað heim fengum við kaffi og bakkelsi í gamla mötuneyti Húsabakkaskóla en þar er nú gisting og veitingasala. Vel má mæla með ferð um Svarfaðardal. Þar er hægt að sjá og upplifa ýmislegt fleira en einstaka náttúrufegurð. Dalurinn er sannkallað öndvegi.


Þjóðverji klórar sér í hausnum

 DSC_0208

Nýlega reyndi ég að útskýra stöðuna í ESB-málinu hér á Íslandi fyrir þýskum vini.

Ég sagði honum að kannanir sýndu að meirihluti þjóðarinnar vildi ekki ganga í Evrópusambandið.

Þegar ég bætti því við að meirihluti þjóðarinnar vildi ennfremur ljúka aðildarferli að sambandi sem meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í fór sá þýski að klóra sér í hausnum.

Til að róa vin minn sagði ég honum að sennileg skýring á þessari undarlegu afstöðu væri sú að Íslendingar væru ekki sammála um í hverju þetta aðildarferli væri fólgið.

Annarsvegar væru þeir sem teldu óhætt að trúa skilgreiningum og skýringum Evrópusambandsins sjálfs á því ferli.

Flestir þeirra vildu ekki ganga í Evrópusambandið.

Hinsvegar væru þeir sem segðu ekkert að marka hvernig Evrópusambandið skýrði og skilgreindi aðildarferlið.

Þeir vildu á hinn bóginn endilega ganga í Evrópusambandið.

Þegar hér var komið sögu var Þjóðverjinn tekinn til við að klóra sér í hausnum aftur, að þessu sinni með flugbeittu spurningamerki.

Næst verð ég að velja eitthvað auðmelt og vel skiljanlegt til að segja vini mínum.

Ég gæti til dæmis sagt honum frá hinum nýstofnaða hægriflokki evrópusinnaðra og óánægðra sjálfstæðismanna sem samkvæmt könnunum fær rokfylgi –  hjá öllum helstu andstæðingum Sjálfstæðisflokksins.

Gleðilegt sumar!

Myndin: Vorflug í dalnum


Fórn á föstu

P1010444 

 

Græðgi mannanna er sennilega ein af mörgum skýringunum á efnahagskreppunni sem varð í okkar heimshluta. Enn hefur ekki tekist að koma böndum á græðgina. Auðæfin halda áfram að safnast á fárra manna hendur. Á meðan fámenn elíta keppist við að koma einhverju af peningunum sínum í lóg í iðrunarlausri sóun deyja börn fátækasta fólksins úr hungri.

 

Fórnin er andstæða græðginnar. Fórnin og gjöfin eru nátengd. Fórn gengur samt nær gefandanum en gjöf. Það er innifalið í fórninni að sá sem hana færir þurfi að neita sér um eitthvað. Hann gefur af sjálfum sér í gjöf sinni.

 

Þannig voru trúarlegar fórnargjafir fyrri tíma hugsaðar. Þú brenndir korni sem hægt hefði verið að nota í brauð eða slátraðir dýri sem hefði getað orðið þér til viðurværis. Hver fórn var sjálfsfórn.

 

Og þannig voru peningarnir líka hugsaðir þegar þeir komu til sögunnar. Þegar þú greiddir öðrum með peningum varst þú að gefa af sjálfum þér. Hver peningur sem þú gafst frá þér var fórn, ákveðið magn af tíma, erfiði eða verðmætum sem verið höfðu í eign þinni. Við hverja greiðslu með peningum neitaðir þú þér um ákveðin lífsgæði og afhentir þau þeim sem greiðsluna fékk.

 

Á tímum hinna trúarlegu fórna var nautið einhver dýrasta fórn sem hægt var að færa. Nautið varð því tákn fórnarinnar og enn má sjá nautstáknið á öllum helstu gjaldmiðlum heimsins. Strikin tvö í merkjum dollarans, pundsins og evrunnar eru nautshorn. Hornin minna á þá hugsun að í peningum séu gæði og verðmæti sem fólk lætur af hendi.

 

Ef til vill færum við betur með peningana okkar ef við gerðum okkur betur grein fyrir því að  hver greiðsla er á vissan hátt fórn?

 

Án  fórnar væri lífið eins og við þekkjum það óhugsandi. Við hefðum aldrei komist af ungbarnsaldri ef við hefðum ekki notið umhyggju fólks sem var tilbúið að fórna einhverju af tíma sínum, kröftum og efnislegum gæðum fyrir okkur.

 

Veröld þar sem andi græðgi og auðsöfnunar nær yfirhöndinni leiðir til hruns.

 

Sá heimur þar sem andi fórnarinnar ræður ríkjum og gjafararnir eru í öndvegi er á hinn bóginn forsmekkur himnaríkis.

 

Myndin: Vorganga í Glerárgljúfri 

 

 


Ógnin af Jóni og Gunnu

DSC_0105

 

Bráðum eru sex ár liðin frá Hruni.

Nú er staðan þannig að sömu gömlu nöfnin eru í fréttum um helstu fjármálahræringar í landinu. Gömlu fyrirtækin þeirra hafa fengið afskriftir, ný nöfn og nýjar kennitölur. Fjölmiðlarnir eru enn í eigu gömlu athafnamannanna. Lúxusjepparnir þeirra eru komnir út úr bílskúrunum. Fjármálafyrirtækin eru farin að birta gömlu góðu gróðatölurnarLaunin í fjármálageiranum eru að ná gamla góða risinu. Gömlu góðu bónusarnir eru farnir að sjást á ný.

Á meðan þessi þróun á sér stað er á því hamrað að mestu óvinir almennings séu þeir sem gera út skip og báta og engin stétt manna hættulegri þjóðarhag en bændur og landsbyggðarfólk því það er svo áhugalítið um Evrópusambandið.

Áralöng óráðsía og stundum ólögmæt starfsemi í fjármálageirunum var ein ástæða þess að bankakerfi landsins hrundi. Við það hrun misstu margir aleiguna, allt sem þeir áttu í fasteignum sínum.

Nú keppast menn við að telja okkur trú um að helstu hættumerkin í þjóðfélaginu séu ekki fólgin í því að gamla græðgiskerfið sé smám saman að komast á aftur – eftir stjarnfræðileg gjaldþrot og skuldaafskriftir - heldur sé mesta ógnin sú viðleitni og ósvinna að bæta almenningi eignamissi sinn að einhverju leyti.

Eins og alþjóð veit hrundi hér allt vegna þess að Jón og Gunna keyptu sér of marga flatskjái.

Þegar næsta Hrun kemur eftir nokkur ár verður það auðvitað vegna þess að þau Jón og Gunna fengu örlitla lækkun á útbólgnu húsnæðisláni sínu, ef til vill sem nemur tíu prósentum af kaupverði á einum af þeim gerðum lúxusjeppa sem eru farnir að seljast aftur á Íslandi.

Myndina tók ég í Héðinsfirði nú um helgina 


Hin kerfisbundna græðgi

DSC_0451

 

Ég var að fletta eldgömlum Kirkjublöðum og rakst þar á kirkjuþingserindi sem Björn B. Jónsson flutti árið 1934. Þar segir:  

 

Verði aurafýknin æðsta drottinvald í landi, verður kirkja Krists að sjálfsögðu niðursetningur úti í horni þjóðlífsins.

 

Þetta á enn betur við á okkar dögum en árið 1934. Síðan þá hefur markvisst verið unnið að því að gera aurafíknina og græðgina að helstu drifkröftum samfélagsins. Það hefur tekist enda er kirkja Krists löngu að mörgu leyti orðin hornreka – og takið eftir, hér er talað um kirkju Krists, ekki einhverja ákveðna kirkjudeild, ekki endilega þjóðkirkjuna, heldur þá kirkju, þær sálir, sem tilheyra Jesú Kristi og eru hans. Hér er ekki verið að tala um einhver réttindi eða forréttindi tiltekins trúfélags. Hér er talað um ákveðinn boðskap Jesú Krists, gildi Jesú Krists og veruleika Jesú Krists.

 

Þar sem aurafíkn og græðgi eru helstu drifkraftarnir, þar hefur tekist að gera eyrun dauf fyrir þeim boðskap, hugann ólæsan á þau gildi og sálirnar ónæmar á þann veruleika.

 

Hungur er ein forsenda þess samfélags sem við höfum búið okkur til. Allar auglýsingarnar, ljósar sem leyndar, höfða til einhvers konar hungurs, skorts, ófullnægðra þarfa og langana sem ekki hefur verið svalað. Sé ekkert slíkt til staðar á kerfið ekki um annað að ræða en að búa til nýjar þarfir í því skyni að skapa forsendur fyrir hinni stöðugu neysluaukningu sem allt byggist á.

 

Hungrið í okkar heimshluta er geigvænlegt. Suður í Afríku eru börn að deyja úr hungri en hjá okkur eru síður dagblaða, dagskrár ljósvakamiðla, netið, hliðar strætisvagna og keppnistreyjur íþróttafólks undirlögð af áreitum til að æsa upp hungrið og sýna okkur hvernig hægt sé að seðja alla okkar sáru svengd. Drjúgur hluti af hverjum einasta degi lífs okkar fer í að minna okkur á öll þau ósköp sem við þurfum, allt það ótalmarga sem okkur skortir, hvað okkur vanti í raun rosalega mikið til að líf okkar geti talist mannsæmandi. Alið er á óánægju og ófullnægju því óánægðir og ófullnæðgir neytendur, þjakaðar þarfaverur, er það sem heldur hagkerfinu gangandi; þess vegna megum við helst ekki drekka minna áfengi í ár en í fyrra og þess vegna er ekki gott að við keyrum færri kílómetra en árinu áður.

 

Hagkerfi okkar byggist á neyslu. Aukin neysla er hagstæð fyrir hagkerfið. Þýsk-ameríski heimspekingurinn og rithöfundurinn Erich Fromm lýsir þróun vestrænna hagkerfa þannig, að smám saman hafi hin leiðandi spurning hætt að vera „hvað er gott fyrir manninn?” en í stað hennar hafi komið spurningin „hvað er gott fyrir vöxt og viðgang kerfisins”. Samkvæmt því er maðurinn til fyrir kerfið og lifir í þágu þess. Neysla þarf neytendur og kerfi sem þrífst á sívaxandi neyslu þarf sífellt duglegri og þurfarfrekari neytendur. Þess vegna er maðurinn fyrst og fremst neytandi í þessu kerfi. Til þess að gera manninn duglegan neytanda þarf að örva neysluþarfir hans. Í slíku kerfi verður græðgin dyggð, segir Fromm. Græðgin verður hluti af ríkjandi persónuleikamynstri og sú hugmyndafræði sem vill umgangast græðgina af varúð og temja hana er talin frumstæð, hallærisleg eða einfeldningsleg.

 

Ekki allar þarfir kalla á aukna neyslu. Við höfum líka þörf fyrir að finna okkur borgið og skynja að við höfum annan tilgang en að vera neytendur. Ýmsar andlegar og trúarlegar þarfir okkar leiða ekki til neysluaukningar. Þær þjóna ekki hagsmunum kerfisins og geta jafnvel ógnað því. Slíkar þarfir vill kerfið deyfa og svæfa. Ef við sinnum þörfum sem leitt gætu til þess að við yrðum ánægð, sátt, þakklát, hamingjusöm og sæjum því ekki ástæðu til að auka neysluna, drykkjuna og keyrsluna gæti það reynst hættulegt hinni kerfisbundnu græðgi og ófullnægju sem er orðin svo skelfileg og útblásin að hún ógnar lífinu á jörðinni.


Hinn alíslenski ESB-farsi

DSC_0084

 

Saga ESB-umsóknar Íslands er með miklum ólíkindum.

 

Helmingur þeirrar ríkisstjórnar sem sótti um aðild að ESB tilheyrði stjórnmálaflokki sem var á móti aðild að ESB. Umsóknin átti að vera einskonar könnun á því sem í boði var.

 

Þegar í ljós kom hvað stæði til boða – aðlögun að Evrópusambandinu og öllu þess regluverki með kostum og göllum – fóru að renna tvær grímur á umsækjendurna sem sóttu um aðild að sambandi sem þeir vildu ekki gerast aðilar að.

 

Aðildarferlið fór að hiksta uns það stöðvaðist nánast alveg áður en kjörtímabilinu lauk enda annar stjórnarflokkanna á móti aðildinni sem sótt var um.

 

Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti þjóðarinnar andvígur aðild að Evrópusambandinu.

 

Samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti þjóðarinnar líka halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

 

Með öðrum orðum: Meirihluti þjóðarinnar vill halda áfram aðildar- og aðlögunarferli að ríkjabandalagi sem meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í.

 

Árið 2010 lagði Vigdís Hauksdóttir til efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

 

Árið 2014 leggur Vigdís Hauksdóttir til að aðildarviðræðum verði slitið án þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Árið 2014 krefjast stjórnmálamenn þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB í nafni lýðræðisins – sömu og höfnuðu alfarið þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna árið 2010.

 

Verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu nú með þeirri niðurstöðu að þjóðin skuli halda áfram að sækjast eftir að ganga í samband sem hún vill ekki ganga í fær Evrópusambandið nýjan aðila að ræða við:

 

Í stað þess að ræða um aðild við ríkisstjórn Íslands þar sem annar stjórnarflokkanna var mótfallinn aðild sest Evrópusambandið nú niður og ræðir aðild við ríkisstjórn þar sem hvorugur stjórnarflokkanna vill aðild – ekki frekar en þjóðin.

 

Það verður nú aldeilis munur fyrir ESB.

 

Og ef samningar nást og ríkisstjórnin sem vill ekki í ESB skrifar undir samning um aðild að ESB verða næstu skref þau, að Evrópuþingið, æðstu stofnanir ESB og hvert aðildarríki fyrir sig samþykki samninginn.

 

Eftir þá afgreiðslu alla verður samningurinn settur í þjóðaratkvæði á Íslandi, af ríkisstjórn sem er andvíg inngöngu og að beiðni þjóðar sem aldrei ætlaði sér í ESB heldur var bara að sjá hvað væri í boði og hvort hún væri kannski að missa af einhverju.

 

Það verður nú aldeilis gott fyrir trúverðugleika þjóðarinnar.

 


Ég vil ósjálfstæðan Seðlabanka

DSC_0276 

Einn lærdómurinn af hrunum og kreppum síðustu áratuga er hversu erfitt getur verið að sjá fyrir hvernig efnahagsmál þróast. Spár greiningardeilda rættust ekki og skýrslur eftir hámenntaða og titlum hlaðna hagspekinga reyndust ekki pappírsins virði.

Þetta á sér meðal annars þá skýringu að spágeta hagfræðinga hefur verið ofmetin. Veruleikinn rúmast ekki í vélrænum hagfræðikerfum. Hagfræði snýst ekki bara um tölur, staðreyndir og fyrirsjáanlega hegðun mannsins. Hagkerfi virka ekki eins og bílvélar.

Lögmál markaðarins eru ekki óumbreytanleg lögmál sem maðurinn verður að beygja sig fyrir. Trú frjálshyggjunnar á hina ósýnilegu hönd markaðarins reyndist röng. Markaðurinn sér ekki um sig sjálfur. Hann þarf reglur. Hann þarf aðhald. Honum þarf að stjórna.

Í  umtalaðri bók sinni Economics of Good and Evil bendir tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlasek á að hagkerfi séu fyrir manninn en ekki öfugt.

Maðurinn er ekki strengjabrúða markaðsaflanna. Hann er ekki tannhjól í hagkerfinu. Öll kerfi eru tilkomin vegna mannlegra þarfa. Það sama á við um hagkerfið. Það hefur þann tilgang að þjóna manninum og vera honum til blessunar. Þess vegna er maðurinn herra hagkerfisins og það þarfnast stöðugs endurmats og endurhönnunar hans til að geta þjónað tilgangi sínum.

Í lögum um Seðlabanka Íslands er kveðið á um að hann sé „sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins“ eins og segir í upphafsgrein laganna.

Séu lögin lesin áfram kemur í ljós að sjálfstæði Seðlabankans er ekki algjört.  Það felst ekki í því að bankinn sé engum háður og sjálfum sér algjörlega ráðandi. Lögum samkvæmt ræður Seðlabankinn til dæmis ekki meginverkefnum sínum. Hann á að stuðla að stöðugu verðlagi og öruggu fjármálakerfi, svo nokkuð sé nefnt. Lögin kveða líka á um það hlutverk Seðlabankans að styðja framgang stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Þessi mikilvæga efnahagsstofnun, Seðlabanki Íslands, hefur sama megintilgang og aðrar stofnanir samfélagsins: Hann er í þágu fólksins. Bankinn er ekki sjálfstæður gagnvart því. Hann er ekki óháður okkur, fólkinu í landinu, sem eigum Seðlabankann. Honum ber að starfa fyrir okkur og vera háður hagsmunum þjóðarinnar.

Og til þess að geta sinnt því hlutverki sínu þarf Seðlabankinn sjálfstæði gagnvart sérhagsmunaöflum og valdaklíkum. Hann á að vera óháður öllu slíku.

Á lokasíðum bókar sinnar minnir Tomas Sedlasek okkur á að við berum sjálf ábyrgð á hagsmunum okkar og velferð. Hagkerfið er ekki sjálfstæð og lokuð eining sem lýtur eigin lögmálum. Við stýrum því. Við getum stýrt því til góðs eða ills. Hagfræði er mórölsk vísindi. Þess vegna er ekki nóg að láta lögfróða og talnaglögga menn um að hanna og stjórna hagkerfum. Til þess þarf líka innsæi skáldanna og glöggskyggni heimspekinganna.

Skuldakreppan er meira en efnahags- eða neytendakreppa. Hún ristir dýpra, segir Sedlasek. Ástæður hennar eru líka skortur á hófsemi. Skuldakreppan á sér rætur í græðgi. Ein orsök skuldakreppunnar er sú að við erum óseðjandi og ónæm á það sem við höfum. Skuldakreppan stafar meðal annars af vanþakklæti.

Til að komast út úr skuldakreppunni þarf nýjan anda og breyttan móral.


Rétt skoðun umborin

DSC_0569

 

Það er ekki hlutverk fjölmiðlanna að segja okkur sannleikann þótt því sé stundum haldið fram, bæði af fjölmiðlafólki og öðrum.

Hlutverk fjölmiðlanna er að miðla til okkar fjölbreytilegum sjónarmiðum og gagnstæðum skoðunum. Okkar er að taka afstöðu. Okkar er að hugsa. Okkar er að reyna að finna hvað sé satt og logið.

Fjölmiðlarnir hafa ekki það hlutverk að hugsa fyrir okkur.

Ég heyri fólk stundum kvarta sáran undan því að í fjölmiðlum heyrist skoðanir sem það getur ekki tekið undir.

Það er hættulegt lýðræðinu ef við þolum bara að heyra okkar sjónarmið og umberum aðeins skoðanir samhljóða okkar eigin.

Það er líka hættulegt okkur sjálfum ef við þolum bara að heyra það sem við hugsum og umberum ekki önnur sjónarhorn til málanna en okkar. Önnur sjónarmið en okkar geta dýpkað og skýrt okkar viðhorf.

Þegar við heyrum annað en við hugsum sjálf getur það líka endað með því að við skiptum um skoðun.

Það er ekki hættulegt að skipta um skoðun. Þvert á móti er fátt hollara. Það stælir vitsmunavöðvana að horfa á tilveruna á annan hátt en maður er vanur að gera. Það er hættulegt áreynsluleysi að hugsa alltaf eins.

Þess vegna höfum við gott af að heyra aðrar skoðanir en okkar og sjá tilveruna með augum andstæðinga okkar.

Þegar við tölum um að umbera skoðanir annarra er það í því fólgið, að leyfa þeim skoðunum að heyrast, gefa þeim vettvang og rými.

Sá umburðarlyndi virðir rétt fólk til að vera ekki á sama máli og hann.

Við þurfum á hinn bóginn alls ekki að vera sammála þeim sem hafa aðrar skoðanir en við. Þótt við umberum skoðanir er ekki þar með sagt að við höfum ekki lengur rétt til að gagnrýna þær eða andmæla þeim, jafnvel kröftuglega.

Eitt kennimark heilbrigðs samfélags er að þar fá allskonar skoðanir að heyrast.

Eitt kennimark sjúks samfélags er að þar er amast við skoðunum hinna.

Eitt kennimark heilbrigðs samfélags er að þar takast á ólíkar skoðanir.

Eitt kennimark sjúks samfélags er að þar er aðeins rétta skoðunin umborin.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband