Færsluflokkur: Bloggar

Landinu stolið, þjóðin svívirt

DSC_0759 

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að bankarnir hafi verið tæmdir.

Fyrirtækin voru líka ryksuguð, bútuð í sundur, eyðilögð og seld.

Meira að segja bótasjóðum tryggingafélaganna var ekki hlíft.

Og greipar voru látnar sópa um lífeyrissjóðina okkar.

Nú eru okkur fluttar fréttir um að á næstunni megi búast við að yfir 70.000 íslenskar fjölskyldur verði eignalausar.

Þar er um að ræða fólk sem notaði peningana sína til að kaupa sér bíla og fasteignir. 

Fjármálastofnanir buðu fólki lán til kaupanna.

Nú hafa lánin bólgnað út en eignirnar fallið í verði. Eignastaðan er núll eða jafnvel neikvæð. Eign fólksins er farin.

Þá byrjar spuninn.

Alþýðunni, sem tapaði öllu, eignum sínum, atvinnu og velferðarkerfinu (Húsavík er nýjasta dæmið um það), þessari alþýðu er sagt að hún hafi stolið þessu öllu af sér sjálfri með því að kaupa sér of stór hús, of dýra jeppa og of marga flatskerma.

Og enda þótt ekki nema hluti þjóðarinnar hafi látið glepjast af gylliboðum kemur þessi áróður þráðbeint frá þeim sem seldu fólkinu húsin stóru, jeppana dýru og skermana mörgu.

Þegar líkur eru á að meirihluti þjóðarinnar sé að tapa öllum eignum sínum ritar Gunnar Smári Egilsson grein í Morgunblaðið, þar sem hann varar við svonefndri séreignastefnu. (Í Guðs bænum, ekki endurreisa séreignastefnuna! Viðskiptablað Moggans 7. 10.)

Á sínum tíma stjórnaði Gunnar þessi Smári fjölmiðlaútrás Baugsveldisins sem endaði með stjarnfræðilegu gjaldþroti eins og frægt er orðið.

Gunnar Smári má ekki til þess hugsa að fólk eignist þak yfir höfuðið.

Þess í stað á það að leigja sér húsaskjól.

Og hverjir eiga að vera leigusalar?

Jú, Gunnar Smári vill að bankarnir eigi húsnæðið og sjái um að leigja fólkinu það.

Að mati Gunnars Smára er bönkunum miklu betur treystandi til að eiga íbúðarhúsnæði en fólkinu.

Ekki er  nóg með að þessi allslausa og svívirta þjóð eigi að vera skuldaþræll bankanna ævilangt.

Fólkið skal vera leiguliðar þeirra líka.

Myndin er af haustlaufi í Lystigarðinum.


Hrundir bankar og hrunin skjaldborg

DSC_0098

Í október 2008 var Birna Einarsdóttir í blöðunum vegna kaupa einkahlutafélags í hennar eigu á hlutabréfum í Glitni og umdeilds kúluláns.

Þá var hún bankastjóri Glitnis.

Núna er sama kona bankastjóri Íslandsbanka og er aftur í blöðunum.

Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur falið Birnu og öðru bankafólki að hjálpa skuldugu fólki.

Í stefnuræðu sinni í gær hundskammaði forsætisráðherra Birnu og annað bankafólk fyrir að hafa  „dregið lappirnar þegar kemur að því að leysa úr stöðu einstaklinga sem eru að komast í þrot," eins og Jóhanna orðaði það.

Þegar komið er í ljós að fólk er á leiðinni undir hamarinn og á ekki fyrir mat er það að sjálfsögðu ekki stjórnmálamönnunum að kenna og kemur þeim í raun ekki við.

Það er þeirri Birnu að kenna sem haustið 2008 komst í blöðin vegna hlutabréfakaupa og kúlulána.

Ríkisstjórnin sem lofaði skjaldborg um heimilin komst nefnilega að þeirri niðurstöðu engum sé betur treystandi til að reisa skjaldborgina en Birnu.

Skjaldborgin sem hrundi virðist þannig hafa verið reist af fólkinu úr bankakerfinu sem hrundi. 

Myndin er úr Héðinsfirði


Af Grímseyjarprestum

DSC_0044 

Fyrr á tíð skákuðu biskupar óþægum prestum gjarnan út í Grímsey enda var Grímseyingum manna best treystandi til að beina þeim á réttar brautir.

Grímseyjarprestar lentu í ýmsum mannraunum sem hertu þá og bættu.

Árið 1793 gekk pest í eynni og dóu af hennar völdum átta af fjórtán karlkyns eyjarskeggjum. Varð að útvega fleiri karla út og fóru þeir sex karlar sem eftir voru í land að sækja innflytjendakarlana. Ekki tókst betur til en svo að þeir drukknuðu allir á leiðinni. Átti eyjan þá enga karla nema sóknarprestinn, séra Bóas Sigurðsson, „...og dugði ekki" eins og segir í annálum.

Brá amtmaður á það ráð að senda farm karlmanna út í ey.

Snemma á 19. öldinni þjónaði séra Eiríkur Þönglabakkaprestur í Grímsey. Í hans embættistíð vildi svo illa til að prestslaust varð hjá álfum eyjarinnar. Urðu álfar að bera börn sín til skírnar hjá séra Eiríki og eru ekki heimildir um annað en að hann hafi sinnt þeim verkum þannig, að okkur mannfólki hafi verið sómi að.

Á síðustu öld gerðist skoskur knattspyrnukappi prestur í Grímsey, séra Robert Jack. Hóf hann umsvifalaust knattspyrnuþjálfun í eynni. Æfingar fóru gjarnan fram eftir messur í Miðgarðakirkju. Var þá svohljóðandi orðsending höfð neðst á messuauglýsingum:

Takið með ykkur fótboltaskó.

Margt andans manna hefur verið í Grímsey og er enn. Einn þeirra var Árni Þorkelsson, hreppstjóri í Sandvík, d. 1901. Hann var skáld og samdi bæði sálma og skáldsögur. Taldi hann sig engan eftirbát lærðra manna.

Þegar séra Pétur Guðmundsson gaf út Hundrað kvöldbænir tók Árni Þorkelsson sig til og gaf út Hundrað morgunbænir.

Ég var að lesa þennan fróðleik í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 2000.

Um skeið var ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að þjóna Grímseyingum. Oft hugsa ég til vina minna sem þar búa.

Guð blessi Grímsey.

Myndin: Í dag ók ég hin nýju og stórglæsilegu Héðinsfjarðargöng út í Siglufjörð. Þvílíkur dagur!


Rófusúpa Fréttatímans

DSC_0555

Það reyndist drjúgt verk að lesa sig í gegnum öll blöðin sem lögðu leið sína í gegnum bréfalúgu heimilisins á þessum morgni.

Fyrstur kom gamli góði Mogginn; 44 síðna manúall um það sem okkur heilaslöppum ber að hugsa á svona fallegum haustdegi.

Síðan Baugstíðindin blessuð. Alls 60 síður af kjetauglýsingum frá Bónus og lofgjörðaróðum um Evrópusambandið og mátulega óljósum tíðindum af Eigendunum.

Og síðast en ekki síst Fréttatíminn, 72ja síðna nýtt helgarblað, ókeypis og engum háð.

Nöfnin í Fréttatímanum eru:

Jónína Leósdóttir, Óskar Hrafn Þorvaldsson, Jón Gnarr, doktor Gunni, Indriði Þorláksson, Geir Haarde, Jón Ásgeir, Mörður Árnason, Karl Berndsen, Hallgrímur Helgason, Gísli Marteinn, Þráinn Bertelsson, Jón Kaldal, Steinunn Valdís, Sveinn Andri, Páll Baldvin, Gunnar Smári, Ásdís Rán, Ólafur Skú og Reynir Trausta.

Kunnuglegt?

Hið nýja blað hefur sömu andlitin og öll hin blöðin og allir hinir fjölmiðlarnir, það flytur okkur sama boðskapinn, sömu rulluna og hefur þess vegna ekkert nýtt fram að færa.

Þetta er enn eitt Reykjavíkurblaðið og enn einn Reykjavíkurfjölmiðillinn sem lætur eins og landsbyggðin sé ekki til og að tómið eitt sé handan Esjunnar.

Á þessum föstudagsmorgni get ég flett 176 síðum af blaðaefni um sömu einstaklingana og voru í hinum blöðunum og morgunútvarpinu og verða í Kastljósi kvöldsins.

Sama tuggan 176 sinnum á einum morgni.

Er nema vona að ástandið sé eins og það er?

(Til að vera sanngjarn ber þó að geta þess að Mogginn er með góðan blaðamann á sínum snærum hérna fyrir norðan. Þökk sé honum fyrir það.)

Tvennt fannst mér þó gott í Fréttatímanum.

Annars vegar er þar skemmtileg viðtal við bandarískan fjárfesti, Michael nokkurn Jenkins, lánveitanda og velgjörðarmann hins óháða Fréttatíma. Ég vitna í orð hans:

Fjölmiðlar voru slappir fyrir hrun, bæði í Bandaríkjunum og annars staðar, og höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast. Það hefur ekkert batnað eftir hrun og ég held að margir blaðamenn, sem spiluðu með æðstu ráðamönnum og viðskiptajöfrum fyrir hrun, séu hluti af vandamálinu. Ég talaði við íslenska vini mína og þeir sögðu að það væri lítill hópur manna á Íslandi sem stýrði öllu, viðskiptalífinu, stjórnmálunum og fjölmiðlunum. Innan þessa hóps eru víst allir meira og minna tengdir og því er lítill möguleiki á að fjölmiðlar í eigu slíkra manna geri nokkurt gagn.

Ég hef mjög eindregnar efasemdir um að sá litli hópur fólks sem einokar fjölmiðla á Íslandi sé að gera þeim gagn og að það sé eins ómissandi fyrir umræðuna og það sjálft virðist halda.

Hins vegar er í Fréttatímanum rófusúpuuppskrift sem ég ætla að prófa ef ég nenni.

Myndin er tekin austur yfir Hörgárdal upp í Bægisárdalinn.


Tíðindalaust í skotgröfunum

DSC_0635 

Margt brást í Hruninu. Meðal annars þeir sem áttu að gæta hagsmuna almennings. Framsóknarmaðurinn Guðmundur Steingrímsson sagði réttilega í umræðum á Alþingi nú í vikunni að ekki einungis ráðherrar hefðu brugðist í Hruninu.

Alþingi gerði það líka.

Frá fyrstu dögum Hrunsins beið þjóðin eftir því að þingmenn tækju til varna fyrir hana. Það gerðist ekki. Í stað þess að snúa saman bökum og leiða þjóðina í gegnum erfiða tíma vippuðu stjórnmálamennirnir sér ofan í gömlu skotfgrafirnar.

Þar hafa þeir verið síðan.

Á örlagatímum í sögu þjóðarinnar þéttu þeir ekki raðirnar og grófu stríðsaxirnar heldur var reynt að skapa mesta sundrungu.

Eldfim mál eru dregin fram og olíu skvett á bálið til að tryggja að þingmennirnir hugsi nú örugglega ekki of mikið um að standa saman með þjóðinni.

Og nú, á þessu afdrifaríka hausti, þegar til stendur að bjóða upp á annað þúsund heimili í landinu, tekst þingmönnum að eitra svo gjörsamlega andrúmsloftið á vinnustað sínum að þar er nánast óvinnandi.

Almenningur þarf sennilega ekki að búast við öðru þaðan en gamla skotgrafahernaðinum, rýtingsstungunum og sverðaglamrinu.

Sú barátta er ekki að skila neinu. Enn eru sömu karakterarnir að rífast. Sömu gömlu andlitin birtast í spjallþáttunum. Sömu raddirnar hljóma, sömu rökin, sama gamla þrjóskan, sama heiftin og sama rifrildið.

Enn eru sömu nöfnin hrópuð.

Stundum stendur skothríðin meira segja á menn sem eru löngu gengnir af vígvellinum.

Menn eru hvorki að sækja né verjast í þessari tilgangslausu baráttu. Hún hefur aldrei orðið til neins og mun ekki skila neinu.

Á meðan eru uppboðshamrarnir reiddir til höggs yfir höfðum fólksins.

Myndin er úr Skíðadal.


Sum trú er vond

DSC_0593 

Í gamla daga þegar ég var í fótbolta með strákunum man ég eftir því að nokkrir úr hópnum voru duglegri en aðrir að benda okkur á mistökin sem við gerðum, hrópuðu upp yfir sig þegar sendingar rötuðu ekki á rétta menn eða skot geiguðu.

Þeir töldu það heilaga skyldu sína að minna okkur hina á hvað við værum hrikalega lélegir.

Þjóðfélag okkar framleiðir heil ósköp af svona hrikalega lélegum einstaklingum; manneskjur á leikvangi lífsins með eyrun full af ofangreindum hrópum.

Sum trú er vond og sumt trúleysi gott. Það sem málið skiptir er það sem þú trúir á og hitt sem þú hafnar að trúa á.

Þegar um er að ræða miskunnarlausa guði sem hneppa þig í fjötra þrælsóttans og líða engin mistök, þá eigum við að vera trúlaus.

En þegar um er að ræða þann Guð sem fagnar því að finna villuráfandi syndara, færir þig í hina bestu skikkju, dregur hring á fingur þér og skó þér á fætur, þá skulum við vera trúuð.

Lífið er dýrleg veisla, búin þér af elskandi mætti.

Myndin er af Geirufossi í Myrkárdal. Samnefnt eyðibýli í bakgrunni. Í Geirufossi endaði síðasta tröllskessa á Íslandi líf sitt.

 

 


Helgidómarnir

DSC_0380 

Bænahús heimsins segja sögu. Þau eru reist til að mæta ákveðnum þörfum. Þess vegna lýsa þau eiginleikum mannsins og eðli. Bænahúsin stór og smá segja okkur að maðurinn biðji. Hann leiti út fyrir sig. Hann skynji það sem er meira og æðra en hann.

Maðurinn reisir mannvirki sem tileinkuð eru þessari leit mannsins, skynjun og iðju.

Á hverjum einasta degi streymir fólk vítt og breitt um veröldina í slík hús.

Undanfarin sumur hefur verið svokölluð ferðamannakirkja í Akureyrarkirkju. Sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir hefur veitt þvi starfi forstöðu. Hún hefur tekið á móti þeim mikla fjölda ferðafólks sem kemur í kirkjuna á hverju sumri. 

Túristarnir koma ekki bara þangað til að forvitnast og skoða. Þeir koma til að biðja. Eiga hljóða og helga stund. Hugsa heim og senda góðar bænir yfir höfin. Finna fyrir nálægð Guðs langt í burtu frá fjölskyldu og vinum.

Maðurinn er andleg vera. Hann hefur andlegar þarfir. Þær eru alls engar gerfiþarfir. Manneskjan er aldrei meiri manneskja en þegar hún sinnir sínum andlegu þörfum. Þess vegna eru bænahúsin mikilvæg hús. Þess vegna eru þau um veröld víða, hvert með sínu sniði.

Alls staðar leitar maðurinn í bænahús til að gangast við sér sjálfum.

Þess vegna er veröldin full af helgidómum.

Myndin er innan úr Akureyrarkirkju


Hin altæka verðskynjun

DSC_0308 

Þróun mannsins virðist ekki alltaf hafa verið til bóta og flokkast jafnvel stundum frekar til afturfarar en framþróunar.

Sú var alla vega niðurstaða samtals við góðan vin nú á dögunum.

Hann benti mér t. d. á að dýr væru mjög næm á veður. Vissu hvernig veðrið yrði. Þau væru svo vel læs á náttúruna.

Vinur minn kvaðst sannfærður um að eitt sinn hefði mannskepnan haft þessa sömu hæfileika en þeir hefðu glatast í þróuninni svonefndu.

Skynjun okkar á umhverfinu verður sífellt lélegri.

Þess í stað er maðurinn að rækta með sér svokallað verðskyn.

Stundum er eins og það eigi að vera eina skynið.

Heimspekingurinn Atli Harðarson ritar ágæta grein um ESB- umræðuna í Mogga dagsins. Þar segir hann:

Það hefur um árabil þótt nánast hallærislegt að tala um pólitískar hugsjónir sem ekki er hægt að rökstyðja með því að þær auki hagvöxt eða stuðli að bættum efnahag.

Menn nota peninga til stuðnings máli sínu, hvort sem um er að ræða heilsu, fjölskyldu, náttúru eða trúarbrögð.

Oft virðast peningar einu rökin sem bíta.

Það þarf ekki að koma á óvart.

Karl sálugi Marx benti á að til að þrífast þyrfti kapítalisminn að umbylta þjóðfélaginu á gagngeran hátt.

Kapítalisminn ræðst gegn öllu sem talið hefur verið sjálfsagt, endurmetur öll gildi, afhelgar allt sem heilagt er og eyðir því táknræna.

Á endanum á tilveran ekki að hafa neitt gildi nema verðgildið og mannskepnan enga dómgreind nema til að geta séð hvar hagnaðarvonin sé mest.

Áhugasömum bendi ég á tvær ágætar bækur um þetta. Annars vegar bók nóbelshagfræðingsins ameríska Gary S. Becker The Economic Approach to Human Behavior, Chicago 1976, og hins vegar bók franska heimspekingsins Dany-Robert Dufour L´art de réduire les têtes - sur la nouvelle servitude de l´homme libéré à l´ère du capitalisme total, Paris 2003.

Myndin er af kjafti Eyjafjarðar.


Miskunnsama Samverjanum ofaukið

DSC_0357

Fulltrúa kirkjunnar vantar ekki í sögunni af miskunnsama Samverjanum.

Hann sveigði fram hjá helsærðum manninum eins og frægt er orðið.

Látum það ekki henda aftur.

Hjálpum þeim sem við getum hjálpað.

Við eigum ekki að bíða eftir að einhverjir aðrir hjálpi.

Við eigum ekki að bíða eftir fólki með próf í náungakærleika.

Og sagan af miskunnsama Samverjanum minnir okkur á að við eigum ekki að sveigja fram hjá í þeirri trú að miskunnsami Samverjinn birtist og reddi þessu.

Ef þú getur hjálpað er miskunnsama Samverjanum alltaf ofaukið.

Myndin er af Stafholti í Borgarfirði


Þagnarskylda og vígsluheit

DSC_0279 

Þögn getur verið gulls ígildi. Vitrir menn kunna ekki bara að orða hugsanir sínar. Þeir kunna líka að þegja.

Prestar eiga að kunna að þegja. Í starfi sínu komast þeir að ýmsu sem ekki má tala um. Stundum er þeim trúað fyrir leyndarmálum í sálgæsluviðtölum. Þann trúnað verða þeir að halda.

Fólk á að geta treyst sálusorgara sínum.

Prestar eru ekki eina stéttin sem þurfa að gæta sérstaklega vel að þagmælskunni. Sálfræðingar, læknar, kennarar og lögreglumenn verða til dæmis líka að kunna að þegja.

Blaðamenn leggja mikla áherslu á halda trúnað. Heyrt hef ég blaðamenn segja að frekar færu þeir í fangelsi en að bregðast trúnaði um heimildarmenn sína.

Þegar prestar eru vígðir gefa þeir loforð. Loforðið er nefnt vígsluheit.

Ég gaf þetta loforð þegar ég vígðist í Hóladómkirkju á sínum tíma. Það stendur skrifað í helgisiðabók þjóðkirkjunnar og stundum les ég það til að minna mig á hverju ég lofaði.

Í þessu vígsluheiti er hvergi minnst á þagmælsku þótt hún sé mikilvæg en meðal þess sem ég lofaði þar fyrir altari dómkirkjunnar er að vaka yfir sálarheill þeirra, sem mér er trúað fyrir og  „styðja lítilmagna og hjálpa bágstöddum" eins og það er orðað.

Börn sem sæta ofbeldi af hendi þeirra sem helst ættu að veita þeim skjól eru lítilmagnar. Ég get varla hugsað mér meiri lítilmagna en slík börn, varnarlaus og minnimáttar, beitt viðbjóðslegu ofbeldi af þeim sem þau treysta og elska.

Prestar sem hafa vitneskju um barnaníð en þegja yfir því eru komnir í lið með níðingunum.

Og þeir hafa tekið afstöðu gegn lítilmagnanum í stað þess að styðja hann.

Sú þögn er rof á vígsluheiti og brot á loforði sem prestarnir gáfu á helgum stað.

Í vígsluheitinu lofaði ég því líka að „vera sannleikanum trúr í kærleika".

Þögnin getur verið gulls ígildi en stundum er ekki til hættulegri lygi en þögnin.

Myndin er af smáfossi í Ólafsfjarðarmúla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband