Færsluflokkur: Bloggar

Stóra rúðumálið

DSC_0363 

Allnokkur umræða hefur verið um myndarúðu í Akureyrarkirkju sem upphaflega var í dómkirkjunni í Coventry á Englandi.

Hún er sögð þýfi og þeir þjófkenndir sem rúðuna keyptu.

Í Fréttatímanum um helgina eru Akureyringar sakaðir um að skreyta kirkju sína með stolnum breskum þjóðargersemum og biskup Íslands eggjaður til að sjá um að þýfinu verði skilað.

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að skila rúðunni. Auðvelt væri að búa til eftirmynd hennar og koma henni fyrir í stað Coventry-rúðunnar.

Í fyrra komu tveir fulltrúar dómkirkjunnar í Coventry í opinbera heimsókn til Akureyrar.

Erindi þeirra var reyndar ekki það að biðja um að fá rúðuna aftur.

Né heldur að væna Akureyringa um þjófnað eða saka þá um að skreyta kirkju sína með stolnum þjóðargersemum frá Englandi.

Fulltrúar dómkirkjunnar áttu það erindi að lýsa yfir ánægju sinni með að rúðan frá Coventry væri í Akureyrarkirkju.

Og þeir óskuðu eftir því að í framtíðinni yrði fleira til að tengja þessar tvær kirkjur en hin fagra myndarúða.

Er unnið að því að efla enn frekar vináttu og samstarf dómkirkjunnar í Coventry og Akureyrarkirkju.

Rúðan er ensk en dylgjur um þjófnað, þýfi og brottnumdar þjóðargersemar eru ekki ensk framleiðsla heldur Made in Iceland

Ef til vill segir það sína sögu um hugarfarsástandið í því landi?

Myndin: Rúðan frá Coventry er miðhluti miðjugluggans í kór Akureyrarkirkju.

Viðbót:

Vinur minn sendi mér tengingu á stutt viðtal við Kenyon Wright, annan gestanna frá Coventry. Það er hér:

http://www.youtube.com/watch?v=RJfqDjX6U6Y

Ennfremur eru áhugaverðar tengingar í athugasemdum.


Þjóð meðal þjóða

DSC_0670 

Í vikunni birtust fréttir um að Ísland hefði dottið niður um fjórtán sæti á nýjum lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna.

Aumingja við.

Þess var ekki getið að samkvæmt þessum sama lista er Ísland í sautjánda sæti þrátt fyrir efnahagshrun og bankagjaldþrot.

Það kom heldur ekki fram að næstu lönd fyrir neðan Ísland eru Belgía, Spánn og Danmörk.

Ennfremur var ekki tekið fram að um það bil 150 lönd eru neðar en Ísland á þessum lista Sameinuðu þjóðanna.

Nú árar vel fyrir neikvæðnina. Nú eru kjöraðstæður fyrir niðurrif.

Íslendingar eru ómögulegir. Þeir gera allt vitlaust. Þeir kunna ekki með sig að fara.

Vissulega þarf að rífa niður, afmá og hreinsa, en það þarf líka að  og byggja upp, skapa nýtt og búa til. Við skulum ekki láta eins og það illa sé ekki til og við skulum ekki reyna að sópa því undir teppi.

Það má þó aldrei verða til þess að við gleymum því eftirsóknarverða, því þjóðfélagi sem við sjáum fyrir okkur, þeirri borg sem er bakgrunnur allra okkar drauma og starfa.

Það er enginn hörgull á gagnrýnisröddum, á vandlætingum, skömmum, umkenningum, niðurrifi, en hinir eru færri, sem glæða vonirnar og gefa þjóðinni framtíðarsýn, það eldsneyti, sem henni er nauðsynlegt til að  byggja hér upp.

Við þurfum að eiga okkur drauma, fyrirmyndir og markmið. Við þurfum að sjá eitthvað fyrir okkur.

Engin þjóð verður þjóð meðal þjóða nema hún sé þjóð í eigin augum.

Myndin er tekin niður Skíðadal.


Gljúfrabúi og Þurrifoss

DSC_0693

Frægasti foss Eyjafjarðar, Gljúfrabúi, gamli foss, sem listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, orti um í Dalvísu sinni, er ekki á fossasýningunni minni.

Á því er skýring.

Þessi umtalaði og lofsungni foss, merkisberi eyfirskra fossa, er orðinn mjög slappur enda enn eldri en hann var þegar hann fékk um sig vísuna forðum. 

Gljúfrabúi mun vera fyrir ofan Steinsstaði í Öxnadal. Ég heyrði að hann væri orðinn frekar vatnslítill og varla að hann sæist nema í vorleysingum.

Vinkona okkar í sveitinn var búin að lofa að labba með okkur fossakönnuðum að honum. Ekkert varð þó af því.

Þegar til átti að taka var Gljúfrabúi nefnilega horfinn og þornuð klöppin þar sem hann streymdi.

Ekki nóg með það.

Fræðimenn hafa fært fyrir því rök að algjörlega óvíst sé að Gljúfrabúi Jónasar hafi verið í Öxnadal.

Margt bendi til þess að í Dalvísunni hafi þjóðskáldið verið að yrkja um foss suður á landi.

Fer þá að saxast verulega á þennan frægasta foss okkar Eyfirðinga.

Í fyrsta lagi er hann uppþornaður.

Og í öðru lagi er hann sennilega fyrir sunnan.

Óhætt er að segja að eyfirsk fossafræði taki á sig hinar furðulegustu myndir.

Því til sönnunar tilfæri ég sögn sem ég heyrði í dag, af vörum gests á fossasýningunni minni.

Lengst frammi í Eyjafirði, rétt áður en ekið er upp úr firðinum á öræfi Íslands, er barð eitt töluvert.

Glöggir gangnamenn sáu að hugsanlega gæti foss fallið fram af þessu barði, væru aðstæður hagfelldar.

Ef foss ætti að falla fram af barðinu gæti það samt örugglega ekki gerst nema í blávorleysingunum.

Þess vegna sáu gangnamenn aldrei neinn foss þarna því þeir eru á ferðinni á haustin.

Reyndar er enginn á ferli þarna á vorin því þá er allt kolófært á þessum slóðum.

Fossinn á barðinu er því aldrei sýnilegur neinum sé hann á annað borð til.

Eyfirðingar nefna þennan hugsanlega mögulega ef til vill foss Þurrafoss því enginn hefur séð hann nema þurran.

Gljúfrabúi og Þurrifoss eru dæmi um hin hátimbruðu eyfirsku fossafræði sem ekki er á færi nema öflugustu heila að skilja.

Myndin er úr Lystigarðinum á Akureyri.


Eyfirskir afreksfossar

DSC_0365PS

Eyjafjörður er þekktur fyrir fjöllin sín, hyrnur, hnjúka, fell og tinda.

Þar eru líka gnóttir vatns.

Fjöllin og vatnið mynda kjörlendi fyrir fossa enda er söfnuður þeirra fjölmennur í firðinum.

Flestir Eyjafjarðarfossanna hafa fallið öldum saman án þess að þeirra hafi verið getið í annálum. Enginn þeirra kemst í hóp stærstu og kraftmestu fossa landsins.

Þó eru þeir allir afreksfossar, hver með sínu lagi. Sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym. Aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir kasta sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum.

Allir eru þeir samt lúsiðnir og enginn að reyna að vera neitt annað en hann er.

Mikið vantar í upplifun okkar af Eyjafirði séu fossarnir þar ekki. Þeir eru veigamikill þáttur í náttúrudásemdum héraðsins.

Nú er tími til kominn að sú fegurð sé sótt ofan í myrkur gilja og gljúfra og gerð sýnileg.

Í sumar hef ég ferðast um Eyjafjörð og tekið myndir af fossum hans. Ég hef heimsótt marga tugi yndislegra fossa sem allir reyndust ljómandi fyrirsætur.

Ber ég ykkur kveðju þeirra.

Nú um helgina opna ég sýningu á hluta af fossamyndunum mínum.

Hún verður í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju og hægt er að sjá hana milli kl. 13 og 17 laugardag og sunnudag, 30. & 31. 10.

Næstu vikur verða myndirnar til sýnis á opnunartímum Safnaðarheimilisins. Helgaropnun verður auglýst sérstaklega.

Megnið af minni hálfu öld hef ég átt skjól á milli fjalla Eyjafjarðar.

Sýningin er örlítill þakklætisvottur fyrir árin og skjólið.

Verið velkomin!

Myndin er af einum fossa Fossár á Þelamörk. 

 


Eymd íslenskra fjölmiðla

DSC_0537 

Ég hef miklar mætur á blaðamanninum Sölva Tryggvasyni og les gjarnan pistlana hans á Pressunni. Oft finnst mér hann hitta naglann á höfuðið.

Eldsnemma í dag birti hann þennan pistil um íslenska fjölmiðla.

Þar segir Sölvi að valdið yfir fjölmiðlunum sé í höndum neytenda. Fjölmiðlar segi þær fréttir sem fái mestan lestur, hlustun eða áhorf.

Ég er sammála Sölva um að ekki sé nóg að beina athyglinni að fjölmiðlunum. Líka þurfi að huga að hlustendum, áhorfendum og lesendum. Löngu er orðið tímabært að taka upp kennslu í fjölmiðlanotkun í skólum landsins.

Í dag átti ég þess kost að heyra forsvarsmenn Siðmenntar segja frá fermingarfræðslu á vegum samtakanna. Þar á bæ er lögð mikil áhersla á að kenna gagnrýna hugsun.

Gagnrýnin hugsun er eitt af því sem þarf til að búa hér til mynduga fjölmiðlanotendur.

Sambandið milli fjölmiðla og neytenda er samt ekki lengur svona þráðbeint eins og margir telja að það sé.

Ef mér mislíkar Fréttablaðið get ég t. d. ekki sagt því upp. Það kemur til mín hvort sem mér líka betur eða verr.

Það er miklu hættulegra fyrir Fréttablaðið að styggja auglýsendur en neytendur því blaðið lifir á auglýsingunum.

Og síðast en ekki síst á á blaðið líf sitt undir velvilja eigenda sinna sem „ráða þessu á endanum", eins og framámaður í stétt blaðamanna orðaði það á sínum tíma.

Fréttablaðið þarf ekki að lúta neinu áskrifendavaldi. Lesendavaldið hefur verið veikt, en eigendavaldið og auglýsendavaldið hefur á hinn bóginn eflst.

Reyndar eru fæstir fjölmiðlar hér á landi reknir með hagnaði. Ég held að bullandi tap sé á þeim flestum. Þeir fá ekki peninga til að reka sig frá neytendum.

Peningarnir koma annars staðar frá og þar er ef til vill einn helsti veikleiki íslenskra fjölmiðla:

Þeir slá ekki á höndina sem mokar í þá peningunum.

Eins og dæmin sanna.

Myndin: Norðlenskt hestalíf


Meira um skólann og trúna

DSC_0058 

Það er hlutverk skólans að fræða um trú. Skólinn boðar hana ekki.

Hvorki Þjóðkirkjan né prestar hennar gera kröfu um það.

Árið 2004 samþykkti Kirkjuþing fræðslustefnu kirkjunnar. Þar segir:

Skólanum er ætlað að fræða um trú og lífsgildi... Kirkjan getur vissulega stutt skólasamfélagið með fræðslu um trú og lífsviðhorf en þá á áðurnefndum forsendum skólans.

Þar sem ég þekki til fara prestar ekki inn í skóla nema nærveru þeirra sé óskað.

Síðast þegar ég var kvaddur til í skóla hafði barn misst foreldri. Nokkur skólasystkinanna höfðu hug á að fara í útförina en höfðu aldrei sótt slíka athöfn. Var ég beðinn að útskýra hvernig hún færi fram. Auk þess svaraði ég fyrirspurnum barnanna. Kennari þeirra var að sjálfsögðu viðstaddur.

Ég hef ekki orðið var við annað en að skólafólk geri allt sem í þess valdi stendur til að misbjóða ekki nemendum sínum eða foreldrum þeirra í þessum efnum.

Séum við prestarnir til einhverra vandræða treysti ég skólayfirvöldum til þess að grípa til viðeigandi aðgerða.

Hlutleysi skólans í trúarefnum er ekki fólgið í því að úthýsa því trúarlega. 

Skólinn sýnir hlutleysi í trúarefnum með því að sýna nemendum sínum virðingu og nærgætni óháð því hvaða trú þeir aðhyllast og gæta sanngirni í umfjöllun um trúarbrögðin.

Trúarbrögðin eiga ekki að vera feimnismál eða bannorð í skólanum. Krakkar af mismunandi trúarbrögðum í einum skóla geta þvert á móti auðgað skólastarfið sé rétt á spilum haldið.

Skólinn ætti að hvetja nemendur til að segja frá sínum trúarhátíðum, siðum og helgiathöfnum. Þannig stuðlar hann að skilningi og umburðarlyndi og á því hefur aldrei verið meiri þörf en núna.

Það gerir skólinn ekki með því að læsa trúarbrögðin niðri í kjallara og gera þau ósýnileg í skólastarfinu.

Stundum heyrist í umræðunni að fólk eigi að fá að vera í friði með trú sína.

Ég tek undir það.

Þó þurfum við að lifa saman í þessu samfélagi, fólk af mismunandi trúarbrögðum og með alls konar trúarskoðanir. Við þurfum að umbera hvert annað. Til þess þurfum við að þekkja hvert annað, trú, menningu, gildi og siði.

Þótt við höfum öll rétt til okkar trúar eigum við ekki að loka okkur af, hvert í sínu horni. Við eigum að tala saman.

Í lífinu þurfum við að hafa samskipti við fólk með ýmsar trúarskoðanir. Skólinn á meðal annars að búa okkur undir það. Það gerir hann ekki með því að láta eins og trúarbrögðin séu ekki til, í heimi, þar sem Gamli Nói má bara keyra kassabíl en er harðbannað að vera guðhræddur og vís.

Myndin er tekin inn Ólafsfjörð.


Jesúbann fyrir sunnan

 DSC_0398

Nú verða næstu litlu jól   „trúarlega hlutlaus" í skólum höfuðborgarinnar nái tillögur meirihluta mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar fram að ganga.

Trúarlegt hlutleysi litlu jólanna lýsir sér í því að úthýsa öllu trúarlegu.

Trúarlega hlutlaus lítil jól er annað nafn á trúlausum litlum jólum.

Og trúarlega hlutlausir skólar annað heiti á trúlausum skólum.

Þar er í nafni mannréttinda bannað að syngja „Heims um ból" í en þess í stað leyfilegt að kyrja sönginn um Snæfinn snjókall.

Helgileikir reykvískra skólabarna hafa lengi verið þyrnir í augum allra ærlegra mannréttindasinna. Mannréttindaráðið ætlar því að banna slíka leiklist.

Hvorki englar né fjárhirðar líðast í skólunum og stjarna vitringanna samrýmist ekki mannréttindum. 

Mannréttindin hafa heldur ekki pláss fyrir gull, reykelsi og myrru en hugsanlega má geta um annars konar veraldlegar og afhelgaðar gjafir.

Hljóti jata náð fyrir augum trúboðseftirlits Reykjavíkurborgar verður hún að sjálfsögðu að vera tóm því að í nafni mannréttinda verður að halda Jesú frá reykvískum skólabörnum á litlu jólunum þeirra.

Og af því að bannað er að syngja sálma í skólum Reykjavíkurborgar hlýtur að vera skýlaust mannréttindabrot sé sálmurinn nr. 516 úr Sálmabók þjóðkirkjunnar sunginn þar innan veggja.

Myndin er trúarlega hlutlaus jólamynd.


Reiðast eigum vér

DSC_0138

Þjóðin varð reið í Hruninu. Þá lét fólk reiði sína í ljós á borgarafundum og fjölmennum mótmælum.

Hrunið er orðið tveggja ára og enn er fólk reitt. Reiði þess fannst vel á Austurvelli fyrr í þessum mánuði þegar fólkið barði tunnur, grýtti eggjum í Alþingishúsið og mölvaði rúður í Dómkirkjunni.

Nú eru þær raddir hljóðnaðar sem á sínum tíma sögðu eignaspjöll ekki ofbeldi en þess í stað er því haldið fram að reiðin sé ekki til neins.

Á það bendir til dæmis Pétur Blöndal í viðtali í Fréttablaði helgarinnar. Þar segir hann m. a.:

Menn segja og gera ýmislegt þegar þeir eru reiðir en gera aldrei neitt uppbyggilegt. Ég hef aldrei séð nokkurn mann gera eitthvað uppbyggilegt í reiði.

Þessi boðskapur Péturs er í anda einhverrar frægustu prédikunar sem flutt hefur verið á þessu landi, svonefnds Reiðilesturs sr. Jóns Þorkelssonar Vídalíns en þaðan er þessi bútur:

Heiftin er eitt andskotans reiðarslag. Hún afmyndar alla mannsins limi og liði. Hún kveikir bál í augunum. Hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar svo sem þegar hafið er uppblásið af stórviðri. Og í einu orði að segja: Hún gjörir manninn að ófreskju og að holdgetnum djöfli í augum þeirra sem heilvita eru.

(Jón Þorkelsson Vídalín, Vídalínspostilla, Reykjavík 1995, bls. 130 - 131)

Valdamönnum virðist vera mikið í mun að sefa reiði almennings. Til þess er auðvitað aðeins ein leið:

Fólk verður annars vegar að geta tjáð reiði sína og fundið útrás fyrir hana. Hins vegar þarf það að vita af hverju það reiddist og finna að verið sé að vinna gegn orsökum reiðinnar.

Sú leið að banna fólki einfaldlega að reiðast og segja reiðina óholla er ekki vænleg til árangurs. Fólk reiðist ekki sér til gamans. Yfirleitt velur fólk sér ekki að vera reitt. Það er enginn off-takki á reiði fólks.

Meistari Jón Vídalín taldi reiðina líka eiga rétt á sér. Í Reiðilestri sínum segir hann:

Það er og ekki réttvíst aldrei að reiðast. Reiðast eigum vér syndum og glæpum, reiðast eigum vér sjálfum oss nær vér fremjum eitthvað af slíku, reiðast eigum vér og vandlæta fyrir Guðs sakir. Því það er hvörki mögulegt né gagnlegt reiðina aldeilis burtu að taka.

(Vídalínspostilla, bls. 135)

Reiði fólks verður ekki svæfð með spuna.

Og mér finnst þessi reiði að mörgu leyti réttlát. 

Er eðlilegasta skýringin á því að enn er fólki ekki runnin reiðin ef til vill sú að sáralítið hefur breyst frá því að fólk reiddist hér árið 2008?

Ein af afleiðingum hrunsins er sú að skuldir fólksins bólgnuðu út. Nú er því sagt að ekki sé hægt að vinda ofan af þeirri þróun. Það kosti meira en tvöhundruð milljarða og þeir peningar séu því miður ekki til.

Í sömu viku og fólki var tilkynnt um þær málalyktir voru sagðar fréttir af enn einni afskrift hjá auðmanni.

Hún kostaði ekki nema 50 milljarða.

Ég er viss um að fólk er tilbúið að færa ýmsar fórnir, leggja hart að sér, herða sultarólina, neita sér um hluti, en fólk verður að upplifa það að þjóðfélagið sé réttlátt og sanngjarnt.

Þannig er fólk því miður ekki að upplifa Ísland í dag og þess vegna er það reitt.

Vel má vera að lítið uppbyggilegt komi út úr reiðinni. Hún rífi niður frekar en að byggja upp.

En þarf ekki stundum að rífa niður til að hægt sé að byggja upp af viti?

Svo mælir meistari Jón Vídalín á öðrum stað:

Eg þori framar að tala: Það er ekki Guði þægt og gagnar ekki til hans dýrðar að menn altíð gefi rétt sinn eftir, því það gjörir óhlutvanda menn oftast þess verri og ásæknari svo að það má sýnast að sá efli illsku þeirra sem lætur hlut sinn fyrir þeim ef hann má ná hönum með lögum og rétti. Sá sem vill taka frá mér æru mína og gott mannorð, mun það Guði á móti að eg forsvari mig löglega fyrir áaustri hans? Hann lýgur upp á mig lýtum og skömmum sem eg aldeilis ekki er valdur af, mun mér ei leyfilegt að bera hönd fyrir höfuð mitt þar svo ástendur? Einhver rænir mig fjárhlutum mínum, óðölum og arfagóssi eður öðru því sem eg er vel að kominn, og það annaðhvert með ofríki eður yfirvarpi laga og réttinda, svo eg líð skort á forsorgun minni og þeirra sem mér eru vanabundnir, konu, barna og hjúa, hefi ekki það eg megi fátækum gefa og bjarga nauðstöddum með, en hann brúkar fé mitt til óhófs og ofmetnaðar, því svo gjöra þeir oftast er láta þénara sína stökkva yfir hvern þröskuld til að fylla hús drottna sinna með ráni og svikum, mun Guð banna mér að verja mitt með lögum á móti slíkum ofstopa? Fjærri sé því. Annars hefði hann ekki girt í kringum frelsi mitt og eigur með laganna múr.

(Vídalínspostilla, bls. 626)

Myndin er af öxndælskum fossi.


Rokland

Ólafsvík (1) 

Núna í hauststillunum rifjast upp nokkrar roksögur.

Sú fyrsta er úr Höfðahverfinu. Þar getur hvesst hressilega. Einu sinni lenti bóndi þar nyrðra í svo miklu roki að þegar hann fór út að huga að skepnum og húsakosti sló harkalega niður sviptivindi þar sem hann var staddur.

Fékk hann ekki við neitt ráðið og fuku út úr honum fölsku tennurnar.

Þegar ég sagði þessa sögu vestur á Snæfellsnesi þótti mönnum þar lítið til koma. Var mér sögð saga af manngarmi einum sem reið götur í rólegheitum í Staðarsveitinni. Þar getur hvesst alveg óskaplega og mjög skyndilega.

Og einmitt það gerðist þegar maður þessi reið göturnar grunlaus. Allt í einu kom hífandi rok. Rak á þvílíka hviðu að hesturinn fauk undan manninum á haf út og hefur ekki sést síðan.

Fræg eru sterkviðrin sem koma stundum í Bolungarvík á Ströndum. Í 99 vestfirskum þjóðsögum, 4. bindi, sem Finnbogi Hermannsson safnaði og Vestfirska forlagið gaf út í fyrra, segir frá einu slíku.

Eitt sinn á fengitímanum var Reimar bóndi Finnbogason í Bolungarvík að teyma hrút á milli húsa. Gerði aftakaveður.

Þannig er sagt frá atburði þessum í 4. bindinu af 99 vestfirskum þjóðsögum:

„Skellti hann hrútnum flötum og lenti skepnan þá á vegg og steinrotaðist. Stóð hrútsi þó upp aftur, en þá kom svo mikil vindhviða að hann fauk á haf út og hélt Reimar eftir blóðugum hornunum, einu í hvorri hönd."

Glöggir menn taka eftir að í þessum sögum fengu bæði hesturinn og hrúturinn þau örlög að fjúka á haf út.

En hvert fóru gervitennurnar?

Samkvæmt sögunni lentu gervitennurnar, efri og neðri gómur, á fjósvegg og læstust þar í þakskeggi.

Þar blasa þær glottandi við vegfarendum, láta mjög skína í veðrað tannholdið og minna þann veg á, að svikult er lognið í Höfðahverfinu.

Myndina tók ég í Ólafsvík, þeim dýrðarstað.


1233 börn

DSC_0137 

Ég vil ekki vera neikvæður en sú jákvæðni sem felst í því að vilja ekki sjá það neikvæða hlýtur að enda með ósköpum.

Einn spuninn í samfélaginu hefur gengið út á það að hér sé allt í lagi.

Allt of mikið sé gert úr vandræðum fólksins.

Að vísu er það rétt að heimsendaspár þeirra sem vildu endilega troða æseivskuldinni upp á þjóðina hafa ekki ræst, Guði sé lof.

Við sáum það samt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í kvöld að uppboðshömrunum er sveiflað yfir íslenskri alþýðu.

Spunameistarar hafa haldið því fram að einungis fólk sem keypti sér glæsivillur og jeppa á 100% lánum sé í vandræðum.

Það geti sjálfu sér um kennt.

Í sjónvarpinu í kvöld sáum við að það eru ósköp venjulegar íbúðir sem verið er að bjóða upp.

Í þeim búa ósköp venjulegir Íslendingar.´

Sárt var að heyra lýsingarnar á gráti fólksins þegar uppboðshaldarinn mætti með hamarinn og barnafjölskyldur voru reknar út á Guð og gaddinn.

Ég vona a stjórnvöld heyri þann grát og skynji örvæntingu fólksins.

Í dag barst mér fréttabréf fyrirtækisins Credit Info.

Þar eru ekki uppörvandi fréttir.

Frá 1. - 8. október s.l., á einni viku, var 81 heimili auglýst á framhaldsuppboði og 55 fasteignir lögaðila hér á Íslandi.

Nú er vinsælt að kenna bönkunum um uppboðin en í fréttabréfinu er sagt frá því að Íbúðalánasjóður sé sá kröfuhafi sem eigi hlutdeild í flestum framhaldsuppboðum heimila.

Næst koma tryggingafélög og sveitafélög.

Alvarlegir fjárhagserfiðleikar mælast hlutfallslega mestir hjá einstæðum foreldrum en fjölmennasti hópurinn eru barnafjölskyldur með foreldra á aldrinum 30 - 50 ára.

1.233 íslensk börn búa á heimilum sem auglýst hafa verið á framhaldsuppboðum fyrstu níu mánuði ársins.

Myndin: Ljósið blessar Dalvíkina. Megi það lýsa bjart yfir allt Ísland.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband