Færsluflokkur: Bloggar
2.7.2010 | 14:16
Evrópusambandspistill
Ýmislegt í ESB-umræðunni veldur mér heilabrotum þótt brothljóðin ræni mig ekki svefni.
Ég viðurkenni að ég er ekki hlynntur aðild Íslands að ESB, alla vega eins og sakir standa.
Fyrsta atriðið sem ég vil vekja athygli á tengist þeirri afstöðu.
- Þeir sem ekki eru hlynntir aðild að ESB eru ekki endilega á móti Evrópu. Þeir eru held ég fæstir andevrópskir í hugsun. Ég er mjög hlynntur evrópsku samstarfi og hef tekið þátt í því reglulega síðasta áratuginn. Ég er meira að segja mjög hlynntur Evrópusambandinu og tel að það hafi gert marga góða hluti. Framlag sambandsins til friðar í álfunni er til dæmis ómetanlegt. En þótt ég meti ESB mikils er ekki þar með sagt að Ísland eigi að ganga í það. Þýskur vinur minn, góður og gegn sósíaldemókrati, er mikill ESB-maður. Hann telur þó af og frá að Ísland eigi heima í sambandinu.
- Fráleitt er að stimpla alla sem efast um að Ísland eigi að ganga í ESB sem einangrunarsinna eða öfgafulla þjóðernissinna. Jafn fráleitt er að flokka alla aðildarsinna sem landráðamenn. Slíkur dilkadráttur skemmir umræðuna.
- Gjarnan er talað um aðildarviðræður Íslands við ESB sem könnunarviðræður. Verið sé að sækja um aðild til að skoða hvað sé í pakkanum. Öðruvísi sé ekki hægt að mynda sér upplýsta afstöðu. Hana sé ekki hægt að taka nema fyrir liggi samningur. Þetta virðist þó aðeins eiga við um neikvæða afstöðu til aðildar því hluti þjóðarinnar hefur tekið þá afstöðu að vera fylgjandi aðild að ESB án þess að nokkur samningur liggi fyrir.
- Ég held að vel sé hægt að vera á móti aðild að ESB án þess að vera búinn að sækja um aðild að því - alveg eins og ég held að hægt sé að aðhyllast íslenska aðild að sambandinu án þess að hafa samning í höndunum. En ef ég væri hlynntur aðild hlyti ég að efast um tímasetningu aðildarumsóknarinnar. Ef ég væri hlynntur aðild vildi ég auðvitað ná sem bestum samningi. Því betri samningur þeim mun meiri líkur væru á að hann yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess að ná góðum samningi þarf Ísland að hafa góða samningsaðstöðu. Sú aðstaða hefur held ég sjaldan verið verri en núna. Auk þess er pólitískt bakland umsóknarinnar lélegt. Það er verið að sækja um með hangandi hendi. Sumir hafa orðað það þannig að verið sé að gera dyrabjölluat í Brussel. Í Mogganum í dag sá ég haft eftir Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, varaformanni VG og einum forsvarsmanna þeirrar ríkisstjórnar sem ákvað að sækja um aðild, að þjóðin þurfi að fá tækifæri til að kjósa GEGN aðild að ESB. Það segir sína sögu um þann hug sem fylgir umsókn Íslands frá þeim sem umsóknina sendu.
- Þegar greidd voru atkvæði um aðildarumsóknina á Alþingi á sínum tíma var mikið talað um að málið ætti að fá lýðræðislega afgreiðslu. Lýðræðisleg afgreiðsla var í því fólgin að greidd voru atkvæði um tillöguna. Farið var að vilja meirihlutans og ákveðið að sækja um. Nú er nýlokið landsfundi Sjálfstæðismanna. Þar voru líka greidd atkvæði um sama mál. Niðurstaða þeirrar lýðræðislegu afgreiðslu var sú að meirihlutinn vildi draga umsóknina til baka. Þær málalyktir hafa orðið mörgum tilefni mikilla og innblásinna skrifa um skoðanakúgun og skort á umburðarlyndi. Lýðræðið virðist með öðrum orðum ekki eiga að gilda nema tryggt sé að meirihlutinn sé réttrar skoðunar.
- Mikið hefur verið rætt um tvöfalda atkvæðagreiðslu um aðild að ESB. Því hefur verið haldið fram að hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ætti að sækja um aðild hefði það þýtt tvöfalda atkvæðagreiðslu, því þá hefði líka þurft að greiða atkvæði um aðildarsamninginn. Ég er mjög hissa á því að fjölmiðlafólk og álitsgjafar hafi ekki séð í gegnum þann spuna. Ef þjóðin fengi að greiða atkvæði um hvort sækja eigi um aðild ESB eru allar líkur á að það verði fellt. Ef því er hafnað að sækja um aðild að ESB verður ekki sótt um aðild að ESB. Þá verður ekki gerður neinn samningur og þá verður heldur engin önnur atkvæðagreiðsla um þann samning.
- Sérhagsmunagæsla er vinsælt hugtak í umræðunni. Þeir sem standa vilja vörð um helstu atvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, eru flokkaðir sem sérhagsmunagæslumenn. Fyrir nokkru heimsótti ég þýskan bónda. Talið barst að ESB. Hann útskýrði fyrir mér hvernig allur kostnaður hefði aukist við búskapinn vegna Evrópusambandsins og Evrunnar, hvernig skriffinnska og fyrirhöfn hefði margfaldast, hvernig verðið á afurðunum hefði lækkað og verðið á þeim til neytenda hækkað. Hann var með tölur tiltækar um þetta allt úr nákvæmu bókhaldi sínu. Þeir sem græða á ESB eru milliliðirnir en hvorki þeir sem vinna í frumgreinunum né neytendur, sagði þessi þýski bóndi. Ef til vill eru þeir sem hvetja til aðildar ekkert síður að verja sérhagsmuni en hinir?
Með von um góða og frjóa umræðu.
Myndin er af fossi í Syðri-Tunguá í Hörgárdal
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.6.2010 | 17:46
Auðvaldið og sanngirnin
Þeir ráða Íslandi sem eiga peningana.
Þannig var það fyrir hrun og þannig er það eftir hrun.
Auðvaldið átti þingmennina, þingið og ríkisstjórnina. Það átti eftirlitsstofnanirnar. Embættismennina. Það var búið að tryggja sér fjölmiðlana og akademíuna.
Og enn er þetta óbreytt.
Skjaldborgin margumtalaða felst í því að verja hagsmuni auðvaldsins. Passa að það eigi fyrirtækin áfram, fjölmiðlana og peningana.
Þegar lán almennings bólgnuðu út talaði enginn um sanngirni. Fólk átti bara að borga margfalt það sem það hafði fengið lánað. Og þegja.
Og bæta síðan ísklafanum á sig hljóðalaust.
Nú þegar hæstiréttur hefur úrskurðað myntkörfulánin ólögleg og segir að fólk hafi í raun borgað margfalt það sem átti að borga, rísa upp hagfræðingar, heimspekingar og pólitíkusar og uppgötva allt í einu, að til er nokkuð sem heitir sanngirni.
Auðvaldið virðist hafa eignast hana líka.
Sanngirnin var ekki til þegar fólkið eyddi öllu sínu í að borga ólögleg lán og átti ekki fyrir mat. Sanngirnin var ekki til þegar óhófleg skuldabyrðin sligaði heimilin og varð til þess að fjölskyldur krömdust í sundur. Sanngirni fyrirfannst engin þegar fólk svipti sig lífi í vonleysi vegna útbólgnaðra lána.
En þegar auðvaldið á í hlut er sanngirnin snarlifandi og jafnvel hæstaréttardómar geta verið svo ósanngjarnir að ekki er hægt að fara eftir þeim.
Myndin er af Vestmannsvatni í Aðaldal
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.6.2010 | 18:04
Fjölskyldufjandsamlegur bær
Á Hömrum við Akureyri reka skátar útilífs- og umhverfismiðstöð með miklum myndarbrag.
Þar er starfrækt tjaldsvæði sem hefur verið vinsælt meðal ferðamanna.
Mánudaginn 14. júní síðastliðinn birtist eftirfarandi tilkynning á heimasíðu Hamra:
Tjaldsvæðið að Hömrum um bíladaga 16-20 júní.
Tjaldsvæðið að Hömrum verður opið öllum almennum ferðamönnum eins og venjulega þessa daga. Miðað er við að tjaldsvæðið að Hömrum sé fjölskylduvænt tjaldsvæði og því eru allar umgengnisreglur á svæðinu miðaðar við það. Þetta á sérstaklega við um það að á svæðinu sé umgengni og framkoma gesta til fyrirmyndar og taki mið að fjölskylduvænum gildum s.s. varðandi svefnfrið, umferð bíla o.fl. Akstur innan svæðis á að vera í lágmarki og þar er 15. km. hámarkshraði. Allur akstur er bannaður á milli 24 og 08. Ölvun er bönnuð á svæðinu.
Sama dag var þetta tilkynnt á síðunni:
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti um bíladaga 16-20 júní.
Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti verður dagana 16-20 júní sérstaklega ætlað gestum bíladaga og verður í umsjón Bílaklúbbs Akureyrar sem veitir allar nánari upplýsingar um tjaldsvæðið þessa daga. Almennum ferðamönnum er bent á að nýta sér tjaldsvæðið að Hömrum þessa daga en þar má búast við að verði heldur rólegra en á Þórunnarstrætinu.
Þriðja tilkynningin sem sett var inn á síðuna ofangreindan dag var svona:
Bíladagar Tjaldsvæði 2010.
Fyrirkomulag tjaldsvæðismála verður með svipuðu sniði og á síðasta ári. Akureyrarbær, Bílaklúbbur Akureyrar og Hamrar útilífs og umhverfismiðstöð skáta sem er rekstraraðili tjaldsvæðanna hafa gert með sér samkomulag um að Bílaklúbburinn fá tjaldsvæðið við Þórunnarstræti til rekstrar dagana 16-20 júní til að taka þar á móti gestum bíladaga.
Þetta eru býsna merkileg skilaboð.
Í fyrsta lagi er staðhæft að tjaldsvæðið á Hömrum eigi að vera fjölskylduvænt og umgengni gesta eigi að vera til fyrirmyndar. Þar eigi t. d. að vera svefnfriður og ölvun bönnuð.
Í öðru lagi er gestum Bíladaga vísað frá hinum fjölskylduvænu Hömrum á tjaldsvæðið við Þórunnarstræti. Það verði rólegra á Hömrum - en búast megi við látum við Þórunnarstrætið.
Þannig er tjaldsvæðið við Þórunnarstræti auglýst sem valkostur fyrir þá sem hvorki kjósa svefnfrið né fjölskylduvænt umhverfi.
Fyrirmyndargestirnir eru á hinn bóginn velkomnir á Hamra.
Hinir gjöri svo vel og fari á Þórunnarstrætið.
Það sem gleymist í þessu er að tjaldsvæðið við Þórunnarstræti er í miðju íbúðahverfi. Í hverfinu býr ósköp venjulegt fjölskyldufólk.
Fjölskyldufólkið í nágrenni Þórunnarstrætisins þarf auðsýnilega hvorki svefnfrið né fjölskylduvænt umhverfi - enda fékk það hvorugt dagana meðan Bíladagarnir stóðu yfir.
Fleiri en skátarnir telja íbúa hverfisins ekki þurfa svoleiðis.
Í þriðju tilkynningunni á heimasíðu Hamra kemur nefnilega fram, að það fyrirkomulag, að hafa allt með friði og spekt fyrir utan bæinn en efna til þriggja nátta útihátíðar inni í honum, sé með blessun Akureyrarbæjar.
Myndin: Siglt út Eyjafjörð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2010 | 23:36
Össur skarpi
Hrunið svonefnda eru einhverjar mestu hremmingar sem lýðveldið Ísland hefur lent í. Ég er þeirrar skoðunar að þá hafi stjórnmálamenn landsins átt að vippa sér upp úr skotgröfunum og snúa bökum saman við að koma landinu út úr erfiðleikunum.
Það gerðist ekki en í viðtali í Fréttablaði helgarinnar telur Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, þjóðstjórn ekki afleitan kost.
Össur segir margt gott og merkilegt í þessu viðtali og mér finnst því hafa verið veitt furðulítil athygli.
Þar segir hann t. d. að Samfylkingin hafi ekki verið saklaus af því að tilbiðja gullkálf markaðarins.
Merkilegust finnast mér þó þessi ummæli utanríkisráðherrans:
Ég tel líka að Samfylkingin hafi frá því snemma á þessum áratug ranglega tekið sér stöðu með ákveðinni blokk í viðskiptalífinu, sem var í átökum við aðrar rammpólitískar viðskiptablokkir.
Hin pólitísku átök fyrirhrunsáranna voru fyrst og fremst átök viðskiptablokka.
Blokkirnar áttu flokkana B, D & S.
Þær voru búnar að kaupa sér flokka og stjórnmálamenn.
Og það versta er að sennilega eru þær enn að takast á í ofangreindum flokkum.
Þjóðin er enn sem fyrr leiksoppur þessara afla.
Össur fær prik fyrir að viðurkenna það.
Myndin er af eyfirskum álfabæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.6.2010 | 09:38
Sviknar vonir
Í þessari frétt segir biskup Íslands að fólk heyri ekki að ríkisstjórnin sé með góðar fyrirætlanir.
Hann segir líka að fólki sýnist að lítið sé verið að gera.
Nú vil ég ekki oftúlka orð míns ágæta biskups en ég hef heyrt þetta áður.
Oft hefur því verið haldið fram að ótalmargt gott sé í gangi en fólk sé svo heyrnarlaust að það heyri það ekki og svo sjónlaust að það sjái það ekki.
Og vantar þá ekki bara að bæta við að fólk sé svo vitlaust að það fatti það ekki?
Ég er samt ekki viss um að heyrnarleysi, sjónleysi og vitleysi séu helstu skýringarnar á óánægju fólks á Íslandi þótt eflaust megi kynna það betur sem þó er verið að gera fyrir heimilin í landinu.
Ef til vill er einfaldlega ekki nógu mikið gert fyrir almenning?
Á sama tíma og talað er um frystingu eða lækkun launa almennings eru stjórnvöld að finna leiðir framhjá eigin lögum til að hægt sé að hækka laun sumra.
Og sömu stjórnvöld horfa aðgerðarlaus upp á að bankar svindli á kerfinu til að hækka laun stjórnenda sinna.
Fólk er skúffað vegna þess að því finnst ekki nógu mikið gert og fólk er ekki síður skúffað vegna þess því finnst sáralítið hafa breyst frá árinu 2007.
Spillingin grasserar áfram. Ofurstyrkþegar sitja sem fastast á þingi. Auðmenn halda sínu, fyrirtækjum og fjölmiðlum.
Orkufyrirtæki telja sig þurfa að hækka gjöld til fólksins um leið og keyptir eru margra milljón króna glæsijeppar undir starfsmenn.
Hvar eru þeir sem velta um borðum og reka út mangara, okrara og víxlara?
Þessu er ágætlega lýst í stuttri en hnitmiðaðri grein eftir sr. Ólaf Jóhannsson í Mogga dagsins. Ég mæli með þeim skrifum.
Myndin: Á leið sinni til hafs grefur Glerá sér einhver hrikalegustu gljúfur á Norðurlandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.6.2010 | 21:05
Blessaður óttinn
Við skulum ekki forsmá óttann.
Oft er hann skynsamlegur. Varasamt getur verið að fyllast ofsahræðslu eða lamandi ótta en smeyk erum við líklegri til að fara gætilega en ósmeyk.
Óhræddur maður er á hinn bóginn líklegri til að ana út í einhverja bölvaða vitleysu en hræddur.
Það er flott að vera djarfur en fífldirfska er engin dyggð. Samkvæmt skilgreiningunni er fífldirfska óráðlegt hugrekki. Þá æða menn áfram og stefna sjálfum sér og öðrum í hættu.
Þau sem vinna erfið og hættuleg störf verða að temja sér ákveðinn ótta. Ákveðna virðingu fyrir aðstæðunum. Auðmýkt.
Þau verða að passa sig og gæta sín.
Ótti sem hægir á okkur, fær okkur til að staldra við, líta í kringum okkur og fara gætilega og skynsamlega, er heilnæmur ótti.
Harðir naglar þora að fyllast þannig ótta.
Myndin var tekin í gær af svarfdælskum þúfum af öllum stærðum og gerðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2010 | 21:04
Látum oss grilla
Þeir Gnarr og Dagur sátu fyrir svörum í Kastljósi kvöldsins.
Tilefnið var myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.
Sennilega hafa afleiðingar hrunsins hvergi verið meiri en í höfuðborginni
Allt frá hruninu hefir verið beðið eftir aðgerðum í þágu heimilanna. Skjaldborginni margumræddu.
Borgarbúar sýndu það í nýafstöðnum kosningum að biðlundin er búin.
Gömlu flokkarnir fengu ráðningu en nýju afli var hleypt að.
Núna er Besti að taka völdin.
Besti Sam.
Og hver var boðskapur hinna háu herra?
Hvað á að gera? Hvert skal halda?
Jú.
Annar pant vera borgarstjóri.
Hinn pant vera formaður borgarráðs.
Fleira var það ekki.
Látum oss grilla.
Myndin: Fjólur í mel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.6.2010 | 09:08
Gamla góða Akureyri
Oft virðist það affarabesta skoðunin í skipulagsmálum að vera einfaldlega á móti.
Þannig hefur það alltént verið hér á Akureyri.
Menn voru á móti svonefndum háhýsum við Baldurshaga með þeim árangri að háhýsin eru hvorki fugl né fiskur og síst af öllu háhýsi.
Menn eru á móti menningarhúsinu. Finnst það ljótt og á vitlausum stað.
Menn eru á móti Naustahverfi og finna því allt til foráttu.
Og auðvitað eru menn á móti miðbæjarskipulaginu.
Þó var á sínum tíma efnt til íbúaþings um skipulag miðbæjarins. Framtakið vakti mikla athygli og þótti fyrirmynd um íbúalýðræði.
En nú, þegar hugmyndir íbúanna um skipulag miðbæjarins hafa verið festar á blað og útfærðar, hafna íbúarnir alfarið þeim hugmyndum sínum.
Vinur minn einn benti á að ef Akureyrarkirkja væri óbyggð og sú hugmynd kæmi fram að tylla stærstu kirkju landsins á brún brekkunnar og hafa ótölulegan fjölda af tröppum þangað upp, mættu slík áform án vafa harðri andstöðu.
Þættu algjört brjálæði á krepputímum.
Svo mætti ekki raska svip bæjarins.
Þess má geta að miklar deilur voru um staðsetningu Akureyrarkirkju.
Heilan áratug barðist sóknarnefnd fyrir því að fá hana byggða þar sem hún er.
Ýmis rök voru notuð gegn þeirri hugmynd.
Meðal annars þau að sú staðsetning kirkjunnar truflaði framkvæmdir við höfnina.
Myndin er innan úr Akureyrarkirkju
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2010 | 22:42
Salon Surprise
Fyrir mörgum árum hafði ég stutta viðkomu í þorpi úti á landi og þurfti nauðsynlega og tafarlaust að komast í klippingu. Hugðist ég heimsækja einu hárgreiðslustofuna í plássinu en var eindregið ráðið frá því.
Hárgreiðslukonan þar væri hið mesta ólíkindatól.
Grandvarir og hálfsköllóttir menn hefðu komið út frá henni með pönkkamb. Heiðvirðar húsmæður fengu appelsínugult hár og frægt var þegar lögreglumaður staðarins vaknaði upp undir hárþurrku með geðveikislegar lambakrullur eftir meðhöndlun á stofunni.
Þeir sem áræddu að heimsækja þessa hárgreiðslustofu gátu aldrei vitað hvernig sú heimsókn endaði.
Stofan var kölluð Salon Surprise.
Besti flokkurinn vann kosningarnar í höfuðborginni.
Til þess þurfti hann ekki stefnu. Það nægði að klárir, fyndnir og skemmtilegir karlar skipuðu efstu sæti framboðslistans.
Í Kastljósinu áðan kom fram að nú ynnu hinir kláru brandarakarlar að því hörðum höndum að búa til stefnu fyrir flokkinn, áður en hann tekur völdin í höfuðborg Íslands.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni.
Og ef menn vakna upp með kamb og lambakrullur er það auðvitað bara fyndið og ekki við hæfi að vera með einhver leiðindi.
Myndina tók ég í dag frammi í firði af fossi í Reyká.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2010 | 22:45
Vögguljóð
Nýlega rakst ég á þetta magnaða kvæði eftir vesturíslensku skáldkonuna Jakobínu Johnson. Fimm ára fluttist hún frá Íslandi vestur um haf, bjó fyrst í Kanada en síðan í Seattle í Bandaríkjunum þar sem hún lést árið 1977, komin á tíræðisaldur.
Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem leiðir mig.
Æ snertir þú við þyrni? - Hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
- en raunar ert það þú, sem huggar mig.
Þú spyrð um svarta skýið, sem skyggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem fræðir mig.
Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt og rótt og þín rósemd grípur mig,
- svo raunar ert það þú, sem hvílir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)