Færsluflokkur: Bloggar
28.12.2010 | 23:09
Jólaguðspjallið
Enn ein jól hafa komið í þennan guðlausa heim.
Yfir okkur hellast fornir söngvar, annarleg tákn og ótrúlegar sögur.
Jólaguðspjallið er ein þeirra.
Ef við slepptum öllu því úr frásögnum Lúkasar og Matteusar sem ekki þykir tilhlýðilegt á upplýstum tímum, hefðum hvorki englasöng yfir völlunum né Betlehemstjörnu á himninum og umfram allt minntumst ekki einu orði á meyfæðingu, þá sætum við uppi með sögu um venjulegt nýfætt barn, sem varð til á ósköp venjulegan hátt og átti ósköp venjulega foreldra.
Hirðarnir sem komu að sjá það heyrðu engan englasöng ef þeir komu þá á annað borð.
Vitringarnir komu sennilega ekki en ef þeir komu fylgdu þeir ekki neinni stjörnu.
Og um það bil tvö þúsund árum eftir þennan gjörsamlega óundursamlega atburð er fólk enn að safnast saman til að heyra um hann, syngja um hann, hugleiða hann og síðast en ekki síst - til að efast um hann.
Myndin er af kirkjunni í Lögmannshlíð ofan Akureyrar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.12.2010 | 02:35
Jólakveðja að norðan
Ég sendi öllum lesendum bloggsins míns nær og fjær hugheilar jólakveðjur.
Að þessu sinni fylgir lag kveðjunni. Lagið er Christmas in Dixie með hljómsveitinni Alabama frá árinu 1982. Textinn er minn, söngur og gítarspil einnig en öðlingurinn Gunnar Tryggvason sá um allt hitt.
Lagið er að finna í spilaranum hér á vinstri hönd.
Myndin er að norðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.12.2010 | 11:57
Það orð sem kveikir kraft og móð
Hér er prédikun sem ég flutti á Degi orðsins í Grafarvogskirkju 21. nóvember síðastliðinn. Messunni var útvarpað síðustu helgi.
I
Það sem þú gerir hefur afleiðingar. Stundum eru afleiðingar gjörða þinna beinar og augljósar, stundum óbeinar og huldar. Sumar þeirra koma ekki fram fyrr en í næstu kynslóðum, þegar þú ert horfinn af sviðinu. Vel má vera að þær afleiðingar breytni þinnar sem þú hvorki sérð né þekkir séu mun þýðingarmeiri en hinar sem þú ert þér meðvitaður um. Þú sérð ekki nema örlítið brot af afleiðingum þess sem þú hefur gert. Þú getur ekki ímyndað þér umfang þess sem þú hefur komið til leiðar. Þú hefur ekki hugmynd um öll vandræðin sem sem þú hefur komið öðrum í og þú gerir þér heldur ekki grein fyrir allri þeirri blessun sem þú hefur fært öðru fólki. Þú gengur til rekkju á hverju kvöldi án þess að þekkja alla þá atburðarás sem þú hefur sett af stað og sofnar á koddann þinn alsæll, grunlaus um öll þau ósköp sem þú hefur á samviskunni. Vald mannsins er að þessu leyti ógnvænlegt. Hann er alltaf að koma einhverju til leiðar. Eitt vængjatak fiðrildis gefur frá sér vart merkjanlegan þyt. Innan eðlisfræðinnar er til kenning um, að ekki þurfi nema eitt slíkt blak til að hafa áhrif á veðrið langt í burtu; þannig getur það verið þessum eina vængjaslætti fiðrildisins að þakka, að hvirfilvindurinn myndaðist ekki, sem annars hefði eytt borginni. Gamla spekin um að oft velti þúfa þungu hlassi fær þannig vísindalega útgáfu með hugtökunum óreiðukenning" og fiðrildahrif".
II
Og ekki bara þú ert í sífellu að hafa áhrif á aðra, meðvitað og ómeðvitað, líf þitt og örlög er háð gjörðum annars fólks, nær og fjær í tíma og rúmi. Þú ert alltaf að verða fyrir blessun og bölvun frá öðrum. Eftir því sem við vitum meira verður sú staðreynd sífellt ljósari og skýrari að engin manneskja er eyland. Við erum þvert á móti ein heild og hvert öðru háð. Það sem hver einstaklingur gerir hefur áhrif á heildina. Þess vegna er það ekki rétt að hver sé sinnar gæfu smiður. Gæfan getur verið okkar en það á hvorki við um efnivið hennar né steðjann og hamarinn sem hún er mótuð úr. Það er heldur ekki alls kostar rétt að hver sé sjálfum sér næstur. Við erum hvert öðru miklu nær en við höldum. Við erum upp á aðra komin.
Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér," segir Jesús. Guð er ekki bara þessi alltumvefjandi og fjarlæga stærð, hvorki úti í ómælunum né í dýpt frumspekilegra kenninga. Við þurfum ekki að sækja Guð ofan eða neðan. Hann er nær okkur en það. Jesús birtir okkur þann Guð sem er í bræðrum okkar og systrum, nær og fjær. Hann birtir okkur þann Guð sem er í mönnunum, náunga okkar. Hann birtir okkur þann Guð sem er samnefnari mennskunnar. Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér."
III
Örlög okkar allra eru ekki einungis samofin í því sem við aðhöfumst heldur hefur það sem við látum ógert líka afleiðingar fyrir aðra, vöntunin á því vængjataki fiðrildisins sem afstýrt hefði hamförunum eða hvarf kornsins sem fyllt hefði mælinn. Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þið ekki heldur gert mér," segir Jesús.
Að þessu sinni er Dagur orðsins hér í Grafarvogskirkju tileinkaður þjóðskáldinu sr. Matthíasi Jochumssyni og sú er ástæða þess að ég stend hér í dag; ég er einn af eftirmönnum hans. Akureyrarkirkja og Sigurhæðir, hús skáldsins, standa saman uppi í Brekkunni. Bæði húsin varpa ljóma yfir Akureyrarbæ. Andi séra Matthíasar er hluti af vinnuumhverfi mínu. Húsið hans blasir við út um gluggann á skrifstofunni minn. Mynd af séra Matthíasi er í einum kirkjuglugganna og þar eru rituð upphafsorðin úr þjóðsöngnum, sem hann gaf okkur. Amma mín sáluga kunni sögur af séra Matthíasi. Hún þekkti fólk sem hafði verið sóknarbörn hans. Séra Matthías var góður prestur og hann reyndist þeim vel sem á einhvern hátt áttu um sárt að binda. Í söguköflum sínum segir hann til dæmis frá því þegar hann vitjaði dauðsjúkrar konu sem ekki þorði að deyja en gat ekki farið með bænir. Sálusorgarinn hughreysti konuna með því að segja að Guð ætlaðist ekki til langra bæna og bætti við: Mundu, að þú ert sjúk, en frelsari þinn heilbrigður.
Nú er rödd séra Matthíasar hljóðnuð en hann heldur samt áfram að hughreysta fólk og boða trú á kærleikans Guð í sálmum sínum. Það má því segja að prestsþjónustu hans sé ekki lokið. Sálmarnir hans lifa og ég veit að þeir hafa verið og eru enn til ólýsanlegrar blessunar í lífi fólksins. Séra Matthías er gott dæmi um það hversu víðtækar afleiðingar verk okkar geta haft. Ein lína úr sálmversi, sem hann samdi norður á Akureyri fyrir meira en hundrað árum, er kannski á þessu augnabliki að hella ljósi í vonlaust hjarta. Og hver veit nema línan hafi fæðst í heimsókn skáldprestsins til konunnar, sem ekki þorði að deyja. Þannig eru örlög okkar allra samofin og sá vefnaður liggur í gegnum kynslóðir og landa á milli. Ein hending sameinar þessa óþekktu dánu konu, þjóðskáldið séra Matthías og nútíma Íslending sem hefur áhyggjur af myntkörfuláninu sínu. Við erum hvert öðru háð og upp á hvert annað komin.
IV
Í því mikla umróti sem nú er í landinu er ekki nema eðlilegt að tekist sé á og orðsins brandi sveiflað. Með orðunum gerum við upp fortíðina og með orðunum búum við til þá framtíð sem við sjáum fyrir okkur.
En þá tekur sig upp gamalt mein á Íslandi. Það hefur löngum þjáð þessa þjóð, að þegnar hennar kunna illa að tala saman. Í grein sem Pálmi Hannesson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, ritaði um miðja síðustu öld, gerir hann íslenska umræðuhefð að umtalsefni. Hann segir að hér standi ...flokkur gegn flokki og stétt gegn stétt, ekki til þess að þreyta rökræður með hófsemd..... heldur til að hagnýta til hins ýtrasta andúð, tortryggni og illfýsi." Pálmi segir að hér á landi séu stjórnmálaerjur almannaskemmtun og hún þyki dauf ef illdeilur vanti. Svo bætir hann við: Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherjarmót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkempurnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allur þorrinn kemur til mótsins, hver og einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar í síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlfúðar, tortryggni og getsaka."
Þessi gamla lýsing á landinu gæti verið úr nútímanum og það bendir til þess að enn eigum við margt ólært í þessum efnum, Íslendingar.
Verk okkar hafa afleiðingar og það gera orðin líka. Máttur orðanna getur verið mikill. Þau hafa áhrif. Orð eru til alls fyrst. Þau skipta máli.
Nú, á tímum hinna mörgu og stóru orða skulum við huga að orðunum sem við notum og hvernig við högum máli okkar.
Þjónustan við náungann felst ekki einungis í því sem við gerum heldur líka í því sem við segjum. Með orðum er hægt að meiða og niðurlægja. Með orðum er hægt að valda ótta og skelfingu og draga máttinn úr fólki. Með orðum má skamma, en með þeim má líka rökræða, uppörva, styrkja, græða og lækna.
Við erum hvert öðru háð í orðum ekki síður en verkum. Orðin berast landa á milli og geymast í hjörtum kynslóðanna. Sálmarnir hans séra Matthíasar eru dæmi um líknandi og uppbyggjandi mátt orðanna. Mættu þeir vera okkur til fyrirmyndar og leiðsagnar um hvernig við beitum málinu og Guði séu þakkir fyrir að hið líknandi og frelsandi Orð fær að hljóma á þessu landi, eða eins og séra Matthías segir sjálfur:
Það orð, sem græðir öll vor mein,
það orð, sem vermir kaldan stein,
það orð, sem kveikir kraft og móð
og kallar líf í dauða þjóð."
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.
Myndin er úr Minjasafnsgarðinum á Akureyri. Minjasafnið er eitt fallegasta húsið á Akureyri. Ég held að það hafi verið teiknað af Sveinbirni í Ofnasmiðjunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2010 | 09:48
Ógnarstjórn og spuni
Icesave er ein erfiðasta milliríkjadeila sem Íslendingar hafa staðið í. Þar voru gríðarlegur hagsmunir í húfi. Leggja átti stjarnfræðilegar upphæðir á herðar íslenskrar alþýðu. Sú alþýða átti sér talsmenn. Þeir talsmenn komu heim með samning sem þeir sögðu glæsilegan og sú besta niðurstaða sem hægt væri að hugsa sér.
Svo glæsilegur var þessi samningur að talsmenn þjóðarinnar þurftu að beita öllum brögðum til að neyða honum upp á hana. Þjóðinni var hótað öllu illu. Sverði stjórnarslita var sveiflað yfir óþægum stjórnarþingmönnum.
Í stað raka og upplýstrar umræðu ríkti andrúmsloft ógnarstjórna á Íslandi. Beygja átti alþýðu þessa lands undir ísklafann með svipu óttans. Hér færi allt fjandans til ef glæsilegi samningurinn besti yrði ekki samþykktur.
Nánast daglega fluttu fjölmiðlar landsins fréttir af öllum þeim skelfingum sem biðu þjóðarinnar ella.
Fræðimenn úr háskólasamfélaginu lýstu Íslandi sem Kúbu norðursins og Norður-Kóreu Evrópu ef þjóðin tæki ekki á sig þessar skuldir.
Forystumenn atvinnulífs og verkalýðs vöruðu við afleiðingum þess að samþykkja ekki samninginn góða. Hér frysi allt. Nánast enginn fengi vinnu lengur og nánast allir færu á hausinn.
Þegar hinn óháði Seðlabanki datt úr takti við stjórnvöld í málinu var hann sendur heim til að búa til nýjar og hagstæðari skýrslur.
En þjóðin lét talsmenn sína ekki hræða sig. Afdráttarlaust hafnaði hún hinum glæsilega samningi þeirra.
Nú er komið í ljós að samningurinn var hvorki glæsilegur né bestur. Þjóðin með forsetann í fararbroddi tók stjórnina af stjórnmálamönnunum og reyndist hafa rétt fyrir sér.
Þá byrjar næsti spuni.
Samningurinn besti sem reynt var að þröngva upp á þjóðina á að hafa verið glæsilegur á sínum tíma", eins og það er orðað.
Samningurinn sem fyrir tæpu ári var besta niðurstaðan fyrir þjóðina var bestur miðað við aðstæður þá" eða samkvæmt því sem menn vissu", svo notað sé orðfæri spunameistaranna.
En þannig er það nú gjarnan með mistökin.
Þegar menn gera mistök er það sjaldnast ásetningur. Þá segja menn ekki:
Jæja. Nú er kominn tíma til að gera einhverja vitleysu."
Mistök gera menn yfirleitt í góðri trú.
Og ef íslenskum stjórnmálamönnum mistekst þá er það að sjálfsögðu ekkert tiltökumál því miðað við þáverandi aðstæður var eiginlega ekki annað hægt en að gera sig sekan um afglöp.
Nema náttúrlega að um pólitískan andstæðing sé að ræða.
Þá ber að höfða sakamál.
Myndina tók ég nýlega fram Skíðadalinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.12.2010 | 20:27
Sjálfsgagnrýni íslenskra stjórnmálaflokka
Nú hefur umbótanefnd Samfylkingarinnar sent frá sér skýrslu.
Þar kemur fram að Samfylkingunni hafi orðið á mistök.
Mistökin eru samt eiginilega Sjálfstæðisflokknum að kenna.
Maður kemst við þegar Samfylkingin grátbiður þjóðina þannig afsökunar á mistökum íhaldsins.
Formaður Samfylkingarinnar leggur áherslur á að Samfylkingin sé ekki fórnarlamb heldur gerandi:
Gerandi varð Samfylkingin þegar hún gerðist fórnarlamb Sjálfstæðisflokksins.
Enn er þjóðinni í fersku minni þegar endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins skilaði af sér skýrslu snemma árs 2009.
Þau skrif voru ekki síður beinskeytt og sjálfsgagnrýnin en skýrsla kratanna.
Niðurstöðurnar þá voru þær að þó að Ísland hefði farið á hvínandi hausinn eftir margra ára stjórn Sjálfstæðisflokksins væri engin ástæða til að endurskoða stefnu flokksins.
Stefnan hefði nefnilega ekki brugðist heldur fólkið.
Nú hefur Samfylkingin komist að því að mistök hennar hafi einkum verið Sjálfstæðisflokksins.
Mistök Sjálfstæðisflokksins voru á hinn bóginn mistök ákveðinna manna í Sjálfstæðisflokknum.
Eftir langa yfirlegu og þrotlausa naflaskoðun kemst umbótanefnd Samfylkingarinnar sem sagt að þeirri niðurstöðu að flokkurinn eigi að líta iðrandi í eigin barm biðja íslenska þjóð afsökunar á mistökum Davíðs Oddssonar.
Myndin: Allt að gerast í Lögmannshlíðinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2010 | 22:58
Samsetning stjórnlagaþings
Mér líst ágætlega á nýkjörna fulltrúa á stjórnlagaþingið enda varla annað hægt; mér sýnist að ég hafi kosið 11 af þeim sem náðu kjöri.
Ég óska þessu ágæta fólki góðs gengis í mikilvægum störfum.
Þó hafa verið í gangi athyglisverðar kenningar um samsetningu þessa hóps.
Hann getur varla talist vera þverskurður af þjóðinni.
Þar er kannski augljósust sú staðreynd að sárafáir þingmannanna eru utan af landi. Þeir eru nánast allir af höfuðborgarsvæðinu.
Háskólafólk er mjög áberandi á þessum lista og einnig fólk í stjórnunarstöðum. Þá eru þar þrír kunnir fjölmiðlamenn.
Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, túlkar úrslit kosninganna þannig á RUV að verulega halli á landsbyggðina og bætir við:
Þetta er fyrst og fremst fræga fólkið á höfuðborgarsvæðinu og menntafólk sem mun ráða mestu þarna. Það má kannski segja að nýji konungur stjórnlagaþingsins sé Egill Helgason, því flestir frambjóðandanna hafa verið áberandi í Silfri Egils.
Þegar þessi nýji konungur stjórnlagaþingsins, Egill Helgason, birti lista yfir kjörna þingmenn á bloggsíðu sinni og hafði gaumgæft hann, voru þetta fyrstu viðbrögð hins glögga þjóðfélagsrýnis:
Strax vekur athygli að þarna eru tveir prestlærðir fulltrúar.
Myndin er af höfuðstað Norðurlands en þar búa tveir hinna nýkjörnu þingmanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2010 | 15:45
Höfuðborgarhrokinn
Skoðanir mínar á því hvar sé best að hafa flugvöll í Reykjavík eru hvorki sterkar né stækar.
Samt held ég að staðsetningin sé ekki einkamál Reykvíkinga þótt álit íbúanna hljóti að hafa sitt að segja.
Sumir Reykvíkingar virðast gleyma því að Reykjavík er höfuðborg Íslands. Sá titill er ekki einungis til virðingar og upp á punt. Höfuðborgir hafa hlutverkum að gegna. Höfuðborg er ekki einungis til fyrir sig sjálfa heldur fyrir landið allt. Þannig er Reykjavík ekki höfuðborg Reykjavíkur heldur Íslands.
Þess vegna er hún miðstöð. Þar eru ýmsar stofnanir sem þjóna landinu öllu. Þær eru bæði byggðar og kostaðar af Íslendingum og eru til fyrir þá.
Þess vegna eiga landsmenn allir þó nokkuð í höfuðborginni.
Þannig er það með langflestar höfuðborgir veraldarinnar. Þær þjóna landinu öllu og þess vegna er reynt að hafa samgöngur þangað í sem bestu lagi; þjónustan í höfuðborginni á að vera sem aðgengilegust fyrir landsmenn alla enda er hún í þeirra þágu og á þeirri kostnað.
Að vísu eru ekki alls staðar hafðir flugvellir inni í höfuðborgum en víðast hvar er brautarstöð, gjarnan á besta stað í miðborginni.
Sú tilhögun, að hafa brautarstöðvar á rándýrum byggingarlöndum í höfuðborgunum miðjum, er til að tryggja sem besta og greiðasta tengingu landsmanna við þá þjónustu sem er í höfuðborgum.
Á Íslandi eru ekki járnbrautir en Reykjavíkurflugvöllur er okkar brautarstöð.
Sumir vilja hafa brautarstöðina í Reykjavík í Keflavík.
Nú fyrir helgina birtist pistill um það í einu borgarblaðanna. Þar segir m. a.:
Sumir segja að það sé ein af skyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landsbyggðinni að halda úti flugvelli. Ímyndum okkur að þú eigir ættingja úr öðru bæjarfélagi sem fær að gista hjá þér nokkrum sinnum á ári. Þótt hann komi ekki oft krefst hann þess hins vegar að í íbúðinni sé tekið frá fyrir hann heilt herbergi með uppábúnu rúmi allan ársins hring. Þegar þú leggur til að breyta herbergi uppi á lofti í gestaherbergi, af því þú vilt nýta hitt herbergið í eitthvað annað, stappar frændi niður fótum og segir nei, það er svo langt að fara. Keflavík er í þessu samhengi bara annað herbergi í sama húsi.
Þegar við landsbyggðarfólk förum til Reykjavíkur til að nýta okkur þjónustuna sem við tökum þátt í að kosta er það orðað þannig í ofangreindum pistli að við fáum að gista hjá höfuðborgarbúanum.
Náðarsamlegast.
Og eigum að vera þakklát fyrir að fá að gista úti í garði.
Myndin: Vetur í bæ.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2010 | 20:43
Sjötug Akureyrarkirkja
Í dag fögnuðum við 70 ára afmæli Akureyrarkirkju en hún var vígð 17. 11. 1940.
Dr. Pétur Pétursson prédikaði í heilmikilli hátíðarmessu. Um áratuga skeið var faðir hans prestur við Akureyrarkirkju. Afi Péturs vígði kirkjuna, þáverandi biskup Íslands.
Í gær hitti ég dr. Pétur neðst í kirkjutröppunum og við horfðum á kirkjuna okkar fannslegna eins og sést á myndinni hér fyrir ofan.
Í prédikuninni sagði Pétur að kirkjan hefði sett upp brúðarslörið í tilefni dagsins.
Hún er vígð Jesú Kristi og brúður hans.
Fallega talaði Pétur og tónlistin við messuna var líka stórkostleg.
Ég birti hér sálm sem Kristján frá Djúpalæk orti einu sinni fyrir Akureyrarkirkju.
Hann heitir Í kirkju.
Hvar finnur sá í veðrum var
sem villtur gengur freðna jörð
og geig í brjósti ber?
Hvar leita skal á flótta för
að friði, er það hér?
Hvar fær hinn sjúki sárabót
og sorgarbarnið huggun þá
sem eigi blekking er?
Hvar finnur sekur sannan vin
og samúð, er það hér?
Hvar gefst þeim aldna athvarf tryggt
og ungum leiðsögn fram um veg?
Þeim von sem vonlaus er?
Hvar kynnist maður miskunn Guðs
og mildi, er það hér?
Hvar hlýtur órór andi svör
sem ævilangt um sannleik spyr
og efans byrði ber?
Hvar leita skal, um langa nótt
að ljósi? Það er hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2010 | 09:07
Þannig á að leysa skuldavanda heimilanna
Í vikunni fékk þjóðin ennþá einu sinni fréttir af stórfelldum skuldaniðurfellingum einstaklinga.
Leiðrétting skulda venjulegs alþýðufólks er snúnara mál.
Í gær mættu í Kastljósið til að ræða þau mál þeir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Athyglisverð þóttu mér eftirfarandi orðaskipti efnahags- og viðskiptaráðherra og Brynju Þorgeirsdóttur, fréttamanns:
Brynja: Hvaða leið hugnast þér? Þú varst á þessum fundi í dag, m . a. með bönkunum. Eru bankarnir opnir fyrir því að gefa einhvern afslátt, að fara einhverja leið sem kostar þá einhverjar fjárhæðir?
Árni Páll: Ja, ég hef ítrekað talað fyrir því að bankarnir þurfi auðvitað að koma til leiks og að þeir þurfi að skila til þjóðarinnar því svigrúmi sem þeir hafa til að mæta fólki í greiðsluerfiðleikum og skuldaerfiðleikum.
Brynja: En er það raunsætt að þeir muni taka á sig einhverjar gríðarlegar fjárhæðir í þessu?
Árni Páll: Þeir fengu svigrúm og ég vil að þeir nýti það svigrúm og mér finnst eðlilegt að ætlast til þess af þeim og það auðvitað er uppleggið frá okkar hendi. Við þurfum að reyna að finna lausn sem gerir okkur kleift að loka þessu máli en við verðum að muna það að við verðum að leysa þetta mál, það er engum öðrum til að dreifa til að leysa þetta mál. Við þurfum að ná sátt um niðurstöðu. Við þurfum að tryggja að hún sé þannig að banka leggi allt það af mörkum sem þeir geta...
Brynja: En nú ber þeim engin lagaleg skylda til að veita neinn afslátt, þú ert að treysta svolítið á svona þeirra góða vilja. Er það ekki svolítið haldlítið?
Árni Páll: Það liggur auðvitað ljóst fyrir að þeir þurfa að mæta afskriftum, þeir þurfa að umbreyta lánum til þess að laga eignasafn sitt og til þess hafa þeir fengið svigrúm. Það svigrúm eiga þeir að nýta og þurfa að nýta og mér fannst gott að heyra í dag að þeir voru tilbúnir til viðræðna.
Í morgun las ég svo frétt á Eyjunni, undir fyrirsögninni Skuldir heimilanna: Bankarnir segja svigrúm til afskrifta fullnýtt. Þar segir:
Ekki er frekara svigrúm til afskrifta húsnæðisskulda að mati forsvarsmanna bankanna. Þeir segja það svigrúm sem skapaðist þegar lánin voru færð úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með afföllum sé nánast fullnýtt með þeim úrræðum sem þegar hefur verið gripið til, og verði það örugglega þegar gengistryggðu lánin verða leiðrétt.
Svo mörg voru þau orð.
Myndin: Vetrarleg Akureyri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2010 | 22:07
Andhverfa tillögu mannréttindaráðs
Umræðan um tillögur mannréttindaráðs hefur að miklu leyti snúist um trúboð í skólum.
Af umræðunnni að dæma virðis ástandið í reykvískum skólum þannig að þar séu útsendarar Þjóðkirkjunnar á fullu við að snúa skólabörnum til kristinnar trúar og prestarnir vappandi á skólalóðinni, bíðandi eftir því að geta smeygt sér inn um dyr eða glugga sem gleymdist að loka nógu vel.
Talað er um fullt aðgengi" Þjóðkirkjunnar að skólabörnum og gefið í skyn að prestarnir þurfi ekki annað en að hringja í auðsveipa skólastjóra til að koma fram áráttukenndum trúboðsvilja sínum.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég er eindregið þeirrar skoðunar að trúboð eigi ekki heima í skólum landsins. Það er líka yfirlýst stefna Þjóðkirkjunnar að skólar eigi að sinna fræðslu um trú og öll aðkoma starfsmanna kirkjunnar að skólunum eigi að vera á forsendum skólans.
Ég er ekki viss um að ástandið í reykvískum skólum sé eins og skilja mætti af umræðunni.
Ég er þeirrar skoðunar að sýna beri öllum nemendum íslensku skólanna virðingu, nærgætni og tillitssemi, óháð trúarskoðunum, og það sama eigi að gilda um foreldra barnanna.
Ég efast á hinn bóginn um að það sé gert í tillögum mannréttindaráðs í Reykjavík.
Í dag heyrði ég um framtak í norðlenskum skóla sem mér sýnist vera negatívan af tillögum mannréttindaráðsins fyrir sunnan.
Í skólanum er barn úr trúfélagi þar sem ekki eru haldin jól.
Nú er aðventan framundan sem gæti reynst þessu barni erfiður tími.
Í þessum skóla á að bregðast við því með því að fá fulltrúa trúfélagsins til að mæta í skólann og útskýra fyrir börnunum viðkomandi trúarbrögð og af hverju barnið heldur hvorki jól né undirbýr þau á aðventunni.
Fulltrúi trúfélagsins er boðinn velkominn í stað þess að útiloka hann.
Barninu, sérstöðu þess og trú, er sýnd virðing í stað þess að fara í einhvern feluleik.
Fulltrúi trúfélagsins verður að sjálfsögðu að vinna á forsendum skólans í heimsókninni. Bregðist hann því trausti sem honum er sýnt með því að biðja hann um að tala við börnin verður skólinn að grípa til viðeigandi aðgerða, rétt eins og hann verður að grípa til aðgerða gegn þeim starfsmönnum Þjóðkirkjunnar sem ekki þekkja sín takmörk á þessu sviði.
Myndin: Frosið vatn getur skapað ótrúlegustu listaverk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)