Færsluflokkur: Bloggar

Nýr samningur er þjóðinni að þakka

DSC_0493

Verulegur hluti Sjálfstæðismanna á þingi hyggst styðja nýjan Icesave-samning.

Þá fer af stað hinn venjulegi spuni íslenskra stjórnmála. Fylkingarnar reyna að spinna úr þræðinum garn í brækur sínar sem ekki tókst að bjarga. 

Annars vegar eru þeir sem segja afstöðu Sjálfstæðismannanna kúvendingu. Það var t. d. gert í Fréttablaði dagsins.

Þá kúvendingu finna menn út með því að halda því fram að samningurinn nýi sé nánast eins og sá gamli. Fyrst þeir sem höfnuðu þeim gamla styðji þann nýja hljóti að vera um algjöra breytingu á afstöðu að ræða.

Einmitt það verður trúlega næsti spuni þessarar fylkingar:

Þjóðinni verður talin trú um að enginn munur sé á gamla og nýja Icesave-samningnum. Þess vegna séu þeir blásaklausir sem hömuðust við að neyða gamla samningnum upp á þjóðina meðan lífsandinnn hökti í nösum þeirra.

Samningurinn nýi sé ekkert betri en sá gamli. Þjóðin hafi bara verið svona sérvitur.

Hins vegar er því haldið fram að landsmenn hafi hafnað öllum Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra.

Samkvæmt kjörseðli úr þeim kosningum var þar kosið um þetta:

Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innistæðueigenda frá breska og hollenska ríkinu  til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?" Á kjörseðli eru gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi" og „Nei, þau eiga að falla úr gildi".

Skýrt var tekið fram að ef lögin yrðu felld úr gildi væri uppgjör innistæðutrygginga vegna Icesave-reikninganna óútkljáð viðfangsefni stjórnvalda á Íslandi, í Bretlandi og Hollandi.

Þjóðin hefur aldrei hafnað því að reynt verði að semja um Icesave. Í atkvæðagreiðslunni kom fram að hún sætti sig ekki við þá samninga sem fyrir lágu á þeim tíma.

Nú hefur verið reynt að útkljá þetta viðfangsefni með nýjum samningum.

Telji þingmenn þá betri og viðunandi samþykkja þeir þá og eru sjálfum sér engu að síður samkvæmir án allra kúvendinga.

Ef til vill væri samt réttast að bera þá undir þjóðina. Það er þjóðinni að þakka að nýir og betri samningar fengu að líta dagsins ljós.

Myndin er úr Krossanesborgum.


Hagsmunir og hugsjónir

DSC_0113 

Þegar því er haldið fram að á Íslandi takist á hagsmunir og hugsjónir er verið að gefa í skyn að þar sé um andstæður að ræða.

Hagsmunagæsla hefur á sér frekar neikvæðan blæ sem skerpist enn frekar þegar viðkvæðinu sér- er skeytt fram við.

Svo er stundum talað um sérhagsmunaklíkur ef mikið liggur við.

Þó er í sjálfu sér ekki neikvætt að berjast fyrir hagsmunum sínum. Hér á Íslandi höfum við alls konar hagsmunasamtök sem beita sér í þágu hagsmuna tiltekinna þjóðfélagshópa, hagsmuna síns fólks, sem yfirleitt eru þá tilteknir sérhagsmunir eða sérstakir hagsmunir þeirra sem í hlut eiga.

Öryrkjabandalagið hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni öryrkja en ekki útgerðarmanna. Alþýðusambandið á að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda en ekki tiltekinna stjórnmálaflokka.

Sama gildir um Bændasamtökin og Samtökin 78.

Hópar fela forystumönnum sínum það hlutverk að vinna að hagsmunum sínum. Við skulum taka ofan af fyrir þeim sem standa sig í stykkinu og sinna þeim skyldum sínum dyggilega og af skilningi á sérhagsmunum annarra þjóðfélagshópa.

Hagsmunir eins hóps fara ekki alltaf saman við hagsmuni fjöldans. Hagsmunir eins geta ógnað hagsmunum annarra. Komið getur til hagsmunaárekstra. Þá þarf að setjast niður og finna sanngjarnar lausnir og málamiðlanir.

Lausnin er ekki sú að banna fólki að gæta hagsmuna sinna.

Hagsmunagæsla er alls ekki endilega eitthvað neikvætt þótt hún geti orðið það eins og dæmin sanna.

Á sama hátt eru hugsjónir ekki alltaf jákvæðar.

Sagan sýnir að menn geta náð ótrúlega langt í baráttu fyrir skelfilegum og mannfjandsamlegum hugsjónum.

Hugsjónafólk hefur ekki síður orðið til bölvunar en hagsmunagæslufólk til blessunar.

Samspil hugsjóna og hagsmuna getur birst í mörgum myndum.

Mér finnst það til dæmis góð hugsjón að vilja minnka skaðlegan útblástur frá bílum. Þess vegna get ég fagnað nýlegum breytingum á bifreiðagjöldum.

Nú borga þeir mest sem menga mest.

Nýir bílar menga minna en gamlir. Þess vegna hafa þessar breytingar það í för með sér að þeir sem hafa efni á nýjum bílum fá lækkun gjalda sinna.

Einstæðu mæðurnar sem varla hafa efni á bíldruslunum sínum þurfa á hinn bóginn að taka á sig auknar álögur.

Þannig geta góðar hugsjónir bitnað á hagsmunum þeirra sem minna mega sín.

Myndin er tekin af skýjaglóp.


Orustan um Ísland

Fjordur2006 003 

Við heyrum að nú standi yfir orusta um Ísland.

Vissulega hefur þjóðin fundið að hér eru mögnuð átök. Ég er samt ekki viss um að allir geri sér grein fyrir hverjar fylkingarnar séu sem á takast.

Eins er held ég á reiki um hvað nákvæmlega orustan stendur.

Þess vegna er nú unnið að því að stilla upp fylkingum og átakaefnum. Búnir eru til óvinir og vinir. Vinir vígbúast en reynt er að afvopna hina. Gömul vinkona þjóðarinnar er kölluð heim úr stuttri útlegð.

Hún heitir Þöggun.

Hér á að vera friður. Hér á ekki að rífast heldur eiga allir að vera sammála og þá um fleira en handboltalandsliðið.

Og talandi um þá kappa. Handboltamenn eru reknir inn í sturtuklefana ef þeir eru með múður og beðnir um að  vera ekki að „tjá sig mikið um Ísland og Evrópusambandið", eins og það er orðað.

Þeir sem dirfast að vera með vesen eru að þvælast fyrir eða í órólegu deildinni.

Maður sér fyrir sér róandi lyf, spennitreyjur og raflost.

Við höfum ekkert lært og erum búin að gleyma skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þann 14. apríl í fyrra er þetta haft eftir nefndarmönnum: 

Í viðtali Morgunblaðsins við rannsóknarnefndarmenn segir Tryggvi Gunnarsson það staðreynd að samfélagið hafi ekki veitt það aðhald sem þurfti að vera til staðar af hálfu ráðamanna, þátttakenda í viðskiptalífinu og almennings. Undir það tekur Páll Hreinsson, nefndarformaður. „Það var þessi þöggun. Það var veist að fólki. Þegar bankakerfið hefur náð stærð á við tífalda landsframleiðslu, þá er það farið að stjórna samfélaginu. Hvorki þingið né ríkisstjórnin hafði burði til að setja bönkunum skynsamleg mörk," segir hann.

Þó að ég sé fylgjandi breytingum á kvótakerfinu - og sé sammála flestu í t. d. þessum skrifum - er ég ekki sannfærður um að íslenskir útgerðarmenn séu nú um stundir helstu fjandmenn íslensku þjóðarinnar.

Og undarlegur þykir mér málstaður þeirra sem segjast berjast fyrir því að koma auðlind hafsins í eign þjóðarinnar - en vinna um leið markvisst að því að koma yfirráðum yfir þessu helsta bjargræði Íslendinga úr höndum þeirra suður til Belgíu.

Hér er ágæt og skýr greinargerð um fiskveiðistefnu ESB.

Myndin er úr fjörunni í Hvalvatnsfirði. Þar fá steinarnir að vera eins og þeir eru.


Vit og vilji

DSC_0329

Fyrir nokkru fylgdist ég með umræðum á Alþingi. Verið var að fjalla um nauðsyn þess að setja skýrari lög um banka og fjármálafyrirtækja. Voru menn nokkuð einhuga um hana.

Sté þá í pontu maður sem benti á að fyrir Hrun hefðu verið til mörg þokkalega skýr lög á því sviði.

Meinið hefði verið að menn hafi ekki farið eftir þeim.

Í umræðunni hefur margoft verið bent á að efla beri kennslu heimspeki og siðfræði í skólum landsins.

Undir það tek ég.

Þó gildir það sama um siðerðisreglur og lög frá Alþingi. Þær eru lítils virði ef enginn kærir sig um að fara eftir þeim.

Við bætum ekki siðferðið með kunnáttunni einni saman. Meira þarf til en þekkingu til að bæta veröldina.

Við þurfum að vilja ekki síður en að vita og við þurfum að ala upp og innræta  ekki síður en að kenna.

Myndin: Þess tvö listatré eru efst í Listagilinu á Akureyri.


Umsóknin undarlega

DSC_0148

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu hlýtur að vera ein undarlegasta umsókn þeirrar gerðar sem um getur.

Á Íslandi er ríkisstjórn sem sótti um aðild að ESB. 

Þó er annar ríkisstjórnarflokkanna á móti slíkri aðild sé mark takandi á stefnuskrá þess flokks eins og hún leit út fyrir síðustu kosningar.

Og ekki nóg með það:

Þingstyrkur ríkisstjórnarinnar sem sótti um aðild að ESB er meðal annars myndaður af mönnum sem eru algjörlega á móti slíkri aðild.

Einn þingmanna ríkisstjórnarinnar sem sækir um aðild að ESB er formaður samtaka sem berst gegn aðild að ESB.

Helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar sem sótti um aðild að ESB lýsti því nýlega yfir að hann sé á móti aðild Íslands að ESB og eflist í þeirri skoðun með hverjum deginum sem líður.

Svo megn er andstaða fjármálaráðherra landsins við aðild Íslands að ESB að hann stendur í aðildarviðræðum við ESB.

Er nema von að embættismönnum Evrópusambandsins gangi illa að fatta þessa umsókn og séu vondaufir um framhaldið?

Ein rökin fyrir umsókninni voru þau að þjóðin þyrfti að fá að skoða í pakkann. Ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema fyrir liggi samningur.

Aðildarviðræðurnar séu því eins konar könnunarviðræður.

Fyrir það fyrsta eru það hæpin rök að segja að ekki sé hægt að hafa skoðun á aðild Íslands að ESB nema sækja um aðild.

Ég held að vel sé hægt að hafa rökstuddar og upplýstar skoðanir á aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum án þess að þjóðin sé búin að sækja formlega um inngöngu í þau og ljúka aðildarsamningum.

Í öðru lagi eru þessar aðildarviðræður ekki alveg eins og um var rætt í upphafi.

Enn bólar lítið á innihaldi pakkans.

Af viðræðunum eru þær fréttir helstar að viðræðuaðili okkar er að skipuleggja hér á landi öflugt kynningarstarf og kostar til þess svimandi upphæðum.

Í bæklingi sem Evrópusambandið hefur gefið út og nefnist Understanding Enlargement. The Europian Union´s enlargement policy er lýst hvernig þessar viðræður fara fram (bls. 6):

A country that wishes to join the EU submits an application for membership to the Council, where the governments of all the EU Member States are represented. The Council asks the Commission to assess the applicant's ability to meet the conditions for membership. If the Commission delivers a positive opinion, and the Council unanimously agrees on a negotiating mandate, negotiations are formally opened between the candidate and all the Member States.

Þetta er allt gott og blessað en síðan segir:

First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules (also known as "acquis", French for "that which has been agreed") are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures.

Halda menn því virkilega ennþá fram að með viðræðunum sé aðeins verið að skoða í samningspakkann?

Fróðlegt verður að sjá samninginn um það sem ekki er hægt að semja um.

Þó segja sumir að nú skipti mestu að ná sem bestum samningi fyrir Ísland.

Til þess að ná góðum samningi þarf m. a. góða samningsstöðu.

Sumir hafa bent á að samningsstaða því sem næst gjaldþrota lands geti ekki talist beinlínis ákjósanleg.

Ef þar við bætist að drjúgur hluti þeirra sem að samningunum standa kæra sig alls ekki um aðild held ég að samningsstaða Íslands geti vart talist góð.

Einhverjir kynnu að segja það varlega áætlað.

Myndin: Kaffivélin


Réttvísin rægð

DSC_0120 

Helstu tæki þjóðarinnar við uppgjör Hrunsins eru þjónar réttvísinnar. Rannsakendur, saksóknarar og dómarar, svo nokkuð sé nefnt.

Eva Joly hefur hvatt þjóðina til að sýna biðlund. Hún veit betur en flestir aðrir að flókið getur verið að rannsaka fjármálaglæpi. Það tekur tíma og kostar þolinmæði.

Þjóðin væntir mikils af þjónum réttvísinnar. Réttlætiskennd hennar hefur verið misboðið og reiði fólks er skiljanleg. 

Sú reiði má ekki fá útrás í múgæsingi eða hefndarþorsta. Við búum í réttarríki og uppgjörið þarf að fylgja lögmálum þess.

Þess vegna er það alvarlegt þegar reynt er að grafa undan trúverðugleika réttarkerfisins - þessa helsta tækis sem við höfum til að gera upp Hrunið og fullnægja langþráðu réttlæti.

Það gerðist í Baugsmálinu og er að gerast núna.

Nýlega var fyrrverandi bankastjóri Landsbankans úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í Pressupistli segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson þjóðinni að með því sé sérstakur saksóknari að „verja starf sitt og afla þess fylgis". Þessum gjörningum starfsmanna réttarkerfisins lýsir prófessorinn svona:

Þeir vita, hversu vel það mælist fyrir að handtaka óvinsæla bankastjóra og verðbréfasala, sem áður fóru mikinn og vöktu öfund eða gremju.

Hér er réttvísin rægð og athafnir hennar sagðar byggja á annarlegum tilgangi.

Í sama streng tekur annar Pressupenni, Ólafur nokkur Arnarson.

Sá mikli álitsgjafi finnur aðgerðum sérstaks saksóknara allt til foráttu. Áður hefur hann kvartað sáran yfir rannsókn embættisins á Kaupþingi. Nú kallar hann athafnir saksóknarans fjölmiðlasirkus og gefur í skyn að þær séu samkvæmt pöntun frá ríkisstjórninni.

Dómstólum landsins gefur Ólafur þá einkunn að þeir starfi samkvæmt skipunum úr kerfinu.

Ekki er við öðru að búast en að dómstólar verði við kröfu sérstaks um gæsluvarðhald yfir Landsbankamönnum, hversu fráleit sem hún er. Dómstólar sýndu það í máli Kaupþingsmanna, að þeir eru viljugur gúmmístimpill fyrir sérstakan og væntanlega hefur engin breyting orðið þar á.

Þriðja dæmið um þá meðferð sem þjónar réttvísinnar fá er ritstjórnarpistill í opnu Fréttablaðsins sem dreift er ókeypis til landsins barna.

Yngvi Örn Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans, var einn þeirra sem sérstakur saksóknari kallaði í yfirheyrslu vegna rannsóknar embættisins á gamla Landsbankanum.

Pistillinn birtist mánudaginn 17. janúar. Þar er þessi yfirmaður banka, sem fór svo gjörsamlega á hausinn að hann setti heila þjóð nánast á hausinn líka, sagður einn hæfasti hagfræðingur landsins. 

Yngvi hafi bara ekki haft vit á að hætta í Landsbankanum áður en bankinn varð gjaldþrota.  Hann er „sagður hafa sett fyrirvara við ýmsar lánveitingar bankans" eins og það er orðað í þessum varnarpistli.

Eftir Hrun segja blaðamenn Fréttablaðsins Yngva hafa gagnrýnt Seðlabankann óhræddur fyrir að hafa ekki „beitt sér gegn miklum vexti fjármálageirans".

Allir hljóta að sjá að þar ber hinn hugrakki maður enga ábyrgð þó að hann hafi reyndar verið einn þeirra manna sem stýrði bankanum í þessa óhóflegu stærð og glæsilega gjaldþrot.

Það hefur ætíð þótt stórmannlegt á Íslandi að kenna öðrum um.

Og fara síðan fram á 230 milljónir frá bankanum sem varð gjaldþrota.

Í pistlinum er því haldið fram að þessi fyrrverandi yfirmaður verðbréfasviðs Landsbankans hafi sætt ofsóknum fyrir afstöðu sína og skoðanir. 

Ef til vill var það liður í þeim ofsóknum að gera Yngva Örn tímabundið að aðstoðarmanni ráðherra í núverandi ríkisstjórn?

Varnarpistillinn fyrir Yngva Örn í Fréttablaðinu endar svo á þessum orðum:

Allt hefur þetta komið í bak Yngva, sem var kallaður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í síðustu viku auk þess sem menn innan Seðlabankans kunna honum litlar þakkir fyrir gagnrýnina.

Þarna er með öðrum orðum gefið í skyn að ástæðurnar fyrir yfirheyrslunum séu ekki efnislegar heldur hafi eitt og annað „komið í bak" hans.

Auk þess eigi hann sér óvini í Seðlabankanum sem hafi þá pantað yfirheyrslurnar á blásaklausum yfirmanninum.

Þannig er nú ástandið á réttvísinni í þessu landi, segir Fréttablaðið landslýð.

Forsætirráðherra Íslands er enn einn þeirra sem þessa dagana sendir þjónum réttvísinnar tóninn.

Samkvæmt þessari frétt segir Jóhanna Sigurðardóttir framganginn í réttarkerfinu dapurlegan - vegna þess að réttað er yfir svonefndum níumenningum áður en önnur réttarhöld tengd Hruninu hefjast.

Gæti ástæðan kannski verið sú að enn sé ekki búið að rannsaka önnur mál?

Vill forsætisráðherra að réttað sé í málum meintra fjárglæframanna áður en rannsókn þeirra er lokið?

Séu níumenningarnir saklausir - en margt bendir til að svo sé - verða dómstólar að komast að þeirri niðurstöðu úr því sem komið er.

Það er ekki í verkahring valdamanna að senda dómstólum fyrirmæli um þau mál sem þar eru til umfjöllunar.

Þeir þjónar okkar landsmanna sem valdir hafa verið til að fullnægja réttlætinu eru svo sannarlega ekki í öfundsverðum verkefnum.

Ég bið þeim Guðs blessunar í vandasömum störfum í þágu þjóðarinnar og réttlætisins.

Myndin er af þörfustu þjónunum.

 


Næsta kreppa í ofninum?

DSC_0115 

Gamli Moggaritstjórinn Styrmir Gunnarsson ritar athyglisverða grein í Sunnudagsmoggann. Þar varar hann við fólki sem hag hefur af því að „umræður um orsakir hrunsins og afleiðingar verði felldar niður eða verði alla vega ekki jafn ráðandi og verið hefur".

Styrmir bendir á að enn sé mikið verk óunnið. Flórinn sé ekki nema hálfmokaður.

Hann nefnir mörg dæmi um verkefni. Enn eigi eftir að vinna skýrslu um sparisjóðina og lífeyrissjóðina. Háskólasamfélagið hafi ekki gert upp sinn hlut í aðdraganda Hrunsins. Fjölmiðlarnir ekki heldur. Lítið hafi verið rætt um þátt endurskoðenda.

Styrmir segir ennfremur:

Alþingi á mikið löggjafarstarf fyrir höndum að laga þá veikleika á samfélagsgerð okkar, sem hrunið afhjúpaði og skýrsla rannsóknarnefndar staðfesti. Það er eftir að setja nýja löggjöf um fjármálakerfið. Það er eftir að setja nýja lögjöf um viðskiptalífið. Hrunið afhjúpaði gífurlega og alvarlega veikleika í löggjöf um þessa veigamiklu þætti atvinnulífsins.

Um mitt síðasta ár kom út bókin Crisis Economics: A Crash Course in the Future of Finance. Höfundar eru hagfræðingurinn Nouriel Roubini og efnhagsblaðamaðurinn Stephen Mihm.

Roubini er einn umtalaðasti hagfræðingur okkar tíma. Hann kennir fag sitt við New York University og var einn af efnahagsráðgjöfum Bill Clinton, Bandaríkjaforseta. Hann var einn sárafárra hagfræðinga sem spáði efnahagskreppunni - og fékk fyrir vikið viðurnefnið Dr. Doom.

Í bókinni mótmælir Roubini því harðlega að kreppan hafi verið ófyrirséð. Þvert á móti hafi vel mátt búast við henni og auðvelt sé að skilja hana og útskýra.

Kreppan stafi af göllum í fjármálakerfi heimsins. Á því þurfi að gera gagngerar endurbætur. Annars sæki í sama farið á ný. Roubini mælir með meiri ríkisafskiptum af fjármálalífinu, umbyltingu á bónuskerfi bankafólks og því að matsfyrirtækin gjörbreyti starfsháttum sínum, svo nokkuð sé nefnt.

Styrmir og Roubini eru sammála að þessu leyti. Við þurfum að breyta kerfinu. 

Dr. Doom segir að óbreytt ástand sé ávísun á næstu kreppu mjög fljótlega.

Skömmu eftir Hrun hafði ég áhyggjur af því að menn ætluðu sér að halda áfram sama leikritinu en skipta bara út leikurum.

Nú óttast ég að ekki eigi einu sinni að skipta um leikara.

Nöfnin í leikskránni hafa lítið breyst. Fyrirtækin, peningarnir og völdin virðast vera á sömu stöðum og fyrir Hrun.

Það sem breyst hefur eru flokkarnir í ríkisstjórn.

Með þeirri undantekningu þó að annar ríkisstjórnarflokkanna var helmingurinn af Hrunstjórninni.

Svona eru nú byltingarnar á Íslandi.

Myndina tók ég í dag fram Glerárdal.


Biðraðafólkið og landsliðið

DSCN0913 

Nú liggur fyrir að einungis áskrifendur einkarekinnar sjónvarpsstöðvar geta fylgst með leikjum íslenska landsliðsins á næsta heimsmeistaramóti.

Sú tilhögun er athyglisverð.

Í fyrsta lagi er landslið Íslands á vissan hátt í eigu þjóðarinnar. Það nýtur opinberra styrkja og er starfrækt fyrir peninga frá þjóðinni allri.

Landsliðið er ennfremur þjóðarstolt Íslendinga og gersemi. Leikir þess á stórmótum eru stórviðburðir í þjóðlífinu.

Við eigum að setja lög sem banna að einungis hluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með slíkum stórviðburðum í sjónvarpi.

Þannig lög eru víða í nágrannalöndum okkar.

Handboltalandsliðið er Íslands en ekki bara þeirra sem hafa efni á Stöð 2.

Í öðru lagi er fróðlegt að rifja upp sögu sjónvarpsstöðvarinnar sem ætlar að selja hluta landsmanna leiki landsliðsins á HM.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hrundu íslensku bankarnir vegna þess að þeir voru tæmdir innan frá, af eigendum sínum.

Stöð 2 er hluti af fjölmiðlaveldi eins þeirra.

Skömmu eftir hrun lánaði einn af bönkunum sem fóru á hausinn eiganda stöðvarinnar á fimmta milljarð króna til að hann héldi eign sinni.

Fyrr á þessu ári þurfti að bæta einum milljarði við lánið til að tryggja eignarhaldið.

Þá hefur komið fram að allt árið 2009 borgaði fjölmiðlafyrirtækið ekki af lánum sínum. Hafði ekki efni á því, að sögn forsvarsmanna þess.

Þegar sjónvarp allra landsmanna reynir að kaupa sýningarréttinn á leikjum liðs landsmanna af fyrirtækinu svarar forstjórinn:

Ég hef persónulega meiri áhyggjur af fólkinu hér á Íslandi sem á ekki fyrir mat. Við erum að tala um þannig upphæðir að ríkið gæti með þessum fjármunum sem verið er að tala um án þess að tekjur komið á móti, hæglega eytt að minnsta kosti helmingi af biðröðunum sem hafa verið eftir mat hér í höfuðborginni.

Fólkið í biðröðunum hefur trúlega ekki efni á að kaupa sér áskrift að Stöð 2.

Þó á það ekki minni hlut í íslenska landsliðinu en forstjóri 365.


Áfram reið!

DSC_0049

Í áramótaávörpum sínum hvöttu ráðamenn og leiðtogar landsmenn til að láta af neikvæðni og reiði en fyllast þess í stað bjartsýni og jákvæðni.

Nú eru örfáir dagar liðnir af árinu 2011 og hér eru nokkrar af þeim fréttum sem þjóðinni hafa verið fluttar á þeim skamma tíma:

  • Lögmaður fær milljónir í aukagreiðslur frá gjaldþrota fyrirtæki fyrir að leggjast svo lágt að vinna fyrir það.
  • Íslenskur banki lánaði rússneskum fjárglæframanni hundruð milljarða korteri áður en hann fór á hausinn.
  • Fólk í skilanefndum bankanna skammtar sér ofurlaun.
  • Formaður stéttarfélags lætur félagið gefa sér fimm milljón króna jeppa í jólagjöf.
  • Ef þjóðin vill fá að fylgjast með landsliðinu sínu, sem er starfrækt fyrir fjármagn frá henni, verður hún að kaupa áskrift hjá einu helsta nafninu í Hruninu.

Þjóðin getur ekki hætt að vera reið meðan svona fréttir hljóma. 

Við eigum að vera neikvæð út í spillinguna og okkur er ekki viðbjargandi sem þjóð ef ranglætið reitir okkur ekki til reiði.

Þessar fréttir sýna að sópar reiðinnar eiga enn miklu hreinsunarstarfi ólokið.

Myndin er af áramótaflugeldum á himni mínum.


Hátt Alþingi?

DSC_0057 

Áramót eru afstaðin.

Við kvöddum gamla árið og heilsuðum því nýja.

Í vissum skilningi eru þannig tímamót oft á ári. Við erum oft í þeim sporum að þurfa að kveðja gamla ósiði en taka upp nýja siði.

Auðræði, það fyrirkomulag að láta stjórnast af peningum og þeim sem þá eiga, er einn ósiðurinn sem við þurfum að kveðja.

Flokksræðið þarf líka að víkja. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki kerfi búin til fyrir sig sjálfa heldur fyrir fólkið í landinu.

Við skulum líka segja bless við foringjaræðið.

Ef vel meinandi fólki verður ekki vært á þingi fyrir þá sök að vilja hlýða samvisku sinni, fylgja sannfæringu og standa við loforð sem það gaf kjósendum sínum er endanlega hægt að afskrifa virðingu Alþingis Íslendinga.

Myndin er af Súlum, bæjarfjalli Akureyringa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband