Færsluflokkur: Bloggar

Eftirlýstur af Interpol

DSC_0088

Nýlega kom til landsins maður sem hefur verið eftirlýstur af Interpol síðustu mánuðina.

Hvar skyldi hann hafa alið manninn meðan alþjóðlegt lögreglulið leitaði hans?

Jú, hann var víst heima hjá sér í Lundúnum en Interpol hefur líklega ekki hugkvæmst að leita hans þar.

Enda eiga menn ekki að vera heima hjá sér ef þeir eru eftirlýstir.

En síðan nennti maðurinn ekki lengur að vera eftirlýstur af Interpol og ákvað að drífa sig heim í yfirheyrslu.

Heim kominn kvað maðurinn það „óskemmtilega reynslu" að vera eftirlýstur af Interpol.

Rather annoying. Quite unpleasant.

Ég er ekki hissa á að maðurinn hafi verið skælbrosandi þegar hann fékk loksins hádegisverðarhlé í yfirheyrslunum því það hlýtur að hafa verið alveg ógeðslega pirrandi að vera eftirlýstur af Interpol.

Myndin: Dropinn holar steininn.


Glæpasamfélagið Ísland?

DSC_0128 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirætlanir Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannréttindaráðherra, um „forvirkar rannsóknaraðferðir fyrir lögreglu", eins og það er kallað, hafa mælst misjafnlega fyrir.

Margir sjá þar glitta í lögregluríkið Ísland.

Ég þori ekki einu sinni að hugsa um hvað hefði gengið á ef forveri hennar í embætti hefði leyft sér slíkar hugmyndir.

Ragna er mjög traustvekjandi kona, yfirveguð og skynsöm.

Ég er ekki viss um að slík kona setji fram umdeildar tillögur að gamni sínu eða af einskærri mannvonsku.

Enda segir Ragna sjálf að hún hafi haft miklar efasemdir um málið - en fengið gögn, greiningar og upplýsingar um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi.

Með það í höndunum telji hún sér „ekki stætt á öðru en að bregðast við" eins og hún orðar það í viðtalinu.

Þegar grandvarar og varkárar konur eins og Ragna Árnadóttir segjast hafa upplýsingar í höndum um skipulagða glæpastarfsemi á landinu sem réttlæta slíkar aðgerðir eru það mikil og skelfileg tíðindi.

Menn hafa brugðist við hugmyndum Rögnu.

Fáir hafa á hinn bóginn velt því fyrir sér, að ráðherran segir þær hugmyndir viðbrögð við ákveðnum veruleika:

Skipulögð glæpastarfsemi hér á landi er að hennar mati komin á það stig að ekki sé stætt á öðru en að bregðast við með ofangreindum aðferðum.

Mér finnst fólki hafa yfirsést fréttin í því.

Það gerðist reyndar líka þegar Björk Guðmundsdóttir afþakkaði boð Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, um 25% hlut í HS orku.

Það þóttu tíðindi.

Hitt þótti ekki fréttnæmt að Björk skyldi hafa fengið umrætt boð.

Og það, að boðið þyki ekki fréttnæmt, bendir ef til vill einmitt til þess að hér á landi sé ýmislegt í ólagi, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Myndin tengist ekki efni fréttarinnar en þessi saklausu fórnarlömb sá ég fyrir ofan Bægisá.


Þagnarskylda og kynferðisbrot

DSC_0227 

Allnokkur umræða hefur orðið um þagnarskyldu presta og kynferðisbrot.

Á aðalfundi Prestafélags Íslands árið 2007 voru siðareglur presta á dagskránni.

Þar  „var lagt til að hefðbundin þagnarskylda presta gagnvart skjólstæðingum sínum, leysti presta aldrei undan ákvæðum barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu. Tillagan var felld - en prestar voru hins vegar ekki á eitt sáttir um afgreiðsluna" eins og segir í frétt RUV af málinu.

Af þeirri frétt og mörgum öðrum má skilja að prestar telji sig ekki bundna af lögum í þessum efnum.

Mér finnst gott hjá fjölmiðlum að taka þetta mál upp því það er svo sannarlega mikilvægt.

Og Ríkisútvarpið á þakkir skildar fyrir að sýna umræðum á aðalfundi Prestafélagsins árið 2007 þennan áhuga.

En vilji RUV upplýsa fólk um hvar það hafi kirkjuna og þjóna hennar í þessum efnum er illskiljanlegt að stofnunin hafi kosið að þegja um Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem samþykktar voru á Kirkjuþingu, æðstu stofnun kirkjunnar, í fyrra.

Í einni af þeim reglum segir að vígðir þjónar og starfsfólk kirkjunnar eigi alltaf að vera „upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis." (nr. 14)

Á sama þingi voru samþykktar Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar.

2. grein þeirrar reglugerðar hljóðar þannig:

Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ríkisútvarpið hefði gjarnan mátt segja frá þessum starfsreglum í fréttum sínum af málinu.

Starfsreglurnar og siðareglurnar geta varla talist aukaatriði í því.

Aðalatriðið er þó að hvorki prestar né aðrir starfsmenn kirkjunnar eru undanþegnir barnaverndarlögum eða öðrum lögum.

Ég fagna áhuga RUV á siðareglum fagfélaga. Umræður um þær geta verið hinar forvitnilegustu.

Fróðlegt væri til dæmis að heyra góða umfjöllun um þagnarskyldu blaðamanna en fáar stéttir á Íslandi hafa lagt meiri áherslu á hana en einmitt blaðamenn.

Þar mætti velta því fyrir sér hvort þeir blaðamenn teldu sig yfir lög hafna sem segjast frekar vilja fara í fangelsi en rjúfa trúnað við heimildarmenn.

Myndin er tekin einu sinni á ágústkvöldi í Fiskilækjargili vestur yfir Fiskilækjarhverfið.


Blessaðar órólegu deildirnar

DSC_0163

Ýmsar sögur ganga af órólegum deildum innan stjórnmálaflokka.

Einkum eru það greyin Vinstrigræn og veslings Íhaldið sem þjást af slíkum innantökum.

Í órólegu deildunum mun vera fólk sem ekki er sammála flokkslínum og er því með vesen og nöldur.

Þá er nú betra að vera í hinum flokkunum þar sem allt er með kyrrum kjörum.

Þar eru allir sammála um allt og þægir, hlýðnir og auðsveipir.

Þar er hvorki vesen né nöldur og allir hafa sömu skoðanir á öllu.

Þar er bara ein deild og hún er sallaróleg.

Rólegu flokkarnir eru eins og þjóðfélagið fyrir hrun:

Bannað að segja það sem passar ekki inn í munstrið.

Þess vegna er mikið talað um endurreisn í rólegu flokkunum.

Rólegu flokkarnir vilja endurreisa rólega þjóðfélagið þar sem enginn er með vesen.

Myndina tók ég í gær af rólegum hestum við Bægisárkirkju.

 


Veiðisaga

DSC_0655 

Veiðisaga sem ég heyrði nýlega er frábrugðin öðrum slíkum að því leyti að hún er sönn í velflestum aðalatriðum.

Þrír veiðigarpar skelltu sér í veiði.

Ungur sonur eins fékk að fljóta með. Var stoppað í bensínstöð og keypt veiðistöng handa stráksa fyrir um það bil tvöþúsund kall.

Hjól og önglar fylgdu.

Ekið var að ánni og þar stilltu mennirnir sér upp í vöðlunum sínum og veiðivestunum, með veiðihúfurnar á höfðunum og sérstök pólarojdveiðigleraugu fyrir augunum.

Þeir munduðu rándýrar flugustengur og drógu línuna út af enn rándýrari hjólum.

Sérhnýttri flugu úr leðurblökuhárum og eyrnaloðnu úlfalda var kastað fyrir silunginn.

Þarna stóðu garparnir gráir fyrir járnum með græjur upp á fleiri hundruð þúsund.

Kemur þá stráksi askvaðandi út í ána á vaðstígvélum.

Hann er búinn að hnýta eitthvert brotajárn á tvöþúsund króna veiðarfærin sín og kastar því út.

Járnið hefur varla blotnað þegar það er gleypt af silungskjafti. Litla prikið stráksins sveigist til og frá og hann er heillengi að draga í land þessa líka fínu bleikju.

Veiðimennirnir hlaupa til stráksa. „Hvar tók hann?"

Hann bendir út í ána. Þrjár flugustengur beinast að tökustaðnum.

Strákurinn færir sig á annan stað og kastar út færinu.

Eftir örfá köst er hann kominn með annan á.

Það brakar í örstönginni þegar hann tekst á við sprettharðan silunginn.

Eftir spennandi viðureign dregur strákurinn feng sinn á land skælbrosandi. Önnur bleikja, enn vænni en sú fyrri.

Karlarnir hlæja. Þvílík heppni!

Þeir kasta og kasta en ekkert gerist.

Þeir skipta um flugu og stað.

Ekki er laust við að taugatitringur sjáist í boga kastlínunnar þegar hann stendur aftur af einbeittum veiðimönnunum.

En ekkert gerist - nema það að sá stutti er kominn með þriðju bleikjuna á.

Hlátrarnir kafna.

Drengnum er hjálpað að landa.

„Viltu svo ekki bara hvíla þig smástund?" spyr einn veiðimannanna og dregur kókdós og súkkulaði upp úr bakpoka.

Stráksi þiggur góðgerðirnar og sest með þær í grasið.

Veiðimennirnir nota tækifærið og vaða um ána með græjurnar sínar.

Þeir verða ekki varir - en fyrr en varir er drengurinn mættur út í ána, á vaðstígvélunum og með prikið.

Hann kastar einu sinni og fær ekkert. Hann kastar aftur og fær ekkert. Hann kastar í þriðja skiptið og ekkert gerist.

Karlarnir anda léttar. Þyngslin fyrir brjóstunum undir vestunum minnka.

En Adam er ekki lengi í Paradís.

Skyndilega er kippt í prikið hjá stráksa.  Risastór bleikja þýtur upp úr ánni með buslugangi og sporðaköstum. Þetta er langstærsta bleikjan hingað til.

Snörp baráttan endar með því að fiskurinn slítur girnið.

Stráksi er að vonum súr.

En karlarnir glotta inni í sér.

Myndin: Veiðitaska við Djúpá

 


Óbreyttir tímar

DSC_0212 

Rétt er að minna á að haustið 2008 varð efnahagshrun á Íslandi.

Síðan varð gerð búsáhaldabylting og ríkisstjórnin rekin frá völdum.

Efnt var til kosninga.

Haldnir voru borgarafundir.

Fólk safnaðist saman á þjóðfund.

Ákveðið var að sækja um aðild að ESB.

Forsetinn neitaði að skrifa undir lög og vísaði þeim til þjóðarinnar sem felldi þau.

Skipuð var sérstök rannsóknarnefnd.

Bankarnir voru rændir innan frá. Kerfið brást.

Landið reyndist hafa verið á valdi fjárglæframanna.

Laun lækkuðu, lán og nauðsynjar hækkuðu. Fjöldi fólks missti vinnuna og hópar fólks flytja búferlum frá Íslandi til útlanda.

Síðan 2008 hefur varla verið talað um annað en afleiðingar Hrunsins og það sem í vændum er.

Og nú, eftir allt ofangreint, skrifar helsti álitsgjafi landsins pistil sem endar á þessum orðum:

Kannski eru runnir upp breyttir tímar?

Sennilega ekki.

Fyrst slíkir menn sjá ástæðu til að spyrja slíkra spurninga hefur sennilega lítið breyst á Íslandi.

Við höfum ekkert lært.

Myndin er úr Eyjafirði.


Græðgivæðing tilverunnar

DSC_0646

Upphaflega eru öll kerfi til þess að mæta mannlegum þörfum. Mjög oft hætta þau smám saman að snúast um manninn en öðlast þann tilgang einan að viðhalda sér sjálfum.

Hagkerfi sem byggist á hófleysi og græðgi er ekki í þágu mannsins. Þar er maðurinn þvert á móti til fyrir kerfið. Hann verður þræll kerfis sem krefst sífelldrar neysluaukningar.

Nú þegar sjáum við ýmis merki þess að vistkerfið þoli ekki þessa lífshætti okkar. Maðurinn hefur gengið freklega á auðlindir jarðarinnar til að viðhalda þessu kerfi græðgi og taumleysis.

Til þess að breyta því, til þess að snúa við þróuninni, er ekki nóg að breyta lögum og reglum eða grípa til tæknilegra aðgerða. Við þurfum að horfa inn á við. Mestu og sönnustu byltingarnar í veraldarsögunni byrja þar. Hjá mér og þér. Við þurfum að skoða okkur sjálf.

Í einnni bóka sinna (Haben und Sein. Die seelischen Grundlagen einer neuen Gesellschaft, ISBN 3-421-01734-4) segir þýski þjóðfélagsgreinirinn Erich Fromm að búið sé að telja okkur trú um að við séum í eðli okkar ekkert nema sjálfselskan. Það sé sá mannskilningur sem neyslumenning okkar tíma byggist á. Hver eigi hugsa um sig og sínar þarfir. Út á það gangi lífið, að seðja þarfirnar með því að eignast sem mest og sleppa sem billegast frá öllu saman, fá sem mest með sem minnstri fyrirhöfn.

Fromm mótmælir þessari mynd af manninum og varar okkur við afleiðingum þess að sjá okkur þannig. Hann bendir á ýmis rök fyrir því að manneskjan sé öðruvísi. Hún hafi þörf fyrir að finna hæfileikum sínum farveg án þess að hún auðgist á því. Hún hafi þörf fyrir að vera í samfélagi við annað fólk og deila með því gnótt og skorti, sælu og sorgum.

Eðli mannsins sé ekki það að taka og drottna. Maðurinn sé í eðli sínu ekki síður sá sem vilji gefa og miðla, hjálpa og fórna sér, án þess að gera slíkt í von um laun eða endurgjald.

Þessar tilhneigingar okkar eru markvisst og kerfisbundið bældar og kæfðar í því þjóðfélagi sem við búum í. Þar er okkur á þvert á móti kennt að taka, neyta, eignast, drottna og hugsa fyrst og fremst um eigin hag til að gera okkur að sem duglegustum neytendum.

Því þarf að breyta, ekki bara til að lífið verði betra, fallegra og innihaldsríkara.

Við þurfum að breyta þessu til þess að maðurinn geti átt sér framtíð á þessari plánetu.

Myndin er af kvígum undir norðlenskum júlíhimni.


Soðketill hatursins

DSC_0354 

Undanfarið hafa menn skipst á skoðunum um íslenska umræðuhefð. Ekki er það í fyrsta skipti sem sú hefð er gagnrýnd.

Á sínum tíma völdu þeir Bjarni Vilhjálmsson og Finnbogi Guðmundsson efni í bókina Íslenskar úrvalsgreinar (Reykjavík 1976).

Ein þeirra er eftir Pálma Hannesson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Þar fjallar Pálmi um Sonartorrek Egils Skallagrímssonar. Greinin nefnist Ef et betra telk. Pálma verður tíðrætt um íslenska umræðuhefð í hugleiðingum sínum. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær hann skrifaði greinina en Pálmi lést árið 1956. Margt bendir til að hún sé skrifuð á stríðsárunum. Þótt hún sé komin til ára sinna er hún enn í fullu gildi. Erindi hennar við okkar tíma er mikið og brýnt.

Ég birti búta úr skrifum Pálma. Lesum, njótum og lærum:

Geðsmunum manna er harla misjafnt farið, og sést það ekki sízt á afstöðu þeirra til annarra. Sumir láta sér títt um þá, sem þeir þekkja ekki eða lítið, aðrir hafa ósjálfráðan ímigust á þeim. Flestir drögum vér sundur í dilka þá menn, er vér náum til í hinum mikla almenningi samtíðarinnar. Dilkarnir eru tíðast tveir. Í annan setjum vér þá, sem oss geðjast ekki að, og látum andúðina standa í dyrunum. Eftir það vill þeim veita þungt í skiptum vorum, því að sjaldan lítum vér þá á málavöxtu frá þeirra sjónarmiði, heldur sjálfra vor og miklum fyrir oss misgjörðir þeirra eða ávirðingar, sjáum flísina, en finnum ekki bjálkann. Oss sést yfir hitt, að þessir menn eiga sér unnendur, sem vafalaust finna miklar málsbætur þeim til handa. Í hinn dilkinn drögum vér þá, sem oss er vel við, veitum þeim samúð vora og höldum hlut þeirra upp, nema þeim sé hrósað um of, eða hætt sé við, að þeir vaxi oss yfir höfuð, því að þá kynnu þeir að hrökkva yfir í hinn dilkinn. - Á þennan hátt yrkjum vér ævi vora líkt og reyfara, sögu, þar sem menn eru annað tveggja alls kostar illir eða góðir.

Oft er um það rætt nú á dögum, að oss Íslendingum sé það mikil nauðsyn að stilla deilunum í hóf og sumir kveða svo fast á um þetta, að þjóðin sjálf sé í veði, ef það takist ekki. Efalaust er slíkt af góðum huga mælt og góðum vilja. En til hins virðist þó fremur stefna, að sundur dragi og deilurnar vaxi. Hverju sætir þetta? Það sætir því, að menn mikla fyrir sér ágreiningsefnin, en gleyma hinu, sem sameiginlegt er: að vér erum af einni þjóð, eigum sama land, sömu tungu, sögu og örlög. Það sætir því, að menn rækta andúð sína, hafa hið verra, ef tvennt er til. Þess vegna stendur hér flokkur gegn flokki og stétt gegn stétt, ekki þess sinnis að þreyta rökræður með hófsemd, svo sem ætlandi væri hernuminni þjóð á háskatímum, heldur í þeim ham, að hagnýta til hins ýtrasta andúð, tortryggni og illfýsi, þær höfuðskepnur ófriðar og óskapa, sem eitt sinn hafa farið frelsi landsins og valda nú ófarnaði veraldarinnar umhverfis oss. Samt er áfram haldið, þó að augljóst sé, að sigla verði milli skersins og bárunnar á næstu árum og gjalda varhug við hvoru tveggja. Vonandi fleytumst vér enn um sinn, en söm er okkar gerðin. Og það er trúa mín, að fyrr eða síðar reki oss í strand, ef vér stillum ekki nokkuð til. Enginn skilji orð mín svo, að ég vilji drepa með öllu á dreif deilumálum flokka eða stétta. Slíku fer víðs fjarri. En deila má, þó að meiri hófsemdar sé gætt í málflutningi en hér tíðkast. Og hitt vildi ég sagt hafa, að það getur ekki verið til góðs, er menn og flokkar bera hvorir öðrum á brýn hinar þyngstu sakir, jafnvel landráð, eða trúnaðarmönnum þjóðarinnar er brugðið um ómennsku, heimsku og illgirni. Með því smækkum vér sjálfa oss um efni fram, óvirðum þjóðina og allt sem hennar er og verið hefur.

Margir halda því fram, að allar illdeilur stafi frá stjórnmálamönnunumn sjálfum, enda séu þeir með því marki brenndir að geta aldrei setið á sáttshöfði. Vitanlega er þetta rangt og stafar af því, að vér viljum heldur trúa lasti andstæðinganna en hrósi samherjanna. Ef vér lítum nokkra áratugi aftur í tímann, virðist oss, að þá hafi forystumenn þjóðarinnar verið hver öðrum snjallari og sumir skörungar. Enginn skyldi þó ætla, að samtíð þeirra hafi litið þann veg á, heldur dró hún að þeim dár og illmæli. Síðar kom svo hlutur þeirra upp, þegar þeir voru liðnir og hin breiðu spjót náðu þeim ekki lengur. Þetta sýnir, að illfýsin dæmir rangt. Stjórnmálamenn vorir nú eru börn sömu þjóðar sem vér hinir, líkum kostum og löstum búnir, en yfirleitt mikilhæfir menn, enda hefði oss stórlega skjöplazt um fulltrúaval, ef svo væri ekki. Hitt er annað mál, að þeir verða að hafa þann hátt, sem tíðkast í landinu, og þjóðin vill hafa hávaða og æsingu um stjórnmál. Það er hennar veiki. Hún vill láta deila illdeilum á opinberum mannafundum. Að öðrum kosti þykja þeir daufir. Stjórnmálaerjur eru almannaskemmtun hér á landi, nokkurs konar þjóðaríþrótt, sem allir verða að stunda, annaðhvort sem keppendur eða áhorfendur, ef þeir vilja teljast menn með mönnum. Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherjarmót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkempurnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allir þorrinn kemur til mótsins, hver einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar í síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlfúðar, tortryggni og getsaka.

Þetta er hættulegur leikur, því að hatrið er ekki leikfang. Það er háskalegt afl, sem dregið getur þungar kvarnir, en malar hvorki malt né salt, heldur óheill og auðn, að minnsta kosti um síðir, enda væri það ekki illt, ef það yrði til gagns. Og hversu fórst þeim Fást og Galdra-Lofti? - Þeir ætluðu að yfirstíga hið illa, en það tortímdi þeim. Dæmi þeirra þykja merkileg, af því að menn trúa því, að þau séu rétt. - Margir hafa reynt að hagnýta hatrið til fulltingis sér og sínum málstað, einstakir menn, flokkar og heil þjóðríki. Sumum hefur tekizt þetta til ægilegrar fullnustu. Þess vegna flakir veröldin í sárum. - Svo langt hefur ekki rekið hér, sem betur fer. Þó skulum vér ekki miklast svo mjög, meðan vér hötum hver annan. Það ætti að vera oss minnisstætt, að andúð þjóðarinnar og flokkadráttum hefur eitt sinn verið snúið gegn henni sjálfri. Slíkt gæti enn orðið.

Þó að kirkjur hrynji og borgir brenni, má reisa þær úr rústum á ný, fegurri og betri en áður var. En þegar menn geta horft með köldu blóði á þjáningar annarra, þegar réttur lítilmagnans er að engu hafður í nafni einhvers ríkis eða stjórnmálastefnu, þegar sparkað er í fallinn mann og lygin leidd í sannleikans sess, þá er tekinn að síga sá grundvöllur, sem menning vor hvílir á. Og hver getur hafið hann á ný?

Að lokum þetta og síðast en ekki síst:

Þótt menn tali tungum engla um lýðræði og réttlæti, frið og bræðralag, þá stoðar það lítið, ef þeir blóta hatrið á laun. Miskunnsemi og sannleiksást eru hinar einu öruggu varnir mannsins gegn mönnunum, hin eina trygging hans fyrir frelsi sínu og lífi. En ef frá henni er horfið, virðist vandséð, hvar niður komi. Þá virðist einhver tilgangur geta helgað öll meðul. Þekkingin í öllum sínum mikilleik er ekki einhlít og getur dregið til falls, ef hún stjórnast ekki af mannslund, því að þar, sem brjóstin hætta að geta fundið til, gróa ekki framar hin góðu blóm, heldur eitraðar jurtir ofstækis og hermdarverka.

Myndina tók ég af Byrgisfossi í Myrká.


Smá þjóðremba

Sólsetur_í_Eyjafirði5 

Nú er mikið talað um þjóðrembu og öfgafulla þjóðernissinna.

Taka má undir margt í þeim málflutningi. Hrokinn er ein ástæða Hrunsins.

Þjóðremba er hallærisleg. Íslendingar eru veikir fyrir henni. Þeir monta sig ekki bara af því að vera Íslendingar. Hvert hérað á sér sína drýldni. Þar er uppspretta hins landsfræga þingeyska monts, skagfirska drambsins, vestfirska gorgeirsins og hinnar alræmdu akureysku andúðar á aðkomufólki.

Hinn stæki höfuðborgarhofmóður er enn ein tegund íslenskrar héraðsdrýldni.

Öfgarnar í hina áttina eru ekki betri. Þeirri þjóð mun aldrei farnast vel sem hatast við sig sjálfa. Hvernig liti Akureyrarbær út ef íbúarnir væru ekki stoltir af honum? Ætli Vestfirðingum vegnaði betur ef þeir bæru ekki virðingu fyrir sjálfum sér? Hvaða dugur væri í Skagfirðingum og Þingeyingum ef ekkert væri í þeim stoltið? Ég er ekki viss um að búandi væri í Reykjavík ef íbúarnir skömmuðust sín fyrir að vera borgarbörn.

Stundum finnst mér eins og markvisst sé unnið að því að brjóta þjóðina niður.

Ég hef trú á henni og mér finnst hana vanta uppörvun.

Við eigum fallegt land sem við þurfum að vernda. Við eigum gjöfult land sem við þurfum að nýta. Íslendingar eru skynsöm og þrautseig þjóð. Okkur hefur tekist að byggja upp hér öflugt velferðarkerfi. Hér var alla vega til skamms tíma jöfnuður og ég held að flestir Íslendingar vilji ekki stéttaskipt þjóðfélag. Við erum svo nákomin hvert öðru í smæð okkar.

Við gerðum mistök en við munum læra af þeim. Við munum gera upp liðna tíma þótt það kosti átök og umbrot. Við munum sættast við okkur sjálf.

Og við munum segja skilið við það sem hefur skemmt þetta góða samfélag okkar og spillt fyrir okkur sem þjóð.

Betri tímar eru framundan.

Ég held að bestu tímarnir séu framundan.

Myndin: Eyjafjörður skartar sínu fegursta og fagnar aðkomufólki.

 


Skuldbindingafælni eða gætni?

DSC_0388

Skuldir eru einhverjar tærustu skuldbindingar sem um getur.

Íslendingar skulduðu helling fyrir hrun. Bæði heimili og fyrirtæki.

Þeir voru skuldbundnir í bak og fyrir.

Það var að margra mati ein orsök hrunsins.

Ekki eru þó allir á því.

Þótt Íslendingar séu nú um stundir ein skuldugasta þjóð í heimi telja sumir að hún þurfi endilega að taka á sig enn meiri skuldir.

Sá var boðskapur hádegisfrétta RUV í dag.

Samkvæmt þeim er svokölluð skuldbindingafælni eitt helsta mein þessarar ofurskuldugu þjóðar.

Aðrir benda kannski á að Íslendingar hafi verið óþarflega djarfir og sólgnir í að skuldbinda sig.

Er sú skuldbindingafælni sem felst í því að vilja ekki borga skuldir fyrir aðra og taka ekki hærri lán en maður sér fram á að geta borgað kannski bara gömul og góð gætni eftir allt saman?

Myndin: Hraundrangi frá hinni hliðinni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband