Færsluflokkur: Bloggar

Pínulítil ferðasaga

DSCN0018

Ég er nýkominn úr tæplega tveggja vikna ferð um Þýskaland.

Erindi mitt þangað var tvíþætt.

Annars vegar hjólaði ég með félögum mínum frá borginni Cottbus til Berlínar. Við fylgdum ánni Spree og lentum í alls konar hremmingum.

Þær hófust með því að fluginu út seinkaði um marga klukkutíma. Eyjafjallajökull sá til þess að við misstum fyrstu hótelnóttina úti. Við komum á hótelið um hádegisbil, ósofnir og órakaðir, og fengum að bregða okkur inn á klósett til að afklæðast ferðafötum en skrýðast hjólaklæðnaði.

Hann var ekki skorinn við nögl því það var skítakuldi.

Næstu daga skulfum við á hjólunum. Við fórum ekki inn á knæpur til að fá okkur einn kaldan heldur til að ná okkur í hita. Tennurnar glömruðu á bjórkrúsunum. Heilar sjö gráður voru þegar hitinn náði lágmarki. Þá rigndi á okkur í ofanálag.

Kuldinn virtist örva mývarg svæðisins til dáða. Sennilega hefur verið notalegt fyrir hann að komast í blóðheita Íslendinga. Einn daginn vorum við hreinlega étnir og nánast ekkert eftir nema íþróttaskórnir og farsímarnir.

Áfangastað náðum við þó og þrátt fyrir ýmsar hættur og harðræði höfðum við lúmskt gaman af öllu saman.

Því miður á ég engar myndir af þessum hluta ferðarinnar því vélin mín var étin af fluguflykki.

Enda verða myndavélarnar alltaf minni og minni en mýflugurnar stærri og stærri.

Hins vegar var ég í Þýskalandi hjá vinafólki í borginni Lueneburg.

Hún er rétt sunnan við Hamborg.

Ég hafði aldrei komið til Lueneborgar áður en varð ekki fyrir vonbrigðum. Hún er með fallegri borgum í Þýskalandi. Nánast óspjölluð af stríðinu og með einstaklega fallegan miðbæ.

Áin Ilmenau rennur í gegnum hana. Lueneborg er svo sannarlega heimsóknarinnar virði.

Myndin er þaðan. Ég útvegaði mér nýja og mýhelda myndavél í Hamborg.


Sérfræðingarnir tala - lömbin þagna

DSC_0398 

Íslensk þjóðareinkenni, ef til eru, eiga ekki upp á pallborðið nú til dags.

Íslendingar eru nánast óalandi og óferjandi, agalaus, rýtandi, lýður sem ekki hefur stjórn á neinu, hvorki gráðugum og óseðjandi bankamönnum né öskuspúandi og flugstoppandi eldfjöllum.

Eitt af því sem varð þess valdandi að hér fór allt á hausinn er sú ónáttúra Íslendinga að trúa ekki sérfræðingum og fyrirlíta alla fagmennsku.

Á þetta hafa sérfræðingar og fagmenn bent.

Íslendingar þurfa alltaf að vita allt best.

Samkvæmt þeirri kenningu eru íslenskir sérfræðingar og fagmenn verstir allra því þeir þurfa að vita enn betur en allir besservisserarnir í kringum þá.

Og svo trúir enginn neinum því allir vita betur.

Þannig er sá vítahringur.

Ég er nú samt ekki viss um að alltaf sé slæmt að taka orðum sérfræðinga með hæfilegum fyrirvörum.

Í tilvísaðri grein bendir Eiríkur Bergmann á að samkvæmt Skýrslunni sé tregðan við að trúa sérfræðingum ein af þeim þjóðarmeinsemdum sem til hrunsins leiddi.

En Skýrslan bendir líka á að ekki sé allt heilagur sannleikur þótt það komi frá sérfræðingum og fagmönnum.

Hún heldur því raunar fram að ein skýringin á Hruninu sé ákveðið gagnrýnisleysi á kenningar og skýrslur sérfræðinga.

Þar segir:

Fyrr á tímum herjuðu einkum pólitísk og trúarleg öfl á vísindamenn og reyndu að hafa áhrif á viðfangsefni fræðimanna og niðurstöður þeirra. Í nútímanum hafa tengsl efnahagslífs og háskólastarfs orðið meira áhyggjuefni, meðal annars vegna þess að mun erfiðara er að henda reiður á áhrifum á fræðimenn, ekki síst í andrúmslofti þar sem mikil viðskiptavild er ríkjandi. Það fer yfirleitt ekki á milli mála þegar valdið kemur að ofan, en það getur auðveldlega farið framhjá manni þegar það smýgur inn í formi styrkja eða kostunar og einstaklingar laga hegðun sína ósjálfrátt að því án þess að þurfa nokkurn tíma að lúta valdboði. Hér er því um að ræða áhrif af því tagi sem nefnd var sjálfsritskoðun hjá fjölmiðlamönnum.

Rannsóknarskýrslan nefnir tvær skýrslur, unnar af fræðimönnum og undir yfirskini fagmennsku, sem fegruðu stöðu íslensku bankanna stuttu áður en þeir fóru allir á hvínandi hausinn.

Önnur var unnin árið 2006 af þeim Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Frederic Mishkin, prófessor við Columbia-háskóla. Hin var verk þeirra Richard Portes, prófessors í alþjóðlegri þjóðhagfræði og alþjóðafjármálum við London Business School, og Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.

Framgöngu hins virta hagfræðiprófessors lýsir Skýrslan þannig:

Richard Portes tók þátt í viðskiptaráðstefnunni 11. mars 2008 í Kaupmannahöfn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings banka hf. Í frásögn RÚV af fundinum kemur fram að Portes sagði íslenska banka og íslenskan efnahag hafðan fyrir rangri sök hjá erlendum aðilum. Að mati Portes gætti fjandsamlegs viðmóts í garð íslenskra viðskiptamanna í Bretlandi, meðal annars vegna sögu ríkjanna. Óvönduð blaðamennska og níð keppinautanna hefði einnig sitt að segja. Portes gagnrýndi jafnframt matsfyrirtækin Moody's og Fitch fyrir óvönduð vinnubrögð. Þetta var liður í samhentum leiðangri stjórnmálamanna og bankamanna til þess að bæta ímynd íslensku bankanna erlendis og um tíma leit út fyrir að sú viðleitni bæri árangur: "Við nýjan tón kveður í erlendri umfjöllun," segir í Fréttablaðinu 27. mars 2008 og er sérstaklega vitnað til jákvæðrar umfjöllunar í Financial Times þar sem meðal annars er viðtal við Richard Portes. Þar segir Portes ekkert í rekstri eða aðstæðum íslenskra banka réttlæta skuldatryggingarálagið (CDS) sem þeir búa við. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNBC 25. mars 2008 sagði Portes síðan íslenska banka vera mjög vel rekin og heilbrigð fyrirtæki: "Þá sagði Portes, að margt hefði verið ofsagt um "íslenska bankavandamálið". Íslensku bankarnir væru traustir og vel reknir og stoðir þeirra væru mun traustari en margra þeirra norrænu banka, sem þeir væru bornir saman við og þeir ættu enga "eitraða pappíra"." Portes gekk því vasklega fram fyrir hönd íslensku bankanna á erlendum vettvangi og varði þá af hörku.

Þetta minnir okkur á að prófskírteinin eru ekki endilega rétti mælikvarðinn á það sem menn segja.

Við ættum kannski frekar að gefa því gaum hvað mennirnir segja?

Myndin: Vinsælasti myndatökustaðurinn á Akureyri er á kaupfélagshorninu. Þar stilla ferðamenn sér upp og taka myndir upp kirkjutröppurnar. Hér er þessu snúið við. Ég brá mér upp í turn og tók myndina út um skemmd á skífu kirkjuklukkunnar.


Vonleysið vonda

 

DSC_0341 

Lífið er meira en raunveruleikinn.

Hann nægir ekki. Tilveran er ekki bara það sem hún er. Hún er líka það sem hún gæti orðið.

Það heitir að vona.

Vonin í brjósti mínu segir mér að tilveran sé ekki í réttum skorðum.

Vonlaus maður á ekki um annað að ræða en að taka hlutunum eins og þeir eru.

Vonandi maður trúir að þeir gætu breyst.

Vonin gerir mig gagnrýninn. Vonandi skoða ég umhverfið og leita að því sem þarf að breytast.

Vonlaus maður tekur sér eins og hann er.

Vonandi maður hefur þörf fyrir að breytast. Hann efast um eigið ágæti. Vonandi vill hann verða skárri en hann er.

Ef allt er eins og það á að vera er engin ástæða til að vona neitt.

Þá er ekkert innan skamms eða bráðum.

Er ekki stórkostlegt að geta sagt:

„Vonandi!"

Myndin: Það sem í vændum er


Mútur, styrkir & laun

DSC_0289 

Munurinn á styrkjum og mútum getur verið óljós enda er algengt um veröld víða að telja mútur styrki.

Hér á landi er til dæmis helst aldrei talað um mútur nema þegar unglingspiltar fara í þær.

Þess vegna er af og frá að segja að íslenskir stjórnmálamenn séu mútuþægir.

Þeir eru styrkþægir.

Þeir sem telja það fyrirkomulag eðlilegt að fyrirtæki beri fjármuni á stjórnmálamenn benda á að ekki sé hægt að sjá að „styrkirnir" hafi komið „styrkveitendum" til góða.

„Styrkþægnin" sjáist ekki í málsmeðferð „styrkþeganna".

Í umræðunni um eignarhald á fjölmiðlum hefur verið gripið til svipaðra raka.

Því hefur verið haldið fram að ekkert sé að því þótt örfáir einstaklingar eigi megnið af íslenskum fjölmiðlum. Ekki verði séð að fjölmiðlunum sé beitt eigendunum í hag.

Hér á landi er ástandið reyndar svo geggjað að fjölmiðlafólkið, sem svo harðlega gagnrýnir stjórnmálamenn fyrir að þiggja „styrki", er á launum hjá þeim sem veita stjórnmálamömnnunum hina umdeildu „styrki".

Styrkveitandinn hættir ekki að vera tortryggilegur þótt hann verði „launagreiðandi".

Munurinn á launum og mútum getur líka verið óljós.

Myndin: Vorbragur á Akureyri

 


Siðgæði og önnur bannorð

DSC_0353 

Tíðni leghálskrabbameins eykst hratt á Íslandi. Ein orsök þess er talin vera aukin útbreiðsla svokallaðra HPV-kynfæravartna.

Þróunin er uggvænleg. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í gær. Heilbrigðisráðherra var mætt í viðtal í morgunútvarp Rásar tvö og fjallaði um það.

Umfjöllun útvarpsins beindist einkum að bólusetningu gegn HPV-veirunni. Hún mun kosta 90.000 krónur. Útvarpsmenn voru mjög uppteknir af þeirri kenningu að dætur lækna fengju þessar bólusetningar í stórum stíl.

Bæði í grein Fréttablaðsins og hjá heilbrigðisráðherra kom fram að rakstur á kynfærum yki líkurnar á HPV-smiti.

Var ekki hægt að skilja ráðherrann á annan veg en að hún mælti síður með snoðuðum kynfærum.

Ekki heyrði ég ráðherrann gera það að sérstöku umtalsefni að fjöldi bólfélaga skiptir líka máli um líkurnar á smiti.

Í Fréttablaðinu hefur Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands, þetta að segja um þá hlið málsins:

Til dæmis ef stúlka hefur mök við strák sem hefur sofið hjá tuttugu stelpum, þá tengist hún allri kynfæraveirusögu hans. Og ef ein af hans fyrrverandi hjásvæfum er búin að sofa hjá fjölda manna þá berst saga hennar með kynfærum stráksins og líkur á smiti eru verulegar.

Varnirnar gegn þessum ófögnuði, vörtunum og leghálskrabbameininu, felast ekki bara í bólusetningum og öðrum tæknilegum úrræðum, eins og þeim að hlífa kynfærum sínum við raksápu eða forðast að bera að þeim flugbeitt eggvopn.

Dyggðugt og siðsamlegt líferni skiptir líka máli.

Fyrirsögnin á grein Fréttablaðsins er þessi:

Ungir Íslendingar eiga Norðurlandamet í fjölda rekkjunauta

Lauslæti íslensku þjóðarinnar er hluti vandans.

En á það má auðvitað helst ekki minnast.

Því miður er ástandið á Íslandi ennþá þannig að þar eru hugtökin „siðgæði" og „dyggðir" hálfgerð tabú.

Enda komu þau hvorki fyrir í grein Fréttablaðsins né í umfjöllun morgunútvarpsins.

En til gamans má geta þess að á forsíðu þessa sama Fréttablaðs var þessi fyrirsögn:

Forseta settar siðareglur

Svona til að taka af allan vafa um að Íslendingar ætli svo sannarlega að taka sig á í siðgæðinu. 

Myndin er af splunkunýjum köngli inni í Kjarna


Von og vor

DSC_0287 

Í Skýrslunni fóru „manns verstu grunsemdir fram úr manns bestu vonum" eins og kallinn sagði.

Það er að koma í ljós að áramótaskaupið 2009 var hættulega nálægt því að vera innlendur fréttaannáll ársins 2009.

Ísland er í höndum glæpagengja og eiturlyfjabaróna.

Hin andstyggilega græðgis- og fíkniefnamafía náði ekki bara yfirráðum í viðskiptalífinu. Hún keypti stjórnmálamenn og flokka. Hún kom sér fyrir á menningarsviðinu. Hún eignaðist fjölmiðla.

Allt lagði hún undir sig. Margar æðstu og virðulegustu stofnanir landsins sitja eftir svívirtar og rúnar trausti.

Og sterkur er hrammurinn sem þjóðin þarf að losa sig úr.

Íslenska þjóðin á fátt eftir nema vonina.

En við skulum ekki vanmeta vonina.

Von getur orðið gott bensín á umbreytingamótorinn.

Þó að erfitt hafi verið að bíða eftir Skýrslunni var að mörgu leyti við hæfi að birta hana í vorbyrjun.

Vonin og vorið eiga margt sameiginlegt. Nærtækast er að á orðunum „von" og „vor" munar ekki nema einum staf.

Sá sem glímir við erfiðleika án vonar hefur ekkert nema erfiðleikana.

En um leið og fyrsti vonarneistinn kviknar er það um leið fyrsta litla vísbendingin um að erfiðleikarnir gætu einhvern tíma verið að baki.

Sá sem á von er ekki lengur bara með erfiðleikana. Hann á líka von um að þeir líði hjá.

Vonin er skrefið milli tveggja tíma; þess gamla sem við viljum kveðja og þess nýja sem við viljum heilsa.

Áramótaskaupið 2009 var frábært. Lokaatriðið var helgað voninni.

Ég vona að endirinn á áramótaskaupinu 2009 gefi tóninn um innlendan fréttaannál ársins 2010.

Myndina tók ég á sumardaginn fyrsta af glæsilegum Mústang fyrir framan Laxdalshús, elsta hús Akureyrar. Þrátt fyrir mikinn aldursmun teljast bæði hús og bíll til fornmuna.


Mótmælum mótmælt

DSC_0270 

Nú mótmæla margir mótmælum - þeim sem fara fram við heimili fólks.

Enginn kærir sig um mótmælaaðgerðir við heimili sitt.

Af þeim er ónæði.

Þó má benda á að hér á landi þykir sjálfsagt að hylla fólk við heimili þess.

Til dæmis hefur verið farið í fjölmennar skrúðgöngur að heimilum góðskálda með blysum, háværum húrrahrópum og jafnvel heilu lúðrasveitunum.

Fluttar hafa verið upphafnar þakkar- og hyllingarræður með aðstoð gjallarhorna og hljóðkerfa.

Stundum hafa þessar samkomur átt sér stað eldsnemma morguns.

Enginn hefur kvartað yfir svoleiðis samkomum þótt alsaklausir nágrannar hafi verið vaktir upp af værum svefni.

Þær hafa þótt heldur til fyrirmyndar.

Og ef má hylla menn við heimili þeirra vegna verka þeirra af hverju má þá ekki mótmæla gerðum þeirra þar?

En þótt flestum þætti sjálfsagt bara gott fyrir egóið að fá góða hyllingu í morgungjöf er ég ekki viss um að menn kærðu sig um slíkt marga morgna í röð.

Ef menn tækju upp á því að hylla einhvern marga morgna í röð ber það ekki vott um mikla tillitssemi við annað heimilisfólk eða nágranna.

Og má ekki segja það sama um mótmæli - þótt ég leyfi mér að mótmæla þeim pínulítið sem mótmæla mótmælunum.

Myndin: Á göngu okkar félaga sumardaginn fyrsta varð þessi litli hvirfilvindur á leið okkar. Við stoppuðum til að heilsa upp á hann. Hann lék við okkur smástund en var síðan horfinn enda hefur hann ábyggilega haft öðrum hnöppum að hneppa.


Disastrous consequences

DSC_0778 

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með viðbrögðunum við nýlegum Kötlugossummælum forseta Íslands í BBC.

Menn hneyksluðust á þeim og sögðu forsetann gera alltof mikið úr Kötluvánni. Hann fældi ferðamenn frá landinu.

En í stað þess að ræða ummæli forsetans í þessu rúmlega mínútu langa viðtali, skýra það sem ef til vill hefði mátt orða betur og leggja áherslu á það jákvæða, sýnist mér að menn hafi reynt að gera sem mest úr því neikvæða.

Það er til dæmis gert í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Hann hefst á þessum orðum:

Fleyg ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um íslenzka viðskiptaundrið rifjuðust upp þegar hann lýsti því yfir við brezka ríkissjónvarpið, BBC, að gosið í Eyjafjallajökli væri nú bara smáæfing fyrir Kötlugos, sem ekki væri spurning hvort heldur hvenær brytist út, með hrikalegum afleiðingum fyrir Ísland og heimsbyggðina.

Ekki minntist ég þess að forsetinn hefði talað um hrikalegar afleiðingar gossins fyrir Ísland og heimsbyggðina, eins og ritstjórinn staðhæfir að hann hafi gert, svo ég hlustaði enn einu sinni á viðtalið fræga og beið eftir að heyra hann tala um hrikalegar afleiðingar fyrir heimsbyggðina - eða „disastrous consequences".

Ekki bar sú bið árangur.

Forsetanum eru því lögð orð í munn í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Kannski í þeirri von að viðtalið megi hafa sem hrikalegastar afleiðingar?

Leiðarahöfundur kýs líka að minnast ekki á að forsetinn gat þess í viðtalinu að hér á landi hafa lengi verið til áætlanir um viðbrögð við Kötlugosi.

Ritstjórinn sleppir því - en af einskærri umhyggju fyrir ferðamannabransanum á Íslandi lætur hann koma fram að þegar sé „tekið að bera á afbókunum, talsvert fram í tímann".

Í öðru blaði er talað um næturneyðarfundi auk afbókananna og þess getið að fyrirspurnum frá vísindastofnunum hafi rignt inn til almannavarna ríksins vegna ummæla forsetans.

Eins og það þurfi endilega að vera slæmt að vísindastofnanir í Evrópu beini spurningum til íslenskra yfirvalda - eftir að íslenskt eldfjall hefur stöðvað helstu samgönguæðar álfunnar í hartnær eina viku.

Geta þessar fyrirspurnir ekki verið gott tækifæri til að leiðrétta misskilning varðandi íslensku eldfjöllin?

Og árétta það sem fram kom í hinu fræga viðtali við forsetann, að Kötlugos muni ekki koma Íslendingum í opna skjöldu.

Því er haldið fram að forseti Íslands hafi dramatíserað hættuna af Kötlugosi.

En ef til vill hafa menn ekki síður dramatíserað viðtalið?

Á Íslandi verða Kötlugos stórpólítísk - meira að segja áður en þau verða.

Með þessari snjóamynd úr garðinum mínum þakka ég lesendum mínum fyrir samfylgdina í vetur.


Hinir blindu íslensku fjölmiðlar

DSC_0649 

Samkvæmt Skýrslunni góðu brugðust margir í Hruninu vonda.

Fáir þeirra sem brugðust viðurkenna það.

Í skýrslunni kemur fram að íslenskir fjölmiðlar hafi verið meðal þeirra brotlegu.

Fyrrverandi varafréttastjóri Sjónvarpsins skrifar grein í Moggann í dag.

Þar harðneitar hann sök fjölmiðla.

Varafréttastjórinn neitar því að vísu ekki að fjölmiðlar hafi brugðist með því að veita ekki nógu mikið aðhald.

Ég sé ekki betur en að hann neiti því að fjölmiðlar eigi að veita aðhald.

Samkvæmt honum eiga fjölmiðlar bara að birta fréttir. Þeir eiga að taka það sem að þeim er rétt. Þeir eiga ekki að kanna hvort fótur sé fyrir því.

Varafréttastjórinn líkir þeim sem halda því fram að fjölmiðlar eigi að kanna sannleiksgildi frétta við Spaugstofuna, Baggalút, Jón Gnarr eða „aðra snillinga" eins og hann orðar það.

Hann segir það hlutverk fréttamiðla að segja fréttir og reyna að forðast hlutdrægni og pólitíska afstöðu.

Skiptir þá engu máli hvort fréttirnar séu sannar eða lognar?

Eiga fjölmiðlar sem sé ekki að vera gagnrýnir?

Eftir lestur greinarinnar staðfestist ég í þeirri trú að hinir gagnrýnislausu og ófaglegu íslensku fjölmiðlar eigi sinn stóra þátt í því að hagkerfið hrundi.

Íslenskir fjölmiðlar áttu að veita spilltum stjórnmálamönnum og siðlausum viðskiptamönnum aðhald með því að fjalla um þá á gagnrýninn hátt.

Aðhald fjölmiðla felst meðal annars í því að leita sannleikans.

En litlar líkur eru á því að menn kunni að fara með völd sem ekki vilja kannast við að þeir hafi þau.

Myndin er úr Ólafsfjarðarmúla. Við horfum inn Eyjafjörð, sjáum Hrísey og inn á Dalvíkina.


Hin stóru verk

Bundesarchiv_Bild_183-1982-1130-502,_Nürnberg,_Reichsparteitag,_Lichtdom[1]

Í Fréttablaði dagsins er fjallað um glataða snillinga. Þar eru skoðuð ummæli manna úr Skýrslunni og þetta haft eftir Hreiðari Má Sigurðssyni, Kaupþingsstjóra:

Það er nú eitt sem maður saknar svolítið, mér finnst að við hefðum getað gert meira, við Íslendingar, á þessu blómaskeiði okkar. Það ætti að liggja meira eftir okkur, stór verk.

Ég hef verið að lesa ævisögu Alberts Speer, sem var arkitekt Hitlers og hergagnaráðherra. Bókina ritaði blaðakonan Gitta Sereny. Sagan er snilldarverk og heitir Albert Speer: His Battle with Truth (ISBN 978-0-330-34697-9)

Eftir Nuernberg-réttarhöldin var Speer í fangelsi allt til ársins 1966.

Í bókinni er stórmerkileg saga af dvölum sem Speer átti í Benediktínaklaustri í Þýskalandi. Þar dvaldi hann reglulega um tíma eftir að hann losnaði úr fangelsi. Ekki lét hann mikið fyrir sér fara en fékk að taka þátt í tíðagerðum munkanna.

Einu sinni spurði ábótinn, faðir Aþanasíus, hinn mikla arkitekt að því hvert væri hans uppáhaldsverk, eða eins og Aþanasíus segir frá í bókinni:

I asked him once, after his architecture book came out, full of all these monumental buildings, all that splendour, you know, what he liked most about his architecture.

Speer var afkastamikill arkitekt og enda þótt verk hans hafi að stórum hluta eyðilagst í stríðinu er hann einn frægari arkitekta síðustu aldar.

Meðal verka hans voru nýja ríkiskanselíið, sem Speer reisti á einu ári fyrir foringja sinn, og þýska höllin á heimssýningunni í París 1937. Hann hannaði fjöldafundasvæði og tilkomumiklar skrautsýningar nasista. Speer skipulagði nýja Berlín, Germaníu, fyrir Hitler, þar sem meðal annars átti að rísa hin tröllvaxna Þjóðarhöll (Brandenburgarhliðið er við hliðina á henni til að sýna stærðina).

Speer svaraði bróður Aþanasíusi ekki með því að minnast á eitthvert ofangreindra mannvirkja heldur sagði:

It was a chair I designed; a beautiful - I thought - ultra-plain chair. I was proud of that. I loved it.

Myndin að ofan sýnir eina skrautsýningu nasista sem Speer hannaði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband